Aðrar útgáfur af skjalinu: PDF - Word Perfect. Ferill 479. máls.
140. löggjafarþing 2011–2012.
Þingskjal 734  —  479. mál.




Fyrirspurn



til umhverfisráðherra um ræktun erfðabreyttra plantna.

Frá Þuríði Backman.


     1.      Hvaða ráðstafanir voru gerðar til að takmarka hættu á útbreiðslu erfðabreyttra plantna ef svo færi að gróðrarstöð Barra á Fljótsdalshéraði yrði fyrir skemmdum, t.d. vegna veðurs? Hvaða skilyrði þess efnis voru í starfsleyfi stöðvarinnar?
     2.      Hver hafa viðbrögð starfsmanna Barra og Umhverfisstofnunar verið til að forðast umhverfismengun af ræktun erfðabreytts byggs í kjölfar fokskemmda sem urðu á gróðurhúsi Barra í ofsaveðri aðfaranótt 10. janúar sl.?
     3.      Hvaða ráðstafanir hafa verið gerðar til að takmarka hættu á útbreiðslu erfðabreyttra plantna ef svo færi að gróðrarstöðvar sem hafa leyfi til ræktunar þeirra yrðu fyrir skemmdum? Hvaða skilyrði þess efnis eru í starfsleyfi viðkomandi stöðva og hafa þau verið endurskoðuð í ljósi skemmdanna sem urðu á gróðrarstöð Barra?
     4.      Telur ráðherra að lög og reglugerðir tryggi með nægilegum hætti að húsakynni, svo sem gróðurhús, standist kröfur um meðferð erfðabreyttra plantna?
     5.      Telji ráðherra að bæta verði öryggi í ræktun og meðferð erfðabreyttra plantna, mun ráðherra þá beita sér fyrir breytingum á löggjöf og/eða reglugerðum og hvaða breytingar væru þá helstar?
     6.      Hefur orðið misbrestur á að farið sé að lögum, reglugerðum og tilmælum við ræktun erfðabreyttra plantna hér á landi?
     7.      Mun ráðherra beita sér fyrir skýrum alþjóðlegum reglum sem takmarki leyfi til ræktunar erfðabreyttra plantna við ákveðna fjarlægð frá lífrænt vottaðri starfsemi?
     8.      Mun ráðherra framlengja heimild til útiræktunar á erfðabreyttu byggi sem farið hefur fram í Gunnarsholti undanfarin ár?
     9.      Mun ráðherra beita sér fyrir bættu vinnulagi hvað varðar kynningu á umsóknum um starfsleyfi um fyrir ræktun erfðabreyttra plantna svo tryggt sé að íbúar, fyrirtæki og sveitarstjórnir komi að umsögnum um leyfisveitingu?


Skriflegt svar óskast.