Aðrar útgáfur af skjalinu: PDF - Word Perfect. Ferill 559. máls.
140. löggjafarþing 2011–2012.
Þingskjal 863  —  559. mál.
Frumvarp til lagaum ráðstafanir til að lækka eldsneytisverð.

Flm.: Tryggvi Þór Herbertsson, Árni Johnsen, Ásbjörn Óttarsson, Birgir Ármannsson, Bjarni Benediktsson, Einar K. Guðfinnsson, Guðlaugur Þór Þórðarson,
Jón Gunnarsson, Kristján Þór Júlíusson, Ólöf Nordal, Ragnheiður E. Árnadóttir, Ragnheiður Ríkharðsdóttir, Pétur H. Blöndal, Illugi Gunnarsson,
Unnur Brá Konráðsdóttir, Þorgerður K. Gunnarsdóttir.


Breyting á lögum nr. 87/2004, um olíugjald og kílómetragjald,
með síðari breytingum.

1. gr.

    Við lögin bætist nýtt ákvæði til bráðabirgða, svohljóðandi:
    Á tímabilinu 1. apríl 2012 til 31. desember 2012 skal fjárhæð olíugjalds í 4. mgr. 1. gr. laganna nema 19,88 kr. í stað 54,88 kr.

Breyting á lögum nr. 29/1993, um vörugjald af ökutækjum, eldsneyti o.fl.,
með síðari breytingum.

2. gr.

    Við lögin bætist nýtt ákvæði til bráðabirgða, svohljóðandi:
    Á tímabilinu 1. apríl 2012 til 31. desember 2012 skal fjárhæð vörugjalds í 14. gr. laganna nema 4 kr. í stað 24,46 kr. og í 1. mgr. 15. gr. laganna skal fjárhæð bensíngjalds af blýlausu bensíni vera 28,51 kr. í stað 39,51 kr.

3. gr.

    Lög þessi öðlast þegar gildi.

Greinargerð.


    Órói í Mið-Austurlöndum og miklir kuldar í Evrópu í vetur hafa leitt til mikillar óvissu um þróun eldsneytisverðs í heiminum. Þessi óvissa kemur fram í hækkun olíuverðs á heimsmarkaði og þar með innflutningsverði hér á landi.
    Hlutur eldsneytis er um 7%–8% í neyslu heimilanna. Nú er svo komið að eldsneytisverð ógnar hagvaxtarbatanum í heiminum. Ráðstöfunartekjur fólks að teknu tilliti til eldsneytisverðs skerðast og einkaneysla minnkar. Mikil verðhækkun eldsneytis skerðir því möguleikana á neyslu annarra vörutegunda. Fólk nær að bregðast að einhverju leyti við með því að draga úr eldsneytisnotkun, sérstaklega til lengri tíma litið. Umferð minnkaði þannig um 6,6% milli áranna 2010 og 2011 samkvæmt mælingum Vegagerðarinnar. Til lengri tíma litið skipta heimilin yfir í sparneytnari bifreiðar og ódýrari orkugjafa, svo sem metan, rafmagn og vetni, auk þess sem almenningssamgöngur verða fýsilegri kostur.
    Samkvæmt útreikningum FÍB í febrúar 2009 nam eldsneytisreikningur heimilanna vegna fjölskyldubílsins um 289 þús. kr. Þar af voru skattar 153 þús. kr. Sambærilegir útreikningar fyrir febrúar 2012 eru 494 þús. kr. og þar af eru skattar 239 þús. kr. Ráðstöfunartekjur meðalheimilis, og þar með neysla, minnka því um 205 þús. kr. vegna hærra eldsneytisverðs. Auk þessa hækkar vöruverð vegna aukins flutningskostnaðar. Það er því brýnt að bregðast með einhverju móti við þessari þróun.
    Ljóst er að ef eldsneytisverðhækkanir eru komnar til að vera er þjóðum heims vandi á höndum. Flutningsmenn eru hins vegar þeirrar skoðunar að svo sé ekki og að framvirkt verð, sérstaklega á bensíni, bendi til annars. Fyrrnefnd óvissa hefur þrýst verði upp á við tímabundið og þegar hún minnkar á ný mun verð lækka aftur. Slík sveifla getur skaðað atvinnulífið og valdið varanlegum skemmdum sem sitja eftir þegar verð lækkar á ný. Því er mikilvægt að hækkunum sé mætt tímabundið með aðgerðum af hálfu hins opinbera og til lengri tíma með því að minnka notkun jarðefnaeldsneytis. Besta leiðin til þess að mæta skammtímasveiflu er að lækka skatta tímabundið og er það því lagt til hér. Lagt er til að skattalækkanir nái til tímabilsins 1. apríl 2012 til 31. desember 2012. Endurskoða þarf ákvörðunina í ljósi reynslunnar og nýrra upplýsinga um þróun eldsneytisverðs næsta haust.

Skattlagning eldsneytis.
    Verð á bensíni og olíum er samsett úr eftirfarandi þáttum:
     Bensínverð = innkaupsverð + flutningar, tryggingar og álagning + almennt bensíngjald + sérstakt bensíngjald + kolefnisgjald + VSK.
     Olíuverð = innkaupsverð + flutningar, tryggingar og álagning + olíugjald + kolefnisgjald + VSK.
    Bensínverð er, þegar þetta er ritað í febrúar 2012, 246,89 kr., þar af tekur ríkið til sín 48,42% í skatta. Skattarnir eru samsettir úr krónutölusköttum sem eru almennt bensíngjald (24,46 kr. á lítra), sérstakt bensíngjald (39,51 kr. á lítra) og kolefnisgjald (5 kr. á lítra) sem er nýr skattur sem lagður var á í fyrsta skipti um áramótin 2010–2011. Ofan á þessa skatta og kostnaðarverð leggst síðan virðisaukaskattur sem nemur 50,17 kr. Samtals nemur hlutur ríkisins því 119,54 kr. Á innkaupsverð dísilolíu leggst olíugjald (54,88 kr. á lítra), kolefnisgjald (5,75 kr. á lítra) og virðisaukaskattur. Í frumvarpi þessu er lagt er til að krónutöluskattar á eldsneyti verði lækkaðir tímabundið, um 31,87 kr. á lítra af bensíni og 35,06 kr. á lítra af dísilolíu.

Tekjur ríkissjóðs og verðteygni.
    Í fjárlagafrumvarpi fyrir árið 2012 var gert ráð fyrir að meðalverð á bensíni yrði 240 kr. á lítra og á dísilolíu 244 kr. á árinu. Áætlað er að sala á bensíni verði um 150 milljónir lítra á tímabilinu 1. apríl til 31. desember og að sú sala skili ríkissjóði tæpum 17,3 milljörðum kr. í skatttekjum. Spár olíufélaganna gera hins vegar ráð fyrir að meðalbensínverð verði um 248 kr. á lítra 1. apríl til 31. desember, sem gefur um 147 milljónir lítra heildarsölu og um 17,5 milljarða kr. heildartekjur fyrir ríkissjóð (miðað við að 48% útsöluverðs fari í skatta). Þegar magnið minnkar hækka tekjur ekki þrátt fyrir hærra verð vegna eftirspurnaráhrifa. Þegar verðið á eldsneyti hækkar minnkar fólk akstur og neyslan dregst saman. Hér er gert ráð fyrir að verðteygni eftirspurnar sé -0,64, þ.e. að 1% hækkun verðs leiði til 0,64% minnkunar magns, sem er nokkru hærri teygni en fjármálaráðuneytið gerir ráð fyrir, en á þeim bænum er oftast miðað við teygnistuðulinn -0,36. Ástæðan fyrir þessu er að ráðstöfunartekjur íslenskra heimila eru sem stendur í algjöru lágmarki vegna tekjulækkana og skattahækkana og erfitt að sjá fyrir sér að þau hafi upp á mikið að hlaupa hvað varðar aukna eyðslu í eldsneytiskaup, eins og samdráttur í einkaneyslu undanfarin tvö ár sýnir.

    Í fjárlagafrumvarpi fyrir árið 2012 var gert ráð fyrir að meðalverð á dísilolíu yrði um 244 kr. á lítra á árinu, heildarsala yrði um 90 milljónir lítra á tímabilinu 1. apríl til 31. desember og að sú sala skilaði ríkissjóði um 10,5 milljörðum kr. í skatttekjur á tímabilinu. Spár á olíumarkaði gera hins vegar ráð fyrir að verðið á dísilolíu verði um 260 kr. sem leiðir til þess, miðað við teygnistuðul upp á -0,64, að salan verður um 86 milljónir lítra og heildartekjur ríkissjóðs því um 10,7 milljarðar kr.
    Frumvarpið gerir ráð fyrir tímabundinni lækkun á almennu bensíngjaldi um 20,46 kr., lækkun á sérstaka bensíngjaldinu um 11 kr. og olíugjaldi um um 35 kr. á lítra sem leiðir til þess að verð á bensíni og dísilolíu lækkar í um 200 kr. vegna virðisaukaskatts og álagningar.

Áhrif af aðgerðinni.
    Lækkun skatta á eldsneyti leiðir beint til hækkunar ráðstöfunartekna, einkaneyslu og hagvaxtar. Lækkun skatta á eldsneyti leiðir líka beint til lækkunar vísitölu neysluverðs sem aftur lækkar höfuðstól verðtryggðra lána heimila og fyrirtækja og afborganir af þeim.
    Áhrif aðgerðarinnar, bein og óbein, væru veruleg og mundu leiða til jákvæðra áhrifa á hagvöxt. Framundan er mesti álagstími ferðaiðnaðarins og lækkun eldsneytis mundi virka eins og vítamínsprauta á greinina, hafa jákvæð áhrif á landsbyggðina sem og landið allt og styrkja innviði greinarinnar. Áhrifin mundu einnig leiða til lækkunar á flutningskostnaði og t.d. leiða til lækkunar vöruverðs.