Aðrar útgáfur af skjalinu: PDF - Word Perfect. Ferill 352. máls.
140. löggjafarþing 2011–2012.
Þingskjal 796  —  352. mál.

Síðari umræða.


Nefndarálitum tillögu til þingsályktunar um staðfestingu ákvörðunar sameiginlegu EES-nefndarinnar nr. 54/2010 um breytingu á XVIII. viðauka (Öryggi og hollustuhættir á vinnustöðum, vinnuréttur og jafnrétti kynjanna) við EES-samninginn.

Frá utanríkismálanefnd.


    Nefndin hefur fjallað um málið og fengið á sinn fund Jóhönnu Bryndísi Bjarnadóttur og Bergþór Magnússon frá utanríkisráðuneyti og Bjarnheiði Gautadóttur og Jóhönnu Katrínu Magnúsdóttur frá velferðarráðuneyti.
    Með tillögunni er leitað heimildar Alþingis til að staðfesta ákvörðun sameiginlegu EES- nefndarinnar nr. 54/2010, frá 30. apríl 2010, um breytingu á XVIII. viðauka (Öryggi og hollustuhættir á vinnustöðum, vinnuréttur og jafnrétti kynjanna) við EES-samninginn frá 2. maí 1992, og fella inn í samninginn tilskipun Evrópuþingsins og ráðsins 2009/38/EB frá 6. maí 2009 um stofnun evrópsks samstarfsráðs eða samþykkt reglna í fyrirtækjum og fyrirtækjasamstæðum, er starfa á bandalagsvísu, varðandi upplýsingamiðlun til starfsmanna og samráð við starfsmenn (endurútgefin). Sex mánaða frestur, samkvæmt EES-samningnum, til að aflétta stjórnskipulegum fyrirvara var veittur til 30. október 2010. Framsetning tillögunnar telst að mati nefndarinnar í samræmi við 4. gr. reglna um þinglega meðferð EES-mála frá 1. október 2010.
    Markmið tilskipunarinnar er að tryggja rétt launafólks til upplýsinga og samráðs vegna starfsemi sem fer fram í fleiri en einu aðildarríki og þar sem fleiri en 1.000 manns starfa með skýrari hætti en áður var gert.
    Innleiðing tilskipunarinnar kallar á lagabreytingar hér á landi og mun fyrirhugað frumvarp velferðarráðherra um breytingu á lögum um evrópsk samstarfsráð í fyrirtækjum, nr. 61/1999, fjalla um það efni. Eftir framlagningu kemur frumvarpið að líkindum til umfjöllunar í velferðarnefnd.
    Nefndin leggur til að tillagan verði samþykkt.
    Bjarni Benediktsson, Helgi Hjörvar og Sigmundur Davíð Gunnlaugsson voru fjarverandi við afgreiðslu málsins.

Alþingi, 14. febrúar 2012.Árni Þór Sigurðsson,


form., frsm.


Gunnar Bragi Sveinsson.


Illugi Gunnarsson.Mörður Árnason.


Sigmundur Ernir Rúnarsson.


Þuríður Backman.