Aðrar útgáfur af skjalinu: PDF - Word Perfect. Ferill 201. máls.
140. löggjafarþing 2011–2012.
Þingskjal 826  —  201. mál.

Síðari umræða.


Nefndarálit



um tillögu til þingsályktunar um vestnorrænt samstarf
á sviði kvikmynda- og sjónvarpsþáttagerðar.

Frá utanríkismálanefnd.


    Nefndin hefur fjallað um málið og fengið á sinn fund Ólínu Þorvarðardóttur, formann Íslandsdeildar Vestnorræna ráðsins, og Þórð Þórarinsson, framkvæmdastjóra Vestnorræna ráðsins. Umsögn barst nefndinni frá Sambandi íslenskra kvikmyndaframleiðenda.
    Með tillögunni er lagt til að Alþingi skori á mennta- og menningarmálaráðherra að láta gera athugun á möguleikum þess að auka vestnorrænt samstarf um framleiðslu á kvikmyndum og sjónvarpsþáttum sem hefjist með ráðstefnu með þátttöku fagfólks á sviði kvikmynda- og sjónvarpsþáttagerðar í vestnorrænu löndunum þremur.
    Við umfjöllun nefndarinnar kom fram að framleiðsla á kvikmyndum og sjónvarpsþáttum er þónokkuð takmörkuð sums staðar á Vestur-Norðurlöndum, að hluta til vegna skorts á tækniþekkingu og reynslu. Á sama tíma kom fram að vegna aukinnar framleiðslu á íslensku kvikmyndaefni og fleiri erlendra verkefna sem unnin hafa verið á Íslandi hefur byggst upp fagþekking hér á landi sem hægt væri að miðla áfram með aukinni samvinnu um kvikmyndagerð á Vestur-Norðurlöndum. Nefndin fagnar samvinnu í þeim anda.
    Tillagan byggist á ályktun nr. 2/2011 sem samþykkt var á ársfundi Vestnorræna ráðsins 24. ágúst 2011 á Bifröst en þar er áskorun þessa efnis beint til ríkisstjórnar Íslands og landsstjórna Færeyja og Grænlands.
    Nefndin leggur til að tillagan verði samþykkt óbreytt.
    Bjarni Benediktsson, Helgi Hjörvar og Mörður Árnason voru fjarverandi við afgreiðslu málsins.

Alþingi, 24. janúar 2012.



Sigmundur Ernir Rúnarsson,


framsögumaður.


Guðfríður Lilja Grétarsdóttir.


Ragnheiður E. Árnadóttir.



Gunnar Bragi Sveinsson.


Ásmundur Einar Daðason.


Auður Lilja Erlingsdóttir.