Aðrar útgáfur af skjalinu: PDF - Word Perfect. Ferill 208. máls.
140. löggjafarþing 2011–2012.
Þingskjal 646  —  208. mál.
Svarefnahags- og viðskiptaráðherra (ÁPÁ) við fyrirspurn Lilju Mósesdóttur
um uppskiptingu eigna gömlu bankanna.


    Ráðuneytið óskaði eftir því að Fjármálaeftirlitið tæki saman svör við fyrirspurninni og svör þess fylgja hér á eftir. Í upphafi svarbréfs síns tekur Fjármálaeftirlitið fram að stofnunin leitist við að svara spurningunum eftir því sem upplýsingar sem hún býr yfir gefa færi á. Þá tekur stofnunin fram að í einhverjum tilvikum sé um að ræða málefni sem ekki er á forræði stofnunarinnar að skera úr um eða hafa umsjón með og vísar stofnunin þar sérstaklega til lokaspurningarinnar.

     1.      Voru endanlegar ákvarðanir um yfirfærslu eigna frá gömlu bönkunum þremur til hinna nýju í kjölfar yfirtöku Fjármálaeftirlitsins í október 2008 teknar án fyrirvara? Ef ekki, hverjir voru þeir fyrirvarar?
    Nei. Í ákvörðunum Fjármálaeftirlitsins segir:
    „Ákvörðun þessi byggir á fyrirliggjandi upplýsingum og gögnum. Reynist hún byggð á ófullnægjandi eða röngum upplýsingum um málsatvik, forsendur ákvörðunarinnar bregðast verulega eða Fjármálaeftirlitið telur að önnur skipan mála sé nauðsynleg getur Fjármálaeftirlitið gert hvers konar breytingar á ákvörðun þessari, þ.m.t. að fella hana úr gildi í heild eða að hluta.“
    Fjármálaeftirlitið bendir á að allar ákvarðanir stofnunarinnar um ráðstöfun eigna og skulda fjármálafyrirtækja á grundvelli 100. gr. a í lögum um fjármálafyrirtæki, nr. 161/2002, sbr. 5. gr. laga um heimild til fjárveitingar úr ríkissjóði vegna sérstakra aðstæðna á fjármálamarkaði o.fl., nr. 125/2008, sbr. nú ákvæði til bráðabirgða VI í lögum um fjármálafyrirtæki, nr. 161/2002, eru birtar á heimasíðu stofnunarinnar, www.fme.is, og eru því opinber gögn.

     2.      Voru veðsett útlán og útlán sem heyrðu undir reglur um sértryggð skuldabréf flutt yfir í nýju bankana öndvert við það sem staðlaðar forsendur Fjármálaeftirlitsins gerðu ráð fyrir eins og þeim er lýst í skýrslu fjármálaráðherra um endurreisn viðskiptabankanna? Ef ekki, á forræði hvers eru lánin og hafa verið?
    Hvað þetta atriði varðar er á það bent að samkvæmt ákvörðunum Fjármálaeftirlitsins var tilteknum eignum og skuldum gömlu bankanna ráðstafað til nýrra banka haustið 2008. Þær eignir og skuldir sem ekki var ráðstafað til nýju bankanna liggja enn hjá gömlu bönkunum og eru á forrræði þeirra. Upplýsingar um hvaða eignum og skuldum var ráðstafað til nýju bankanna er að finna í ákvörðunum Fjármálaeftirlitsins og í forsendum fyrir skiptingu efnahagsreiknings bankanna. Umrædd gögn eru birt á heimasíðu stofnunarinnar. Hafa ber í huga að sértryggð skuldabréf í skilningi núgildandi laga, nr. 11/2008, voru ekki til staðar haustið 2008.

     3.      Hafa nýju bankarnir með hliðsjón af reglum skuldabréfa- og kröfuréttarins formlega löglega heimild til að innheimta umrædd lán? Ef ekki, er skuldurum þá heimilt að synja þeim um greiðslu lánanna?
    Fjármálaeftirlitið bendir á að með ákvörðunum stofnunarinnar í október 2008 voru tilteknar eignir og skuldir gömlu bankanna fluttar yfir til hinna nýju banka á grundvelli sérstakrar heimildar í 100. gr. a laga nr. 161/2002, um fjármálafyrirtæki, sbr. 5. gr. laga nr. 125/2008, um heimild til fjárveitingar úr ríkissjóði vegna sérstakra aðstæðna á fjármálamarkaði o.fl., sbr. nú ákvæði til bráðabirgða VI í lögum um fjármálafyrirtæki, nr. 161/2002. Í framhaldinu fór fram uppgjör þar sem mismunur á virði eigna og skulda var greiddur með útgáfu fjármálagernings.

     4.      Hefur yfirlýsingu Fjármálaeftirlitsins um uppskiptingu eigna gömlu og nýju bankanna verið þinglýst á fasteignir sem standa til tryggingar umræddum lánum? Ef svo er, hverjar eru ástæður þinglýsingar og hvaða þýðingu hefur hún?
     5.      Hefur yfirfærsla eigna frá gömlu bönkunum til hinna nýju leitt til mótbárumissis skuldara og réttindamissis þriðja aðila? Ef svo er, í hvaða tilvikum?
    Ekki bárust svör við 4. og 5. lið fyrirspurnarinnar frá Fjármálaeftirlitinu, sbr. það sem segir í upphafi þessa svars.
    Í svari við fyrirspurn þingmannsins um yfirfærslu lánasamninga frá gömlu fjármálafyrirtækjunum, í 64. máli, hefur þegar verið svarað fyrirspurn um þinglýsingar og rétt lántaka gagnvart fjármálafyrirtækjum sem yfirtekið hafa lánasamninga. Í svarinu kemur m.a. fram að í ákvörðunum Fjármálaeftirlitsins eru taldir upp þeir aðilar sem falið var að skrá eða yfirfæra réttindi og/eða eignarheimildir til nýju bankanna, m.a. þinglýsingarstjórar samkvæmt ákvæðum þinglýsingalaga, nr. 39/1978.
    Þá kemur einnig fram í svarinu að í ákvörðunum Fjármálaeftirlitsins sé kveðið á um að greiðslustaða skuldaskjala skuli miðast við það tímamark þegar hinn nýi banki tók yfir starfsemina og að greiðslustaður skuldaskjala teljist vera hjá samsvarandi útibúi nýja bankans. Þá er tekið fram að víxlar teljist rétt sýndir til greiðslu hjá nýja bankanum. Með vísan til þessa hafa ákvarðanir Fjármálaeftirlitsins ekki áhrif á heimildir skuldara til að bera fyrir sig mótbárur og réttindi þriðja aðila, sbr. og almennar reglur samninga- og kröfuréttar. Þessir aðilar eiga því sama rétt gagnvart nýju bönkunum og þeim gömlu.