Aðrar útgáfur af skjalinu: PDF - Word Perfect. Ferill 423. máls.
140. löggjafarþing 2011–2012.
Þingskjal 783  —  423. mál.
Svarefnahags- og viðskiptaráðherra við fyrirspurn Gunnars Braga Sveinssonar
um gögn um endurútreikning lána.


    Fyrirspurnin hljóðar svo:
    Getur banki eða önnur lánastofnun sem endurreiknað hefur lán, t.d. ólöglegt gengislán, neitað að afhenda viðskiptavini gögn sem sýna hvernig útreikningurinn var gerður? Ef svo er, hvaða gögn má viðskiptamaður fá afhent og hver ekki?

    Ráðuneytið óskaði eftir upplýsingum frá Fjármálaeftirlitinu og embætti umboðsmanns skuldara til að svara fyrirspurninni og byggist svarið m.a. á upplýsingum frá þeim aðilum.
    Í lögum um fjármálafyrirtæki, nr. 161/2002, er ekki að finna ákvæði sem mæla með skýrum hætti fyrir um rétt viðskiptamanna fjármálafyrirtækja til að fá aðgang að gögnum er varða viðskipti þeirra við fjármálafyrirtæki. Í 58. gr. laganna er mælt fyrir um þagnarskyldu fjármálafyrirtækja, en að mati Fjármálaeftirlitsins er ólíklegt að þau gögn sem vísað er til í fyrirspurninni falli undir það ákvæði laganna. Byggist það sjónarmið á því að skv. 60. gr. laganna geta viðskiptamenn veitt samþykki sitt fyrir því að þær upplýsingar sem getið er í 58. gr. verði veittar þriðja aðila. Er það því mat Fjármálaeftirlitsins að viðskiptamenn eigi sjálfir rétt á þeim upplýsingum sem þeir geta veitt þriðja aðila skv. 60. gr. laganna.
    Ekki er fyllilega ljóst hvað átt er við með „gögn“ í fyrirspurninni en að mati Fjármálaeftirlitsins yrði þó að telja að þau gögn sem viðskiptamenn fjármálafyrirtækja eigi rétt á séu ákveðnar grunnforsendur endurreiknings lána, svo sem upplýsingar um vaxtastig, tíma, meðferð inntra greiðslna og þess háttar, en ekki önnur gögn, svo sem vinnuskjöl viðkomandi banka eða lánastofnunar um aðferðafræði útreikningsins. Þá kemur fram í svari Fjármálaeftirlitsins að viðskiptamenn eigi alltaf rétt á upplýsingum í samræmi við ákvæði laga um neytendalán, nr. 121/1994. Í lögum um neytendalán er mælt fyrir um upplýsingaskyldu lánveitenda og kunna þau gögn sem vísað er til í fyrirspurninni að falla undir ákvæði þeirra laga. Neytendastofa annast eftirlit með ákvæðum laga um neytendalán.
    Veiting grundvallarupplýsinga til viðskiptamanna um forsendur lána og endurreikning þeirra kann jafnframt að mati Fjármálaeftirlitsins að falla undir heilbrigða og eðlilega viðskiptahætti fjármálafyrirtækja, sbr. 1. mgr. 19. gr. laga um fjármálafyrirtæki.
    Um endurútreikning ólögmætra gengisbundinna lána er mælt fyrir í lögum um vexti og verðtryggingu, nr. 38/2001, eins og þeim var breytt með lögum nr. 151/2010. Í þeim lögum er ekki mælt fyrir um rétt viðskiptamanns fjármálafyrirtækis til að fá afhent göng sem sýna hvernig unnið hefur verið að endurútreikningi á láni viðkomandi. Lögin mæla þó fyrir um heimild efnahags- og viðskiptaráðherra til að fela umboðsmanni skuldara að hafa eftirlit með útreikningi fjármálafyrirtækja, óska upplýsinga um forsendur útreikninga og kveða á um úrbætur ef þörf krefur, sbr. ákvæði til bráðabirgða XI í lögum nr. 38/2001, um vexti og verðtryggingu, og ákvæði til bráðabirgða IV í lögum nr. 100/2010, um umboðsmann skuldara.
    Með reglugerð nr. 178/2011 var embætti umboðsmanns skuldara falið að fylgjast með hvort endurútreikningar fjármálafyrirtækja á gengislánum til neytenda samræmist ákvæði til bráðabirgða XI í lögum um vexti og verðtryggingu. Skv. 2. gr. reglugerðarinnar skal umboðsmaður skuldara að beiðni skuldara afla upplýsinga um forsendur útreikninga og útskýringar á útreikningum hjá viðkomandi fjármálafyrirtæki, eða hjá skuldara. Fjármálafyrirtæki skal senda umboðsmanni umbeðnar upplýsingar eigi síðar en fjórum virkum dögum eftir að slík beiðni berst. Þá segir að umboðsmaður skuldara skuli kveða á um úrbætur telji hann útreikning ekki í samræmi við lög.
    Á grundvelli reglugerðarinnar hefur embættið talið sér skylt að fylgjast með hvort endurútreikningar fjármálafyrirtækja samræmast lögum nr. 151/2010. Hefur umboðsmaður skuldara jafnframt farið yfir einstaka útreikninga skjólstæðinga sinna þegar beiðni þess efnis hefur komið frá skuldara.
    Samkvæmt upplýsingum frá umboðsmanni skuldara eru þau gögn sem nauðsynleg eru til að yfirfara aðferð við endurútreikning lána upprunalegur lánasamningur og yfirlit yfir greiðslur á viðkomandi láni. Í sumum tilvikum þar sem lán eru að hluta til í íslenskum krónum sé jafnframt nauðsynlegt að fá íslensku vaxtaröðina, þ.e. þá íslensku vexti sem voru á láni hjá lántaka yfir allan lánstímann. Fer umboðsmaður fram á að skuldari skili viðkomandi gögnum til embættisins. Í svari umboðsmanns kemur jafnframt fram að það komi fyrir að skuldari hafi ekki gögn undir höndum og fjármálafyrirtæki neiti lántaka um gögn er snúa að uppgjöri eða dragi svo vikum eða mánuðum skiptir að afhenda skuldara umbeðin gögn. Í slíkum tilvikum hefur umboðsmaður kallað eftir slíkum gögnum frá fjármálafyrirtækjum, yfirfarið útreikninga í heild og sent skuldara bréf um þá aðferð sem fjármálafyrirtæki beitir, niðurstöðu útreikninga og gögn í máli viðkomandi.
    Í svari umboðsmanns kemur fram að fjármálafyrirtæki bregðist jákvætt við ósk embættisins um afhendingu gagna þrátt fyrir að gjarnan sé litið á fjögurra daga frest skv. 1. mgr. 2. gr. reglugerðar nr. 178/2011 frekar sem undantekningu en meginreglu.
    Þá kemur fram í svari umboðsmanns skuldara að þrátt fyrir að lög nr. 151/2010 veiti skuldara ekki rétt til skýringar og gagna um útreikning hafi embættið aðstoðað skuldara sem þess hafa óskað bæði við að ná fram gögnum og skýra útreikninga.