Aðrar útgáfur af skjalinu: PDF - Word Perfect. Ferill 474. máls.
140. löggjafarþing 2011–2012.
Þingskjal 773  —  474. mál.




Svar



utanríkisráðherra við fyrirspurn Vigdísar Hauksdóttur um Evrópustofu.



     1.      Hvernig stóð á því að ráðuneytið samdi við stækkunardeild Evrópusambandsins um að opna hér Evrópustofu?
    Fyrirspurnin byggist á misskilningi sem raunar hefði mátt uppræta með því að leita til Evrópustofu. Rangt er að ráðuneytið hafi samið við einn eða neinn um Evrópustofu. Slíkri ósk var aldrei, formlega eða óformlega, komið á framfæri við Evrópusambandið. Hér er því rangur hattur settur á ráðuneytið, líkt og þegar Jón Hreggviðsson setti upp hatt böðulsins í Galtarholti forðum. Allt frumkvæði að Evrópustofu kom frá Brussel, eins og ýmislegt gott sem eflt hefur hag Íslands.

     2.      Er ekki tilgangurinn að vinna að aðild að Evrópusambandinu?
    Fullyrðingin sem felst í spurningunni er á misskilningi byggð. Til skýringar má nefna að Evrópusambandið starfrækir upplýsingaskrifstofur eða sendiskrifstofur með upplýsingahlutverk í samtals 130 löndum. Sum þeirra eru landfræðilega víðs fjarri Evrópu. Í tilviki Íslands kemur tilgangurinn með Evrópustofu fram í útboði sambandsins þar sem hlutverk Evrópustofu er skilgreint með svofelldum hætti: „Að aðstoða Evrópusambandið við að auka þekkingu og skilning á Evrópusambandinu á Íslandi og til að varpa ljósi á tengsl Íslands og ESB, samningaferlið sjálft og mögulegar afleiðingar aðildar fyrir Íslendinga. Slíkt feli í sér að hvetja til samræðna um allt ofantalið, koma í veg fyrir misskilning og rangfærslur um Evrópusambandið og byggja þannig upp raunhæfar væntingar borgara og þekkingu til að komast að eigin niðurstöðu“.

     3.      Hvar hefur þetta verið gert annars staðar í umsóknarríki?
    Víðsvegar. Gildir það jafnt um sérhvert umsóknarríki, sömuleiðis möguleg umsóknarríki og raunar öll þau ríki sem veitt er einhvers konar liðsinni frá Evrópusambandinu. Spurningin er einnig dæmigerð fyrir þá tegund upplýsinga sem hægt er að sækja til Evrópustofu sjálfrar.

     4.      Hvað er áætlað að reksturinn kosti á ári?
    Samkvæmt útboði Evrópusambandsins er gert ráð fyrir að reksturinn kosti 700.000 evrur fyrsta árið, um 113 millj. kr., en að gildi samningsins verði að hámarki 1.400.000 evrur eða sem nemur um 226 millj. kr. miðað við núverandi gengi.

     5.      Hvað eru mörg stöðugildi við stofnunina?
    Gleðiefni er að við Evrópustofu hafa þegar skapast störf fyrir fimm starfsmenn. Þrír eru í fullu starfi og tveir í hlutastarfi. Starfsmennirnir eru íslenskir og greiða fulla skatta til íslenska ríkisins.