Aðrar útgáfur af skjalinu: PDF - Word Perfect. Ferill 4. máls.
140. löggjafarþing 2011–2012.
Þingskjal 552  —  4. mál.

Síðari umræða.


Nefndarálit



um tillögu til þingsályktunar um staðgöngumæðrun

Frá 1. minni hluta velferðarnefndar.


    Á síðasta þingi var lögð fram tillaga til þingsályktunar um að skipaður yrði starfshópur til að undirbúa frumvarp til laga sem heimili staðgöngumæðrun í velgjörðarskyni. Tillagan er nú endurflutt nokkuð breytt. Það er álit þeirra sérfræðinga sem komið hafa á fund velferðarnefndar að tillagan nú sé betur undirbúin en sú fyrri, sérstaklega hvað varðar það að tryggja rétt, sjálfræði og velferð staðgöngumóðurinnar. Það breytir því þó ekki að 1. minni hluti getur ekki lýst yfir stuðningi við málið. Tillagan snýst um að samið verði frumvarp sem heimili staðgöngumæðrun og það getur 1. minni hluti ekki stutt að svo komnu máli.
    Í greinargerð með tillögunni er talinn upp fjöldi atriða sem hafa þarf í huga við vinnu starfshópsins. 1. minni hluti tekur heilshugar undir að kanna þurfi og rannsaka allt sem þar er talið upp. Í kjölfarið þarf ítarleg og almenn umræða að fara fram um þessi mörgu og mikilvægu atriði áður en ráðist verður í frumvarpsgerð. Rétt er að minna á að snemma árs 2009 skipaði þáverandi heilbrigðisráðherra, Guðlaugur Þ. Þórðarson, vinnuhóp til að skoða siðfræðileg, lögfræðileg og læknisfræðileg álitaefni varðandi staðgöngumæðrun. Sá hópur skilaði áfangaskýrslu í mars 2010 og í kjölfarið var haldið málþing um efnið. Niðurstaða vinnuhópsins, sem skilað var 7. júní 2010, var sú að ekki væri tímabært að heimila staðgöngumæðrun að svo stöddu. Ekki er sjáanlegt að neinar breytingar hafi orðið á þeim átján mánuðum sem síðan eru liðnir sem gefa ástæðu til samþykkja að samið verði frumvarp sem heimilar staðgöngumæðrun. Það má spyrja til hvers settir eru upp vinnuhópar ef ekki á að hlusta á niðurstöðu þeirra.
    1. minni hluti bendir jafnframt á að á síðasta þingi var mikill meiri hluti umsagnaraðila á móti því að staðgöngumæðrun í velgjörðarskyni yrði heimiluð, taldi það ekki tímabært eða varaði við því að það skref yrði stigið að heimila hana. Hið sama er uppi á teningnum nú en tíu af þrettán umsagnaraðilum voru á því máli. Aðrir umsagnaraðilar veltu flestir upp brýnum og erfiðum siðferðislegum spurningum og tóku almennt ekki beina afstöðu með málinu.
    1. minni hluti telur nokkur atriði sem vega þyngra en önnur valda því að hann styður ekki niðurstöðu meiri hluta velferðarnefndar:
     *      Gerð frumvarps er fyrsta skrefið að því að heimila staðgöngumæðrun, ótal spurningum er enn ósvarað áður en tímabært er að ráðast í það verk. Þetta er augljóst af greinargerð með tillögunni þar sem tiltekin eru fjórtán mikilvæg atriði sem kanna þurfi hvernig eigi að fara með við samningu frumvarps. Áður en ráðist verður í þá vinnu telur 1. minni hluti að leita eigi svara við þessum álitamálum og kalla jafnframt eftir umræðum um þau og jafnvel fleiri álitamál.
     *      Enn er því ósvarað hvernig best verði komið í veg fyrir staðgöngumæðrun í hagnaðarskyni og hvernig megi tryggja að um velgjörð sé að ræða. Þetta er eitt þeirra atriða sem í greinargerð með þingsályktunartillögunni er sagt að huga þurfi að við frumvarpsgerð. Það er einfaldlega ekki nóg. Þetta atriði þarf að ræða opinskátt. Er nóg að sæðing, meðganga og fæðing verði öll innan opinbers heilbrigðiskerfis? Þekkt er frá öðrum ríkjum sem ekki leyfa staðgöngumæðrun í hagnaðarskyni, t.d. Bretlandi, að staðgöngumóður sé greitt fyrir „útlagðan kostnað“. Hvað verður ef hún missir daga úr vinnu sem ekki verða taldir til veikindadaga, hver á eða má greiða slíkt vinnutap? Meðganga er ekki áhættulaus og því þarf að vera skýrt hver ber kostnaðinn ef staðgöngumóðirin verður fyrir varanlegu heilsutjóni. Þetta eru dæmi um tvær af mörgum spurningum og óvissuatriðum sem vakna. Þeim og mörgum öðrum þarf að svara áður en ákvörðun er tekin um framhaldið.
     *      Lagarammi um staðgöngumæðrun á Íslandi mun ekki koma í veg fyrir að staðgöngumæðrun í hagnaðarskyni verði leyfð í öðrum löndum. Lagarammi af þessari tegund mun heldur ekki koma í veg fyrir að Íslendingar sækist eftir staðgöngumæðrun í þessum löndum. Aftur má taka dæmi frá Bretlandi þar sem dómskerfið glímir einmitt við þennan vanda.
     *      Það eru ekki rök í málinu að staðgöngumæðrun tíðkist nú þegar á Íslandi. Í gegnum aldirnar hafa börn verið gefin á Íslandi. Konur hafa gefið systrum og mágkonum börnin sín. Vinnukonur eignuðust börn með húsbændum, var það óheppni, ást eða kannski staðgöngumæðrun? Það tíðkast margt þótt það sé ekki leyft og jafnvel bannað en ekki er þar með sagt að leiða eigi það allt í lög.
     *      Þröngur lagarammi sem einungis leyfir staðgöngumæðrun af heilsufarsástæðum mun ekki halda. Rætt hefur verið að heimila staðgöngumæðrun einungis í þeim tilfellum þegar konur hafa ekki leg, hvort heldur þær hafa fæðst þannig eða misst það á lífsleiðinni. Slíkur rammi mun ekki halda og ef staðgöngumæðrun verður leyfð fyrir þröngt afmarkaðan hóp munu aðrir þrýsta á að njóta sömu réttinda. Margar konur geta ekki eignast börn vegna annarra sjúkdóma, t.d. hjartasjúkdóma. Hvernig er ætlunin að svara því þegar þær óska eftir sömu réttindum á grundvelli jafnræðissjónarmiða? Einnig hlýtur að vakna spurningin um hvers vegna hommar ættu ekki að geta eignast börn ef staðgöngumæðrun verður leyfð. Lesbísk pör geta og mega nú þegar eignast börn hér á landi. Til þessara jafnræðissjónarmiða hlýtur líka að verða að líta.

    Hér hefur verið tæpt á nokkrum álitamálum sem verður að gaumgæfa og ræða áður en samþykkt verður að hefja vinnu við frumvarp um staðgöngumæðrun sem leggja skal fyrir Alþingi. Vakin er athygli á að í þessu áliti er hvorki minnst á rétt staðgöngumóðurinnar né barnsins. Mikið er talað um þessi atriði í áliti meiri hluta velferðarnefndar og tekur 1. minni hlutinn undir allt sem þar er sagt og leggur áherslu á að liggja þurfi fyrir hvernig réttur þeirra verði tryggður áður en lengra er haldið.
    Birgitta Jónsdóttir, áheyrnarfulltrúi í velferðarnefnd, er samþykk áliti þessu.

Alþingi, 14. des. 2011.



Valgerður Bjarnadóttir.