Aðrar útgáfur af skjalinu: PDF - Word Perfect. Ferill 311. máls.
140. löggjafarþing 2011–2012.
Þingskjal 719  —  311. mál.




Svar



innanríkisráðherra við fyrirspurn Eyglóar Harðardóttur
um vörslusviptingar fjármálafyrirtækja á bifreiðum.


    Fyrirspurnin er í þremur liðum. Að beiðni ráðuneytisins aflaði embætti ríkislögreglustjóra upplýsinga hjá lögregluembættum varðandi fyrstu tvo liði fyrirspurnarinnar. Ekki liggja fyrir hjá ráðuneytinu né hjá lögreglustjórum upplýsingar um skilmála þeirra skuldaskjala sem lágu til grundvallar þeim málum sem komið hafa til kasta lögreglu. Byggt á svörum lögregluembætta og embætti ríkislögreglustjóra eru svör við fyrirspurninni eftirfarandi.

     1.      Hafa lögreglu borist tilkynningar um meintar ólöglegar vörslusviptingar fjármálafyrirtækja á bifreiðum sem keyptar hafa verið með gengistryggðum lánum frá sömu fyrirtækjum?
    Eitt mál varðandi meinta ólöglega vörslusviptingu fjármálafyrirtækja á bifreiðum sem keyptar hafa verið með gengistryggðum lánum hefur komið til kasta lögreglunnar á Seyðisfirði.
    Tilkynningar vegna meintrar ólöglegrar vörslusviptingar hafa í nokkrum tilvikum borist lögreglunni á höfuðborgarsvæðinu. Einnig hafa lögreglunni á Selfossi og á Vestfjörðum borist slíkar tilkynningar. Þá hafa lögreglunni í Borgarnesi og á Suðurnesjum borist fyrirspurnir um heimildir til vörslusviptingar án þess að um formlegar tilkynningar eða kærur væri að ræða.

     2.      Hafi slíkar tilkynningar borist, hver hafa viðbrögð lögreglu verið, í ljósi þeirrar réttaróvissu sem ríkir bæði um eignarhald á bifreiðunum og rétt fjármálafyrirtækja til slíkra aðgerða gegn fólki sem fengið hefur greiðsluskjól?
    Lögreglan á Seyðisfirði sinnti því eina tilviki sem upp hefur komið hjá embættinu vegna vörslusviptingar á bifreið sem keypt hafði verið með gengistryggðu láni með þeim hætti að leiða aðila málsins saman og stuðla að lausn málsins. Mál er varðar kæru á framgöngu vörslusviptingarmanns er til rannsóknar hjá lögreglunni á Selfossi og ein kæra er varðar meinta ólöglega vörslusviptingu er til rannsóknar hjá lögreglunni á Ísafirði. Ekki liggja fyrir upplýsingar um hvort aðilar þessara mála höfðu fengið svokallað greiðsluskjól vegna meðferðar skuldamála sinna hjá umboðsmanni skuldara.

     3.      Eru til skrifleg eða munnleg fyrirmæli frá ríkislögreglustjóra eða yfirmönnum einstakra lögregluembætta um hvernig bregðast skuli við tilkynningum um slíkar vörslusviptingar?
    Embætti lögreglustjórans á höfuðborgarsvæðinu hefur gefið út leiðbeinandi reglur um meðferð erinda vegna vörslusviptinga meðal annars með hliðsjón af niðurstöðu ríkissaksóknara í tilefni þess að lögreglustjórinn á höfuðborgarsvæðinu hafði vísað frá kæru á hendur þeim sem staðið hafa að vörslusviptingu. Í reglunum er kveðið á um að kærum til lögreglu á hendur fjármögnunaraðila vegna vörslusviptingar fyrir þjófnað, nytjastuld, gertæki og eitthvert annað brot verði að vísa frá. Ástæða og rök fyrir slíkri afgreiðslu málsins sé að um sé að ræða einkaréttarlegan samning sem leysa beri úr í einkamáli, þar á meðal ágreiningi sem lúti að uppgjöri samnings.
    Þá varaði ráðherra í júní sl. við lögbrotum vegna vörslusviptinga. Var þar bent á að í lögum um aðför væri kveðið á um að ef einhver teldi sig eiga eign í vörslum annarra sem hann vildi fá í sínar hendur og ágreiningur væri með aðilum þyrfti að afla dómsúrskurðar um að taka mætti eignina úr vörslum umráðamanns.
    Í ljósi þessarar niðurstöðu ráðuneytisins hefur ríkislögreglustjóri til skoðunar setningu verklagsreglna innan lögreglunnar vegna vörslusviptinga.