Aðrar útgáfur af skjalinu: PDF - Word Perfect. Ferill 536. máls.
140. löggjafarþing 2011–2012.
Þingskjal 821  —  536. mál.




Frumvarp til laga



um breytingu á lögum um heimild til fjárveitingar úr ríkissjóði vegna
sérstakra aðstæðna á fjármálamarkaði o.fl., nr. 125/2008.

Flm.: Eygló Harðardóttir, Ásmundur Einar Daðason, Birkir Jón Jónsson,
Gunnar Bragi Sveinsson, Sigmundur Davíð Gunnlaugsson,
Sigurður Ingi Jóhannsson, Siv Friðleifsdóttir, Birgitta Jónsdóttir,
Margrét Tryggvadóttir, Þór Saari, Lilja Mósesdóttir.


1. gr.

    I. kafli laganna fellur brott.

2. gr.

    Lög þessi öðlast þegar gildi.

Greinargerð.


    Í neyðarlögunum svokölluðu, um heimild til fjárveitingar úr ríkissjóði vegna sérstakra aðstæðna á fjármálamarkaði o.fl., nr. 125/2008, felast víðtækar heimildir fyrir fjármálaráðherra til að reiða fram fjármagn til að stofna nýtt fjármálafyrirtæki eða yfirtaka fjármálafyrirtæki í heild eða að hluta. Með frumvarpi þessu er lagt til að heimildir ráðherra skv. I. kafla laganna falli brott.
    Neyðarlögin voru sett þegar komið var í mikið óefni í fjármálalífi landsmanna og engir góðir kostir í boði. Verkefni Alþingis og ríkisstjórnar þess tíma var að reyna að lágmarka skaðann fyrir almenning og þjóðarbúið eins og framast var unnt. Því tók Alþingi ákvörðun um að framselja gífurlegt vald til fjármálaráðherra, jafnvel þannig að gengi fram að ystu brún gagnvart ýmsum stjórnarskrárvörðum réttindum. Neyðarlögin voru þannig illskásti neyðarkosturinn í afar slæmri stöðu og til þess fallin að lágmarka skaðann sem stórkostlegt andvaraleysi og mistök fjölmargra innlendra ábyrgðaraðila, að viðbættri hinni alþjóðlegu fjármálakreppu, leiddu yfir þjóðina.
    Í meðferð málsins á sínum tíma kom fram í nefndaráliti meiri hluta viðskiptanefndar að ákvæði frumvarpsins voru hugsuð sem neyðarráðstöfun og því þyrfti ráðherra að leita staðfestingar þingsins. Jafnframt að samkvæmt ákvæði til bráðabirgða skyldu lögin endurskoðuð fyrir 1. janúar 2010. Sú endurskoðun hefur ekki farið fram.
    Á grundvelli heimilda neyðarlaganna tók fjármálaráðherra ákvörðun um stofnun nýju bankanna (Nýja Kaupþings (nú Arion banki), Nýja Landsbankans (nú Landsbankinn) og Nýja Glitnis (nú Íslandsbanki)) í október 2008. Þessar sömu valdheimildir voru nýttar til að ganga frá endurfjármögnun nokkurra sparisjóða. Ágreiningur varð á milli Alþingis og fjármálaráðherra um hvort ákvæði neyðarlaganna dygðu til að ráðstafa eignarhlutum ríkisins í nýju bönkunum. Niðurstaðan varð sú að meiri hluti fjárlaganefndar lagði fram frumvarp um heimild til að staðfesta breytingar á eignarhlut ríkisins í umræddum bönkum í samræmi við stjórnarskrána og lög um fjárreiður ríkisins, sem varð að lögum nr. 138/2009.
    Ríkisstjórnin hefur ítrekað sagt að þjóðin sé komin í gegnum mestu erfiðleikana. Því til staðfestingar hefur verið bent á aukinn hagvöxt, minnkandi atvinnuleysi og þá staðreynd að formlegu samstarfi Alþjóðagjaldeyrissjóðsins og Íslands er lokið.
    Í ljósi þess mikla valdaframsals sem felst í neyðarlögunum telja flutningsmenn rétt að I. kafli neyðarlaganna verði felldur brott. Fjármálaráðherra verður þá ekki lengur heimilt að reiða fram fjármagn til að stofna nýtt fjármálafyrirtæki eða yfirtaka fjármálafyrirtæki eða þrotabú þess í heild eða að hluta án samþykkis Alþingis. Né verður fjármálaráðherra heimilt að leggja sparisjóði til fjárhæð sem nemur allt að 20% af bókfærðu eigin fé hans. Afnám þessara valdheimilda munu þannig draga úr líkum á misskilningi fjármálaráðherra á valdheimildum sínum til að ráðstafa einhliða eignum ríkisins án samþykkis Alþingis.
    Þegar tekin var ákvörðun um að ganga til samninga við skilanefndir gömlu bankanna um að breyta hlut uppgjörskrafna þeirra í hlutafé í nýju bönkunum byggði fjármálaráðherra það á valdheimildum neyðarlaganna og taldi ekki nauðsynlegt að fá sérstaka heimild frá Alþingi (þskj. 1376 í 626. máli). Ágreiningur varð á milli Alþingis og fjármálaráðherra um hvort ákvæði neyðarlaganna dygðu til að ráðstafa eignarhlutum ríkisins í nýju bönkunum. Niðurstaðan varð sú að meiri hluti fjárlaganefndar lagði fram frumvarp um heimild til að staðfesta breytingar á eignarhlut ríkisins í umræddum bönkum í samræmi við stjórnarskrána og lög um fjárreiður ríkisins, sem varð að lögum nr. 138/2009. Í neyðarlögunum felast gífurlegar valdheimildir. Jafnframt er augljóst af þeim ágreiningi sem kom upp við ráðstöfun eignarhlutar ríkisins í nýju bönkunum að Alþingi taldi túlkun fjármálaráðherra á þeim ákvæðum frjálslega. Augljóst er af þessu hversu gífurlegar valdheimildir fjármálaráðherra fer með á grundvelli ákvæða neyðarlaganna. Við setningu þeirra þótti ljóst að svo væri enda var lögfest ákvæði til bráðabirgða við lögin þess efnis að þau skyldi endurskoða fyrir 1. janúar 2010. Sú endurskoðun hefur ekki farið fram. Rökstuðningurinn var sú neyð sem íslenska ríkið stóð frammi fyrir haustið 2008.