Framkvæmd þingsályktunarinnar
Aðrar útgáfur af skjalinu: PDF - Word Perfect. Ferill 440. máls.
Þingskjal 682 — 440. mál.
Alþingi ályktar, sbr. ákvæði til bráðabirgða XIII í lögum um málefni fatlaðs fólks, nr. 59/1992, sbr. lög nr. 152/2010, að samþykkja eftirfarandi framkvæmdaáætlun í málefnum fatlaðs fólks fyrir árin 2012–2014.
Framkvæmdaáætlunin taki mið af samningi Sameinuðu þjóðanna um réttindi fatlaðs fólks auk annarra alþjóðlegra mannréttindasáttmála sem Ísland er aðili að. Lögð verði áhersla á jafnrétti og bann við mismunun á grundvelli fötlunar og viðurkennt að fötlun sé hugtak sem þróast og breytist og að fötlun verði til í samspili einstaklinga sem eru með skerðingar, umhverfis og viðhorfa sem hindri fulla og virka samfélagsþátttöku til jafns við aðra.
I. Stefna í málaflokki fatlaðs fólks 2012–2020.
Íslenskt samfélag byggist á virðingu fyrir fjölbreytileika og viðurkenningu á fötluðu fólki sem hluta af mannlegum margbreytileika og mannlegu eðli.
Tryggt verði að fatlað fólk njóti allra mannréttinda og mannfrelsis til fulls og jafns við aðra, því sé tryggð vernd og frelsi til að njóta þeirra réttinda og að virðing sé borin fyrir mannlegri reisn þess.
Fötluðu fólki verði tryggt jafnrétti og sambærileg lífskjör á við aðra þjóðfélagsþegna og sköpuð skilyrði til eðlilegs lífs. Í því skyni verði barist gegn fátækt og félagslegri útskúfun. Fatlað fólk hafi sama rétt og aðrir íbúar landsins til að halda mannlegri reisn og njóta sjálfræðis, jafnréttis og samstöðu. Með því njóti fatlað fólk góðs af öllum almennum aðgerðum stjórnvalda sem eiga að stuðla að jöfnuði, svo sem á sviði húsnæðis-, mennta-, trygginga- og atvinnumála.
Stefna í málefnum fatlaðs fólks taki mið af alþjóðlegum skuldbindingum sem íslensk stjórnvöld hafa gengist undir, einkum samningi Sameinuðu þjóðanna um réttindi fatlaðs fólks. Fatlað fólk komi að stefnumótun og ákvarðanatöku í eigin málum.
Tryggt verði að samtök fatlaðs fólks og aðildarfélög þeirra hafi áhrif á stefnumörkun og ákvarðanir er varða málefni þeirra. Velferðarráðuneytið beri ábyrgð á öflun upplýsinga um þjónustu við fatlað fólk frá sveitarfélögum og því að samhæfðir árangursmælikvarðar á grundvelli laga, stefnu í málefnum fatlaðs fólks og samnings Sameinuðu þjóðanna um réttindi fatlaðs fólks verði skilgreindir svo unnt sé að vakta þjónustuna og meta árangur með tilliti til jafnræðis og mannréttinda.
Þeir sem búa við fötlun njóti virðingar jafnt og aðrir og eigi kost á stuðningi til sjálfstæðis og lífsgæða sem stuðla að því að þeir fái notið sín sem fullgildir þegnar samfélagsins á forsendum eigin getu og styrkleika.
Fatlað fólk njóti jafnréttis og sambærilegra lífskjara á við aðra þjóðfélagsþegna og búi við skilyrði til þess að lifa eðlilegu lífi, jafnt börn sem fullorðnir.
II. Framkvæmdaáætlun í málaflokki fatlaðs fólks 2012–2014.
Framkvæmdaáætlun sem byggist á stefnu í málaflokki fatlaðs fólka nái til þriggja ára, 2012–2014, með hliðsjón af ákvæði til bráðabirgða XII í lögum um málefni fatlaðs fólks en í þeim segir að heildarendurskoðun laganna með hliðsjón af endurskoðun laga um félagsþjónustu sveitarfélaga, nr. 40/1991, skuli lokið í árslok 2014. Þá skal einnig hafa farið fram endurmat á stöðu málaflokksins eftir yfirfærslu hans frá ríki til sveitarfélaga.
Velferðarráðuneytið hafi heildarumsjón með framkvæmd áætlunarinnar og einnig umsjón með tilteknum aðgerðum, en önnur ráðuneyti, þjónustusvæði, sveitarfélög og eftir atvikum aðrir aðilar beri ábyrgð á öðrum einstökum aðgerðum og leggi mat á þær í samræmi við mælikvarða sem tilgreindir verði innan hverrar aðgerðar. Víðtækt samstarf verði haft við notendur, hagsmunaaðila og atvinnulíf um framkvæmd stefnunnar til að þekking og reynsla nýtist sem best.
Framkvæmdaáætlunin skiptist í átta málasvið og innan hvers þeirra verði þrjú til átta verkefni með skilgreindu markmiði:
A. Aðgengi.
Alþingi ályktar að gott aðgengi sé eitt af lykilhugtökum þegar rætt er um jafnrétti og jafna stöðu allra í samfélaginu, sama hvort átt er við mannvirki, aðgang að upplýsingum eða möguleika til tjáskipta.
B. Atvinna.
Alþingi ályktar að starf á vinnumarkaði stuðli að fjárhagslegu sjálfstæði einstaklings, styðji við persónulegan þroska og vinni gegn fátækt.
C. Félagsleg vernd/sjálfstætt líf.
Alþingi ályktar að fötluðu fólki skuli tryggt jafnrétti og sambærileg lífskjör á við aðra þjóðfélagsþegna og sköpuð skilyrði til eðlilegs lífs. Barist verði gegn fátækt og félagslegri útskúfun fatlaðs fólks.
D. Heilbrigði.
Alþingi ályktar að fatlað fólk, börn og fullorðnir, skuli eiga rétt á bestu fáanlegri heilbrigðisþjónustu sem er fyrirbyggjandi og sérhæfð þegar við á. Fatlað fólk skuli hafa sama aðgengi og aðrir íbúar að heilbrigðisþjónustu.
E. Ímynd og fræðsla.
Alþingi ályktar að auka þurfi þekkingu og almenna vitund um málefni tengd fötlun og stöðu fatlaðs fólks í samfélaginu. Þetta sé best gert með því að fatlað fólk verði sýnilegt í samfélaginu, svo sem í menntastofnunum, fjölmiðlum og á vinnustöðum.
F. Jafnrétti.
Alþingi ályktar að þar sem margvíslegar hindranir í umhverfinu og samfélagsgerðinni standi í vegi fyrir því að fatlað fólk öðlist jafnrétti á Íslandi og margt fatlað fólk upplifi fordóma og þekkingarleysi vegna fötlunar sinnar, og geti auk þess glímt við fleiri en eina tegund mismununar, svo sem vegna aldurs, kynferðis, uppruna eða kynhneigðar, verði brugðist við af fullri alvöru, meðal annars með því að fara að alþjóðlegum mannréttindasamningum sem Ísland hefur undirritað og aðlaga bæði íslenska löggjöf og framkvæmd í þessu skyni.
G. Menntun.
Alþingi ályktar að fatlað fólk skuli njóta jafnréttis til náms í raun og eiga kost á að velja um fjölbreyttar námsleiðir eftir áhugasviði og getu.
H. Þátttaka.
Alþingi ályktar að fatlað fólk skuli eiga þess kost að taka fullan þátt í félagslegu og efnahagslegu starfi samfélagsins. Það skuli eiga þess kost að nýta borgaralegan rétt sinn, eiga val um hvar og hvernig það lifir og hafa fullan aðgang að menningu, tómstundum og afþreyingu.
III. Einstök málasvið framkvæmdaáætlunarinnar.
A. Aðgengi.
Alþingi ályktar að gott aðgengi sé eitt af lykilhugtökum þegar rætt er um jafnrétti og jafna stöðu allra í samfélaginu, sama hvort átt er við mannvirki, aðgang að upplýsingum eða möguleika til tjáskipta. Heimili, skólar, vinnustaðir, tómstunda- og íþróttamiðstöðvar, verslanir, opinberar byggingar og annað húsnæði sem almenningur á aðgang að skulu vera aðgengileg öllum út frá algildri hönnun samkvæmt lögum um mannvirki. Það sama gildi um opin svæði fyrir almenning, svo sem skipulögð útivistarsvæði, almenningsgarða og mannvirki á svæðum sem ætluð eru til útivistar.
Upplýsingar er varða almenning skulu vera á því formi að allir geti skilið og tileinkað sér þær og er þá átt við táknmál, textun, punktaletur og auðskilið mál. Til að svo megi verða verði öll nýjasta tækni nýtt og notað táknmál hvar sem því verður við komið.
A.1 Manngert umhverfi.
Markmið: Að tryggja öllum jafnt aðgengi að manngerðu umhverfi.
Framkvæmd: Í hverju sveitarfélagi verði gerð úttekt á aðgengismálum hvað varðar aðgengi að opinberum byggingum, umferðarmannvirkjum og öðrum stöðum sem almenningur hefur aðgang að. Í framhaldinu verði gerð áætlun um úrbætur ef við á.
Ábyrgð: Sveitarfélög.
Samstarfsaðilar: Skipulagsstofnun og Mannvirkjastofnun.
Tímabil: Úttekt verði lokið fyrir árslok 2012 og áætlun liggi fyrir um úrbætur fyrir árslok 2013.
Kostnaður: Innan ramma.
Mælikvarði: Hlutfall sveitarfélaga sem hafa lokið úttekt og gert áætlun.
A.2 Almenningssamgöngur.
Markmið: Að allir geti nýtt sér almenningssamgöngur sem í boði eru.
Framkvæmd: Sveitarfélög sem bjóða upp á almenningssamgöngur skilgreini tilteknar áætlanaleiðir á stofnleiðum þar sem einungis aka strætisvagnar sem aðgengilegir eru hreyfihömluðum. Þjónustan verði kynnt sérstaklega.
Ábyrgð: Sveitarfélög.
Samstarfsaðili: Innanríkisráðuneytið.
Tímabil: Verkefnið hefjist árið 2012 og standi til ársloka 2014.
Kostnaður: Innan ramma.
Mælikvarði: Hlutfall fatlaðs fólks sem er ánægt með almenningssamgöngur.
A.3 Ný mannvirki.
Markmið: Að algild hönnun verði viðhöfð við hönnun allra mannvirkja.
Framkvæmd: Algild hönnun verði kynnt sérstaklega fyrir byggingarfulltrúum, arkitektum, verkfræðingum og öðrum hönnuðum og nefndum sveitarfélaga á sviði skipulags- og byggingarmála. Jafnframt verði algild hönnun kynnt ráðuneytum og stofnunum þeirra.
Ábyrgð: Umhverfisráðuneytið.
Samstarfsaðilar: Sveitarfélög.
Tímabil: Kynningar fari fram á árunum 2012 og 2013.
Kostnaður: Innan ramma.
Mælikvarði: Hlutfall sveitarfélaga þar sem kynningar hafa farið fram.
A.4 Akstursþjónusta.
Markmið: Að fötluðu fólki standi til boða akstursþjónusta til að geta verið virkir þátttakendur í daglegu lífi.
Framkvæmd: Á hverju þjónustusvæði verði sett fram aðgerðaáætlun í akstursþjónustu við fatlað fólk og þróaðar nýjar leiðir til að mæta þörfum notenda.
Ábyrgð: Þjónustusvæði.
Samstarfsaðilar: Samband íslenskra sveitarfélaga og hagsmunasamtök fatlaðs fólks.
Tímabil: Gerð aðgerðaáætlunar ljúki árið 2012 og árangur verði metinn í árslok 2014.
Kostnaður: Kostnaður verði metinn í aðgerðaáætlun.
Mælikvarði: Hlutfall ánægðra notenda akstursþjónustu.
A.5 Upplýsingar.
Markmið: Að allt fatlað fólk hafi óhindraðan aðgang að upplýsingum um réttindi sín og þá þjónustu sem í boði er.
Framkvæmd: Sveitarfélög og þjónustusvæði sjái til þess að á heimasíðum þeirra verði aðgengilegt efni fyrir fatlað fólk. Fyrirmynd að framkvæmd gæti verið frá Reykjavíkurborg sem hefur þegar gert nauðsynlegar breytingar á vefsvæði sínu og fengið vottun. Þannig geta hópar fatlaðra sem ekki geta nýtt sér hefðbundna framsetningu efnis notað vefinn.
Ábyrgð: Sveitarfélög.
Samstarfsaðilar: Samband íslenskra sveitarfélaga og hagsmunasamtök fatlaðs fólks.
Tímabil: Árslok 2013.
Kostnaður:
Mælikvarði: Hlutfall sveitarfélaga sem eru með vottaðar heimasíður við lok tímabils.
A.6 Menntastofnanir.
Markmið: Að allir skólar landsins verði aðgengilegir fötluðum nemendum og aðstandendum þeirra.
Framkvæmd: Starfshópur sérfræðinga á sviði skóla- og fötlunarmála semji viðmið og leiðbeiningar fyrir skóla landsins. Þar verði tekið tillit til þess að bæði nemendur og foreldrar ófatlaðra nemenda geta búið við margvíslegar skerðingar sem taka þarf tillit til svo að þeir geti tekið þátt í skólastarfi og félags- og tómstundastarfi.
Ábyrgð: Mennta- og menningarmálaráðuneytið.
Samstarfsaðilar: Sveitarfélög, hagsmunasamtök fatlaðs fólks og foreldra og skólastofnanir á vegum ríkisins.
Tímabil: 2012–2014.
Kostnaður:
Mælikvarði: Hlutfall skóla sem hafa sett sér viðmið um aðgengi.
B. Atvinna.
Alþingi ályktar að starf á vinnumarkaði stuðli að fjárhagslegu sjálfstæði einstaklings, styðji við persónulegan þroska og vinni gegn fátækt. Verkefni sem hafi það markmið að gera vinnustaði aðgengilega, styðji við fatlað fólk á almennum vinnumarkaði og auki aðgengi þess að almennum vinnumarkaði verði unnin til að auka lífsgæði. Stuðningur við fatlað fólk á almennum vinnumarkaði felist í aðstoð sem byggist á reynslu og þekkingu. Íslensk stjórnvöld setji sér það takmark að 85% fatlaðs fólks á vinnualdri hafi vinnu, virkniúrræði eða stundi nám við hæfi í lok árs 2014.
B.1 Atvinnuþátttaka á almennum vinnumarkaði.
Markmið: Að auka og styrkja samstarf um atvinnu fyrir fatlaða við aðila á almennum vinnumarkaði.
Framkvæmd: a. Stofnaður verið samstarfshópur aðila vinnumarkaðarins og Vinnumálastofnunar. Hópurinn skilgreini skýr markmið og aðgerðir sem meðal annars tryggi að fatlað fólk geti unnið á almennum vinnumarkaði með sérstökum stuðningi.
b. Sett verði á laggirnar verkefni þar sem tíu fyrirtæki taki þátt í verkefni undir yfirskriftinni „samfélagsleg ábyrgð“ þar sem fatlað fólk fái tækifæri til þátttöku á vinnumarkaði.
Ábyrgð: Vinnumálastofnun.
Samstarfsaðilar: Þjónustusvæði/sveitarfélög og hagsmunasamtök fatlaðs fólks.
Tímabil: Verkefnið hefjist árið 2012 með skilgreindum áföngum til ársloka 2014.
Kostnaður: Eitt stöðugildi í eitt ár, samtals 8 milljónir króna.
Mælikvarði: Fjöldi fyrirtækja sem tekur þátt í verkefninu.
B.2 Atvinna með stuðningi.
Markmið: Að fatlað fólk fái stuðning á almennum vinnumarkaði.
Framkvæmd: Að boðið sé upp á fjölbreytileg úrræði fyrir fatlað fólk á vinnumarkaði sem fylgt sé eftir með einstaklingsbundnum áætlunum eða samningum. Stjórnendur og samstarfsfólk fái fræðslu þegar fatlaður einstaklingur hefur störf í fyrirtækinu.
Ábyrgð: Vinnumálastofnun.
Samstarfsaðilar: Þjónustusvæði/sveitarfélög, svæðisvinnumiðlanir og hagsmunaaðilar.
Tímabil: Viðvarandi.
Kostnaður: Innan ramma.
Mælikvarði: Að gert verði stöðumat í ársbyrjun 2014 um fjölda fatlaðs fólks með stuðning á almennum vinnumarkaði.
B.3 Virkniúrræði.
Markmið: Að fatlað fólk fái tækifæri til að nýta virkniúrræði.
Framkvæmd: Fatlað fólk án atvinnu fái tilboð um virkniúrræði sem vari að minnsta kosti fjórar klukkustundir á dag fimm daga vikunnar og fái tækifæri til að takast á við verkefni sem hæfa aldri þess og getu.
Ábyrgð: Vinnumálastofnun.
Samstarfsaðilar: Þjónustusvæði/sveitarfélög og hagsmunasamtök fatlaðs fólks.
Tímabil: 2012–2014.
Kostnaður: Innan ramma.
Mælikvarði: Að gert verði stöðumat í árslok 2014 um fjölda fatlaðs fólks í virkniúrræðum.
B.4 Nýsköpunar- og frumkvöðlastarf.
Markmið: Að auka nýsköpunar- og frumkvöðlastarf meðal fatlaðs fólks.
Framkvæmd: Fötluðu fólki verði skapaðar aðstæður til að vinna að nýsköpun, meðal annars með því að koma upp tilraunasmiðjum um landið. Sérstakir frumkvöðlastyrkir verði í boði á hverju ári.
Ábyrgð: Vinnumálastofnun.
Samstarfsaðilar: Þjónustusvæði/sveitarfélög, hagsmunaaðilar og Nýsköpunarmiðstöð Íslands.
Tímabil: 2012–2014.
Kostnaður: Þrjú stöðugildi og frumkvöðlastyrkir í þrjú ár, samtals 30 milljónir króna.
Mælikvarði: Að þrjár smiðjur verði komnar af stað í árslok 2014.
B.5 Hugbúnaðar- og tæknigeirinn.
Markmið: Að auka þátttöku fatlaðra í hugbúnaðar- og tæknigeiranum.
Framkvæmd: Stofnað verði til samstarfs við hugbúnaðar- og tæknifyrirtæki. Stuðlað verði að þátttöku tíu fatlaðra einstaklinga á ári í verkefnum á þeirra vegum.
Ábyrgð: Vinnumálastofnun.
Samstarfsaðilar: Þjónustusvæði/sveitarfélög og hagsmunasamtök.
Tímabil: 2012–2014.
Kostnaður: Innan ramma.
Mælikvarði: Fjöldi einstaklinga sem hafa tekið þátt í verkefnum árið 2014.
C. Félagsleg vernd/sjálfstætt líf.
Alþingi ályktar að fötluðu fólki skuli tryggt jafnrétti og sambærileg lífskjör á við aðra þjóðfélagsþegna og sköpuð skilyrði til eðlilegs lífs. Barist verði gegn fátækt og félagslegri útskúfun fatlaðs fólks. Fatlað fólk skal hafa sama rétt og aðrir íbúar landsins til að halda mannlegri reisn og njóta sjálfræðis, jafnréttis og samstöðu. Fatlað fólk njóti góðs af öllum almennum aðgerðum stjórnvalda sem eiga að stuðla að jöfnuði, svo sem á sviði húsnæðis-, mennta-, trygginga- og atvinnumála. Þjónusta við fatlað fólk skal miða að því að auka sjálfstæði og lífsgæði þess. Hún skal vera heildstæð, sveigjanleg og einstaklingsbundin og taka til allra þátta lífsins.
C.1 Val um þjónustu.
Markmið: Að fatlað fólk hafi val um tegund þjónustu og framkvæmd hennar.
Framkvæmd: Áður en þjónustan er veitt fari fram einstaklingsbundið mat á þjónustuþörf og gerð einstaklingsbundin áætlun í samráði við notandann. Áætlun sé heildstæð, sveigjanleg og einstaklingsbundin og taki til allra þátta dagslegs lífs. Notendastýrð persónuleg aðstoð verði tekin upp í áföngum.
Ábyrgð: Þjónustusvæði.
Samstarfsaðilar: Notendur.
Tímabil: Verkefnið hefjist árið 2012 og verði viðvarandi en notendastýrð persónuleg aðstoð verði tekin upp í áföngum.
Kostnaður: Innan ramma.
Mælikvarði: Hlutfall fatlaðra notenda sem eru með einstaklingsbundna áætlun um þjónustu.
C.2 Samfella og öryggi í þjónustu.
Markmið: Að auka öryggi og samfellu í þjónustu við fatlað fólk.
Framkvæmd: Þegar einstaklingur/barn í fjölskyldu hefur fengið greiningu á fötlun fái einstaklingurinn/fjölskyldan tilboð um tengilið sem fylgir þeim svo lengi sem hann/hún vill og telur þörf fyrir. Félagsþjónusta sveitarfélaga tilnefni tengilið/fagaðila í samráði við notandann.
Ábyrgð: Þjónustusvæði.
Samstarfsaðilar: Sveitarfélög og Greiningar- og ráðgjafarstöð ríkisins.
Tímabil: Verkefnið hefjist árið 2012 og verði viðvarandi.
Kostnaður: Innan ramma.
Mælikvarði: Hlutfall notenda á hverju þjónustusvæði sem fengið hafa tengilið.
C.3 Aðgengi að þjónustu.
Markmið: Að tryggja að þjónusta við fatlað fólk á heimilum þeirra uppfylli þjónustuþörf á hverju þjónustusvæði og stefna að því að biðlistum verði eytt.
Framkvæmd: Í hverju sveitarfélagi verði gerð áætlun um það hvernig mæta eigi þörf fyrir þjónustu þannig að bið eftir þjónustu verði aldrei meiri en tólf mánuðir, sbr. reglugerð nr. 1054/2010, um þjónustu við fatlað fólk á heimili sínu.
Ábyrgð: Þjónustusvæði.
Samstarfsaðilar: Sveitarfélögin.
Tímabil: Áætlanagerð sé lokið fyrir árslok 2012. Mæling á árangri verði gerð í árslok 2014.
Kostnaður: Kostnaðaráætlun liggi fyrir í árslok 2012.
Mælikvarði: Fjöldi þjónustusvæða sem hefur lokið áætlanagerð árið 2012. Hlutfall einstaklinga sem fá úrlausn innan tólf mánaða.
C.4 Hjálpartæki/tæknilausnir.
Markmið: Að fatlað fólk fái tækifæri til að nýta sér nútímatækni og tæknitengdar lausnir þegar þjónusta er veitt.
Framkvæmd: Hjálpartækjamiðstöð ásamt samstarfsaðilum kynni tæknilausnir og tækninýjungar fyrir notendum og starfsfólki sveitarfélaga.
Ábyrgð: Hjálpartækjamiðstöð Sjúkratrygginga Íslands.
Samstarfsaðilar: Þjónustu- og þekkingarmiðstöð fyrir blinda, sjónskerta og daufblinda einstaklinga, Heyrnar- og talmeinastöð Íslands, Samskiptamiðstöð heyrnarlausra og heyrnarskertra, Greiningar- og ráðgjafarstöð ríkisins og Blindrabókasafn Íslands.
Tímabil: 2012–2013.
Kostnaður: Innan ramma.
Mælikvarði: Hlutfall starfsfólks þjónustusvæða sem hefur fengið fræðslu.
C.5 Sveigjanlegt vinnufyrirkomulag í þjónustu við fatlað fólk.
Markmið: Að auka sveigjanleika í vinnufyrirkomulagi þjónustu við fatlað fólk.
Framkvæmd: Sett verði á fót tilraunaverkefni á tveimur þjónustusvæðum í samvinnu við stéttarfélögin sem miði að því að breyta viðhorfum og vinnufyrirkomulagi í þjónustu við fatlað fólk. Gert verði stöðumat við upphaf verkefnis á ánægju notenda með þjónustu og við lok verkefnis.
Ábyrgð: Samband íslenskra sveitarfélaga.
Samstarfsaðilar: Þjónustusvæði, stéttarfélög og notendur.
Tímabil: 2012–2014.
Kostnaður: 75% stöðugildi í þrjú ár, 6 milljónir króna á ári, samtals 18 milljónir króna.
Mælikvarði: Ánægja notenda með þjónustuna.
C.6 Val um búsetu.
Markmið: Að fatlað fólk hafi til jafns við aðra val um búsetu í samræmi við óskir sínar og þarfir.
Framkvæmd: Fjölbreyttir húsnæðiskostir verði í boði og áætlun sett þar um. Allt húsnæði uppfylli ákvæði reglugerðar nr. 1054/2010, um þjónustu við fatlað fólk á heimili sínu, um lágmarksstærð einkarýmis og aðgengi. Kannað verði hvernig unnt sé að auka aðgengi fatlaðs fólks að lánum á hagstæðum kjörum til íbúðakaupa og styrkjum og/eða lánum til breytinga á eigin húsnæði.
Ábyrgð: Þjónustusvæði.
Samstarfsaðilar: Íbúðalánasjóður og velferðarráðuneytið.
Tímabil: 2012–2014.
Kostnaður: Kostnaðargreining liggi fyrir árið 2013.
Mælikvarði: Hlutfall þjónustusvæða þar sem áætlun er lokið árið 2012.
C.7 Húsnæðisgerð.
Markmið: Að öll heimilisumgjörð fatlaðs fólks fullnægi almennum viðmiðum um heimili fólks samkvæmt reglugerð nr. 1054/2010, um þjónustu við fólk á heimili sínu.
Framkvæmd: Gerð verði áætlun á hverju þjónustusvæði í samvinnu sveitarfélaga, hagsmunaaðila og notenda þar sem tekið sé mið af gildandi reglugerð. Lögð verði niður í áföngum búseta sem ekki uppfyllir framangreind skilyrði, svo sem herbergjasambýli. Aukin verði framlög í Jöfnunarsjóð sveitarfélaga til að mæta kostnaði við aukna húsnæðisþörf.
Ábyrgð: Þjónustusvæði.
Samstarfsaðili: Jöfnunarsjóður sveitarfélaga.
Tímabil: Áætlun liggi fyrir í lok árs 2012 og stöðumat verði unnið árið 2013.
Kostnaður: Mat á þörf fyrir aukin fjárframlög liggi fyrir árið 2014.
Mælikvarði: Fækkun herbergjasambýla.
C.8 Heildræn þjónusta við fötluð börn og fjölskyldur þeirra.
Markmið: Að öll fötluð börn alist upp í fjölskyldu.
Framkvæmd: Börn á öllum aldri fái heildstæða þjónustu. Áætlun verði gerð fyrir hvert barn um hvernig skuli samþætta félags-, skóla- og frístundaþjónustu í samræmi við aldur, fötlun og þarfir barnsins og fjölskyldu þess.
Ábyrgð: Þjónustusvæði.
Samstarfsaðilar: Sveitarfélög, skólar, frístundaheimili og Greiningar- og ráðgjafarstöð ríkisins.
Tímabil: Viðvarandi.
Kostnaður: Innan ramma en fjármagn gæti þurft að flytja milli þjónustuþátta.
Mælikvarði: Hlutfall fatlaðra barna á hverju þjónustusvæði með heildstæða áætlun árin 2013 og 2014.
D. Heilbrigði.
Alþingi ályktar að fatlað fólk, börn og fullorðnir, skuli eiga rétt á bestu fáanlegri heilbrigðisþjónustu sem er fyrirbyggjandi og sérhæfð þegar við á. Fatlað fólk hafi sama aðgengi og aðrir íbúar að heilbrigðisþjónustu. Heilbrigðisþjónustan axli ábyrgð á þjónustu við einstaklinga með sérhæfðar heilsuþarfir vegna fötlunar, óháð kynferði og tegund fötlunar.
D.1 Heilsugæslan.
Markmið: Að efla heilsugæslu sem grunnheilbrigðisþjónustu til að mæta þörfum fatlaðs fólks.
Framkvæmd: Hlutverk heilsugæslunnar verði endurskoðað með tilliti til þarfa fatlaðs fólks. Starfsfólki með fjölbreytta fagmenntun verði fjölgað til að mæta þörfum fatlaðs fólks og fólks með langvinna sjúkdóma.
Ábyrgð: Velferðarráðuneytið.
Samstarfsaðilar: Heilsugæslustöðvar.
Tímabil: Endurskoðun verði lokið og tillögur lagðar fram fyrir árslok 2013.
Kostnaður: Innan ramma.
Mælikvarði: Fjölgun fagstétta innan heilsugæslunnar.
D.2 Geðheilbrigðisþjónusta.
Markmið: Að fatlað fólk fái geðheilbrigðisþjónustu er best hentar þörfum hvers og eins.
Framkvæmd: Geðheilbrigðisþjónusta verði veitt í auknum mæli í nærumhverfi einstaklings með starfi samfélagsgeðteyma með aðkomu félagsþjónustu, heilsugæslu og sérfræðiþjónustu. Gerð verði áætlun um geðheilbrigðisþjónustu á hverju þjónustusvæði. Brýnt er að sálfræðimeðferð sé aðgengileg óháð efnahag.
Ábyrgð: Velferðarráðuneytið.
Samstarfsaðilar: Landspítali, Sjúkrahúsið á Akureyri, heilsugæslan og þjónustusvæði.
Tímabil: Gerð verði áætlun um geðheilbrigðisþjónustu á hverju þjónustusvæði. Vinnan hefjist árið 2012 og verði lokið 2014.
Kostnaður: Gerð áætlunar innan ramma.
Mælikvarði: Hlutfall þjónustusvæða þar sem samfélagsgeðteymi hefur verið komið á.
D.3 Þjálfun og endurhæfing.
Markmið: Að fötluðu fólki verði tryggður aðgangur að nauðsynlegri þjálfun, svo sem sjúkra-, iðju- og talþjálfun, í samræmi við þarfir, óháð efnahag.
Framkvæmd: Myndaður verði starfshópur fagfólks til að vinna tillögur um:
a) hámarkskostnaðarþátttöku í þjálfun og endurhæfingu og
b) aukið aðgengi fatlaðs fólks að reglubundnum þjálfunar- og endurhæfingarlotum.
Ábyrgð: Velferðarráðuneytið.
Samstarfsaðilar: Heilsugæslan, endurhæfingarstöðvar og fagfólk á sviði endurhæfingar og þjálfunar.
Tímabil: Tillögur liggi fyrir í árslok 2012.
Kostnaður: Gerð áætlunar innan ramma.
Mælikvarði: Að samþykktar reglur liggi fyrir með áætlun um kostnaðarþátttöku fatlaðs fólks í þjálfun og endurhæfingu.
D.4 Sértækur vandi.
Markmið: Að þróa úrræði til að mæta sértækum vanda fatlaðs fólks í tengslum við alvarlega sjúkdóma, lífsstíl og ofbeldi.
Framkvæmd: Settir verði á laggirnar tveir starfshópar:
a) Annar kortleggi meðferðarúrræði og komi með tillögur um leiðir til úrbóta þegar saman fara alvarlegur lífsstílsvandi og fötlun eða alvarlegir sjúkdómar og fötlun.
b) Hinn leggi fram tillögur um hvernig megi draga úr ofbeldi gegn fötluðu fólki í samfélaginu og tillögur til stuðnings þeim sem verða fyrir ofbeldi.
Ábyrgð: Embætti landlæknis.
Samstarfsaðilar: Heilsugæsla, félagsþjónusta, hagsmunasamtök fatlaðs fólks og Stígamót og sambærileg samtök.
Tímabil: Hópar verði settir á laggirnar árið 2012 og starfi út árið 2013.
Kostnaður: Innan ramma.
Mælikvarði: Að tillögur liggi fyrir eigi síðar en í árslok 2013.
D.5 Reglulegar heilbrigðisskoðanir.
Markmið: Að einstaklingum með sértækar heilbrigðisþarfir tengdar fötlun verði boðnar reglulegar heilbrigðisskoðanir, að minnsta kosti einu sinni á ári.
Framkvæmd: Fatlað fólk hafi aðgang að föstum heimilislækni til að tryggja samfellu í þjónustunni. Þá beri heilsugæslu að hafa frumkvæði að því að mæta einstaklingum með sértækar þarfir í fyrirbyggjandi starfi sínu, svo sem í mæðra- og ungbarnavernd og forvörnum, meðal annars varðandi kynheilbrigði. Einnig verði hugað sérstaklega að aðgengi fatlaðs fólks að upplýsingum og fyrirbyggjandi aðgerðum, svo sem skimunum og ónæmisaðgerðum.
Ábyrgð: Heilsugæslustöðvar.
Samstarfsaðilar: Notendur þjónustunnar og þjónustusvæði.
Tímabil: Í árslok 2013 skal allt fatlað fólk hafa fastan heimilislækni.
Kostnaður: Innan ramma.
Mælikvarði: Hlutfall fatlaðra einstaklinga með sértækar heilbrigðisþarfir á hverju þjónustusvæði sem eru í reglubundnu eftirliti.
E. Ímynd og fræðsla.
Alþingi ályktar að auka þurfi þekkingu og almenna vitund um málefni tengd fötlun og stöðu fatlaðs fólks í samfélaginu. Fatlað fólk verði sýnilegt í samfélaginu, svo sem í menntastofnunum, fjölmiðlum og á vinnustöðum. Jafnframt verði fatlað fólk gert meðvitaðra um rétt sinn svo að það geti nýtt hann. Skilningur verði aukinn meðal almennings og fatlaðs fólks um réttindi fatlaðs fólks og um notendasamráð, aukna virkni og samfélagsþátttöku þess. Fatlað fólk og samtök þess taki þátt í áætlanagerð um breytta ímynd og fræðslu.
E.1 Hugmyndafræði og orðræða.
Markmið: Að auka vitund almennings um stöðu fatlaðs fólks og breyta sýn samfélagsins á fötlun.
Framkvæmd: Ráðist verði í samhæft átak um að beina sjónum samfélagsins að stöðu fatlaðs fólks. Skipulögð verði ímyndarherferð þar sem aðaláherslan verður lögð á mannréttindi og aukinn sýnileika fatlaðs fólks.
Ábyrgð: Velferðarráðuneytið/réttindavakt ráðuneytisins.
Samstarfsaðilar: Hagsmunasamtök fatlaðs fólks.
Tímabil: 2012–2014.
Kostnaður: Innan ramma.
Mælikvarði: Mælingar sem sýna breytingu á viðhorfum til fatlaðs fólks.
E.2 Hvatningarverðlaun til fjölmiðla.
Markmið: Að auka sýnileika fatlaðs fólks í fjölmiðlum og fá fram faglega og upplýsandi umfjöllun um stöðu og réttindi fatlaðs fólks í samfélaginu.
Framkvæmd: Réttindavakt velferðarráðuneytisins skipi dómnefnd sem velji og verðlauni fjölmiðil sem skarað hefur fram úr við að fjalla um málefni fatlaðs fólks á faglegan hátt út frá þátttöku, aðgengi og réttindum þeirra.
Ábyrgð: Velferðarráðuneytið/réttindavakt ráðuneytisins.
Samstarfsaðilar: Hagsmunasamtök fatlaðs fólks.
Tímabil: 2012–2014.
Kostnaður: Innan ramma.
Mælikvarði: Að hvatningarverðlaun verði veitt á tímabilinu.
E.3 Fræðsla til starfsfólks og kjörinna fulltrúa sveitarfélaga.
Markmið: Að auka þekkingu á málefnum fatlaðs fólks og skilning á margbreytileika samfélagsins.
Framkvæmd: Samið verði fræðsluefni fyrir kjörna fulltrúa og starfsfólk félagsþjónustu og námskeið verði haldin með skipulögðum hætti á öllum þjónustusvæðum félagsþjónustu sveitarfélaga.
Ábyrgð: Velferðarráðuneytið/réttindavakt ráðuneytisins.
Samstarfsaðilar: Hagsmunasamtök og Samband íslenskra sveitarfélaga.
Tímabil: 2012–2014.
Kostnaður: Innan ramma.
Mælikvarðar: Hlutfall kjörinna fulltrúa sveitarfélagsins annars vegar og starfsfólks félagsþjónustu hins vegar sem hefur setið námskeið á tímabilinu.
E.4 Þekking heilbrigðisstarfsfólks.
Markmið: Að efla þekkingu heilbrigðisstarfsfólks á málefnum fatlaðs fólks og skilning á margbreytileika samfélagsins.
Framkvæmd: Gerð verði víðtæk fræðsluáætlun fyrir heilbrigðisstarfsfólk um málefni fatlaðs fólks, meðal annars um eðli fatlana og viðhorf gagnvart fötluðu fólki, um samskiptaleiðir og nálgun í þjónustu við fatlað fólk og um heilsuvanda og heilsutengdar þarfir. Starfshópur skipaður fulltrúum faghópa og fulltrúum fatlaðs fólks komi að samningu efnisins. Fræðslan verði skipulögð innan hvers heilbrigðisumdæmis.
Ábyrgð: Velferðarráðuneytið/réttindavakt ráðuneytisins.
Samstarfsaðili: Embætti landlæknis.
Tímabil: Fræðsluefni verði tilbúið fyrir árslok 2013. Vinna við útfærsluna hefjist árið 2014.
Kostnaður: 2 milljónir króna til fræðsluefnis.
Mælikvarði: Hlutfall heilsugæslustöðva þar sem fræðsla hefur farið fram í árslok 2014.
E.5 Menntun heilbrigðisstétta.
Markmið: Að auka færni heilbrigðisstarfsfólks í umönnun fatlaðs fólks og skilning á málefnum þeirra.
Framkvæmd: Menntun heilbrigðisstétta verði endurskoðuð út frá nútímaviðhorfum og siðferðilegum viðmiðum í málefnum fatlaðs fólks þar sem tekið er mið af hugmyndafræði um fötlun sem leggur áherslu á félagslegar aðstæður og mannréttindi. Komið verði á kennslu um heilsufarsþætti tengda fötlun í námi allra heilbrigðisstétta.
Ábyrgð: Mennta- og menningarmálaráðuneytið.
Samstarfsaðilar: Menntastofnanir með kennslu á heilbrigðisvísindasviði.
Tímabil: 2012–2015. 1
Kostnaður: Innan ramma.
Mælikvarði: Endurskoðun námskráa verði lokið fyrir árslok 2014.
E.6 Fræðsla til vinnuveitenda á almennum og opinberum vinnumarkaði.
Markmið: Að atvinnurekendur séu vel meðvitaðir um stöðu og færni fatlaðs fólks.
Framkvæmd: Útfærð verði fræðsluáætlun sem beinist að vinnuveitendum á hinum almenna og opinbera vinnumarkaði. Áhersla verði lögð á stöðu og færni fatlaðs fólks og mikilvægi þess að ávallt sé tekið tillit til hagsmuna fatlaðs fólks þegar ákvarðanir eru teknar í fyrirtækjum, stofnunum og ráðuneytum.
Ábyrgð: Velferðarráðuneytið/réttindavakt ráðuneytisins.
Samstarfsaðilar: Hagsmunasamtök, Vinnumálastofnun og Samband íslenskra sveitarfélaga.
Tímabil: Fyrir árslok 2012.
Kostnaður: Innan ramma.
Mælikvarði: Aukið hlutfall fatlaðs fólks á vinnumarkaði.
F. Jafnrétti.
Alþingi ályktar að þar sem margvíslegar hindranir í umhverfi og samfélaginu standi í vegi fyrir því að fatlað fólk öðlist jafnrétti á Íslandi og margt fatlað fólk upplifi fordóma og þekkingarleysi vegna fötlunar sinnar, og geti auk þess glímt við fleiri en eina tegund mismununar, svo sem vegna aldurs, kynferðis, uppruna eða kynhneigðar, verði brugðist við af fullri alvöru, meðal annars með því að fara að alþjóðlegum mannréttindasamningum sem Ísland hefur undirritað og aðlaga bæði íslenska löggjöf og framkvæmd í þessu skyni.
F.1 Samningur Sameinuðu þjóðanna um réttindi fatlaðs fólks.
Markmið: Að fullgilda samning Sameinuðu þjóðanna um réttindi fatlaðs fólks.
Framkvæmd: Skipuð verði samstarfsnefnd ráðuneyta um að undirbúa fullgildingu samnings Sameinuðu þjóðanna um réttindi fatlaðs fólks. Ráðuneytin yfirfari löggjöf á sínu málefnasviði og leggi til breytingar til samræmis við samninginn. Jafnframt verði íslensk þýðing samningsins endurskoðuð.
Ábyrgð: Innanríkisráðuneytið.
Samstarfsaðilar: Önnur ráðuneyti.
Tímabil: Lokið verði við endurskoðun þýðingar í apríl 2012. Frumvarp verði lagt fram á löggjafarþingi 2012–2013.
Kostnaður: Laun starfsmanns nefndarinnar í eitt ár, 8 milljónir króna, og kostnaður við endurskoðun þýðingar, 2 milljónir króna. Samtals 10 milljónir króna.
Mælikvarði: Frumvarp til fullgildingar samningsins verði lagt fram eigi síðar en á vorþingi 2013.
F.2 Fordómar og félagsleg útskúfun.
Markmið: Að vinna gegn fordómum og félagslegri útskúfun fatlaðs fólks.
Framkvæmd: Skipaður verði samstarfshópur ráðuneyta og sveitarfélaga ásamt fulltrúum háskóla á Íslandi sem unnið hafa að rannsóknum sem beinast að stöðu minnihlutahópa á Íslandi. Samstarfshópurinn fái það verkefni að skoða og greina tiltækar rannsóknir og koma með tillögur um hvernig megi nýta þær til að vinna gegn fordómum og félagslegri útskúfun varðandi lagabreytingar, framkvæmd þjónustu og viðhorfsbreytingar.
Ábyrgð: Velferðarráðuneytið.
Samstarfsaðilar: Önnur ráðuneyti, Samband íslenskra sveitarfélaga og háskólasamfélagið.
Tímabil: Hópurinn leggi fram lokaskýrslu fyrir árslok 2013.
Kostnaður: Laun verkefnisstjóra í hálfri stöðu í eitt ár, samtals 4 milljónir króna.
Mælikvarði: Tillögur til breytinga í skýrslu hópsins.
F.3 Valdefling og notendasamráð.
Markmið: Að efla og styrkja valdeflingu og notendasamráð í þjónustu við fatlað fólk.
Framkvæmd: Auglýst verði eftir þátttöku tveggja þjónustusvæða/sveitarfélaga í tilraunaverkefni til þriggja ára þar sem unnið verði með tiltekinn notendahóp eftir aðferðafræði valdeflingar og notendasamráðs. Markmið verði sett um árangur og árangursmælikvarða og árangur borinn saman við samanburðarhóp þar sem aðferðafræðin er ekki markvisst innleidd. Sérfræðingar úr háskólasamfélaginu, erlendir og innlendir, verði fengnir til samstarfs um verkefnið, meðal annars með fræðslu og stuðningi.
Ábyrgð: Velferðarráðuneytið.
Samstarfsaðili: Samband íslenskra sveitarfélaga.
Tímabil: 2012–2014.
Kostnaður: 20 milljónir króna.
Mælikvarði: Niðurstöður samanburðar milli tilraunahóps og samanburðarhóps.
F.4 Ólaunaðir umönnunaraðilar.
Markmið: Að þátttaka ólaunaðra umönnunaraðila í lífi fatlaðs fólks verði gerð sýnileg og metin að verðleikum.
Framkvæmd: Við gerð einstaklingsbundinna áætlana skuli ávallt skilgreina og skrá þátt ólaunaðra stuðningsaðila/aðstandenda og setja hann inn í heildræna áætlun.
Ábyrgð: Velferðarráðuneytið.
Samstarfsaðili: Samband íslenskra sveitarfélaga.
Tímabil: Verkefnið hefjist 2012 og verði viðvarandi.
Kostnaður: Innan ramma.
Mælikvarði: Fjöldi skráninga/tíma ólaunaðs stuðnings.
F.5 Könnun á heilbrigði fatlaðs fólks.
Markmið: Að fá skýra mynd af heilbrigði fatlaðs fólks á Íslandi.
Framkvæmd: Gerð verði rannsókn á heilbrigði fatlaðs fólks á Íslandi.
Ábyrgð: Embætti landlæknis.
Samstarfsaðilar: Velferðarráðuneytið og háskólasamfélagið.
Tímabil: Undirbúningur fari fram árið 2012 og rannsókn árið 2013.
Kostnaður: 10 milljónir króna.
Mælikvarði: Rannsókn verði gerð fyrir árslok 2013.
G. Menntun.
Alþingi ályktar að fatlað fólk skuli njóta jafnréttis til náms í raun og eiga kost á að velja um fjölbreyttar námsleiðir eftir áhugasviði og getu. Þjónusta við fatlaða nemendur fylgi þeim milli skólastiga svo tryggja megi samfellu í þjónustunni. Fötluðu fólki verði tryggður réttur til endur- og símenntunar til jafns við aðra.
G.1 Samfella milli skólastiga.
Markmið: Að auka samstarf félagsþjónustu og skólakerfis við að samþætta þjónustu og nám fatlaðra nemenda og tryggja að samþættingin fylgi nemendum allan námsferilinn.
Framkvæmd: Áætlun verði unnin tímanlega í samstarfi við þann skóla, hvort sem það er leikskóli, grunnskóli, framhaldsskóli eða háskóli, sem nemandi hefur áhuga á að sækja þannig að skólinn sé tilbúinn þegar nemandinn hefur nám. Á það meðal annars við um öflun hjálpartækja, sértæk úrræði í námi við upphaf náms og námsefni og persónulega aðstoð á skólatíma.
Ábyrgð: Skólaskrifstofur sveitarfélaganna.
Samstarfsaðilar: Félagsþjónusta sveitarfélaganna, leikskólar, grunnskólar, framhaldsskólar og háskólar.
Tímabil: Sveitarfélögin hefji gerð einstaklingsáætlana fyrir þau börn sem byrja í leikskólum árið 2012 og vinni á sama tíma áætlanir fyrir þá nemendur sem nú þegar eru í námi. Lokið verði við að gera áætlanir fyrir alla nemendur í leikskólum og grunnskólum í árslok 2013.
Kostnaður: Innan ramma.
Mælikvarði: Fjöldi áætlana í árslok 2014.
G.2 Fjölbreytni í námsframboði.
Markmið: Að auka fjölbreytni í námi á starfsnámsbrautum framhaldsskólanna og háskólastigi þannig að hver einstaklingur geti fundið nám við sitt hæfi.
Framkvæmd: Skipaður verði hópur sem leggi til hvernig markmiðinu verði náð. Í hópnum sitji sérfræðingar í menntunarfræðum og fötlunarfræðum og ungt fatlað fólk.
Ábyrgð: Mennta- og menningarmálaráðuneytið.
Samstarfsaðilar: Háskólasamfélagið, hagsmunasamtök fatlaðs fólks, velferðarráðuneytið, Tryggingastofnun ríkisins og Vinnumálastofnun.
Tímabil: 2012–2014.
Kostnaður: Innan ramma.
Mælikvarði: Að tillögur hafi verið lagðar fram og fjármögnun liggi fyrir vegna tveggja verkefna fyrir lok tímabils.
G.3 Styrkir til fatlaðra nemenda.
Markmið: Að auka möguleika fatlaðs fólks til námsstyrkja vegna endur- og símenntunar.
Framkvæmd: Komið verði á fót endurmenntunarsjóði hjá Tryggingastofnun ríkisins sem gegni sama hlutverki og starfs- og endurmenntunarsjóðir hjá lífeyrissjóðum og stéttarfélögum sem veita styrki til lífeyrisþega sem eiga ekki réttindi í slíkum sjóðum til að jafna möguleika þeirra á endur- og símenntun.
Ábyrgð: Velferðarráðuneytið.
Samstarfsaðili: Tryggingastofnun ríkisins.
Tímabil: Ákvæði um endurmenntunarsjóð verði sett í lög eigi síðar en í árslok 2013.
Kostnaður:
Mælikvarði: Ákvæðum í lögum hafi verið breytt og áætlun samþykkt árið 2014.
H. Þátttaka.
Alþingi ályktar að fatlað fólk skuli eiga þess kost að taka fullan þátt í félagslegu og efnahagslegu starfi samfélagsins. Það skuli eiga þess kost að nýta borgaralegan rétt sinn, eiga val um hvar og hvernig það lifir og hafa fullan aðgang að menningu, tómstundum og afþreyingu. Áhersla sé lögð á að eyða hindrunum sem mæta einstaklingum í daglegu lífi. Þjónusta við fatlað fólk stuðli að því að það lifi fullgildu lífi.
H.1 Áhrif og þátttaka notenda.
Markmið: Að fötluðu fólki verði gert kleift að hafa áhrif á og taka þátt í skipulagi og framkvæmd þjónustunnar sem og öðrum hagsmunamálum sínum í því sveitarfélagi þar sem það býr.
Framkvæmd: Á hverju þjónustusvæði verði sett á laggirnar fimm manna notendaráð sem hafi það verkefni að vera ráðgefandi fyrir þjónustusvæðið varðandi stefnumótun um málefni fatlaðs fólks á svæðinu. Þjónustusvæðið beri alla stefnumótun í málefnum fatlaðs fólks undir ráðið sem auk þess geti tekið upp mál að eigin frumkvæði.
Ábyrgð: Samband íslenskra sveitarfélaga.
Samstarfsaðili: Velferðarráðuneytið.
Tímabil: Öll þjónustusvæði hafi komið á fót notendaráðum fyrir lok árs 2012.
Kostnaður: Kostnaður vegna aðstoðarmanna notenda, samtals 10 milljónir króna.
Mælikvarði: Fjöldi mála sem lögð hafa verið fyrir notendaráðin á hverju svæði.
H.2 Sýnileiki fatlaðs fólks.
Markmið: Að fatlað fólk kynni samning Sameinuðu þjóðanna um réttindi þess fyrir almenningi.
Framkvæmd: Tilraunaverkefnið „sendiherrar“ verði styrkt og fest í sessi meðan unnið sé að innleiðingu samnings Sameinuðu þjóðanna um réttindi fatlaðs fólks. Gerður verði samningur við Fjölmennt um að stýra verkefninu. Kynningaráætlun verði lögð fram árlega.
Ábyrgð: Velferðarráðuneytið.
Samstarfsaðilar: Innanríkisráðuneytið og hagsmunasamtök fatlaðs fólks.
Tímabil: Verkefnið hefjist 2012 og verði endurmetið ári síðar.
Kostnaður: 3 milljónir króna á ári í þrjú ár, samtals 9 milljónir króna.
Mælikvarði: Fjöldi funda „sendiherra“ á tímabilinu 2012–2014.
H.3 Fatlaðir foreldrar.
Markmið: Að tryggja fötluðum foreldrum stuðning við að aðstoða börn sín við verkefni sem tengjast skólagöngu barnanna. Fötluðum foreldrum verði gert kleift að styðja börn sín í námi.
Framkvæmd: Settur verði á fót starfshópur með fulltrúum ráðuneyta, sveitarfélaga og hagsmunasamtaka um vinnulag og samvinnu skóla, félagsþjónustu og heilbrigðisþjónustu um þennan stuðning.
Ábyrgð: Velferðarráðuneytið.
Samstarfsaðilar: Samband íslenskra sveitarfélaga, mennta- og menningarmálaráðuneytið og hagsmunasamtök fatlaðs fólks.
Tímabil: Starfshópurinn verði settur á laggirnar árið 2012 og skili tillögum vorið 2013.
Kostnaður: Innan ramma.
Mælikvarði: Að fyrir liggi samþykktar tillögur fyrir árslok 2013.
H.4 Félagslíf fatlaðra barna og ungmenna.
Markmið: Að rjúfa félagslega einangrun fatlaðra barna og ungmenna.
Framkvæmd: Fötluð börn og ungmenni á grunn- og framhaldsskólaaldri eigi kost á frístundatilboðum að skóladegi loknum, í skólafríum og á sumrin í samræmi við óskir og getu. Slík frístundatilboð verði samþætt almennum frístundatilboðum fyrir börn og ungmenni á sama aldri eins og kostur er. Lögð verði áhersla á mikilvægi sumardvalar fyrir þennan hóp.
Ábyrgð: Sveitarfélög.
Samstarfsaðilar: Hagsmunasamtök fatlaðs fólks.
Tímabil: Sveitarfélög geri áætlanir sínar árið 2012 og útfæri þær árið 2013.
Kostnaður: Innan ramma 2012 og kostnaðarmat verði gert í lok ársins.
Mælikvarði: Færri fötluð börn félagslega einangruð árið 2014 en árið 2011.
Ríkisstjórnin hefur samkvæmt ákvæði til bráðabirgða XIII í lögum um málefni fatlaðs fólks, nr. 59/1992, sbr. lög nr. 152/2010, samþykkt að leita samþykkis Alþingis á framkvæmdaáætlun í málefnum fatlaðs fólks.
Þjónusta við fatlað fólk var flutt frá ríki til sveitarfélaga 1. janúar 2011 í samræmi við breytingar á lögum um málefni fatlaðra, nr. 59/1992, sem samþykktar voru á Alþingi 17. desember 2010. Ákvörðun um að hefja undirbúning að flutningnum var tekin á samráðsfundi Sambands íslenskra sveitarfélaga og þáverandi félagsmálaráðherra í febrúar 2007. Í kjölfarið var skipuð verkefnisstjórn sem vann að undirbúningi þar til yfirfærslan átti sér stað en 1. janúar 2011 tóku gildi lög sem breyttu lögum um málefni fatlaðs fólks.
Í nefndaráliti um frumvarp til laga um breytingu á lögunum sem tóku gildi í ársbyrjun 2011 kemur fram að margir umsagnaraðilar og gestir félags- og tryggingamálanefndar hafi gagnrýnt það að með frumvarpinu sé ekki nógu langt gengið við að innleiða réttarbætur til handa fötluðu fólki og færa löggjöf um málaflokkinn til samtímans. Þá var gagnrýnt að markmið samnings Sameinuðu þjóðanna um réttindi fatlaðs fólks náist ekki að fullu með breytingunum. Jafnframt var vísað í úttekt Ríkisendurskoðunar á þjónustu við fatlað fólk frá ágúst 2010, en í þeirri skýrslu bendir stofnunin á ýmsa þætti sem hún telur ábótavant. Í frumvarpinu var reynt að bregðast við ábendingum Ríkisendurskoðunar og ráða bót á þeim vanköntum sem stofnunin bendir á varðandi stjórn, skipulag og eftirlit með málaflokknum. Athugasemdum verður ekki að fullu mætt nema með heildarendurskoðun laga um málefni fatlaðs fólks sem áætlað er að ljúki í árslok 2014 samkvæmt ákvæði til bráðabirgða II í lögunum.
Vinna starfshóps.
Í ákvæði til bráðabirgða XIII í lögum um málefni fatlaðs fólks er kveðið á um að ráðherra skuli „eigi síðar en 1. október 2011 leggja fram á Alþingi tillögu til þingsályktunar um framkvæmdaáætlun í málefnum fatlaðs fólks. Þar [skuli] setja fram stefnu í málefnum fatlaðs fólks, skýra forgangsröðun verkefna, markvissa aðgerðaáætlun og skilgreinda árangursmælikvarða. Tímasettar verði m.a. aðgerðir vegna lögfestingar samnings Sameinuðu þjóðanna um réttindi fatlaðs fólks, aðgengismála, biðlista eftir þjónustu, atvinnumála fatlaðs fólks og samræmds mats á þjónustu.“
Starfshópur til að undirbúa þingsályktunartillöguna var skipaður 7. júní 2011 og var honum gert að ljúka störfum eigi síðar en 1. október sama ár. Í hópnum sátu Lára Björnsdóttir, formaður, skipuð af velferðarráðherra, Gerður A. Árnadóttir, tilnefnd af Landssamtökunum Þroskahjálp, Guðmundur Magnússon, tilnefndur af Öryrkjabandalagi Íslands, Hjalti Þór Vignisson, tilnefndur af Sambandi íslenskra sveitarfélaga, og Rún Knútsdóttir, Sigríður Jónsdóttir og Þór G. Þórarinsson, skipuð af velferðarráðherra. Rósa G. Bergþórsdóttir var starfsmaður hópsins. Ekki reyndist unnt að standa við þann tímafrest sem gefinn var í lögunum og var það tilkynnt forseta Alþingis með bréfi dagsettu 27. september 2011.
Hópurinn hélt 14 fundi og auk þess tvo vinnudaga þar sem unnið var að áætluninni og fundað með fötluðu fólki og fagaðilum sem búa yfir dýrmætri reynslu og þekkingu á málaflokknum. Gestir á fundum hópsins voru Helga Baldvinsdóttir og Bjargardóttir og Rannveig Traustadóttir frá Rannsóknarsetri í fötlunarfræðum við Háskóla Íslands, Dóra S. Bjarnason og Vilborg Jóhannsdóttir frá menntavísindasviði Háskóla Íslands, Páll Matthíasson frá geðsviði Landspítalans, Anna Kristinsdóttir og María Rúnarsdóttir frá Reykjavíkurborg, Hrefna Haraldsdóttir frá Sjónarhóli og Elfa Dögg Þórðardóttir frá Samtökum sunnlenskra sveitarfélaga. Fundað var með fulltrúum sjö hópa fólks með ólíkar skerðingar. Á þá fundi mættu Sigrún Birgisdóttir frá Umsjónarfélagi einhverfra, Tryggvi Friðjónsson frá Sjálfsbjörg, Heiðdís Dögg Eiríksdóttir og Hjördís Anna Haraldsdóttir frá Félagi heyrnarlausra, Kristinn H. Einarsson og Páll R. M. Kristjánsson frá Blindrafélaginu, Aileen Soffía Svensdóttir og María Hreiðarsdóttir frá Átaki, félagi fólks með þroskahömlun, Lára M. Jónsdóttir og Lilja R. Óskarsdóttir frá foreldrafélagi Klettaskóla og Kristín Tómasdóttir og Bjarney Lúðvíksdóttir frá Geðhjálp.
Við undirbúning þingsályktunartillögunnar var starf annarra hópa og nefnda sem nú vinna að málefnum fatlaðs fólks í umboði velferðarráðherra haft til hliðsjónar, þ.e. starf samráðsnefndar um málefni fatlaðs fólks, nefndar um réttindagæslu fatlaðs fólks, starfshóps um framtíðarskipan atvinnumála fatlaðs fólks, verkefnisstjórnar um notendastýrða persónulega aðstoð og starfshóps fimm ráðuneyta sem vinnur að undirbúningi fullgildingar samnings Sameinuðu þjóðanna um réttindi fatlaðs fólks.
Tillagan var send innanríkisráðuneytinu, mennta- og menningarmálaráðuneytinu og umhverfisráðuneytinu til kynningar og bárust umsagnir frá þeim sem tekið var mið af við lokafrágang hennar.
Mikilvæg gögn í starfi hópsins.
Mikilvæg gögn sem höfð voru til hliðsjónar í starfi hópsins eru:
– Lög um málefni fatlaðs fólks, nr. 59/1992, með síðari breytingum, ásamt nefndaráliti félags- og tryggingamálanefndar um frumvarp til laga um breytingu á lögunum sem varð að lögum nr. 152/2010 sem tóku gildi 1. janúar 2011.
– Samningur Sameinuðu þjóðanna um réttindi fatlaðs fólks.
– Skýrsla Ríkisendurskoðunar um þjónustu við fatlaða frá ágúst 2010.
– Úttekt sem Félagsvísindastofnun Háskóla Íslands gerði í samvinnu við Stofnun stjórnsýslufræða og stjórnmála og Rannsóknarseturs í fötlunarfræðum að beiðni félags- og tryggingamálaráðuneytisins um stöðu fatlaðs fólks og þjónustu við það við flutning málaflokksins frá ríki til sveitarfélaga en niðurstöðurnar voru birtar í október 2011 og var haldið málþing um þær.
– Stefnur og aðgerðir í málaflokki fatlaðs fólks á Norðurlöndunum.
– Stefnur og aðgerðir í málaflokki fatlaðs fólks innan Evrópusambandsins.
Helstu atriði í þingsályktuninni.
Í þingsályktuninni birtist annars vegar stefna í málaflokknum og hins vegar framkvæmdaáætlun sem byggist á stefnunni.
Stefnunni er ætlað að endurspegla bæði markmið laga um málefni fatlaðs fólks og mannréttindasjónarmið sem meðal annars er að finna í samningi Sameinuðu þjóðanna um málefni fatlaðs fólks sem Ísland undirritaði árið 2007. Lagt er til að stefnan sé í meginatriðum sett fram til ársins 2020 en metið verði hvort samþykkja þurfi breytingar á stefnunni við endurskoðun laga um málefni fatlaðs fólks í árslok 2014.
Framkvæmdaáætlunin nær til þriggja ára, 2012–2014. Gert er ráð fyrir að hún verði endurskoðuð að þeim tíma liðnum. Velferðarráðuneytið hefur heildarumsjón með framkvæmd áætlunarinnar en ábyrgð á einstökum verkefnum er ýmist í höndum þess eða annarra aðila. Ábyrgðaraðilum er falið að leggja mat á verkefni í samræmi við mælikvarða sem tilgreindir eru innan hvers og eins verkefnis.
Mat á kostnaðaráhrifum.
Framkvæmd stefnunnar sem mótuð er með þingsályktunartillögu þessari mun hafa í för með sér kostnaðarauka fyrir þá aðila sem eiga að sjá um undirbúning og framkvæmd stefnunnar. Heildarkostnaður sem skiptist á þrjú ár, þ.e. 2012, 2013 og 2014, er lauslega áætlaður 150 m.kr.
Ekki hefur verið lögð vinna í ítarlegt kostnaðarmat einstakra liða aðgerðaáætlunarinnar enda er kostnaður við marga þætti óljós. Aftur á móti er unnt að ná markmiðum allmargra þátta með breyttum vinnuaðferðum án þess að það leiði til kostnaðarauka og nokkur verkefni er unnt að framkvæma innan núverandi fjárheimilda hjá framkvæmdaaðilum.
Þingskjal 682 — 440. mál.
Tillaga til þingsályktunar
um framkvæmdaáætlun í málefnum
fatlaðs fólks til ársins 2014.
(Lögð fyrir Alþingi á 140. löggjafarþingi 2011–2012.)
Alþingi ályktar, sbr. ákvæði til bráðabirgða XIII í lögum um málefni fatlaðs fólks, nr. 59/1992, sbr. lög nr. 152/2010, að samþykkja eftirfarandi framkvæmdaáætlun í málefnum fatlaðs fólks fyrir árin 2012–2014.
Framkvæmdaáætlunin taki mið af samningi Sameinuðu þjóðanna um réttindi fatlaðs fólks auk annarra alþjóðlegra mannréttindasáttmála sem Ísland er aðili að. Lögð verði áhersla á jafnrétti og bann við mismunun á grundvelli fötlunar og viðurkennt að fötlun sé hugtak sem þróast og breytist og að fötlun verði til í samspili einstaklinga sem eru með skerðingar, umhverfis og viðhorfa sem hindri fulla og virka samfélagsþátttöku til jafns við aðra.
EITT SAMFÉLAG FYRIR ALLA
I. Stefna í málaflokki fatlaðs fólks 2012–2020.
Íslenskt samfélag byggist á virðingu fyrir fjölbreytileika og viðurkenningu á fötluðu fólki sem hluta af mannlegum margbreytileika og mannlegu eðli.
Tryggt verði að fatlað fólk njóti allra mannréttinda og mannfrelsis til fulls og jafns við aðra, því sé tryggð vernd og frelsi til að njóta þeirra réttinda og að virðing sé borin fyrir mannlegri reisn þess.
Fötluðu fólki verði tryggt jafnrétti og sambærileg lífskjör á við aðra þjóðfélagsþegna og sköpuð skilyrði til eðlilegs lífs. Í því skyni verði barist gegn fátækt og félagslegri útskúfun. Fatlað fólk hafi sama rétt og aðrir íbúar landsins til að halda mannlegri reisn og njóta sjálfræðis, jafnréttis og samstöðu. Með því njóti fatlað fólk góðs af öllum almennum aðgerðum stjórnvalda sem eiga að stuðla að jöfnuði, svo sem á sviði húsnæðis-, mennta-, trygginga- og atvinnumála.
Stefna í málefnum fatlaðs fólks taki mið af alþjóðlegum skuldbindingum sem íslensk stjórnvöld hafa gengist undir, einkum samningi Sameinuðu þjóðanna um réttindi fatlaðs fólks. Fatlað fólk komi að stefnumótun og ákvarðanatöku í eigin málum.
Tryggt verði að samtök fatlaðs fólks og aðildarfélög þeirra hafi áhrif á stefnumörkun og ákvarðanir er varða málefni þeirra. Velferðarráðuneytið beri ábyrgð á öflun upplýsinga um þjónustu við fatlað fólk frá sveitarfélögum og því að samhæfðir árangursmælikvarðar á grundvelli laga, stefnu í málefnum fatlaðs fólks og samnings Sameinuðu þjóðanna um réttindi fatlaðs fólks verði skilgreindir svo unnt sé að vakta þjónustuna og meta árangur með tilliti til jafnræðis og mannréttinda.
Þeir sem búa við fötlun njóti virðingar jafnt og aðrir og eigi kost á stuðningi til sjálfstæðis og lífsgæða sem stuðla að því að þeir fái notið sín sem fullgildir þegnar samfélagsins á forsendum eigin getu og styrkleika.
Fatlað fólk njóti jafnréttis og sambærilegra lífskjara á við aðra þjóðfélagsþegna og búi við skilyrði til þess að lifa eðlilegu lífi, jafnt börn sem fullorðnir.
II. Framkvæmdaáætlun í málaflokki fatlaðs fólks 2012–2014.
Framkvæmdaáætlun sem byggist á stefnu í málaflokki fatlaðs fólka nái til þriggja ára, 2012–2014, með hliðsjón af ákvæði til bráðabirgða XII í lögum um málefni fatlaðs fólks en í þeim segir að heildarendurskoðun laganna með hliðsjón af endurskoðun laga um félagsþjónustu sveitarfélaga, nr. 40/1991, skuli lokið í árslok 2014. Þá skal einnig hafa farið fram endurmat á stöðu málaflokksins eftir yfirfærslu hans frá ríki til sveitarfélaga.
Velferðarráðuneytið hafi heildarumsjón með framkvæmd áætlunarinnar og einnig umsjón með tilteknum aðgerðum, en önnur ráðuneyti, þjónustusvæði, sveitarfélög og eftir atvikum aðrir aðilar beri ábyrgð á öðrum einstökum aðgerðum og leggi mat á þær í samræmi við mælikvarða sem tilgreindir verði innan hverrar aðgerðar. Víðtækt samstarf verði haft við notendur, hagsmunaaðila og atvinnulíf um framkvæmd stefnunnar til að þekking og reynsla nýtist sem best.
Framkvæmdaáætlunin skiptist í átta málasvið og innan hvers þeirra verði þrjú til átta verkefni með skilgreindu markmiði:
A. Aðgengi.
Alþingi ályktar að gott aðgengi sé eitt af lykilhugtökum þegar rætt er um jafnrétti og jafna stöðu allra í samfélaginu, sama hvort átt er við mannvirki, aðgang að upplýsingum eða möguleika til tjáskipta.
B. Atvinna.
Alþingi ályktar að starf á vinnumarkaði stuðli að fjárhagslegu sjálfstæði einstaklings, styðji við persónulegan þroska og vinni gegn fátækt.
C. Félagsleg vernd/sjálfstætt líf.
Alþingi ályktar að fötluðu fólki skuli tryggt jafnrétti og sambærileg lífskjör á við aðra þjóðfélagsþegna og sköpuð skilyrði til eðlilegs lífs. Barist verði gegn fátækt og félagslegri útskúfun fatlaðs fólks.
D. Heilbrigði.
Alþingi ályktar að fatlað fólk, börn og fullorðnir, skuli eiga rétt á bestu fáanlegri heilbrigðisþjónustu sem er fyrirbyggjandi og sérhæfð þegar við á. Fatlað fólk skuli hafa sama aðgengi og aðrir íbúar að heilbrigðisþjónustu.
E. Ímynd og fræðsla.
Alþingi ályktar að auka þurfi þekkingu og almenna vitund um málefni tengd fötlun og stöðu fatlaðs fólks í samfélaginu. Þetta sé best gert með því að fatlað fólk verði sýnilegt í samfélaginu, svo sem í menntastofnunum, fjölmiðlum og á vinnustöðum.
F. Jafnrétti.
Alþingi ályktar að þar sem margvíslegar hindranir í umhverfinu og samfélagsgerðinni standi í vegi fyrir því að fatlað fólk öðlist jafnrétti á Íslandi og margt fatlað fólk upplifi fordóma og þekkingarleysi vegna fötlunar sinnar, og geti auk þess glímt við fleiri en eina tegund mismununar, svo sem vegna aldurs, kynferðis, uppruna eða kynhneigðar, verði brugðist við af fullri alvöru, meðal annars með því að fara að alþjóðlegum mannréttindasamningum sem Ísland hefur undirritað og aðlaga bæði íslenska löggjöf og framkvæmd í þessu skyni.
G. Menntun.
Alþingi ályktar að fatlað fólk skuli njóta jafnréttis til náms í raun og eiga kost á að velja um fjölbreyttar námsleiðir eftir áhugasviði og getu.
H. Þátttaka.
Alþingi ályktar að fatlað fólk skuli eiga þess kost að taka fullan þátt í félagslegu og efnahagslegu starfi samfélagsins. Það skuli eiga þess kost að nýta borgaralegan rétt sinn, eiga val um hvar og hvernig það lifir og hafa fullan aðgang að menningu, tómstundum og afþreyingu.
III. Einstök málasvið framkvæmdaáætlunarinnar.
A. Aðgengi.
Alþingi ályktar að gott aðgengi sé eitt af lykilhugtökum þegar rætt er um jafnrétti og jafna stöðu allra í samfélaginu, sama hvort átt er við mannvirki, aðgang að upplýsingum eða möguleika til tjáskipta. Heimili, skólar, vinnustaðir, tómstunda- og íþróttamiðstöðvar, verslanir, opinberar byggingar og annað húsnæði sem almenningur á aðgang að skulu vera aðgengileg öllum út frá algildri hönnun samkvæmt lögum um mannvirki. Það sama gildi um opin svæði fyrir almenning, svo sem skipulögð útivistarsvæði, almenningsgarða og mannvirki á svæðum sem ætluð eru til útivistar.
Upplýsingar er varða almenning skulu vera á því formi að allir geti skilið og tileinkað sér þær og er þá átt við táknmál, textun, punktaletur og auðskilið mál. Til að svo megi verða verði öll nýjasta tækni nýtt og notað táknmál hvar sem því verður við komið.
A.1 Manngert umhverfi.
Markmið: Að tryggja öllum jafnt aðgengi að manngerðu umhverfi.
Framkvæmd: Í hverju sveitarfélagi verði gerð úttekt á aðgengismálum hvað varðar aðgengi að opinberum byggingum, umferðarmannvirkjum og öðrum stöðum sem almenningur hefur aðgang að. Í framhaldinu verði gerð áætlun um úrbætur ef við á.
Ábyrgð: Sveitarfélög.
Samstarfsaðilar: Skipulagsstofnun og Mannvirkjastofnun.
Tímabil: Úttekt verði lokið fyrir árslok 2012 og áætlun liggi fyrir um úrbætur fyrir árslok 2013.
Kostnaður: Innan ramma.
Mælikvarði: Hlutfall sveitarfélaga sem hafa lokið úttekt og gert áætlun.
A.2 Almenningssamgöngur.
Markmið: Að allir geti nýtt sér almenningssamgöngur sem í boði eru.
Framkvæmd: Sveitarfélög sem bjóða upp á almenningssamgöngur skilgreini tilteknar áætlanaleiðir á stofnleiðum þar sem einungis aka strætisvagnar sem aðgengilegir eru hreyfihömluðum. Þjónustan verði kynnt sérstaklega.
Ábyrgð: Sveitarfélög.
Samstarfsaðili: Innanríkisráðuneytið.
Tímabil: Verkefnið hefjist árið 2012 og standi til ársloka 2014.
Kostnaður: Innan ramma.
Mælikvarði: Hlutfall fatlaðs fólks sem er ánægt með almenningssamgöngur.
A.3 Ný mannvirki.
Markmið: Að algild hönnun verði viðhöfð við hönnun allra mannvirkja.
Framkvæmd: Algild hönnun verði kynnt sérstaklega fyrir byggingarfulltrúum, arkitektum, verkfræðingum og öðrum hönnuðum og nefndum sveitarfélaga á sviði skipulags- og byggingarmála. Jafnframt verði algild hönnun kynnt ráðuneytum og stofnunum þeirra.
Ábyrgð: Umhverfisráðuneytið.
Samstarfsaðilar: Sveitarfélög.
Tímabil: Kynningar fari fram á árunum 2012 og 2013.
Kostnaður: Innan ramma.
Mælikvarði: Hlutfall sveitarfélaga þar sem kynningar hafa farið fram.
A.4 Akstursþjónusta.
Markmið: Að fötluðu fólki standi til boða akstursþjónusta til að geta verið virkir þátttakendur í daglegu lífi.
Framkvæmd: Á hverju þjónustusvæði verði sett fram aðgerðaáætlun í akstursþjónustu við fatlað fólk og þróaðar nýjar leiðir til að mæta þörfum notenda.
Ábyrgð: Þjónustusvæði.
Samstarfsaðilar: Samband íslenskra sveitarfélaga og hagsmunasamtök fatlaðs fólks.
Tímabil: Gerð aðgerðaáætlunar ljúki árið 2012 og árangur verði metinn í árslok 2014.
Kostnaður: Kostnaður verði metinn í aðgerðaáætlun.
Mælikvarði: Hlutfall ánægðra notenda akstursþjónustu.
A.5 Upplýsingar.
Markmið: Að allt fatlað fólk hafi óhindraðan aðgang að upplýsingum um réttindi sín og þá þjónustu sem í boði er.
Framkvæmd: Sveitarfélög og þjónustusvæði sjái til þess að á heimasíðum þeirra verði aðgengilegt efni fyrir fatlað fólk. Fyrirmynd að framkvæmd gæti verið frá Reykjavíkurborg sem hefur þegar gert nauðsynlegar breytingar á vefsvæði sínu og fengið vottun. Þannig geta hópar fatlaðra sem ekki geta nýtt sér hefðbundna framsetningu efnis notað vefinn.
Ábyrgð: Sveitarfélög.
Samstarfsaðilar: Samband íslenskra sveitarfélaga og hagsmunasamtök fatlaðs fólks.
Tímabil: Árslok 2013.
Kostnaður:
Mælikvarði: Hlutfall sveitarfélaga sem eru með vottaðar heimasíður við lok tímabils.
A.6 Menntastofnanir.
Markmið: Að allir skólar landsins verði aðgengilegir fötluðum nemendum og aðstandendum þeirra.
Framkvæmd: Starfshópur sérfræðinga á sviði skóla- og fötlunarmála semji viðmið og leiðbeiningar fyrir skóla landsins. Þar verði tekið tillit til þess að bæði nemendur og foreldrar ófatlaðra nemenda geta búið við margvíslegar skerðingar sem taka þarf tillit til svo að þeir geti tekið þátt í skólastarfi og félags- og tómstundastarfi.
Ábyrgð: Mennta- og menningarmálaráðuneytið.
Samstarfsaðilar: Sveitarfélög, hagsmunasamtök fatlaðs fólks og foreldra og skólastofnanir á vegum ríkisins.
Tímabil: 2012–2014.
Kostnaður:
Mælikvarði: Hlutfall skóla sem hafa sett sér viðmið um aðgengi.
B. Atvinna.
Alþingi ályktar að starf á vinnumarkaði stuðli að fjárhagslegu sjálfstæði einstaklings, styðji við persónulegan þroska og vinni gegn fátækt. Verkefni sem hafi það markmið að gera vinnustaði aðgengilega, styðji við fatlað fólk á almennum vinnumarkaði og auki aðgengi þess að almennum vinnumarkaði verði unnin til að auka lífsgæði. Stuðningur við fatlað fólk á almennum vinnumarkaði felist í aðstoð sem byggist á reynslu og þekkingu. Íslensk stjórnvöld setji sér það takmark að 85% fatlaðs fólks á vinnualdri hafi vinnu, virkniúrræði eða stundi nám við hæfi í lok árs 2014.
B.1 Atvinnuþátttaka á almennum vinnumarkaði.
Markmið: Að auka og styrkja samstarf um atvinnu fyrir fatlaða við aðila á almennum vinnumarkaði.
Framkvæmd: a. Stofnaður verið samstarfshópur aðila vinnumarkaðarins og Vinnumálastofnunar. Hópurinn skilgreini skýr markmið og aðgerðir sem meðal annars tryggi að fatlað fólk geti unnið á almennum vinnumarkaði með sérstökum stuðningi.
b. Sett verði á laggirnar verkefni þar sem tíu fyrirtæki taki þátt í verkefni undir yfirskriftinni „samfélagsleg ábyrgð“ þar sem fatlað fólk fái tækifæri til þátttöku á vinnumarkaði.
Ábyrgð: Vinnumálastofnun.
Samstarfsaðilar: Þjónustusvæði/sveitarfélög og hagsmunasamtök fatlaðs fólks.
Tímabil: Verkefnið hefjist árið 2012 með skilgreindum áföngum til ársloka 2014.
Kostnaður: Eitt stöðugildi í eitt ár, samtals 8 milljónir króna.
Mælikvarði: Fjöldi fyrirtækja sem tekur þátt í verkefninu.
B.2 Atvinna með stuðningi.
Markmið: Að fatlað fólk fái stuðning á almennum vinnumarkaði.
Framkvæmd: Að boðið sé upp á fjölbreytileg úrræði fyrir fatlað fólk á vinnumarkaði sem fylgt sé eftir með einstaklingsbundnum áætlunum eða samningum. Stjórnendur og samstarfsfólk fái fræðslu þegar fatlaður einstaklingur hefur störf í fyrirtækinu.
Ábyrgð: Vinnumálastofnun.
Samstarfsaðilar: Þjónustusvæði/sveitarfélög, svæðisvinnumiðlanir og hagsmunaaðilar.
Tímabil: Viðvarandi.
Kostnaður: Innan ramma.
Mælikvarði: Að gert verði stöðumat í ársbyrjun 2014 um fjölda fatlaðs fólks með stuðning á almennum vinnumarkaði.
B.3 Virkniúrræði.
Markmið: Að fatlað fólk fái tækifæri til að nýta virkniúrræði.
Framkvæmd: Fatlað fólk án atvinnu fái tilboð um virkniúrræði sem vari að minnsta kosti fjórar klukkustundir á dag fimm daga vikunnar og fái tækifæri til að takast á við verkefni sem hæfa aldri þess og getu.
Ábyrgð: Vinnumálastofnun.
Samstarfsaðilar: Þjónustusvæði/sveitarfélög og hagsmunasamtök fatlaðs fólks.
Tímabil: 2012–2014.
Kostnaður: Innan ramma.
Mælikvarði: Að gert verði stöðumat í árslok 2014 um fjölda fatlaðs fólks í virkniúrræðum.
B.4 Nýsköpunar- og frumkvöðlastarf.
Markmið: Að auka nýsköpunar- og frumkvöðlastarf meðal fatlaðs fólks.
Framkvæmd: Fötluðu fólki verði skapaðar aðstæður til að vinna að nýsköpun, meðal annars með því að koma upp tilraunasmiðjum um landið. Sérstakir frumkvöðlastyrkir verði í boði á hverju ári.
Ábyrgð: Vinnumálastofnun.
Samstarfsaðilar: Þjónustusvæði/sveitarfélög, hagsmunaaðilar og Nýsköpunarmiðstöð Íslands.
Tímabil: 2012–2014.
Kostnaður: Þrjú stöðugildi og frumkvöðlastyrkir í þrjú ár, samtals 30 milljónir króna.
Mælikvarði: Að þrjár smiðjur verði komnar af stað í árslok 2014.
B.5 Hugbúnaðar- og tæknigeirinn.
Markmið: Að auka þátttöku fatlaðra í hugbúnaðar- og tæknigeiranum.
Framkvæmd: Stofnað verði til samstarfs við hugbúnaðar- og tæknifyrirtæki. Stuðlað verði að þátttöku tíu fatlaðra einstaklinga á ári í verkefnum á þeirra vegum.
Ábyrgð: Vinnumálastofnun.
Samstarfsaðilar: Þjónustusvæði/sveitarfélög og hagsmunasamtök.
Tímabil: 2012–2014.
Kostnaður: Innan ramma.
Mælikvarði: Fjöldi einstaklinga sem hafa tekið þátt í verkefnum árið 2014.
C. Félagsleg vernd/sjálfstætt líf.
Alþingi ályktar að fötluðu fólki skuli tryggt jafnrétti og sambærileg lífskjör á við aðra þjóðfélagsþegna og sköpuð skilyrði til eðlilegs lífs. Barist verði gegn fátækt og félagslegri útskúfun fatlaðs fólks. Fatlað fólk skal hafa sama rétt og aðrir íbúar landsins til að halda mannlegri reisn og njóta sjálfræðis, jafnréttis og samstöðu. Fatlað fólk njóti góðs af öllum almennum aðgerðum stjórnvalda sem eiga að stuðla að jöfnuði, svo sem á sviði húsnæðis-, mennta-, trygginga- og atvinnumála. Þjónusta við fatlað fólk skal miða að því að auka sjálfstæði og lífsgæði þess. Hún skal vera heildstæð, sveigjanleg og einstaklingsbundin og taka til allra þátta lífsins.
C.1 Val um þjónustu.
Markmið: Að fatlað fólk hafi val um tegund þjónustu og framkvæmd hennar.
Framkvæmd: Áður en þjónustan er veitt fari fram einstaklingsbundið mat á þjónustuþörf og gerð einstaklingsbundin áætlun í samráði við notandann. Áætlun sé heildstæð, sveigjanleg og einstaklingsbundin og taki til allra þátta dagslegs lífs. Notendastýrð persónuleg aðstoð verði tekin upp í áföngum.
Ábyrgð: Þjónustusvæði.
Samstarfsaðilar: Notendur.
Tímabil: Verkefnið hefjist árið 2012 og verði viðvarandi en notendastýrð persónuleg aðstoð verði tekin upp í áföngum.
Kostnaður: Innan ramma.
Mælikvarði: Hlutfall fatlaðra notenda sem eru með einstaklingsbundna áætlun um þjónustu.
C.2 Samfella og öryggi í þjónustu.
Markmið: Að auka öryggi og samfellu í þjónustu við fatlað fólk.
Framkvæmd: Þegar einstaklingur/barn í fjölskyldu hefur fengið greiningu á fötlun fái einstaklingurinn/fjölskyldan tilboð um tengilið sem fylgir þeim svo lengi sem hann/hún vill og telur þörf fyrir. Félagsþjónusta sveitarfélaga tilnefni tengilið/fagaðila í samráði við notandann.
Ábyrgð: Þjónustusvæði.
Samstarfsaðilar: Sveitarfélög og Greiningar- og ráðgjafarstöð ríkisins.
Tímabil: Verkefnið hefjist árið 2012 og verði viðvarandi.
Kostnaður: Innan ramma.
Mælikvarði: Hlutfall notenda á hverju þjónustusvæði sem fengið hafa tengilið.
C.3 Aðgengi að þjónustu.
Markmið: Að tryggja að þjónusta við fatlað fólk á heimilum þeirra uppfylli þjónustuþörf á hverju þjónustusvæði og stefna að því að biðlistum verði eytt.
Framkvæmd: Í hverju sveitarfélagi verði gerð áætlun um það hvernig mæta eigi þörf fyrir þjónustu þannig að bið eftir þjónustu verði aldrei meiri en tólf mánuðir, sbr. reglugerð nr. 1054/2010, um þjónustu við fatlað fólk á heimili sínu.
Ábyrgð: Þjónustusvæði.
Samstarfsaðilar: Sveitarfélögin.
Tímabil: Áætlanagerð sé lokið fyrir árslok 2012. Mæling á árangri verði gerð í árslok 2014.
Kostnaður: Kostnaðaráætlun liggi fyrir í árslok 2012.
Mælikvarði: Fjöldi þjónustusvæða sem hefur lokið áætlanagerð árið 2012. Hlutfall einstaklinga sem fá úrlausn innan tólf mánaða.
C.4 Hjálpartæki/tæknilausnir.
Markmið: Að fatlað fólk fái tækifæri til að nýta sér nútímatækni og tæknitengdar lausnir þegar þjónusta er veitt.
Framkvæmd: Hjálpartækjamiðstöð ásamt samstarfsaðilum kynni tæknilausnir og tækninýjungar fyrir notendum og starfsfólki sveitarfélaga.
Ábyrgð: Hjálpartækjamiðstöð Sjúkratrygginga Íslands.
Samstarfsaðilar: Þjónustu- og þekkingarmiðstöð fyrir blinda, sjónskerta og daufblinda einstaklinga, Heyrnar- og talmeinastöð Íslands, Samskiptamiðstöð heyrnarlausra og heyrnarskertra, Greiningar- og ráðgjafarstöð ríkisins og Blindrabókasafn Íslands.
Tímabil: 2012–2013.
Kostnaður: Innan ramma.
Mælikvarði: Hlutfall starfsfólks þjónustusvæða sem hefur fengið fræðslu.
C.5 Sveigjanlegt vinnufyrirkomulag í þjónustu við fatlað fólk.
Markmið: Að auka sveigjanleika í vinnufyrirkomulagi þjónustu við fatlað fólk.
Framkvæmd: Sett verði á fót tilraunaverkefni á tveimur þjónustusvæðum í samvinnu við stéttarfélögin sem miði að því að breyta viðhorfum og vinnufyrirkomulagi í þjónustu við fatlað fólk. Gert verði stöðumat við upphaf verkefnis á ánægju notenda með þjónustu og við lok verkefnis.
Ábyrgð: Samband íslenskra sveitarfélaga.
Samstarfsaðilar: Þjónustusvæði, stéttarfélög og notendur.
Tímabil: 2012–2014.
Kostnaður: 75% stöðugildi í þrjú ár, 6 milljónir króna á ári, samtals 18 milljónir króna.
Mælikvarði: Ánægja notenda með þjónustuna.
C.6 Val um búsetu.
Markmið: Að fatlað fólk hafi til jafns við aðra val um búsetu í samræmi við óskir sínar og þarfir.
Framkvæmd: Fjölbreyttir húsnæðiskostir verði í boði og áætlun sett þar um. Allt húsnæði uppfylli ákvæði reglugerðar nr. 1054/2010, um þjónustu við fatlað fólk á heimili sínu, um lágmarksstærð einkarýmis og aðgengi. Kannað verði hvernig unnt sé að auka aðgengi fatlaðs fólks að lánum á hagstæðum kjörum til íbúðakaupa og styrkjum og/eða lánum til breytinga á eigin húsnæði.
Ábyrgð: Þjónustusvæði.
Samstarfsaðilar: Íbúðalánasjóður og velferðarráðuneytið.
Tímabil: 2012–2014.
Kostnaður: Kostnaðargreining liggi fyrir árið 2013.
Mælikvarði: Hlutfall þjónustusvæða þar sem áætlun er lokið árið 2012.
C.7 Húsnæðisgerð.
Markmið: Að öll heimilisumgjörð fatlaðs fólks fullnægi almennum viðmiðum um heimili fólks samkvæmt reglugerð nr. 1054/2010, um þjónustu við fólk á heimili sínu.
Framkvæmd: Gerð verði áætlun á hverju þjónustusvæði í samvinnu sveitarfélaga, hagsmunaaðila og notenda þar sem tekið sé mið af gildandi reglugerð. Lögð verði niður í áföngum búseta sem ekki uppfyllir framangreind skilyrði, svo sem herbergjasambýli. Aukin verði framlög í Jöfnunarsjóð sveitarfélaga til að mæta kostnaði við aukna húsnæðisþörf.
Ábyrgð: Þjónustusvæði.
Samstarfsaðili: Jöfnunarsjóður sveitarfélaga.
Tímabil: Áætlun liggi fyrir í lok árs 2012 og stöðumat verði unnið árið 2013.
Kostnaður: Mat á þörf fyrir aukin fjárframlög liggi fyrir árið 2014.
Mælikvarði: Fækkun herbergjasambýla.
C.8 Heildræn þjónusta við fötluð börn og fjölskyldur þeirra.
Markmið: Að öll fötluð börn alist upp í fjölskyldu.
Framkvæmd: Börn á öllum aldri fái heildstæða þjónustu. Áætlun verði gerð fyrir hvert barn um hvernig skuli samþætta félags-, skóla- og frístundaþjónustu í samræmi við aldur, fötlun og þarfir barnsins og fjölskyldu þess.
Ábyrgð: Þjónustusvæði.
Samstarfsaðilar: Sveitarfélög, skólar, frístundaheimili og Greiningar- og ráðgjafarstöð ríkisins.
Tímabil: Viðvarandi.
Kostnaður: Innan ramma en fjármagn gæti þurft að flytja milli þjónustuþátta.
Mælikvarði: Hlutfall fatlaðra barna á hverju þjónustusvæði með heildstæða áætlun árin 2013 og 2014.
D. Heilbrigði.
Alþingi ályktar að fatlað fólk, börn og fullorðnir, skuli eiga rétt á bestu fáanlegri heilbrigðisþjónustu sem er fyrirbyggjandi og sérhæfð þegar við á. Fatlað fólk hafi sama aðgengi og aðrir íbúar að heilbrigðisþjónustu. Heilbrigðisþjónustan axli ábyrgð á þjónustu við einstaklinga með sérhæfðar heilsuþarfir vegna fötlunar, óháð kynferði og tegund fötlunar.
D.1 Heilsugæslan.
Markmið: Að efla heilsugæslu sem grunnheilbrigðisþjónustu til að mæta þörfum fatlaðs fólks.
Framkvæmd: Hlutverk heilsugæslunnar verði endurskoðað með tilliti til þarfa fatlaðs fólks. Starfsfólki með fjölbreytta fagmenntun verði fjölgað til að mæta þörfum fatlaðs fólks og fólks með langvinna sjúkdóma.
Ábyrgð: Velferðarráðuneytið.
Samstarfsaðilar: Heilsugæslustöðvar.
Tímabil: Endurskoðun verði lokið og tillögur lagðar fram fyrir árslok 2013.
Kostnaður: Innan ramma.
Mælikvarði: Fjölgun fagstétta innan heilsugæslunnar.
D.2 Geðheilbrigðisþjónusta.
Markmið: Að fatlað fólk fái geðheilbrigðisþjónustu er best hentar þörfum hvers og eins.
Framkvæmd: Geðheilbrigðisþjónusta verði veitt í auknum mæli í nærumhverfi einstaklings með starfi samfélagsgeðteyma með aðkomu félagsþjónustu, heilsugæslu og sérfræðiþjónustu. Gerð verði áætlun um geðheilbrigðisþjónustu á hverju þjónustusvæði. Brýnt er að sálfræðimeðferð sé aðgengileg óháð efnahag.
Ábyrgð: Velferðarráðuneytið.
Samstarfsaðilar: Landspítali, Sjúkrahúsið á Akureyri, heilsugæslan og þjónustusvæði.
Tímabil: Gerð verði áætlun um geðheilbrigðisþjónustu á hverju þjónustusvæði. Vinnan hefjist árið 2012 og verði lokið 2014.
Kostnaður: Gerð áætlunar innan ramma.
Mælikvarði: Hlutfall þjónustusvæða þar sem samfélagsgeðteymi hefur verið komið á.
D.3 Þjálfun og endurhæfing.
Markmið: Að fötluðu fólki verði tryggður aðgangur að nauðsynlegri þjálfun, svo sem sjúkra-, iðju- og talþjálfun, í samræmi við þarfir, óháð efnahag.
Framkvæmd: Myndaður verði starfshópur fagfólks til að vinna tillögur um:
a) hámarkskostnaðarþátttöku í þjálfun og endurhæfingu og
b) aukið aðgengi fatlaðs fólks að reglubundnum þjálfunar- og endurhæfingarlotum.
Ábyrgð: Velferðarráðuneytið.
Samstarfsaðilar: Heilsugæslan, endurhæfingarstöðvar og fagfólk á sviði endurhæfingar og þjálfunar.
Tímabil: Tillögur liggi fyrir í árslok 2012.
Kostnaður: Gerð áætlunar innan ramma.
Mælikvarði: Að samþykktar reglur liggi fyrir með áætlun um kostnaðarþátttöku fatlaðs fólks í þjálfun og endurhæfingu.
D.4 Sértækur vandi.
Markmið: Að þróa úrræði til að mæta sértækum vanda fatlaðs fólks í tengslum við alvarlega sjúkdóma, lífsstíl og ofbeldi.
Framkvæmd: Settir verði á laggirnar tveir starfshópar:
a) Annar kortleggi meðferðarúrræði og komi með tillögur um leiðir til úrbóta þegar saman fara alvarlegur lífsstílsvandi og fötlun eða alvarlegir sjúkdómar og fötlun.
b) Hinn leggi fram tillögur um hvernig megi draga úr ofbeldi gegn fötluðu fólki í samfélaginu og tillögur til stuðnings þeim sem verða fyrir ofbeldi.
Ábyrgð: Embætti landlæknis.
Samstarfsaðilar: Heilsugæsla, félagsþjónusta, hagsmunasamtök fatlaðs fólks og Stígamót og sambærileg samtök.
Tímabil: Hópar verði settir á laggirnar árið 2012 og starfi út árið 2013.
Kostnaður: Innan ramma.
Mælikvarði: Að tillögur liggi fyrir eigi síðar en í árslok 2013.
D.5 Reglulegar heilbrigðisskoðanir.
Markmið: Að einstaklingum með sértækar heilbrigðisþarfir tengdar fötlun verði boðnar reglulegar heilbrigðisskoðanir, að minnsta kosti einu sinni á ári.
Framkvæmd: Fatlað fólk hafi aðgang að föstum heimilislækni til að tryggja samfellu í þjónustunni. Þá beri heilsugæslu að hafa frumkvæði að því að mæta einstaklingum með sértækar þarfir í fyrirbyggjandi starfi sínu, svo sem í mæðra- og ungbarnavernd og forvörnum, meðal annars varðandi kynheilbrigði. Einnig verði hugað sérstaklega að aðgengi fatlaðs fólks að upplýsingum og fyrirbyggjandi aðgerðum, svo sem skimunum og ónæmisaðgerðum.
Ábyrgð: Heilsugæslustöðvar.
Samstarfsaðilar: Notendur þjónustunnar og þjónustusvæði.
Tímabil: Í árslok 2013 skal allt fatlað fólk hafa fastan heimilislækni.
Kostnaður: Innan ramma.
Mælikvarði: Hlutfall fatlaðra einstaklinga með sértækar heilbrigðisþarfir á hverju þjónustusvæði sem eru í reglubundnu eftirliti.
E. Ímynd og fræðsla.
Alþingi ályktar að auka þurfi þekkingu og almenna vitund um málefni tengd fötlun og stöðu fatlaðs fólks í samfélaginu. Fatlað fólk verði sýnilegt í samfélaginu, svo sem í menntastofnunum, fjölmiðlum og á vinnustöðum. Jafnframt verði fatlað fólk gert meðvitaðra um rétt sinn svo að það geti nýtt hann. Skilningur verði aukinn meðal almennings og fatlaðs fólks um réttindi fatlaðs fólks og um notendasamráð, aukna virkni og samfélagsþátttöku þess. Fatlað fólk og samtök þess taki þátt í áætlanagerð um breytta ímynd og fræðslu.
E.1 Hugmyndafræði og orðræða.
Markmið: Að auka vitund almennings um stöðu fatlaðs fólks og breyta sýn samfélagsins á fötlun.
Framkvæmd: Ráðist verði í samhæft átak um að beina sjónum samfélagsins að stöðu fatlaðs fólks. Skipulögð verði ímyndarherferð þar sem aðaláherslan verður lögð á mannréttindi og aukinn sýnileika fatlaðs fólks.
Ábyrgð: Velferðarráðuneytið/réttindavakt ráðuneytisins.
Samstarfsaðilar: Hagsmunasamtök fatlaðs fólks.
Tímabil: 2012–2014.
Kostnaður: Innan ramma.
Mælikvarði: Mælingar sem sýna breytingu á viðhorfum til fatlaðs fólks.
E.2 Hvatningarverðlaun til fjölmiðla.
Markmið: Að auka sýnileika fatlaðs fólks í fjölmiðlum og fá fram faglega og upplýsandi umfjöllun um stöðu og réttindi fatlaðs fólks í samfélaginu.
Framkvæmd: Réttindavakt velferðarráðuneytisins skipi dómnefnd sem velji og verðlauni fjölmiðil sem skarað hefur fram úr við að fjalla um málefni fatlaðs fólks á faglegan hátt út frá þátttöku, aðgengi og réttindum þeirra.
Ábyrgð: Velferðarráðuneytið/réttindavakt ráðuneytisins.
Samstarfsaðilar: Hagsmunasamtök fatlaðs fólks.
Tímabil: 2012–2014.
Kostnaður: Innan ramma.
Mælikvarði: Að hvatningarverðlaun verði veitt á tímabilinu.
E.3 Fræðsla til starfsfólks og kjörinna fulltrúa sveitarfélaga.
Markmið: Að auka þekkingu á málefnum fatlaðs fólks og skilning á margbreytileika samfélagsins.
Framkvæmd: Samið verði fræðsluefni fyrir kjörna fulltrúa og starfsfólk félagsþjónustu og námskeið verði haldin með skipulögðum hætti á öllum þjónustusvæðum félagsþjónustu sveitarfélaga.
Ábyrgð: Velferðarráðuneytið/réttindavakt ráðuneytisins.
Samstarfsaðilar: Hagsmunasamtök og Samband íslenskra sveitarfélaga.
Tímabil: 2012–2014.
Kostnaður: Innan ramma.
Mælikvarðar: Hlutfall kjörinna fulltrúa sveitarfélagsins annars vegar og starfsfólks félagsþjónustu hins vegar sem hefur setið námskeið á tímabilinu.
E.4 Þekking heilbrigðisstarfsfólks.
Markmið: Að efla þekkingu heilbrigðisstarfsfólks á málefnum fatlaðs fólks og skilning á margbreytileika samfélagsins.
Framkvæmd: Gerð verði víðtæk fræðsluáætlun fyrir heilbrigðisstarfsfólk um málefni fatlaðs fólks, meðal annars um eðli fatlana og viðhorf gagnvart fötluðu fólki, um samskiptaleiðir og nálgun í þjónustu við fatlað fólk og um heilsuvanda og heilsutengdar þarfir. Starfshópur skipaður fulltrúum faghópa og fulltrúum fatlaðs fólks komi að samningu efnisins. Fræðslan verði skipulögð innan hvers heilbrigðisumdæmis.
Ábyrgð: Velferðarráðuneytið/réttindavakt ráðuneytisins.
Samstarfsaðili: Embætti landlæknis.
Tímabil: Fræðsluefni verði tilbúið fyrir árslok 2013. Vinna við útfærsluna hefjist árið 2014.
Kostnaður: 2 milljónir króna til fræðsluefnis.
Mælikvarði: Hlutfall heilsugæslustöðva þar sem fræðsla hefur farið fram í árslok 2014.
E.5 Menntun heilbrigðisstétta.
Markmið: Að auka færni heilbrigðisstarfsfólks í umönnun fatlaðs fólks og skilning á málefnum þeirra.
Framkvæmd: Menntun heilbrigðisstétta verði endurskoðuð út frá nútímaviðhorfum og siðferðilegum viðmiðum í málefnum fatlaðs fólks þar sem tekið er mið af hugmyndafræði um fötlun sem leggur áherslu á félagslegar aðstæður og mannréttindi. Komið verði á kennslu um heilsufarsþætti tengda fötlun í námi allra heilbrigðisstétta.
Ábyrgð: Mennta- og menningarmálaráðuneytið.
Samstarfsaðilar: Menntastofnanir með kennslu á heilbrigðisvísindasviði.
Tímabil: 2012–2015. 1
Kostnaður: Innan ramma.
Mælikvarði: Endurskoðun námskráa verði lokið fyrir árslok 2014.
E.6 Fræðsla til vinnuveitenda á almennum og opinberum vinnumarkaði.
Markmið: Að atvinnurekendur séu vel meðvitaðir um stöðu og færni fatlaðs fólks.
Framkvæmd: Útfærð verði fræðsluáætlun sem beinist að vinnuveitendum á hinum almenna og opinbera vinnumarkaði. Áhersla verði lögð á stöðu og færni fatlaðs fólks og mikilvægi þess að ávallt sé tekið tillit til hagsmuna fatlaðs fólks þegar ákvarðanir eru teknar í fyrirtækjum, stofnunum og ráðuneytum.
Ábyrgð: Velferðarráðuneytið/réttindavakt ráðuneytisins.
Samstarfsaðilar: Hagsmunasamtök, Vinnumálastofnun og Samband íslenskra sveitarfélaga.
Tímabil: Fyrir árslok 2012.
Kostnaður: Innan ramma.
Mælikvarði: Aukið hlutfall fatlaðs fólks á vinnumarkaði.
F. Jafnrétti.
Alþingi ályktar að þar sem margvíslegar hindranir í umhverfi og samfélaginu standi í vegi fyrir því að fatlað fólk öðlist jafnrétti á Íslandi og margt fatlað fólk upplifi fordóma og þekkingarleysi vegna fötlunar sinnar, og geti auk þess glímt við fleiri en eina tegund mismununar, svo sem vegna aldurs, kynferðis, uppruna eða kynhneigðar, verði brugðist við af fullri alvöru, meðal annars með því að fara að alþjóðlegum mannréttindasamningum sem Ísland hefur undirritað og aðlaga bæði íslenska löggjöf og framkvæmd í þessu skyni.
F.1 Samningur Sameinuðu þjóðanna um réttindi fatlaðs fólks.
Markmið: Að fullgilda samning Sameinuðu þjóðanna um réttindi fatlaðs fólks.
Framkvæmd: Skipuð verði samstarfsnefnd ráðuneyta um að undirbúa fullgildingu samnings Sameinuðu þjóðanna um réttindi fatlaðs fólks. Ráðuneytin yfirfari löggjöf á sínu málefnasviði og leggi til breytingar til samræmis við samninginn. Jafnframt verði íslensk þýðing samningsins endurskoðuð.
Ábyrgð: Innanríkisráðuneytið.
Samstarfsaðilar: Önnur ráðuneyti.
Tímabil: Lokið verði við endurskoðun þýðingar í apríl 2012. Frumvarp verði lagt fram á löggjafarþingi 2012–2013.
Kostnaður: Laun starfsmanns nefndarinnar í eitt ár, 8 milljónir króna, og kostnaður við endurskoðun þýðingar, 2 milljónir króna. Samtals 10 milljónir króna.
Mælikvarði: Frumvarp til fullgildingar samningsins verði lagt fram eigi síðar en á vorþingi 2013.
F.2 Fordómar og félagsleg útskúfun.
Markmið: Að vinna gegn fordómum og félagslegri útskúfun fatlaðs fólks.
Framkvæmd: Skipaður verði samstarfshópur ráðuneyta og sveitarfélaga ásamt fulltrúum háskóla á Íslandi sem unnið hafa að rannsóknum sem beinast að stöðu minnihlutahópa á Íslandi. Samstarfshópurinn fái það verkefni að skoða og greina tiltækar rannsóknir og koma með tillögur um hvernig megi nýta þær til að vinna gegn fordómum og félagslegri útskúfun varðandi lagabreytingar, framkvæmd þjónustu og viðhorfsbreytingar.
Ábyrgð: Velferðarráðuneytið.
Samstarfsaðilar: Önnur ráðuneyti, Samband íslenskra sveitarfélaga og háskólasamfélagið.
Tímabil: Hópurinn leggi fram lokaskýrslu fyrir árslok 2013.
Kostnaður: Laun verkefnisstjóra í hálfri stöðu í eitt ár, samtals 4 milljónir króna.
Mælikvarði: Tillögur til breytinga í skýrslu hópsins.
F.3 Valdefling og notendasamráð.
Markmið: Að efla og styrkja valdeflingu og notendasamráð í þjónustu við fatlað fólk.
Framkvæmd: Auglýst verði eftir þátttöku tveggja þjónustusvæða/sveitarfélaga í tilraunaverkefni til þriggja ára þar sem unnið verði með tiltekinn notendahóp eftir aðferðafræði valdeflingar og notendasamráðs. Markmið verði sett um árangur og árangursmælikvarða og árangur borinn saman við samanburðarhóp þar sem aðferðafræðin er ekki markvisst innleidd. Sérfræðingar úr háskólasamfélaginu, erlendir og innlendir, verði fengnir til samstarfs um verkefnið, meðal annars með fræðslu og stuðningi.
Ábyrgð: Velferðarráðuneytið.
Samstarfsaðili: Samband íslenskra sveitarfélaga.
Tímabil: 2012–2014.
Kostnaður: 20 milljónir króna.
Mælikvarði: Niðurstöður samanburðar milli tilraunahóps og samanburðarhóps.
F.4 Ólaunaðir umönnunaraðilar.
Markmið: Að þátttaka ólaunaðra umönnunaraðila í lífi fatlaðs fólks verði gerð sýnileg og metin að verðleikum.
Framkvæmd: Við gerð einstaklingsbundinna áætlana skuli ávallt skilgreina og skrá þátt ólaunaðra stuðningsaðila/aðstandenda og setja hann inn í heildræna áætlun.
Ábyrgð: Velferðarráðuneytið.
Samstarfsaðili: Samband íslenskra sveitarfélaga.
Tímabil: Verkefnið hefjist 2012 og verði viðvarandi.
Kostnaður: Innan ramma.
Mælikvarði: Fjöldi skráninga/tíma ólaunaðs stuðnings.
F.5 Könnun á heilbrigði fatlaðs fólks.
Markmið: Að fá skýra mynd af heilbrigði fatlaðs fólks á Íslandi.
Framkvæmd: Gerð verði rannsókn á heilbrigði fatlaðs fólks á Íslandi.
Ábyrgð: Embætti landlæknis.
Samstarfsaðilar: Velferðarráðuneytið og háskólasamfélagið.
Tímabil: Undirbúningur fari fram árið 2012 og rannsókn árið 2013.
Kostnaður: 10 milljónir króna.
Mælikvarði: Rannsókn verði gerð fyrir árslok 2013.
G. Menntun.
Alþingi ályktar að fatlað fólk skuli njóta jafnréttis til náms í raun og eiga kost á að velja um fjölbreyttar námsleiðir eftir áhugasviði og getu. Þjónusta við fatlaða nemendur fylgi þeim milli skólastiga svo tryggja megi samfellu í þjónustunni. Fötluðu fólki verði tryggður réttur til endur- og símenntunar til jafns við aðra.
G.1 Samfella milli skólastiga.
Markmið: Að auka samstarf félagsþjónustu og skólakerfis við að samþætta þjónustu og nám fatlaðra nemenda og tryggja að samþættingin fylgi nemendum allan námsferilinn.
Framkvæmd: Áætlun verði unnin tímanlega í samstarfi við þann skóla, hvort sem það er leikskóli, grunnskóli, framhaldsskóli eða háskóli, sem nemandi hefur áhuga á að sækja þannig að skólinn sé tilbúinn þegar nemandinn hefur nám. Á það meðal annars við um öflun hjálpartækja, sértæk úrræði í námi við upphaf náms og námsefni og persónulega aðstoð á skólatíma.
Ábyrgð: Skólaskrifstofur sveitarfélaganna.
Samstarfsaðilar: Félagsþjónusta sveitarfélaganna, leikskólar, grunnskólar, framhaldsskólar og háskólar.
Tímabil: Sveitarfélögin hefji gerð einstaklingsáætlana fyrir þau börn sem byrja í leikskólum árið 2012 og vinni á sama tíma áætlanir fyrir þá nemendur sem nú þegar eru í námi. Lokið verði við að gera áætlanir fyrir alla nemendur í leikskólum og grunnskólum í árslok 2013.
Kostnaður: Innan ramma.
Mælikvarði: Fjöldi áætlana í árslok 2014.
G.2 Fjölbreytni í námsframboði.
Markmið: Að auka fjölbreytni í námi á starfsnámsbrautum framhaldsskólanna og háskólastigi þannig að hver einstaklingur geti fundið nám við sitt hæfi.
Framkvæmd: Skipaður verði hópur sem leggi til hvernig markmiðinu verði náð. Í hópnum sitji sérfræðingar í menntunarfræðum og fötlunarfræðum og ungt fatlað fólk.
Ábyrgð: Mennta- og menningarmálaráðuneytið.
Samstarfsaðilar: Háskólasamfélagið, hagsmunasamtök fatlaðs fólks, velferðarráðuneytið, Tryggingastofnun ríkisins og Vinnumálastofnun.
Tímabil: 2012–2014.
Kostnaður: Innan ramma.
Mælikvarði: Að tillögur hafi verið lagðar fram og fjármögnun liggi fyrir vegna tveggja verkefna fyrir lok tímabils.
G.3 Styrkir til fatlaðra nemenda.
Markmið: Að auka möguleika fatlaðs fólks til námsstyrkja vegna endur- og símenntunar.
Framkvæmd: Komið verði á fót endurmenntunarsjóði hjá Tryggingastofnun ríkisins sem gegni sama hlutverki og starfs- og endurmenntunarsjóðir hjá lífeyrissjóðum og stéttarfélögum sem veita styrki til lífeyrisþega sem eiga ekki réttindi í slíkum sjóðum til að jafna möguleika þeirra á endur- og símenntun.
Ábyrgð: Velferðarráðuneytið.
Samstarfsaðili: Tryggingastofnun ríkisins.
Tímabil: Ákvæði um endurmenntunarsjóð verði sett í lög eigi síðar en í árslok 2013.
Kostnaður:
Mælikvarði: Ákvæðum í lögum hafi verið breytt og áætlun samþykkt árið 2014.
H. Þátttaka.
Alþingi ályktar að fatlað fólk skuli eiga þess kost að taka fullan þátt í félagslegu og efnahagslegu starfi samfélagsins. Það skuli eiga þess kost að nýta borgaralegan rétt sinn, eiga val um hvar og hvernig það lifir og hafa fullan aðgang að menningu, tómstundum og afþreyingu. Áhersla sé lögð á að eyða hindrunum sem mæta einstaklingum í daglegu lífi. Þjónusta við fatlað fólk stuðli að því að það lifi fullgildu lífi.
H.1 Áhrif og þátttaka notenda.
Markmið: Að fötluðu fólki verði gert kleift að hafa áhrif á og taka þátt í skipulagi og framkvæmd þjónustunnar sem og öðrum hagsmunamálum sínum í því sveitarfélagi þar sem það býr.
Framkvæmd: Á hverju þjónustusvæði verði sett á laggirnar fimm manna notendaráð sem hafi það verkefni að vera ráðgefandi fyrir þjónustusvæðið varðandi stefnumótun um málefni fatlaðs fólks á svæðinu. Þjónustusvæðið beri alla stefnumótun í málefnum fatlaðs fólks undir ráðið sem auk þess geti tekið upp mál að eigin frumkvæði.
Ábyrgð: Samband íslenskra sveitarfélaga.
Samstarfsaðili: Velferðarráðuneytið.
Tímabil: Öll þjónustusvæði hafi komið á fót notendaráðum fyrir lok árs 2012.
Kostnaður: Kostnaður vegna aðstoðarmanna notenda, samtals 10 milljónir króna.
Mælikvarði: Fjöldi mála sem lögð hafa verið fyrir notendaráðin á hverju svæði.
H.2 Sýnileiki fatlaðs fólks.
Markmið: Að fatlað fólk kynni samning Sameinuðu þjóðanna um réttindi þess fyrir almenningi.
Framkvæmd: Tilraunaverkefnið „sendiherrar“ verði styrkt og fest í sessi meðan unnið sé að innleiðingu samnings Sameinuðu þjóðanna um réttindi fatlaðs fólks. Gerður verði samningur við Fjölmennt um að stýra verkefninu. Kynningaráætlun verði lögð fram árlega.
Ábyrgð: Velferðarráðuneytið.
Samstarfsaðilar: Innanríkisráðuneytið og hagsmunasamtök fatlaðs fólks.
Tímabil: Verkefnið hefjist 2012 og verði endurmetið ári síðar.
Kostnaður: 3 milljónir króna á ári í þrjú ár, samtals 9 milljónir króna.
Mælikvarði: Fjöldi funda „sendiherra“ á tímabilinu 2012–2014.
H.3 Fatlaðir foreldrar.
Markmið: Að tryggja fötluðum foreldrum stuðning við að aðstoða börn sín við verkefni sem tengjast skólagöngu barnanna. Fötluðum foreldrum verði gert kleift að styðja börn sín í námi.
Framkvæmd: Settur verði á fót starfshópur með fulltrúum ráðuneyta, sveitarfélaga og hagsmunasamtaka um vinnulag og samvinnu skóla, félagsþjónustu og heilbrigðisþjónustu um þennan stuðning.
Ábyrgð: Velferðarráðuneytið.
Samstarfsaðilar: Samband íslenskra sveitarfélaga, mennta- og menningarmálaráðuneytið og hagsmunasamtök fatlaðs fólks.
Tímabil: Starfshópurinn verði settur á laggirnar árið 2012 og skili tillögum vorið 2013.
Kostnaður: Innan ramma.
Mælikvarði: Að fyrir liggi samþykktar tillögur fyrir árslok 2013.
H.4 Félagslíf fatlaðra barna og ungmenna.
Markmið: Að rjúfa félagslega einangrun fatlaðra barna og ungmenna.
Framkvæmd: Fötluð börn og ungmenni á grunn- og framhaldsskólaaldri eigi kost á frístundatilboðum að skóladegi loknum, í skólafríum og á sumrin í samræmi við óskir og getu. Slík frístundatilboð verði samþætt almennum frístundatilboðum fyrir börn og ungmenni á sama aldri eins og kostur er. Lögð verði áhersla á mikilvægi sumardvalar fyrir þennan hóp.
Ábyrgð: Sveitarfélög.
Samstarfsaðilar: Hagsmunasamtök fatlaðs fólks.
Tímabil: Sveitarfélög geri áætlanir sínar árið 2012 og útfæri þær árið 2013.
Kostnaður: Innan ramma 2012 og kostnaðarmat verði gert í lok ársins.
Mælikvarði: Færri fötluð börn félagslega einangruð árið 2014 en árið 2011.
Athugasemdir við þingsályktunartillögu þessa.
Ríkisstjórnin hefur samkvæmt ákvæði til bráðabirgða XIII í lögum um málefni fatlaðs fólks, nr. 59/1992, sbr. lög nr. 152/2010, samþykkt að leita samþykkis Alþingis á framkvæmdaáætlun í málefnum fatlaðs fólks.
Þjónusta við fatlað fólk var flutt frá ríki til sveitarfélaga 1. janúar 2011 í samræmi við breytingar á lögum um málefni fatlaðra, nr. 59/1992, sem samþykktar voru á Alþingi 17. desember 2010. Ákvörðun um að hefja undirbúning að flutningnum var tekin á samráðsfundi Sambands íslenskra sveitarfélaga og þáverandi félagsmálaráðherra í febrúar 2007. Í kjölfarið var skipuð verkefnisstjórn sem vann að undirbúningi þar til yfirfærslan átti sér stað en 1. janúar 2011 tóku gildi lög sem breyttu lögum um málefni fatlaðs fólks.
Í nefndaráliti um frumvarp til laga um breytingu á lögunum sem tóku gildi í ársbyrjun 2011 kemur fram að margir umsagnaraðilar og gestir félags- og tryggingamálanefndar hafi gagnrýnt það að með frumvarpinu sé ekki nógu langt gengið við að innleiða réttarbætur til handa fötluðu fólki og færa löggjöf um málaflokkinn til samtímans. Þá var gagnrýnt að markmið samnings Sameinuðu þjóðanna um réttindi fatlaðs fólks náist ekki að fullu með breytingunum. Jafnframt var vísað í úttekt Ríkisendurskoðunar á þjónustu við fatlað fólk frá ágúst 2010, en í þeirri skýrslu bendir stofnunin á ýmsa þætti sem hún telur ábótavant. Í frumvarpinu var reynt að bregðast við ábendingum Ríkisendurskoðunar og ráða bót á þeim vanköntum sem stofnunin bendir á varðandi stjórn, skipulag og eftirlit með málaflokknum. Athugasemdum verður ekki að fullu mætt nema með heildarendurskoðun laga um málefni fatlaðs fólks sem áætlað er að ljúki í árslok 2014 samkvæmt ákvæði til bráðabirgða II í lögunum.
Vinna starfshóps.
Í ákvæði til bráðabirgða XIII í lögum um málefni fatlaðs fólks er kveðið á um að ráðherra skuli „eigi síðar en 1. október 2011 leggja fram á Alþingi tillögu til þingsályktunar um framkvæmdaáætlun í málefnum fatlaðs fólks. Þar [skuli] setja fram stefnu í málefnum fatlaðs fólks, skýra forgangsröðun verkefna, markvissa aðgerðaáætlun og skilgreinda árangursmælikvarða. Tímasettar verði m.a. aðgerðir vegna lögfestingar samnings Sameinuðu þjóðanna um réttindi fatlaðs fólks, aðgengismála, biðlista eftir þjónustu, atvinnumála fatlaðs fólks og samræmds mats á þjónustu.“
Starfshópur til að undirbúa þingsályktunartillöguna var skipaður 7. júní 2011 og var honum gert að ljúka störfum eigi síðar en 1. október sama ár. Í hópnum sátu Lára Björnsdóttir, formaður, skipuð af velferðarráðherra, Gerður A. Árnadóttir, tilnefnd af Landssamtökunum Þroskahjálp, Guðmundur Magnússon, tilnefndur af Öryrkjabandalagi Íslands, Hjalti Þór Vignisson, tilnefndur af Sambandi íslenskra sveitarfélaga, og Rún Knútsdóttir, Sigríður Jónsdóttir og Þór G. Þórarinsson, skipuð af velferðarráðherra. Rósa G. Bergþórsdóttir var starfsmaður hópsins. Ekki reyndist unnt að standa við þann tímafrest sem gefinn var í lögunum og var það tilkynnt forseta Alþingis með bréfi dagsettu 27. september 2011.
Hópurinn hélt 14 fundi og auk þess tvo vinnudaga þar sem unnið var að áætluninni og fundað með fötluðu fólki og fagaðilum sem búa yfir dýrmætri reynslu og þekkingu á málaflokknum. Gestir á fundum hópsins voru Helga Baldvinsdóttir og Bjargardóttir og Rannveig Traustadóttir frá Rannsóknarsetri í fötlunarfræðum við Háskóla Íslands, Dóra S. Bjarnason og Vilborg Jóhannsdóttir frá menntavísindasviði Háskóla Íslands, Páll Matthíasson frá geðsviði Landspítalans, Anna Kristinsdóttir og María Rúnarsdóttir frá Reykjavíkurborg, Hrefna Haraldsdóttir frá Sjónarhóli og Elfa Dögg Þórðardóttir frá Samtökum sunnlenskra sveitarfélaga. Fundað var með fulltrúum sjö hópa fólks með ólíkar skerðingar. Á þá fundi mættu Sigrún Birgisdóttir frá Umsjónarfélagi einhverfra, Tryggvi Friðjónsson frá Sjálfsbjörg, Heiðdís Dögg Eiríksdóttir og Hjördís Anna Haraldsdóttir frá Félagi heyrnarlausra, Kristinn H. Einarsson og Páll R. M. Kristjánsson frá Blindrafélaginu, Aileen Soffía Svensdóttir og María Hreiðarsdóttir frá Átaki, félagi fólks með þroskahömlun, Lára M. Jónsdóttir og Lilja R. Óskarsdóttir frá foreldrafélagi Klettaskóla og Kristín Tómasdóttir og Bjarney Lúðvíksdóttir frá Geðhjálp.
Við undirbúning þingsályktunartillögunnar var starf annarra hópa og nefnda sem nú vinna að málefnum fatlaðs fólks í umboði velferðarráðherra haft til hliðsjónar, þ.e. starf samráðsnefndar um málefni fatlaðs fólks, nefndar um réttindagæslu fatlaðs fólks, starfshóps um framtíðarskipan atvinnumála fatlaðs fólks, verkefnisstjórnar um notendastýrða persónulega aðstoð og starfshóps fimm ráðuneyta sem vinnur að undirbúningi fullgildingar samnings Sameinuðu þjóðanna um réttindi fatlaðs fólks.
Tillagan var send innanríkisráðuneytinu, mennta- og menningarmálaráðuneytinu og umhverfisráðuneytinu til kynningar og bárust umsagnir frá þeim sem tekið var mið af við lokafrágang hennar.
Mikilvæg gögn í starfi hópsins.
Mikilvæg gögn sem höfð voru til hliðsjónar í starfi hópsins eru:
– Lög um málefni fatlaðs fólks, nr. 59/1992, með síðari breytingum, ásamt nefndaráliti félags- og tryggingamálanefndar um frumvarp til laga um breytingu á lögunum sem varð að lögum nr. 152/2010 sem tóku gildi 1. janúar 2011.
– Samningur Sameinuðu þjóðanna um réttindi fatlaðs fólks.
– Skýrsla Ríkisendurskoðunar um þjónustu við fatlaða frá ágúst 2010.
– Úttekt sem Félagsvísindastofnun Háskóla Íslands gerði í samvinnu við Stofnun stjórnsýslufræða og stjórnmála og Rannsóknarseturs í fötlunarfræðum að beiðni félags- og tryggingamálaráðuneytisins um stöðu fatlaðs fólks og þjónustu við það við flutning málaflokksins frá ríki til sveitarfélaga en niðurstöðurnar voru birtar í október 2011 og var haldið málþing um þær.
– Stefnur og aðgerðir í málaflokki fatlaðs fólks á Norðurlöndunum.
– Stefnur og aðgerðir í málaflokki fatlaðs fólks innan Evrópusambandsins.
Helstu atriði í þingsályktuninni.
Í þingsályktuninni birtist annars vegar stefna í málaflokknum og hins vegar framkvæmdaáætlun sem byggist á stefnunni.
Stefnunni er ætlað að endurspegla bæði markmið laga um málefni fatlaðs fólks og mannréttindasjónarmið sem meðal annars er að finna í samningi Sameinuðu þjóðanna um málefni fatlaðs fólks sem Ísland undirritaði árið 2007. Lagt er til að stefnan sé í meginatriðum sett fram til ársins 2020 en metið verði hvort samþykkja þurfi breytingar á stefnunni við endurskoðun laga um málefni fatlaðs fólks í árslok 2014.
Framkvæmdaáætlunin nær til þriggja ára, 2012–2014. Gert er ráð fyrir að hún verði endurskoðuð að þeim tíma liðnum. Velferðarráðuneytið hefur heildarumsjón með framkvæmd áætlunarinnar en ábyrgð á einstökum verkefnum er ýmist í höndum þess eða annarra aðila. Ábyrgðaraðilum er falið að leggja mat á verkefni í samræmi við mælikvarða sem tilgreindir eru innan hvers og eins verkefnis.
Mat á kostnaðaráhrifum.
Framkvæmd stefnunnar sem mótuð er með þingsályktunartillögu þessari mun hafa í för með sér kostnaðarauka fyrir þá aðila sem eiga að sjá um undirbúning og framkvæmd stefnunnar. Heildarkostnaður sem skiptist á þrjú ár, þ.e. 2012, 2013 og 2014, er lauslega áætlaður 150 m.kr.
Hér er efni sem sést aðeins í pdf-skjalinu.
Ekki hefur verið lögð vinna í ítarlegt kostnaðarmat einstakra liða aðgerðaáætlunarinnar enda er kostnaður við marga þætti óljós. Aftur á móti er unnt að ná markmiðum allmargra þátta með breyttum vinnuaðferðum án þess að það leiði til kostnaðarauka og nokkur verkefni er unnt að framkvæma innan núverandi fjárheimilda hjá framkvæmdaaðilum.
- Neðanmálsgrein: 1
- 1 Í samræmi við tímamörk sem mennta- og menningarmálaráðuneytið hefur sett fyrir endurskoðun námskráa í framhaldsskólum.