Aðrar útgáfur af skjalinu: PDF - Word Perfect. Ferill 577. máls.
140. löggjafarþing 2011–2012.
Þingskjal 898  —  577. mál.




Tillaga til þingsályktunar



um Hagavatnsvirkjun.

Flm.: Sigurður Ingi Jóhannsson, Árni Johnsen, Gunnar Bragi Sveinsson,
Höskuldur Þórhallsson, Jón Gunnarsson, Ragnheiður E. Árnadóttir,
Tryggi Þór Herbertsson, Unnur Brá Konráðsdóttir, Vigdís Hauksdóttir.


    Alþingi ályktar að skora á iðnaðarráðherra að grípa til nauðsynlegra aðgerða svo að hægt verði að ráðast í framkvæmdir við Hagavatnsvirkjun.

Greinargerð.


    Verkefnið Hagavatnsvirkjun hefur verið flokkað í biðflokk í drögum að tillögu til þingsályktunar um áætlun um vernd og orkunýtingu landsvæða þar sem það er metið svo að ekki liggi fyrir nægar upplýsingar um verkefnið. Er það mat flutningsmanna tillögunnar að Hagavatnsvirkjun sé þess eðlis að stjórnvöld hafi hagsmuni af því að tryggja að hægt verði að ráðast í framkvæmdir sem fyrst og verkefnið verði flokkað í nýtingarflokk í þingsályktun um vernd og orkunýtingu landsvæða.
    Hagavatn er í um 437 metra hæð yfir sjávarmáli og 4–5 km að flatarmáli. Vatnið er við rætur Eystri-Hagafellsjökuls syðst í Langjökli. Jökulvatn rennur til vatnsins undan Eystri- og Vestri-Hagafellsjökli, að vestanverðu fellur vatn úr Sandvatni hinu horfna. Útfall vatnsins hefur verið um Farið (Nýjafossfarveg) frá 1939 en var næstu 10 árin þar á undan um Leynifossfarveg sem liggur vestar. Talið er að vatnsborð hafi verið í 447 metra hæð yfir sjávarmáli á þessum árum og líklega nærri 460 metra hæð yfir sjávarmáli um aldamótin 1900.
    Fyrirliggjandi hugmyndir um virkjun Hagavatns eru með umhverfissjónarmið að leiðarljósi. Virkjunarleið þessi er umhverfisvænni útfærsla en lagt var upp með í upphafi. Virkjunin yrði útfærð sem rennslisvirkjun en það mundi tryggja mun stöðugra vatnsyfirborð ofan stíflu án árstíðabundinna sveiflna. Auk þess yrðu rafmagnstengingar að mestu leyti lagðar í jörðu. Með stíflugerð er einnig ætlunin að endurheimta hámarksstærð Hagavatns og hefta þannig sandfok og endurheimta gróðurþekju á nærliggjandi svæðum. Það hefur verið hagsmunamál landeigenda til margra ára að endurheimta fyrri hámarksstærð vatnsins. Samkvæmt Landgræðslu ríkisins hefur sandfok sunnan Langjökuls frá Eystri- og Vestri- Hagafellsjökli verið kortlagt svo að hægt sé að forgangsraða aðgerðum til að stöðva sandfok og hamla gegn frekari gróðureyðingu. Samkvæmt þessari kortlagningu, sem útgefin var árið 2005, blæs sandi af svæðinu vestan og suðvestan Hagavatns.
    Í áætlunum er gert ráð fyrir að virkjunin verði hefðbundin vatnsaflsvirkjun. Um er að ræða stíflu í Farinu við núverandi útrás úr vatninu ofan Nýjafoss. Stíflan er gerð til að hækka vatnsborð Hagavatnsins í allt að 460 metra hæð yfir sjávarmáli. Í gömlu útrásinni ofan við Leynifoss yrði byggð önnur lægri stífla ásamt inntaki að virkjuninni með aðrennslisskurði út í vatnið. Gera þarf yfirfall út úr vatninu. Öll nánari staðsetning mannvirkja ræðst af niðurstöðum frekari rannsókna. Þegar virkjunin verður fullbúin verður virkjað rennsli allt að 20 megavött. Rafmagnið yrði líklega selt inn á raforkukerfið eða til stórnotenda. Slík framkvæmd mun skapa töluverðan fjölda starfa á byggingartíma virkjunarinnar auk þess sem framtíðarstörf skapast í héraði. Mikill áhugi og stuðningur er við þessar framkvæmdir í heimabyggð.
    Það er frumskilyrði fyrir því að af virkjun sem þessari geti orðið að framkvæmdin teljist hagkvæm þannig að tekjur af rekstri hennar standi undir kostnaði vegna hennar. Mikilvægt er að hafa í huga í þessu sambandi að við fyrrgreint mat sem leiddi til þess að þessi virkjunarkostur var settur í biðflokk var ekki tekið mið af markmiði framkvæmdarinnar sem auk orkuframleiðslu er umhverfisvernd. En með stíflugerð er einnig ætlunin að endurheimta hámarksstærð Hagavatns og hefta þannig sandfok og endurheimta gróðurþekju á nærliggjandi svæðum. Hér er til mikils að vinna þar sem hið mikla jarðvegsfok þar er einn stærsti valdur svifryksmengunar á suðvesturhluta landsins (svo sem í Reykjavík). Þessum markmiðum verður líka að taka mið af þegar hagkvæmni virkjunarkostsins er metin. Fyrir liggur mat á umhverfisáhrifum þess að hækka vatnsborð Hagavatns með stíflu frá árinu 1997 sem Landgræðsla ríkisins vann með fulltingi Biskupstungnahrepps.