Aðrar útgáfur af skjalinu: PDF - Word Perfect. Ferill 600. máls.

Þingskjal 937  —  600. mál.



Tillaga til þingsályktunar

um staðfestingu samnings um afhendingu vegna refsiverðrar
háttsemi milli Norðurlandanna (norræn handtökuskipun) .

(Lögð fyrir Alþingi á 140. löggjafarþingi 2011–2012.)




    Alþingi ályktar að heimila ríkisstjórninni að staðfesta fyrir Íslands hönd samning um afhendingu vegna refsiverðrar háttsemi milli Norðurlandanna (norræn handtökuskipun) sem undirritaður var í Kaupmannahöfn 15. desember 2005.

Athugasemdir við þingsályktunartillögu þessa.


    Með þingsályktunartillögu þessari er leitað heimildar Alþingis til staðfestingar samnings um afhendingu vegna refsiverðrar háttsemi milli Danmerkur, Finnlands, Íslands, Noregs og Svíþjóðar (norræn handtökuskipun) sem undirritaður var í Kaupmannahöfn 15. desember 2005. Samningurinn er prentaður sem fylgiskjal með tillögu þessari.
    Afbrot eru í auknum mæli skipulögð og eiga sér engin landamæri. Erfitt er að stöðva þá þróun en til þess að auka getu sína til þess þurfa ríki heims að taka höndum saman og útrýma hindrunum við rannsókn og saksókn í sakamálum eins og hægt er, en virða þó að fullu mannréttindi þeirra sem í hlut eiga. Í því skyni hafa tilteknir ríkjahópar meðal annars unnið að því að einfalda framsalsfyrirkomulagið sín á milli.
    Ákveðið var að endurskoða framsalsfyrirkomulagið á milli Norðurlandanna eftir að Danmörk, Finnland og Svíþjóð samþykktu rammaákvörðun ráðs Evrópusambandsins frá 13. júní 2002 um evrópska handtökuskipun og málsmeðferð um afhendingu milli aðildarríkjanna (2002/584/RA) sem hefur verið nefnd evrópska handtökuskipunin. Vilji stóð til að gera framsalsfyrirkomulagið á milli Norðurlandanna að minnsta kosti jafnvíðtækt og -árangursríkt og það fyrirkomulag sem komið er á milli aðildarríkja ESB með evrópsku handtökuskipuninni. Í framhaldinu var samningurinn um norræna handtökuskipun undirritaður í Kaupmannahöfn 15. desember 2005. Með samningnum um norræna handtökuskipun er framsalsfyrirkomulagið á milli Norðurlandanna einfaldað og gengur það að sumu leyti lengra en það afhendingarkerfi sem komið er á með evrópsku handtökuskipuninni, m.a. eru styttri frestir til afhendingar.
    Gildandi fyrirkomulag um framsal eftirlýstra einstaklinga á milli Norðurlandanna byggist á samræmdri löggjöf í Norðurlöndunum, hér á landi á lögum nr. 7/1962, um framsal sakamanna til Danmerkur, Finnlands, Noregs og Svíþjóðar. Ef einstaklingur, sem í öðru norrænu landi er grunaður, ákærður eða dæmdur fyrir refsiverðan verknað, dvelur hér á landi getur framangreinda norræna landið sent framsalsbeiðni til innanríkisráðuneytisins sem framsendir beiðnina til ríkissaksóknara til rannsóknar. Að rannsókn lokinni sendir ríkissaksóknari ráðuneytinu öll gögn málsins ásamt álitsgerð um það og tekur ráðuneytið síðan ákvörðun um hvort framsal skuli heimilað. Beiðnin getur bæði verið vegna meðferðar máls eða fullnustu refsingar.
    Fyrirkomulagið sem kveðið er á um í samningnum um norræna handtökuskipun er í nokkrum grundvallaratriðum ólíkt því sem nú er. Í fyrsta lagi er hugtakinu „framsal“ skipt út fyrir orðið „afhending“ til að leggja áherslu á að um fljótvirkara kerfi er að ræða. Í öðru lagi ber landi sem tekur á móti norrænni handtökuskipun skylda til að handtaka og afhenda eftirlýstan mann því landi sem gaf beiðnina út nema til staðar séu nánar tilgreindar synjunarástæður. Í þriðja lagi koma þau ráðuneyti sem fara með dómsmál ekki að málsmeðferðinni þar sem í samningnum er miðað við að ákæruvaldið eða önnur stjórnvöld í réttarkerfinu sem tilnefnd eru skuli gefa handtökuskipun út, taka á móti og fjalla um hana og taka ákvörðun um hvort orðið skuli við beiðni um afhendingu eða ekki. Mál vegna afhendingar manns á grundvelli handtökuskipunar skal aðeins lagt fyrir dómstól ef viðkomandi samþykkir ekki afhendingu. Í fjórða lagi gilda styttri frestir fyrir málsmeðferð og afhendingu.
    Samningurinn sjálfur er í fimm köflum. Í fyrsta kafla er fjallað um almennar meginreglur, í öðrum kafla um málsmeðferð við afhendingu, í þriðja kafla um réttaráhrif afhendingar, í fjórða kafla um sérstakar reglur um afhendingu til og frá Íslandi og í fimmta kafla eru almenn ákvæði og lokaákvæði.
    Í formála samningsins segir að það sé sameiginlegt markmið Norðurlandanna að taka upp þjálli löggjöf á þessu sviði og innleiða fyrirkomulag byggt á norrænni handtökuskipun um gagnkvæma viðurkenningu í stað núverandi framsalsfyrirkomulags.
    Í 1. gr. er norræn handtökuskipun skilgreind sem ákvörðun stjórnvalds í réttarkerfinu sem tekin er í norrænu landi í þeim tilgangi að annað norrænt land handtaki og afhendi landinu sem gaf handtökuskipunina út eftirlýstan mann vegna saksóknar eða til fullnustu fangelsisrefsingar eða annarrar frelsissviptingarráðstöfunar. Kveðið er á um að líta beri á evrópska handtökuskipun sem gefin er út í Danmörku, Finnlandi eða Svíþjóð sem norræna handtökuskipun. Jafnframt er kveðið á um skylduna til að framfylgja sérhverri norrænni handtökuskipun.
    Í 2. gr. er fjallað um gildissvið samningsins. Unnt er að gefa út norræna handtökuskipun vegna afbrota sem geta varðað frelsissviptingu eða til að fullnusta slíka refsingu. Kveðið er á um að afbrot, eins og þau eru skilgreind í löggjöf þess lands sem gefur handtökuskipun út, leiði til fullnustu á grundvelli norrænnar handtökuskipunar með þeim skilmálum sem kveðið er á um í þessum samningi og án þess að tvöfalt refsinæmi sé kannað. Það þýðir að land sem tekur á móti norrænni handtökuskipun getur ekki synjað afhendingar á þeirri forsendu að verknaðurinn sem tilgreindur er í beiðninni sé ekki refsiverður þar í landi.
    Í 3. gr. er fjallað um bær dómsmálayfirvöld, miðlægt stjórnvald og skilgreiningu á þriðja landi en það er sérhvert land utan Norðurlandanna og Evrópusambandsins.
    Í 4. gr. eru tilgreindar þrjár skyldubundnar ástæður sem leiða til þess að synja ber um framkvæmd norrænnar handtökuskipunar. Þessar ástæður eru í fyrsta lagi að veitt geti verið sakaruppgjöf vegna verknaðarins í landinu sem á að framkvæma handtökuskipunina og þetta land sé valdbært til saksóknar vegna afbrotsins samkvæmt eigin löggjöf, í öðru lagi að eftirlýstur maður hafi þegar verið endanlega dæmdur fyrir sama verknað í öðru norrænu landi eða aðildarríki ESB, að því tilskildu að refsing samkvæmt áfellisdómi hafi verið fullnustuð, sé til fullnustu eða að ekki sé lengur hægt að fullnægja henni samkvæmt löggjöf landsins sem dæmdi málið og í þriðja lagi að viðkomandi geti ekki sætt refsiábyrgð vegna ungs aldurs.
    Í 5. gr. eru tilgreindar fimm valkvæðar synjunarástæður. Hægt er að synja um fullnustu norrænnar handtökuskipunar í fyrsta lagi ef maðurinn, sem norræna handtökuskipunin tekur til, hefur þegar verið sóttur til saka í landinu sem beðið er um afhendingu vegna sömu háttsemi og norræna handtökuskipunin grundvallast á, í öðru lagi ef verknaðurinn hefur verið að hluta eða í heild framinn á landsvæði þess lands sem beðið er um afhendingu og ef hann telst ekki afbrot samkvæmt löggjöf þess lands, í þriðja lagi ef eftirlýstur maður hefur þegar verið dæmdur fyrir verknaðinn í þriðja landi og refsingin hefur þegar verið fullnustuð, er til fullnustu eða er ekki lengur fullnustuhæf, í fjórða lagi ef dómsmálayfirvöld í landinu sem beðið er um fullnustu hafa ákveðið að hefja ekki saksókn vegna verknaðarins eða hætt við saksókn sem hafin var eða ef viðkomandi einstaklingur hefur hlotið endanlegan dóm í öðru norrænu landi vegna sömu háttsemi sem kemur í veg fyrir frekari saksókn og í fimmta lagi ef beðið er um afhendingu vegna fullnustu refsingar, og sá eftirlýsti er ríkisborgari eða er búsettur í landinu sem beðið er um fullnustu, er unnt að synja um afhendingu gegn því að það land skuldbindi sig sjálft til þess að annast fullnustu frelsissviptingarráðstöfunarinnar samkvæmt eigin landslögum.
    Í 6. gr. er kveðið á um að þegar beðið er um afhendingu vegna málsmeðferðar og sá eftirlýsti er ríkisborgari þess lands sem beðið er um afhendingu eða búsettur þar megi setja það skilyrði fyrir afhendingu að viðkomandi verði fluttur til baka að lokinni málsmeðferð til fullnustu refsingarinnar í því landi sem afhenti viðkomandi.
    Í 7. gr. eru ákvæði um form og innihald norrænnar handtökuskipunar. Í fylgiskjali með samningnum er formið sem þarf að útfylla til þess að óska eftir afhendingu eftirlýsts manns samkvæmt samningnum.
    Í 8. gr. eru ákvæði um sendingu norrænnar handtökuskipunar og eftirlýsingu þegar dvalarstaður hins eftirlýsta er ókunnur.
    Í 9. gr. eru ákvæði um réttindi þess sem er eftirlýstur. Þegar hann er handtekinn skal honum kynnt norræna handtökuskipunin, efni hennar og möguleikinn á því að samþykkja afhendingu. Viðkomandi á einnig rétt á aðstoð réttargæslumanns og túlks í samræmi við löggjöf landsins sem beðið var um fullnustu.
    Í 10. gr. er fjallað um gæsluvarðhaldsvist meðan beðið er ákvörðunar um afhendingu hins eftirlýsta. Gæsluvarðhaldi og öðrum þvingunarúrræðum er unnt að beita í samræmi við löggjöf þess lands sem beðið er um afhendingu en gera skal nauðsynlegar ráðstafanir til að koma í veg fyrir að viðkomandi strjúki.
    Í 11. gr. er fjallað um samþykki fyrir afhendingu og samþykki til málsmeðferðar fyrir aðra refsiverða verknaði sem framdir voru á undan því afbroti sem afhendingin tekur til. Þar segir að löndin geri nauðsynlegar ráðstafanir til að samþykkis verði aflað með þeim hætti að fram komi að hinn eftirlýsti hafi gefið það af fúsum og frjálsum vilja og með fullri vitneskju um hvað það hafi í för með sér. Í tengslum við þetta á viðkomandi rétt á réttargæslumanni. Samþykki má afturkalla í samræmi við löggjöf landsins sem beðið er um fullnustu.
    Í 12. gr. er kveðið á um að eftirlýstur maður eigi rétt á því að vera yfirheyrður af dómsmálayfirvaldi sem beðið er um fullnustu samþykki hann ekki afhendingu.
    Í 13. gr. segir að landið sem fær handtökuskipun geti óskað eftir því að fá viðbótarupplýsingar frá landinu sem gaf hana út án tafar en virða beri tímafresti samningsins til ákvörðunartöku um afhendingu.
    Í 14. gr. eru ákvæði um fresti og málsmeðferð í tengslum við ákvörðun um afhendingu á eftirlýstum manni samkvæmt norrænni handtökuskipun. Meðferð og fullnusta norrænnar handtökuskipunar skal sæta flýtimeðferð og sérhverja synjun um fullnustu ber að rökstyðja.
    Í 15. gr. eru leiðbeiningar um hvernig taka skuli ákvörðun þegar fleiri en eitt land hafa gefið út handtökuskipun á hendur sama manni. Taka skal m.a. tillit til grófleika afbrotsins og hvar það var framið.
    Í 16. gr. eru sérreglur um það þegar eftirlýstur maður nýtur forréttinda eða friðhelgi að því er varðar fullnustu eða saksókn í ríkinu sem beðið er um afhendingu.
    Í 17. gr. er fjallað um alþjóðlegar skuldbindingar sem lýstur saman. Þar segir að samningurinn hafi ekki áhrif á skuldbindingar landsins sem beðið er um fullnustu þegar hinn eftirlýsti er framseldur eða afhentur því frá aðildarríki ESB eða þriðja landi og hlutaðeigandi nýtur verndar gegn því að vera framseldur áfram samkvæmt þeim reglum sem framsalið átti sér stað eftir. Landið sem beðið er um fullnustu gerir allar nauðsynlegar ráðstafanir til þess að biðja um samþykki viðkomandi aðildarríkis ESB eða þriðja lands til að unnt sé að afhenda viðkomandi til landsins sem gaf út handtökuskipunina.
    Í 18. gr. segir að dómsmálayfirvaldið sem beðið er um afhendingu tilkynni þegar í stað því dómsmálayfirvaldi sem gaf handtökuskipunina út að hve miklu leyti henni verði framfylgt.
    Í 19. gr. eru ákvæði um frest til að afhenda eftirlýstan mann eftir að endanleg ákvörðun um afhendingu hefur verið tekin.
    Í 20. gr. eru ákvæði um frestun afhendingar eða tímabundna afhendingu á eftirlýstum manni þegar viðkomandi sætir málsmeðferð í ríkinu sem beðið er um afhendingu eða afplánar þar refsingu.
    Í 21. gr. segir að menn sem afhenda á frá einu norrænu landi til annars megi flytja án sérstakrar heimildar yfir eða í gegnum hin norrænu löndin.
    Í 22. gr. eru reglur um frádrátt þess tíma, sem samsvarar lengd gæsluvarðhalds sem eftirlýstur maður sætti vegna beiðni um afhendingu, frá heildarlengd þess tíma sem hlutaðeigandi á að afplána í landinu sem gaf handtökuskipunina út.
    Í 23. gr. eru reglur um hugsanlega málsmeðferð vegna annarra afbrota en þess sem er grundvöllur afhendingar og framin voru fyrir afhendingu.
    Í 24. gr. er ákvæði um afhendingu eða framsal áfram til annarra landa.
    Í 25. gr. eru ákvæði um afhendingu muna sem eru nauðsynlegir sem sönnunargögn eða hinn eftirlýsti hefur aflað með afbrotinu.
    Í samningnum er kveðið á um sérstakar reglur um afhendingu til og frá Íslandi sem íslensk stjórnvöld hafa ákveðið að ekki skuli beita eins og nánar greinir hér á eftir í umfjöllun um 26. og 27. gr. Þessar reglur kveða á um að þrengja megi gildissvið samningsins þegar um er að ræða afhendingu á milli Íslands annars vegar og Danmerkur, Finnlands, Noregs og Svíþjóðar hins vegar.
    Samkvæmt 26. gr. gildir gildissvið norrænnar handtökuskipunar ekki um afhendingu til og frá Íslandi þegar um er að ræða afhendingu á eigin ríkisborgurum. Synja má um afhendingu frá Íslandi á íslenskum ríkisborgara til hinna norrænu landanna, nema hinn eftirlýsti hafi síðastliðin tvö ár fyrir hinn refsiverða verknað verið búsettur í landinu sem gaf handtökuskipunina út eða ef verknaðurinn eða sambærilegur verknaður varðar þyngri refsingu en fjögurra ára fangelsi á Íslandi. Eins geta hin norrænu löndin synjað afhendingar eigin ríkisborgara til Íslands, nema hinn eftirlýsti hafi síðastliðin tvö ár verið búsettur á Íslandi, eða ef verknaðurinn eða sambærilegur verknaður getur varðað þyngri refsingu en fangelsi í fjögur ár samkvæmt lögum þess lands sem beðið er um fullnustu.
    Í 27. gr. segir að gildissvið norrænnar handtökuskipunar nái heldur ekki til afhendingar til og frá Íslandi vegna stjórnmálaafbrota. Synja má um afhendingu frá Íslandi á íslenskum ríkisborgara til hinna norrænu landanna vegna stjórnmálaafbrota en á erlendum ríkisborgara vegna sömu brota nema sambærilegur verknaður sé refsiverður samkvæmt íslenskum lögum eða 1., 2. eða 3. gr. Evrópusamnings um varnir gegn hryðjuverkum nái yfir hann. Eins geta hin norrænu löndin synjað um afhendingu eigin ríkisborgara til Íslands vegna stjórnmálaafbrota og einnig á útlendingum nema sambærilegur verknaður sé refsiverður í landinu sem beðið er um fullnustu eða 1., 2. eða 3. gr. Evrópusamnings um hryðjuverk nái yfir hann.
    Norðurlöndin munu ekki synja beiðni um afhendingu á eigin ríkisborgurum til Íslands og ekki verður séð að sérstök ástæða sé fyrir Ísland til að vera með sérreglu varðandi afhendingu á eigin ríkisborgurum til annarra Norðurlanda. Var því valin sú leið sem fram kemur í lögum nr. 12/2010 að ekki verði synjað um afhendingu á íslenskum ríkisborgurum og er gert ráð fyrir því að við staðfestingu samningsins verði því lýst yfir að íslensk stjórnvöld muni ekki beita takmörkunum á afhendingu á eftirlýstum mönnum samkvæmt þessum ákvæðum samningsins. Þannig gildi sömu reglur um afhendingu manna á öllum Norðurlöndunum.
    Í 28. gr. er fjallað um tengsl samningsins við aðra löggerninga.
    Í 29. gr. eru ákvæði um undirritun og gildistöku. Samningurinn öðlast gildi þremur mánuðum eftir að öll Norðurlöndin hafa samþykkt að vera bundin af samningnum. Hann öðlast þó fyrst gildi að því er varðar Grænland og Færeyjar þremur mánuðum eftir að danska dómsmálaráðuneytið hefur tilkynnt danska utanríkisráðuneytinu og dómsmálaráðuneytum hinna landanna að samningurinn skuli gilda að því er varðar Grænland og/eða Færeyjar. Áður en öll löndin hafa veitt samþykki sitt til að vera bundin af samningnum geta þau lönd, sem til þess gefa samþykki sitt, komist að samkomulagi um að samningurinn skuli öðlast gildi þeirra á milli.
    Hinn 16. febrúar 2010 samþykkti Alþingi lög um handtöku og afhendingu manna milli Norðurlandanna vegna refsiverðra verknaða (norræn handtökuskipun) nr. 12/2010. Lögin munu öðlast gildi við gildistöku samningsins. Þannig hafa verið gerðar þær lagabreytingar sem nauðsynlegar eru til þess að Ísland geti staðið við þær skuldbindingar sem samningurinn leggur samningslöndum á herðar.

Fylgiskjal.


Samningur um afhendingu vegna refsiverðrar háttsemi milli Norðurlandanna 1
(norræn handtökuskipun).



Ríkisstjórnir Danmerkur, Finnlands, Íslands, Noregs og Svíþjóðar hafa orðið ásáttar um eftirfarandi:

Formáli


(1)            Samkvæmt niðurstöðum fundar norrænna dómsmálaráðherra á Svalbarða í júní 2002 2 ber að endurskoða núgildandi fyrirkomulag á framsali milli Norðurlandanna og afnema hina formlegu málsmeðferð við framsal milli Norðurlandanna.
(2)            Koma skal á fyrirkomulagi um gagnkvæma viðurkenningu ákvarðana um frelsissviptingu.
(3)            Yfirlýst markmið Norðurlandanna um ennþá þjálli löggjöf á þessu sviði hefur leitt til óskar um afnám núverandi fyrirkomulags á framsali og innleiðingu málsmeðferðar sem byggir á norrænni handtökuskipun um gagnkvæma viðurkenningu, og að afhendingin fari síðan fram samkvæmt henni, nema fyrir hendi séu einhverjar þeirra synjunarástæðna sem í samningnum greinir. Enn fremur mun innleiðing nýs fyrirkomulags varðandi afhendingu á dæmdum eða grunuðum mönnum með tilliti til refsifullnustu eða saksóknar gera það kleift að einfalda hið flókna ferli sem leiðir af gildandi málsmeðferð við framsal, þ.á m. varðandi hina evrópsku handtökuskipun.
(4)            Samningur þessi byggir á meginreglum um frelsi, lýðræði og virðingu fyrir mannréttindum og grundvallarréttindum ásamt meginreglunni um réttarríki, en þessar meginreglur eru sameiginlegar öllum norrænu löndunum. Samningurinn virðir grundvallarréttindi, eins og þau eru tryggð með Evrópusáttmálanum um verndun mannréttinda og mannfrelsis, sem undirritaður var í Róm 4. nóvember 1950, og virðir þjóðarsérkenni norrænu landanna.
(5)            Þessi samningur kemur ekki í veg fyrir að Norðurlöndin geti beitt eigin stjórnskipunarreglum um rétt til réttlátrar málsmeðferðar, félagafrelsis, prentfrelsis og tjáningarfrelsis í öðrum fjölmiðlum.
(6)             Ekki má flytja, senda, afhenda eða framselja eða afhenda áfram menn til lands þar sem nærlæg hætta er á að þeirra bíði dauðarefsing, pyndingar eða önnur ómannúðleg eða niðurlægjandi meðferð eða refsing.
(7)            Nægjanlegt eftirlit skal vera með ákvörðunum er varða fullnustu norrænnar handtökuskipunar, en í því felst að dómsmálayfirvöld í því landi sem hinn eftirlýsti er handtekinn í, skulu taka ákvörðun um afhendingu hlutaðeigandi.
(8)             Hlutverk miðlægra stjórnvalda varðandi fullnustu norrænnar handtökuskipunar skal takmarkast við hagnýta umsjón og aðstoð.
(9)             Fyrirkomulagið með norrænu handtökuskipuninni hvílir á því mikla trausti sem ríkir milli Norðurlandanna.
(10)        Danmörk, Finnland og Svíþjóð hafa innleitt rammaákvörðun ráðsins frá 13. júní 2002 um evrópsku handtökuskipunina varðandi málsmeðferð við afhendingu milli aðildarríkjanna (2002/584/RIA). Öll norrænu löndin hafa gerst aðilar að mörgum samningum er gilda á þessu sviði, t.d. Evrópusamningi frá 13. desember 1957 um framsal og Evrópusamningi frá 27. janúar 1977 um varnir gegn hryðjuverkum.
(11)        Norræna handtökuskipunin kemur í stað fyrri löggerninga um framsal milli Norðurlandanna.

1. KAFLI
ALMENNAR MEGINREGLUR
1. gr.
Skilgreining á skyldunni til að framfylgja
norrænni handtökuskipun.

1.    Norræna handtökuskipunin er ákvörðun stjórnvalds í réttarkerfinu sem tekin er í norrænu landi með það fyrir augum að annað norrænt land handtaki og afhendi eftirlýstan mann með tilliti til saksóknar eða fullnustu fangelsisrefsingar eða annarrar frelsissviptingarráðstöfunar.
2.    Líta ber á evrópska handtökuskipun, sem gefin er út í Danmörku, Finnlandi eða Svíþjóð og byggist á rammaákvörðun ráðs Evrópusambandsins frá 13. júní 2002 um evrópsku handtökuskipunina og um málsmeðferð við afhendingu milli aðildarríkjanna, sem norræna handtökuskipun samkvæmt samningi þessum.
3.    Löndin skulu framfylgja sérhverri norrænni handtökuskipun á grundvelli meginreglna um gagnkvæma viðurkenningu og í samræmi við ákvæði þessa samnings.

2. gr.
Gildissvið norrænnar handtökuskipunar.

1.    Gefa má út norræna handtökuskipun vegna háttsemi sem samkvæmt löggjöf þess lands sem gefur hana út er refsiverð þannig að varðað geti fangelsisrefsingu eða annarri frelsissviptingu (saksókn), eða þegar dæmd hefur verið fangelsisrefsing eða ákveðin annars konar frelsissviptingarráðstöfun (refsifullnusta).
2.    Afhending til saksóknar eða refsifullnustu vegna tveggja eða fleiri refsiverðra verknaða getur átt sér stað þó svo að skilyrði 1. mgr. séu aðeins uppfyllt varðandi einn verknaðinn.
3.    Afbrot, eins og þau eru skilgreind í löggjöf þess lands sem gefur handtökuskipun út, leiða til fullnustu á grundvelli norrænnar handtökuskipunar með þeim skilmálum sem kveðið er á um í þessum samningi og án þess að tvöfalt refsinæmi sé kannað.

3. gr.
Ákvörðun um bær dómsmálayfirvöld o.fl.,
svo og skilgreining á þriðja landi.

1.    Dómsmálayfirvald sem gefur út handtökuskipun er það stjórnvald í réttarkerfinu í landinu er gefur hana út sem samkvæmt löggjöf þess lands er bært til að gefa út norræna handtökuskipun.
2.    Dómsmálayfirvald sem fær beiðni um fullnustu handtökuskipunar er það stjórnvald í réttarkerfinu í landinu sem fær beiðni um fullnustu sem samkvæmt löggjöf þess lands er bært til þess að framfylgja norrænni handtökuskipun.
3.    Sérhvert landanna útnefnir eitt miðlægt stjórnvald til þess að vera dómsmálayfirvöldum innan handar.
4.    Sérhvert landanna skýrir frá því við fullgildingu þessa samnings hvaða dómsmálayfirvöld séu bær stjórnvöld samkvæmt þeirra eigin löggjöf, svo og hvort miðlægt stjórnvald hafi verið útnefnt.
5.    Í þessum samningi telst „þriðja land“ vera sérhvert land utan Norðurlandanna og Evrópusambandsins.

4. gr.
Ástæður sem skylda til synjunar á fullnustu
norrænnar handtökuskipunar.

Dómsmálayfirvald sem fær beiðni um fullnustu skal synja um fullnustu norrænnar handtökuskipunar í eftirfarandi tilvikum:
1)    Ef afbrotið, sem norræna handtökuskipunin grundvallast á, getur sætt sakaruppgjöf í landinu sem beðið er um fullnustu og þetta land er valdbært til saksóknar vegna afbrotsins samkvæmt eigin löggjöf.
2)    Hafi sá eftirlýsti verið endanlega dæmdur fyrir sömu verknaði í norrænu landi eða aðildarríki ESB, að því tilskildu að refsing samkvæmt áfellisdómi hafi verið fullnustuð, sé til fullnustu eða að ekki sé lengur unnt að fullnægja henni samkvæmt löggjöf landsins sem dæmdi málið.
3)    Ef ekki er unnt að leggja á manninn, sem norræn handtökuskipun tekur til, refsiábyrgð á grundvelli löggjafar landsins sem beðið er um fullnustu vegna aldurs hans með tilliti til þeirra verknaða sem norræna handtökuskipunin grundvallast á.

5. gr.
Valfrjálsar ástæður til að synja um fullnustu
norrænnar handtökuskipunar.

Dómsmálayfirvald sem fær beiðni um fullnustu getur synjað um fullnustu norrænnar handtökuskipunar:
1)    Ef maðurinn, sem norræna handtökuskipunin tekur til, hefur þegar verið sóttur til saka í fullnustulandinu vegna sömu háttsemi og norræna handtökuskipunin grundvallast á.
2)    Ef háttsemin sem norræna handtökuskipunin grundvallast á telst samkvæmt löggjöf landsins sem beðið er um fullnustu að öllu eða nokkru leyti framin á landsvæði þessa lands eða á stað, sem jafnast á við það, og háttsemin flokkast ekki sem afbrot samkvæmt lögum landsins sem beðið er um fullnustu.
3)    Hafi hinn eftirlýsti verið dæmdur endanlega vegna sömu verknaða í þriðja landi, að því tilskildu að sakfelling í tilviki áfellisdóms hafi verið fullnustuð, sé til fullnustu eða er ekki lengur fullnustuhæf samkvæmt löggjöf landsins sem dæmdi málið.
4)    Hafi dómsmálayfirvöld í landinu sem beðið er um fullnustu ákveðið annaðhvort að hefja ekki saksókn vegna afbrotsins sem norræna handtökuskipunin grundvallast á eða hætta við saksókn sem hafin er, eða hafi hinn eftirlýsti hlotið endanlegan dóm í öðru norrænu landi vegna sömu háttsemi sem kemur í veg fyrir frekari saksókn.
5)    Sé norræn handtökuskipun gefin út með tilliti til fullnustu refsidóms eða annarrar frelsissviptingarráðstöfunar og hinn eftirlýsti dvelur í, er ríkisborgari í eða er búsettur í landinu sem beðið er um fullnustu, og þetta land skuldbindur sig til þess sjálft að annast fullnustu refsingarinnar eða annarrar frelsissviptingarráðstöfunar samkvæmt eigin landslögum.

6. gr.
Skilyrt afhending.

Nú er norræn handtökuskipun gefin út með tilliti til saksóknar og maðurinn sem handtökuskipunin tekur til er ríkisborgari í eða er búsettur í landinu sem beðið er um fullnustu og má þá gera afhendinguna skilyrta því að viðkomandi verði, eftir að honum hefur verið gefinn kostur á að tjá sig, skilað aftur til landsins sem beðið var um fullnustu í því skyni að afplána þar fangelsisrefsinguna eða aðra frelsissviptingarráðstöfun sem viðkomandi verður dæmdur í í landinu sem gaf handtökuskipunina út.

7. gr.
Efni og form norrænu handtökuskipunarinnar.

1.    Norræna handtökuskipunin skal innihalda eftirfarandi upplýsingar í samræmi við eyðublaðið sem er að finna sem fylgiskjal:
    a)    persónukenni og þjóðerni hins eftirlýsta,
    b)    nafn, heimilisfang, síma- eða bréfasímanúmer og netfang dómsmálayfirvaldsins í landinu sem gefur handtökuskipunina út,
    c)    tilgreiningu á því hvort fyrir liggi fullnustuhæfur dómur, handtökuskipun eða önnur fullnustuhæf ákvörðun sem hefur sömu réttaráhrif og nefnd er í 1. og 2. gr.,
    d)    hverrar tegundar afbrotið er og lögfræðilega skilgreiningu á því,
    e)    lýsingu á því við hvaða aðstæður afbrotið var framið, þar á meðal hvenær það átti sér stað, hvar og hver þáttur hins eftirlýsta var í því,
    f)    dæmda refsingu, ef um endanlegan dóm er að ræða, eða þann refsiramma sem er ákveðinn fyrir viðkomandi afbrot í lögum landsins sem gefur út handtökuskipunina,
    g)    aðrar afleiðingar afbrotsins eftir því sem kostur er.
2.    Hafi handtökuskipunin verið gefin út vegna tveggja eða fleiri refsiverðra verknaða er nægilegt að fyrir liggi handtökuskipun eða gæsluvarðhaldsákvörðun vegna eins þeirra.

2. KAFLI
MÁLSMEÐFERÐ VIÐ AFHENDINGU
8. gr.
Sending norrænnar handtökuskipunar.

1.    Þegar dvalarstaður hins eftirlýsta er kunnur getur dómsmálayfirvaldið sem gefur út handtökuskipunina sent norrænu handtökuskipunina beint til dómsmálayfirvaldsins sem beðið er um fullnustu.
2.    Ef dvalarstaður hins eftirlýsta er ókunnur getur landið sem gefur handtökuskipunina út beðið eitt eða fleiri af hinum norrænu löndunum um að lýsa eftir viðkomandi í samræmi við eftirlýsingarreglur hlutaðeigandi landa. Þegar upplýst er um dvalarstaðinn skal senda norrænu handtökuskipunina svo fljótt sem verða má til viðkomandi lands.
3.    Dómsmálayfirvaldið sem gefur út handtökuskipunina getur í samræmi við 95. gr. samnings frá 19. júní 1990 um framkvæmd Schengen-samningsins frá 14. júní 1985 um afnám í áföngum á eftirliti á sameiginlegum landamærum ákveðið að tilkynna um hinn eftirlýsta í Schengen-upplýsingakerfinu. Tilkynning sem send er inn í Schengen-upplýsingakerfið svarar til norrænnar handtökuskipunar, en með skulu fylgja upplýsingar er greinir í 1. mgr. 7. gr. Tilkynningin mun í tiltekinn bráðabirgðatíma, á meðan Schengen-upplýsingakerfið er ekki fært um að senda allar þær upplýsingar sem greinir í 7. gr., jafngilda norrænni handtökuskipun, uns dómsmálayfirvaldið sem beðið er um fullnustu hefur í samræmi við fyrirmæli veitt handtökuskipuninni móttöku.
4.    Sé stjórnvaldið sem tekur við norrænu handtökuskipuninni ekki bært til að fjalla um hana sendir það hana án tafar áfram til bærs stjórnvalds í landi sínu og tilkynnir dómsmálayfirvaldinu sem gaf hana út um það.

9. gr.
Réttindi hins eftirlýsta.

1.    Nú er eftirlýstur maður handtekinn og skal þá dómsmálayfirvaldið sem beðið er um fullnustu, í samræmi við eigin landslög, upplýsa hlutaðeigandi um norrænu handtökuskipunina og efni hennar og möguleikann á því að gefa samþykki sitt til að hann verði afhentur því dómsmálayfirvaldi sem gaf handtökuskipunina út.
2.    Eftirlýstur maður, sem handtekinn er með tilliti til fullnustu samkvæmt norrænni handtökuskipun, á rétt á aðstoð réttargæslumanns og túlks í samræmi við löggjöf landsins sem beðið var um fullnustu.

10. gr.
Gæsluvarðhald yfir manni.

1.    Þegar maður er handtekinn á grundvelli norrænnar handtökuskipunar skal dómsmálayfirvaldið sem beðið er um fullnustu taka ákvörðun um hvort viðkomandi skuli sæta gæsluvarðhaldi áfram í samræmi við lög landsins sem beðið er um fullnustu. Hinn handtekna má láta lausan tímabundið á hvaða stigi málsins sem er í samræmi við lög landsins sem beðið er um fullnustu, að því tilskildu að bært stjórnvald í því landi geri þær ráðstafanir sem teljast nauðsynlegar til að koma í veg fyrir að hlutaðeigandi strjúki.
2.    Til þess að greiða fyrir rannsókn og til að tryggja afhendingu má beita þeim réttarúrræðum sem tiltæk eru samkvæmt reglum einstakra landa.

11. gr.
Samþykki til afhendingar o.fl.

1.    Gefi sá handtekni til kynna að hann veiti samþykki sitt til afhendingar, þar á meðal, eftir því sem við á, til saksóknar vegna annarra afbrota sem voru framin á undan afbroti því sem afhendingin tekur til, sbr. b-lið 2. mgr. 23. gr., skal samþykkið látið dómsmálayfirvaldinu í té sem beðið er um fullnustu í samræmi við löggjöf landsins sem beðið er um fullnustu.
2.    Löndin gera nauðsynlegar ráðstafanir til að samþykkis skv. 1. mgr. verði aflað með þeim hætti að fram komi að hlutaðeigandi hafi gefið það af frjálsum vilja og með fullri vitneskju um hvað það hafi í för með sér. Í tengslum við þetta á hinn handtekni rétt á réttargæslumanni.
3.    Samþykki skal færa til bókar í samræmi við löggjöf landsins sem beðið er um fullnustu.
4.    Samþykki má afturkalla í samræmi við löggjöf landsins sem beðið er um fullnustu.

12. gr.
Yfirheyrsla yfir hinum eftirlýsta.

Hafi hinn handtekni ekki veitt samþykki sitt til afhendingar sem fjallað er um í 11. gr. á hlutaðeigandi rétt á að verða yfirheyrður af dómsmálayfirvaldi sem beðið er um fullnustu í samræmi við löggjöf landsins sem beðið er um fullnustu.

13. gr.
Ákvörðun um afhendingu.

1.    Dómsmálayfirvaldið sem fær beiðni um fullnustu tekur ákvörðun um afhendingu hlutaðeigandi manns innan þeirra tímamarka og með þeim skilyrðum sem kveðið er á um í samningi þessum.
2.    Nú telur dómsmálayfirvaldið sem fær beiðni um fullnustu að upplýsingarnar, sem landið sem gaf út handtökuskipunina hefur sent, séu ekki nægjanlegar til þess að unnt sé að taka ákvörðun um afhendinguna og skal það þá beiðast þess að fá nauðsynlegar viðbótarupplýsingar án tafar getur sett frest til þess vegna nauðsynjar þess að tímamörk 14. gr. verði haldin.
3.    Dómsmálayfirvaldið sem gaf handtökuskipunina út getur hvenær sem er sent gagnleg viðbótargögn til dómsmálayfirvaldsins sem var beðið um fullnustu.

14. gr.
Frestir og málsmeðferð í tengslum við ákvörðun um fullnustu
norrænnar handtökuskipunar.

1.    Meðferð og fullnusta norrænnar handtökuskipunar skal sæta flýtimeðferð.
2.    Í þeim tilvikum þegar hinn eftirlýsti veitir samþykki sitt til afhendingar skal taka endanlega ákvörðun um fullnustu norrænnar handtökuskipunar eigi síðar en 3 dögum eftir að þetta samþykki er veitt.
3.    Í öðrum tilvikum ber að taka endanlega ákvörðun um fullnustu norrænnar handtökuskipunar eigi síðar en 30 dögum eftir handtöku hins eftirlýsta.
4.    Í einstökum málum, þegar ekki hefur verið tekin endanleg ákvörðun innan þeirra fresta sem í 2. og 3. mgr. getur, ber dómsmálayfirvaldinu sem beðið var um fullnustu þegar í stað að tilkynna dómsmálayfirvaldinu sem gaf út handtökuskipunina um það og ástæður þess. Þegar svo ber við skal ákvörðunin tekin án tafar.
5.    Á meðan dómsmálayfirvaldið sem beðið var um fullnustu hefur ekki tekið endanlega ákvörðun um fullnustu norrænnar handtökuskipunar ber því að tryggja að efnisleg skilyrði fyrir afhendingu verði áfram fyrir hendi.
6.    Sérhverja synjun um fullnustu norrænnar handtökuskipunar ber að rökstyðja.

15. gr.
Ákvörðun í þeim tilvikum þegar beiðnum lýstur saman.

1.    Hafi fleiri en eitt hinna norrænu landa gefið út handtökuskipun á hendur sama manni tekur dómsmálayfirvaldið sem beðið er um fullnustu ákvörðun um hverri af handtökuskipununum skuli fullnægt, að teknu tilliti til allra aðstæðna, þar á meðal sérstaklega grófleika afbrotsins og hvar það var framið, dagsetninga á útgáfu handtökuskipananna, auk þess hvort handtökuskipanirnar eru gefnar út með saksókn fyrir augum eða til að framfylgja fangelsisrefsingu eða annarri frelsissviptingarráðstöfun.
2.    Ljósti saman norrænni handtökuskipun og evrópskri handtökuskipun eða beiðni um framsal frá þriðja landi eða aðildarríki Evrópusambandsins ákveður bært stjórnvald í landinu sem beðið er um fullnustu hvort það er norræna handtökuskipunin, evrópska handtökuskipunin eða framsalsbeiðnin sem skuli hafa forgang, að teknu hæfilegu tilliti til allra atvika, þar á meðal atvika sem nefnd eru í 1. mgr., auk þeirra sem getið er í samningi eða samkomulagi sem kann að vera fyrir hendi.
3.    Grein þessi snertir ekki skuldbindingar norrænu landanna samkvæmt samþykktinni um Alþjóðlega sakamáladómstólinn eða sem tengjast alþjóðadómstólunum vegna brota gegn alþjóðlegum mannúðarlögum.

16. gr.
Forréttindi og friðhelgi.

1.    Njóti hinn eftirlýsti forréttinda eða friðhelgi að því er varðar fullnustu eða saksókn í landinu sem beðið er um fullnustu byrja frestirnir sem nefndir eru í 14. gr. fyrst að líða frá því tímamarki þegar forréttindin eða friðhelgin eru niður fallin og dómsmálayfirvaldinu í landinu sem beðið var um fullnustu hefur verið tilkynnt um það. Landið sem beðið er um fullnustu tryggir að efnisleg skilyrði fyrir afhendingu séu uppfyllt ef hinn eftirlýsti nýtur ekki lengur slíkra forréttinda eða slíkrar friðhelgi.
2.    Ef það er á valdsviði stjórnvalds í landinu sem beðið er um fullnustu að fella niður forréttindi eða friðhelgi ber dómsmálayfirvaldinu sem beðið er um fullnustu þegar í stað að biðja hlutaðeigandi stjórnvald um það. Hvíli niðurfellingin á forréttindum eða friðhelgi á stjórnvaldi í öðru landi eða alþjóðastofnun er það í verkahring dómsmálayfirvaldsins sem gefur handtökuskipunina út að fara þessa á leit.

17. gr.
Alþjóðlegar skuldbindingar sem lýstur saman.

Þessi samningur hefur ekki áhrif á skuldbindingar landsins sem beðið er um fullnustu, þegar hinn eftirlýsti er afhentur eða framseldur því frá aðildarríki ESB eða þriðja landi, og hlutaðeigandi nýtur verndar gegn því að vera framseldur áfram samkvæmt þeim reglum sem framsalið átti sér stað eftir. Landið sem beðið er um fullnustu gerir allar nauðsynlegar ráðstafanir til þess þegar í stað að biðja um samþykki frá því aðildarríki ESB eða þriðja landi sem hefur afhent eða framselt hinn eftirlýsta þannig að unnt verði að afhenda viðkomandi til landsins sem gaf út handtökuskipunina. Frestirnir sem nefndir eru í 14. gr. byrja fyrst að líða frá þeim degi þegar þessar sérstöku reglur falla brott.

18. gr.
Tilkynning um ákvörðun.

Dómsmálayfirvaldið sem beðið er um fullnustu tilkynnir þegar í stað dómsmálayfirvaldinu sem gefur handtökuskipunina út að hve miklu leyti hinni norrænu handtökuskipun verði framfylgt.

19. gr.
Frestur til þess að afhenda hinn eftirlýsta.

1.    Afhenda skal hinn eftirlýsta jafnskjótt og verða má á degi sem stjórnvöldin sem í hlut eiga koma sér saman um.
2.    Afhenda skal hlutaðeigandi eigi síðar en 5 dögum eftir að endanleg ákvörðun um að framfylgja skuli norrænni handtökuskipun hefur verið tekin.
3.    Ef ókleift reynist af sérstökum ástæðum að afhenda hinn eftirlýsta innan þess frests sem greinir í 2. mgr. skulu dómsmálayfirvaldið sem beðið var um fullnustu og dómsmálayfirvaldið sem gaf handtökuskipunina út þegar hafa samband hvort við annað og koma sér saman um nýja dagsetningu varðandi afhendinguna. Afhending skal fara fram innan 5 daga frá því að fresturinn skv. 2. mgr. rennur út.
4.    Nú skapast þær aðstæður, sem hvorugu landanna verður um kennt, að ógerlegt reynist að afhenda hinn eftirlýsta innan frestsins sem kveðið er á um í 3. mgr. og skulu þá dómsmálayfirvaldið sem beðið var um fullnustu og dómsmálayfirvaldið sem gaf handtökuskipunina út þegar hafa samband hvort við annað og koma sér saman um nýja dagsetningu varðandi afhendinguna.
5.    Í undantekningartilvikum er heimilt að fresta afhendingu þegar fyrir liggja mjög gildar mannúðarástæður, t.d. þegar rík ástæða er til að ætla að afhending myndi augljóslega stofna lífi eða heilsu hins eftirlýsta í hættu. Framfylgja skal norrænni handtökuskipun þegar þessar ástæður eru ekki lengur fyrir hendi. Dómsmálayfirvaldið sem beðið er um fullnustu tilkynnir þegar í stað dómsmálayfirvaldinu sem gaf út handtökuskipunina um þetta og koma þau sér saman um nýja dagsetningu varðandi afhendinguna.
6.    Ef hlutaðeigandi er ennþá í gæsluvarðhaldi að liðnum frestum skv. 2.–5. mgr. skal hann látinn laus.

20. gr.
Frestun á afhendingu eða tímabundin afhending.

1.    Dómsmálayfirvaldið sem beðið er um fullnustu getur, þegar það hefur ákveðið að framfylgja norrænni handtökuskipun, frestað því að afhenda hinn eftirlýsta í því skyni að unnt verði að sækja hann til refsingar í landinu sem annast fullnustuna, eða, hafi hlutaðeigandi þegar verið dæmdur, til þess að láta hann afplána refsingu á landsvæði sínu vegna annars brots en þess sem liggur til grundvallar norrænu handtökuskipuninni.
2.    Í stað þess að fresta afhendingu getur dómsmálayfirvaldið sem beðið er um fullnustu tímabundið afhent hinn eftirlýsta til landsins sem gaf handtökuskipunina út með þeim skilmálum sem dómsmálayfirvaldið sem beðið er um fullnustu og dómsmálayfirvaldið sem gefur handtökuskipun út koma sér saman um. Samkomulagið skal vera skriflegt og skilmálarnir eru bindandi fyrir öll stjórnvöld í landinu sem gaf handtökuskipunina út.

21. gr.
Gegnumflutningur.

Menn sem á að afhenda frá einu norrænu landi til annars má flytja án sérstakrar heimildar yfir eða í gegnum eitt eða fleiri af hinum norrænu löndunum.

3. KAFLI
RÉTTARÁHRIF AFHENDINGAR
22. gr.
Frádráttur á lengd gæsluvarðhalds í landinu sem annast fullnustu.

1.    Landinu sem gefur út handtökuskipun ber að draga frá allan þann tíma, sem hinn eftirlýsti hefur setið í gæsluvarðhaldi í tengslum við fullnustu á norrænni handtökuskipun, þegar reiknuð er heildarlengd þess tíma sem hlutaðeigandi á að afplána í landinu sem gaf hana út á grundvelli dæmdrar fangelsisrefsingar eða annarrar frelsissviptingarráðstöfunar.
2.    Í því sambandi skal dómsmálayfirvaldið sem beðið er um fullnustu jafnhliða afhendingunni veita dómsmálayfirvaldinu sem gefur út handtökuskipun allar upplýsingar um tímalengd gæsluvarðhalds sem hinn eftirlýsti hefur sætt á grundvelli norrænu handtökuskipunarinnar.

23. gr.
Hugsanleg saksókn vegna annarra afbrota.

1.    Mann sem afhentur er á grundvelli norrænnar handtökuskipunar til saksóknar eða afplánunar samkvæmt refsidómi eða annarri frelsissviptingarráðstöfun má draga til ábyrgðar fyrir önnur afbrot, sem hann framdi áður en til afhendingarinnar kom, en það sem hann er afhentur fyrir, nema
    a)    afhending hefði ekki getað átt sér stað vegna viðkomandi afbrots skv. 4. gr.,
    b)    afhendingunni hefði verið hafnað samkvæmt landslögum skv. 27. gr., eða
    c)    synja hefði mátt um afhendingu vegna viðkomandi afbrots skv. 2. eða 4. mgr. 5. gr. og landið sem beðið var um fullnustuna neitar að veita samþykki sitt.
2.    Þrátt fyrir 1. mgr. má draga mann til refsiábyrgðar, sem samkvæmt norrænni handtökuskipun er afhentur til saksóknar eða til að afplána refsidóm eða aðra frelsissviptingarráðstöfun, fyrir önnur afbrot, sem hann framdi áður en til afhendingar kom, en það sem hann er afhentur fyrir, ef
    a)    hlutaðeigandi hefur, þrátt fyrir að hafa átt möguleika á að yfirgefa norrænt land sem hann var afhentur til, látið það hjá líða í 45 daga eftir að hann var endanlega látinn laus eða hefur snúið aftur til þessa lands eftir að hafa yfirgefið það, eða
    b)    hlutaðeigandi hefur fyrir eða eftir afhendinguna veitt samþykki sitt til saksóknar vegna annarra afbrota.

24. gr.
Afhending áfram eða framsal áfram.

1.    Mann sem hefur verið afhentur til annars norræns lands til saksóknar eða afplánunar á refsidómi eða annarri frelsissviptingarráðstöfun má afhenda áfram til annars norræns lands en landsins sem fær beiðni um fullnustu samkvæmt norrænni handtökuskipun, sem gefin var út vegna afbrots sem var framið fyrir afhendinguna, nema afhendingu frá landinu, sem upphaflega gaf út handtökuskipunina til þess lands sem nú gefur út handtökuskipun, hefði verið hafnað samkvæmt eigin lögum þess lands á grundvelli 26. eða 27. gr.
2.    Mann sem afhentur er til annars norræns lands á grundvelli norrænnar handtökuskipunar má afhenda eða framselja áfram einhverju aðildarríki ESB eða framselja áfram til þriðja lands í samræmi við reglur í löggjöf þess lands sem gaf handtökuskipunina út, vegna afbrots sem framið var fyrir afhendinguna, ef:
    a)    hlutaðeigandi hefur sjálfur gefið samþykki sitt til þess,
    b)    hlutaðeigandi hefur, þrátt fyrir að hafa átt möguleika óhindrað í 45 daga á að yfirgefa landið sem hann var afhentur til, látið það hjá líða eða, eftir að hann yfirgaf landið af fúsum og frjálsum vilja, hefur snúið aftur, eða
    c)    landið sem fær beiðni um fullnustu veitir samþykki sitt til þess. Samþykki skal aðeins veita ef afhending vegna umrædds verknaðar hefði getað átt sér stað á grundvelli reglna í löggjöf landsins sem fær beiðni um fullnustu.

25. gr.
Afhending muna.

1.    Dómsmálayfirvald sem fær beiðni um fullnustu skal í samræmi við eigin landslög og að fenginni beiðni frá dómsmálayfirvaldi sem gaf handtökuskipun út, eða að eigin frumkvæði, leggja hald á og afhenda muni:
    a)    sem eru nauðsynlegir sem sönnunargögn, eða
    b)    sem hinn eftirlýsti hefur aflað með afbrotinu.
2.    Muni þá sem nefndir eru í 1. mgr. skal afhenda þó svo að ekki sé unnt að framfylgja norrænni handtökuskipun vegna þess að hinn eftirlýsti er látinn eða hefur strokið.
3.    Ef hald er lagt á muni eða þeir eru gerðir upptækir, sem nefndir eru í 1. mgr. og finnast á landsvæði landsins sem beðið er um fullnustu, getur það land í tengslum við sakamál sem er þar til meðferðar haldið þeim tímabundið eða afhent þá til þess lands, sem gaf beiðnina út, með því skilyrði að þeim verði skilað síðar.
4.    Sérhver réttindi, sem landið sem beðið er um fullnustu eða þriðji maður kann að eiga til þeirra muna sem nefndir eru í 1. mgr., haldast. Ef um slík réttindi er að ræða skal landið sem gaf út beiðnina þegar í stað að lokinni saksókn skila mununum endurgjaldslaust til landsins sem beðið var um fullnustu.

4. KAFLI
SÉRSTAKAR REGLUR UM AFHENDINGU TIL/FRÁ ÍSLANDI
26. gr.
Gildissvið – eigin ríkisborgarar.

1.    Gildissvið norrænnar handtökuskipunar, sem skilgreind er í 2. gr. samningsins, gildir ekki um afhendingu milli Íslands annars vegar og Danmerkur, Finnlands, Noregs og Svíþjóðar hins vegar, þegar um er að ræða afhendingu á eigin ríkisborgurum, sbr. 2.–4. mgr.
2.    Synja má um afhendingu frá Íslandi á íslenskum ríkisborgara til Danmerkur, Finnlands, Noregs eða Svíþjóðar, nema hinn eftirlýsti hafi síðastliðin 2 ár fyrir hinn refsiverða verknað verið búsettur í landinu sem gaf handtökuskipunina út, eða ef verknaðurinn eða sambærilegur verknaður samkvæmt íslenskum lögum getur varðað þyngri refsingu en fangelsi í 4 ár.
3.    Synja má um afhendingu frá heimalandi dansks, finnsks, norsks eða sænsks ríkisborgara til Íslands, nema hinn eftirlýsti hafi síðastliðin 2 ár fyrir hinn refsiverða verknað verið búsettur á Íslandi, eða ef verknaðurinn eða sambærilegur verknaður samkvæmt lögum þess lands sem beðið er um fullnustu getur varðað þyngri refsingu en fangelsi í 4 ár.
4.    Afhending til saksóknar eða refsifullnustu vegna tveggja eða fleiri refsiverðra verknaða getur átt sér stað þrátt fyrir að skilyrði 2. eða 3. mgr. séu aðeins uppfyllt varðandi einn þeirra.

27. gr.
Gildissvið – stjórnmálaafbrot.

1.    Gildissvið hinnar norrænu handtökuskipunar, sem skilgreind er í 2. gr. samningsins, nær heldur ekki til afhendingar milli Íslands annars vegar og Danmerkur, Finnlands, Noregs og Svíþjóðar hins vegar, þegar um er að ræða stjórnmálaafbrot, sbr. 2.–5. mgr.
2.    Synja má um afhendingu frá Íslandi á íslenskum ríkisborgara til Danmerkur, Finnlands, Noregs eða Svíþjóðar vegna verknaðar sem telst stjórnmálaafbrot.
3.    Synja má um afhendingu frá heimalandi dansks, finnsks, norsks eða sænsks ríkisborgara til Íslands vegna verknaðar sem telst stjórnmálaafbrot.
4.    Synja má um afhendingu útlendings frá Íslandi til Danmerkur, Finnlands, Noregs eða Svíþjóðar vegna verknaðar sem telst stjórnmálaafbrot, nema sambærilegur verknaður sé refsiverður samkvæmt íslenskum lögum eða 1., 2. eða 3. gr. Evrópusamnings um varnir gegn hryðjuverkum nái yfir hann.
5.    Synja má um afhendingu útlendings frá Danmörku, Finnlandi, Noregi eða Svíþjóð til Íslands vegna verknaðar sem telst stjórnmálaafbrot, nema sambærilegur verknaður sé refsiverður í landinu sem beðið er um fullnustu eða 1., 2. eða 3. gr. Evrópusamnings um varnir gegn hryðjuverkum nái yfir hann.

5. KAFLI
ALMENN ÁKVÆÐI OG LOKAÁKVÆÐI
28. gr.
Tengsl við aðra löggerninga.

1.    Þessi samningur gildir á milli Danmerkur, Finnlands, Íslands, Noregs og Svíþjóðar.
2.    Ákvæði samningsins hafa ekki áhrif á skuldbindingar norrænu landanna samkvæmt rammaákvörðuninni um evrópsku handtökuskipunina né öðrum löggerningum er varða framsal til þriðja lands.
3.    Norðurlöndin geta gert tvíhliða eða marghliða samninga eða aðra löggerninga við aðildarríki Evrópusambandsins eða þriðju lönd eftir að samningurinn hefur öðlast gildi. Slíkir samningar eða aðrir löggerningar mega ekki hafa áhrif á samskiptin við þau norrænu lönd sem ekki eru aðilar að þeim.

29. gr.
Gildistaka.

1.    Samningslöndin geta gerst aðilar að þessum samningi með
    a)    undirritun án fyrirvara um fullgildingu eða staðfestingu, eða
    b)    undirritun með fyrirvara um eftirfarandi fullgildingu eða staðfestingu.
2.    Fullgildingarskjölin skulu varðveitt í danska utanríkisráðuneytinu.
3.    Danska utanríkisráðuneytið sendir staðfest endurrit af fullgildingarskjölum til dómsmálaráðuneyta samningslandanna.
4.    Samningur þessi öðlast gildi 3 mánuðum eftir að öll norrænu löndin hafa í samræmi við 1. mgr. veitt samþykki sitt til að vera bundin af samningnum. Samningurinn tekur þó fyrst gildi að því er varðar Grænland og Færeyjar 3 mánuðum eftir að danska dómsmálaráðuneytið hefur tilkynnt danska utanríkisráðuneytinu og dómsmálaráðuneytum hinna landanna að samningurinn skuli gilda að því er varðar Grænland og/eða Færeyjar.
5.    Áður en öll löndin hafa veitt samþykki sitt til að vera bundin af samningnum geta þau lönd, sem til þess gefa samþykki sitt, komist að samkomulagi um að samningurinn skuli taka gildi þeirra á milli frá fyrra tímamarki en því sem leiðir af 4. mgr.
6.    Með beiðnir um framsal, sem mótteknar eru áður en samningurinn tekur gildi, skal farið eftir gildandi framsalsreglum. Beiðnir, sem tekið er á móti eftir að samningurinn hefur tekið gildi, skulu lúta reglum sem norrænu löndin hafa samþykkt samkvæmt þessum samningi.

Gjört í Kaupmannahöfn hinn 15. desember 2005 í einu eintaki á dönsku, finnsku, íslensku, norsku og sænsku sem öll eru jafngild.

Fyrir ríkisstjórn Danmerkur

Fyrir ríkisstjórn Finnlands

Fyrir ríkisstjórn Íslands

Fyrir ríkisstjórn Noregs

Fyrir ríkisstjórn Svíþjóðar


Fylgiskjal

NORRÆN HANDTÖKUSKIPUN


Þessi handtökuskipun er gefin út af bæru dómsmálayfirvaldi. Þess er farið á leit að neðangreindur maður verði handtekinn og afhentur með tilliti til saksóknar eða til fullnustu á fangelsisrefsingu eða annarri frelsissviptingarráðstöfun.


A) Upplýsingar um persónukenni hins eftirlýsta:

Kenninafn:
Eiginnöfn:
Kenninafn konu fyrir giftingu, ef um það er að ræða:
Gælunafn, ef um það er að ræða:
Kyn:
Þjóðerni:
Fæðingardagur:
Fæðingarstaður:
Lögheimili og/eða þekkt heimilisfang:
Tungumál sem hinn eftirlýsti skilur (ef það er vitað):
Sérstök auðkenni/lýsing á hinum eftirlýsta:
Ljósmynd og fingraför hins eftirlýsta, ef þau liggja fyrir og sem má afhenda áfram, eða nafn og heimilisfang o.fl. þess manns sem hafa á samband við til þess að útvega ljósmynd og fingraför eða dna-kenniskrá (ef afhenda má þessi gögn áfram og þau eru ekki hjálögð).

B) Ákvörðunin sem handtökuskipunin grundvallast á

1.    Handtökuskipun eða önnur fullnustuhæf ákvörðun sem hefur sömu réttaráhrif:
          Tegund:
2.    Fullnustuhæfur dómur:
          Mál nr.



C) Lengd refsingarinnar

1.    Hámarkslengd fangelsisrefsingar eða annarrar frelsissviptingarráðstöfunar sem dæma má fyrir afbrotið eða afbrotin:
2.    Lengd hinnar raunverulega dæmdu fangelsisrefsingar eða annarrar frelsissviptingarráðstöfunar:
          Sá hluti refsingarinnar sem ekki hefur verið afplánaður:



D) Afbrotin

Þessi handtökuskipun varðar alls afbrot.
Lýsing á aðstæðunum þegar afbrotið eða afbrotin voru framin, þar á meðal tímasetning (dagur og stund), staður og þáttur hins eftirlýsta í afbrotinu eða afbrotunum:
Tegund og lögfræðileg skilgreining á afbrotinu eða afbrotunum, ásamt tilvísun til viðeigandi laga eða réttarreglna:
Önnur atriði sem kunna að hafa þýðingu í málinu:


E) Haldlagning og afhending muna

Þessi handtökuskipun tekur einnig til haldlagningar og afhendingar á munum sem nauðsynlegir eru sem sönnunargögn:
Þessi handtökuskipun tekur einnig til haldlagningar og afhendingar á munum sem hinn eftirlýsti hefur aflað sér með afbrotinu:
Lýsing á mununum og hvar þeir eru niður komnir (ef vitað er):




F) Stjórnvaldið sem gefur handtökuskipunina út

Dómsmálayfirvaldið sem hefur gefið handtökuskipunina út:
Nafn fulltrúa dómsmálayfirvaldsins:
Starfsheiti (titill/staða):
Málsnúmer:
Heimilisfang:
Símnúmer (landsnúmer) (svæðisnúmer):
Bréfasímanúmer (landsnúmer) (svæðisnúmer):
Netfang:
Nafn og heimilisfang o.fl. þess manns sem hafa á samband við í tengslum við framkvæmd afhendingarinnar:



G) Undirskriftir o.fl.

Undirskrift dómsmálayfirvaldsins sem gefur handtökuskipun út og/eða undirskrift fulltrúa þess:
Nafn:
Starfsheiti (titill/staða):
Dagsetning:
Opinber stimpill (ef hann er fyrir hendi):

Neðanmálsgrein: 1
    1     Danmörk, Finnland, Ísland, Noregur og Svíþjóð.
Neðanmálsgrein: 2
    2     Sbr. fundargerð Norrænu ráðherranefndarinnar (dómsmálaráðherra) frá 25. júní 2002 (mál nr. 71001. 15.001/02).