Aðrar útgáfur af skjalinu: PDF - Word Perfect. Ferill 521. máls.
140. löggjafarþing 2011–2012.
Þingskjal 801  —  521. mál.
Fyrirspurntil velferðarráðherra um viðbrögð stjórnvalda við úttekt
barnaréttarnefndar Sameinuðu þjóðanna.

Frá Þuríði Backman.


     1.      Hvernig metur ráðherra áhyggjur sem koma fram í úttekt barnaréttarnefndar Sameinuðu þjóðanna frá október 2011 á stöðu barna sem eru greind með ofvirkni og athyglisbrest eða svipaðar raskanir? Hver hafa viðbrögð og aðgerðir verið frá birtingu úttektarinnar og hvernig verður brugðist við tilmælum sem fram koma um:
              a.      að auka nákvæmni greiningar á börnum sem eiga við slík vandamál að etja, efla geðheilbrigðisþjónustu fyrir börn og tryggja aðgang að skoðun/greiningu og meðferð sem þörf er á, þ.m.t. með því að auka afkastagetu meðferðar- og greiningarstöðva,
              b.      að hafa eftirlit með ávísun geðörvunarlyfja fyrir börn sem hafa greinst með ofvirkni og athyglisbrest, m.a. með því að meta vaxandi fjölda slíkra barna sem eru á lyfjum sem fyrsta meðferðarúrræði,
              c.      að huga betur að öðrum meðferðarúrræðum, svo sem sálfræðimeðferð, fræðslu og félagslegum ráðstöfunum og efla stuðning við foreldra og kennara,
              d.      að íhuga að safna og greina gögn sem eru aðgreind eftir lyfjum og aldri í þeim tilgangi að hafa eftirlit með hugsanlegri misnotkun geðörvunarlyfja hjá börnum?
     2.      Mun ráðherra beita sér fyrir því að gerð verði heildstæð úttekt á skipulagi þjónustu við börn sem eiga við geðræn og þroskavandamál að stríða í þeim tilgangi að bæta aðgengi, greiningu, samfellu og samstarf allra þeirra aðila sem koma að meðferð og stuðningi við börn með geðraskanir og foreldra þeirra?


Skriflegt svar óskast.