Aðrar útgáfur af skjalinu: PDF - Word Perfect. Ferill 196. máls.
140. löggjafarþing 2011–2012.
Þingskjal 822  —  196. mál.

Síðari umræða.


Nefndarálit



um tillögu til þingsályktunar um skilgreiningu á sameiginlegum hagsmunum Vestur-Norðurlanda í ljósi breyttrar stöðu norðurslóða í alþjóðakerfinu
af völdum loftslagsbreytinga.

Frá meiri hluta utanríkismálanefndar.


    Nefndin hefur fjallað um málið og fengið á sinn fund Ólínu Þorvarðardóttur, formann Íslandsdeildar Vestnorræna ráðsins, og Þórð Þórarinsson, framkvæmdastjóra Vestnorræna ráðsins. Umsögn barst nefndinni frá utanríkisráðuneyti.
    Með tillögunni er lagt til að Alþingi skori á ríkisstjórnina að standa fyrir skilgreiningu, í samstarfi við Færeyjar og Grænland, á sameiginlegum hagsmunum Vestur-Norðurlanda í ljósi þeirra breytinga sem hlýnandi loftslag hefur á undanförnum áratugum haft í för með sér fyrir norðurskautið og alþjóðakerfið allt. Ráðstefna verði haldin á vegum utanríkisráðuneyta landanna með þátttöku stjórnmálamanna og sérfræðinga til að ræða og vinna að samkomulagi um sameiginlega stefnu landanna gagnvart þessum breytingum.
    Meiri hlutinn áréttar að skilgreiningin skuli standa í samhengi við loftslagsbreytingar og varða sameiginlega hagsmuni í ljósi breytinga á stöðu norðurslóða. Við umfjöllun nefndarinnar kom fram að umræða um skilgreiningu í þessa veru hefur síðustu árin verið uppi innan Norðurlandaráðs og Vestur-Norðurlanda. Meiri hlutinn telur að utanríkisráðuneytið muni geta beitt sér fyrir framkvæmd ráðstefnuhaldsins með ráðdeild og hagsýni að leiðarljósi, ekki síst ef ráðstefnan yrði haldin á vegum landanna þriggja eins og tillagan gerir ráð fyrir.
    Tillagan byggist á ályktun nr. 1/2011 sem samþykkt var á ársfundi Vestnorræna ráðsins 24. ágúst 2011 á Bifröst en þar er áskorun þessa efnis beint til ríkisstjórnar Íslands og landsstjórna Færeyja og Grænlands.
    Meiri hlutinn leggur til að tillagan verði samþykkt óbreytt.
    Helgi Hjörvar og Gunnar Bragi Sveinsson voru fjarverandi við afgreiðslu málsins.

Alþingi, 31. janúar 2012.



Sigmundur Ernir Rúnarsson,


frsm.


Guðfríður Lilja Grétarsdóttir.


Bjarni Benediktsson.



Ragnheiður E. Árnadóttir.


Ásmundur Einar Daðason.


Auður Lilja Erlingsdóttir.