Aðrar útgáfur af skjalinu: PDF - Word Perfect. Ferill 541. máls.
140. löggjafarþing 2011–2012.
Prentað upp.

Þingskjal 836  —  541. mál.
Viðbót.




Skýrsla



Íslandsdeildar Evrópuráðsþingsins fyrir árið 2011.



1. Inngangur.
    Málefni arabaheimsins, stjórnmálaástandið á Balkanskaga, umbætur á starfi Evrópuráðsins og Evrópuráðsþingsins, starfsemi Mannréttindadómstóls Evrópu og jafnréttismál og baráttan gegn ofbeldi gagnvart konum og heimilisofbeldi settu mestan svip á starfsemi Evrópuráðsþingsins á árinu 2011.
    Umræður um stöðu mála í arabaheiminum í kjölfar stjórnarbyltinga í Túnis, Egyptalandi og Líbýu og hvernig Evrópuráðið gæti brugðist við þeim voru fyrirferðarmiklar á árinu. Þingið ályktaði meðal annars að Evrópa yrði að ljá hjálparhönd við að koma á lýðræði og virðingu fyrir mannréttindum í ríkjum araba. Meðal þeirra úrræða sem þingið lagði til voru að styrkja borgaralegt samfélag í arabaríkjunum og gera ungu fólki þar kleift að taka þátt í evrópskum samstarfsáætlunum og stofnunum. Nauðsynlegt væri að minnka þann mismun sem orðinn er í hagsæld milli ríkja norðan- og sunnan Miðjarðarhafsins. Þá fordæmdi þingið valdbeitingu sýrlenskra yfirvalda gegn mótmælendum þar í landi og kallaði eftir að refsiaðgerðum yrði beitt gegn ráðamönnum þar í landi.
    Evrópuráðsþingið tók einnig við fyrstu samstarfsaðilum sínum innan ramma sérstakrar samstarfsáætlunar sinnar á sviði lýðræðis (e. Partnership for Democracy), sem sett var á fót árið 2009. Varð þing Marokkó fyrsta þjóðþingið til að hefja þetta samstarf með samþykkt ályktunar þess efnis á fundi þingsins í júní og í október bættist þjóðarráð Palestínu í hópinn. Búist er við að fleiri þjóðþing bætist í hópinn á árinu 2012.
    Á sviði jafnréttismála var lokið við gerð nýs Evrópusamnings gegn ofbeldi gagnvart konum og heimilisofbeldi. Um er að ræða fyrsta bindandi alþjóðasamninginn á þessu sviði og tekur hann til allra tegunda ofbeldis gegn konum. Í áliti sínu um samninginn taldi þingið þó að í honum væri aðildarríkjunum veitt of mikið svigrúm til að gera fyrirvara við einstaka hluta hans sem og varðandi það hvort gera ætti ákveðnar tegundir ofbeldis refsiverðar eða ekki. Hvatti þingið aðildarríki Evrópuráðsins til að undirrita og fullgilda samninginn án fyrirvara hið fyrsta.
    Á árinu voru samþykktar umfangsmiklar umbætur á starfsemi og nefndaskipan Evrópuráðsþingsins. Fastanefndum var fækkað úr 10 í 8 með sameiningu efnahagsnefndar, félags- og heilbrigðismálanefndar og umhverfisnefndar í eina nefnd um félagsmál, heilbrigðismál og sjálfbæra þróun. Samkvæmt nýju reglum þingsins má hver þingmaður aðeins eiga sæti í tveimur fastanefndum auk setu í eftirlitsnefnd eða reglunefnd. Meðal annarra breytinga má nefna að tekinn var frá tími á fyrsta degi hvers þingfundar fyrir frjáls skoðanaskipti. Breytingarnar taka gildi við upphaf fyrsta þingfundar á árinu 2012.
    Málefni Mannréttindadómstóls Evrópu voru áfram í brennidepli á árinu, en þau kærumál sem bíða meðferðar dómstólsins eru nú um 155 þúsund. Þrátt fyrir gildistöku viðauka 14 við mannréttindasáttmála Evrópu, sem heimilar einfaldari málsmeðferð í ákveðnum málum, er ekki talið að það muni duga til að leysa úr vanda dómstólsins. Hugmyndir eru uppi um að breyta mannréttindasáttmálanum í þá veru að gera dómstólnum kleift að taka hratt á mikilvægustu kærumálunum, styrkja framkvæmd mannréttindasáttmálans í aðildarríkjunum og beita eins konar „nálægðarreglu“ í þeim tilfellum þar sem aðildarríki uppfyllir skuldbindingar sínar samkvæmt sáttmálanum og takmarka þannig fjölda þeirra mála sem skjóta má til dómstólsins. Allar breytingar sem miða í þá átt að takmarka rétt einstaklinga til að skjóta máli sínu milliliðalaust til dómstólsins eru þó umdeildar.
    Loks má nefna að Íslandsdeild tilnefndi á árinu þrjá einstaklinga til starfa í nefnd Evrópuráðsins um varnir gegn pyntingum og ómannlegri eða vanvirðandi meðferð og refsingu (CPT-nefndina) og var Andrés Magnússon geðlæknir kjörinn til starfa í nefndinni í desember af ráðherranefnd Evrópuráðsins.

2. Almennt um Evrópuráðið og Evrópuráðsþingið.
    Hlutverk Evrópuráðsins er að standa vörð um grundvallarhugsjónir aðildarríkjanna um mannréttindi, lýðræði og réttarríkið, auk þess að stuðla að efnahagslegum og félagslegum framförum. Til þess beitir ráðið sér m.a. fyrir gerð og samþykkt bindandi fjölþjóðasáttmála.
Ályktanir og fjölþjóðasáttmálar Evrópuráðsins hafa haft víðtæk áhrif í álfunni allri. Fjölmargir sáttmálar ráðsins á ýmsum sviðum þjóðlífsins eru mikilvægar mælistikur fyrir þjóðir sem eru að koma á lýðræði og réttarríki, en mælistikur Evrópuráðsins gilda einnig fyrir aðrar fjölþjóðastofnanir og alþjóðleg samtök. Þar ber hæst mannréttindasáttmála Evrópu, sbr. lög nr. 62/1994, og félagsmálasáttmála Evrópu.
    Frá lokum kalda stríðsins hefur Evrópuráðið m.a. gegnt því veigamikla hlutverki að styðja við lýðræðisþróun í nýfrjálsum ríkjum Mið- og Austur-Evrópu, m.a. með tæknilegri aðstoð á sviði laga og stjórnsýsluuppbyggingar auk kosningaeftirlits. Aðildarríkjum ráðsins hefur fjölgað ört síðan Berlínarmúrinn féll og eru þau nú 47 talsins. Svartfjallaland er nýjasta aðildarríkið en það sleit ríkjasambandi við Serbíu eftir þjóðaratkvæðagreiðslu í maí 2006 og varð aðili að Evrópuráðinu í maí 2007. Þar með mynda ríki Evrópuráðsins eina órofa pólitíska heild í álfunni, að Hvíta-Rússlandi undanskildu.
    Evrópuráðsþingið er vettvangur fulltrúa þjóðþinga 47 aðildarríkja Evrópuráðsins. Á þinginu sitja 318 fulltrúar og jafnmargir til vara. Ólíkt ráðherranefndinni þar sem hvert ríki hefur eitt atkvæði fer fjöldi fulltrúa á þinginu eftir stærð þjóðar. Frá 2011 starfar þingið í átta fastanefndum en einnig starfa í þinginu fimm flokkahópar. Þá sitja forseti, 20 varaforsetar, formenn fastanefnda og flokkahópa í framkvæmdastjórn þingsins, sem hefur umsjón með innri málefnum þess. Sami hópur skipar stjórnarnefnd þingsins ásamt formönnum landsdeilda. Þingið kemur saman ársfjórðungslega, eina viku í senn, að jafnaði í janúar, apríl, júní og október. Stjórnarnefnd fundar þrisvar á milli þingfunda. Loks kemur sameiginleg nefnd þingsins með ráðherranefnd Evrópuráðsins saman í hvert sinn sem Evrópuráðsþingið kemur saman.
    Evrópuráðsþingið er nokkurs konar hugmyndabanki Evrópuráðsins um stjórnmál, efnahagsmál, félagsmál, mannréttindamál, umhverfis- og orkumál og menningar- og menntamál.
Mikilvægi þingsins felst einkum í því að:
          eiga frumkvæði að aðgerðum og beina tillögum til ráðherranefndarinnar,
          hafa eftirlit með efndum fjölþjóðlegra skuldbindinga og þrýsta á um skjótar aðgerðir í þeim tilvikum sem misbrestur er þar á, og
          vera vettvangur fyrir skoðanaskipti og samráð þingmanna aðildarríkjanna og styrkja þannig lýðræðismenningu og efla tengsl þjóðþinga.
    Á þingfundum Evrópuráðsþingsins eru skýrslur nefnda ræddar og ályktað á grundvelli þeirra. Þingið getur beint tilmælum og álitum til ráðherranefndarinnar sem fjallar um þau og bregst við eftir atvikum með beinum aðgerðum. Evrópuráðsþingið á þannig oft frumkvæði að gerð fjölþjóðlegra sáttmála sem eru lagalega bindandi fyrir aðildarríkin. Sem dæmi má nefna að Evrópusáttmálinn um aðgerðir gegn mansali, sem tók gildi árið 2008, á rætur sínar að rekja til ályktana Evrópuráðsþingsins frá árunum 1997 og 2002. Þar eru stjórnvöld hvött til þess að grípa til samstilltra aðgerða til að stemma stigu við þeirri skipulögðu glæpastarfsemi sem mansal er. Á árinu 2011 lauk einnig vinnu við gerð samnings gegn ofbeldi gagnvart konum og heimilisofbeldi en gerð hans er einnig í samræmi við ályktun Evrópuráðsþingsins.
    Evrópuráðsþingið er fjölþjóðastofnun þar sem þingmenn frá öllum ríkjum Evrópu, að Hvíta-Rússlandi undanskildu, starfa saman á jafnréttisgrundvelli. Jafnframt hafa störf Evrópuráðsþingsins bein áhrif á störf þjóðþinganna þar sem fulltrúar á Evrópuráðsþinginu eru þingmenn í heimalöndum sínum, ólíkt því sem á t.d. við um Evrópuþingið. Þingfundir Evrópuráðsþingsins þar sem þingmenn bera saman bækur sínar og skiptast á hugmyndum eru því afar mikilvægt framlag til löggjafarstarfs heima fyrir og hafa þeir hraðað mjög og stutt við þá öru lýðræðisþróun sem átt hefur sér stað í Evrópu eftir lok kalda stríðsins. Þá hefur reynslan sýnt að þjóðir sem hafa skýr markmið í störfum sínum innan þingsins og kappkosta að ná þeim fram geta haft áhrif langt umfram stærð og pólitískt bolmagn. Sú staðreynd varpar skýru ljósi á mikilvægi og ekki síður möguleika Evrópuráðsþingsins fyrir íslenska hagsmuni.

3. Skipan Íslandsdeildar Evrópuráðsþingsins.
    Í upphafi árs 2011 voru aðalmenn Íslandsdeildar Lilja Mósesdóttir, formaður, þingflokki Vinstri hreyfingarinnar – græns framboðs, Mörður Árnason, varaformaður, þingflokki Samfylkingarinnar, og Birkir Jón Jónsson, þingflokki Framsóknarflokksins. Varamenn voru Þuríður Backman, þingflokki Vinstri hreyfingarinnar – græns framboðs, Magnús Orri Schram, þingflokki Samfylkingarinnar, og Eygló Harðardóttir, þingflokki Framsóknarflokks. Frá og með 1. október 2011 voru aðalmenn Þuríður Backman, formaður, þingflokki Vinstri hreyfingarinnar – græns framboðs, Mörður Árnason, varaformaður, þingflokki Samfylkingarinnar, og Birkir Jón Jónsson, þingflokki Framsóknarflokks, og varamenn Álfheiður Ingadóttir, þingflokki Vinstri hreyfingarinnar – græns framboðs, Oddný G. Harðardóttir, þingflokki Samfylkingarinnar, og Gunnar Bragi Sveinsson, þingflokki Framsóknarflokks. Kjartan Fjeldsted var ritari Íslandsdeildar.
    Skipan Íslandsdeildar í nefndir Evrópuráðsþingsins í lok árs 2011 var sem hér segir:
    Sameiginleg nefnd með ráðherranefnd:     Þuríður Backman.
    Stjórnarnefnd:     Þuríður Backman.
    Stjórnmálanefnd:     Þuríður Backman.
    Laga- og mannréttindanefnd:     Mörður Árnason.
    Jafnréttisnefnd:     Mörður Árnason.
    Efnahags- og þróunarmálanefnd:     Þuríður Backman.
    Umhverfis- og landbúnaðarnefnd:     Birkir Jón Jónsson.
    Menningar-, mennta- og vísindanefnd:     Birkir Jón Jónsson.
    Félags- og heilbrigðismálanefnd:     Birkir Jón Jónsson.
    Nefnd um fólksflutninga og málefni flóttamanna:     Mörður Árnason.

4. Starfsemi Íslandsdeildar 2011.
    Íslandsdeild hélt átta fundi á árinu þar sem þátttaka í þingfundum Evrópuráðsþingsins var m.a. undirbúin. Lilja Mósesdóttir hafði tvívegis orð fyrir flokkahópi sameinaðra evrópskra vinstrimanna á þingfundum, í umræðum um aðgerðir til að stuðla að virkri þátttöku eldra fólks í samfélaginu og á vinnumarkaði og um aukna þátttöku kvenna í samfélagslegri ákvarðanatöku. Mörður Árnason hafði orð fyrir flokkahópi jafnaðarmanna í umræðu um skuldavanda þjóða og tók einnig til máls í umræðum um endurskoðun á landbúnaðar- og fiskveiðistefnu ESB á fundi stjórnarnefndar þingsins í Kænugarði, í umræðum um stöðu mála í Sýrlandi og Líbýu og í umræðum um að veita þjóðarráði Palestínu stöðu samstarfsaðila Evrópuráðsþingsins á sviði lýðræðis. Íslandsdeild varð í 5. sæti af 47 landsdeildum hvað varðar þátttöku í atkvæðagreiðslum á árinu.

Hér er efni sem sést aðeins í pdf-skjalinu.


    Íslandsdeild tilnefndi á árinu þrjá fulltrúa til starfa í nefnd Evrópuráðsins um varnir gegn pyntingum og ómannlegri eða vanvirðandi meðferð og refsingu (CPT-nefndina) í stað Péturs Haukssonar, geðlæknis, en kjörtímabili hans lauk 19. desember. Var auglýsing birt á vef Alþingis þar sem áhugasömum var gefinn kostur á að lýsa áhuga sínum á að starfa í nefndinni. Íslandsdeild valdi þrjá af þeim sem gáfu kost á sér í samræmi við reglur Evrópuráðsins, m.a. um jafna kynjaskiptingu. Ráðherranefnd Evrópuráðsins kaus svo Andrés Magnússon, geðlækni, af þeim lista til starfa í nefndinni til næstu fjögurra ára.

5. Fundir Evrópuráðsþingsins 2011.
    Þingfundir Evrópuráðsþingsins fara fram í Evrópuhöllinni í Strassborg og eru þeir haldnir fjórum sinnum á ári, að jafnaði í janúar, apríl, júní og október. Auk þess koma framkvæmdastjórn og stjórnarnefnd Evrópuráðsþingsins saman til funda á milli þinga og afgreiða mál sem æðsta vald þingsins.

Fyrsti fundur Evrópuráðsþingsins 24.–28. janúar.
    Af hálfu Íslandsdeildar Evrópuráðsþingsins sóttu fundinn Lilja Mósesdóttir, formaður, Mörður Árnason, varaformaður, og Birkir Jón Jónsson, auk Kjartans Fjeldsted ritara. Helstu mál á dagskrá voru umbætur á starfsemi Evrópuráðsins, sáttaferlið á Balkanskaga, vernd heimildarmanna blaðamanna og framkvæmd dóma Mannréttindadómstóls Evrópu. Þá fóru fram utandagskrárumræður um ofsóknir á hendur kristnum mönnum í Miðausturlöndum, ástandið í Túnis í kjölfar stjórnarbyltingarinnar þar í landi og um stöðu mála í Hvíta-Rússlandi, sem og um þróun lýðræðis í Ungverjalandi í kjölfar setningar umdeildra fjölmiðlalaga þar í landi.
    Hæst bar þó án efa umræða um skýrslu svissneska þingmannsins Dicks Marty um meinta ómannúðlega meðferð á fólki og líffærasmygl í Kósóvó, en skýrslan hafði vakið mikla athygli. Í ályktun þingsins um málið var kallað eftir alþjóðlegri rannsókn á meintum glæpum í kjölfar átakanna í Kósóvó, en margt bendir til að líffæri fanga hafi verið fjarlægð á albönsku landsvæði og þeim smyglað úr landi til ígræðslu. Þá vakti skýrslan athygli á meintum leynilegum fangelsum á vegum Frelsishers Kósóvó og víðtækum tengslum milli skipulagðra glæpasamtaka og stjórnmálamanna í Kósóvó, þ.m.t. núverandi forsætisráðherra, Hashim Thaqi. Niðurstaða þingsins vakti litla hrifningu þorra albönsku landsdeildarinnar og þarlendra ráðamanna og ákvað Sali Berisha, forsætisráðherra Albaníu, sem ávarpa átti þingið, að hætta við komu sína.
    Þá fjallaði þingið um sáttaferlið í kjölfar átakanna í gömlu Júgóslavíu og samþykkti ályktanir er lutu að skyldum aðildarríkja Evrópuráðsins til að vinna saman í málum tengdum stríðsglæpum, sættum og pólitískum viðræðum milli ríkja á Balkanskaga, og mikilvægi vitnaverndar til að tryggja réttlæti og sættir á svæðinu. Forseti Serbíu, Boris Tadic, ávarpaði þingið af þessu tilefni og gerði að meginumræðuefni sínu sáttaferlið á Balkanskaga, sem hann sagði í góðum farvegi enda væru samskipti ríkja á svæðinu betri en verið hefði undanfarin 20 ár. Hann varaði þó við þeirri ógn sem lýðræðinu stafar af skipulagðri glæpastarfsemi og kallaði eftir aukinni samvinnu ríkja Vestur-Evrópu og ríkja á Balkanskaga til að bregðast við þeirri ógn. Þá tók hann undir áköll þingsins um að fram færi alþjóðleg rannsókn á meintu líffærasmygli í Kósóvó.
    Einnig ávarpaði forseti Rúmeníu, Traian Bãsescu, þingið og fjallaði m.a. um aðgerðir stjórnvalda í Rúmeníu til að bæta stöðu róma-fólks í landinu. Forsetinn tók að því búnu þátt í minningarathöfn vegna alþjóðlegs minningardags um helförina, og lagði blómsveig að minnisvarða um helförina. Við sama tækifæri varaði forseti Evrópuráðsþingsins, Mevlüt Çavusoglu, við þeirri þróun sem vart hefur orðið í álfunni í átt að auknum kynþáttafordómum og útlendingahatri, jafnt gegn gyðingum, múslimum sem öðrum minnihlutahópum.
    Í ályktun sinni um stjórnarbyltinguna í Túnis hvatti þingið yfirvöld í landinu til að hefja nú þegar undirbúning að frjálsum kosningum og auka einnig samstarf við Evrópuráðið með það fyrir augum að nýta reynslu þess af lýðræðisumbótum og mannréttindamálum. Áréttaði þingið einnig að þó að ástand mála ætti uppruna sinn í stefnu Ben Alis, fyrrverandi forseta, ættu ríki Evrópu einnig sína sök á þróun mála í landinu þar sem þau hefðu látið hjá líða að fordæma ríkjandi stjórnarfar og nýtt sér þess í stað þann stöðugleika sem það veitti til að vinna eigin hagsmunum í landinu brautargengi.
    Hvað varðar ástandið í Hvíta-Rússlandi í kjölfar forsetakosninganna þar í landi kallaði þingið eftir því að þeir sem handteknir voru í mótmælum gegn úrslitum kosninganna yrðu tafarlaust látnir lausir og mælti með að staða Hvíta-Rússlands sem sérstaks gests Evrópuráðsþingsins yrði áfram óvirk þar til raunverulegar lýðræðisumbætur hefðu orðið í landinu.
Á sviði félagsmála samþykkti þingið einnig ályktanir um fyrirbyggjandi heilsugæslu, eftirlit með skuldbindingum á sviði félagslegra réttinda, og aðgerðir til að stuðla að virkri þátttöku eldra fólks í samfélaginu og á vinnumarkaði.
    Lilja Mósesdóttir tók til máls fyrir hönd flokkahóps vinstrimanna í síðastnefndu umræðunni. Í máli hennar kom fram að viðhorf til atvinnuþátttöku og samfélagslegs hlutverks eldra fólks hefðu tekið miklum breytingum undanfarin ár vegna bættrar heilsu þessa þjóðfélagshóps. Stuðla yrði að auknum tækifærum fyrir eldra fólk til að halda áfram að vinna og leggja sitt af mörkum til samfélagsins á aðra vegu. Heimskreppan stefndi því markmiði í hættu, m.a. vegna niðurskurðar á heilbrigðisþjónustu og annarri þjónustu sem og tækifærum til endurmenntunar. Ekki væri hægt að tryggja efnahagslega velferð eldra fólks án þess að huga að ójafnrétti og fátækt meðal þessa þjóðfélagshóps, sem væri raunar oft að einhverju leyti kynbundin þar sem konur þyrftu oftar að gera hlé á þátttöku sinni á vinnumarkaði til að sinna barnauppeldi og fengju því oft lægri eftirlaun. Þörf væri á að gera umbætur á eftirlaunakerfum til að tryggja sveigjanleika og öryggi fyrir eldra fólk, en sveigjanlegra vinnufyrirkomulag fyrir eldra fólk gæti dregið úr starfsmannaveltu og gert eldra fólki kleift að draga sig smám saman út af vinnumarkaði í stað þess að hætta skyndilega að vinna.
    Þá fór fram fyrsti fundur þingmannavíddar herferðar Evrópuráðsins gegn kynferðislegu ofbeldi gagnvart börnum. Mörður Árnason sótti fund þeirra þingmanna sem skipaðir hafa verið af þjóðþingum sínum til að fylgja herferðinni eftir, en tilgangur hennar er að stuðla að umbótum á barnaverndarlöggjöf aðildarríkjanna, skiptast á upplýsingum og vekja athygli almennings á umfangi vandans.
    Á fundi laga- og mannréttindanefndar þingsins tilkynnti finnski þingmaðurinn Kimmo Sasi, skýrsluhöfundur vegna frystingar breskra yfirvalda á eignum Landsbanka Íslands í Bretlandi haustið 2008, að hann mundi ekki leggja fram skýrslu um málið að svo stöddu. Að sögn Sasi voru meginástæður ákvörðunarinnar þær að ekki væri heppilegt að þingið gæfi út skýrslu sem hugsanlega yrði notuð í einkamálum vegna falls bankans. Þá féllu aðgerðir breskra yfirvalda greinilega innan gildissviðs þeirra laga sem aðgerðirnar studdust við og ekki yrði séð að mannréttindabrot hefðu átt sér stað sem rétt væri að nefndin tæki fyrir. Loks lægi samkomulag fyrir í deilu Íslands, Bretlands og Hollands vegna innstæðutrygginga.
    Þingið lýsti miklum áhyggjum af töfum sem vart hefur orðið á framkvæmd dóma Mannréttindadómstóls Evrópu í ákveðnum aðildarríkjum Evrópuráðsins vegna kerfislægra vandamála í réttarkerfum þeirra, og nefndi sérstaklega Búlgaríu, Grikkland, Ítalíu, Moldóvu, Pólland, Rúmeníu, Rússland, Tyrkland og Úkraínu í því sambandi. Þá lét þingið í ljós mikla óánægju með það að ákveðin aðildarríki Evrópuráðsins sýndu dómstólnum lítilsvirðingu með því að hunsa tilmæli hans um að vísa ekki úr landi einstaklingum sem gætu átt á hættu að sæta pyntingum og illri meðferð, en slíkum tilmælum er ætlað að veita dómstólnum ráðrúm til að taka mál þeirra fyrir.
    Í tilmælum um vernd heimildarmanna blaðamanna lýsti þingið því yfir að skylda blaðamanna til að tilgreina heimildarmenn sína ætti að takmarkast við sérstakar aðstæður þar sem miklir almanna- eða einstaklingshagsmunir væru í húfi, en fjöldi tilvika þar sem yfirvöld hafa sett pressu á blaðamenn að tilgreina heimildarmenn sína hefur aukist talsvert undanfarið í aðildarríkjum Evrópuráðsins. Kallaði þingið einnig eftir að Ungverjar breyttu nýsamþykktum fjölmiðlalögum sínum til að þau samræmdust 10. gr. mannréttindasáttmála Evrópu.
    Loks spunnust líflegar umræður um skýrslu Jeans-Claude Mignon, formanns frönsku landsdeildarinnar, um eftirfylgni við umbætur á starfsemi Evrópuráðsins, en í skýrslunni var lýst stuðningi við áætlanir framkvæmdastjóra Evrópuráðsins um að endurnýja stofnunina og auka pólitískt hlutverk hennar. Í ályktun þingsins var harmað að áhugi aðildarríkja á starfi stofnunarinnar virtist fara þverrandi, sem birtist m.a. í tregðu til að veita stofnuninni nægar fjárveitingar til að hún gæti sinnt hlutverki sínu sem skyldi. Hugmynd um að kalla saman leiðtogafund Evrópuráðsins til að skerpa á og endurskilgreina hlutverk stofnunarinnar fékk víðtækan stuðning þingmanna.

Fundur stjórnarnefndar Evrópuráðsþingsins í París 11. mars.
    Af hálfu Íslandsdeildar Evrópuráðsþingsins sótti fundinn Lilja Mósesdóttir, formaður, auk Kjartans Fjeldsted ritara. Helstu mál á dagskrá voru utandagskrárumræða um samvinnu milli Evrópuráðsins og nýrra lýðræðisríkja í arabaheiminum, skipun nefndar um stjórnmálaástandið í Hvíta-Rússlandi, erfðabreyttar lífverur og nýr Evrópuráðssamningur um ofbeldi gegn konum og heimilisofbeldi.
    Að beiðni Tiny Kox, formanns flokkahóps sameinaðra vinstrimanna á Evrópuráðsþinginu, fór fram utandagskrárumræða um samvinnu milli Evrópuráðsins og nýrra lýðræðisríkja í arabaheiminum með þátttöku Dominique Baudis, forseta frönsku rannsóknastofnunarinnar í málefnum arabaheimsins (f. Institut du Monde Arabe) og varaformanns utanríkismálanefndar Evrópuþingsins, og Thorbjørns Jagland, framkvæmdastjóra Evrópuráðsins. Í framsögu Kox kom fram að Evrópa hefði slæma samvisku vegna stefnu sinnar í arabaheiminum og hefði í raun unnið gegn lýðræðinu í leit sinni að „stöðugleika“. Nauðsynlegt væri að Evrópuráðið rétti nýjum lýðræðisríkjum strax hjálparhönd, m.a. í því að skipuleggja frjálsar kosningar og skrifa nýjar stjórnarskrár. Baudis taldi ofsagt að Evrópa hefði unnið gegn lýðræði í arabaheiminum og benti á að andstæðingum ríkjandi stjórnvalda þar hefði flestum verið veitt hæli í Evrópu og þeir haldið baráttu sinni áfram þaðan. Ljóst væri að ærin verkefni biðu nýrra yfirvalda í Túnis og Egyptalandi við að svara væntingum fólksins enda hefði atvinnuleysi aukist frá upphafi stjórnarbyltinganna, m.a. vegna minni ferðamannastraums, en ferðamannaiðnaðurinn er um þriðjungur af hagkerfi Túnis. Taldi Baudis enn fremur að byltingarnar gætu haft jákvæð áhrif á friðarviðræður Ísraela og Palestínumanna þar sem Ísrael yrði framvegis undir meiri pressu að semja. Jagland taldi að Evrópa yrði að nálgast málið af ákveðinni auðmýkt. Þá hefði reynsla sín af Óslóar-friðarferlinu kennt sér að ekki mætti útiloka nein stjórnmálaöfl í viðræðum um endurreisn lýðræðis. Ákveðin tækifæri hefðu tapast á undanförnum árum með því að neita að tala við fjöldahreyfingar eins og Hamas og Hizbollah.
    Harðar umræður urðu um tillögu framkvæmdastjórnar Evrópuráðsþingsins um að skipa nefnd um stjórnmálaástandið í Hvíta-Rússlandi. Töldu sumir meðlimir stjórnarnefndarinnar, þ.m.t. formenn landsdeilda Noregs og Svíþjóðar, skipun slíkrar nefndar óæskilega það eð hún mundi aldrei geta heimsótt Hvíta-Rússland án þess að í því fælist ákveðin viðurkenning á ríkjandi stjórnvöldum. Aðrir töldu að með skipun nefndarinnar mundi þingið senda mikilvæg pólitísk skilaboð til hvít-rússnesku stjórnarandstöðunnar og pólitískra fanga. Fram kom það sjónarmið að réttara væri að fela Feneyjanefndinni eða mannréttindafulltrúa Evrópuráðsins málið en Wojciech Sawicki, skrifstofustjóri þingsins, taldi að þar sem Hvíta-Rússland væri ekki aðili að Evrópuráðinu gætu þær stofnanir ekkert aðhafst enda næði umboð þeirra aðeins til aðildarríkja. Niðurstaða atkvæðagreiðslu um málið varð að lokum sú að nefndin skyldi skipuð en mikilvægi þess að hún aðhefðist ekkert sem túlka mætti sem viðurkenningu á ríkjandi stjórnvöldum í landinu var áréttað.
    Þá afgreiddi stjórnarnefndin álit á drögum að nýjum Evrópuráðssamningi um ofbeldi gegn konum og heimilisofbeldi, en um er að ræða fyrsta bindandi alþjóðasamninginn sem gerður er á þessu sviði. Í umsögninni var tilkomu samningsins fagnað en jafnframt lagðar til ýmsar breytingar til að styrkja vernd þjóðfélagshópa sem standa höllum fæti, svo sem barna, eldri borgara og flóttamanna. Einnig var lýst efasemdum um það svigrúm sem aðildarríkjum er veitt til að gera fyrirvara við samninginn, sem gæti gert ákveðna hluta hans nánast óvirka, sem og það að aðildarríkjum samningsins yrði í sjálfsvald sett hvort ákveðin háttsemi sem fellur undir samninginn skyldi gerð refsiverð eða ekki. Þá voru aðildarríki Evrópuráðsins hvött til að gera viðauka við samninginn er varða börn og eldri borgara.
    Auk framangreindra ákvarðana afgreiddi stjórnarnefndin ályktanir um vernd umhverfisins í kringum Miðjarðarhafið, um erfðabreyttar lífverur, um unga afbrotamenn og um notkun líffræðilegrar tölfræði (e. biometrics), en nefndin lýsti áhyggjum sínum af því að stóraukin notkun slíkra upplýsinga og skortur á skýrum reglum um hana hefði í för með sér hættur hvað varðar friðhelgi einkalífs og hvatti aðildarríki Evrópuráðsins til að setja skýrari og afdráttarlausari reglur á þessu sviði.
    Loks samþykkti stjórnarnefndin siðareglur fyrir skýrsluhöfunda Evrópuráðsþingsins sem og nánari skilgreiningu á reglum þingsins um samsetningu landsdeilda þess.

Annar fundur Evrópuráðsþingsins 11.–15. apríl.
    Af hálfu Íslandsdeildar Evrópuráðsþingsins sóttu fundinn Lilja Mósesdóttir, formaður, Mörður Árnason, varaformaður, og Birkir Jón Jónsson, auk Kjartans Fjeldsted ritara, en vegna tillögu um vantraust á ríkisstjórnina sem lögð var fram á Alþingi hélt Íslandsdeildin heim 13. apríl. Meðal helstu mála á dagskrá þingsins voru umræður um skuldavanda þjóða, trúarlegar hliðar samskipta milli menningarheima og baráttan gegn fátækt. Þá fóru fram utandagskrárumræður um flóttamannavandann vegna ástandsins í Norður-Afríku og um stöðu mála á svæðinu í kjölfar stjórnarbyltinganna í Egyptalandi og Túnis og átakanna í Líbýu.
    Hæst bar þó án efa umræðuna um skuldavanda þjóða. Steingrími J. Sigfússyni fjármálaráðherra hafði verið boðið að ávarpa þingið í tilefni hennar en af þátttöku hans varð þó ekki. Í framsögu sinni lýsti skýrsluhöfundur, hollenski þingmaðurinn Pieter Omtzigt, áhyggjum sínum af því að niðurstaða þjóðaratkvæðagreiðslunnar á Íslandi gæti leitt til þess að ekkert yrði af aðild landsins að ESB og upptöku evru. Í tilmælum þingsins kom fram að of mikil þjónkun við fjármálakerfið á kostnað annarra hluta hagkerfisins hefði leitt til efnahagslegs misvægis og óstöðugleika. Aðgerðir yfirvalda til að bjarga fjármálakerfinu hefðu falið í sér þjóðnýtingu á skuldum einkaaðila, hið opinbera tæki á sig tap sem hefði átt að falla á hluthafa og kröfuhafa. Það væri einnig áhyggjumál að ríki hefðu neyðst til að ábyrgjast skuldir annarra ríkja, til að mynda í tilfelli Íslands og Grikklands, en slíkt gæti mjög aukið á óstöðugleika í fjármálakerfinu. Fjármálahrunið á Írlandi og á Íslandi hefði verið bein afleiðing mikilla ábyrgða hins opinbera gagnvart fjármálakerfinu. Til að tryggja gegnsæi og pólitíska ábyrgð væri nauðsynlegt að þjóðþingum væri gerð full grein fyrir slíkum ábyrgðum, svo sem innstæðutryggingum og óbeinum skuldbindingum gagnvart fjármálakerfinu.
    Mörður Árnason tók til máls fyrir hönd flokkahóps jafnaðarmanna í umræðunni um skuldavanda þjóða. Í máli hans kom fram að alþýðu manna tæki sárt að horfa upp á hnignandi velferðarþjónustu og menntamiðlun vegna ábyrgðarleysis og spillingar í einkageiranum. Úrslit þjóðaratkvæðagreiðslunnar um Icesave-málið á Íslandi sýndu þetta vel, en þau mætti þó ekki oftúlka. Eftir sem áður mundu Íslendingar standa við alþjóðlegar skuldbindingar sínar og greiða það sem þeim bæri. Tók hann undir það að nauðsynlegt væri að auka gagnsæi í fjármálum hins opinbera með því að þjóðþingum og almenningi væri gerð nægileg grein fyrir öllum óbeinum skuldbindingum hins opinbera, svo sem vegna innstæðutrygginga. Hefði verið skylt að gera Alþingi fulla grein fyrir þeim skuldbindingum sem hugsanlega mundu falla á íslenska ríkið vegna innlánasöfnunar íslenskra banka erlendis hefðu íslenskir stjórnmálamenn e.t.v. verið betur færir um að gera viðeigandi ráðstafanir.
    Í utandagskrárumræðunni um flóttamannavandann vegna ástandsins í Norður-Afríku kom fram að 23 þúsund flóttamenn frá Túnis hefðu komið til ítölsku eyjarinnar Lampedusa undanfarna mánuði. Að auki hefðu alls 460 þúsund manns flúið átökin í Líbýu og hefðust við í Túnis og Egyptalandi. Gagnrýndu nokkrir þingmenn að fleiri Evrópuríki skyldu ekki taka þátt í að takast á við vandann og hefðu í staðinn látið strandríkjum við Miðjarðarhafið, sérstaklega Ítalíu, það eftir. Á hinn bóginn var bent á að margir flóttamannanna væru í raun að flýja land af efnahagslegum ástæðum og nytu því ekki verndar samkvæmt alþjóðlegum sáttmálum. Ítölsk yfirvöld veittu flóttamönnum frá Túnis tímabundin dvalarleyfi sem gerðu þeim kleift að ferðast til annarra Schengen-ríkja en ýmis Evrópuríki með Frakkland í fararbroddi gagnrýndu þá ráðstöfun harðlega. Tóku Frakkar m.a. upp eftirlit á ítölsku landamærunum og meinuðu mörgum flóttamannanna inngöngu í Frakkland. Olli þetta miklum titringi milli franskra og ítalskra stjórnvalda. Í ályktun þingsins um málið var áréttað að flóttamannavandinn væri á ábyrgð allra Evrópuríkja og nauðsynlegt væri að öll ríki tækju sinn þátt í að deila byrðunum.
    Ávarp Receps Tayyips Erdogans, forsætisráðherra Tyrklands, vakti einnig nokkra athygli. Í máli hans kom m.a. fram að Tyrkland hefði nú unnið sig út úr efnahagskreppunni og hefði búið við 8,9% hagvöxt á síðasta ári. Landið uppfyllti nú tvö af fjórum Maastricht-skilyrðum. Óásættanlegt væri að leggja stein í götu umsóknar Tyrklands að Evrópusambandinu á fölskum forsendum, Tyrkland og ESB þyrftu hvort á öðru að halda. Hvað varðar átökin í Líbýu ítrekaði hann andstöðu Tyrklands við sprengjuárásir á landið og sagði landið aðeins styðja mannúðaraðstoð, ekki hernaðarlega aðstoð. Í svari við fyrirspurn fransks þingmanns um stöðu trúfrelsis í Tyrklandi benti hann á að Frakkar hefðu nýverið samþykkt bann við því að konur klæddust andlitsblæjum og því væri réttast að sum ríki litu í eigin barm áður en þau gagnrýndu aðra fyrir skort á umburðarlyndi í trúmálum. Var Erdogan einnig spurður um handtöku blaðamannsins Ahmets Sik og tuga annarra blaðamanna í Tyrklandi undanfarið, sem og um ástæður þess að allt upplag af nýútgefinni bók Siks var gert upptækt. Hafnaði hann ásökunum þess efnis að stjórnvöld væru á einhvern hátt á bak við aðgerðirnar og sagði ástæðu þeirra grun um að blaðamennirnir ættu þátt í samsæri um að framkvæma stjórnarbyltingu í landinu. Málið væri alfarið í höndum dómsvaldsins sem væri sjálfstætt og óháð stjórnvöldum.
    Thomas Hammarberg, mannréttindafulltrúi Evrópuráðsins, flutti þinginu árlega skýrslu sína um ástand mannréttinda í álfunni. Varaði hann við því að efnahagskreppan hefði haft alvarleg áhrif á mannréttindi. Ríki hefðu skuldsett sig til að bjarga bankakerfinu og ljóst væri að hinir fátæku og þeir sem minna mættu sín mundu bera mikinn hluta byrðanna í formi minni félagslegrar þjónustu. Vernd félagslegra réttinda yrði að vera algjört forgangsmál á næstu árum. Þá hefði aukið atvinnuleysi í kjölfar kreppunnar leitt til vaxandi útlendingahaturs og fordóma gagnvart minnihlutahópum, sem aftur birtust í auknu fylgi stjórnmálaafla sem ælu á tortryggni og fordómum í garð útlendinga.
    Í ályktun sinni um baráttu gegn fátækt lýsti þingið áhyggjum sínum af aukinni fátækt í álfunni, ekki síst í kjölfar efnahagskreppunnar. Í ályktuninni var að auki bent á þá staðreynd að konur væru í meira mæli fórnarlömb fátæktar en karlar og skorað á aðildarríkin að grípa til sérstakra aðgerða til að stemma stigu við fátækt meðal kvenna og taka upp kynjafræðilegt sjónarhorn við gerð áætlana til að berjast gegn fátækt og félagslegri einangrun. Nauðsynlegt væri að aðildarríkin tryggðu þegnum sínum lágmarkslaun sem dygðu til framfærslu sem og tekjur til þeirra sem ekki gætu unnið fyrir sér sjálfir.
    Þá fór fram umræða um trúarlegar hliðar samskipta milli menningarheima. Meðal þátttakenda voru Daníel patríarki rúmensku kirkjunnar, Jean-Louis Tauran kardínáli, Mehmet Görmez, formaður tyrknesku forsætisnefndarinnar um trúarleg málefni, Berel Lazar, æðsti rabbíi í Rússlandi, og Bernhard Felmberg preláti lútersk evangelísku kirkjunnar í Þýskalandi. Í kjölfar umræðunnar samþykkti þingið tilmæli til ráðherranefndarinnar um að koma á fót samstarfi um lýðræði og mannréttindi milli Evrópuráðsins og trúarhópa og húmanískra samtaka.
    Í ályktun um framfylgni við aðildarskuldbindingar Georgíu taldi þingið að jákvæð þróun hefði átt sér stað í landinu á ýmsum sviðum, til að mynda með auknu sjálfstæði dómstóla. Þá fordæmdi þingið að flóttamönnum frá Suður-Ossetíu og Abkasíu skyldi enn meinað að snúa til síns heima.
    Þingið ræddi einnig dauðarefsingar í aðildarríkjum og aukaaðildarríkjum Evrópuráðsins. Fram kom að reynsla Evrópumanna hefði sýnt að dauðarefsingar væru ekki nauðsynlegar til að stemma stigu við ofbeldisglæpum og hvatti þingið stjórnvöld í Bandaríkjunum, Japan og Hvíta-Rússlandi til að láta af þeim.
    Loks lagði þingið til í ályktun sinni um styrkingu varna gegn pyntingum að fulltrúar í Evrópunefnd um varnir gegn pyntingum og ómannlegri eða vanvirðandi meðferð eða refsingu (CPT-nefndinni) yrðu framvegis kosnir á Evrópuráðsþinginu í stað kjörs í ráðherranefnd Evrópuráðsins. Tilgangurinn væri sá að tryggja enn frekar sjálfstæði nefndarmanna og koma í veg fyrir hugsanlega hagsmunaárekstra. Voru aðildarríkin hvött til að hefja strax vinnu að því að breyta CPT-sáttmálanum í þá veru.

Fundur stjórnarnefndar Evrópuráðsþingsins í Kiev 27. maí.
    Af hálfu Íslandsdeildar Evrópuráðsþingsins sótti fundinn Mörður Árnason, varaformaður, auk Kjartans Fjeldsted ritara. Helstu mál á dagskrá voru endurskoðun á landbúnaðarstefnu og fiskveiðistefnu Evrópusambandsins, möguleg skaðsemi rafsegulbylgna og áhrif þeirra á umhverfið, hlutverk smálána í uppbyggingu félagslegs hagkerfis, skaðsemi þungmálma og annarra málma fyrir heilsu manna, áhrif samstarfs Evrópusambandsins við ríki Austur-Evrópu á stjórnarhætti og hagþróun í austanverðri álfunni og forsetakosningarnar í Kasakstan.
    Fundurinn hófst á ávarpi Volodímírs Lítvíns, forseta úkraínska þingsins, og því næst kynnti Kostjantín Grístsjenkó, utanríkisráðherra Úkraínu, helstu áhersluatriði úkraínsku formennskunnar í Evrópuráðinu, en hún stóð frá maí til nóvember. Í máli hans kom fram að Úkraína mundi leggja áherslu á að standa vörð um réttindi barna, mannréttindi og réttarríki í samhengi lýðræðis og stöðugleika í Evrópu og stað- og svæðisbundið lýðræði. Í kjölfarið fóru fram skoðanaskipti milli forsætisnefndarinnar og utanríkisráðherrans um áherslur formennskunnar.
    Að því búnu kynnti Júlía Líovotsjkína, skýrsluhöfundur framkvæmdastjórnarinnar, fundinum skýrslu sína um forsetakosningarnar í Kasakstan 3. apríl sl. þar sem sitjandi forseti, Núrsúltan Nasarbajev, fór með sigur af hólmi. Niðurstaða sendinefndar Evrópuráðsþingsins var sú að úrslit kosninganna endurspegluðu vilja kjósenda. Þó hefðu verið annmarkar á kosningunum, sérstaklega hvað varðaði sjálfstæði fjölmiðla, og hvatti fundurinn yfirvöld í Kasakstan til að gera viðeigandi úrbætur hið fyrsta.
    Mörður Árnason tók til máls í umræðu um skýrslu um endurskoðun fiskveiðistefnu og landbúnaðarstefnu Evrópusambandsins (CAP og CFP). Í máli hans kom fram að endurskoðun á fiskveiðistefnu Íslands stæði yfir. Meðal þeirra atriða sem litið væri til á Íslandi væri eignarhald á kvóta og leiðir til að koma í veg fyrir að kvóti safnaðist á of fáar hendur. Við endurskoðun fiskveiðistefnu ESB væri mikilvægt að tryggja valddreifingu í greininni og að ákvarðanir sem teknar væru miðlægt takmörkuðust við almenna stefnumótun. Í kjölfarið kvaddi breski þingmaðurinn Christopher Chope sér hljóðs og sagði m.a. að Bretar sæju eftir því að hafa látið stjórn eigin fiskimiða af hendi við inngöngu í Evrópusambandið. Brottkast það sem viðgengist í lögsögu ESB væri hneisa en meginvandinn væri sá að kerfið tryggði ekki að það væri þeim í hag sem stunda fiskveiðar að vernda fiskstofnana. Norski þingmaðurinn Håkon Haugli tók undir það að brottkast væri alvarlegt vandamál í Evrópu og ályktunin hefði sterkara orðalag um það. Skýrsluhöfundur, Juha Korkeaoja, benti á að eyjar væru almennt betur í stakk búnar til að stjórna fiskveiðum sínum. Framseljanlegir kvótar væru hugsanleg framtíðarlausn, til að mynda í Eystrasalti, og Ísland og Noregur hugsanleg módel fyrir nýja fiskveiðistefnu ESB.
    Því næst ræddi fundurinn skýrslu efnahagsnefndar um smálán. Í ályktun þingsins kemur fram að smálán gætu auðveldað fólki að rífa sig upp úr atvinnuleysi og gerast sjálfstætt starfandi atvinnurekendur. Smálán gætu þannig stuðlað að hagvexti og haft í för með sér félagslega kosti og voru aðildarríkin hvött til að efla lagaumhverfi smálána og ryðja lagalegum og stjórnsýslulegum hindrunum úr vegi þess að notkun þeirra gæti aukist. Einnig var lagt til að aðildarríki veittu sprotafyrirtækjum undanþágu frá greiðslu til almannatrygginga og enfölduðu skráningarreglur fyrir slík fyrirtæki.
    Þá fóru fram umræður um áhrif samstarfs Evrópusambandsins við ríki Austur-Evrópu og áhrif þess á stjórnarfar og hagþróun í austanverðri álfunni. Um er að ræða samstarf Evrópusambandsins við Armeníu, Aserbaídsjan, Georgíu, Hvíta-Rússland, Moldóvu og Úkraínu í svokölluðu Eastern Partnership sem hleypt var af stokkunum á árinu 2009. Miðar samstarfið að því að aðstoða fyrrnefnd ríki við að færast nær stöðlum ESB og Evrópuráðsins hvað varðar kosningar og dómsmál og stuðla að auknum efnahagslegum tengslum sambandsins og ríkjanna sex. Í ályktun þingsins var tilkomu samstarfsins fagnað sem mikilvægu tækifæri fyrir ríkin til að koma á nauðsynlegum umbótum. Þá voru stjórnvöld í ríkjunum sex hvött til að koma á skýrum aðskilnaði stjórnmála og viðskiptalífs, ráðast í aðgerðir til að tryggja frjálsa samkeppni innlendra og erlendra fyrirtækja, berjast gegn einokun og bæta viðskiptaumhverfið.
    Umtalsverðar umræður urðu um skýrslu landbúnaðar- og umhverfisnefndar um mögulega skaðsemi rafsegulbylgna. Upprunalega hafði skýrsluhöfundur lagt til að banna ætti notkun farsíma í skólum með öllu en ýmsum þingmönnum þótti það of langt gengið. Varð niðurstaðan sú að hvetja ætti til þess að setja skýrar reglur um notkun barna á farsímum í skólum og að leitast við að nota frekar fastanet í stað þráðlauss aðgangs að internetinu í skólum. Í ályktun þingsins voru aðildarríkin einnig hvött til að gera ráðstafanir til að vernda börn og ungmenni gegn rafsegulbylgjum, en þau eru viðkvæmari fyrir hugsanlegri myndun heilaæxla af þeirra völdum. Endurskoða þyrfti vísindalegan grundvöll þeirrar ráðgjafar sem notast væri við til að ákvarða heilsuverndarmörk vegna rafsegulbylgna. Meðan enn væri ekki að fullu ljóst hvaða áhrif rafsegulbylgjur hefðu á heilsu manna væri rétt að stjórnvöld í aðildarríkjum Evrópuráðsins hefðu allan vara á.
    Loks ræddi fundurinn skýrslu um skaðsemi þungmálma og annarra málma fyrir heilsu manna. Í ályktun fundarins kom fram að málmar eins og kadmíum, kvikasilfur og blý væru gjarnan orsök ýmissa krónískra kvilla. Þar sem borgararnir hefðu rétt á að lifa í heilsusamlegu umhverfi væri mikilvægt að aðildarríki Evrópuráðsins réðust í fyrirbyggjandi aðgerðir til að takmarka notkun slíkra málma í landbúnaði, iðnaði og heilbrigðiskerfinu til að minnka uppsöfnun þeirra í umhverfinu, fæðukeðjunni og í líkömum manna.

Þriðji fundur Evrópuráðsþingsins 20.–24. júní.
    Af hálfu Íslandsdeildar Evrópuráðsþingsins sóttu fundinn Lilja Mósesdóttir, formaður, Mörður Árnason, varaformaður, og Birkir Jón Jónsson, auk Kjartans Fjeldsted ritara. Meðal helstu mála á dagskrá þingsins voru umsókn marokkóska þingsins um stöðu sérstaks samstarfsaðila Evrópuráðsþingsins á sviði lýðræðis (e. Partner for Democracy), staða mála í Túnis, Sýrlandi og í Líbýu, málefni flóttamanna, umbætur á starfi Evrópuráðsþingsins, aukin þátttaka kvenna í samfélagslegri ákvarðanatöku, hlutverk þjóðþinga í vernd mannréttinda og atvinnuleysi meðal ungmenna.
    Lilja Mósesdóttir tók til máls fyrir hönd flokkahóps sameinaðra evrópskra vinstrimanna í umræðu um aukna þátttöku kvenna í samfélagslegri ákvarðanatöku. Í máli hennar kom m.a. fram að efnahagskreppan á Íslandi hefði verið ákveðið tækifæri til að auka hlut kvenna í ábyrgðarstöðum og ákvarðanatöku. Samstaða hefði m.a. náðst á þingi um að innleiða í lög 40% kynjakvóta í stjórnum fyrirtækja með fleiri en 50 starfsmenn á árinu 2013. Lilja harmaði hins vegar að vegna niðurskurðar á fjárlögum hefði jafnframt þurft að lækka hámarksupphæð fæðingarorlofsgreiðslna verulega, sem dregið hefði úr nýtingu feðra á fæðingarorlofi. Í ályktun þingins voru aðildarríkin hvött til að innleiða 40% kynjakvóta í stórum fyrirtækjum og opinberum stofnunum og hvetja önnur fyrirtæki og félagasamtök til að gera slíkt hið sama, líkt og gert hefur verið á Íslandi og í Noregi.
    Málefni arabaheimsins voru ofarlega á baugi á þinginu og bar þar einna hæst umsókn marokkóska þingsins um sérstakt lýðræðissamstarf við Evrópuráðsþingið. Varð Marokkó fyrsta ríkið til að leggja fram slíka umsókn síðan þessi samstarfsleið var sett á fót árið 2009 og ávörpuðu forsetar beggja deilda marokkóska þingsins Evrópuráðsþingið af þessu tilefni. Fram kom í umræðum um umsóknina að enda þótt Marokkó ætti enn nokkuð í land á sviði lýðræðis og verndar mannréttinda, til að mynda hvað varðar lagalega stöðu konungdæmisins og Vestur-Sahara, hefðu þó umtalsverðar umbætur farið fram í landinu undanfarin ár. Vilji marokkóska þingsins til að taka upp samstarf við Evrópuráðsþingið bæri vott um raunverulega viðleitni ríkisins til að innleiða frekari umbætur á sviði lýðræðis og mannréttinda og því væri rétt að verða við beiðni þess um samstarf. Árangur af samstarfinu yrði metinn að tveimur árum liðnum.
    Einnig fór fram utandagskrárumræða um stöðu mála í Sýrlandi og Líbýu en í henni tók Mörður Árnason þátt. Í máli hans kom m.a. fram að á Íslandi sem annars staðar hefðu vaknað ýmsar spurningar um aðgerðir NATO í Líbýu. Þegar jafn mikilvægt land og Ítalía og fráfarandi formaður arababandalagsins, Amr Moussa, kölluðu eftir vopnahléi og samningaviðræðum væri ekki laust við að efasemdir vöknuðu um áframhaldandi aðgerðir. Rétt væri að endurskoða forgangsröðun þegar kæmi að stuðningi Evrópu við lýðræðisvakninguna í arabaheiminum. Meðan fé væri ausið í hernaðaraðgerðir í Líbýu fengist lítið fé til uppbyggingar í Túnis og víðar þar sem þess væri brýn þörf. Menn hlytu nú að líta til þess að gera hlé á hernaðaraðgerðum í Líbýu og leitast við að leysa átökin með samningaviðræðum.
Þá afgreiddi Evrópuráðsþingið ályktun um umbætur á starfi þingsins. Meðal helstu breytinga má nefna að efnahagsnefnd, félagsmálanefnd og umhverfisnefnd voru sameinaðar í eina nefnd félagsmála, heilbrigðismála og sjálfbærrar þróunar. Í ljósi þeirrar breytingar voru fjárreiður Evrópuráðsins færðar til reglunefndar og málefni OECD og Endurreisnar- og þróunarbanka Evrópu (EBRD) til stjórnmálanefndar. Ákveðið var að hver þingmaður gæti framvegis aðeins setið í tveimur nefndum.
    Fram fóru umræður um nýútkomna skýrslu vitringanefndar Evrópuráðsins „Living together in the 21st century – combining diversity and freedom in 21st century Europe“. Skiptar skoðanir voru um skýrsluna en samhljómur var þó um að Evrópa stæði frammi fyrir ákveðinni leiðtogakrísu, sem birtist í því að fjölmenningarsamfélagið ætti sér sífellt færri málsvara. Hvatti þingið stjórnmálamenn í álfunni til að berjast harðar gegn vaxandi útlendingahatri og kynþáttafordómum, sem birst hafa m.a. í auknu fylgi stjórnmálaafla sem ala á slíku. Í ályktun þingsins sagði að ekki væri hægt að ætlast til að þeir sem kysu að flytja löglega til annars lands skildu sína eigin menningu eftir í upprunalandinu. Hins vegar bæri þeim að sýna viðleitni til að aðlagast hinu nýja samfélagi, t.d. með því að læra tungumálið og afla sér þekkingar og skilnings á menningu þess auk þess að virða lýðræði, mannréttindi, þ.m.t. réttindi kvenna, og réttarríkið. Í ályktuninni var jafnframt lagt til að haldið yrði árlegt málþing gegn öfgastefnu og aðildarríkin hvött til að til að gera þegnum sínum betur kleift að kynna sér menningu innflytjendahópa.
    Árleg mannréttindaverðlaun Evrópuráðsþingsins féllu að þessu sinni í skaut rússnesku félagasamtakanna Nefndar gegn pyntingum (r. Komitet Protiv Pytok). Samtökin hafa rannsakað pyntingar í norðanverðum Kákasus-fjöllum og barist fyrir réttlæti fyrir þolendur.
    Viktor Janúkóvítsj, forseti Úkraínu, ávarpaði þingið sem formaður ráðherranefndar Evrópuráðsins. Réttindi barnsins, stuðningur við mannréttindi og staðbundið lýðræði væru forgangsatriði formennskunnar en auk þess legði formennskan áherslu á að styðja við þær umbætur sem stæðu yfir á starfi Evrópuráðsins. Hvað varðaði innri málefni Úkraínu sagði forsetinn meðal annars að þróun sambandsins við Evrópu væri eitt af helstu forgangsatriðum ríkisstjórnar sinnar ásamt nánari tengslum við Rússland. Þá gerði forsetinn grein fyrir þeim umbótum sem staðið hefðu yfir í landinu undanfarið ár, en ný löggjöf hefði verið sett á ýmsum sviðum, til að mynda hvað varðar kosningar, aðgang að opinberum upplýsingum og spillingu. Sagði forsetinn að baráttan gegn spillingu væri eitt af forgangsatriðum sínum en viðleitni í þá átt mætti andstöðu sumra einstaklinga sem hagnast hefðu á þjófnaði á opinberum eignum undir fyrri ríkisstjórnum.
    Meðal annarra háttsettra gesta sem ávörpuðu þingið má nefna Sersj Sargasían, forseta Armeníu, Nikolaí Mladenov, utanríkisráðherra Búlgaríu, og Sabine Leutheusser-Schnarrenberger, dómsmálaráðherra Þýskalands.
    Þá fór fram umræða um hlutverk þjóðþinga í að tryggja vernd mannréttinda í aðildarríkjum Evrópuráðsins. Í ályktun þingsins kom fram að þjóðþingin geti leikið mikilvægt hlutverk, t.d. með hlutverki sínu í lagasetningu, staðfestingu alþjóðasamninga og eftirliti með framkvæmdavaldinu. Þjóðþingin væru til að mynda í lykilstöðu til að tryggja framfylgni dóma Mannréttindadómstóls Evrópu og var bent á að þjóðþingin í Bretlandi, Þýskalandi, Hollandi, Finnlandi og Rúmeníu hefðu sett upp nefndir til að hafa eftirlit með framfylgni dóma Mannréttindadómstólsins.
    Á blaðamannafundi í tilefni af alþjóðlegum degi flóttamanna tilkynnti Mevlüt Çavusoglu, forseti Evrópuráðsþingsins, að þingið hefði ákveðið að hefja rannsókn á atviki sem átti sér stað hinn 8. maí 2011 þar sem um sextíu flóttamenn frá Norður-Afríku létu lífið þegar bát þeirra hvolfdi í Miðjarðarhafinu. Eitt megintilefni rannsóknarinnar voru fregnir um að herskip á svæðinu hefðu hundsað ítrekaðar beiðnir flóttamannanna um aðstoð.
    Loks ræddi þingið þá stöðu sem uppi er í álfunni hvað varðar atvinnuleysi meðal ungmenna. Í ályktuninni var bent á að atvinnuleysi meðal ungmenna væri tvöfalt meira en meðal annarra aldurshópa eða að meðaltali um 20%. Aðildarríkjum beri skylda til að bregðast við með afgerandi hætti enda væri ungt fólk sérstaklega viðkvæmt þegar kæmi að áhrifum atvinnuleysis. Var ýmsum tilmælum beint til aðildarríkja Evrópuráðsins, m.a. að styrkja tengsl milli menntastofnana og atvinnulífsins, auka fjárframlög til atvinnumiðlana og bjóða atvinnurekendum upp á fjárhagslega hvata til að ráða til sín ungt fólk.

Fjórði fundur Evrópuráðsþingsins 3.–7. október.
    Af hálfu Íslandsdeildar Evrópuráðsþingsins sóttu fundinn Mörður Árnason, varaformaður, og Birkir Jón Jónsson, auk Kjartans Fjeldsted ritara. Meðal helstu mála á dagskrá voru umsókn þjóðarráðs Palestínu um lýðræðissamstarf við Evrópuráðsþingið, samstarf Evrópuráðsins og ríkja í arabaheiminum, stjórnmálaástandið á Balkanskaga, árleg umræða um starfsemi Efnahags- og þróunarstofnunar Evrópu (OECD), hindranir á eftirliti þjóðþinga og dómstóla með mannréttindabrotum, mannréttindi og baráttan gegn hryðjuverkum, friðhelgi einkalífs og vernd persónuupplýsinga og áhrif Lissabon-sáttmálans á Evrópuráðið.
    Hæst bar án efa umræðu um umsókn palestínska þingsins um lýðræðissamstarf við Evrópuráðsþingið sem og ræðu Mahmouds Abbas, forseta Palestínu, sem flutt var daginn eftir, ekki síst í ljósi umsóknar Palestínu um fulla aðild að Sameinuðu þjóðunum. Tók Mörður Árnason þátt í umræðunni um umsóknina og fagnaði beiðni palestínska þingsins um samstarf. Ísland hefði stutt sjálfstæði Ísraels og aðild að Sameinuðu þjóðunum árið 1948 en í kjölfar sex daga stríðsins hefði almenningur hér eins og víða annars staðar vaknað upp við að tvær þjóðir byggju í landinu og önnur kúgaði hina. Utanríkisráðherra, Össur Skarphéðinsson, hefði nýverið heimsótt Palestínu og lýst yfir stuðningi ríkisstjórnarinnar við umsókn Palestínu um fulla aðild að Sameinuðu þjóðunum og ríkisstjórnin hefði í kjölfarið lagt fram ályktun á Alþingi um að viðurkenna Palestínu sem frjálst og fullvalda ríki. Hann teldi það enga mótsögn að Evrópuráðsþingið tæki þessari umsókn Palestínu fagnandi en virti áfram Ísraelsríki og héldi vinskap við gyðinga hvarvetna. Ályktunin um að hefja samstarfið var samþykkt með 110 atkvæðum gegn 5 og vakti athygli að formaður ísraelsku áheyrnarnefndarinnar á þinginu, Yohanan Plesner, mælti því ekki í mót að umsóknin yrði samþykkt í ræðu sinni í umræðunni.
    Salim Al Za'noon, forseti palestínska þingsins, ávarpaði þingfundinn eftir umræðuna. Sagði hann upphaf lýðræðissamstarfsins sögulegan viðburð sem gæti skotið stoðum undir frið á svæðinu. Af hálfu Palestínu væri tilgangur lýðræðissamstarfsins við Evrópuráðsþingið sá að styrkja lýðræðisþróun í Palestínu. Þakkaði hann Evrópuríkjum stuðning við tveggja ríkja lausnina svokölluðu. Loks lýsti hann þeirri von að samstarfið gæti orðið grundvöllur að nánara sambandi Evrópu og Palestínu og styrkt viðleitni Palestínu til að verða fullvalda ríki.
Í ræðu sinni lýsti Mahmoud Abbas, forseti Palestínu, ástæðum þess að Palestínumenn hefðu ákveðið að sækja um fulla aðild að Sameinuðu þjóðunum. Friðarviðræðurnar við Ísrael hefðu verið í öngstræti og því ættu Palestínumenn vart annars úrkosti en að sækjast eftir viðurkenningu alþjóðasamfélagsins á fullveldi sínu með aðildarumsókninni. Líkti hann viðleitni Palestínu til þessa við þá lýðræðisvakningu sem nú ætti sér stað annars staðar í arabaheiminum og hvatti Evrópuríki til að veita umsókn Palestínu um aðild að Sameinuðu þjóðunum stuðning og veita ríkinu viðurkenningu. Tvískinnungur væri að fagna lýðræðisvakningu í ríkjum araba og styðja ekki á sama tíma kröfur Palestínumanna um frelsi og endalok hersetunnar.
    Að venju fór fram árleg umræða um starfsemi Efnahags- og þróunarstofnunar Evrópu (OECD) með þátttöku framkvæmdastjóra stofnunarinnar, Angel Gurría. Í ræðu sinni benti Gurría á að hagkerfi heimsins væri í slæmu ástandi, hagvöxtur væri lítill í iðnríkjunum og færi minnkandi annars staðar. Tók hann sérstaklega til mikið atvinnuleysi í ríkjum OECD, og sagði atvinnuleysi meðal ungs fólks verulegt áhyggjuefni. Hvað varðar áherslur OECD yrði litið mikið til græns hagvaxtar en ný áætlun um það efni hefði verið kynnt á undangengnu ári. Þá yrði jafnrétti og staða kvenna mikilvægt áhersluatriði stofnunarinnar á næstunni.
    Rætt var um skýrslu svissneska þingmannsins Dicks Marty um misnotkun á hugtökunum „ríkisleyndarmál“ og „þjóðaröryggi“ til að komast hjá rannsóknum á hugsanlegum mannréttindabrotum. Skýrslan var eins konar framhald af skýrslu hans frá 2007 um fangaflug og meint leynileg fangelsi bandarísku leyniþjónustunnar í ýmsum Evrópuríkjum, sem mikla athygli vakti. Í ályktun þingsins um málið kom fram að stjórnvöld skýldu sér í æ meiri mæli bak við vísun í „ríkisleyndarmál“ og „þjóðaröryggi“ til að koma í veg fyrir eftirlit þjóðþinga og dómstóla með mannréttindabrotum. Misbrestir væru á þinglegu eftirlit með öryggis- og leyniþjónustustofnunum í mörgum aðildarríkjum Evrópuráðsins. Var það jafnframt harmað að rannsókn af hálfu þjóðþinga Póllands og Rúmeníu á meintum leynilegum fangabúðum í löndunum tveimur hefði að því er virtist haft þann eina tilgang að staðfesta opinbera afstöðu yfirvalda í löndunum tveimur. Þess má geta að skýrslan var jafnframt sú síðasta sem Dick Marty flutti Evrópuráðsþinginu.
    Þá fjallaði þingið um skýrslu Jean-Charles Gardettos um samstarf Evrópuráðsins og nýrra lýðræðisríkja í arabaheiminum. Í ályktuninni kom fram að Evrópumenn yrðu að hjálpa til við að koma á lýðræði og virðingu fyrir mannréttindum í arabaheiminum. Jafnframt var valdbeiting sýrlenskra yfirvalda gegn mótmælendum fordæmd og kallað eftir þvingunaraðgerðum gegn sýrlenskum ráðamönnum sem og rannsókn Alþjóða-glæpadómstólsins á hugsanlegum mannréttindabrotum í landinu. Þá voru þau aðildarríki Evrópuráðsins sem sæti eiga í öryggisráði Sameinuðu þjóðanna hvött til að styðja umsókn Palestínu um fulla aðild að samtökunum.
    Fram fór sérstök umræða um stjórnmálaástandið á Balkanskaga í ljósi aukinnar spennu og átaka í norðanverðu Kósóvó og stjórnarkreppunnar í Bosníu og Hersegóvínu. Í Bosníu og Hersegóvínu hafði enn ekki verið mynduð ríkisstjórn þótt heilt ár væri liðið frá þingkosningum. Lýstu ýmsir þingmenn yfir efasemdum um að skynsamlegt hefði verið að viðurkenna fullveldi Kósóvó. Bjartsýni gætti þó um stöðu mála í Albaníu eftir nýlegar sveitarstjórnarkosningar og yfirlýsingar formanns stærsta stjórnarandstöðuflokksins þar í landi um að flokkurinn mundi hætta að sniðganga þingið.
    Einnig fór fram umræða um áhrif Lissabon-sáttmála Evrópusambandsins á Evrópuráðið, en samkvæmt sáttmálanum ber Evrópusambandinu skylda til að gerast aðili að mannréttindasáttmála Evrópu. Fram kom að tilkoma Lissabon-sáttmálans hefði opnað fyrir nýja möguleika á samstarfi milli Evrópuráðsins og Evrópusambandsins sem byggðist á samræmdri mannréttindalöggjöf í Evrópu. Aðild Evrópusambandsins að mannréttindasáttmála Evrópu veitti evrópskum borgurum vernd gagnvart stjórnsýslu sambandsins á svipaðan hátt og sáttmálinn veitti borgurunum þegar gagnvart aðildarríkjum sáttmálans. Þetta væri ekki síst mikilvægt í ljósi þess að með Lissabon-sáttmálanum væru sambandinu falin aukin verkefni á ýmsum sviðum.
    Í umræðu um skýrslu um friðhelgi einkalífs og vernd persónuupplýsinga lýsti þingið áhyggjum sínum af því að öryggi slíkra upplýsinga væri sífellt meiri hætta búin í ljósi framþróunar upplýsingatækni. Í ályktuninni var ítrekað að í lýðræðislegum samfélögum væri ekki ásættanlegt að á netinu giltu ekki hefðbundnar leikreglur um meðferð slíkra upplýsinga, en rétturinn til friðhelgi einkalífs er tryggður í 8. gr. mannréttindasáttmála Evrópu. Hvatt var til að flutningur persónuupplýsinga til annarra ríkja færi aðeins fram ef viðkomandi ríki væri aðili að Evrópusamningi um vernd einstaklinga við vélræna vinnslu persónuupplýsinga eða að öryggi slíkra upplýsinga væri að öðru leyti nægilega tryggt. Þá var því beint til aðalritara Sameinuðu þjóðanna að hann beitti sér fyrir því að fram færi alþjóðlegt átak til að hvetja sem flest ríki til að gerast aðilar að Evrópusamningi um vernd einstaklinga við vélræna vinnslu persónuupplýsinga.
    Loks fór fram á þinginu fundur mannréttindanefndar Evrópuráðsþingsins um tilnefningu landsdeilda á fulltrúum í nefnd Evrópuráðsins um varnir gegn pyntingum og ómannlegri eða vanvirðandi meðferð og refsingu (CPT-nefndina) og sat Mörður Árnason fyrir hönd Íslandsdeildar fyrir svörum um tilnefningar Íslandsdeildar í nefndina.

Fundur stjórnarnefndar Evrópuráðsþingsins í Edinborg 25. nóvember.
    Af hálfu Íslandsdeildar Evrópuráðsþingsins sótti fundinn Þuríður Backman, formaður, auk Kjartans Fjeldsted ritara. Helstu mál á dagskrá voru nauðsyn þess að styrkja baráttu gegn hvers kyns mismunun, viðauki 12 við mannréttindasáttmála Evrópu, neðanjarðarhagkerfið, lítil hagkerfi og svæðisbundin efnahagsþróun, lagaleg úrræði fyrir fórnarlömb heimilisofbeldis og sálfræðilegt ofbeldi.
    David Lidington, Evrópumálaráðherra Bretlands, kynnti þau mál sem Bretar legðu sérstaka áherslu á meðan á formennsku þeirra í ráðherranefnd Evrópuráðsins stæði. Sérstök áhersla væri á að auka skilvirkni Mannréttindadómstóls Evrópu, en nú biðu 155 þúsund mál afgreiðslu dómstólsins. Gildistaka viðauka 14 við mannréttindasáttmála Evrópu væri skref fram á við en dygði ekki til að leysa úr vanda dómstólsins. Nokkrir þingmenn lýstu áhyggjum sínum af hugsanlegum áhrifum upptöku eins konar „nálægðarreglu“, sem gæti dregið úr vægi dómstólsins, en Bretar hafa verið óánægðir með nokkra úrskurði dómstólsins. Mevlüt Çavosoglu, forseti Evrópuráðsþingsins, benti á að hluti lausnarinnar væri að styrkja framkvæmd mannréttindasáttmálans í aðildarríkjunum og tryggja að dómum dómstólsins væri framfylgt. Fara yrði varlega í að takmarka rétt einstaklinga til að skjóta máli sínu beint til dómstólsins en eins og staða dómstólsins væri í dag væri þó nauðsynlegt að íhuga allar mögulegar lausnir.
    Auk áherslu á að leysa vanda dómstólsins hygðust Bretar leggja áherslu á að styðja við umbótaferli Thorbjørns Jaglands, framkvæmdastjóra Evrópuráðsins, styrkja réttarríkið og beina sjónum að stjórn netsins, þ.m.t. tjáningarfrelsi, baráttunni gegn mismunun á grundvelli kynhneigðar sem og að straumlínulaga starfsemi Evrópuráðsins á sviði svæðisbundins lýðræðis.
    Í tilefni af alþjóðlegum baráttudegi gegn ofbeldi gegn konum sendi stjórnarnefndin frá sér yfirlýsingu en í henni segir m.a. að styrkja þurfi lagaumhverfið á þessu sviði og tryggja fórnarlömbum heimilisofbeldis víðtæka vernd. Þá var því beint til þjóðþinga að hvetja ríkisstjórnir aðildarríkjanna til að undirrita nýjan samning Evrópuráðsins um forvarnir gegn ofbeldi gegn konum og heimilisofbeldi. Samningurinn tekur m.a. til sálfræðilegs ofbeldis, sem er enn ekki refsivert í mörgum réttarkerfum aðildarríkja Evrópuráðsins.
    Skiptar skoðanir voru um skýrslur laga- og mannréttindanefndar um jafnréttisyfirlýsinguna og starfsemi Evrópuráðsins og baráttu gegn hvers kyns mismunun á grundvelli trúarbragða, en í þeim er m.a. skorað á aðildarríkin að fullgilda viðauka 12 við mannréttindasáttmála Evrópu. Ýmis aðildarríki telja sig þegar tryggja sterkari vernd gegn mismunun í löggjöf sinni en þá sem felst í viðauka 12 og töldu sig því ekki geta staðið að samþykkt ályktananna, sem þó voru naumlega samþykktar.
    Einnig fóru fram umræður um þrjár skýrslur efnahagsnefndar. Í skýrslu nefndarinnar um neðanjarðarhagkerfið kom fram að stærð þess í mismunandi aðildarríkjum Evrópuráðsins væri talin vera frá 10% í Austurríki og Sviss til allt að 60% í ríkjunum í sunnanverðum Kákasusfjöllum. Í ályktun þingsins voru aðildarríki hvött til að láta fara fram nákvæma úttekt á stærð hagkerfa sinna og meta hversu þungar byrðar regluverk þeirra setti atvinnustarfsemi, sem og til þess að herða reglur um greiðslur í reiðufé og kanna áhrif farandvinnuafls á velferðarkerfi sín.
    Í skýrslu um þær áskoranir sem lítil hagkerfi standa frammi fyrir var bent á að öll smærri aðildarríki Evrópuráðsins hefðu lent í erfiðleikum í yfirstandandi kreppu, m.a. vegna þeirra veikleika sem smæðin hefur í för með sér. Góðir stjórnsýsluhættir væru lykilatriði í að tryggja þjóðhagfræðilegan stöðugleika og nauðsynlegt væri að virkja staðbundnar auðlindir, auka samkeppnishæfni og styrkja innviði smáríkja. Alþjóðastofnanir gætu leikið mikilvægt hlutverk í að bæta stjórnsýslu smáríkja og tryggja jafna aðstöðu stórra og smárra hagkerfa. Í skýrslu um staðbundna þróun hvatti þingið aðildarríkin til að veita hagþróun á svæðum í kreppu sérstaka athygli, t.a.m. með því að ýta undir þróun á óhefðbundinni ferðaþjónustu og tengja betur saman og markaðssetja ferðamannastaði á svipuðu svæði til að laða að fleiri ferðamenn.
    Loks fór fram umræða um skýrslur jafnréttisnefndar um lagaleg úrræði fyrir fórnarlömb heimilisofbeldis og um sálfræðilegt ofbeldi. Í ályktun þingsins um sálfræðilegt ofbeldi kom fram að á undanförnum árum hefðu ýmis aðildarríki hert löggjöf sína á sviði heimilisofbeldis og innleitt lagagreinar er varða sálfræðilegt ofbeldi. Hvatti þingið þau aðildarríki þar sem sálfræðilegt ofbeldi væri ekki refsivert til að breyta löggjöf sinni í þá veru hið fyrsta. Einnig voru öll aðildarríki hvött til að undirrita og fullgilda Evrópusamning um að fyrirbyggja og berjast gegn ofbeldi gagnvart konum og heimilisofbeldi án takmarkana, sérstaklega er varðar sálfræðilegt ofbeldi.
    Í ályktun um lagaleg úrræði fyrir fórnarlömb heimilisofbeldis var jafnframt bent á mikilvægi þess að næg lagaleg úrræði, svo sem lögbann, nálgunarbann o.s.frv., væru til staðar til að vernda fórnarlömb heimilisofbeldis bæði meðan á rannsókn stæði sem og eftir að afplánun gerandans lyki. Einnig var bent á mikilvægi þess að lögregluyfirvöld rannsökuðu allar kærur er varða heimilisofbeldi, jafnvel í tilfellum þar sem kærandi dregur kæruna til baka, sem og allan grun á brotum á nálgunarbanni hvort sem fórnarlambið óskar þess eða ekki.

6. Nefndarfundir utan þinga.
    Formaður Íslandsdeildar sótti fundi stjórnarnefndar þingsins í París í mars og í Edinborg í nóvember. Varaformaður sótti fund stjórnarnefndar í Kiev í maí.

Alþingi, 20. febrúar 2012.



Þuríður Backman,


formaður.


Mörður Árnason,


varaformaður.


Birkir J. Jónsson.





Fylgiskjal.


Ályktanir, álit og tilmæli Evrópuráðsþingsins árið 2011.


    Eftirfarandi ályktanir, álit og tilmæli til ráðherranefndar Evrópuráðsins voru samþykkt á þingfundum og stjórnarnefndarfundum Evrópuráðsþingsins árið 2011:

Fyrsti hluti þingfundar 24.–28. janúar:
          Ályktun 1782 um rannsókn á meintri ómannúðlegri meðferð á fólki og líffærasmygli í Kósóvó.
          Ályktun 1783 um eftirfylgni við umbætur á starfsemi Evrópuráðsins.
          Ályktun 1784 um vitnavernd sem hornstein réttlætis og sátta á Balkanskaga.
          Ályktun 1785 um skyldu aðildarríkja og aukaaðildarríkja Evrópuráðsins til að veita aðstoð við lögsóknir í stríðsglæpamálum.
          Ályktun 1786 um sættir og pólitískar viðræður milli ríkja á Balkanskaga.
          Ályktun 1787 um framkvæmd dóma Mannréttindadómstóls Evrópu.
          Ályktun 1788 um að koma í veg fyrir að flóttamenn og innflytjendur í framsals- og brottvísunarmálum verði fyrir skaða: tilmæli Mannréttindadómstóls Evrópu á grundvelli reglu 39.
          Ályktun 1789 um andmæli á grundvelli þingskapa gegn kjörbréfum sendinefnda San Marínó, Serbíu og Svartfjallalands.
          Ályktun 1790 um ástandið í Hvíta-Rússlandi í kjölfar forsetakosninganna þar í landi.
          Ályktun 1791 um ástandið í Túnis.
          Ályktun 1792 um eftirlit með skuldbindingum á sviði félagslegra réttinda.
          Ályktun 1793 um að stuðla að virkri þátttöku eldra fólks í samfélaginu og á vinnumarkaði.
          Tilmæli 1950 um vernd heimildarmanna blaðamanna.
          Tilmæli 1951 um eftirfylgni við umbætur á starfsemi Evrópuráðsins.
          Tilmæli 1952 um vitnavernd sem hornstein réttlætis og sátta á Balkanskaga.
          Tilmæli 1953 um skyldu aðildarríkja og aukaaðildarríkja Evrópuráðsins til að veita aðstoð við lögsóknir í stríðsglæpamálum.
          Tilmæli 1954 um sættir og pólitískar viðræður milli ríkja á Balkanskaga.
          Tilmæli 1955 um framkvæmd dóma Mannréttindadómstóls Evrópu.
          Tilmæli 1956 um að koma í veg fyrir að flóttamenn og innflytjendur í framsals- og brottvísunarmálum verði fyrir skaða: tilmæli Mannréttindadómstóls Evrópu á grundvelli reglu 39.
          Tilmæli 1957 um ofsóknir gegn kristnum mönnum í Miðausturlöndum.
          Tilmæli 1958 um eftirlit með skuldbindingum á sviði félagslegra réttinda.
          Tilmæli 1959 um fyrirbyggjandi heilsugæslu í aðildarríkjum Evrópuráðsins.

Stjórnarnefndarfundur 11. mars:
          Ályktun 1794 um vernd umhverfisins í kringum Miðjarðarhafið.
          Ályktun 1795 um erfðabreyttar lífverur.
          Ályktun 1796 um unga afbrotamenn: félagslegar aðgerðir, menntun og endurhæfing.
          Ályktun 1797 um þörf á athugun á notkun líffræðilegrar tölfræði frá sjónarhorni mannréttinda.
          Ályktun 1798 um réttláta samsetningu landsdeilda Evrópuráðsþingsins.
          Ályktun 1799 um siðareglur fyrir skýrsluhöfunda Evrópuráðsþingsins.
          Tilmæli 1960 um þörf á athugun á notkun líffræðilegrar tölfræði frá sjónarhorni mannréttinda.
          Álit 280 um drög að Evrópuráðssamningi um ofbeldi gegn konum og heimilisofbeldi.

Annar hluti þingfundar 11.–15. apríl:
          Ályktun 1800 um baráttuna gegn fátækt.
          Ályktun 1801 um framfylgni við aðildarskuldbindingar Georgíu.
          Ályktun 1802 um nauðsyn þess að meta árangur af framkvæmd Bernarsamningsins.
          Ályktun 1803 um fræðslu gegn ofbeldi í skólum.
          Ályktun 1804 um vernd barna og ungs fólks gegn offitu og sykursýki af tegund 2.
          Ályktun 1805 um komu flóttamanna til suðurstranda Evrópu.
          Ályktun 1806 um konur í dreifbýli í Evrópu.
          Ályktun 1807 um dauðarefsingu í aðildarríkjum og aukaaðildarríkjum Evrópuráðsins.
          Ályktun 1808 um styrkingu varna gegn pyntingum í Evrópu.
          Ályktun 1809 um vatn sem uppsprettu átaka.
          Ályktun 1810 um flökkubörn í Evrópu.
          Ályktun 1811 um vernd kvenna úr innflytjendahópum á vinnumarkaði.
          Tilmæli 1961 um skuldavanda þjóða sem ógn við lýðræði og mannréttindi.
          Tilmæli 1962 um trúarlegar hliðar samskipta milli menningarheima.
          Tilmæli 1963 um baráttu gegn fátækt.
          Tilmæli 1964 um nauðsyn þess að meta árangur af framkvæmd Bernarsamningsins.
          Tilmæli 1965 um fræðslu gegn ofbeldi í skólum.
          Tilmæli 1966 um vernd barna og ungs fólks gegn offitu og sykursýki af tegund 2.
          Tilmæli 1967 um komu flóttamanna til suðurstranda Evrópu.
          Tilmæli 1968 um styrkingu varna gegn pyntingum í Evrópu.
          Tilmæli 1969 um flökkubörn í Evrópu.
          Tilmæli 1970 um vernd kvenna úr innflytjendahópum á vinnumarkaði.

Stjórnarnefndarfundur 27. maí:
          Ályktun 1812 um áhrif samstarfs Evrópusambandsins við ríki Austur-Evrópu á stjórnarfar og hagþróun í austanverðri álfunni.
          Ályktun 1813 um eflingu smálána í þágu félagslegra hagkerfa.
          Ályktun 1814 um umbætur á landbúnaðarstefnu og fiskveiðistefnu Evrópusambandsins.
          Ályktun 1815 um hugsanlega skaðsemi rafsegulbylgna og áhrif þeirra á umhverfið.
          Ályktun 1816 um skaðsemi þungmálma og annarra málma fyrir heilsu manna.
          Tilmæli 1960 um áhrif samstarfs Evrópusambandsins við ríki Austur-Evrópu á stjórnarfar og hagþróun í austanverðri álfunni.

Þriðji hluti þingfundar 20.–24. júní:
          Ályktun 1817 um útgjöld Evrópuráðsþingsins fyrir fjárhagsárið 2012–2013.
          Ályktun 1818 um beiðni marokkóska þingsins um lýðræðissamstarf við Evrópuráðsþingið.
          Ályktun 1819 um ástandið í Túnis.
          Ályktun 1820 um hælisleitendur og flóttamenn: sameiginleg ábyrgð Evrópu.
          Ályktun 1821 um stöðvun og björgun hælisleitenda, flóttamanna og óreglulegra innflytjenda á sjó.
          Ályktun 1822 um umbætur á starfi Evrópuráðsþingsins.
          Ályktun 1823 um hlutverk þjóðþinga í vernd mannréttinda í Evrópu.
          Ályktun 1824 um hlutverk þjóðþinga í styrkingu og þróun félagslegra réttinda í Evrópu.
          Ályktun 1825 um aukinn hlut kvenna í samfélagslegri ákvarðanatöku.
          Ályktun 1826 um aukið lýðræði með lækkun kosningaaldurs í 16 ár.
          Ályktun 1827 um framvindu eftirlitsferlis Evrópuráðsþingsins (júní 2010 – maí 2011).
          Ályktun 1828 um að stemma stigu við minnkandi atvinnuþátttöku ungs fólks.
          Tilmæli 1972 um ástandið í Túnis.
          Tilmæli 1973 um hælisleitendur og flóttamenn: sameiginleg ábyrgð Evrópu.
          Tilmæli 1974 um stöðvun og björgun hælisleitenda, flóttamanna og óreglulegra innflytjenda á sjó.
          Tilmæli 1975 um að lifa saman á 21. öld: eftirfylgni við skýrslu vitringahóps Evrópuráðsins.
          Tilmæli 1976 um hlutverk þjóðþinga í styrkingu og þróun félagslegra réttinda í Evrópu.
          Tilmæli 1977 um aukinn hlut kvenna í samfélagslegri ákvarðanatöku.
          Tilmæli 1978 um gerð evrópskrar rammaáætlunar um réttindi ungmenna.
          Álit 281 um fjárhagsáætlun og forgangsmál Evrópuráðsins fyrir fjárhagsárið 2012–2013.

Fjórði hluti þingfundar 3.–7. október:
          Ályktun 1829 um val á kyni barns fyrir fæðingu.
          Ályktun 1830 um umsókn þjóðarráðs Palestínu um lýðræðissamstarf við Evrópuráðsþingið.
          Ályktun 1831 um samstarf milli Evrópuráðsins og nýrra lýðræðisríkja í arabaheiminum.
          Ályktun 1832 um þörf á skýringu á hugtökunum „fullveldi“ og „ríki“ í alþjóðalögum.
          Ályktun 1833 um starfsemi Efnahags og þróunarstofnunar Evrópu (OECD) 2010–2011.
          Ályktun 1834 um baráttu gegn myndefni sem sýnir misnotkun á börnum með beinskeyttum, alhliða og alþjóðlega samhæfðum aðgerðum.
          Ályktun 1835 um ofbeldis- og öfgafullt klámefni.
          Ályktun 1836 um áhrif Lissabon-sáttmálans á Evrópuráðið.
          Ályktun 1837 um virkni lýðræðisstofnana í Armeníu.
          Ályktun 1838 um misnotkun á ríkisleynd og þjóðaröryggi: hindranir á eftirliti þjóðþinga og dómstóla með mannréttindabrotum.
          Ályktun 1839 um stjórnmálaástandið á Balkanskaga.
          Ályktun 1840 um mannréttindi og baráttuna gegn hryðjuverkum.
          Ályktun 1841 um breytingar á reglum Evrópuráðsþingsins – framkvæmd ályktunar 1822 (2011) um umbætur á starfi Evrópuráðsþingsins.
          Ályktun 1842 um breytingar á umboði nefnda Evrópuráðsþingsins – framkvæmd ályktunar 1822 (2011) um umbætur á starfi Evrópuráðsþingsins.
          Ályktun 1843 um vernd á friðhelgi einkalífs og persónuupplýsinga á netinu og í netmiðlum.
          Tilmæli 1979 um val á kyni barns fyrir fæðingu.
          Tilmæli 1980 um baráttu gegn myndefni sem sýnir misnotkun á börnum með beinskeyttum, alhliða og alþjóðlega samhæfðum aðgerðum.
          Tilmæli 1981 um ofbeldis- og öfgafullt klámefni.
          Tilmæli 1982 um áhrif Lissabon-sáttmálans á Evrópuráðið.
          Tilmæli 1983 um misnotkun á ríkisleynd og þjóðaröryggi: hindranir á eftirliti þjóðþinga og dómstóla með mannréttindabrotum.
          Tilmæli 1984 um vernd á friðhelgi einkalífs og persónuupplýsinga á netinu og í netmiðlum.
          Tilmæli 1985 um börn með stöðu ólöglegra innflytjenda.

Stjórnarnefndarfundur 25. nóvember:
          Ályktun 1844 um jafnréttisyfirlýsinguna og starfsemi Evrópuráðsins.
          Ályktun 1845 um grundvallarréttindi og -skyldur.
          Ályktun 1846 um baráttu gegn hvers kyns mismunun á grundvelli trúarbragða.
          Ályktun 1847 um neðanjarðarhagkerfið sem ógn við lýðræði, þróun og réttarríki.
          Ályktun 1848 um áskoranir fyrir lítil hagkerfi.
          Ályktun 1849 um staðbundna þróun: nýstárlegar aðferðir fyrir svæði sem illa hafa orðið úti í kreppunni.
          Ályktun 1850 um það sem Evrópa getur gert fyrir börn í kjölfar náttúruhamfara og hættuástands: dæmi frá Haítí og Afganistan.
          Ályktun 1851 um vopnuð átök og umhverfið.
          Ályktun 1852 um sálfræðilegt ofbeldi.
          Ályktun 1853 um lagaleg úrræði fyrir fórnarlömb heimilisofbeldis.
          Ályktun 1854 um að tryggja vernd gegn árásum á heiður og orðspor einstaklinga.
          Tilmæli 1986 um jafnréttisyfirlýsinguna og starfsemi Evrópuráðsins.
          Tilmæli 1987 um baráttu gegn hvers kyns mismunun á grundvelli trúarbragða.
          Tilmæli 1988 um neðanjarðarhagkerfið sem ógn við lýðræði, þróun og réttarríki.
          Tilmæli 1989 um að veita alþjóðlegu félagasamtökunum ANDANTE formlega stöðu þátttakanda í Evrópuráðinu.