Aðrar útgáfur af skjalinu: PDF - Word Perfect. Ferill 494. máls.
140. löggjafarþing 2011–2012.
Þingskjal 880  —  494. mál.
Svarforsætisráðherra við fyrirspurn Álfheiðar Ingadóttur um vitundarvakningu
um mænuskaða.


    Fyrirspurnin hljóðar svo:
    Hvernig hefur samþykkt ríkisstjórnarinnar frá í mars 2011 verið fylgt eftir þar sem þremur ráðuneytum var falið að kanna hvernig Ísland gæti stuðlað að vitundarvakningu á alþjóðavettvangi um mænuskaða?

    Í marsmánuði 2011 fól ríkisstjórn utanríkis-, velferðar- og innanríkisráðherrum að kanna hvernig Ísland gæti stuðlað að vitundarvakningu á alþjóðavettvangi vegna mænuskaða. Í tilefni af fyrirspurn þessari hefur forsætisráðuneyti leitað eftir upplýsingum um eftirfylgni málsins hjá ráðuneytunum. Reglulegt samráð vegna málsins hefur átt sér stað á milli fyrrgreindra þriggja ráðuneyta. Bæði utanríkisráðherra og embættismenn utanríkisráðuneytsins hafa átt fundi með Auði Guðjónsdóttur, stjórnarformanni Mænuskaðastofnunar Íslands (MÍ) í því skyni.
    Utanríkisráðuneytið hóf þegar vinnu við athugun á möguleikum í tengslum við átak Sameinuðu þjóðanna gegn umferðarslysum (Decade of Action for Road safety). Alþjóða aksturssambandið (FIA) sem er samstarfsaðili Sameinuðu þjóðanna gegnir þar mikilvægu hlutverki. Í kjölfar svarbréfs forseta FIA, Jean Todt, við bréfi forseta Íslands vegna vitundarvakningar um mænuskaða hefur utanríkisráðuneytið markvisst unnið að því að vinna málinu framgang á alþjóðavettvangi. Þannig má nefna að sendiherra Íslands í París átti fund með prófessor Gérard Saillant frá Frakklandi, sem er núverandi stjórnarformaður ICM (Brain and Spine Institute) og varaformaður FIA, hinn 7. október 2011 og kynnti honum starfsemi Mænuskaðastofnunar Íslands. Í því sambandi var sérstaklega rætt um áratug Sameinuðu þjóðanna til aukins öryggis á vegum og tillögu um norrænt samstarf varðandi rannsóknir á mænuskaða, sem þá hafði verið lögð fram á Norðurlandaráðsþingi. Saillant var áhugasamur um samstarf við Mænuskaðastofnun og hafði kynnt sér bréfaskipti forseta Íslands við forseta FIA, Jean Todt. Hann óskaði eftir að fá ítarlegri upplýsingar um Mænuskaðastofnunina og tillöguna hjá Norðurlandaráði. Í framhaldi af samþykkt tillögunnar á þingi Norðurlandaráðs í Kaupmannahöfn í byrjun nóvember 2011 var hún þýdd á frönsku og send prófessor Saillant. Framangreind ráðuneyti munu halda áfram nánu samráði í þágu vitundarvakningar á alþjóðavettvangi vegna mænuskaða.
    Á grundvelli átaksverkefnisins Decade of Action for Road Safety skipaði innanríkisráðherra í maí sl. starfshóp til eins árs um áratug umferðaröryggis 2011–2020, sem m.a. er ætlað að gera tillögur að verkefnum sem stuðlað geti að auknu umferðaröryggi á tímabilinu og ennfremur verkefnum sem til þess eru fallin að draga úr afleiðingum umferðarslysa. Í drögum að skýrslu starfshópsins, sem skilað verður í byrjun maí nk., er fjallað um mikilvægi Mænuskaðastofnunar Íslands og segir þar m.a.: „Helmingur mænuskaða í heiminum er af völdum umferðarslysa. Styðja ætti við Mænuskaðastofnun Íslands í rannsóknum og vinna að forvörnum gegn mænuskaða.“