Aðrar útgáfur af skjalinu: PDF - Word Perfect. Ferill 621. máls.

Þingskjal 979  —  621. mál.



Tillaga til þingsályktunar

um staðfestingu ákvörðunar sameiginlegu EES-nefndarinnar nr. 78/2011 um breytingu á IX. viðauka (Fjármálaþjónusta) við EES-samninginn.

(Lögð fyrir Alþingi á 140. löggjafarþingi 2011–2012.)




    Alþingi ályktar að heimila ríkisstjórninni að staðfesta fyrir Íslands hönd ákvörðun sameiginlegu EES-nefndarinnar nr. 78/2011, frá 1. júlí 2011, um breytingu á IX. viðauka (Fjármálaþjónusta) við EES-samninginn frá 2. maí 1992, og fella inn í samninginn tilskipun Evrópuþingsins og ráðsins 2009/138/EB frá 25. nóvember 2009 um stofnun og rekstur fyrirtækja á sviði vátrygginga og endurtrygginga (Gjaldþolsáætlun II).

Athugasemdir við þingsályktunartillögu þessa.


1. Inngangur.
    Með þingsályktunartillögu þessari er leitað heimildar Alþingis til staðfestingar á ákvörðun sameiginlegu EES-nefndarinnar nr. 78/2011, frá 1. júlí 2011, um breytingu á IX. viðauka (Fjármálaþjónusta) við EES-samninginn frá 2. maí 1992, og til að fella inn í samninginn tilskipun Evrópuþingsins og ráðsins 2009/138/EB frá 25. nóvember 2009 um stofnun og rekstur fyrirtækja á sviði vátrygginga og endurtrygginga (Gjaldþolsáætlun II).
    Tilskipun 2009/138/EB er endurnýjuð útgáfa nokkurra eldri gerða sem samhliða eru felldar úr gildi. Markmið tilskipunarinnar er að auka vernd vátryggingartaka, en tilskipunin felur í sér verulegar endurbætur á reglum um gjaldþol og áhættustýringarstaðla vátryggingafélaga á Evrópska efnahagssvæðinu. Þá er hert á reglum varðandi eftirlit með starfsemi vátryggingafélaga.
    Í tillögu þessari er gerð grein fyrir efni gerðarinnar sem hér um ræðir, en hún felur ekki í sér breytingar á þeim meginreglum sem í EES-samningnum felast. Ákvörðun sameiginlegu EES-nefndarinnar sem hér um ræðir er prentuð sem fylgiskjal með tillögu þessari ásamt drögum að þýðingu á umræddri tilskipun.

2. Um stjórnskipulegan fyrirvara.
    Samkvæmt EES-samningnum skuldbinda ákvarðanir sameiginlegu EES-nefndarinnar aðildarríkin að þjóðarétti um leið og þær hafa verið teknar, nema eitthvert þeirra beiti heimild skv. 103. gr. EES-samningsins til að setja fyrirvara um að ákvörðun geti ekki orðið bindandi strax vegna stjórnskipulegra skilyrða heima fyrir. Viðkomandi aðildarríki hefur þá sex mánaða frest frá töku ákvörðunar í sameiginlegu nefndinni til að aflétta fyrirvaranum.
    Að því er Ísland varðar hefur stjórnskipulegur fyrirvari almennt einungis verið settur þegar innleiðing ákvörðunar kallar á lagabreytingar hér landi, en í því tilviki leiðir af 21. gr. stjórnarskrárinnar að afla ber samþykkis Alþingis áður en ákvörðun er staðfest. Slíkt samþykki getur Alþingi alltaf veitt samhliða viðeigandi lagabreytingu, en einnig hefur tíðkast að heimila stjórnvöldum að skuldbinda sig að þjóðarétti með þingsályktun áður en landsréttinum er með lögum breytt til samræmis við viðkomandi ákvörðun.
    Áðurnefnd 21. gr. stjórnarskrárinnar tekur til gerðar þjóðréttarsamninga en hún á augljóslega einnig við um þau tilvik þegar breytingar eru gerðar á slíkum samningum. Samkvæmt ákvæðinu er samþykki Alþingis áskilið ef samningur felur í sér afsal eða kvaðir á landi eða landhelgi eða ef hann horfir til breytinga á stjórnarhögum ríkisins. Síðarnefnda atriðið hefur verið túlkað svo að samþykki Alþingis sé áskilið ef gerð þjóðréttarsamnings kallar á lagabreytingar hér á landi.
    Umrædd ákvörðun sameiginlegu EES-nefndarinnar felur í sér breytingu á EES-samningnum en þar sem hún kallar á lagabreytingar hér á landi var hún tekin með stjórnskipulegum fyrirvara. Í samræmi við það sem að framan segir er óskað eftir samþykki Alþingis fyrir þeirri breytingu á EES-samningnum sem í ákvörðuninni felst.

3. Tilskipun Evrópuþingsins og ráðsins 2009/138/EB frá 25. nóvember 2009 um stofnun og rekstur fyrirtækja á sviði vátrygginga og endurtrygginga (Gjaldþolsáætlun II).
    Markmið tilskipunar 2009/138/EB er að auka vernd vátryggingartaka og setja skýrara regluverk um starfsemi vátryggingafélaga. Tilskipunin byggist á þremur stoðum. Fyrsta stoðin, viðeigandi fjárhagsgrundvöllur, hefur að geyma reglur m.a. um viðurkennda eiginfjárliði, útreikning vátryggingarskuldar og útreikning á gjaldþolskröfum. Önnur stoðin, viðeigandi stjórnarhættir og eftirlitsferli, hefur að geyma reglur m.a. um virka áhættustýringu og greiningu á áhættu, eigin áhættu og gjaldþolsmat sem og reglur um verklag eftirlitsstjórnvalda við eftirlit með vátryggingafélögum og greiningu á veikleikum og aukinni áhættu. Þriðja stoðin hefur að geyma reglur um opinbera upplýsingagjöf og upplýsingagjöf til eftirlitsaðila.
    Tilskipun 2009/138/EB er endurnýjuð útgáfa nokkurra eldri tilskipana um vátryggingar og endurtryggingar sem samhliða falla úr gildi. Hluti af ákvæðum tilskipunarinnar hafa því verið innleidd á Íslandi. Þær breytingar sem þarf að innleiða fela í sér verulegar endurbætur á reglum um gjaldþol og áhættustýringarstaðla vátryggingafélaga á Evrópska efnahagssvæðinu. Þá er hert á reglum varðandi eftirlit með starfsemi vátryggingafélaga. Tilskipunin tekur til allra vátryggingafélaga með iðgjöld umfram 5.000.000 evrur eða með vátryggingarskuld umfram 25.000.000 evrur. Ákvæði tilskipunarinnar munu ekki ná til Viðlagatryggingar Íslands samkvæmt aðlögunartexta í ofangreindri ákvörðun sameiginlegu EES nefndarinnar.

4. Lagabreytingar og hugsanleg áhrif hér á landi.
    Innleiðing tilskipunar 2009/138/EB kallar á breytingar á lögum um vátryggingarstarfsemi, nr. 56/2010. Fyrirhugað er að efnahags- og viðskiptaráðherra leggi fram lagafrumvarp á næsta löggjafarþingi til innleiðingar á ákvæðum tilskipunarinnar. Ekki er gert ráð fyrir að lagabreytingarnar muni hafa umtalsverðan kostnað í för með sér né stjórnsýslulegar afleiðingar hér á landi.



Fylgiskjal I.


ÁKVÖRÐUN SAMEIGINLEGU EES-NEFNDARINNAR nr. 78/2011

frá 1. júlí 2011

um breytingu á IX. viðauka (Fjármálaþjónusta) við EES-samninginn


SAMEIGINLEGA EES-NEFNDIN HEFUR TEKIÐ NEÐANGREINDA ÁKVÖRÐUN

með vísan til samningsins um Evrópska efnahagssvæðið, með áorðnum breytingum samkvæmt bókun um breytingu á samningnum um Evrópska efnahagssvæðið, er nefnist „samningurinn“ í því sem hér fer á eftir, einkum ákvæða 98. gr.,

og að teknu tilliti til eftirfarandi:

1)         IX. viðauka við samninginn var breytt með ákvörðun sameiginlegu EES-nefndarinnar nr. 120/2010 frá 10. nóvember 2010 ( 1 ).

2)         Fella ber inn í samninginn tilskipun Evrópuþingsins og ráðsins 2009/138/EB frá 25. nóvember 2009 um stofnun og rekstur fyrirtækja á sviði vátrygginga og endurtrygginga (Gjaldþolsáætlun II) ( 2 ).

3)         Samkvæmt ákvæðum tilskipunar 2009/138/EB falla úr gildi, frá 1. nóvember 2012 að telja, tilskipanir ráðsins 64/225/EBE ( 3 ), 73/239/EBE ( 4 ) 73/240/EBE ( 5 ), 76/580/EBE ( 6 ), 78/473/EBE ( 7 ), 84/641/EBE ( 8 ), 87/344/EBE ( 9 ), 88/357/EBE ( 10 ) og 92/49/EBE ( 11 ) og tilskipanir Evrópuþingsins og ráðsins 98/78/EB ( 12 ), 2001/17/EB ( 13 ), 2002/83/EB ( 14 ) og 2005/68/EB ( 15 ), en þær gerðir hafa verið felldar inn í samninginn og ber því að fella þær úr samningnum þannig að úrfellingin komi til framkvæmda 1. nóvember 2012.

4)         Tilskipun 2009/138/EB er endurnýjuð útgáfa nokkurra þeirra gerða sem felldar hafa verið úr gildi og núverandi aðlögunarákvæði vegna þeirra gerða skulu því standa að hluta.

ÁKVÖRÐUNIN ER SVOHLJÓÐANDI:

1. gr.


Ákvæði IX. viðauka við samninginn breytist sem hér segir:

1.         Fyrirsögnin „i) Skaðatryggingar“ í I. kafla (Vátryggingar) verði „i) Skaðatryggingar og líftryggingar“.

2.         1. liður (tilskipun ráðsins 64/225/EBE) verði breytt í lið 1a.

3.         Eftirfarandi liður bætist við á undan nýjum lið 1a (tilskipun ráðsins 64/225/EBE):

        „1.     32009 L 0138: Tilskipun Evrópuþingsins og ráðsins 2009/138/EB frá 25. nóvember 2009 um stofnun og rekstur fyrirtækja á sviði vátrygginga og endurtrygginga (Gjaldþolsáætlun II) (endurútgefin) (Stjtíð. ESB L 335, 17.12.2009, bls. 1).

                Ákvæði reglugerðarinnar skulu, að því er þennan samning varðar, aðlöguð sem hér segir:

                a)    Eftirfarandi bætist við í 8. gr.:

                    „5)     á Íslandi, Viðlagatrygging Íslands.“

                b)    Ákvæði 57.–63. gr. um varfærnismat á væntanlegum kaupanda skulu ekki gilda ef aðsetur fyrirhugaðs yfirtökuaðila, eins og hann er skilgreindur í tilskipuninni, eða lögsagan sem hann fellur undir, er utan yfirráðasvæðis samningsaðila.

                c)    Orðin „og samkvæmt reglugerð (EB) nr. 593/2008“ í 2. mgr. 157. gr. falli brott.

                d)    Ákvæði 171. gr. gilda ekki. Eftirfarandi ákvæði skal gilda:

                    Hverjum samningsaðila er heimilt, með samningum við eitt eða fleiri þriðju lönd, að samþykkja að öðrum ákvæðum en þeim sem kveðið er á um í 162.–170. gr. tilskipunarinnar sé beitt, að því tilskildu að vátryggingartökum og hinum tryggðu sé veitt nægileg og sambærileg vernd. Áður en samningsaðilar gera slíka samninga skulu þeir láta hver öðrum í té upplýsingar og hafa samráð sín á milli. Samningsaðilarnir skulu ekki beita ákvæðum gagnvart útibúum vátryggingafélaga, sem eru með aðalskrifstofu utan yfirráðasvæðis samningsaðila, er hefðu í för með sér hagstæðari meðferð en þá sem býðst útibúum vátryggingafélaga sem hafa aðalskrifstofu á yfirráðasvæði samningsaðila.

                e)    Þegar Evrópusambandið semur við eitt eða fleiri þriðju lönd á grundvelli 175. gr. skal lagt kapp á að vátryggingafélög (þ.m.t. endurtryggingafélög) í EFTA-ríkjunum fái jafna meðferð.

                f)    Að því er varðar meðferð þriðja lands á vátryggingafélögum (þ.m.t. endurtryggingafélög), sem lýst er í 177. gr., gildir eftirfarandi:

                    Með það fyrir augum að ná sem mestri samleitni í beitingu reglna um vátryggingafélög (þ.m.t. endurtryggingafélög) í þriðju löndum skulu samningsaðilar skiptast á upplýsingum, eins og lýst er í 1. mgr. 177. gr., og halda viðræðufundi um málefni, sem um getur í 2. mgr. 177. gr., innan ramma sameiginlegu EES- nefndarinnar og samkvæmt sérstakri málsmeðferð sem samningsaðilar koma sér saman um.

                g)    Í stað 178. gr. komi eftirfarandi:

                    „1.    Þessi grein skal gilda um samninga sem um getur í 2. mgr., hvort sem áhættan, sem tryggt er gegn, er á yfirráðasvæði samningsaðila eður ei, og um alla aðra vátryggingasamninga sem tryggja gegn áhættu sem er innan yfirráðasvæðis samningsaðila. Hún gildir ekki um endurtryggingarsamninga.

                    2.    Þau lög sem aðilar hafa valið skulu gilda um vátryggingarsamning, sem tekur til mikillar áhættu, eins og hún er skilgreind í 27. mgr. 13. gr.

                        Að svo miklu leyti sem aðilar hafa ekki valið hvaða lögum skuli beita, skulu lög þess lands þar sem vátryggjandi hefur fasta búsetu gilda um vátryggingarsamninginn. Þyki ljóst af öllum málavöxtum að samningurinn tengist öðru landi augljóslega meira skulu lög þess lands gilda.

                    3.    Aðilar skulu velja lögin, sem gilda eiga um samning, í samræmi við eftirfarandi ákvæði:

                        a)    Valið verður að koma skýrt fram í samningnum eða ráðast með skýrum hætti af ákvæðum samningsins eða málavöxtum. Aðilar geta ákveðið að lögin, sem vísað er til, skuli gilda um samninginn í heild eða aðeins um tiltekinn hluta hans.

                        b)    Aðilar geta hvenær sem er samið svo um að um samninginn skuli gilda önnur lög en giltu um hann áður. Allar breytingar á lögum sem beita skal, sem verða eftir að samningurinn hefur verið gerður, skulu hvorki hafa áhrif á formlegt gildi hans né hafa skaðleg áhrif á réttindi þriðja aðila.

                        c)    Þegar aðilar hafa valið lög tiltekins lands, en allir aðrir þættir, sem ráða aðstæðum á þeim tíma þegar valið fer fram, tengjast öðru landi, má val aðila ekki koma í veg fyrir að unnt sé að beita ákvæðum í lögum þess lands sem ekki er unnt að víkja frá með samningi.

                        d)    Þegar aðilar hafa valið lög tiltekins lands en allir aðrir þættir, sem ráða aðstæðum á þeim tíma þegar valið fer fram, tengjast einum eða fleiri samningsaðilum má val aðila á gildandi lögum öðrum en lögum samningsaðila ekki koma í veg fyrir að unnt sé að beita ákvæðum EES-laga eftir atvikum, eins og þau hafa komið til framkvæmdar hjá þeim samningsaðila sem hefur lögsögu, sem ekki er unnt að víkja frá með samningi.

                    4.    Ákvörðun um það hvort samþykki aðila um val á gildandi lögum liggur fyrir og um gildi þess fer samkvæmt eftirfarandi ákvæðum:

                        a)    Ákvörðun um það hvort fyrir hendi er samningur eða tiltekna samningsskilmála, og um gildi slíks samnings eða ákvæðis, fer samkvæmt þeim lögum sem myndu gilda um samninginn samkvæmt þessari grein ef samningurinn eða ákvæðið væri gilt.

                            Aðili getur eigi að síður byggt á lögum landsins, þar sem hann hefur fasta búsetu, til þess að sýna fram á að hann hafi ekki veitt samþykki sitt ef ætla má af málavöxtum að ekki væri réttmætt að ákvarða áhrifin af háttsemi hans eftir lögunum sem tilgreind eru í 1. undirlið þessa liðar.

                        b)    Þegar aðilar samnings, eða umboðsmenn þeirra, eru í sama landi þegar hann er gerður er samningurinn formlega gildur ef hann fullnægir formkröfum þeirra laga sem gilda um hann í meginatriðum samkvæmt lögunum í grein þessari eða lögum þess lands þar sem hann er gerður.

                            Þegar aðilar samnings, eða umboðsmenn þeirra, eru í mismunandi löndum þegar hann er gerður er samningurinn formlega gildur ef hann fullnægir formlegum kröfum þeirra laga sem gilda um hann í meginatriðum samkvæmt grein þessari, eða laga þess lands þar sem annar aðila, eða umboðsmaður hans, er þegar samningurinn er gerður, eða laga þess lands þar sem annar aðila hafði fasta búsetu á þeim tíma.

                            Einhliða ráðstöfun, sem ætlað er að hafa réttaráhrif í tengslum við gerðan eða fyrirhugaðan samning, er formlega gild ef hún fullnægir formlegum kröfum þeirra laga sem gilda eða myndu gilda um samninginn í meginatriðum samkvæmt þessari grein, eða laga þess lands þar sem ráðstöfunin var gerð, eða laga þess lands þar sem einstaklingurinn, sem stóð að ráðstöfuninni, hafði fasta búsetu á þeim tíma.

                            Þrátt fyrir ákvæði 1.–3. undirgreinar þessa liðar skal samningur, sem fjallar um veð rétt í eign eða ábúðarrétt á fasteign, falla undir formlegar kröfur laga þess lands þar sem fasteignina er að finna, ef þau lög kveða á um:

                            i)    að þessar kröfur séu lagðar á óháð því í hvaða landi samningurinn er gerður og óháð þeim lögum sem um hann gilda og

                            ii)    að ekki megi víkja frá þessum kröfum með samkomulagi.

                        c)    Í samningi milli aðila í sama landi getur einstaklingur, sem teldist hafa gerhæfi samkvæmt lögum þess lands, því aðeins borið fyrir sig gerhæfisskort á grundvelli laga annars lands að hinn aðili samningsins hafi, þegar samningurinn var gerður, vitað eða mátt vita um gerhæfisskortinn.

                    5.    Þegar um er að ræða annars konar vátryggingarsamning en þann, sem fellur undir ákvæði 2. mgr., geta aðilar aðeins valið eftirfarandi lög í samræmi við 3. mgr.:

                        a)    lög samningsaðila þar sem áhættan er fyrir hendi þegar samningurinn er gerður,

                        b)    lög þess lands þar sem vátryggingartaki hefur fasta búsetu,

                        c)    þegar um líftryggingu er að ræða, lög þess samningsaðila þar sem vátryggingartakinn er ríkisborgari,

                        d)    að því er varðar vátryggingarsamninga til tryggingar á áhættu sem takmarkast við atvik hjá öðrum samningsaðila en þeim þar sem áhættan er fyrir hendi, lög þess samningsaðila,

                        e)    stundi vátryggingartaki samnings, sem fellur undir þessa málsgrein, viðskipta- eða iðnaðarstarfsemi eða tilheyri menntastétt og vátryggingasamningurinn tekur til tvenns konar áhættu, hið minnsta, sem tengist þessari starfsemi og er fyrir hendi hjá mismunandi samningsaðilum, lög hlutaðeigandi samningsaðila eða lög þess lands þar sem vátryggingartakinn hefur fasta búsetu.

                        Ef samningsaðili, í þeim tilvikum sem um getur í a-, b- eða e-lið þessarar málsgreinar, veitir aukið frelsi til að velja lög sem gildi um vátryggingarsamning, er aðilum heimilt að færa sér það frelsi í nyt.

                        Ef aðilar hafa ekki valið, í samræmi við þessa málsgrein, hvaða lögum skuli beita, skulu gilda um slíkan samning lög þess samningsaðila þar sem áhættan er fyrir hendi þegar samningurinn er gerður.

                    6.    Eftirfarandi viðbótarreglur skulu gilda um vátryggingarsamninga sem tryggja gegn hættu sem samningsaðili gerir skylt að tryggja gegn:

                        a)    vátryggingarsamningurinn telst ekki uppfylla þá skyldu að kaupa vátryggingu nema hann fullnægi hinum sérstöku ákvæðum um slíka vátryggingu sem mælt er fyrir um af hálfu samningsaðilans sem gerir hana að skyldu. Séu lög þess samningsaðila, þar sem áhættan er fyrir hendi, í mótsögn við lög þess samningsaðila, sem gerir það að skyldu að kaupa vátryggingu, skulu síðarnefndu lögin gilda,

                        b)    þrátt fyrir ákvæði 2. og 4. mgr. getur samningsaðili mælt fyrir um að um vátryggingarsamning gildi lög þess samningsaðila sem gerir það að skyldu að keypt sé vátrygging.

                    7.    Að því er varðar þriðju undirgrein 4. mgr. og 5. mgr. skal litið svo á að taki samningurinn til áhættu, sem er fyrir hendi hjá fleiri en einum samningsaðila, sé hann myndaður af nokkrum samningum sem hver tengist aðeins einum samningsaðila.

                    8.    Að því er þessa grein varðar skal ákvarða landið, þar sem áhættan er fyrir hendi, í samræmi við 13. mgr. 13. gr., og þegar um líftryggingar er að ræða skal landið, þar sem áhættan er, vera skuldbindingarlandið í skilningi 14. mgr. 13. gr.“

                h)    Eftirfarandi bætist við í A-hluta III. viðauka:

                    „29)    á Íslandi: „Hlutafélag“,

                    30)    í Furstadæminu Liechtenstein: „Aktiengesellschaft“, „Europäische Gesellschaft (SE)“, „Genossenschaft“, „Europäische Genossenschaft (SCE)“,

                    31)    í Konungsríkinu Noregi: „Aksjeselskaper“, „Gjensidige selskaper“.“

                i)    Eftirfarandi bætist við í B-hluta III. viðauka:

                    „29)    á Íslandi: „Hlutafélag“,

                    30)    í Furstadæminu Liechtenstein: „Aktiengesellschaft“, „Europäische Gesellschaft (SE)“, „Genossenschaft“, „Europäische Genossenschaft (SCE)“,

                    31)    í Konungsríkinu Noregi: „Aksjeselskaper“, „Gjensidige selskaper“.“

                j)    Eftirfarandi bætist við í C-hluta III. viðauka:

                    „29)    á Íslandi: „Hlutafélög“,

                    30)    í Furstadæminu Liechtenstein: „Aktiengesellschaft“, „Europäische Gesellschaft (SE)“, „Genossenschaft“, „Europäische Genossenschaft (SCE)“,

                    31)    í Konungsríkinu Noregi: „Aksjeselskaper“, „Gjensidige selskaper“.“

4.    Eftirfarandi bætist við í lið 31d (tilskipun Evrópuþingsins og ráðsins 2003/41/EB):

    ,„ eins og henni var breytt með:

        –         32009 L 0138: Tilskipun Evrópuþingsins og ráðsins 2009/138/EB (Stjtíð. ESB L 335, 17.12.2009, bls. 1).“

5.    Textinn í lið 1a (tilskipun ráðsins 64/225/EBE), 2. lið (fyrsta tilskipun ráðsins 73/239/ EBE), 3. lið (tilskipun ráðsins 73/240/EBE), 4. lið (tilskipun ráðsins 78/473/EBE), 5. lið (tilskipun ráðsins 84/641/EBE), 6. lið (tilskipun ráðsins 87/344/EBE), 7. lið (önnur tilskipun ráðsins 88/357/EBE), lið 7a (tilskipun ráðsins 92/49/EBE), lið 7b (tilskipun Evrópuþingsins og ráðsins 2005/68/EB), lið 12c (tilskipun Evrópuþingsins og ráðsins 98/78/ EB) og lið 13a (tilskipun Evrópuþingsins og ráðsins 2001/17/EB) falli brott frá og með 1. nóvember 2012.

6.    Texti 11. liðar og fyrirsögn, sem honum tengist (tilskipun Evrópuþingsins og ráðsins 2002/83/EB), falli brott frá og með 1. nóvember 2012.

7.    Fyrirsagnirnar „iv) Eftirlit og reikningar“ og „v) Önnur málefni“ í I. kafla (Vátryggingar) verði endurtölusettar sem fyrirsagnir „iii) Eftirlit og reikningar“ og „iv) Önnur málefni“ frá og með 1. nóvember 2012.

2. gr.


Íslenskur og norskur texti tilskipunar 2009/138/EB, sem verður birtur í EES-viðbæti við Stjórnartíðindi Evrópusambandsins, telst fullgiltur.

3. gr.


Ákvörðun þessi öðlast gildi 2. júlí 2011, að því tilskildu að allar tilkynningar samkvæmt 1. mgr. 103. gr. samningsins hafi borist sameiginlegu EES-nefndinni ( * ).

4. gr.


Ákvörðun þessi skal birt í EES-deild Stjórnartíðinda Evrópusambandsins og EES-viðbæti við þau.

Gjört í Brussel 1. júlí 2011.

Fyrir hönd sameiginlegu EES-nefndarinnar
Kurt Jäger
formaður.


Einhliða yfirlýsing frá Liechtenstein
vegna ákvörðunar nr. 78/2011 um að fella tilskipun 2009/138/EB inn í samninginn


„Furstadæmið Liechtenstein gerði árið 1996 tvíhliða samning um beinar vátryggingar við Sviss. Samningurinn byggist á gagnkvæmni og er markmiðið með honum að kveða á um þau skilyrði sem eru nauðsynleg og fullnægjandi til að gera vátryggingafélögum, sem eru með höfuðstöðvar sínar á yfirráðasvæði samningsaðila, kleift að nýta sér staðfesturétt og þjónustufrelsi að því er varðar beinar vátryggingar á yfirráðasvæði hins samningsaðilans.“
Fylgiskjal II.

Drög að þýðingu.

TILSKIPUN EVRÓPUÞINGSINS OG RÁÐSINS 2009/138/EB
frá 25. nóvember 2009
um stofnun og rekstur fyrirtækja á sviði vátrygginga og endurtrygginga (Gjaldþolsáætlun II)
(endurútgefin)
(Texti sem varðar EES)

EVRÓPUÞINGIÐ OG RÁÐ EVRÓPUSAMBANDSINS HAFA,
með hliðsjón af stofnsáttmála Evrópubandalagsins, einkum 2. mgr. 47. gr. og 55 gr.,
með hliðsjón af tillögu framkvæmdastjórnarinnar,
með hliðsjón af áliti efnahags- og félagsmálanefndar Evrópubandalaganna ( 1 ),
að höfðu samráði við svæðanefndina,
í samræmi við málsmeðferðina sem mælt er fyrir um í 251. gr. sáttmálans ( 2 ),
og að teknu tilliti til eftirfarandi:
1)    Nokkrar veigamiklar breytingar verða gerðar á fyrstu tilskipun ráðsins 73/239/EBE frá 24. júlí 1973 um samræmingu á lögum og stjórnsýslufyrirmælum til að hefja og reka starfsemi á sviði frumtrygginga annarra en líftrygginga ( 3 ), tilskipun ráðsins 78/473/EBE frá 30. maí 1978 um samræmingu á lögum og stjórnsýslufyrirmælum um samtryggingar innan Bandalagsins ( 4 ), tilskipun ráðsins 87/344/EBE frá 22. júní 1987 um samræmingu á lögum og stjórnsýslufyrirmælum um vátryggingar í tengslum við málsvarnarkostnað ( 5 ), önnur tilskipun ráðsins 88/357/EBE frá 22. júní 1988 um samræmingu á lögum og stjórnsýslufyrirmælum á sviði frumtrygginga, annarra en líftrygginga, um að greiða fyrir því að réttur til að stunda þjónustustarfsemi sé nýttur ( 6 ), tilskipun ráðsins 92/49/ EB frá 18. júní 1992 um samræmingu á lögum og stjórnsýslufyrirmælum varðandi frumtryggingar aðrar en líftryggingar (þriðja tilskipun um skaðatryggingar) ( 7 ), tilskipun Evrópuþingsins og ráðsins 98/78/EBE frá 27. október 1998 um viðbótareftirlit vátryggingafélaga í vátryggingasamstæðu ( 8 ), tilskipun Evrópuþingsins og ráðsins 2001/17/EB frá 19. mars 2001 um endurskipulagningu og slit vátryggingafélaga ( 9 ), tilskipun Evrópuþingsins og ráðsins 2002/83/EB frá 5. nóvember 2002 um líftryggingar ( 10 ), og tilskipun Evrópuþingsins og ráðsins 2005/68/EB frá 16. nóvember 2005 um endurtryggingu ( 11 ). Fyrir skýrleika sakir skal endurútgefa þessar tilskipanir.
2)    Til þess að auðvelda það að stofna til og reka vátrygginga- og endurtryggingastarfsemi er nauðsynlegt að eyða alvarlegasta muninum á lögum aðildarríkja hvað viðvíkur reglum sem vátryggingafélög, þ.m.t. endurtryggingafélög, lúta. Því skal settur lagarammi um vátryggingafélög, þ.m.t. endurtryggingafélög, til að annast vátryggingastarfsemi hvarvetna á innri markaðinum og auðvelda þar með vátryggingafélögum, þ.m.t. endurtryggingafélög, með aðalskrifstofur í Bandalaginu að ná yfir áhættur og skuldbindingar innan þess.
3)    Það er í þágu eðlilegrar starfsemi innri markaðarins að settar verði samræmdar reglur að því er varðar eftirlit með vátryggingasamstæðum og, með vernd lánardrottna í huga, endurskipulagningu og slitameðferð vátryggingafélaga.
4)    Rétt þykir að tiltekin fyrirtæki, sem veita þjónustu á sviði vátrygginga, falli ekki undir kerfið sem er komið á fót með þessari tilskipun vegna stærðar þeirra, réttarstöðu, eðli – sem er nátengt opinberum vátryggingakerfum – eða þeirri sértæku þjónustu sem þau veita. Einnig er æskilegt að undanskilja tilteknar stofnanir í nokkrum aðildarríkjum sem starfa eingöngu á mjög afmörkuðu sviði og starfsemi þeirra er takmörkuð með lögum við tiltekið svæði eða tiltekna aðila.
5)    Mjög lítil vátryggingafélög, sem uppfylla tiltekin skilyrði, þ.m.t. að tekjur af bókfærðu iðgjaldi eru undir 5 milljónum evra, falla utan gildissviðs þessarar tilskipunar. Öll vátryggingafélög, þ.m.t. endurtryggingafélög, sem þegar hafa leyfi samkvæmt gildandi tilskipunum, skulu halda þeim þegar þessi tilskipun kemur til framkvæmda. Félög, sem eru utan gildissviðs þessarar tilskipunar, skulu geta nýtt sér grundvallarfrelsið sem veitt er samkvæmt sáttmálanum. Þessi félög eiga þess kost að sækja um starfsleyfi samkvæmt þessari tilskipun til þess að njóta áfram góðs af hinu eina leyfi sem kveðið er á um í þessari tilskipun.
6)    Aðildarríkin eiga að geta gert þá kröfu til fyrirtækja sem reka starfsemi á sviði vátrygginga, þ.m.t. endurtryggingar, og sem eru undanþegin gildissviði þessarar tilskipunar, að þau skrái sig. Aðildarríkin geta líka látið þessi fyrirtæki sæta varfærniseftirliti og lagalegu eftirliti.
7)    Í tilskipun ráðsins 72/166/EBE frá 24. apríl 1972 um samræmingu á lögum aðildarríkja um ábyrgðartryggingu vegna notkunar vélknúinna ökutækja og til að kveða á um skyldu til að viðhalda vátryggingu gagnvart slíkri ábyrgð ( 1 ), sjöunda tilskipun ráðsins 83/349/EBE frá 13. júní 1983 um samstæðureikninga, byggð á g-lið 3. mgr. 54. gr. sáttmálans ( 2 ), annarri tilskipun ráðsins 84/5/EBE frá 30. desember 1983 um samræmingu á lögum aðildarríkjanna um ábyrgðartryggingu vegna notkunar á vélknúnum ökutækjum ( 3 ), tilskipun Evrópuþingsins og ráðsins 2004/39/EB frá 21. apríl 2004 um markaði fyrir fjármálagerninga ( 4 ), og tilskipun Evrópuþingsins og ráðsins 2006/48/EB frá 14. júní 2006 um stofnun og rekstur lánastofnana ( 5 ) er mælt fyrir um almennar reglur á sviði reikningsskila, ábyrgðartryggingu ökutækja, fjármálagerninga og lánastofnana, og um skilgreiningar á þessum sviðum. Rétt þykir að tilteknar skilgreiningar, sem mælt er fyrir um í þessum tilskipunum, gildi að því er varðar þessa tilskipun.
8)    Það að stofna til og reka vátryggingastarfsemi, þ.m.t. endurtryggingastarfsemi, skal háð fyrirframleyfi. Því er nauðsynlegt að mæla fyrir um skilyrði og verklagsreglur að því er varðar leyfisveitingu og hvers konar synjun.
9)    Í tilskipununum, sem felldar eru niður með þessari tilskipun, er ekki mælt fyrir um neinar reglur að því er varðar gildissvið endurtryggingastarfsemi sem vátryggingafélagi er heimilt að annast. Það er aðildarríkjanna að mæla fyrir um allar reglur hvað þetta varðar.
10)    Tilvísanir í þessa tilskipun um vátrygginga- eða endurtryggingastarfsemi skuli taka til bundinna frumtryggingafélaga og bundinna endurtryggingafélaga, nema sértæk ákvæði séu sett um þessi félög.
11)    Þar eð tilskipun þessi er grundvöllurinn að því að hinum innri markaði verði komið á skal vátryggingafélögum, þ.m.t. endurtryggingafélög, með starfsleyfi í viðkomandi heimaaðildarríki leyft að reka, í gervöllu Bandalaginu, einhverja eða alla sína starfsemi með því að stofna útibú eða veita þjónustu. Því er rétt að koma á nauðsynlegri samræmingu sem nægir til að koma á gagnkvæmri viðurkenningu á starfsleyfum og eftirlitskerfum, og þar með einu leyfi sem gildir alls staðar í Bandalaginu og sem gerir kleift að eftirlit með félagi fari fram í heimaaðildarríkinu.
12)    Með tilskipun Evrópuþingsins og ráðsins 2000/ 26/EB frá 16. maí 2000 um samræmingu á lögum aðildarríkja um ábyrgðartryggingu vegna notkunar vélknúinna ökutækja (fjórða tilskipunin um ökutækjatryggingar) ( 6 ) eru settar reglur um tilnefningu tjónauppgjörsfulltrúa. Þessar reglur skulu gilda að því er þessa tilskipun varðar.
13)    Endurtryggingafélög skulu takmarka starfsemi sína við endurtryggingar og tengda starfsemi. Slík krafa skal ekki koma í veg fyrir að endurtryggingafélög annist starfsemi á borð við tölfræðilega eða tryggingafræðilega ráðgjöf, áhættugreiningu eða rannsóknir fyrir viðskiptavini sína. Hún getur einnig tekið til hlutverks og starfsemi eignarhaldsfélags sem tengist fjármálastarfsemi í skilningi 8. mgr. 2. gr. í tilskipun Evrópuþingsins og ráðsins 2002/87/EB frá 16. desember 2002 um viðbótareftirlit með lánastofnunum, vátryggingafélögum og fjárfestingarfyrirtækjum í fjármálasamsteypum ( 1 ). Í öllum tilvikum kemur þessi krafa í veg fyrir að hægt sé að annast óskylda banka- og fjármálastarfsemi.
14)    Við vernd vátryggingartaka er gengið út frá því að vátryggingafélög, þ.m.t. endurtryggingafélög, falli undir árangursríkar kröfur varðandi gjaldþol sem leiða til skilvirkrar ráðstöfunar eigin fjár innan Evrópusambandsins. Í ljósi markaðsþróunar er núverandi kerfi ekki lengur fullnægjandi. Því er nauðsynlegt að innleiða nýjan regluramma.
15)    Í samræmi við nýjustu þróun í áhættustjórnun, með skírskotun til Alþjóðasambands eftirlitsaðila með vátryggingum, Alþjóðareikningsskilaráðsins, Alþjóðasamtaka eftirlitsaðila á vátryggingamarkaði og með nýlegri þróun í öðrum fjármálageirum skal taka upp efnahagslega nálgun, byggða á áhættumati, sem er vátryggingafélögum, þ.m.t. endurtryggingafélög, hvati til að meta áhættu á réttan hátt og stýra henni. Auka skal samhæfingu með setningu sérstakra reglna til að meta eignir og skuldir, þ.m.t. vátryggingaskuldir.
16)    Meginmarkmiðið með reglum um vátryggingar og endurtryggingar og eftirliti með þeim er fullnægjandi vernd til handa vátryggingartökum og rétthöfum. Hugtakinu „rétthafi“ er ætlað að taka til allra einstaklinga eða lögaðila sem eiga rétt samkvæmt vátryggingarsamningi. Fjárhagslegur stöðugleiki og sanngjarnir og stöðugir markaðir eru einnig markmið með reglum um vátryggingar og endurtryggingar og eftirliti með þeim, jafnframt því sem tekið skal tillit til meginmarkmiðsins, án þess þó að grafið sé undan því.
17)    Reiknað er með að reglur um gjaldþol, sem mælt er fyrir um í þessari tilskipun, veiti vátryggingartökum enn betri vernd. Það gerir þá kröfu til aðildarríkjanna að þau veiti eftirlitsyfirvöldum úrræði til að standa við skuldbindingar sínar, eins og sett er fram í þessari tilskipun. Þetta nær til allra nauðsynlegra þátta, þ.m.t. fjármagn og mannauður.
18)    Eftirlitsyfirvöld í aðildarríkjunum skulu því hafa öll þau tilföng sem nauðsynleg eru til að tryggja að vátryggingafélög, þ.m.t. endurtryggingafélög, reki starfsemi sína samkvæmt reglum alls staðar í Bandalaginu, hvort sem hún er rekin samkvæmt staðfesturétti eða frelsi til að veita þjónustu. Til að tryggja skilvirkni eftirlitsins skulu allar aðgerðir eftirlitsyfirvalda vera í samræmi við eðli, umfang og það hve flókin áhætta er sem innbyggð er í vátryggingastarfsemi, þ.m.t. endurtryggingastarfsemi, án tillits til mikilvægis hlutaðeigandi fyrirtækis fyrir fjárhagslegan stöðugleika markaðarins í heild.
19)    Þessi tilskipun á ekki að vera of íþyngjandi fyrir lítil og meðalstór vátryggingafélög. Ein af aðferðunum til að ná þessu markmiði er að beita meðalhófsreglu á réttan hátt. Sú regla skal bæði gilda um kröfurnar sem gerðar eru til vátryggingafélaga, þ.m.t. endurtryggingafélög, og um beitingu eftirlitsheimilda.
20)    Þess skal sérstaklega gætt að tilskipunin sé ekki of íþyngjandi fyrir vátryggingafélög sem sérhæfa sig í tilteknum tegundum vátrygginga eða þjónustu við viðskiptamenn á tilteknum sviðum, og viðurkennt skal að sérhæfing af þessu tagi geti verið mikilvæg aðferð hvað varðar skilvirkni og skilvirka áhættustýringu. Til þess að ná því markmiði, og einnig til að beita meðalhófsreglu á réttan hátt, skal einnig sérstaklega séð til þess að félög geti notað eigin gögn til þess að kvarða breytur í áhættueiningum skaðatrygginga hinnar stöðluðu formúlu gjaldþolskröfu.
21)    Þessi tilskipun skal líka taka til greina hina sérstöku eiginleika bundinna frumtryggingafélaga og bundinna endurtryggingafélaga. Þar sem starfsemi þessara félaga nær aðeins yfir áhættu í tengslum við iðnaðar- eða verslunarsamstæðu, sem þau tilheyra, skal séð fyrir viðeigandi aðkomuleiðum í samræmi við meðalhófsregluna til að leiða í ljós eðli, umfang og það hversu flókin starfsemi þeirra er.
22)    Í eftirliti með endurtryggingastarfsemi skal tekið tillit til sérkenna endurtryggingageirans, einkum hnattræns eðlis hans, og þess að vátryggingartakar eru sjálfir vátryggingafélög, þ.m.t. endurtryggingafélög.
23)    Eftirlitsyfirvöld eiga að geta fengið upplýsingar frá vátryggingafélögum, þ.m.t. endurtryggingafélög, sem nauðsynlegar eru til að þau geti sinnt eftirliti, þ.m.t. upplýsingar, eftir því sem við á, sem vátryggingafélög, þ.m.t. endurtryggingafélög, greina frá opinberlega í tengslum við reikningsskil, kauphallartilkynningu og aðrar laga- eða eftirlitskröfur.
24)    Eftirlitsyfirvöld í heimaaðildarríkinu skulu bera ábyrgð á vöktun fjárhagslegs styrks vátryggingafélaga, þ.m.t. endurtryggingafélög. Í því skyni skulu þau endurskoða matið með reglubundnum hætti.
25)    Eftirlitsyfirvöld skulu geta tekið tillit til áhrifa á áhættustjórnun og eignastýringu sem stafa af valfrjálsum starfsreglum og gagnsæi viðkomandi stofnana sem eiga viðskipti með eftirlitslausa eða óhefðbundna fjárfestingargerninga.
26)    Gjaldþolskrafan er útgangspunktur þess hvort megindlegar kröfur í vátryggingageiranum duga. Því skulu eftirlitsyfirvöld aðeins hafa vald til að bæta viðbótargjaldþolskröfu við gjaldþolskröfuna í undantekningartilvikum sem talin eru upp í þessari tilskipun í samræmi við eftirlitsferlið. Staðlaðri formúlu gjaldþolskröfunnar er ætlað að endurspegla áhættusnið flestra vátryggingafélaga, þ.m.t. endurtryggingafélaga. Þó kunna að vera tilvik þar sem staðlaða aðferðin endurspeglar ekki nægilega vel afar sértækt áhættusnið félags.
27)    Álagning viðbótargjaldþolskröfu heyrir til undantekninga í þeim skilningi að aðeins skal gripið til hennar í síðustu lög þegar aðrar eftirlitsaðgerðir reynast gagnslausar eða henta ekki. Þá skal orðið „undantekning“ fremur skilið með hliðsjón af sérstökum aðstæðum í hverju félagi en í tengslum við fjölda eiginfjárkrafna sem gerðar eru á tilteknum markaði.
28)    Haldið skal í viðbótargjaldþolskröfuna svo lengi sem ekki er ráðin bót á aðstæðunum sem voru við lýði þegar henni var komið á. Ef verulegir annmarkar eru á innra líkani, að öllu leyti eða að hluta til, eða ef stjórnunarháttum er verulega áfátt skulu eftirlitsyfirvöld tryggja að viðkomandi félag leggi allt kapp á að ráða bót á annmörkum þeim sem leiddu til þess að viðbótargjaldþolskröfunni var komið á. Þegar staðlaða aðferðin endurspeglar ekki nægilega vel tiltekið áhættusnið í félagi getur viðbótargjaldþolskrafan verið við lýði í nokkur ár.
29)    Aðeins kann að vera hægt að taka á sumum áhættuatriðum á tilhlýðilegan hátt með kröfum um stjórnunarhætti fremur en megindlegum kröfum sem fram koma í gjaldþolskröfunni. Skilvirkt stjórnkerfi skiptir því sköpum fyrir fullnægjandi stjórnun vátryggingafélagsins og fyrir eftirlitskerfið.
30)    Stjórnkerfið tekur til starfsemi sem felur í sér eftirlit með áhættustýringu, löghlýðni, innri endurskoðun og starfsfólki tryggingafræðisviðs.
31)    Í starfsemi felst stjórnsýslulegt hæfi til að inna tiltekin stjórnunarleg verkefni af hendi. Auðkenning tiltekinnar starfsemi kemur ekki í veg fyrir að félag ákveði upp á eigin spýtur hvernig sú starfsemi sé skipulögð í raun, nema annað sé tilgreint í þessari tilskipun. Þetta á ekki að hafa óþarflega íþyngjandi kröfur í för með sér þar sem taka skal tillit til eðlis, umfangs og þess hve flóknar aðgerðir félagsins eru. Það á því að vera mögulegt að eigið starfsfólk annist þessa starfsemi, að unnt sé að reiða sig á ráðgjöf sérfræðinga utan félagsins eða útvista starfsemina til sérfræðinga, innan þeirra marka sem þessi tilskipun setur.
32)    Í minni og einfaldari félögum, nema að því er varðar innri endurskoðun, á enn fremur að vera mögulegt að einstaklingur eða skipulagseining framkvæmi fleiri en eina tegund starfsemi.
33)    Þær tegundir starfsemi sem stjórnkerfi tekur til teljast til lykilstarfsemi og því einnig mikilvægar og þýðingarmiklar.
34)    Allir einstaklingar sem gegna lykilhlutverki skulu vera hæfir og viðeigandi. Einungis einstaklingar í lykilhlutverki skulu þó sæta tilkynningarskyldu gagnvart eftirlitsyfirvaldi.
35)    Í þeim tilgangi að meta áskilið hæfi skal taka tillit til faglegrar menntunar og hæfis og reynslu þeirra sem stýra félaginu í reynd eða hafa aðra lykilstarfsemi með höndum.
36)    Öll vátryggingafélög, þ.m.t. endurtryggingafélög, skulu framkvæma, sem samþættan hluta starfsstefnu sinnar, reglubundið mat á gjaldþolsþörfum sínum með tiltekið áhættusnið sitt (eigin áhætta og mat á gjaldþoli) í huga. Við matið er hvorki þörf á að þróa innra líkan né reikna fjármagnsþörf sem sker sig frá gjaldþolskröfunni eða lágmarkskröfunni um eigið fé. Útkoman úr matinu hverju sinni skal tilkynnt eftirlitsyfirvaldi sem hluti af þeim upplýsingum sem leggja skal fram í eftirlitsskyni.
37)    Til þess að tryggja skilvirkt eftirlit með útvistaðri starfsemi er nauðsynlegt að eftirlitsyfirvöld, sem hafa eftirlit með hinu útvistaða vátrygginga- eða endurtryggingafélagi, hafi aðgang að öllum viðkomandi gögnum sem veitandi útvistunarþjónustu hefur með höndum, hvort sem hann er eftirlitsskyldur eða ekki, og hafi einnig rétt til að annast vettvangsskoðun. Til að taka tillit til markaðsþróunar og tryggja að áfram sé farið að skilyrðum fyrir útvistunum skal veita eftirlitsyfirvöldum upplýsingar áður en þýðingarmikil eða mikilvæg starfsemi er útvistuð. Í þessum kröfum skal tekið tillit til vinnu Samráðsvettvangsins og vera í samræmi við núgildandi reglur og venjur í bankageiranum og tilskipun 2004/39/EB og beitingu hennar gagnvart lánastofnunum.
38)    Til þess að tryggja gagnsæi skulu vátryggingafélög, þ.m.t. endurtryggingafélög, birta opinberlega upplýsingar um gjaldþol sitt og fjárhagsstöðu að minnsta kosti árlega, nánar til tekið skulu upplýsingarnar gerðar aðgengilegar almenningi, annaðhvort á prentuðu eða rafrænu formi og ókeypis. Félögum skal heimilað að birta opinberlega viðbótarupplýsingar af frjálsum vilja.
39)    Kveðið skal á um upplýsingaskipti milli eftirlitsyfirvalda og yfirvalda eða stofnana sem í krafti starfsemi sinnar stuðla að auknum stöðugleika fjármálakerfisins. Því er nauðsynlegt að tilgreina við hvaða skilyrði þessi upplýsingaskipti skulu vera möguleg. Þegar aðeins má greina frá upplýsingum með skýlausu samþykki eftirlitsyfirvalda skulu þau, þegar svo ber undir, enn fremur setja það skilyrði fyrir samþykki sínu að farið sé að ströngum skilyrðum.
40)    Nauðsynlegt er að stuðla að samleitni eftirlits, ekki einungis að því er varðar tæki til eftirlits heldur einnig að því er varðar samleitni eftirlitsaðferða. Nefnd evrópskra eftirlitsaðila með vátryggingum og starfstengdum lífeyrissjóðum (CEIOPS), sem komið var á fót samkvæmt ákvörðun framkvæmdastjórnarinnar 2009/79/ EB ( 1 ), skal gegna mikilvægu hlutverki í þessu tilliti og greina Evrópuþinginu og framkvæmdastjórninni reglulega frá framvindunni.
41)    Markmiðið með upplýsingunum og skýrslunni, sem leggja skal fram í tengslum við viðbótargjaldþolskröfuna frá samstarfsnefndinni, er ekki að hindra notkun þeirra, eins og heimilt er samkvæmt þessari tilskipun, heldur stuðla að sífellt meiri samleitni eftirlits við notkun viðbótargjaldþolskrafna milli eftirlitsyfirvalda í mismunandi aðildarríkjum.
42)    Til að takmarka stjórnsýsluálag og forðast tvíverknað skuli eftirlitsyfirvöld og landsbundin hagskýrsluyfirvöld vinna saman og skiptast á upplýsingum.
43)    Til að styrkja eftirlit með vátryggingafélögum, þ.m.t. endurtryggingafélög, og vernd vátryggingartaka skal löggiltum endurskoðendum, í merkingu tilskipunar Evrópuþingsins og ráðsins 2006/43/EB frá 17. maí 2006 um lögboðna endurskoðun ársreikninga og samstæðureikningsskil ( 2 ) bera skylda til að tilkynna tafarlaust öll málsatvik sem líklegt er að hafi alvarlegar afleiðingar fyrir fjárhagsstöðu eða stjórnsýsluskipulag vátrygginga- eða endurtryggingafélags.
44)    Vátryggingafélög, sem bæði eru með líf- og skaðatryggingar, skulu reka þær aðgreindar til að vernda hagsmuni líftryggingartaka. Einkum skulu þessi félög falla undir sömu kröfur um eigið fé og gilda um sambærilega tryggingasamstæðu sem er samsett úr líftryggingafélagi og skaðatryggingafélagi, að teknu tilliti til aukins framsalshæfis eigin fjár í blönduðum tryggingafélögum.
45)    Mat á fjárhagsstöðu vátryggingafélaga, þ.m.t. endurtryggingafélög, skal byggt á traustum meginreglum hagfræðinnar og skal nýta sem best upplýsingarnar sem fjármálamarkaðir láta í té, sem og almenn gögn um tæknilega áhættu í vátryggingum. Gjaldþolskröfur skulu einkum byggðar á efnahagslegu mati á efnahagsreikningnum í heild.
46)    Matsstaðlar, sem notaðir eru við eftirlitið, skulu samrýmast alþjóðlegri þróun í reikningsskilum, að svo miklu leyti sem mögulegt er, til þess að takmarka stjórnsýsluálag á vátrygginga- og endurtryggingafélög.
47)    Í samræmi við þá nálgun skulu eiginfjárkröfur falla undir eigið fé, hvort sem þær falla undir liði á efnahagsreikningi eða utan hans. Þar eð ekki allt fjármagn getur að fullu borið tap vegna slita á grundvelli áframhaldandi rekstrarhæfis skal flokka eiginfjárliði í þrjá þætti í samræmi við gæðaviðmiðanir og samkvæmt því skal viðurkennd fjárhæð eigin fjár takmarkast við að hún nái yfir eiginfjárkröfur. Mörkin, sem eiga við um eiginfjárliði, skulu aðeins gilda að því er varðar ákvörðun á gjaldþolsstöðu vátryggingafélaga, þ.m.t. endurtryggingafélög, og skulu ekki takmarka frekar frelsi þessara félaga að því er varðar stjórnun á innra veltufé.
48)    Eignir, sem ekki tengjast neinum fyrirsjáanlegum skuldbindingum, er yfirleitt hægt að nota til að bera tap sem er til komið vegna neikvæðra sveiflna í starfseminni við áframhaldandi rekstrarhæfi og ef um slit er að ræða. Því skal, í langflestum tilvikum, litið á eignir umfram skuldir, eins og þær eru metnar í samræmi við meginreglurnar sem settar eru fram í þessari tilskipun, sem hágæðafjármagn (1. stig).
49)    Ekki eru allar eignir innan félags óháðar takmörkunum. Í nokkrum aðildarríkjanna leiða tilteknar vörur til uppbyggingar sjóða sem haldið er aðgreindum og leiðir þetta til þess að einn flokkur vátryggingartaka hefur meiri réttindi til eigna innan eigin sjóðs. Enda þótt þessar eignir séu taldar með við útreikninga á eignum umfram skuldir er ekki hægt að veita aðgang að þeim til að bregðast við áhættu utan sjóðsins sem haldið er aðgreindum. Til að gætt sé samræmis við hina efnahagslegu nálgun þarf mat á eigin fé að endurspegla mismunandi eðli eigna sem taka til hluta af hinu aðgreinda fyrirkomulagi. Eins skal útreikningurinn á gjaldþolskröfunni endurspegla minni samnýtingu eða fjölbreytileika sem tengist sjóðunum sem haldið er aðgreindum.
50)    Það er gildandi venja í vissum aðildarríkjum að vátryggingafélög selji líftryggingavörur í hlutfalli við framlög vátryggingartaka og styrkþega til áhættufjármagns félags í skiptum fyrir allan hagnaðinn af framlögunum eða hluta hans. Þessi uppsafnaði hagnaður er umframtekjur sem eru eign hinnar löglegu einingar þar sem hún varð til.
51)    Umframtekjur skal meta í samræmi við hina efnahagslegu nálgun sem mælt er fyrir um í þessari tilskipun. Í þessu tilviki er ekki nóg að láta við sitja að vísa til matsins á umframtekjum í lögboðnum ársreikningum. Í samræmi við kröfurnar sem gerðar eru til eigin fjár skulu umframtekjur falla undir viðmiðanir sem mælt er fyrir um í þessari tilskipun um flokkun í stig. Þetta þýðir m.a. að eingöngu skal litið á umframtekjur, sem uppfylla kröfur um flokkun í 1. stig, sem tekjur á 1. stigi.
52)    Gagnkvæm félög og félög hliðstæðrar gerðar með breytileg iðgjöld geta farið fram á viðbótarframlög frá aðilum sínum (viðbótariðgjöld aðila) til þess að hækka þá fjárhæð fjármagns sem þau eiga til að bera tap. Viðbótariðgjöld aðila geta verið umtalsverð fjármögnunarleið fyrir gagnkvæm félög og félög hliðstæðrar gerðar, meðal annars þegar þessi félög standa frammi fyrir neikvæðum viðskiptasveiflum. Því er hægt að færa viðbótariðgjöld aðila sem fylgiliði eigin fjár og fara með þau í samræmi við það í gjaldþolsskyni. Einkum á þetta við að því er varðar gagnkvæm félög og svipuð félög skipaeigenda með breytileg iðgjöld þar sem eingöngu er tryggt gegn áhættu á sjó, en þar eru viðbótariðgjöld aðila löngu viðtekin venja, með fyrirvara um sérstakt endurgreiðslufyrirkomulag, og skal litið á samþykkta upphæð þessara viðbótariðgjalda aðila sem gott fjármagn (2. stig). Ef um er að ræða gagnkvæm félög og félög hliðstæðrar gerðar þar sem viðbótariðgjöld aðila eru af svipuðum gæðum skal einnig litið á samþykkta upphæð þessara viðbótariðgjalda sem gott fjármagn (2. stig).
53)    Til þess að gera vátryggingafélögum, þ.m.t. endurtryggingafélög, kleift að standa við skuldbindingar sínar við vátryggingartaka og rétthafa skulu aðildarríkin krefjast þess af þessum félögum að þau séu með fullnægjandi vátryggingaskuldir. Meginreglurnar og þær tryggingafræðilegu og tölfræðilegu aðferðir sem liggja til grundvallar útreikningi á þessum vátryggingaskuldum skal samræma í gervöllu Bandalaginu til að auðvelda samanburð og auka gagnsæi.
54)    Útreikningur vátryggingaskulda skal vera í samræmi við mat á eignum og öðrum skuldum, í samræmi við markaðinn og alþjóðlega þróun á sviði reikningsskila og eftirlits.
55)    Verðmæti vátryggingaskulda skal því samsvara fjárhæðinni sem vátrygginga- eða endurtryggingafélag þyrfti að greiða ef það flytti samningsbundinn rétt sinn og skyldur tafarlaust til annars félags. Af því leiðir að verðmæti vátryggingaskulda skal samsvara fjárhæðinni sem búist væri við að annað vátrygginga- eða endurtryggingafélag (félagið sem vísað er til) krefðist til að taka yfir og uppfylla vátrygginga- og endurtryggingakvaðir sem liggja til grundvallar. Fjárhæð vátryggingaskuldanna skal endurspegla eiginleika vátryggingastofnsins sem liggja til grundvallar. Upplýsingar sem eiga sérstaklega við um tiltekið félag, t.d. þær sem snúa að meðferð bótakrafna og útgjöldum, skal því aðeins nota við útreikninga að því marki sem þær gera vátrygginga- og endurtryggingafélögunum betur kleift að endurspegla eiginleika vátryggingastofnsins sem liggur til grundvallar.
56)    Forsendurnar um félagið sem vísað er til og búist er við að taki yfir og uppfylli þær vátryggingakvaðir, þ.m.t. endurtryggingakvaðir, sem liggja til grundvallar skal samræma í gervöllu Bandalaginu. Einkum skulu forsendurnar um félagið sem vísað er til og ákvarða hvort, og þá að hve miklu leyti, áhrif fjölbreytileika skulu lögð til grundvallar við útreikning á vikmörkum áhættu, greind sem hluti af áhrifum og skulu síðan samræmdar innan Bandalagsins.
57)    Að því er varðar útreikninga á vátryggingaskuldum skal vera mögulegt að beita hæfilegum innreikningum og framreikningum frá markaðsverði sem er sannreynanlegt með beinum hætti.
58)    Nauðsynlegt er að reikna vænt núvirði vátryggingaskulda á grundvelli gildandi, trúverðugra upplýsinga og raunhæfra forsendna með því að taka tillit til fjárhagslegra trygginga og kosta í vátrygginga- og endurtryggingarsamningum, til að fá fram efnahagslegt mat á vátrygginga- og endurtryggingakvöðum. Þess skal krafist að skilvirkum og samræmdum tryggingafræðilegum aðferðum sé beitt.
59)    Til þess að endurspegla tilteknar aðstæður lítilla og meðalstórra félaga skal kveðið á um einfaldaðar aðferðir við útreikning á vátryggingaskuldum.
60)    Í eftirlitsfyrirkomulagi skal kveðið á um áhættunæmar kröfur, sem eru byggðar á framtíðarútreikningum til að tryggja nákvæma og tímanlega íhlutun eftirlitsyfirvalda (gjaldþolskrafan), og lágmarkskröfu um öryggi, og skal fjárhæð fjármagns ekki vera lægri en hún (lágmarkseiginfjárkrafa). Báðar eiginfjárkröfurnar skal samræma í gervöllu Bandalaginu til að ná fram samræmdu verndarstigi fyrir vátryggingartaka. Til að vel takist til um framkvæmd þessarar tilskipunar skulu fullnægjandi stig íhlutunar vera milli gjaldþolskröfunnar og lágmarkskröfunnar um eigið fé.
61)    Til að draga úr möguleikum á óæskilegum, sveifluaukandi áhrifum fjármálakerfisins og koma í veg fyrir tilvik þar sem vátryggingafélög, þ.m.t. endurtryggingafélög, neyðast án eigin tilverknaðar til að útvega viðbótarfjármagn eða selja fjárfestingar sínar vegna skammvinnra, óhagstæðra hreyfinga á fjármálamörkuðum, skal í markaðsáhættueiningu stöðluðu formúlunnar fyrir gjaldþolskröfuna vera samhverfur búnaður til leiðréttingar vegna breytinga á verði eigin fjár. Komi til óvenjumikils falls á fjármálamörkuðum, og ef samhverfi leiðréttingarbúnaðurinn dugar ekki vátryggingafélögunum, þ.m.t. endurtryggingafélög, til að uppfylla gjaldþolskröfur þeirra, skulu eftirlitsyfirvöld að auki framlengja það tímabil þegar þess er krafist að vátryggingafélög, þ.m.t. endurtryggingafélög, komi aftur á þeirri eiginfjárstöðu sem talin er ákjósanleg til að uppfylla gjaldþolskröfur.
62)    Gjaldþolskrafan skal endurspegla ákjósanlega eiginfjárstöðu sem gerir vátryggingafélögum, þ.m.t. endurtryggingafélög, kleift að bera umtalsvert tap, og gefur vátryggingartökum og rétthöfum hæfilega tryggingu fyrir því að greiðslur verði inntar af hendi þegar þær falla í gjalddaga.
63)    Til þess að tryggja að vátryggingafélög, þ.m.t. endurtryggingafélög, hafi yfir að ráða því eigin fé sem dugar fyrir gjaldþolskröfum á grundvelli áframhaldandi reksturs, með tilliti til allra breytinga á áhættusniði þeirra, skulu þau reikna gjaldþolskröfuna árlega hið minnsta, fylgjast stöðugt með henni og endurreikna hana í hvert sinn þegar áhættusniðið breytist verulega.
64)    Til þess að stuðla að góðri áhættustýringu og laga eftirlitsreglur um eigið fé að starfsvenjum atvinnugreinarinnar skal gjaldþolskrafan ákvörðuð sem það varnarfjármagn sem vátryggingafélög, þ.m.t. endurtryggingafélög, hafa til ráðstöfunar til að tryggja að ekki komi til hruns oftar en einu sinni í hverjum 200 tilvikum, eða, á hinn bóginn, að 99,5% líkur séu á að þessi félög geti staðið við skuldbindingar sínar við vátryggingartaka og rétthafa á næstu 12 mánuðum. Þetta varnarfjármagn skal reikna á grundvelli raunverulegs áhættusniðs þessara félaga með tilliti til áhrifa af hugsanlegum aðferðum við að draga úr áhættu ásamt áhrifum af áhættudreifingu.
65)    Samþykkja skal staðalformúlu til útreiknings á gjaldþolskröfunni til að gera öllum vátryggingafélögum, þ.m.t. endurtryggingafélög, kleift að meta eiginfjárþörf sína. Staðalformúlan skal byggð upp í einingum, í þeim skilningi að á fyrsta stigi skal meta hverja einstaka áhættuskuldbindingu í hverjum áhættuflokki og síðan uppsafnaða áhættu á öðru stigi. Ef notkun á breytum sem eiga sérstaklega við tiltekið félag verða til þess að leiða hið sanna áhættusnið vátryggingarinnar betur í ljós skal það vera leyfilegt, að því tilskildu að þessar breytur séu fengnar með staðlaðri aðferðafræði.
66)    Til þess að endurspegla tilteknar aðstæður lítilla og meðalstórra félaga skal kveðið á um einfaldaðar aðferðir við útreikning á gjaldþolskröfunni í samræmi við staðalformúluna.
67)    Meginreglan er að hin nýja aðferð, sem byggist á áhættumati, tekur hvorki til hugtaksins um megindlegar takmarkanir á fjárfestingum né hæfisviðmiðanir eigna. Þó á að vera hægt að taka upp takmarkanir á fjárfestingum og hæfisviðmiðanir eigna sem taka til áhættu sem fellur ekki á fullnægjandi hátt undir undireiningu staðalformúlunnar.
68)    Í samræmi við áhættumiðaða nálgun á gjaldþolskröfuna á að vera hægt, við tilteknar aðstæður, að nota hlutstæð eða heildstæð innri líkön við útreikning á þeirri kröfu, fremur en staðalformúluna. Til þess að veita vátryggingartökum og rétthöfum sambærilega vernd skulu þessi innri líkön háð fyrirframsamþykki á grundvelli samræmdra vinnsluferla og staðla.
69)    Þegar fjárhæð ákjósanlegs eigin fjár verður lægri en lágmarkskrafan um eigið fé skal starfsleyfi vátryggingafélaga, þ.m.t. endurtryggingafélög, dregin til baka ef þessi félög geta ekki á skömmum tíma hækkað á ný þá fjárhæð ákjósanlegs eigin fjár og standa þar með við lágmarkskröfuna um eigið fé.
70)    Lágmarkskrafan um eigið fé skal tryggja lágmarksstig og má fjárhæð fjármagns ekki vera lægra en það. Nauðsynlegt er að þetta stig sé reiknað með einfaldri formúlu með skilgreindum neðri og efri mörkum sem byggð eru á áhættumiðaðri gjaldþolskröfu í því skyni að gera stigvaxandi afskipti eftirlitsaðila möguleg og að það sé byggt á upplýsingum sem hægt er að endurskoða.
71)    Vátryggingafélög, þ.m.t. endurtryggingafélög, skulu eiga eignir af nægjanlegum gæðum til að ná yfir almennar fjárhagskröfur. Öllum fjárfestingum vátryggingafélaga, þ.m.t. endurtryggingafélög, skal stýrt í samræmi við varfærnismeginregluna.
72)    Aðildarríkin skulu ekki krefjast þess að vátryggingafélög, þ.m.t. endurtryggingafélög, fjárfesti í tilteknum eignaflokkum þar sem slíkar kröfur væru ósamrýmanlegar auknu frelsi í fjármagnsflutningum sem kveðið er á um í 56. gr. sáttmálans.
73)    Nauðsynlegt er að banna öll ákvæði sem gera aðildarríkjunum kleift að krefjast þess að eignir verði veðsettar fyrir vátryggingaskuld vátrygginga- eða endurtryggingafélags, í hvaða formi sem krafan er sett fram, þegar vátryggjandi er endurtryggður hjá vátrygginga- eða endurtryggingafélagi, sem hefur starfsleyfi samkvæmt þessari tilskipun, eða hjá félagi í þriðja landi, ef eftirlitsfyrirkomulagið í því landi telst jafngilt.
74)    Í lagarammanum fram til þessa hefur hvorki verið kveðið á um nákvæmar viðmiðanir vegna varfærnismats við fyrirhugaða yfirtöku né reglur um beitingu þeirra. Nánari útlistunar er því þörf á viðmiðunum og fyrirkomulagi varfærnismats til að stuðla að nauðsynlegu réttaröryggi, skýrleika og áreiðanleika að því er varðar matsferlið, svo og niðurstöður þess. Þessum viðmiðunum og málsmeðferð var komið á með tilskipun 2007/44/EB. Að því er varðar vátryggingafélög, þ.m.t. endurtryggingafélög, skulu þessi ákvæði því bundin í kerfi og felld inn í þessa tilskipun.
75)    Það skiptir því miklu máli að málsmeðferð og varfærnismat í gervöllu Bandalaginu séu eins samræmd og hægt er. Ákvæðin um virka eignarhlutdeild koma þó ekki í veg fyrir að aðildarríkin krefjist þess að eftirlitsyfirvöldum sé tilkynnt um yfirtökur eignarhlutdeildar, sem eru undir þeim viðmiðunarmörkum sem mælt er fyrir um í þessum ákvæðum, enda kveði aðildarríki ekki á um fleiri en eitt viðbótarviðmiðunarmark undir 10% í því sambandi. Þessi ákvæði koma ekki heldur í veg fyrir að eftirlitsyfirvöld veiti almennar leiðbeiningar um hvenær slík eignarhlutdeild telst hafa í för með sér veruleg áhrif.
76)    Með hliðsjón af auknum hreyfanleika borgara í Sambandinu er boðið upp á ábyrgðartryggingu ökutækja yfir landamæri í auknum mæli. Til þess að tryggja áframhaldandi rétta framkvæmd á fyrirkomulaginu um notkun græna skírteinisins milli landsskrifstofa vátryggjenda ökutækja þykir rétt að aðildarríkin geti krafist þess að vátryggingafélög, sem bjóða ábyrgðartryggingu ökutækja á sínu heimasvæði sem þjónustustarfsemi, tengist landsskrifstofunum og taki þátt í að fjármagna þær, og einnig ábyrgðarsjóðinn sem settur er á stofn í því aðildarríki. Aðildarríkið, þar sem þjónustan er í boði, skal krefjast þess að félög sem bjóða vátryggingar ökutækja tilnefni fulltrúa á heimasvæði sínu til að safna öllum nauðsynlegum upplýsingum í tengslum við tjónakröfur og koma fram fyrir hönd viðkomandi félags.
77)    Innan marka innri markaðar er það í hag vátryggingartaka að hann hafi aðgang að sem mestu úrvali vátrygginga innan Bandalagsins. Aðildarríkið, þar sem áhættan liggur, eða aðildarríkið, þar sem gengist er undir skuldbindinguna, skal því sjá til þess að ekkert komi í veg fyrir að allar vátryggingar, sem eru markaðssettar innan Bandalagsins, séu boðnar til sölu innan heimasvæðis þess, enda brjóti þær ekki í bága við lagaákvæði sem þar eru sett til að vernda almannahagsmuni, svo fremi að þeirra sé ekki gætt með réttarákvæðum heimaaðildarríkisins.
78)    Komið skal á kerfi viðurlaga sem skal beitt í aðildarríkinu þar sem áhættan liggur, eða aðildarríkinu þar sem gengist er undir skuldbindinguna, þegar vátryggingafélag fer ekki að neinum gildandi ákvæðum með almannahagsmuni að leiðarljósi.
79)    Á innri vátryggingamarkaði munu neytendur hafa meira og fjölbreyttara val um samninga en áður. Ef sú fjölbreytni, auk aukinnar samkeppni, á að nýtast neytendum til fulls skulu þeir fá allar nauðsynlegar upplýsingar fyrir samningagerðina og á öllu samningstímabilinu til að gera þeim kleift að velja þann samning sem best er sniðinn að þeirra þörfum.
80)    Vátryggingafélag, sem býður samninga um aðstoð, skal hafa yfir nauðsynlegum úrræðum að ráða til að veita boðnar bætur, greiddar í fríðu, innan tilhlýðilegs tíma. Sérákvæði skulu sett um útreikninga á gjaldþolskröfu og algjört lágmark lágmarkskröfunnar um eigið fé sem félagið skal hafa yfir að ráða.
81)    Árangursríkur rekstur samtryggingafyrirtækja innan Bandalagsins í starfsemi, sem líkur eru á, vegna eðlis eða umfangs hennar, að falli undir alþjóðlegar samtryggingar, skal auðveldaður með því að halda samhæfingu í lágmarki til að koma í veg fyrir röskun á samkeppni og ólíka meðferð. Í því samhengi skal leiðandi vátryggingafélag meta bótakröfur og ákveða fjárhæð vátryggingaskulda. Enn fremur skal kveðið á um sérstaka samvinnu á sviði samtryggingar í Bandalaginu, bæði milli eftirlitsyfirvalda aðildarríkjanna og milli þeirra og framkvæmdastjórnarinnar.
82)    Í þágu hagsmuna hinna tryggðu skulu landslög varðandi málsvarnarkostnað samhæfð. Hvers konar hagsmunaárekstra, einkum þá sem stafa af því að vátryggingafélagið ábyrgðartryggir annan einstakling eða ábyrgðartryggir einstakling, bæði með tilliti til málsvarnarkostnaðar og allra annarra vátryggingasviða, skal fyrirbyggja eftir megni eða leysa. Í því skyni er hægt að veita vátryggingartökum hæfilega vernd með öðrum úrræðum. Vernda skal hagsmuni einstaklinga sem tryggðir eru gegn málsvarnarkostnaði með hliðstæðum verndarráðstöfunum, óháð því hvaða lausn finnst.
83)    Jafna skal ágreining milli hinna tryggðu og vátryggingafélaga, sem ábyrgjast málsvarnarkostnað, eins hratt og með eins mikilli sanngirni og kostur er. Því er við hæfi að aðildarríkin kveði á um tilhögun á gerðardómi eða tilhögun sem býður upp á sambærilega ábyrgð.
84)    Í sumum aðildarríkjanna eru einkasjúkratryggingar eða frjálsar sjúkratryggingar valkostur, að hluta til eða öllu leyti, við sjúkratryggingar almannatryggingakerfa. Sérstakt eðli þess háttar sjúkratrygginga greina þær frá öðrum flokkum ábyrgðartrygginga og líftrygginga að því leyti að nauðsynlegt er að tryggja að vátryggingartakar hafi skilvirkan aðgang að einkasjúkratryggingum eða frjálsum sjúkratryggingum, án tillits til aldurs eða áhættusniðs. Vegna eðlis og félagslegra afleiðinga sjúkratryggingasamninga eiga eftirlitsyfirvöld í aðildarríkjunum, þar sem áhætta liggur, að geta krafist kerfisbundinna tilkynninga um almenna og sérstaka tryggingarskilmála, sé um að ræða einkasjúkratryggingar eða frjálsar sjúkratryggingar, til að sannprófa að þessir samningar séu valkostur, að hluta til eða að öllu leyti, við þær sjúkratryggingar sem almannatryggingakerfið lætur í té. Slík sannprófun skal ekki vera skilyrði fyrir markaðssetningu trygginganna.
85)    Í því skyni hafa nokkur aðildarríkjanna samþykkt sérstök lagaákvæði. Til að vernda almannahagsmuni skal vera mögulegt að samþykkja slík lagaákvæði, svo fremi þau takmarki ekki með óréttmætum hætti staðfesturétt eða frelsi til að veita þjónustu, og að því tilskildu að þessi ákvæði séu notuð á sama hátt. Þessi lagaákvæði geta haft ólíkt eðli og fer það eftir skilyrðum í hverju aðildarríkjanna. Markmiðinu með að vernda almannahagsmuni er einnig hægt að ná með því að krefjast þess að félög sem bjóða einkasjúkratryggingar eða frjálsar sjúkratryggingar bjóði stöðluð kjör í samræmi við réttindi, sem lögbundin almannatryggingakerfi veita á iðgjaldataxta, eða á eða undir tiltekinni hámarksfjárhæð, og að þau taki þátt í bótakerfi vegna tjóna. Þá er hugsanlegt að þess sé krafist að tæknilega séu einkasjúkratryggingar eða frjálsar sjúkratryggingar sambærilegar líftryggingum.
86)    Gistiaðildarríki eiga að geta krafist þess að öll vátryggingafélög, sem bjóða lögbundna atvinnuslysatryggingu á eigin ábyrgð á landsvæðum þeirra, fari að sértækum ákvæðum sem mælt er fyrir um í landslögum um slíkar tryggingar. Þó skulu þessar kröfur ekki eiga við um ákvæði um fjármálaeftirlit, en það á að vera á ábyrgð heimaaðildarríkisins að öllu leyti.
87)    Nokkur aðildarríki leggja enga óbeina skatta á vátryggingaviðskipti en flest þeirra leggja á sérstaka skatta og önnur gjöld, þ.m.t. aukagjöld til tjónauppgjörsstofnana. Skattar þessir og gjöld eru talsvert mismunandi, bæði að samsetningu og hlutfalli, í þeim aðildarríkjum þar sem þau eru lögð á. Æskilegt er að koma í veg fyrir að þessi munur leiði til röskunar á samkeppni í tryggingaþjónustu milli aðildarríkjanna. Þar til frekari samhæfing hefur farið fram má búast við að með beitingu skatta og annarra gjalda þess aðildarríkis þar sem áhættan liggur, eða í aðildarríkinu þar sem skuldbindingin á sér stað, megi leysa þann vanda og kemur það í hlut aðildarríkjanna að koma á tilhögun sem tryggir að skattar þessir og gjöld séu innheimt.
88)    Þau aðildarríki sem ekki eru bundin af beitingu reglugerðar Evrópuþingsins og ráðsins (EB) nr. 593/2008 frá 17. júní 2008 um lög sem gilda um samningsbundnar skyldur (Róm I) ( 1 ) skulu, í samræmi við þessa tilskipun, beita ákvæðum þeirrar reglugerðar til þess að ákvarða hvaða lög um vátryggingasamninga falli innan gildissviðs 7. gr. þeirrar reglugerðar.
89)    Til þess að taka tillit til alþjóðlegra þátta í endurtryggingu skal vera mögulegt að gera alþjóðasamninga við þriðju lönd sem miða að því að skilgreina heimildir til að hafa eftirlit með endurtryggingafélögum sem stunda sína starfsemi á heimasvæði sérhvers samningsaðila. Enn fremur skal ákvarða sveigjanlega málsmeðferð svo að unnt sé að meta hvort varfærniseftirlit hjá þriðju löndum jafngildi því sem er í Bandalaginu í því skyni að auka frelsi í endurtryggingaþjónustu í þriðju löndum hvort sem það er með því að stofna félag eða veita þjónustu yfir landamæri.
90)    Vegna sérstaks eðlis starfsemi takmarkaðra endurtrygginga skulu aðildarríkin tryggja að vátryggingafélög, þ.m.t. endurtryggingafélög, sem gera takmarkaða endurtryggingarsamninga eða reka takmarkaða endurtryggingarstarfsemi, geti auðkennt á réttan hátt, mælt og haft eftirlit með áhættu, sem þessir samningar eða starfsemi hefur í för með sér.
91)    Settar skulu viðeigandi reglur um félög með sérstakan tilgang sem taka á sig áhættu vátryggingafélaga, þ.m.t. endurtryggingafélög, án þess að vera vátrygginga- eða endurtryggingafélag. Litið skal á endurheimtanlegar fjárhæðir frá félagi með sérstakan tilgang sem frádráttarbærar fjárhæðir samkvæmt endurtryggingasamningum.
92)    Félög með sérstakan tilgang, sem fá starfsleyfi fyrir 31. október 2012, skulu falla undir lög þess aðildarríkis sem hefur veitt starfsleyfi fyrir slík félög. Til að forðast eftirlitshögnun (e. regulatory arbitrage) skal þó öll ný starfsemi, sem þess háttar félag með sérstakan tilgang hefur eftir 31. október 2012, vera háð ákvæðunum í þessari tilskipun.
93)    Þar eð tryggingastarfsemi fer í auknum mæli fram yfir landamæri skal draga eins og kostur er úr misræmi milli reglna aðildarríkjanna um félög með sérstakan tilgang, sem falla undir ákvæði þessarar tilskipunar, með hliðsjón af eftirlitsfyrirkomulagi landanna.
94)    Frekari vinna um félög með sérstakan tilgang skal fara fram, með tilliti til vinnu sem framkvæmd er í öðrum fjármálageirum.
95)    Ráðstafanir varðandi eftirlit með samstæðu vátryggingafélaga, þ.m.t. endurtryggingafélög, skulu gera yfirvöldum, sem hafa eftirlit með vátryggingafélögum, þ.m.t. endurtryggingafélög, kleift að gera sér ígrundaðri mynd af fjárhagsstöðu þess.
96)    Með slíku eftirliti með samstæðu skal taka tillit til eignarhaldsfélaga á vátryggingasviði, einnig blandaðra eignarhaldsfélaga á vátryggingasviði, eftir því sem þurfa þykir. Þessi tilskipun felur þó á engan hátt í sér að þess sé krafist af aðildarríkjunum að þau hafi eftirlit með þessum félögum hverju fyrir sig.
97)    Þó að eftirlitið með einstökum vátryggingafélögum, þ.m.t. endurtryggingafélög, sé meginregla tryggingaeftirlits er nauðsynlegt að ákvarða hvaða félög falli undir svið eftirlits á samstæðustigi.
98)    Með fyrirvara um lög Bandalagsins og landslög skulu félög, einkum gagnkvæm félög og félög hliðstæðrar gerðar, geta myndað samfylkingar eða samstæður, ekki með fjármagnstengslum heldur formlegum, sterkum og sjálfbærum tengslum sem byggja á samningum eða öðrum efnislegum viðurkenningum sem tryggja fjárhagslega samstöðu félaganna. Ef ráðandi áhrifum er beitt með miðlægri samræmingu skal haft eftirlit með þessum félögum í samræmi við sömu reglur og þær sem beitt er gagnvart samstæðum, sem stofnað er til með fjármagnstengslum, til þess að ná fullnægjandi vernd fyrir vátryggingartaka og jöfnum samkeppnisgrunni milli samstæðna.
99)    Eftirliti með samstæðum skal ávallt beitt gagnvart endanlegu móðurfélagi sem er með aðalskrifstofu í Bandalaginu. Aðildarríkin mega þó gefa eftirlitsyfirvöldum sínum leyfi til að beita eftirliti með samstæðum á takmörkuðum fjölda lægri stiga, ef þau telja það nauðsynlegt.
100)    Nauðsynlegt er að reikna gjaldþol á samstæðustigi fyrir vátryggingafélög, þ.m.t. endurtryggingafélög, sem mynda samstæðu.
101)    Í samsteyptu gjaldþolskröfunni gagnvart samstæðu skal tekið tillit til allsherjaráhættudreifingar samstæðunnar, sem er fyrir hendi hjá öllum vátryggingafélögum, þ.m.t. endurtryggingafélög, til þess að endurspegla áhættu samstæðunnar rétt.
102)    Vátryggingafélög, þ.m.t. endurtryggingafélög, sem tilheyra samstæðu eiga að geta sótt um samþykki fyrir innra líkani til nota á samstæðustigi og á einstaklingsgrundvelli til að reikna gjaldþolið.
103)    Sum ákvæði þessarar tilskipunar kveða beinlínis á um að Samstarfsnefnd evrópskra vátrygginga- og lífeyrissjóðaeftirlita (CEIOPS), gegni sátta- eða samráðshlutverki en það á ekki að koma í veg fyrir að samstarfsnefndin gegni einnig sátta- eða samráðshlutverki að því er varðar önnur ákvæði.
104)    Í þessari tilskipun er lýst nýjungum hvað eftirlitslíkan varðar, í þá veru að samstæðueftirlitsaðili gegnir lykilhlutverki, en jafnframt er viðurkennt að einstaklingseftirlitsaðili gegni mikilvægu hlutverki sem ekki skal hróflað við. Valdsvið og skyldur eftirlitsaðila tengjast ábyrgð þeirra.
105)    Allir vátryggingartakar og rétthafar skulu fá jafna meðferð, án tillits til þjóðernis eða búsetustaðar. Í þessu skyni skal hvert aðildarríki sjá til þess að ekki sé litið svo á að allar ráðstafanir, sem eftirlitsyfirvald grípur til á grundvelli landsbundins umboðs þess eftirlitsyfirvalds, gangi gegn hagsmunum þess aðildarríkis, eða tryggingartaka og rétthafa í því aðildarríki. Alltaf þegar um er að ræða greiðslur krafna og slitameðferð skal eignum úthlutað með réttlátum hætti til allra viðkomandi tryggingartaka, án tillits til þjóðernis þeirra eða búsetustaðar.
106)    Nauðsynlegt er að tryggja dreifingu eigin fjár innan samstæðunnar með viðeigandi hætti og að það sé tiltækt til að vernda vátryggingartaka og rétthafa þegar á þarf að halda. Í því skyni eiga vátryggingafélög, þ.m.t. endurtryggingafélög, innan samstæðu að hafa nægjanlegt eigið fé til að standa undir gjaldþolskröfum sem gerðar eru til þeirra.
107)    Allir eftirlitsaðilar sem annast samstæðueftirlit eiga að geta skilið ákvarðanirnar sem teknar eru, einkum ákvarðanir samstæðueftirlitsaðilans. Um leið og einn eftirlitsaðilanna fær viðkomandi upplýsingar í hendur skal því miðla þeim til hinna eftirlitsaðilanna svo að þeir geti allir myndað sér skoðun sem byggist á sömu, viðeigandi upplýsingum. Komist endurskoðunaraðilarnir ekki að samkomulagi skal leitað eftir upplýstri ráðgjöf frá samstarfsnefndinni til að leysa málið.
108)    Gjaldþol dótturfélags vátrygginga- eða endurtryggingafélags eignarhaldsfélags á vátryggingasviði, vátryggingafélags þriðja lands eða endurtryggingafélags þriðja lands kann að verða fyrir áhrifum af fjármagni samstæðunnar sem það tilheyrir og vegna dreifingar fjármagns innan þeirrar samstæðu. Eftirlitsyfirvöldum skal því séð fyrir úrræðum til að annast samstæðueftirlit og til að grípa til viðeigandi ráðstafana á stigi vátryggingafélagsins eða endurtryggingafélagsins, þar sem gjaldþol þess er í hættu eða kann að verða stofnað í hættu.
109)    Áhættusamþjöppun og viðskipti innan samstæðunnar geta haft áhrif á fjárhagsstöðu vátryggingafélaga, þ.m.t. endurtryggingafélög. Eftirlitsyfirvöld skulu því geta haft eftirlit með þessari áhættusamþjöppun og viðskiptum innan samstæðunnar með tilliti til eðlis tengslanna milli lögverndaðra eininga og eininga sem ekki eru lögverndaðar, þ.m.t. eignarhaldsfélög á vátryggingasviði og blönduð eignarhaldsfélög á vátryggingasviði, og grípa til viðeigandi ráðstafana á stigi vátryggingafélagsins eða endurtryggingafélagsins, þar sem gjaldþol þess er í hættu eða kann að vera stofnað í hættu.
110)    Vátryggingafélög, þ.m.t. endurtryggingafélög, innan samstæðu skulu vera með viðeigandi stjórnkerfi og skal það háð endurskoðun eftirlitsyfirvalda.
111)    Öll vátryggingafélög, þ.m.t. endurtryggingafélög, sem falla undir samstæðueftirlit, skulu hafa samstæðueftirlitsaðila sem eitthvert af viðkomandi eftirlitsyfirvöldum tilnefnir. Réttindi og skyldur samstæðueftirlitsaðilans skulu taka til viðeigandi samhæfingar og valds til ákvarðanatöku. Yfirvöld þau sem annast eftirlit með vátryggingafélögum, þ.m.t. endurtryggingafélög, og heyra undir sömu samstæðu skulu koma á samræmingarfyrirkomulagi.
112)    Í ljósi aukinnar hæfni samstæðueftirlitsaðila skal tryggt að komið verði í veg fyrir að viðmiðanir við val á samstæðueftirlitsaðilanum verði sniðgengnar að geðþótta. Einkum í tilvikum þar sem samstæðueftirlitsaðilanum verður falið að taka tillit til uppbyggingar samstæðunnar og hlutfallslegs mikilvægis vátrygginga- og endurtryggingastarfsemi á ólíkum mörkuðum skal hvorki tvítelja viðskipti innan samstæðunnar né endurtryggingu samstæðu þegar hlutfallslegt mikilvægi þeirra á markaði er metið.
113)    Eftirlitsaðilar í öllum aðildarríkjum, þar sem félög samstæðunnar starfa, skulu taka þátt í samstæðueftirliti með þátttöku í samstarfshópi eftirlitsaðila (samstarfshópurinn). Þeir skulu allir hafa aðgang að fyrirliggjandi upplýsingum hjá öðrum eftirlitsyfirvöldum innan nefndarinnar og skulu taka virkan og stöðugan þátt í ákvarðanatöku. Komið skal á samvinnu milli yfirvalda sem bera ábyrgð á eftirliti með vátryggingafélögum, þ.m.t. endurtryggingafélög, og einnig þessara yfirvalda og þeirra sem bera ábyrgð á félögum með starfsemi á öðrum fjármálasviðum.
114)    Starfsemi samstarfshópsins skal vera í samræmi við eðli, umfang og það hve flókin áhætta er sem innbyggð er í starfsemi allra félaga sem mynda samstæðuna og sem ná yfir landamæri. Samstarfshópnum skal komið á til að tryggja að samvinnu, upplýsingaskiptum og samráðsferli meðal eftirlitsaðila, sem aðild eiga að nefndinni, sé beitt á skilvirkan hátt í samræmi við þessa tilskipun. Eftirlitsyfirvöld skulu nýta samstarfshópinn til þess að styrkja samleitni ákvarðana sem þau taka hver fyrir sig, og til að annast eftirlitsstarfsemi sína í nánu samstarfi innan samstæðunnar samkvæmt samræmdum viðmiðunum.
115)    Með þessari tilskipun er samstarfsnefndinni veitt samráðshlutverk. Ráðgjöf samstarfsnefndarinnar til viðkomandi eftirlitsaðila skal ekki vera bindandi gagnvart honum þegar hann tekur ákvarðanir sínar. Viðkomandi eftirlitsaðili skal þó taka fullt tillit til ráðgjafarinnar og útskýra öll umtalsverð frávik frá henni þegar hann tekur ákvörðun sína.
116)    Vátryggingafélög, þ.m.t. endurtryggingafélög, sem eru hluti samstæðu með höfuðstöðvar utan Bandalagsins skulu hlíta sambærilegu og jafngildu eftirlitsfyrirkomulagi á vettvangi samstæðunnar. Því er nauðsynlegt að kveða á um gagnsæi reglna og upplýsingaskipti við yfirvöld þriðja lands við allar aðstæður sem skipta máli. Til þess að tryggja samhæfða nálgun við ákvörðun og greiningu á jafngildi eftirlits með vátryggingum og endurtryggingum í þriðja landi skulu sett ákvæði um að framkvæmdastjórnin taki bindandi ákvörðun að því er varðar jafngildi gjaldþolsreglna þriðja lands. Fyrir þriðja land, sem framkvæmdastjórnin hefur ekki tekið neinar ákvarðanir um, skal eftirlitsaðilinn með samstæðunni gera greiningu á jafngildi að höfðu samráði við önnur viðkomandi eftirlitsyfirvöld.
117)    Þar eð innlend löggjöf um endurskipulagningarráðstafanir og slitameðferð er ekki samhæfð er viðeigandi, innan ramma innra markaðarins, að tryggja gagnkvæma viðurkenningu á endurskipulagningarráðstöfunum og slitameðferð í aðildarríkjunum varðandi vátryggingafélög og nauðsynlega samvinnu, með tilliti til þess að þörf er á einingu, algildi, samræmingu og birtingu á slíkum ráðstöfunum, ásamt sömu meðhöndlun á vátryggingalánardrottnum og vernd þeim til handa.
118)    Tryggt skal að endurskipulagningarráðstafanir, sem lögbært yfirvald í aðildarríki samþykkir, hafi full áhrif í öllu Bandalaginu, í þeim tilgangi að viðhalda traustri fjárhagsstöðu vátryggingafélags eða færa hana aftur í eðlilegt horf, og koma, að svo miklu leyti sem unnt er, í veg fyrir slitameðferð. Áhrifin af þess háttar endurskipulagningarráðstöfunum og slitameðferð gagnvart þriðja landi breytast þó ekki við þetta.
119)    Gera skal greinarmun annars vegar á lögbærum yfirvöldum að því er varðar endurskipulagningarráðstafanir og slitameðferð og hins vegar eftirlitsyfirvöldum vátryggingafélaga.
120)    Í skilgreiningu á útibúi, í samræmi við þær meginreglur um gjaldþrot sem eru fyrir hendi, skal taka tillit til þess að vátryggingafélagið hefur sérstaka lögformlega stöðu. Löggjöf heimaaðildarríkisins skal þó ákvarða með hvaða hætti skal fara með eignir og skuldir sem eru í höndum óháðra einstaklinga sem hafa ótímabundna heimild til að koma fram sem fulltrúar vátryggingafélags þegar til slita þess vátryggingafélags kemur.
121)    Mælt skal fyrir um skilyrði þar sem slitameðferð, sem felur í sér kröfuröð vátryggingarkrafna án þess að byggjast á gjaldþroti, fellur innan gildissviðs þessarar tilskipunar. Unnt skal vera að framselja innlendum launaábyrgðarsjóði kröfur starfsfólks vátryggingafélags vegna ráðningarsamninga og ráðningarsambands. Meðferð á framseldum kröfum af þessu tagi skal ákvarðast af löggjöf heimaaðildarríkisins (lex concursus).
122)    Endurskipulagningarráðstafanir koma ekki í veg fyrir að slitameðferð geti hafist. Því skal unnt að hefja slitameðferð þrátt fyrir að samþykktar hafi verið endurskipulagningarráðstafanir eða í kjölfar samþykktar þeirra og þeim má ljúka með nauðungarsamningum eða öðrum hliðstæðum ráðstöfunum, þar á meðal endurskipulagningarráðstöfunum.
123)    Einungis lögbærum yfirvöldum í heimaaðildarríki skal veitt vald til þess að taka ákvarðanir um slitameðferð vátryggingafélaga. Áhrifa af þess konar ákvörðunum skal gæta í öllu Bandalaginu og skulu þær viðurkenndar af öllum aðildarríkjum. Ákvarðanirnar skal birta í samræmi við verklagsreglur um birtingu í heimaaðildarríkinu og í Stjórnartíðindum Evrópusambandsins. Þessar upplýsingar skulu einnig gerðar aðgengilegar lánardrottnum sem vitað er um og búsettir eru í Bandalaginu, og skulu þeir hafa heimild til að leggja fram kröfur og bera fram athugasemdir.
124)    Tekið skal tillit til allra eigna og skulda vátryggingafélags við slitameðferð.
125)    Öll skilyrði fyrir því að hefja slitameðferð, framkvæma hana og ljúka falla undir löggjöf heimaaðildarríkis.
126)    Til þess að tryggja samræmdar aðgerðir meðal aðildarríkjanna skal eftirlitsyfirvöldum í heimaaðildarríkinu og öllum öðrum aðildarríkjum tilkynnt um upphaf slitameðferðar svo skjótt sem kostur er.
127)    Afar brýnt er að hinir tryggðu, vátryggingartakar, rétthafar og aðrir, sem eiga beina kröfu á vátryggingafélag á grundvelli vátryggingarsamnings, njóti verndar við slitameðferð, að því tilskildu að þessi vernd eigi ekki við um kröfur sem ekki eru til komnar vegna skuldbindinga samkvæmt vátryggingarsamningum eða -starfsemi heldur vegna einkaréttarlegrar ábyrgðar vegna starfa umboðsmanns sem hann, í samræmi við gildandi lög um vátryggingarsamninga eða -starfsemi, er ekki ábyrgur fyrir samkvæmt skilmálum vátryggingarsamningsins eða -starfseminnar sem um ræðir. Til að ná þessu markmiði skulu aðildarríki geta valið milli jafngildra aðferða til að tryggja vátryggingalánardrottnum sérstaka meðferð, þar eð engin aðferðanna kemur í veg fyrir að aðildarríkin forgangsraði mismunandi flokkum vátryggingarkrafna eftir vægi. Enn fremur skal tryggja hæfilegt jafnvægi milli verndar, sem vátryggingalánardrottnar njóta, og annarra lánardrottna, sem njóta forgangsréttar og fá vernd í gegnum löggjöf viðkomandi aðildarríkis.
128)    Þegar slitameðferð er hafin skal það hafa í för með sér afturköllun starfsleyfis sem vátryggingafélaginu var veitt, nema slíkt hafi þegar verið gert.
129)    Lánardrottnar skulu hafa rétt til að lýsa kröfu eða leggja fram skriflegar athugasemdir þegar slitameðferð stendur yfir. Farið skal með kröfur lánardrottna, sem búsettir eru í öðru aðildarríki en heimaaðildarríki, eins og samsvarandi kröfur í heimaaðildarríki án mismununar vegna þjóðernis eða búsetu.
130)    Til þess að vernda megi lögmætar væntingar og áreiðanleika tiltekinna aðgerða í öðrum aðildarríkjum en heimaaðildarríkinu er nauðsynlegt að ákvarða lög sem gilda um endurskipulagningarráðstafanir og slitameðferð vegna yfirstandandi málaferla, og einstakar aðfararaðgerðir sem leiða af málaferlum.
131)    Nauðsynlegar ráðstafanir til að koma þessari tilskipun í framkvæmd skulu samþykktar í samræmi við ákvörðun ráðsins 1999/468/EB frá 28. júní 1999 um reglur um meðferð framkvæmdavalds sem framkvæmdastjórninni er falið ( 1 ).
132)    Einkum skal framkvæmdastjórninni veitt umboð til að samþykkja ráðstafanir varðandi aðlögun viðaukanna og ráðstafanir sem tilgreina sérstaklega eftirlitsheimildir og aðgerðir sem grípa skal til, og að setja nánari reglur á sviðum á borð við stjórnkerfi, skilmála útboðs, matsviðmið sem tengjast virkri eignarhlutdeild, útreikninga vátryggingaskulda og eiginfjárkrafna, fjárfestingarreglur og eftirlit með samstæðum. Framkvæmdastjórninni skal einnig veitt umboð til að samþykkja framkvæmdarráðstafanir sem veita þriðja landi jafna stöðu að því er varðar ákvæði þessarar tilskipunar. Þar eð þessar ráðstafanir eru almenns eðlis og þeim er ætlað að breyta veigalitlum þáttum þessarar tilskipunar, m.a. með því að bæta við hana veigalitlum þáttum, skulu þær samþykktar í samræmi við stjórnsýslumálsmeðferð með eftirliti sem mælt er fyrir um í 5. gr. a í ákvörðun 1999/468/EB.
133)    Þar eð aðildarríkin geta ekki fyllilega náð markmiðum þessarar tilskipunar og þeim verður betur náð á vettvangi Bandalagsins, vegna þess hve aðgerðirnar eru umfangsmiklar og hafa víðtæk áhrif, er Bandalaginu heimilt að samþykkja ráðstafanir í samræmi við dreifræðisregluna eins og kveðið er á um í 5. gr. sáttmálans. Í samræmi við meðalhófsregluna, eins og hún er sett fram í þeirri grein, er ekki gengið lengra en nauðsyn krefur í þessari tilskipun til að ná megi þessum markmiðum.
134)    Tilskipun ráðsins 64/225/EBE frá 25. febrúar 1964 um afnám hafta á staðfesturétti og rétti til að veita þjónustu á sviði endurtrygginga ( 2 ), tilskipun ráðsins 73/240/EBE frá 24. júlí 1973 um afnám hafta á staðfesturétti á sviði atvinnurekstrar með frumtryggingar aðrar en líftryggingar ( 3 ), tilskipun ráðsins 76/580/EB frá 29. júní 1976 um breytingar á tilskipun 73/239/ EBE um samræmingu á lögum og stjórnsýslufyrirmælum til að hefja og reka starfsemi á sviði frumtrygginga annarra en líftrygginga ( 4 ) og tilskipun ráðsins 84/641/EBE frá 10. desember 1984 með breytingu á fyrstu tilskipun 73/ 239/EBE, einkum að því er varðar aðstoð við ferðamenn, um samræmingu á lögum og stjórnsýslufyrirmælum til að hefja og reka starfsemi á sviði frumtrygginga annarra en líftrygginga ( 5 ) eru orðnar úreltar og því ber að fella þær úr gildi.
135)    Sú skylda að lögleiða þessa tilskipun skal takmarkast við þau ákvæði sem fela í sér verulega breytingu, samanborið við fyrri tilskipanir. Kveðið er á um skylduna til að lögleiða óbreyttu ákvæðin í fyrri tilskipununum.
136)    Þessi tilskipun hefur ekki áhrif á skuldbindingar aðildarríkjanna varðandi fresti þeirra til að lögleiða tilskipanirnar sem eru tilgreindar í B-hluta VI. viðauka.
137)    Framkvæmdastjórnin mun fara yfir hvort gildandi ábyrgðarkerfi á vátryggingasviði séu fullnægjandi og gera viðeigandi tillögur að nýrri löggjöf.
138)    Ákvæði 2. mgr. 17. gr. tilskipunar Evrópuþingsins og ráðsins 2003/41/EB frá 3. júní 2003 um starfsemi og eftirlit með stofnunum sem sjá um starfstengdan lífeyri ( 6 ) vísa til núgildandi löggjafar um gjaldþol. Þessum tilvísunum skal haldið til þess að viðhalda óbreyttu ástandi. Framkvæmdastjórnin skal endurskoða tilskipun 2003/41/EB skv. 4. mgr. 21. gr. hennar, eins fljótt og kostur er. Framkvæmdastjórnin skal, með fulltingi samstarfsnefndarinnar, þróa heillegt kerfi gjaldþolsreglna fyrir stofnanir um starfstengdan lífeyri sem endurspeglar um leið helstu sérkenni vátrygginga, og skal því ekki fela í sér úrskurð um að beiting þessarar tilskipunar gildi um þær stofnanir.
139)    Samþykkt þessarar tilskipunar breytir áhættusniði vátryggingafélagsins gagnvart vátryggingartakanum. Framkvæmdastjórnin skal, eins fljótt og kostur er og í síðasta lagi fyrir árslok 2010, leggja fram tillögu að endurskoðun á tilskipun Evrópuþingsins og ráðsins 2002/92/EB frá 9. desember 2002 um miðlun vátrygginga ( 7 ), með tilliti til þeirra afleiðinga sem þessi tilskipun hefur fyrir vátryggingartaka.
140)    Mikil þörf er á enn frekari umbótum á fyrirkomulagi reglusetningar og eftirlits að því er varðar fjármálageira Evrópusambandsins og skal framkvæmdastjórnin setja þær fram hið fyrsta, að teknu tilhlýðilegu tilliti til niðurstaðna sem sérfræðingahópurinn undir forystu Jacques de Larosière kynnti hinn 25. febrúar 2009. Framkvæmdastjórnin skal leggja fram frumvarp að þeim lögum sem nauðsynleg eru til að ráða bót á annmörkum sem komið hafa í ljós á ákvæðum sem varða samræmingu á eftirliti og fyrirkomulagi samvinnu.
141)    Nauðsynlegt er að leita ráða hjá samstarfsnefndinni um hvernig best sé að annast aukið eftirlit með samstæðum og stýringu á fjármagni innan samstæðu vátryggingafélaga, þ.m.t. endurtryggingafélög. Samstarfsnefndinni skal boðið að gefa ráð sem auðvelda framkvæmdastjórninni að þróa tillögur sínar samkvæmt skilyrðum sem eru í samræmi við öfluga vernd vátryggingartaka (og rétthafa) og vernd fjárhagslegs stöðugleika. Í því skyni skal samstarfsnefndinni boðið að veita framkvæmdastjórninni ráðgjöf um skipulag og meginreglur sem geta vísað veginn til síðari breytinga á þessari tilskipun, sem þörf kann að vera á til að tillögur um breytingar komist í framkvæmd. Framkvæmdastjórnin skal leggja fram skýrslu ásamt viðeigandi tillögum til Evrópuþingsins og ráðsins um annað fyrirkomulag um varfærniseftirlit með vátryggingafélögum, þ.m.t. endurtryggingafélög, innan samstæðna sem auka skilvirkni við stýringu á fjármagni innan samstæðna ef í ljós kemur að fullnægjandi stuðningur sé af regluramma til að koma slíku fyrirkomulagi á.
    Sérstaklega er æskilegt að reglur um stuðning við samstæður hvíli á traustum grunni sem byggist á samræmdu ábyrgðarkerfi vátrygginga, sem fjármagnað er á fullnægjandi hátt, á samræmdum og bindandi lagaramma fyrir lögbær yfirvöld, seðlabanka og fjármálaráðuneyti að því er varðar krísustjórnun og -lausnir og skiptingu fjárhagslegra byrða, sem stillir saman eftirlitsheimildir og fjárhagslega ábyrgð, á bindandi lagaramma til að miðla málum í deilum um eftirlit, á samræmdum ramma fyrir snemmíhlutun í mál og á samræmdum ramma um framsalshæfi eigna, ógjaldfærnimeðferð og slitameðferð sem fellir brott viðkomandi landsbundnar hindranir á sviði félaga- og fyrirtækjaréttar að því er varðar framsalshæfi eigna. Í skýrslu sinni skal framkvæmdastjórnin einnig taka tillit til tímaáhrifa af áhættudreifingu og áhættu sem tengist þátttöku í samstæðu, starfsvenjum miðlægrar áhættustýringar samstæðu og rekstri innri líkana samstæðu ásamt eftirliti með viðskiptum innan samstæðu og áhættusamþjöppun.
142)    Í samræmi við 34. lið samstarfssamningsins milli stofnana um betri lagasetningu ( 1 ) eru aðildarríkin hvött til að taka saman, fyrir sig og í þágu Bandalagsins, eigin töflur sem sýna, eftir því sem við verður komið, samsvörun milli þessarar tilskipunar og ráðstafananna til að lögleiða hana og að birta þær,
SAMÞYKKT TILSKIPUN ÞESSA:

EFNISYFIRLIT

I. BÁLKUR    ALMENNAR REGLUR UM AÐ HEFJA OG REKA STARFSEMI Á SVIÐI FRUMTRYGGINGA OG ENDURTRYGGINGA
I. KAFLI    Efni, gildissvið og skilgreiningar
1. ÞÁTTUR    Efni og gildissvið     1. og 2. gr.
2. ÞÁTTUR    Útilokun frá gildissviði
1. undirþáttur    Almenn atriði     3. og 4. gr.
2. undirþáttur    Skaðatrygging     5.–8. gr.
3. undirþáttur    Líftrygging     9. og 10. gr.
4. undirþáttur    Endurtryggingar     11. og 12. gr.
3. ÞÁTTUR    Skilgreiningar     13. gr.
II. KAFLI    Rekstur hafinn     14.–26. gr.
III. KAFLI    Eftirlitsyfirvöld og almennar reglur     27.–39. gr.
IV. KAFLI    Skilyrði fyrir atvinnurekstri
1. ÞÁTTUR    Ábyrgð stjórnar, framkvæmdastjórnar eða eftirlitsstjórnar     40. gr.
2. ÞÁTTUR    Stjórnkerfi     41.–50. gr.
3. ÞÁTTUR    Opinber birting     51.–56. gr.
4. ÞÁTTUR    Virk eignarhlutdeild     57.–63. gr.
5. ÞÁTTUR    Þagnarskylda, upplýsingaskipti og kynning á samleitni eftirlits     64.–71. gr.
6. ÞÁTTUR    Skyldur endurskoðenda     72. gr.
V. KAFLI    Rekstur líftrygginga- og skaðatryggingastarfsemi     73.–74. gr.
VI. KAFLI    Reglur um mat á eignum og skuldum, vátryggingaskuldum, eigin fé, gjaldþolskröfum, lágmarkskröfum um eigið fé og fjárfestingarreglum
1. ÞÁTTUR    Mat á eignum og skuldum     75. gr.
2. ÞÁTTUR    Reglur um vátryggingaskuld     76.–86. gr.
3. ÞÁTTUR    Eigið fé
1. undirþáttur    Ákvörðun eigin fjár     87.–92. gr.
2. undirþáttur    Flokkun eigin fjár     93.–97. gr.
3. undirþáttur    Viðurkenning á eiginfjárliðum     98. og 99. gr.
4. ÞÁTTUR    Gjaldþolskrafa
1. undirþáttur    Almenn ákvæði um gjaldþolskröfuna með því að nota staðalformúluna eða innra líkan     100.–102. gr.
2. undirþáttur    Stöðluð formúla gjaldþolskröfu (SCR)     103.–111. gr.
3. undirþáttur    Heildstæð eða hlutstæð innri líkön gjaldþolskröfu     112.–127. gr.
5. ÞÁTTUR    Lágmarkskröfur um eigið fé     128.–131. gr.
6. ÞÁTTUR    Fjárfestingar     132.–135. gr.
VII. KAFLI    Vátryggingafélög, þ.m.t. endurtryggingafélög, sem eiga í erfiðleikum eða búa við óvenjulegar aðstæður     136.–144. gr.
VIII. KAFLI    Staðfesturéttur og frelsi til að veita þjónustu
1. ÞÁTTUR    Stofnsetning vátryggingafélaga     145.–146. gr.
2. ÞÁTTUR    Frelsi vátryggingafélaga til að veita þjónustu
1. undirþáttur    Almenn ákvæði     147.–149. gr.
2. undirþáttur    Bótaábyrgð þriðja aðila á vélknúnum ökutækjum     150.–152. gr.
3. ÞÁTTUR    Valdsvið eftirlitsyfirvalda gistiaðildarríkisins
1. undirþáttur    Vátryggingar     153.–157. gr.
2. undirþáttur    Endurtryggingar     158. gr.
4. ÞÁTTUR    Tölfræðilegar upplýsingar     159. gr.
5. ÞÁTTUR    Meðferð samninga útibúa í slitameðferð     160.–161. gr.
IX. KAFLI    Útibú með staðfestu innan Bandalagsins og tilheyra vátryggingafélögum, þ.m.t. endurtryggingafélög, sem hafa aðalskrifstofur utan Bandalagsins
1. ÞÁTTUR    Rekstur hafinn     162.–171. gr.
2. ÞÁTTUR    Endurtryggingar     172.–175. gr.
X. KAFLI    Dótturfélög vátryggingafélaga, þ.m.t. endurtryggingafélög, sem heyra undir löggjöf þriðja lands, og öflun slíkra félaga á eignarhlutum    176. og 177. gr.
II. BÁLKUR    SÉRTÆK ÁKVÆÐI UM VÁTRYGGINGAR OG ENDURTRYGGINGAR
I. KAFLI    Gildandi lög og skilmálar um frumtryggingasamninga
1. ÞÁTTUR    Gildandi lög     178. gr.
2. ÞÁTTUR    Lögboðnar tryggingar     179. gr.
3. ÞÁTTUR    Almennir hagsmunir     180. gr.
4. ÞÁTTUR    Skilmálar vátryggingarsamninga og iðgjaldataxta     181. og 182. gr.
5. ÞÁTTUR    Upplýsingar sem veittar skulu vátryggingatökum
1. undirþáttur    Skaðatryggingar     183. og 184. gr.
2. undirþáttur    Líftryggingar     185. og 186. gr.
II. KAFLI    Ákvæði sem gilda sérstaklega um skaðatryggingar
1. ÞÁTTUR    Almenn ákvæði     187.–189. gr.
2. ÞÁTTUR    Samtryggingar í Bandalaginu     190.–196. gr.
3. ÞÁTTUR    Aðstoð     197. gr.
4. ÞÁTTUR    Vátryggingar í tengslum við málsvarnarkostnað     198.–205. gr.
5. ÞÁTTUR    Sjúkratryggingar     206. gr.
6. ÞÁTTUR    Atvinnuslysatrygging     207. gr.
III. KAFLI    Ákvæði sem gilda sérstaklega um líftryggingar     208. og 209. gr.
IV. KAFLI    Reglur sem gilda sérstaklega um endurtryggingar     210. og 211. gr.
III. BÁLKUR    EFTIRLIT MEÐ VÁTRYGGINGAFÉLÖGUM, Þ.M.T. ENDURTRYGGINGAFÉLÖGUM, Í SAMSTÆÐU
I. KAFLI    Samstæðueftirlit: skilgreiningar, dæmi um beitingu, gildissvið og stig
1. ÞÁTTUR    Skilgreiningar     212. gr.
2. ÞÁTTUR    Dæmi um beitingu og gildissvið     213. og 214. gr.
3. ÞÁTTUR    Stig    215.–217. gr.
II. KAFLI    Fjárhagsstaða
1. ÞÁTTUR    Gjaldþol samstæðu
1. undirþáttur    Almenn ákvæði     218. og 219. gr.
2. undirþáttur    Val á útreikningsaðferð og almennar grundvallarreglur     220.–224. gr.
3. undirþáttur    Beiting útreikningsaðferða     225.–229. gr.
4. undirþáttur    Útreikningsaðferðir     230.–234. gr.
5. undirþáttur    Eftirlit með gjaldþoli samstæðna hjá vátryggingafélögum, þ.m.t. endurtryggingafélögum, sem eru dótturfélög eignarhaldsfélags á vátryggingasviði    235. gr.
6. undirþáttur    Eftirlit með gjaldþoli samstæðna hjá samstæðum með miðlæga áhættustjórnun     236.–243. gr.
2. ÞÁTTUR    Samþjöppun áhættu og viðskipti innan samstæðu     244. og 245. gr.
3. ÞÁTTUR    Áhættustjórnun og innra eftirlit     246. gr.
III. KAFLI    Ráðstafanir til að auðvelda samstæðueftirlit     247.–259. gr.
IV. KAFLI    Þriðju lönd     260.–264. gr.
V. KAFLI    Eignarhaldsfélög á vátryggingasviði með blandaða starfsemi     265. og 266. gr.
IV. BÁLKUR    ENDURSKIPULAGNING OG SLIT VÁTRYGGINGAFÉLAGA
I. KAFLI    Gildissvið og skilgreiningar     267. og 268. gr.
II. KAFLI    endurskipulagningarráðstafanir     269.–272. gr.
III. KAFLI    Slitameðferð     273.–284. gr.
IV. KAFLI    Sameiginleg ákvæði     285.–296. gr.
V. BÁLKUR    ÖNNUR ÁKVÆÐI     297.–304. gr.
VI. BÁLKUR    UMBREYTINGAR- OG LOKAÁKVÆÐI
I. KAFLI    Umbreytingarákvæði
1. ÞÁTTUR    Vátryggingar     305. og 306. gr.
2. ÞÁTTUR    Endurtryggingar     307. og 308. gr.
II. KAFLI    Lokaákvæði     309.–312. gr.
I. VIÐAUKI    FLOKKAR SKAÐATRYGGINGA
A.    Röðun áhættu í vátryggingarflokka
B.    Heiti á greinaflokkum þegar starfsleyfi er veitt samtímis fyrir fleiri en einn flokk vátrygginga
II. VIÐAUKI    FLOKKAR LÍFTRYGGINGA
III. VIÐAUKI    LAGALEGT FORM FÉLAGA
A.    Skaðatryggingafélög:
B.    Líftryggingafélög:
C.    Félagsform endurtryggingafélaga:
IV. VIÐAUKI    STÖÐLUÐ FORMÚLA GJALDÞOLSKRÖFU (SCR)
1.    Útreikningur á grunngjaldþolskröfu
2.    Útreikningur á áhættueiningu skaðatrygginga
3.    Útreikningur á áhættueiningu líftrygginga
4.    Útreikningur á markaðsáhættueiningu
V. VIÐAUKI    FLOKKAR SKAÐATRYGGINGA AÐ ÞVÍ ER VARÐAR 159. GR.
VI. VIÐAUKI
A-hluti    Niðurfelldar tilskipanir með skrá yfir síðari breytingar þeirra (sem um getur í 310. gr.)
B-hluti    Skrá yfir fresti til lögleiðingar í aðildarríkjunum (sem um getur í 310. gr.)
VII. VIÐAUKI     SAMSVÖRUNARTAFLA

I. BÁLKUR
ALMENNAR REGLUR UM AÐ HEFJA OG REKA STARFSEMI Á SVIÐI FRUMTRYGGINGA- OG ENDURTRYGGINGA
I. KAFLI
Efni, gildissvið og skilgreiningar

1. þáttur
Efni og gildissvið
1. gr.
Efni

Í þessari tilskipun er mælt fyrir um reglur um eftirfarandi:
1)    að hefja og reka sjálfstæða starfsemi frumtrygginga og endurtrygginga í Bandalaginu,
2)    eftirlit með vátrygginga- og endurtryggingasamstæðum,
3)    endurskipulagning og slit á starfsemi á sviði frumtrygginga.

2. gr.
Gildissvið

1.     Þessi tilskipun skal gilda um félög sem annast frumtryggingar á sviði líftrygginga og skaðatrygginga á yfirráðasvæði aðildarríkis eða sem óska að starfa þar.
Hún skal einnig gilda um endurtryggingafélög sem annast eingöngu endurtryggingar og eru með staðfestu í aðildarríki eða sem óska eftir staðfestu þar, að undanteknum IV. bálki.
2.     Hvað skaðatryggingar varðar skal þessi tilskipun gilda um þá starfsemi sem sett er fram í A-hluta I. viðauka. Að því er varðar fyrstu undirgrein 1. mgr. skulu skaðatryggingar taka til starfsemi sem felst í að aðstoða fólk sem lendir í erfiðleikum á ferðalögum, þegar það er að heiman eða ekki statt þar sem það hefur fasta búsetu. Gegn fyrirframgreiðslu iðgjalds skal hún fólgin í því að gera aðstoð þegar aðgengilega fyrir rétthafann samkvæmt samningi um aðstoð, ef einstaklingurinn sem um ræðir á í erfiðleikum í kjölfar atburðar sem gerst hefur af tilviljun, í þeim tilvikum og samkvæmt þeim skilmálum sem sett eru fram í samningnum.
Aðstoðin getur verið fólgin í úthlutun bóta í fé eða fríðu. Úthlutun bóta í fríðu getur einnig verið með þeim hætti að starfsfólk vátryggingarsalans eða búnaður kom henni í kring.
Aðstoðarstarfsemi nær ekki yfir þjónustu, viðhald, viðhaldsþjónustu eða aðeins vísan til eða útvegun bóta milliliðs.
3.     Hvað varðar líftryggingar skal þessi tilvísun gilda um:
a)    eftirtaldar tegundir líftryggingastarfsemi ef hún er gerð á grundvelli samninga:
    i.    líftryggingar sem fela í sér útborgun einvörðungu við tiltekinn aldur, við andlát, við tiltekinn aldur eða fyrr ef andlát ber að höndum, líftryggingu með endurgreiðslu iðgjalda, hjónalíftryggingu og líftryggingu við fæðingu,
    ii.    lífeyristryggingar,
    iii.    viðbótartryggingar sem teknar eru í viðbót við líftryggingar, einkum tryggingar gegn líkamstjóni, þ.m.t. vátrygging gegn starfsorkumissi, vátrygging vegna andláts af völdum slyss og vátrygging gegn fötlun af völdum slyss eða sjúkdóms,
    iv.    gerðir sjúkratrygginga til frambúðar án uppsagnar, í gildi á Írlandi og Bretlandi eins og sakir standa,
b)    eftirfarandi starfsemi þegar hún er á samningsgrundvelli, að svo miklu leyti sem starfsemin er háð eftirliti yfirvalds sem ber ábyrgð á eftirliti með einkavátryggingum:
    i.    starfsemi þar sem stofnsett eru samtök félagsmanna sem hafa það að markmiði að ávaxta sameiginleg framlög þeirra og úthluta eignum sem þannig safnast milli eftirlifenda eða til rétthafa eftir látna félaga,
    ii.    fjármögnunarstarfsemi sem byggist á tryggingafræðilegum útreikningum og skuldbindur sig, í tilgreindan tíma, til að greiða tilgreindar fjárhæðir sem eingreiðslu eða fyrirframákveðnar reglubundnar greiðslur,
    iii.    stjórnun lífeyrissjóða, sem nær til stjórnunar á fjárfestingum, einkum eignunum er standa undir varasjóðum þeirra aðila sem sjá um greiðslur við andlát eða þegar tilteknum aldri er náð eða þegar starfsemi er lögð af eða hún dregst saman,
    iv.    starfsemi sem um getur í iii. lið þegar vátrygging fylgir sem annaðhvort nær til varðveislu fjár eða greiðslu lágmarksávöxtunar,
    v.    starfsemi líftryggingafélaga sem vísað er til í 1. kafla 4. bálks bókar nr. IV í hinum franska „Code des assurances“,
c)    starfsemi sem háð er ævilengd manna og nánar er mælt fyrir um eða kveðið á um í almannatryggingalöggjöf að svo miklu leyti sem rekstur eða framkvæmd eru í höndum líftryggingafélaga og þau taka á sig áhættuna samkvæmt löggjöf aðildarríkis.

2. þáttur
Útilokun frá gildissviði
1. undirþáttur
Almenn atriði
3. gr.
Lögboðin kerfi

Með fyrirvara um c-lið 3. mgr. 2. gr. skal þessi tilskipun ekki gilda um vátryggingu sem er hluti af lögboðnu kerfi almannatrygginga.

4. gr.
Undanþága frá gildissviði vegna stærðar

1.     Með fyrirvara um 3. gr. og 5.–10. gr. skal þessi tilskipun ekki gilda um vátryggingafélag sem uppfyllir öll eftirfarandi skilyrði:
a)    árlegar bókfærðar brúttóiðgjaldatekjur félagsins eru ekki hærri en 5 milljónir evra,
b)    heildarvátryggingaskuld félagsins, endurheimtanleg heildarfjárhæð vegna endurtryggingarsamninga og félaga með sérstakan tilgang sem um getur í 76. gr., er ekki hærri en 25 milljónir evra,
c)    ef félagið er hluti samstæðu er heildarvátryggingaskuld félagsins, skilgreind sem endurheimtanleg heildarfjárhæð vegna endurtryggingarsamninga og félaga með sérstakan tilgang, ekki hærri en 25 milljónir evra,
d)    viðskipti félagsins ná ekki yfir vátrygginga- eða endurtryggingastarfsemi sem tekur til bótaábyrgðar, greiðslu- og efndavátryggingar, nema þegar um hliðaráhættu er að ræða í skilningi 1. mgr. 16. gr.,
e)    viðskipti félagsins ná ekki yfir endurtryggingastarfsemi yfir 0,5 milljónum evra af bókfærðum brúttóiðgjaldatekjum þess eða 2,5 milljónum evra af vátryggingaskuld endurheimtanlegrar heildarfjárhæðar af endurtryggingarsamningum og félögum með sérstakan tilgang, eða yfir 10% af bókfærðum brúttóiðgjaldatekjum félagsins eða yfir 10% af vátryggingaskuldum þess af endurheimtanlegri heildarfjárhæð vátryggingasamninga og félaga með sérstakan tilgang.
2.     Ef farið er framúr einhverri fjárhæðanna sem sett er fram í 1. mgr. þrjú ár í röð skal þessi tilskipun gilda frá fjórða árinu.
3.     Þrátt fyrir ákvæði 1. mgr. skal þessi tilskipun gilda um öll félög sem hyggjast fá leyfi til að reka vátryggingastarfsemi, þ.m.t. endurtryggingarstarfsemi, með árlegar bókfærðar brúttóiðgjaldatekjur eða vátryggingaskuld af endurheimtanlegri heildarfjárhæð vátryggingasamninga og félaga með sérstakan tilgang sem reiknað er með að fari yfir fjárhæðirnar sem settar eru fram í 1. mgr., innan næstu fimm ára.
4.     Tilskipunin skal falla úr gildi hvað varðar vátryggingafélög ef eftirlitsyfirvöld hafa staðfest að þau uppfylli öll eftirfarandi skilyrði:
a)    ekki var farið framúr neinum viðmiðunarmörkum sem sett eru fram í 1. mgr. næstu þrjú árin á undan, og
b)    ekki er búist við að farið verði framúr viðmiðunarmörkunum sem sett eru fram í 1. mgr. næstu fimm ár.
Svo lengi sem viðkomandi vátryggingafélag stundar starfsemi í samræmi við 145.–149. gr. gildir 1. mgr. þessarar greinar ekki.
5.     Ákvæði 1. og 4. mgr. koma ekki í veg fyrir að félag sæki um starfsleyfi eða haldi því samkvæmt þessari tilskipun.

2. undirþáttur
Skaðatrygging
5. gr.
Rekstur

Hvað skaðatryggingar varðar gildir þessi tilskipun ekki um eftirfarandi starfsemi:
1)    starfsemi sem lýtur að innlausn fjármagns, samkvæmt skilgreiningu í hverju aðildarríkjanna,
2)    starfsemi styrktarstofnana gagnkvæmra stofnana þar sem bætur eru breytilegar eftir fjármagni sem fyrir hendi er en framlag hvers félagsmanns er föst greiðsla,
3)    starfsemi stofnana sem ekki hafa réttarstöðu lögaðila hvað það varðar að veita meðlimum sínum gagnkvæma vernd, án þess að til komi nokkrar iðgjaldagreiðslur eða vátryggingasjóðir séu stofnsettir, eða
4)    greiðsluvátrygging vegna útflutnings á reikning eða ábyrgð ríkisins, eða ef ríkið er vátryggjandinn.

6. gr.
Aðstoð

1.     Tilskipunin nær ekki til aðstoðarstarfsemi sem uppfyllir öll eftirfarandi skilyrði:
a)    aðstoðin er veitt ef slys ber að höndum eða ökutæki bilar, ef slysið eða bilunin á sér stað á yfirráðasvæði aðildarríkis vátryggingafélagsins,
b)    ábyrgðin á aðstoðinni er takmörkuð við eftirfarandi starfsemi:
    i.    bilanaþjónustu á staðnum þar sem vátryggingafélagið notast yfirleitt við eigið starfsfólk og búnað,
    ii.    færslu ökutækisins á næsta eða hentugasta stað fyrir viðgerðir og mögulegur flutningur, venjulega með sama aðstoðarfarartæki, á bílstjóra og farþegum á næsta stað sem hentar til að halda ferðinni áfram á annan hátt, og
    iii.    flutning farartækisins, ef heimaaðildarríki vátryggingafélagsins kveður á um slíkan flutning, mögulega ásamt því að flytja bílstjóra og farþega heim, á brottfararstað eða ákvörðunarstað innan sama ríkis, og
c)    aðstoðin er ekki veitt af félagi sem fellur undir þessa tilskipun.
2.     Í þeim tilvikum sem um getur í i. og ii. lið í b-lið 1. mgr. gildir skilyrðið um að slysið eða bilunin hafi átt sér stað á yfirráðasvæði aðildarríkis vátryggingafélagsins ekki ef rétthafinn er meðlimur vátryggingafélagsins og bilunar- eða flutningsþjónustan er einfaldlega veitt gegn framvísun meðlimakorts án þess að nokkurt viðbótariðgjald sé greitt af sambærilegu félagi í viðkomandi landi á grunni gagnkvæms samkomulags eða, sé um Írland og Bretland að ræða, ef aðstoðarstarfsemin er veitt af einu félagi sem rekur starfsemi sína í báðum ríkjunum.
3.     Þessi tilskipun gildir ekki um starfsemi sem um getur í iii. lið b-liðar 1. mgr. ef slysið eða bilunin átti sér stað á yfirráðasvæði Írlands eða, hvað Bretland varðar, á yfirráðasvæði Norður-Írlands og farartækið, ásamt bílstjóra og farþegum ef því er að skipta, er flutt á heimilið, brottfararstað eða ákvörðunarstað, hvort sem yfirráðasvæðið er.
4.     Þessi tilskipun gildir ekki um aðstoðarstarfsemi sem Bifreiðaklúbbur Stórhertogadæmis Lúxemborgar framkvæmir, ef slysið eða bilunin í ökutæki hefur átt sér stað utan stórhertogadæmisins og aðstoðin er fólgin í því að flytja ökutækið heim, hugsanlega ásamt bílstjóra og farþegum.

7. gr.
Gagnkvæm félög

Þessi tilskipun gildir ekki um gagnkvæm félög sem reka skaðatryggingar og hafa komist að samkomulagi við önnur gagnkvæm félög um fulla endurtryggingu vátryggingarsamninga sem þau hafa gefið út, eða þá að félagið, sem annast tryggingarnar, uppfylli skuldbindingarnar sem leiða af slíkri stefnu í stað félagsins sem endurtryggir. Í því tilviki fellur félagið sem annast tryggingarnar undir reglur þessarar tilskipunar.

8. gr.
Stofnanir

Þessi tilskipun gildir ekki um eftirtalin félög sem reka skaðatryggingar, nema samþykktum þeirra eða gildandi lögum sé breytt að því er varðar hæfni:
1)    í Danmörku, Falck Danmark,
2)    í Þýskalandi, eftirtaldar hálfopinberar stofnanir:
    a)    Postbeamtenkrankenkasse,
    b)    Krankenversorgung der Bundesbahnbeamten,
3)    á Írlandi, the Voluntary Health Insurance Board,
4)    á Spáni, the Consorcio de Compensación de Seguros.

3. undirþáttur
Líftrygging
9. gr.
Starfsemi

Hvað líftryggingar varðar gildir þessi tilskipun ekki um eftirfarandi starfsemi:
1)    starfsemi ýmissa gagnkvæmra sjóða og stofnana þar sem bætur eru breytilegar eftir fjármagni sem fyrir hendi er og þar sem krafist er að hver félagsmaður leggi fram fast framlag,
2)    starfsemi samtaka, annarra en félaga sem um getur í 2. gr., sem hafa að markmiði að greiða launþegum eða sjálfstætt starfandi einstaklingum, sem tilheyra félagi eða félögum eða atvinnugrein eða atvinnugreinum, bætur við andlát eða þegar tilteknum aldri er náð, þegar starfsemi er lögð af eða dregið úr henni, hvort sem líftryggingasjóður er ávallt fyrir hendi til að standa undir þeim skuldbindingum sem þessi starfsemi hefur í för með sér,
3)    starfsemi lífeyristryggingafélaga, sem kveðið er á um í Employees Pension Act (TyEL) og annarri tengdri finnskri löggjöf, að því tilskildu:
    a)    að lífeyristryggingafélög, sem samkvæmt finnskum lögum ber þegar skylda til að hafa aðskilið bókhalds- og stjórnunarkerfi fyrir starfsemi sína, muni, frá 1. janúar 1995, setja á stofn sérstaka lögaðila til að reka þessa starfsemi, og
    b)    að finnsk yfirvöld veiti öllum ríkisborgurum og félögum í aðildarríkjunum leyfi, á jafnréttisgrundvelli, til að reka starfsemi, samkvæmt finnskum lögum, sem tilgreind er í 2. gr. í tengslum við þá undanþágu, hvort sem er í krafti eignarhalds eða hlutdeildar í vátryggingafélagi eða -samstæðu sem fyrir er eða með því að mynda eða taka þátt í nýjum vátryggingafélögum eða samstæðum , þ.m.t. lífeyristryggingafélög.

10. gr.
Samtök, félög og stofnanir

Hvað líftryggingar varðar gildir þessi tilskipun ekki um eftirfarandi samtök, félög og stofnanir:
1)    samtök sem einungis skuldbinda sig til að greiða bætur við andlát og fjárhæð bótanna er ekki hærri en meðalútfararkostnaður fyrir einstakling þegar bætur eru veittar í fríðu,
2)    „Versorgungsverband deutscher Wirtschaftsorganisationen“ í Þýskalandi, nema samþykktum þess verði breytt að því er varðar umfang starfseminnar,
3)    „Consorcio de Compensación de Seguros“ á Spáni nema samþykktum þess sé breytt að því er varðar umfang í framkvæmdum og hæfni.

4. undirþáttur
Endurtryggingar
11. gr.
Endurtryggingar

Hvað endurtryggingar varðar gildir þessi tilskipun ekki um endurtryggingastarfsemi sem er í höndum ríkisstjórnar aðildarríkis eða tryggð til fulls af ríkisstjórn aðildarríkis þegar sú ríkisstjórn, af ástæðum sem varða mikilvæga hagsmuni almennings, veitir endurtryggingavernd sem að öðrum kosti væri ófáanleg, þ.m.t. þegar hún verður að gegna slíku hlutverki vegna aðstæðna á markaðinum þar sem ekki er hægt að fá fullnægjandi vátryggingavernd á markaðskjörum.

12. gr.
Endurtryggingafélög sem hætta starfsemi

1.     Endurtryggingafélög, sem hætta að gera endurtryggingasamninga fyrir 10. desember 2007 og stjórna fyrirliggjandi vátryggingastofni eingöngu með það í huga að hætta starfsemi sinni, heyra ekki undir þessa tilskipun.
2.     Aðildarríkin skulu gera skrá yfir viðkomandi endurtryggingafélög og senda hana öllum hinum aðildarríkjunum.

3. þáttur
Skilgreiningar
13. gr.
Skilgreiningar

Í þessari tilskipun er merking eftirfarandi hugtaka sem hér segir:
1)    „endurtryggingafélag“: félag sem fengið hefur opinbert starfsleyfi í samræmi við 14. gr. og rekur frumtryggingar á sviði vá- og endurtrygginga,
2)    „bundið tryggingafélag“: vátryggingafélag sem er annaðhvort í eigu fjármálafyrirtækis, þó ekki vátryggingafélags eða endurtryggingafélags eða samstæðu vátrygginga- eða endurtryggingafélaga í merkingu c-liðar 1. mgr. 212. gr., eða í eigu fyrirtækis, annars en fjármálafyrirtækis, sem hefur að markmiði að vátryggja einungis áhættu fyrirtækis eða fyrirtækja sem það tilheyrir eða áhættu fyrirtækis eða fyrirtækja samstæðunnar sem það á aðild að,
3)    „vátryggingafélag þriðja lands“: félag sem þyrfti starfsleyfi sem vátryggingafélag í samræmi við 14. gr. ef aðalskrifstofa þess væri í Bandalaginu,
4)    „endurtryggingafélag“: félag sem fengið hefur starfsleyfi í samræmi við 14. gr. til að reka endurtryggingar,
5)    „bundið endurtryggingafélag“: endurtryggingafélag sem er annaðhvort í eigu fjármálafyrirtækis, þó ekki vátryggingafélags eða endurtryggingafélags eða samstæðu vátrygginga- eða endurtryggingafélaga í merkingu c-liðar 1. mgr. 212. gr., eða í eigu fyrirtækis, annars en fjármálafyrirtækis, sem hefur að markmiði að endurtryggja einungis áhættu fyrirtækis eða fyrirtækja sem það tilheyrir eða áhættu fyrirtækis eða fyrirtækja samstæðunnar sem það á aðild að,
6)    „endurtryggingafélag þriðja lands“: félag sem þyrfti starfsleyfi sem endurtryggingafélag í samræmi við 14. gr. ef aðalskrifstofa þess væri í Bandalaginu,
7)    „endurtryggingar“: annað tveggja:
    a)    starfsemi sem felst í því að taka á sig áhættu sem vátryggingarfélag, vátryggingarfélag í þriðja landi, endurtryggingarfélag eða endurtryggingarfélag í þriðja landi hefur látið frá sér, eða
    b)    ef um er að ræða samtök vátryggjenda sem þekkt eru undir nafninu Lloyd's felst starfsemin í því að taka á sig áhættu, sem félagi í Lloyd's, vátryggingafélag eða endurtryggingafélag, þó ekki samtök vátryggjenda sem þekkt eru undir nafninu Lloyd's, hefur látið frá sér,
8)    „heimaaðildarríki“: eitthvað af eftirtöldu:
    a)    hvað skaðatryggingu viðkemur, aðildarríkið þar sem aðalskrifstofa vátryggingafélagsins, sem gengst undir áhættuna, er staðsett,
    b)    hvað líftryggingu viðkemur, aðildarríkið þar sem aðalskrifstofa vátryggingafélagsins, sem gengst undir skuldbindinguna, er staðsett, eða
    c)    hvað endurtryggingu viðkemur, aðildarríkið þar sem aðalskrifstofa endurtryggingafélagsins er staðsett,
9)    „gistiaðildarríki“: aðildarríki annað en heimaaðildarríkið þar sem vátrygginga- eða endurtryggingafélag er með útibú eða veitir þjónustu á sviði líf- og skaðatrygginga, á hinn bóginn merkir „aðildarríki þar sem þjónustan er veitt“ aðildarríkið sem skuldbindur sig eða aðildarríkið þar sem áhættan er, ef sú skuldbinding eða áhætta fellur undir vátryggingafélag eða útibú í öðru aðildarríki,
10)    „eftirlitsyfirvald“: innlent yfirvald eða innlend yfirvöld sem heimilt er að lögum eða samkvæmt reglugerð að hafa eftirlit með vátrygginga- eða endurtryggingafélögum,
11)    „útibú“: umboð eða útibú vátrygginga- eða endurtryggingafélags sem staðsett er á yfirráðasvæði annars aðildarríkis en heimaaðildarríkisins,
12)    „starfsstöð“: aðalskrifstofa félags eða eitthvert útibúa þess,
13)    „aðildarríki þar sem áhættan er staðsett“ merkir eitthvað af eftirfarandi:
    a)    aðildarríki þar sem eign er staðsett, ef vátryggingin tekur annað hvort til bygginga eða bygginga og innbús, svo fremi að sama vátryggingafélag tryggi innbúið.
    b)    skráningaraðildarríki þar sem vátryggingin tekur til farartækja af einhverju tagi,
    c)    aðildarríki þar sem vátryggingartaki gekk frá tryggingu ef um er að ræða tryggingu, til fjögurra mánaða eða skemmri tíma, á áhættu á ferðalagi eða í fríi, óháð flokki tryggingar,
    d)    í öllum tilvikum sem falla ekki beinlínis undir a-, b- eða c-lið, aðildarríkið þar sem annað tveggja er fyrir hendi:
         i.    föst búseta vátryggingartaka eða
         ii.    ef vátryggingartakinn er lögaðili, starfsstöð vátryggingartakans sem samningurinn tekur til,
14)    „Aðildarríkið þar sem gengist er undir skuldbindinguna“: aðildarríkið þar sem annað tveggja er fyrir hendi:
    a)    föst búseta vátryggingartaka,
    b)    ef vátryggingartakinn er lögaðili, starfsstöð vátryggingartakans sem samningurinn tekur til,
15)    „móðurfyrirtæki“: móðurfyrirtæki í skilningi 1. gr. tilskipunar 83/349/EBE,
16)    „dótturfyrirtæki“: dótturfyrirtæki í skilningi 1. gr. tilskipunar 83/349/EBE, þ.m.t. dótturfyrirtæki þeirra,
17)    „náin tengsl“: staða þar sem tveir eða fleiri einstaklingar eða lögaðilar tengjast í gegnum yfirráð eða hlutdeild, eða staða þar sem tveir eða fleiri einstaklingur eða lögaðilar eru varanlega tengdir einni og sömu persónunni yfirráðatengslum,
18)    „yfirráð“: sambandið milli móðurfyrirtækis og dótturfyrirtækis, eins og það er sett fram í 1. gr. tilskipunar 83/349/EBE, eða sams konar samband milli fyrirtækis og einstaklinga eða lögpersóna,
19)    „viðskipti innan samstæðu“: öll viðskipti þar sem vátrygginga- eða endurtryggingafélag er, beint eða óbeint, háð öðrum fyrirtækjum innan sömu samstæðu, eða einstaklingi eða lögaðila sem er í nánum tengslum við fyrirtækin í þeirri samstæðu, varðandi það að standa við skuldbindingu, hvort sem hún er samningsbundin eða ekki og hvort heldur er gegn greiðslu eða ekki,
20)    „hlutdeild“: eignarhald á minnst 20% atkvæðisréttar eða eigin fjár fyrirtækis, beint eða með yfirráðarétti,
21)    „virk eignarhlutdeild“: bein eða óbein eignarhlutdeild í fyrirtæki sem nemur 10% eða meira af höfuðstól eða atkvæðisrétti, eða annað sem gerir það kleift að hafa veruleg áhrif á stjórnun fyrirtækis,
22)    „skipulegur markaður“: annað hvort eftirfarandi:
    a)    ef um er að ræða markað í aðildarríki, skipulegur markaður eins og hann er skilgreindur í 14. lið 1. mgr. 4. gr. tilskipunar 2004/39/ EBE eða
    b)    ef um er að ræða markað í þriðja landi, fjármálamarkaður sem uppfyllir eftirfarandi skilyrði:
         i.    hann er viðurkenndur af heimaaðildarríki vátryggingafélagsins og uppfyllir sambærilegar kröfur og þær sem mælt er fyrir um í tilskipun 2004/39/EB, og
         ii.    fjármálagerningar sem verslað er með á þessum markaði eru sambærilegir að gæðum og þeir gerningar sem verslað er með á skipulegum markaði eða mörkuðum heimaaðildarríkisins,
23)    „landsskrifstofa“: landsskrifstofa bifreiðatrygginga eins og hún er skilgreind í 3. mgr. 1. gr. tilskipunar 72/166/EBE,
24)    „landsbundinn ábyrgðarsjóður“: stofnunin sem um getur í 4. mgr. 1. gr. tilskipunar 84/5/EBE,
25)    „fjármálastofnun“: einhver eftirfarandi stofnana:
    a)    lánastofnun, fjármálastofnun eða þjónustufyrirtæki í tengslum við bankastarfsemi í skilningi 1., 5. og 21. mgr. 4. gr. tilskipunar 2006/48/EB, í þeirri röð,
    b)    vátryggingafélag, endurtryggingafélag eða eignarhaldsfélag á vátryggingasviði í skilningi f-liðar 1. mgr. 212. gr.,
    c)    verðbréfafyrirtæki eða fjármálastofnun í skilningi 1. liðar 1. mgr. 4. gr. tilskipunar 2004/39/EB, eða
    d)    eignarhaldsfélag á fjármálasviði með blandaða starfsemi í skilningi 15. mgr. 2. gr. tilskipunar 2002/87/EB,
26)    „félag með sérstakan tilgang“: félag, hvort sem það er hlutafélag eða ekki, annað en starfandi vátrygginga- eða endurtryggingafélag, sem yfirtekur áhættu frá vátrygginga- eða endurtryggingafélögum og tryggir sig alfarið gegn slíkri áhættu með hagnaði af útgáfu skuldabréfa eða með hvers konar öðru fjármögnunarfyrirkomulagi þar sem endurgreiðsluréttur þeirra sem útvega slík skuldabréf eða fjármögnunarfyrirkomulag víkur fyrir endurtryggingaskuldbindingum slíks félags,
27)    „mikil áhætta“:
    a)    áhætta í vátryggingaflokkum 4, 5, 6, 7, 11 og 12 í A-hluta I. viðauka,
    b)    áhætta í vátryggingaflokkum 14 og 15 í A- hluta I. viðauka ef vátryggingartakinn er ráðinn í vinnu við iðnaðar- eða viðskiptastarfsemi, eða tilheyrir menntastéttunum, og þær áhættur sem slíkri starfsemi er samfara,
    c)    áhætta í vátryggingaflokkum 3, 8, 9, 10, 13 og 16 í A-hluta I. viðauka, að svo miklu leyti sem vátryggingartakinn fer fram úr að minnsta kosti tveimur af eftirfarandi viðmiðunum:
         i.    efnahagsreikningur sem nemur 6,2 milljónum evra,
         ii.    hrein velta í merkingu fjórðu tilskipunar ráðsins 78/660/EBE frá 25. júlí 1978 sem er byggð á g-lið 3. mgr. 54. gr. sáttmálans, um ársreikninga félaga af tiltekinni gerð ( 1 ) sem nemur 12,8 milljónum evra,
         iii.    á fjárhagsárinu séu starfsmenn 250 að meðaltali.
    Ef vátryggingartaki tilheyrir fyrirtækjasamstæðu sem samstæðureikningsskil eru gerð fyrir, í skilningi tilskipunar 83/349/EB, skal beita viðmiðunum sem sett eru fram í c-lið fyrsta undirliðar samkvæmt samstæðureikningsskilunum.
    Aðildarríkjunum er heimilt að bæta við flokkinn sem um getur í c-lið fyrsta undirliðar þeim áhættum sem fagfélög, samrekstur eða félög sem sameinast tímabundið vátryggja,
28)    „útvistun“: fyrirkomulag í hvaða formi sem er milli vátrygginga- eða endurtryggingafélags og þjónustuveitanda, einnig einingar sem eru undir eftirliti, en samkvæmt því sér þessi þjónustuveitandi um framkvæmd, þjónustu eða starfsemi, annaðhvort beint eða á formi undirútvistunar sem vátrygginga- eða endurtryggingafélagið myndu annars annast,
29)    „rekstur“: innri geta innan stjórnkerfis til að takast verkleg verkefni á hendur, stjórnkerfi tekur til áhætturekstrar, starfsemi til uppfyllingar ákvæða, innri endurskoðunar og tryggingafræðilegrar starfsemi,
30)    „vátryggingaráhætta“: hætta á tapi eða neikvæðri breytingu á verðmæti vátryggingaskulda vegna ófullnægjandi forsendna hvað varðar verðlagningu og skuldbindingar,
31)    „markaðsáhætta“: hætta á tapi eða neikvæðri breytingu á fjárhagsstöðu sem stafar beint eða óbeint af sveiflum á stigi og óstöðugleika á markaðsvirði fjármuna, skulda og fjármálagerninga,
32)    „lánsfjáráhætta“: hætta á tapi eða neikvæðri breytingu á fjárhagsstöðu sem stafar af sveiflum á lánsfjárstöðu útgefenda verðbréfa, mótaðila og allra skuldara sem vátryggingafélög, þ.m.t. endurtryggingafélög, verða fyrir, í formi áhættu af vanskilum mótaðila, áhættudreifingar eða samþjöppunar markaðsáhættu,
33)    „rekstraráhætta“: hætta á tapi sem leiðir af ófullnægjandi innri ferlum, starfsfólki og kerfum, eða af ytri atburðum,
34)    „lausafjáráhætta“: sú áhætta að vátryggingafélög, þ.m.t. endurtryggingafélög, geti ekki innleyst fjárfestingar og aðrar eignir til að gera upp fjárskuldbindingar þegar þær koma til greiðslu,
35)    „samþjöppun áhættu“: öll áhætta sem getur hugsanlega haft í för með sér tap sem er nógu mikið til að ógna gjaldþoli eða fjárhagsstöðu vátryggingafélaga, þ.m.t. endurtryggingafélaga,
36)    „tækni til að draga úr áhættu“: öll tækni sem gerir vátryggingafélögum, þ.m.t. endurtryggingafélögum, kleift að flytja áhættu yfir á annan aðila, að hluta til eða að öllu leyti,
37)    „fjölbreytileg áhrif“: það að draga úr áhættu vátryggingafélaga, þ.m.t. endurtryggingafélaga, og samstæðna sem tengjast fjölbreytileika viðskipta þeirra, sem leiðir af því að neikvæð niðurstaða úr einu áhættudæmi kann að jafnast út af jákvæðari niðurstöðu úr öðru, ef ekki er full fylgni milli þeirra,
38)    „líkindadreifing byggð á spá“: stærðfræðilegt fall sem gefur til kynna líkurnar á því að tæmandi mengi framtíðaratburða sem útiloka hverjir aðra muni gerast í raun og veru,
39)    „áhættumat“: stærðfræðilegt fall sem setur fjárhæð á tiltekna líkindadreifingu byggða á spá sem eykst í takt við áhættustigið sem liggur líkindadreifingunni til grundvallar.

II. KAFLI
Rekstur hafinn
14. gr.
Meginreglan um starfsleyfi

1.     Gefið skal út starfsleyfi fyrir frumtryggingum og endurtryggingum, sem þessi tilskipun tekur til, áður en rekstur hefst.
2.     Leitað skal eftir starfsleyfinu sem um getur í 1. mgr. hjá eftirlitsyfirvöldum í heimaaðildarríkinu með eftirfarandi hætti:
a)    hvert það félag sem stofnsetur aðalskrifstofu innan yfirráðasvæðis þess ríkis, eða
b)    hvert það vátryggingafélag sem í krafti starfsleyfis skv. 1. mgr. óskar eftir að útvíkka starfsemi sína svo hún nái yfir vátryggingaflokk í heild eða vátryggingaflokka, aðra en þá sem þegar hefur verið veitt starfsleyfi fyrir.

15. gr.
Gildissvið starfsleyfis

1.     Starfsleyfi skv. 14. gr. gildir alls staðar í Bandalaginu. Það heimilar vátryggingafélögum, þ.m.t. endurtryggingafélögum, að stunda starfsemi þar, og tekur starfsleyfið einnig til staðfesturéttar og frelsis til að veita þjónustu.
2.     Með fyrirvara um 14. gr. skal starfsleyfi veitt vegna sérstaks flokks frumtrygginga eins og þær eru skráðar í A-hluta I. viðauka eða í II. viðauka. Leyfið nær til flokks líftrygginga í heild nema umsækjandi óski eftir að tryggja aðeins hluta þeirrar áhættu sem greinaflokkurinn tekur til.
Áhætta sem fellur undir tiltekinn flokk skal ekki talin með neinum öðrum flokki nema í tilvikum sem um getur í 16. gr.
Heimilt er að veita starfsleyfi í tveimur eða fleiri greinaflokkum trygginga þegar landslög aðildarríkis heimila að slíkir greinaflokkar séu reknir samtímis.
3.     Hvað skaðatryggingar varðar geta aðildarríki veitt starfsleyfi fyrir þá hópa vátryggingaflokka sem skráðir eru í B-hluta I. viðauka.
Eftirlitsyfirvöldum er heimilt að takmarka starfsleyfi sem sótt er um fyrir tiltekinn greinaflokk líftrygginga við starfsemi samkvæmt rekstraráætluninni sem um getur í 23. gr.
4.     Félög sem falla undir þessa tilskipun geta aðeins stundað aðstoðarstarfsemi sem um getur í 6. gr. ef þau hafa fengið starfsleyfi fyrir 18. greinaflokk í A- hluta I. viðauka, með fyrirvara um 1. mgr. 16. gr. Ef svo ber undir skal þessi tilskipun gilda um viðkomandi starfsemi.
5.     Hvað endurtryggingar varðar skal veitt starfsleyfi fyrir endurtryggingastarfsemi á sviði skaðatrygginga, líftrygginga og hvers kyns endurtrygginga.
Það skal metið á grundvelli starfsáætlana sem lagðar skulu fram skv. b-lið 18. gr. og 11. gr. og að uppfylltum skilyrðum sem aðildarríkið, þar sem sótt er um starfsleyfið, setur.

16. gr.
Hliðaráhætta

1.     Vátryggingafélag sem hefur fengið starfsleyfi vegna höfuðstólsáhættu sem tilheyrir einum greinaflokki eða hópi greinaflokka, eins og þeir eru settir fram í I. viðauka, geta einnig tryggt áhættu í öðrum greinaflokki og þarf þá ekki að fá starfsleyfi hvað þá áhættu varðar, ef áhættan uppfyllir öll eftirfarandi skilyrði:
a)    hún tengist höfuðstólsáhættunni,
b)    hún varðar hlutinn sem er tryggður gegn höfuðstólsáhættunni og
c)    hún fellur undir samninginn sem tryggir höfuðstólsáhættuna.
2.     Þrátt fyrir 1. gr. skal ekki líta á áhættuna í 14., 15. og 17. greinaflokki í A-hluta sem hliðaráhættu við aðra greinaflokka.
Þó má líta á vátryggingu gegn málsvarnarkostnaði, eins og hún er sett fram í 17. greinaflokki, sem hliðaráhættu við 18. greinaflokk að uppfylltum öðrum hvorum eftirfarandi skilyrða:
a)    Mikilvægasta áhættan tekur eingöngu til aðstoðarinnar sem veitt er fólki sem ratar í vandræði á ferðalögum, er að heiman eða ekki statt þar sem það á fasta búsetu, eða
b)    vátryggingin varðar ágreining eða áhættu sem kemur upp vegna, eða í tengslum við, notkun hafskipa.

17. gr.
Lagalegt form vátrygginga- og endurtryggingafélaga

1.     Heimaaðildarríkið skal gera kröfu um að hvert félag, sem sótt er um leyfi fyrir skv. 14. gr., taki upp eitt af þeim lagalegu formum sem sett eru fram í III. viðauka.
2.     Aðildarríkin geta komið á stofn félögum sem lúta opinberum rétti, að því tilskildu að slík félög hafi vátrygginga- og endurtryggingastarfsemi að markmiði, samkvæmt sambærilegum skilyrðum og þeim sem gilda um félög sem starfa í samræmi við einkarétt.
3.     Framkvæmdastjórnin getur samþykkt framkvæmdarráðstafanir sem varða viðbót við skrána yfir eyðublöð sem sett er fram í III. viðauka.
Þessar ráðstafanir, sem er ætlað að breyta veigalitlum þáttum þessarar tilskipunar með því að auka við hana, skulu samþykktar í samræmi við stjórnsýslumálsmeðferðina með athugun sem um getur í 3. mgr. 301. gr.

18. gr.
Skilyrði fyrir starfsleyfi

1.     Heimaaðildarríkið skal gera kröfu um að hvert félag sem sótt er um starfsleyfi fyrir:
a)    hvað vátryggingafélög varðar, að þau takmarki rekstrartilgang sinn við vátryggingar og tengda starfsemi og starfsemi sem rakin verður beint til hennar, á kostnað allra annarra viðskipta,
b)    hvað endurtryggingafélög varðar, að þau takmarki rekstrartilgang sinn við endurtryggingar og tengda starfsemi, þessi krafa getur tekið til hlutverks og starfsemi eignarhaldsfélags sem tengist fjármálastarfsemi í skilningi 8. mgr. 2. gr. í tilskipun 2002/87/EB,
c)    leggi fram rekstraráætlun í samræmi við 23. gr.,
d)    haldi viðurkennt eigin fé til að standa straum af algjöru lágmarki lágmarkseiginfjárkröfu sem kveðið er á um í d-lið 1. mgr. 129. gr.,
e)    að færa sönnur á að það verði áfram í stöðu til að halda viðurkenndu eigin fé til að ná yfir gjaldþolskröfuna, eins og kveðið er á um í 100. gr.,
f)    að færa sönnur á að það verði áfram í stöðu til að halda viðurkenndu eigin fé til að ná yfir gjaldþolskröfuna, eins og kveðið er á um í 128. gr.,
g)    að færa sönnur á að það verði í stöðu til að vera í samræmi við stjórnkerfið sem um getur í 2. þætti IV. kafla,
h)    hvað varðar skaðatryggingar, tilkynni nafn og heimilisfang allra tjónauppgjörsfulltrúa sem tilnefndir eru skv. 4. gr. tilskipunar 2000/26/EB í hverju aðildarríki öðru en því þar sem sótt er um starfsleyfið, ef áhættan sem tryggt er gegn flokkast í 10. flokk í A-lið viðaukans, að undanskilinni ábyrgð vegna flutninga.
2.     Vátryggingafélag, sem sækir um starfsleyfi til að færa starfsemi sína út til annarra greinaflokka líftrygginga, eða um útvíkkun á starfsleyfi sem tekur eingöngu til hluta af áhættum sem flokkaðar eru undir einn greinaflokk, skal leggja fram rekstraráætlun samkvæmt ákvæðum 23. gr.
Það skal að auki skal það færa sönnur á að það hafi yfir að ráða viðurkenndu eigin fé til að standa straum af gjaldþolskröfu og lágmarkskröfu um eigið fé sem kveðið er á um í fyrstu málsgrein 100. gr. og 128. gr.
3.     Með fyrirvara um aðra málsgrein skal vátryggingafélag sem annast líftryggingar og hyggst fá útvíkkað starfsleyfi til að ná yfir áhættur þær sem taldar eru upp í 1. eða 2. greinaflokki í A-hluta I. viðauka eins og um getur í 73. gr., sýna fram á að það:
a)    hafi yfir að ráða viðurkenndu eigin fé til að standa straum af algjöru lágmarki lágmarkseiginfjárkröfu fyrir líftryggingafélög og algjört lágmark lágmarkskröfu um eigið fé hvað varðar skaðatryggingafélög, eins og um getur í d-lið 1. mgr. 129. gr.,
b)    skuldbindi sig til að standa áfram straum af lágmarksfjárskuldbindingunum sem um getur í 3. mgr. 74. gr.
4.     Með fyrirvara um aðra málsgrein skal vátryggingafélag sem annast skaðatryggingar sem taka til áhættna sem taldar eru upp í 1. eða 2. greinaflokki í A-hluta I. viðauka og hyggst fá útvíkkað starfsleyfi til að ná yfir áhættur á sviði líftrygginga sem um getur í 73. gr., sýna fram á að það:
a)    hafi yfir að ráða viðurkenndu eigin fé til að standa straum af algjöru lágmarki lágmarkseiginfjárkröfu fyrir líftryggingafélög og algjört lágmark lágmarkskröfu um eigið fé hvað varðar skaðatryggingafélög, eins og um getur í d-lið 1. mgr. 129. gr.,
b)    skuldbindi sig til að standa áfram straum af lágmarksfjárskuldbindingum sem um getur í 3. mgr. 74. gr.

19. gr.
Náin tengsl

Ef náin tengsl eru milli vátryggingafélagsins eða endurtryggingafélagsins og annarra einstaklinga eða lögaðila skulu eftirlitsyfirvöld einungis veita leyfi ef sýnt er að þessi tengsl komi ekki í veg fyrir að þau sinni eftirlitshlutverki sínu.
Eftirlitsyfirvöld skulu synja um starfsleyfi ef lög og stjórnsýslufyrirmæli þriðja lands, sem gilda um einn eða fleiri einstaklinga eða lögaðila sem vátrygginga- eða endurtryggingafélagið hefur náin tengsl við, eða vandkvæði tengd framkvæmd þeirra koma í veg fyrir að yfirvaldið sinni eftirlitshlutverki sínu með skilvirkum hætti.
Eftirlitsyfirvöld skulu krefjast þess að vátryggingafélög, þ.m.t. endurtryggingafélög, veiti þeim nauðsynlegar upplýsingar svo að þau geti gengið úr skugga um að jafnan sé farið að skilyrðunum sem um getur í fyrstu málsgrein.

20. gr.
Aðalskrifstofa vátryggingafélaga, þ.m.t. endurtryggingafélög

Aðildarríkin skulu krefjast þess að aðalskrifstofur vátryggingafélaga, þ.m.t. endurtryggingafélaga, séu staðsettar í sama aðildarríki og skráðar skrifstofur þeirra.

21. gr.
Tryggingaskilmálar og iðgjaldataxtar

1.     Aðildarríkjunum er óheimilt að krefjast fyrirframsamþykkis við eða reglubundinna tilkynninga á almennum og sérstökum tryggingaskilmálum, iðgjaldatöxtum, tæknilegum grundvelli sem er einkum notaður við útreikning á iðgjaldatöxtum og vátryggingaskuld eða eyðublöðum og öðrum prentuðum skjölum sem félag hefur í hyggju að nota í skiptum sínum við vátryggingataka eða félög sem endurtryggja.
Hvað líftryggingar varðar, og í þeim eina tilgangi að sannreyna að farið sé að ákvæðum landslaga hvað varðar tryggingafræðilegar meginreglur, getur heimaaðildarríkið þó krafist þess að því sé tilkynnt reglulega um hvaða tæknilegi grundvöllur sé notaður við útreikning á iðgjaldatöxtum og vátryggingaskuldum. Þessi krafa skal þó ekki vera skilyrði starfsleyfis til handa líftryggingafélagi.
2.     Aðildarríki skulu ekki viðhalda eða taka upp fyrirframtilkynningu eða samþykki hækkunar iðgjalda, nema sem hluta af almennu verðstýringakerfi.
3.     Aðildarríki geta gert félögum, sem æskja starfsleyfis eða hafa öðlast það fyrir 18. greinaflokk í A- hluta I. viðauka, að sæta eftirliti hvað varðar bein eða óbein verðmæti í starfsfólki og búnaði, þ.m.t. hæfi lækningahópa þeirra og búnaðar sem er tiltækur þessum félögum til að standa við þær skuldbindingar sínar sem leiða af þessum greinaflokki.
4.     Aðildarríki geti haldið gildandi lögum eða sett lög og stjórnsýslufyrirmæli þar sem krafist er samþykkis á stofnsamningi og -samþykktum og að tilkynnt sé um önnur nauðsynleg skjöl svo unnt sé að framfylgja eðlilegu eftirliti.

22. gr.
Þörf fyrir starfsemina á markaðinum

Aðildarríkin skulu ekki gera kröfu um að fjallað sé um umsókn um starfsleyfi í ljósi þess hvort efnahagsleg þörf sé fyrir starfsemina á markaðinum.

23. gr.
Rekstraráætlun

1.     Í rekstraráætlun, sem um getur í c-lið 1. mgr. 18. gr., skal tilgreina einstök atriði eða staðfestingu á eftirfarandi:
a)    eðli þeirrar áhættu eða skuldbindinga sem viðkomandi vátrygginga- eða endurtryggingafélag hyggst tryggja gegn,
b)    fyrirkomulag á endurtryggingum sem endurtryggingafélagið leggur til við endurtryggingafélögin,
c)    meginreglur um endurtryggingar,
d)    þættir viðurkennds eigin fjár sem standa fyrir algjört lágmark lágmarkseiginfjárkröfu,
e)    áætlaðan kostnað við að koma upp rekstraraðstöðu og skipulagi til að tryggja áframhaldandi starfsemi, fjármagn sem ætlað er að standa straum af honum og, ef áhættan sem tryggt er gegn flokkast í 18. flokk A-hluta 1. viðauka, úrræði sem vátryggingafélagið hefur aðgang að til að veita þá aðstoð sem heitið hefur verið.
2.     Auk krafnanna sem settar eru fram í fyrstu málsgrein um þrjú fyrstu fjárhagsárin skal áætlunin innihalda eftirfarandi:
a)    áætlaðan efnahagsreikning,
b)    Mat á framtíðargjaldþolskröfum, eins og kveðið er á um í 1. undirlið 4. þáttar VI. kafla, á grundvelli áætlaðs efnahagsreiknings sem um getur í a- lið, og einnig reikningsaðferðin sem beitt er til að leiða fram þetta mat,
c)    Mat á lágmarkskröfum um eigið fé, eins og kveðið er á um í 128. og 129. gr., á grundvelli áætlaðs efnahagsreiknings sem um getur í a-lið, og einnig reikningsaðferðin sem beitt er til að leiða fram þetta mat,
d)    mat á fjármagni sem ætlað er að standa straum af vátryggingaskuldum, lágmarkskröfum um eigið fé og gjaldþolskröfum,
e)    og einnig eftirfarandi, að því er varðar vátryggingar, þ.m.t. endurtryggingar:
    i.    áætlaður stjórnunarkostnaður, annar en uppsetningarkostnaður, einkum almennur kostnaður vegna daglegs reksturs og umboðslauna,
    ii.    áætluð iðgjöld eða framlög og kröfur,
f)    hvað varðar líftryggingar, einnig áætlun með nákvæmri spá um tekjur og kostnað vegna frumtryggingastarfsemi, móttöku endurtrygginga og vegna endurtryggingaverndar,

24. gr.
Hluthafar og aðilar með virka eignarhlutdeild

1.     Eftirlitsyfirvöld heimaaðildarríkis skulu ekki veita félagi starfsleyfi til að hefja vátrygginga- og endurtryggingastarfsemi fyrr en þau hafa fengið upplýsingar um hverjir séu hluthafar eða aðilar, beint eða óbeint, hvort þeir séu einstaklingar eða lögaðilar, hverjir hafi yfir að ráða virkri eignarhlutdeild í félaginu, svo og hve stóran hlut þeir eiga.
Þessi yfirvöld skulu synja um starfsleyfi ef þau telja með hliðsjón af nauðsyn þess að tryggja trausta og varfærna stjórnun vátrygginga- eða endurtryggingafélags að fyrrnefndir hluthafar eða aðilar séu ekki hæfir.
2.     Að því er varðar 1. mgr. skal hafa í huga atkvæðisréttinn sem um getur í 9. og 10. gr. tilskipunar Evrópuþingsins og ráðsins 2004/109/EB frá 15. desember 2004 um samhæfingu krafna um gagnsæi í tengslum við upplýsingar um verðbréf sem eru skráð á skipulegan markað ( 1 ), og um þau skilyrði um söfnun sem þeirra sem mælt er fyrir um í 4. og 5. mgr. 12. gr. þeirrar tilskipunar.
Aðildarríki skulu ekki taka tillit til atkvæðisréttar eða hlutabréfa sem fjárfestingarfyrirtæki eða lánastofnanir kunna að eiga eftir að hafa veitt sölutryggingu vegna fjármálagerninga og/eða markaðssett fjármálagerninga á skuldbindandi grundvelli skv. 6. lið A-þáttar í I. viðauka við tilskipun 2004/39/EB, að því tilskildu að þessi réttindi séu ekki nýtt eða notuð á annan hátt til að hlutast til um stjórn útgefandans og að þeim sé ráðstafað innan eins árs frá yfirtökunni.

25. gr.
Synjun starfsleyfis

Í ákvörðun um synjun starfsleyfis skulu allar ástæður tilgreindar og skal viðkomandi félagi tilkynnt um þær.
Aðildarríki skulu sjá til þess að synjun á starfsleyfi megi áfrýja til dómstóla.
Sama skal gilda í því tilviki þegar eftirlitsyfirvöld hafa ekki tekið afstöðu til umsóknar um starfsleyfi til umfjöllunar innan sex mánaða frá móttöku hennar.

26. gr.
Fyrirframsamráð við yfirvöld annarra aðildarríkja

1.     Hafa skal samráð við eftirlitsyfirvöld annars viðkomandi aðildarríkis áður en starfsleyfi er veitt:
a)    dótturfélag vátryggingafélags eða endurtryggingafélags með starfsleyfi í því aðildarríki,
b)    dótturfélag móðurfélags vátryggingafélags eða endurtryggingafélags með starfsleyfi í því aðildarríki eða
c)    félag sem er undir yfirráðum einstaklings eða lögaðila sem hefur yfirráð yfir vátryggingafélagi eða endurtryggingafélagi með starfsleyfi í því aðildarríki.
2.     Hafa skal samráð við yfirvöld í hlutaðeigandi aðildarríki, sem bera ábyrgð á eftirliti með lánastofnunum eða fjárfestingarfyrirtækjum, áður en vátrygginga- eða endurtryggingafélagi er veitt starfsleyfi ef það er:
a)    dótturfélag lánastofnunar eða fjárfestingarfyrirtækis með starfsleyfi í Bandalaginu,
b)    dótturfélag móðurfélags lánastofnunar eða fjárfestingarfyrirtækis með starfsleyfi í Bandalaginu eða
c)    félag undir yfirráðum einstaklings eða lögaðila sem hefur yfirráð yfir lánastofnun eða fjárfestingarfyrirtæki með starfsleyfi í Bandalaginu.
3.     Viðkomandi yfirvöld, sem um getur í 1. og 2. mgr., skulu einkum hafa samráð sín á milli við mat á hæfi hluthafanna og hæfnis- og heiðarleikakrafna sem gerðar eru til allra einstaklinga sem í reynd stjórna eða gegna öðru lykilhlutverki í því fyrirtæki sem tekur þátt í stjórnun annarrar einingar í sömu samstæðu.
Þau skulu veita hvert öðru allar upplýsingar um hæfi hluthafa og um hæfnis- og heiðarleikakröfur sem gerðar eru til allra einstaklinga sem í reynd stjórna eða gegna öðru lykilhlutverki í félaginu, og sem skipta máli fyrir önnur viðkomandi, lögbær yfirvöld sem koma að málinu vegna leyfisveitingar eða yfirstandandi mats á því hvort rekstrarskilyrði séu uppfyllt.

III. KAFLI
Eftirlitsyfirvöld og almennar reglur
27. gr.
Meginmarkmiðið með eftirliti

Aðildarríki skulu sjá til þess að eftirlitsyfirvöldum séu veitt öll nauðsynleg úrræði, og búi yfir viðeigandi sérþekkingu, getu, og umboði til að ná fram meginmarkmiðinu með eftirliti, nánar tiltekið vernd vátryggingartaka og rétthafa.

28. gr.
Fjárhagslegur stöðugleiki og sveifluaukning

Með fyrirvara um meginmarkmiðið með eftirliti, eins og það er sett fram í 27. gr., skulu aðildarríkin tryggja, við framkvæmd almennra skyldna sinna, að eftirlitsyfirvöld taki með viðeigandi hætti til athugunar möguleg áhrif ákvarðana þeirra á stöðugleika fjármálakerfisins í Evrópusambandinu, einkum ef neyðarástand skapast, með tilliti til upplýsinga sem þá voru aðgengilegar.
Þegar hreyfingar eru sérstaklega miklar á fjármálamörkuðum skulu eftirlitsyfirvöld taka tillit til sveifluaukandi áhrifa sem athafnir þeirra geta mögulega valdið.

29. gr.
Meginreglur um eftirlit

1.     Framvirk nálgun og nálgun byggð á hættumati skulu lagðar eftirliti til grundvallar. Með eftirlitinu skal stöðugt sannprófað að vátrygginga- og endurtryggingastarfsemi sé starfrækt með réttum hætti og að farið sé að eftirlitsákvæðum vátryggingafélaga, þ.m.t. endurtryggingafélaga.
2.     Eftirlit með vátryggingafélögum, þ.m.t. endurtryggingafélögum, skal vera viðeigandi blanda af starfsemi utan vettvangs og vettvangsskoðunum.
3.     Aðildarríki skulu tryggja að kröfunum sem mælt er fyrir um í þessari tilskipun sé beitt í samræmi við eðli, umfang og þá flóknu áhættu sem innbyggð er í starfsemi vátrygginga- og endurtryggingafélaga.
4.     Framkvæmdastjórnin skal tryggja að framkvæmdarráðstafanir taki tillit til meðalhófsreglunnar og tryggja þar með að þessari tilskipun sé beitt hófsamlega, einkum hvað varðar lítil vátryggingafélög.

30. gr.
Eftirlitsyfirvöld og gildissvið eftirlitsins

1.     Fjármálaeftirlit með vátryggingafélögum, þ.m.t. endurtryggingafélögum, þ.m.t. eftirlit með starfsemi sem þau reka, annaðhvort fyrir milligöngu útibúa eða samkvæmt frelsi til að veita þjónustu, skal alfarið vera á ábyrgð heimaaðildarríkisins.
2.     Fjármálaeftirlit, skv. 1. mgr., skal taka til sannprófunar á allri starfsemi vátrygginga- og endurtryggingafélagsins, gjaldþolsstöðu þess, vátryggingaskuld, eignum og viðurkenndu eigin fé í samræmi við settar reglur eða gildandi starfshætti í heimaaðildarríkinu samkvæmt ákvæðum Bandalagsins.
Ef viðkomandi vátryggingafélag hefur heimild til að tryggja áhættur sem flokkaðar eru í 18. flokk í A- hluta I. viðauka skal eftirlitið ná til þeirra tæknilegu tilfanga sem vátryggingafélagið ræður yfir til að framkvæma þær hjálparaðgerðir sem það hefur tekið að sér, ef lög heimaaðildarríkisins kveða á um eftirlit með slíkum tilföngum.
3.     Ef eftirlitsyfirvöld aðildarríkisins þar sem áhættan er staðsett, eða aðildarríkið þar sem gengist hefur verið undir skuldbindinguna eða, ef um endurtryggingafélag er að ræða, ef eftirlitsyfirvöld í gistiaðildarríkinu hafa ástæðu til að ætla að starfsemi vátrygginga- eða endurtryggingafélagsins geti haft áhrif á trausta fjárhagsstöðu þess, skulu þau kynna það fyrir eftirlitsyfirvöldum heimaaðildarríkis félagsins.
Eftirlitsyfirvöld heimaaðildarríkisins skulu ganga úr skugga um hvort félagið fari að varfærnisreglunum sem mælt er fyrir um í þessari tilskipun.

31. gr.
Gagnsæi og ábyrgð

1.     Eftirlitsyfirvöld skulu annast verkefni sín með gagnsæjum og ábyrgum hætti, með tilhlýðilegri vernd trúnaðarupplýsinga.
2.     Aðildarríkin skulu tryggja að eftirfarandi upplýsingar séu birtar:
a)    lagatextar, textar reglugerða, stjórnsýslureglur og almennar leiðbeiningar á sviði vátryggingareglna,
b)    almennar viðmiðanir og aðferðir, þ.m.t. þær aðferðir sem þróaðar hafa verið í samræmi við 4. mgr. 34. gr., sem notaðar eru í endurmatsferli eftirlits eru settar fram í 36. gr.,
c)    samanlögð tölfræðileg gögn um lykilþætti notkunar eftirlitsreglnanna,
d)    á hvaða hátt má nýta þá kosti sem þessi tilskipun kveður á um,
e)    markmiðið með eftirlitinu, hlutverk og starfsemi.
Upplýsingarnar sem kveðið er á um í fyrstu undirgrein skulu duga til þess að unnt sé að bera saman eftirlitsaðferðirnar sem eftirlitsyfirvöld mismunandi aðildarríkja hafa tileinkað sér.
Upplýsingarnar skulu vera á sameiginlegu sniði og uppfærðar reglulega. Upplýsingarnar sem um getur í b- til e-lið fyrstu undirgreinar skulu vera aðgengilegar á einu og sama vefsetri í hverju aðildarríkjanna.
3.     Aðildarríkin skulu kveða á um gagnsæjar verklagsreglur um tilnefningu og brottvikningu þeirra sem sæti eiga í stjórnum og framkvæmdaráðum eftirlitsstofnana þeirra.
4.     Framkvæmdastjórnin skal samþykkja framkvæmdarráðstafanir sem varða 2. mgr. þar sem tilgreindir eru lykilþættir sem birta skal um samanlögð tölfræðileg gögn, sem og snið, gerð, efnisyfirlit og birtingardag upplýsinganna.
Þessar ráðstafanir, sem er ætlað að breyta veigalitlum þáttum þessarar tilskipunar með því að auka við hana, skulu samþykktar í samræmi við stjórnsýslumálsmeðferðina með athugun sem um getur í 3. mgr. 301. gr.

32. gr.
Bann við höfnun endurtryggingarsamninga

1.     Heimaaðildarríki vátryggingafélags skal ekki hafna endurtryggingasamningi sem gerður hefur við endurtryggingafélag, eða vátryggingafélag sem fengið hefur starfsleyfi í samræmi við 14. gr. á forsendum sem tengjast beint traustri fjárhagsstöðu þess endurtrygginga- eða vátryggingafélags.
2.     Heimaaðildarríki vátryggingafélagsins skal ekki hafna endurtryggingasamningi, sem endurtryggingafélagið hefur gert við endurtryggingafélag, sem fengið hefur starfsleyfi í samræmi við þessa tilskipun eða vátryggingafélag, sem fengið hefur starfsleyfi í samræmi við 14. gr., á forsendum sem tengjast beint fjárhagslegum styrkleika þess endurtrygginga- eða vátryggingafélags.

33. gr.
Eftirlit með útibúum með staðfestu í öðru aðildarríki

Aðildarríki skulu kveða á um að ef vátrygginga- eða endurtryggingafélag, sem hefur fengið starfsleyfi í öðru aðildarríki, rekur starfsemi sína fyrir milligöngu útibús geta eftirlitsyfirvöld heimaaðildarríkisins kveðið á um, eftir að hafa tilkynnt það eftirlitsyfirvöldum í viðkomandi gistiaðildarríki, sjálf eða fyrir milligöngu einstaklinga sem þau tilnefna í því skyni, sannprófað á staðnum þær upplýsingar sem eru nauðsynlegar til að tryggja fjármálaeftirlit með félaginu.
Yfirvöld viðkomandi gistiaðildarríkis geta tekið þátt í þessum sannprófunum.

34. gr.
Almennar eftirlitsheimildir

1.     Aðildarríkin skulu tryggja að eftirlitsyfirvöld hafi vald til að grípa til fyrirbyggjandi ráðstafana og ráðstafana til úrbóta til að tryggja að vátryggingafélög, þ.m.t. endurtryggingafélög, fari að lögum þeim og stjórnsýslufyrirmælum sem þau verða að fara að í hverju aðildarríki.
2.     Eftirlitsyfirvöld skuli hafa vald til að grípa til allra nauðsynlegra ráðstafana, þ.m.t. stjórnsýslu- og fjárhagsráðstafanir eftir því sem við á, að því er varðar vátrygginga- og endurtryggingafélög og þá sem sitja í stjórnum, framkvæmdastjórnum eða eftirlitsstjórnum þeirra.
3.     Aðildarríkin skulu tryggja að eftirlitsyfirvöld hafi vald til að krefjast allra nauðsynlegra upplýsinga til að framfylgja eftirliti í samræmi við 35. gr.
4.     Aðildarríkin skulu tryggja að eftirlitsyfirvöld hafi vald til að þróa, í viðbót við útreikning á gjaldþolskröfunni og eftir því sem við á, nauðsynleg megindleg verkfæri í samræmi við endurmatsferlið í eftirliti til að meta hvort vátrygginga- eða endurtryggingafélagið ráði við mögulega atburði eða breytingar í framtíðinni á efnahagsskilyrðum sem gætu haft óheppileg áhrif á heildarfjárhagsstöðu þeirra. Eftirlitsyfirvöld skulu hafa völd til að krefjast þess að félögin framkvæmi samsvarandi prófanir.
5.     Eftirlitsyfirvöld skulu hafa vald til að framkvæma skoðun á staðnum á athafnasvæði vátryggingafélaganna, þ.m.t. endurtryggingafélaganna.
6.     Eftirlitsheimildum skal beitt á heppilegum tíma og af hófsemi.
7.     Vald með tilliti til vátryggingafélaga, þ.m.t. endurtryggingafélög, sem um getur í 1.–5. mgr. skal einnig gilda um útvistaða starfsemi vátryggingafélaga, þ.m.t. endurtryggingafélög.
8.     Því valdi sem um getur í 1. til 5. mgr. og 7. mgr. skal beitt, með fullnustuaðgerðum ef þörf krefur, og fyrir atbeina dómstóla, eftir því sem við á.

35. gr.
Upplýsingar sem veita skal í eftirlitsskyni

1.     Aðildarríkin skulu krefjast þess að vátryggingafélög, þ.m.t. endurtryggingafélög, leggi nauðsynlegar upplýsingar fyrir eftirlitsyfirvöld að því er varðar eftirlit. Þessar upplýsingar taka að minnsta kosti til upplýsinga sem nauðsynlegar eru fyrir eftirfarandi til að annast þá framkvæmd sem um getur í 36. gr.:
a)    til að leggja mat á stjórnkerfi félaganna, viðskiptin sem þau reka, matsreglurnar sem þau nota hvað varðar gjaldþol, þær áhættur sem þau standa frammi fyrir og áhættustjórnunarkerfið, fjármagnsuppbygging, -þarfir og -stjórnun,
b)    til að taka viðeigandi ákvarðanir sem byggjast á beitingu þeirra á eftirlitsréttindum og -skyldum.
2.     Aðildarríkin skulu tryggja að valdsvið eftirlitsyfirvalda taki til eftirfarandi:
a)    að ákvarða eðli, umfang og snið upplýsinganna sem um getur í 1. mgr. sem þau krefjast að vátryggingafélög, þ.m.t. endurtryggingafélög, leggi fram á eftirtöldum tímapunktum:
    i.    á fyrirframskilgreindum tímabilum,
    ii.    þegar fyrirframskilgreindir atburðir gerast,
    iii.    þegar aðstæður vátrygginga- eða endurtryggingafélags eru rannsakaðar,
b)    að afla allra upplýsinga um samninga sem milliliðir hafa séð um eða samninga sem gerðir eru við þriðju aðila, og
c)    að krefjast upplýsinga frá utanaðkomandi sérfræðingum, t.d. endurskoðendum og tryggingafræðingum.
3.     Upplýsingarnar, sem um getur í 1. og 2. mgr., skulu samanstanda af:
a)    eigindlegum og megindlegum þáttum, eða hvers konar viðeigandi samblandi af þeim,
b)    þættir úr þátíð, nútíð eða framtíð, eða hvers konar viðeigandi sambland af þeim,
c)    gögn úr innri eða utanaðkomandi heimildum, eða hvers konar viðeigandi samblandi af þeim.
4.     Upplýsingarnar, sem um getur í 1. og 2. mgr. skulu vera í samræmi við eftirfarandi meginreglur:
a)    þær verða að endurspegla eðli, umfang og hve flókin starfsemi viðeigandi félags er, einkum áhættuna sem er innbyggð í starfsemina,
b)    þær verða að vera aðgengilegar, heildstæðar í öllum mikilvægum atriðum, sambærilegar og samræmdar og stöðugar yfir lengra tímabil, og
c)    þær verða að eiga við og vera áreiðanlegar og auðskiljanlegar.
5.     Aðildarríkin skulu krefjast þess að vátryggingafélög, þ.m.t. endurtryggingafélög, komi á viðeigandi kerfi og skipulagi til að uppfylla kröfurnar sem mælt er fyrir um í 1. til 4. mgr. og einnig skriflegri stefnu sem stjórn, framkvæmdastjórn eða eftirlitsstjórn vátryggingafélagsins, þ.m.t. endurtryggingafélagsins, samþykkir, og tryggi þar með að upplýsingarnar sem lagðar eru fram eigi ávallt við.
6.     Framkvæmdastjórnin skal samþykkja framkvæmdarráðstafanir til að tilgreina nánar upplýsingarnar sem um getur í 1.–4. mgr., með það í huga að tryggja samleitni skýrslugjafar eftirlitsaðila í viðeigandi mæli.
Þessar ráðstafanir, sem er ætlað að breyta veigalitlum þáttum þessarar tilskipunar með því að auka við hana, skulu samþykktar í samræmi við stjórnsýslumálsmeðferðina með athugun sem um getur í 3. mgr. 301. gr.

36. gr.
Eftirlitsferlar

1.     Aðildarríki skulu tryggja að eftirlitsyfirvöld endurskoði og meti stefnu, vinnslu og skýrslugjafaraðferðir sem vátryggingafélög, þ.m.t. endurtryggingafélög, koma á til að fara að lögum og stjórnsýslufyrirmælum sem samþykkt eru, samkvæmt þessari tilskipun.
Sú endurskoðun og það mat skal fela í sér mat á eigindlegum kröfum sem tengjast stjórnkerfinu, mat á þeim áhættum sem félagið stendur frammi fyrir eða kann að standa frammi fyrir, og mat á getu þessara félaga til að meta þessara áhættur, að teknu tilliti til þess umhverfis þar sem félögin starfa.
2.     Eftirlitsyfirvöld skulu einkum endurskoða og meta hvort farið er að eftirfarandi:
a)    stjórnkerfi, þ.m.t. eigin áhætta og mat á gjaldþoli, eins og það er sett fram í 2. þætti IV. kafla,
b)    vátryggingaskuldir eins og þær eru settar fram í 2. þætti VI. kafla,
c)    eiginfjárkröfur eins og þær eru settar fram í 4. og 5. þætti IV. kafla,
d)    fjárfestingarreglur eins og þær eru settar fram í 6. þætti VI. kafla,
e)    gæði og magn eigin fjár eins og sett er fram í 3. þætti VI. kafla,
f)    vátrygginga- eða endurtryggingafélagið notar innra líkan, að fullu eða að hluta, til að standa stöðugt við kröfurnar um innra líkan, að fullu eða að hluta eins og sett er fram í 3. undirlið, fjórða þætti VI. kafla.
3.     Eftirlitsyfirvöld setja upp viðeigandi vöktunarbúnað sem gerir þeim kleift að þekkja versnandi fjármögnunarskilyrði hjá vátrygginga- eða endurtryggingafélagi, og að fylgjast með hvernig ráðin er bót á því.
4.     Eftirlitsyfirvöld skulu meta hvort vátryggingafélögin, þ.m.t. endurtryggingafélögin, hafi þróað fullnægjandi aðferðir og starfsemi til að tilgreina hugsanlega atburði eða framtíðarbreytingar á efnahagsskilyrðum sem gætu haft skaðleg áhrif á heildarfjárhagsstöðu viðkomandi félags.
Eftirlitsyfirvöld skulu meta getu félaganna til að þola þessa hugsanlegu atburði eða framtíðarbreytingar á efnahagsskilyrðum.
5.     Eftirlitsyfirvöld skulu hafa tilskildar heimildir til að krefjast þess að vátryggingafélögin, þ.m.t. endurtryggingafélögin, ráði bót á veikleikum eða ágöllum sem koma í ljós í endurmatsferli eftirlits.
6.     Sú endurskoðun, mat og álit sem um getur í 1., 2. og 4. mgr. skal framkvæmt með reglulegu millibili.
Eftirlitsyfirvöld skulu ákveða lágmarkstíðni og umfang þessarar endurskoðunar, mats og álits, með hliðsjón af eðli, umfangi og því hve flókin starfsemi viðkomandi vátrygginga- og endurtryggingafélag er.

37. gr.
Viðbótargjaldþolskrafa

1.     Í framhaldi af eftirlitsferlum geta eftirlitsyfirvöld sett á viðbótargjaldþolskröfu fyrir vátrygginga- eða endurtryggingafélag í undantekningartilvikum með ákvörðun þar sem ástæðurnar eru tilgreindar. Sá möguleiki skal aðeins eiga við um eftirfarandi tilvik:
a)    Eftirlitsyfirvöld komast að þeirri niðurstöðu að áhættusnið vátrygginga- eða endurtryggingafélagsins greini sig í veigamiklum atriðum frá þeim forsendum sem liggja til grundvallar gjaldþolskröfunni, eins og hún er reiknuð út með því að nota staðalformúluna, í samræmi við 2. undirgrein 4. þáttar VI. kafla, og
    i.    kröfurnar um að nota innra líkan skv. 119. gr. á ekki við eða hefur verið óvirk, eða
    ii.    innra líkan er í þróun, að hluta eða að öllu leyti, í samræmi við 119. gr.,
b)    eftirlitsyfirvöld komast að þeirri niðurstöðu að áhættusnið vátrygginga- eða endurtryggingafélagsins víkur í veigamiklum atriðum frá þeim forsendum sem liggja gjaldþolskröfunni til grundvallar, eins og hún er reiknuð út með því að nota innra líkan, eða innra líkan að hluta, í samræmi við 3. undirlið 4. liðar VI. kafla, þar sem tilteknar, megindlegar áhættur eru ekki teknar upp með fullnægjandi hætti og breytingin á líkaninu, til að endurspegla betur tiltekið áhættusnið, hefur ekki tekist innan viðeigandi tímaramma, eða
c)    eftirlitsyfirvöld komast að þeirri niðurstöðu að stjórnkerfi vátrygginga- eða endurtryggingafélags víkur í veigamiklum atriðum frá þeim stöðlum sem mælt er fyrir um í 2. lið IV. kafla, að greina með fullnægjandi hætti, mæla, hafa eftirlit með, stjórna, og tilkynna um áhættur sem það sætir eða gæti sætt, og að í sjálfu sér sé ólíklegt að beiting annarra ráðstafana bæti nægilega úr annmörkunum innan viðeigandi tímaramma.
2.     Við þær aðstæður sem settar eru fram í a- og b- liðum 1. mgr. skal viðbótargjaldþolskrafan reiknuð þannig út að tryggt sé að félagið fari að 3. mgr. 101. gr.
Við þær aðstæður sem settar eru fram í c-lið 1. mgr. skal viðbótargjaldþolskrafan vera í réttu hlutfalli við þær efnislegu áhættur sem leiða af annmörkum þeim sem leiddu til þeirrar ákvörðunar eftirlitsyfirvalda að setja á viðbótargjaldþolskröfu.
3.     Í þeim tilvikum sem sett eru fram í b- og c-lið 1. mgr. skulu eftirlitsyfirvöld tryggja að vátrygginga- eða endurtryggingafélagið leggja allt kapp á ráða bót á þeim annmörkum sem leiddu til þess að viðbótargjaldþolskröfunni var komið á.
4.     Eftirlitsyfirvöld skulu endurskoða viðbótargjaldþolskröfuna, sem um getur í 1. mgr., a.m.k. árlega og skal hún fjarlægð þegar félagið hefur ráðið bót á þeim annmörkum sem leiddu til þess að henni var komið á.
5.     Gjaldþolskrafan að viðbættri viðbótargjaldþolskröfunni skal koma í staðinn fyrir hina ófullnægjandi gjaldþolskröfu.
Þrátt fyrir 1. undirgrein skal gjaldþolskrafan ekki innihalda viðbótargjaldþolskröfuna sem komið var á í samræmi við c-lið 1. mgr., að því er varðar vikmörk áhættu sem um getur í 5. mgr. 77. gr.
6.     Framkvæmdastjórnin skal samþykkja framkvæmdarráðstafanir þar sem mælt er fyrir um frekari forskriftir um þær aðstæður sem voru við lýði þegar viðbótargjaldþolskröfunni var komið á, og aðferðafræðinni við þá útreikninga.
Þessar ráðstafanir, sem er ætlað að breyta veigalitlum þáttum þessarar tilskipunar með því að auka við hana, skulu samþykktar í samræmi við stjórnsýslumálsmeðferðina með athugun sem um getur í 3. mgr. 301. gr.

38. gr.
Endurskoðun útvistaðs reksturs og starfsemi

1.     Með fyrirvara um 49. gr. skulu aðildarríkin tryggja að vátryggingafélög, þ.m.t. endurtryggingafélög, sem útvista rekstur eða vátryggingastarfsemi, þ.m.t. endurtryggingastarfsemi, geri nauðsynlegar ráðstafanir til að tryggja að eftirfarandi skilyrði séu uppfyllt:
a)    Veitandi þjónustunnar verður að starfa með eftirlitsyfirvöldum vátrygginga- og endurtryggingafélagsins hvað varðar hinn útvistaða rekstur eða starfsemi,
b)    vátryggingafélögin, þ.m.t. endurtryggingafélögin, endurskoðendur þeirra og eftirlitsyfirvöld, verða að hafa skilvirkan aðgang að gögnum sem tengjast hinum útvistaða rekstri og starfsemi,
c)    eftirlitsyfirvöld verða að hafa skilvirkan aðgang að starfstöð veitanda þjónustunnar og verða að geta nýtt sér þann aðgangsrétt.
2.     Aðildarríki þar sem veitandi þjónustunnar hefur aðsetur skal veita eftirlitsyfirvöldum vátrygginga- eða endurtryggingafélagsins leyfi til að framkvæma sjálf, eða fyrir milligöngu einstaklinga sem þau tilnefna til verksins, skoðun á staðnum þar sem veitandi þjónustunnar er með starfstöð. Eftirlitsyfirvöld vátrygginga- eða endurtryggingafélagsins skulu tilkynna viðeigandi yfirvöldum aðildarríkisins um slíka skoðun á staðnum áður en til hennar kemur. Sé um að ræða einingu sem ekki sætir eftirliti skulu viðeigandi yfirvöld taka sér hlutverk eftirlitsyfirvaldanna.
Eftirlitsyfirvöld aðildarríkis vátrygginga- eða endurtryggingafélagsins geta falið eftirlitsyfirvöldum í aðildarríkinu, þar sem veitandi þjónustunnar er staðsettur, slíka skoðun á staðnum.

39. gr.
Yfirfærsla vátryggingastofns

1.     Með þeim skilyrðum sem gilda að landslögum veita aðildarríki vátryggingafélögum, þ.m.t. endurtryggingafélögum, með aðalskrifstofur á yfirráðasvæði þeirra, leyfi til að yfirfæra samningasafn sitt, að einhverju eða öllu leyti, þar sem samningar hafa verið gerðir annaðhvort samkvæmt staðfesturétti eða frelsi til að veita þjónustu, til félags sem annast endurtryggingar og starfar í Bandalaginu.
Þessar yfirfærslur skulu aðeins leyfðar ef eftirlitsyfirvöld í heimaaðildarríki félagsins sem annast endurtryggingar votta að þegar tillit hefur verið tekið til yfirfærslunnar hafi félagið sem annast endurtryggingar yfir nægjanlegu viðurkenndu eigin fé að ráða til að standa við gjaldþolskröfu sem um getur í fyrsta lið 100. gr.
2.     Ef um er að ræða vátryggingafélög gilda 3.–6. mgr.
3.     Ef útibú leggur til að samningasafn þess verði yfirfært, að einhverju eða öllu leyti, skal haft samráð við aðildarríkið þar sem útibúið er.
4.     Við þær aðstæður sem um getur í 1. og 3. mgr. skulu eftirlitsyfirvöld í heimaaðildarríki vátryggingafélagsins sem annast yfirfærsluna veita heimild fyrir henni, að fengnu samþykki yfirvalda í aðildarríkjunum þar sem gengið var frá samningunum, annaðhvort samkvæmt staðfesturétti eða frelsi til að veita þjónustu
5.     Yfirvöld í aðildarríkjunum sem samráð er haft við skulu tilkynna yfirvöldum í heimaaðildarríki vátryggingafélagsins sem annast yfirfærslur álit sitt eða samþykki, innan þriggja mánaða frá því að þeim barst beiðni um samráð.
Ef yfirvöldin sem samráð er haft við hafa ekki svarað innan þess frests telst það þegjandi samþykki.
6.     Yfirfærsla vátryggingastofns sem heimiluð er í samræmi við 1.–5. mgr. skal annaðhvort birt áður eða eftir að starfsleyfi er veitt, sem mælt er fyrir um í landslögum heimaaðildarríkisins, aðildarríkisins þar sem áhættan er staðsett eða í aðildarríkinu sem hefur skuldbundið sig.
Slík yfirfærsla öðlast sjálfkrafa gildi gagnvart vátryggingatökum, hinum tryggðu og öllum þeim öðrum sem eiga rétt eða bera skyldu vegna þeirra samninga sem yfirfærðir hafa verið.
Fyrsta og önnur undirgrein þessarar greinar hefur ekki áhrif á rétt aðildarríkja til að gefa vátryggingatökum kost á að segja upp samningi innan ákveðins frests frá því er yfirfærsla fer fram.

IV. KAFLI
Skilyrði fyrir atvinnurekstri
1. þáttur
Ábyrgð stjórnar, framkvæmdastjórnar eða eftirlitsstjórnar
40. gr.
Ábyrgð stjórnar, framkvæmdastjórnar eða eftirlitsstjórnar

Aðildarríki skulu tryggja að stjórn, framkvæmdastjórn eða eftirlitsstjórn vátrygginga- eða endurtryggingafélagsins beri fulla ábyrgð á að viðkomandi félag fari að lögum og stjórnsýslufyrirmælum sem samþykkt hafa verið samkvæmt þessari tilskipun.

2. þáttur
Stjórnkerfi
41. gr.
Almennar kröfur um stjórnunarhætti

1.     Aðildarríki skulu krefjast þess að vátryggingafélög, þ.m.t. endurtryggingafélög, séu með skilvirkt stjórnkerfi sem kveður á um trausta og varfærna stjórnun rekstrarins.
Það kerfi skal a.m.k. taka til fullnægjandi og gagnsæs stjórnskipulags með skýra aðgreiningu ábyrgðarsviða og skilvirkt kerfi til að tryggja miðlun upplýsinga. Í því skal farið að kröfum þeim sem mælt er fyrir um í 42.–49. gr.
Þetta stjórnkerfi skal sæta reglulegri, innri endurskoðun.
2.     Stjórnkerfið skal vera í samræmi við eðli, umfang og flókinn rekstur vátrygginga- eða endurtryggingafélagsins.
3.     Vátryggingafélög, þ.m.t. endurtryggingafélög, skulu hafa skriflega stefnu sem að minnsta kosti varðar áhættustjórnun, innra eftirlit, innri endurskoðun og, eftir því sem við á, útvistun. Þau skulu tryggja að þessari stefnu sé hrint í framkvæmd.
Þessa skriflegu stefnu skal endurskoða a.m.k. árlega. Hana þurfa stjórn, framkvæmdastjórn eða eftirlitsstjórn að samþykkja fyrirfram og henni þarf að breyta í ljósi umtalsverðra breytinga á viðkomandi kerfi eða svæði.
4.     Vátryggingafélög, þ.m.t. endurtryggingafélög, gera raunhæfar ráðstafanir til að tryggja samfelldni og reglufestu í starfsemi þeirra, þ.m.t. þróun viðbragðsáætlunar. Með þetta að markmiði skal félagið nota viðeigandi kerfi, tilföng og málsmeðferð sem eru í réttu hlutfalli við þetta.
5.     Eftirlitsyfirvöld skulu hafa viðeigandi úrræði, aðferðir og vald til að sannprófa stjórnkerfi vátryggingafélaga, þ.m.t. endurtryggingafélaga, til að meta komandi áhættur sem félögin átta sig á og geta haft áhrif á trausta fjárhagsstöðu þeirra.
Aðildarríkin skulu tryggja að eftirlitsyfirvöld hafi nægilegt vald til að krefjast þess að stjórnkerfið sé bætt og styrkt til að tryggja að farið sé að ákvæðum krafnanna sem settar eru fram í 42.–49. gr.

42. gr.
Hæfilegar og viðeigandi kröfur fyrir fólk sem rekur félagið í raun eða gegnir lykilhlutverki á öðrum sviðum

1.     Vátryggingafélög, þ.m.t. endurtryggingafélög, skulu tryggja að allir einstaklingar sem í raun reka félagið eða gegna lykilhlutverki á öðrum sviðum fullnægi alltaf eftirfarandi skilyrðum:
a)    fagleg menntun þeirra og hæfi, þekking og reynsla duga til að koma á traustri og varfærinni stjórnun (hæfilegri), og
b)    þeir búa yfir góðum orðstír og ráðvendni (heiðarleika).
2.     Vátryggingafélög, þ.m.t. endurtryggingafélög, tilkynni eftirlitsyfirvöldum um öll mannaskipti hvað viðkemur þeim sem í raun reka félagið eða bera ábyrgð á annarri lykilstarfsemi, ásamt öllum upplýsingum sem nauðsynlegar eru til að meta hvort nýtilnefndir stjórnendur séu hæfir og heiðarlegir.
3.     Vátryggingafélög, þ.m.t. endurtryggingafélög, tilkynni eftirlitsyfirvöldum sínum ef einhverjum einstaklinganna sem um getur í 1. og 2. mgr. hafi verið skipt út vegna þess að þeir uppfylla ekki lengur skilyrðin sem um getur í 1. mgr.

43. gr.
Sönnun um óflekkað mannorð

1.     Þegar aðildarríki fer fram á að ríkisborgarar þess sanni að þeir hafi óflekkað mannorð og að þeir hafi ekki verið lýstir gjaldþrota eða hvorttveggja, skal það aðildarríki, þegar í hlut eiga ríkisborgarar annarra aðildarríkja, samþykkja sem fullnægjandi sönnun að lagt sé fram sakavottorð, eða ef það er ekki unnt, jafngilt skjal gefið út af lögbæru yfirvaldi á sviði dómgæslu eða stjórnsýslu í heimaaðildarríkinu eða því aðildarríki sem hinn erlendi ríkisborgari kemur frá, er sýnir að þessar kröfur hafi verið uppfylltar.
2.     Ef heimaaðildarríkið eða aðildarríkið þaðan sem erlendi ríkisborgarinn er, gefur ekki út skjalið sem um getur í 1. mgr. getur eiðsvarin yfirlýsing komið í stað þess – eða í þeim aðildarríkjum þar sem engin ákvæði eru um slíka eiðsvarna yfirlýsingu, drengskaparheit – sem viðkomandi gefur í viðurvist lögbærs yfirvalds á sviði dómgæslu eða stjórnsýslu eða þar sem það á við, lögbókanda, í heimaaðildarríkinu eða aðildarríkinu þaðan sem viðkomandi ríkisborgari er.
Viðkomandi yfirvald eða lögbókandi skal gefa út skírteini þar sem vottaður er áreiðanleiki eiðsvörnu yfirlýsingarinnar eða drengskaparheitisins.
Yfirlýsinguna, sem um getur í 1. undirlið, um að viðkomandi hafi ekki áður verið lýstur gjaldþrota má einnig gefa hjá þar til bærri sérfræði- eða atvinnugreinastofnun í hlutaðeigandi aðildarríki.
3.     Skjöl og skírteini, sem um getur í 1. og 2. mgr., skulu ekki vera eldri en þriggja mánaða frá útgáfudegi að telja þegar þau eru lögð fram.
4.     Aðildarríki skulu tilnefna aðila og stofnanir sem bær eru til að gefa út þau skjöl sem getið er í 1. og 2. mgr. og skulu tilkynna það tafarlaust öðrum aðildarríkjum og framkvæmdastjórninni.
Aðildarríki skulu enn fremur tilkynna hvert öðru og framkvæmdastjórninni um aðila eða stofnanir sem senda skal gögn til skv.1. og 2. mgr. til stuðnings umsókn um leyfi til að reka á yfirráðasvæði aðildarríkisins þá starfsemi sem um getur í 2. gr.

44. gr.
Áhættustjórnun

1.     Vátryggingafélög, þ.m.t. endurtryggingafélög, skulu hafa skilvirkt kerfi áhættustjórnunar sem taki til stefnu, vinnslu og skýrslugjafaraðferða sem nauðsynlegar eru til að greina, mæla, stjórna, hafa eftirlit með og tilkynna stöðugt um þær áhættur sem þau sæta eða gætu sætt, og víxltengslin milli þeirra.
Áhættustjórnunarkerfið skal vera skilvirkt og samþætt náið stjórnskipulagi vátrygginga- eða endurtryggingafélagsins og ferlum við ákvarðanatöku, og taka viðeigandi tillit til þeirra einstaklinga sem reka félagið í raun eða gegna lykilhlutverki á öðrum sviðum.
2.     Áhættustjórnunarkerfið skal ná yfir þær áhættur sem ber að taka með við útreikning á gjaldþolskröfunni eins og hún er sett fram í 4. mgr. 101. gr., og einnig þær áhættur sem eru ekki teknar með að fullu í þeim útreikningi.
Áhættustjórnunarkerfið skal a.m.k. taka til eftirfarandi sviða:
a)    sölutrygging og varasjóður,
b)    eigna- og skuldastýring,
c)    fjárfestingar, einkum afleiður og svipaðar skuldbindingar,
d)    stýring lausafjár- og samfylkingaráhættu,
e)    stýring rekstraráhættu,
f)    endurtrygging og aðrar mildandi áhættuaðferðir.
Skrifleg stefna um áhættustjórnun, sem um getur í 3. mgr. 41. gr., skal taka til stefna sem varða a- til f-lið annars undirliðar þessarar málsgreinar.
3.     Að því er varðar fjárfestingaráhættu skulu vátryggingafélög, þ.m.t. endurtryggingafélög, sýna fram á að þau fari að 6. þætti VI. kafla.
4.     Vátryggingafélög, þ.m.t. endurtryggingafélög, skulu kveða á um áhættustjórnun sem sé þannig uppsett að hún auðveldi framkvæmd áhættustjórnunar.
5.     Hvað varðar vátryggingafélög, þ.m.t. endurtryggingafélög, sem nota innra líkan, heildstætt eða að hluta til, í samræmi við 112. og 113. gr. skal áhættustjórnunin taka til eftirfarandi viðbótarverkefna:
a)    að hanna innra líkanið og koma því í framkvæmd,
b)    að prófa og fullgilda innra líkanið,
c)    að skrá upplýsingar um innra líkanið og breytingar sem gerðar eru á því,
d)    að gera frammistöðugreiningu á innra líkaninu og semja yfirlitsskýrsla um hana,
e)    að gera stjórn, framkvæmdastjórn eða eftirlitsstjórn grein fyrir því hvernig innra líkanið virkar, tiltaka svið þar sem úrbóta er þörf og halda stjórninni upplýstri um hvernig gangi að bæta veikleika sem þegar hafa verið greindir.

45. gr.
Mat á eigin áhættu og gjaldþoli

1.     Öll vátryggingafélög, þ.m.t. endurtryggingafélög, skulu annast eigið mat á eigin áhættu og gjaldþoli og er það hluti af áhættustjórnunarkerfi þeirra.
Það mat skal a.m.k. taka til eftirfarandi:
a)    heildargjaldþolið þarf að taka tillit til hins tilgreinda áhættusniðs, samþykktra áhættuþolmarka og viðskiptaáætlunar félagsins,
b)    stöðugt samræmi við eiginfjárkröfur, eins og mælt er fyrir um í 4. og 5. þætti VI. kafla, og kröfur hvað varðar vátryggingaskuldir eins og mælt er fyrir um í 2. þætti VI. kafla,
c)    í hve miklum mæli áhættusnið viðkomandi félags víkur frá forsendunum sem liggja gjaldþolskröfunni til grundvallar, eins og mælt er fyrir um í 3. mgr. 101. gr., reiknuð út með staðalformúlunni í samræmi við 2. undirþátt 4. þáttar VI. kafla eða innra líkan hennar, heildstætt eða að hluta til, í samræmi við 3. undirþátt 4. þáttar VI. kafla.
2.     Að því er varðar a-lið 1. mgr. skal viðkomandi félag búa yfir ferlum í réttu hlutfalli við eðli, umfang og flóknar áhættur sem eru innbyggðar í starfsemi þess og gera þeim kleift að þekkja og meta áhætturnar sem það stendur frammi fyrir, til lengri eða skemmri tíma, og sem það sætir eða gæti sætt. Félagið skal kynna aðferðirnar sem notaðar eru í því mati.
3.     Ef innra líkan er notað, í því tilviki sem um getur í c-lið 1. mgr., skal matið framkvæmt með endurkvörðun sem breytir innri áhættutölum í áhættumati gjaldþolskröfunnar.
4.     Eigið fé og gjaldþolsmat skal vera óaðskiljanlegur hluti viðskiptaáætlunarinnar og skal stöðugt tekið tillit til þessa við stefnumótandi ákvarðanatekt félagsins.
5.     Vátryggingafélög, þ.m.t. endurtryggingafélög, skulu framkvæma matið, sem um getur í 1. mgr., reglulega og tafarlaust ef áhættusnið þeirra tekur marktækum breytingum.
6.     Vátryggingafélög, þ.m.t. endurtryggingafélög, skulu veita eftirlitsyfirvöldum upplýsingar um niðurstöðuna úr hverju mati á eigin fé og gjaldþoli sem hluta af upplýsingunum skv. 35. gr.
7.     Matið á eigið fé og gjaldþoli skal ekki nota til að reikna út eiginfjárkröfu. Gjaldþolskröfuna skal aðeins leiðrétta í samræmi við 37., 231.–233. og 238 gr.

46. gr.
Innra eftirlit

1.     Vátryggingafélög, þ.m.t. endurtryggingafélög, skulu vera með skilvirkt kerfi innra eftirlits.
Það skal a.m.k. taka til stjórnsýslu- og bókhaldsfyrirkomulags, ramma innra eftirlits, viðeigandi skýrslugjafa á öllum stigum félagsins og þess að farið sé að ákvæðum.
2.     Það að farið sé að ákvæðum skal taka til þess að vera stjórn, framkvæmdastjórn eða eftirlitsstjórn til ráðgjafar um að farið sé að ákvæðum laga og stjórnsýslufyrirmæla sem samþykkt eru samkvæmt þessari tilskipun. Það tekur líka til mats á hugsanlegum áhrifum allra breytinga í lagaumhverfinu á starfsemi viðkomandi félags og þess að þekkja og meta áhættuna af því að farið sé að ákvæðum.

47. gr.
Innri endurskoðun

1.     Vátryggingafélög, þ.m.t. endurtryggingafélög, skulu vera með skilvirkt kerfi innri endurskoðunar.
Innri endurskoðun skal taka til mats á því hvort kerfi innra endurskoðunar, og aðrir hlutar stjórnkerfisins, séu fullnægjandi og skilvirkir.
2.     Innri endurskoðun skal vera hlutlæg og óháð rekstrarþáttum.
3.     Allar niðurstöður og tilmæli innri endurskoðunar skulu tilkynntar stjórn, framkvæmdastjórn eða eftirlitsstjórn sem ákveður til hvaða aðgerða skal grípa að því er varðar niðurstöður og tilmæli innri endurskoðunar, og skal tryggja að þessar aðgerðir verði framkvæmdar.

48. gr.
Tryggingafræðileg starfsemi

1.     Vátryggingafélög, þ.m.t. endurtryggingafélög, skulu koma á skilvirkri tryggingafræðilegri starfsemi til að:
a)    samræma útreikninga á vátryggingaskuldum,
b)    tryggja að aðferðafræðin og þær aðferðir sem beitt er og liggja til grundvallar séu viðeigandi, og einnig forsendur útreikninga vátryggingaskulda,
c)    meta hvort gögnin sem beitt er við að reikna út vátryggingaskuldir séu fullnægjandi og uppfylli gæðakröfur,
d)    bera saman besta mat og reynslu,
e)    gera stjórn, framkvæmdastjórn eða eftirlitsstjórn grein fyrir því hve áreiðanlegir og fullnægjandi útreikningarnir á vátryggingaskuldunum séu,
f)    hafa umsjón með útreikningum á vátryggingaskuldum sem settir eru fram í 82. gr.,
g)    skila áliti á heildarstefnunni hvað sölutryggingar varðar,
h)    skila áliti á hve fullnægjandi fyrirkomulag endurtrygginga er, og
i)    stuðla að hinni skilvirkri innsetningu áhættustjórnunarkerfisins sem um getur í 44. gr., einkum að því er varðar áhættulíkanið sem liggur til grundvallar útreikningnum á eiginfjárkröfunum sem settar eru fram í 4. og 5. þætti VI. kafla, og matinu sem um getur í 45. gr.
2.     Hið tryggingafræðilega hlutverk skulu einstaklingar með þekkingu á tryggingastærðfræði og fjármálastærðfræði annast, skal sú þekking samsvara eðli, umfangi og þeirri flóknu áhættu sem innbyggð er í starfsemi vátrygginga- eða endurtryggingafélaga og skulu viðkomandi einstaklingar geta sýnt fram á að þeir búi yfir viðeigandi reynslu af gildandi, faglegum gæðum og öðrum gæðum.

49. gr.
Útvistun

1.     Aðildarríkin skulu tryggja að vátryggingafélög, þ.m.t. endurtryggingafélög, beri fulla ábyrgð á að uppfylla allar skuldbindingar sínar samkvæmt þessari tilskipun, þegar þau útvista verkefni eða hvers konar vátrygginga- eða endurtryggingastarfsemi.
2.     Útvistun þýðingarmikilla eða mikilvægra rekstrarþátta eða starfsemi má ekki fara þannig fram að hún leiði til eftirfarandi:
a)    rýri umtalsvert gæði stjórnkerfis viðkomandi félags,
b)    auki rekstraráhættu óþarflega,
c)    rýri getu eftirlitsyfirvalda til að hafa eftirlit með því að félagið standi við skuldbindingar sínar,
d)    grafi undan stöðugri og fullnægjandi þjónustu við vátryggingataka.
3.     Vátryggingafélög, þ.m.t. endurtryggingafélög, skulu gera eftirlitsyfirvöldum tímanlega viðvart áður en kemur til útvistunar á þýðingarmiklum eða mikilvægum rekstrarþáttum eða starfsemi, sem og mikilvægrar þróunar sem kemur í kjölfarið hvað varðar þessa þætti eða starfsemi.

50. gr.
Framkvæmdarráðstafanir

1.     Framkvæmdastjórnin skal samþykkja framkvæmdarráðstafanir til að tilgreina enn frekar:
a)    þætti kerfisins sem um getur í 41., 44., 46. og 47. gr., einkum þau svið sem eiga að falla undir eigna- og skuldastýringu og fjárfestingarstefnu, eins og um getur í 2. mgr. 44. gr., um vátryggingafélög, þ.m.t. endurtryggingafélög,
b)    hlutverk sem um getur í 44. gr. og 46.–48. gr.,
c)    kröfur sem settar eru fram í 42. gr. og hlutverk sem þeim fylgja,
d)    skilyrði fyrir útvistun, einkum til þjónustuveitenda í þriðja landi.
2.     Þegar nauðsynlegt er að tryggja viðeigandi samleitni á matinu sem um getur í a-lið 1. mgr. 45. gr. getur framkvæmdastjórnin samþykkt framkvæmdarráðstafanir til að tilgreina frekar þætti þess mats.
3.     Þessar ráðstafanir, sem er ætlað að breyta veigalitlum þáttum þessarar tilskipunar með því að auka við hana, skulu samþykktar í samræmi við stjórnsýslumálsmeðferðina með athugun sem um getur í 3. mgr. 301. gr.

3. þáttur
Opinber birting
51. gr.

Skýrsla um gjaldþol og fjárhagsleg skilyrði: inntak

1.     Að teknu tilliti til upplýsinganna sem gerð er krafa um í 3. mgr. og meginreglnanna sem settar eru fram í 4. mgr. 35. gr. skulu aðildarríkin skylda vátryggingafélög, þ.m.t. endurtryggingafélög, til að birta opinberlega skýrslu á hverju ári um gjaldþol þeirra og fjárhagsleg skilyrði.
Skýrslan skal innihalda eftirfarandi upplýsingar, annaðhvort í heild eða með vísun til sambærilegra upplýsinga, bæði hvað varðar eðli og umfang, sem birtar eru opinberlega undir öðrum laga- og reglugerðarskilyrðum:
a)    lýsing á starfseminni og árangri félagsins,
b)    lýsing á stjórnkerfinu og mat á hæfi þess fyrir áhættusnið félagsins,
c)    sérstök lýsing, fyrir hvern áhættuflokk, á áhættu, samþjöppun, úrdrætti og næmi,
d)    lýsing, þar sem sérstaklega er fjallað um fjármuni, vátryggingaskuldir og aðrar skuldir, á þeim grundvelli og aðferðum sem notaðar eru til að meta verðmæti þeirra, ásamt skýringu á verulegum mun sem kann að vera á þeim grundvelli og aðferðum sem notaðar eru til að meta verðmæti þeirra í reikningsskilum,
e)    lýsing á stýringu á fjármagni, þ.m.t. eftirfarandi að minnsta kosti:
    i.    gerð, fjárhæð og gæði eigin fjár,
    ii.    fjárhæðir gjaldþolskröfu og lágmarkskröfur um eigið fé,
    iii.    valkosturinn sem settur er fram í 304. gr. um útreikning á gjaldþolskröfunni,
    iv.    upplýsingar sem leiða til skilnings á meginmuninum á forsendunum sem liggja til grundvallar staðalformúlunni og þeim sem eiga við um öll innri líkön sem félagið notar til að reikna út gjaldþolskröfu sína,
    v.    fjárhæð allra frávika frá lágmarkskröfu um eigið fé eða öll veruleg frávik frá gjaldþolskröfunni á reikningsskilatímabilinu, jafnvel þó að leiðrétt séu í framhaldinu, með skýringu á uppruna, afleiðingum og öllum ráðstöfunum til úrbóta sem gripið er til.
2.     Lýsingin sem um getur í i-lið e-liðar 1. mgr. skal innihalda greiningu á öllum verulegum breytingum samanborið við fyrra reikningsskilatímabil, og útskýringu á öllum verulegum mun að því er varðar verðmæti slíkra eininga í reikningsskilum, og stutta lýsingu á framsalshæfi eigin fjár.
Upplýsingarnar um gjaldþolskröfuna sem um getur í ii-lið e-liðar 1. mgr. skulu sýna sérstaklega fjárhæðina sem reiknuð er í samræmi við annan og þriðja undirlið 4. þáttar VI. kafla og allar viðbótargjaldþolskröfur sem lagðar eru á í samræmi við 37. gr., eða áhrif hinna sérstöku breytna sem krafa er gerð um að vátrygginga- eða endurtryggingafélög noti í samræmi við 110. gr., ásamt gagnorðum upplýsingum um rök viðkomandi eftirlitsyfirvalda fyrir henni.
Með fyrirvara um allar upplýsingar sem eru skyldubundnar skv. öllum öðrum laga- og reglugerðarskilyrðum geta aðildarríki þó kveðið á um, enda þótt heildargjaldþolskrafan sem um getur í ii-lið e-liðar fyrstu málsgreinar sé birt, að viðbótargjaldþolskröfuna, eða áhrifin af hinum tilteknu breytum sem vátrygginga- eða endurtryggingafélaginu er gert að nota í samræmi við 110. gr, þurfi ekki að birta sérstaklega á aðlögunartímabili sem lýkur ekki síðar en 31. október 2017.
Birtingu upplýsinga um gjaldþolskröfuna skal eftir atvikum fylgja vísbending um að lokafjárhæðin sé eftir sem áður háð eftirlitsmati.

52. gr.
Upplýsingar til handa samstarfsnefnd evrópskra vátrygginga- og lífeyrissjóðaeftirlita (CEIOPS) og skýrslur hennar

1.     Aðildarríkin skulu gera kröfu um að eftirlitsyfirvöld leggi árlega fram eftirfarandi upplýsingar til handa samstarfsnefnd evrópskra vátrygginga- og lífeyrissjóðaeftirlita:
a)    meðaltalsviðbótargjaldþolskrafa á fyrirtæki og dreifing slíkra krafna sem eftirlitsyfirvöld hafa komið á árið á undan, mælt sem hlutfall af gjaldþolskröfunni, sýnd sérstaklega sem hér segir:
    i.    þegar um er að ræða vátryggingafélög, þ.m.t. endurtryggingafélög,
    ii.    þegar um er að ræða líftryggingafélög,
    iii.    þegar um er að ræða skaðatryggingafélög,
    iv.    þegar um er að ræða vátryggingafélög sem reka bæði líftrygginga- og skaðatryggingastarfsemi,
    v.    þegar um er að ræða endurtryggingafélög,
b)    þegar um er að ræða upplýsingar sem settar eru fram í a-lið: hlutfall viðbótargjaldþolskrafna sem sett er á samkvæmt a-, b- og c-lið 1. mgr. 37. gr.
2.     Samstarfsnefnd evrópskra vátrygginga- og lífeyrissjóðaeftirlita skal birta opinberlega eftirfarandi upplýsingar, árlega:
a)    fyrir aðildarríkin í heild, heildardreifingu viðbótargjaldþolskrafna, mælt sem hlutfall af gjaldþolskröfunni, fyrir hvert eftirfarandi:
    i.    öll vátryggingafélög, þ.m.t. endurtryggingafélög,
    ii.    líftryggingafélög,
    iii.    skaðatryggingafélög,
    iv.    vátryggingafélög sem reka bæði líftrygginga- og skaðatryggingastarfsemi,
    v.    endurtryggingafélög,
b)    fyrir aðildarríkin hvert í sínu lagi, heildardreifingu viðbótargjaldþolskrafna, mælt sem hlutfall af gjaldþolskröfunni, sem taka til allra vátryggingafélaga, þ.m.t. endurtryggingafélaga, í viðkomandi aðildarríki,
c)    fyrir upplýsingar sem settar eru fram í a- og b- lið: hlutfall viðbótargjaldþolskrafna sem sett er á samkvæmt a-, b- og c-lið 1. mgr. 37. gr.
3.     Samstarfsnefnd evrópskra vátrygginga- og lífeyrissjóðaeftirlita skal veita Evrópuþinginu, ráðinu og framkvæmdastjórninni upplýsingarnar sem um getur í 2. mgr, ásamt skýrslu þar sem gerð er grein fyrir hve mikil samleitni eftirlits er þegar viðbótargjaldþolskröfum er beitt milli eftirlitsyfirvalda í mismunandi aðildarríkjum.

53. gr.
Skýrsla um gjaldþol og fjárhagsleg skilyrði: gildandi meginreglur

1.     Eftirlitsyfirvöld skulu gefa vátryggingafélögum, þ.m.t. endurtryggingafélögum, leyfi til að greina ekki frá upplýsingum ef:
a)    birting slíkra upplýsinga yrðu til þess að þeir aðildar sem eru í samkeppni við félagið öðluðust umtalsverðan, óréttmætan ávinning,
b)    skyldur við vátryggingataka eða önnur tengsl við mótaðila valda því að félag er bundið þagnarskyldu eða trúnaðarkvöð.
2.     Ef eftirlitsyfirvöld leyfa að legið sé á upplýsingum skulu félög gefa yfirlýsingu þess efnis í skýrslum um gjaldþol og fjármögnunarskilyrði og tiltaka ástæðurnar.
3.     Eftirlitsyfirvöld skulu leyfa vátryggingafélögum, þ.m.t. endurtryggingafélögum, að nota eða vísa til opinberra yfirlýsinga sem eru í samræmi við önnur laga- og reglugerðarskilyrði, að því marki sem þessar yfirlýsingar jafngilda upplýsingunum sem gerð er krafa um skv. 51. gr., bæði hvað varðar eðli þeirra og umfang.
4.     Ákvæði 1. og 2. mgr. skulu ekki gilda um upplýsingar sem tilgreindar eru í e-lið 1. mgr. 51. gr.

54. gr.
Skýrsla um gjaldþol og fjárhagsleg skilyrði: uppfærslur og valfrjálsar viðbótarupplýsingar

1.     Ef veruleg breyting á sér stað sem hefur umtalsverð áhrif á upplýsingarnar sem birtar eru samkvæmt 51. og 53. gr. skulu vátryggingafélög, þ.m.t. endurtryggingafélög, birta viðeigandi upplýsingar um eðli og umfang þessara verulegu breytinga.
Að því er fyrstu undirgrein varðar skal að minnsta kosti eftirfarandi teljast verulegar breytingar:
a)    frávik frá lágmarkskröfum um eigið fé og líta eftirlitsyfirvöld annaðhvort svo á að félagið geti ekki lagt fram raunhæfa skammtímafjárhagsáætlun eða fái ekki slíka áætlun innan mánaðar frá þeirri dagsetningu þegar frávikið kom í ljós,
b)    umtalsvert frávik frá gjaldþolskröfunni kemur í ljós og fá eftirlitsyfirvöld ekki raunhæfa endurreisnaráætlun innan tveggja mánaða frá þeirri dagsetningu þegar frávikið kom í ljós.
Varðandi a-lið annarrar undirgreinar skulu eftirlitsyfirvöld krefjast þess að umrætt félag greini þegar frá því um hve mörg frávik sé að ræða, ásamt skýringum á uppruna þeirra og afleiðingum, þ.m.t. allar ráðstafanir til úrbóta sem gripið er til. Ef frávik frá lágmarkskröfum um eigið fé hefur ekki verið leyst þremur mánuðum eftir að það kom í ljós, þrátt fyrir skammtímafjárhagsáætlun sem talin er raunhæf, skal frávikið birt í lok þess tímabils ásamt skýringu á uppruna þess og afleiðingum, þ.m.t. allar ráðstafanir til úrbóta sem gripið er til auk allra frekari ráðstafana til úrbóta sem áætlaðar eru.
Varðandi b-lið annarrar undirgreinar skulu eftirlitsyfirvöld krefjast þess að umrætt félag greini þegar frá því um hve mörg frávik sé að ræða, ásamt skýringum á uppruna þeirra og afleiðingum, þ.m.t. allar ráðstafanir til úrbóta sem gripið er til. Ef umtalsvert frávik frá gjaldþolskröfu um eigið fé hefur ekki verið leyst sex mánuðum eftir að það kom í ljós, þrátt fyrir endurreisnaráætlunina sem upphaflega var talin raunhæf, skal frávikið birt í lok þess tímabils ásamt skýringu á uppruna þess og afleiðingum, þ.m.t. allar ráðstafanir til úrbóta sem gripið er til auk allra frekari ráðstafana til úrbóta sem áætlaðar eru.
2.     Vátryggingafélög, þ.m.t. endurtryggingafélög, geta birt að eigin frumkvæði allar upplýsingar eða skýringar sem tengjast gjaldþoli þeirra og fjárhagsstöðu, hafi ekki þegar verið krafist birtingar í samræmi við 51. og 53. gr. og 1. mgr. þessarar greinar.

55. gr.
Skýrsla um gjaldþol og fjárhagsleg skilyrði: stefna og samþykki

1.     Aðildarríki skulu krefjast þess að vátryggingafélög, þ.m.t. endurtryggingafélög, komi á viðeigandi kerfi og skipulagi til að uppfylla kröfurnar sem mælt er fyrir um í 51. gr., 53. gr. og 1. mgr. 54. gr. og einnig skriflegri stefnu og tryggi þar með að allar upplýsingar sem birtar eru í samræmi við 51., 53. og 54. gr. eigi ávallt við.
2.     Skýrslan um gjaldþol og fjárhagsstöðu skal háð samþykki stjórnar, framkvæmdastjórnar eða eftirlitsstjórnar vátrygginga- eða endurtryggingafélagsins og skal ekki birt fyrr en að fengnu því samþykki.

56. gr.
Skýrsla um gjaldþol og fjárhagsleg skilyrði: framkvæmdarráðstafanir

Framkvæmdastjórnin skal samþykkja framkvæmdarráðstafanir og tilgreina þar með nánar þær upplýsingar sem verður að birta, og með hvaða aðferðum því verði náð.
Þessar ráðstafanir, sem er ætlað að breyta veigalitlum þáttum þessarar tilskipunar með því að auka við hana, skulu samþykktar í samræmi við stjórnsýslumálsmeðferðina með athugun sem um getur í 3. mgr. 301. gr.

4. þáttur
Virk eignarhlutdeild
57. gr.
Yfirtökur

1.     Aðildarríkin skulu krefjast þess að einstaklingur eða lögaðili, (fyrirhugaður yfirtökuaðili), sem hafa tekið ákvörðun um að annaðhvort yfirtaka, beint eða óbeint, virka eignarhlutdeild í vátrygginga- eða endurtryggingafélagi eða auka frekar, beint eða óbeint, virka eignarhlutdeild sína í vátrygginga- eða endurtryggingafélagi svo mikið að hlutfall viðkomandi aðila af atkvæðisrétti eða hlutafé nemi eða fari yfir 20%, 30% eða 50% eða þannig að vátrygginga- eða endurtryggingafélagið yrði dótturfélag hans (fyrirhuguð yfirtaka), tilkynni það áður skriflega eftirlitsyfirvöldum í ríki vátrygginga- eða endurtryggingafélagsins, sem þeir hyggjast yfirtaka eða auka eignarhlutdeild sína í, og skýri þeim frá hve stórum hluta í félaginu þeir hyggjast ráða yfir, eins og um getur í 4. mgr. 59. gr. Aðildarríkin þurfa ekki að beita 30% viðmiðunarmörkunum ef þau, í samræmi við a-lið 3. mgr. 9. gr. tilskipunar 2004/109/ ESB, beita viðmiðunarmörkum sem miðast við einn þriðja hluta.
2.     Aðildarríkin skulu krefjast þess að einstaklingur eða lögaðili, sem hefur tekið ákvörðun um ráðstafa, beint eða óbeint, virkri eignarhlutdeild í vátrygginga- eða endurtryggingafélagi, tilkynni það áður skriflega eftirlitsyfirvöldum í heimaaðildarríkinu og skýri þeim frá hve stór hlutur þessa einstaklings eða lögaðila verði eftir fyrirhugaða sölu. Hlutaðeigandi skal einnig tilkynna eftirlitsyfirvöldum um ákvörðun um að minnka virka eignarhlutdeild þess einstaklings eða lögaðila svo mikið að hlutfall atkvæðisréttar eða hlutafjár hans fari niður fyrir 20%, 30% eða 50% eða að vátrygginga- eða endurtryggingafélagið hætti að vera dótturfélag hlutaðeigandi. Aðildarríkin þurfa ekki að beita 30% viðmiðunarmörkunum ef þau, í samræmi við a-lið 3. mgr. 9. gr. tilskipunar 2004/109/ESB, beita viðmiðunarmörkum sem miðast við einn þriðja hluta.

58. gr.
Matstímabil

1.     Eftirlitsyfirvöld skulu, þegar í stað og a.m.k. innan tveggja viðskiptadaga eftir móttöku tilkynningarinnar, sem krafist er í 1. mgr. 57. gr., svo og í kjölfar hugsanlegri síðari móttöku upplýsinga, sem um getur í 2. mgr., senda fyrirhuguðum yfirtökuaðila kvittun fyrir móttöku.
Eftirlitsyfirvöld skulu hafa mest 60 daga frá þeim degi þegar þeim berst kvittun fyrir viðtöku tilkynningarinnar og allra þeirra skjala sem aðildarríkið fer fram á að fylgi tilkynningunni á grundvelli skrárinnar sem um getur í 4. mgr. 15. gr. b (matstímabil) til þess að framkvæma matið sem kveðið er á um í 1. mgr. 59. gr. (matið).
Eftirlitsyfirvöld skulu tilkynna fyrirhuguðum yfirtökuaðila um það hvenær matstímabilinu lýkur þegar þau kvitta fyrir móttöku.
2.     Á matstímabilinu er eftirlitsyfirvöldum heimilt, ef þörf krefur og eigi síðar en á 50. virka degi matstímabilsins, að fara fram á nánari upplýsingar sem nauðsynlegar eru til að ljúka við matið. Slíkar beiðnir skulu vera skriflegar og í þeim skal tilgreina hvaða viðbótarupplýsinga sé þörf.
Á tímabilinu frá því eftirlitsyfirvöld biðja um upplýsingarnar þar til svar berst frá fyrirhuguðum yfirtökuaðila við þeim skal gera hlé á matstímabilinu. Það hlé má ekki vara lengur en 20 virka daga. Eftirlitsyfirvöldum er heimilt að biðja um frekari eða nánari upplýsingar en það skal ekki leiða til þess að hlé sé gert á matstímabilinu.
3.     Eftirlitsyfirvöld geta framlengt hléið, sem um getur í annarri undirgrein 2. mgr., í allt að 30 virka daga ef fyrirhugaður yfirtökuaðili er:
a)    staðsettur eða eftirlitsskyldur utan Bandalagsins eða
b)    einstaklingur eða lögaðili sem fellur ekki undir eftirlit samkvæmt þessari tilskipun, tilskipun ráðsins 85/611/EB frá 20. desember 1985 um samræmingu á lögum og stjórnsýslufyrirmælum að því er varðar verðbréfasjóði (UCITS) ( 1 ), tilskipun 2004/39/ESB eða tilskipun 2006/48/ESB.
4.     Ef eftirlitsyfirvöld ákveða, eftir að hafa lokið við mat sitt, að andmæla fyrirhugaðri yfirtöku, skulu þau innan tveggja virkra daga, og á sjálfu matstímabilinu, tilkynna það fyrirhuguðum yfirtökuaðila skriflega með rökstuðningi. Með fyrirvara um landslög er heimilt að birta opinberlega viðeigandi yfirlýsingu um ástæður fyrir ákvörðuninni að fenginni beiðni fyrirhugaðs yfirtökuaðila. Þetta kemur ekki í veg fyrir að aðildarríki heimili eftirlitsyfirvaldi að birta slíkar upplýsingar þótt ekki liggi fyrir beiðni frá fyrirhuguðum yfirtökuaðila.
5.     Ef eftirlitsyfirvöld andmæla ekki fyrirhugaðri yfirtöku skriflega á matstímabilinu telst hún samþykkt.
6.     Eftirlitsyfirvöldum er heimilt að fastsetja hámarkstímabil til að ganga frá fyrirhugaðri yfirtöku og framlengja það eftir því sem við á.
7.     Aðildarríkin skulu ekki setja strangari skilyrði fyrir tilkynningu til og samþykki eftirlitsyfirvalda á beinum eða óbeinum yfirtökum á atkvæðisrétti eða hlutafé en sett eru í þessari tilskipun.
8.     Framkvæmdastjórnin skal samþykkja framkvæmdarráðstafanir til að tilgreina nánar breytingar á viðmiðunum, sem settar eru fram í 1. mgr. 59. gr., með framtíðarþróun í huga og til að tryggja samræmda beitingu 57.–63. gr.
Þessar ráðstafanir, sem er ætlað að breyta veigalitlum þáttum þessarar tilskipunar með því að auka við hana, skulu samþykktar í samræmi við stjórnsýslumálsmeðferðina með athugun sem um getur í 3. mgr. 301. gr.

59. gr.
Mat

1.     Við mat á tilkynningunni, sem kveðið er á um í 1. mgr. 57. gr., og upplýsingunum, sem um getur í 2. mgr. 58. gr., skulu eftirlitsyfirvöld, til að tryggja trausta og varfærna stjórnun vátrygginga- og endurtryggingafélagsins, sem fyrirhugað er að yfirtaka, og, að teknu tilliti til hugsanlegra áhrifa fyrirhugaðs yfirtökuaðila á vátrygginga- eða endurtryggingafélagið, leggja mat á hæfi fyrirhugaðs yfirtökuaðila og það hversu fjárhagslega traust fyrirhuguð yfirtaka er með hliðsjón af öllum eftirfarandi viðmiðunum:
a)    orðspori fyrirhugaðs yfirtökuaðila,
b)    orðspori og reynslu hvers þess aðila sem kemur til með að stjórna viðskiptum vátrygginga- eða endurtryggingafélagsins í kjölfar fyrirhugaðrar yfirtöku,
c)    fjárhagslegu trausti fyrirhugaðs yfirtökuaðila, einkum í tengslum við þá gerð viðskipta sem eru stunduð og áformað er að stunda í vátrygginga- eða endurtryggingafélaginu sem fyrirhugað er að yfirtaka,
d)    því hvort vátrygginga- eða endurtryggingafélagið getur farið að og haldið áfram að fara að varfærniskröfunum, sem byggjast á þessari tilskipun og, eftir atvikum, öðrum tilskipunum, nánar til tekið tilskipun 2002/87/EB, einkum hvort uppbygging samstæðunnar, sem það verður hluti af, sé þannig að hægt sé að hafa skilvirkt eftirlit með henni, skiptast á upplýsingum um hana milli eftirlitsyfirvalda á skilvirkan hátt og ákvarða skiptingu ábyrgðar milli eftirlitsyfirvalda,
e)    ef gildar ástæður eru til að ætla að peningaþvætti eða fjármögnun hryðjuverka, í skilningi 1. gr. tilskipunar 2005/60/EB Evrópuþingsins og ráðsins frá 26. október 2005 um ráðstafanir gegn því að fjármálakerfið sé notað til peningaþvættis og fjármögnunar ( 1 ) hryðjuverka, séu eða hafi verið framin, eða að fyrirhuguð yfirtaka geti aukið hættuna á því.
2.     Eftirlitsyfirvöld geta ekki andmælt fyrirhugaðri yfirtöku nema fyrir því liggi gildar ástæður á grundvelli viðmiðananna sem sett eru fram í 1. mgr. eða ef upplýsingarnar sem fyrirhugaður yfirtökuaðili veitir eru ófullnægjandi.
3.     Aðildarríki skulu hvorki krefjast neinna fyrirfram skilyrða hvað varðar hlutfall eignarhlutdeildar sem verður að yfirtaka né heimila eftirlitsyfirvöldum sínum að skoða fyrirhugaða yfirtöku með tilliti til efnahagslegrar þarfar markaðarins.
4.     Aðildarríkin skulu birta opinberlega skrá með nauðsynlegum upplýsingum til að framkvæma matið og sem ber að senda eftirlitsyfirvöldum um leið og tilkynninguna sem um getur í 1. mgr. 57. gr. Upplýsingarnar sem krafist er skulu vera í réttu hlutfalli við og lagaðar að eðli fyrirhugaðs yfirtökuaðila og fyrirhugaðrar yfirtöku. Aðildarríkin skulu ekki krefjast annarra upplýsinga en þeirra sem skipta máli fyrir varfærnismat.
5.     Hafi eftirlitsyfirvaldi verið tilkynnt um tvær eða fleiri fyrirhugaðar yfirtökur eða tvö eða fleiri tilvik fyrirhugaðrar aukningar á virkri eignarhlutdeild í sama vátrygginga- eða endurtryggingafélagi skal, með fyrirvara um 1., 2. og 3. mgr. 58. gr., meðferð þess á fyrirhuguðum yfirtökuaðilum vera án mismununar.

60. gr.
Yfirtökur af hálfu eftirlitsskyldra fjármálafyrirtækja

1.     Viðeigandi eftirlitsyfirvöld skulu hafa fullt samráð hvert við annað þegar þau framkvæma mat ef fyrirhugaður yfirtökuaðili er:
a)    lánastofnun, vátrygginga- eða endurtryggingafélag, fjárfestingarfyrirtæki eða rekstrarfélag í skilningi 2. liðar 1. gr. a í tilskipun 85/611/EBE (rekstrarfélag verðbréfasjóðs) með starfsleyfi í öðru aðildarríki eða öðrum geira en þeim þar sem yfirtakan er fyrirhuguð,
b)    móðurfélag lánastofnunar, vátrygginga- eða endurtryggingafélags, fjárfestingarfyrirtækis eða rekstrarfélags verðbréfasjóðs með starfsleyfi í öðru aðildarríki eða öðrum geira en þeim þar sem yfirtakan er fyrirhuguð eða
c)    einstaklingur eða lögaðili sem hefur yfirráð yfir lánastofnun, vátrygginga- eða endurtryggingafélagi, fjárfestingarfyrirtæki eða rekstrarfélagi verðbréfasjóðs með starfsleyfi í öðru aðildarríki eða öðrum geira en þeim þar sem yfirtakan er fyrirhuguð.
2.     Eftirlitsyfirvöld skulu veita hvert öðru án óþarfa tafa allar upplýsingar sem nauðsynlegar eru eða skipta máli fyrir matið. Að því er þetta varðar skulu eftirlitsyfirvöldin senda hvert öðru allar upplýsingar sem málið varðar ef óskað er eftir því og allar mikilvægar upplýsingar að eigin frumkvæði. Taki eftirlitsyfirvaldið, sem veitt hefur vátrygginga- eða endurtryggingafélaginu, sem fyrirhugað er að yfirtaka, starfsleyfi, ákvörðun skal tilgreina í henni sjónarmið eða fyrirvara sem eftirlitsyfirvaldið, sem ber ábyrgð á fyrirhuguðum yfirtökuaðila, hefur látið í ljósi eða gert.

61. gr.
Upplýsingar frá vátrygginga- eða endurtryggingafélagi til eftirlitsyfirvalds

Þegar vátrygginga- eða endurtryggingafélag fær vitneskju um öflun og ráðstöfun á eignarhlutum í eigin fé sínu, sem veldur því að þessir eignarhlutar fara yfir eða undir mörkin sem tilgreind eru í 19. gr. og 1.–7. mgr. 58. gr., skal það tilkynna það eftirlitsyfirvöldum í heimaaðildarríkinu.
Vátrygginga- eða endurtryggingafélagið skal einnig, að minnsta kosti einu sinni á ári, tilkynna eftirlitsyfirvöldunum í heimaaðildarríkinu nöfn þeirra hluthafa og aðila sem eiga virka eignarhlutdeild og upphæð þessa hlutafjár svo sem gefið er upp t.d. á aðalfundum hluthafa eða félagsaðila eða vegna reglna sem settar eru um skráningu hlutabréfa á verðbréfaþingum.

62. gr.
Virk eignarhlutdeild, valdsvið eftirlitsyfirvalda

Aðildarríkin skulu krefjast þess að þegar áhrif þeirra aðila sem um getur í 57. gr. eru líkleg til að ganga gegn traustri og varfærinni stjórnun vátrygginga- eða endurtryggingafélags skuli eftirlitsyfirvöld í heimaaðildarríki þess félags þar sem sóst er eftir virkri eignarhlutdeild eða hún aukin, grípa til viðeigandi ráðstafana til að binda enda á það ástand. Slíkar ráðstafanir geta t.d. verið lögbann, viðurlög gagnvart stjórnendum og forstöðumönnum eða svipting atkvæðisréttar sem fylgir hlutabréfum þeirra hluthafa og aðila sem um ræðir.
Svipaðar ráðstafanir skulu gilda gagnvart einstaklingum og lögaðilum sem ekki standa við tilkynningarskylduna í samræmi við 57. gr.
Ef eignarhlutdeildar er aflað þrátt fyrir andstöðu eftirlitsyfirvalda skulu aðildarríkin, óháð öðrum refsiaðgerðum sem gripið er til, kveða á um:
1)    sviptingu atkvæðisréttar eða
2)    ógildingu á öllum greiddum atkvæðum eða að hægt sé að ógilda þau.

63. gr.
Atkvæðisréttur

Að því er varðar þennan lið ber að taka tillit til atkvæðisréttarins sem um getur í 9. og 10. gr. tilskipunar 2004/109/EB, svo og til skilyrða um samlagningu eignarhluta sem mælt er fyrir um í 4. og 5. mgr. 12. gr. þeirrar tilskipunar.
Aðildarríki skulu ekki taka tillit til atkvæðisréttar eða hlutabréfa sem fjárfestingarfyrirtæki eða lánastofnanir kunna að eiga eftir að hafa veitt sölutryggingu vegna fjármálagerninga og/eða markaðssett fjármálagerninga á skuldbindandi grundvelli skv. 6. lið A-þáttar í I. viðauka við tilskipun 2004/39/EB, að því tilskildu að þessi réttindi séu ekki nýtt eða notuð á annan hátt til að hlutast til um stjórn útgefandans og að þeim sé ráðstafað innan eins árs frá yfirtökunni.

5. þáttur
Þagnarskylda, upplýsingaskipti og kynning á samleitni eftirlits
64. gr.
Þagnarskylda

Aðildarríkin skulu mæla svo fyrir að allir þeir sem vinna fyrir eða hafa unnið fyrir eftirlitsyfirvöld, sem og endurskoðendur eða sérfræðingar sem koma fram fyrir hönd þessara yfirvalda, séu bundnir þagnarskyldu.
Þessir einstaklingar skulu ekki skýra neinum einstaklingum eða yfirvöldum frá trúnaðarmálum sem þeir öðlast vitneskju um við skyldustörf sín nema um sé að ræða ágrip eða samantekt af því tagi að ekki sé unnt að bera kennsl á einstök vátryggingafélög, þ.m.t. endurtryggingafélög, þó með fyrirvara um mál sem heyra undir hegningarlög.
Þó má skýra frá trúnaðarupplýsingum í málum sem heyra undir einkamálrétt eða verslunarrétt ef vátrygginga- eða endurtryggingafélag hefur verið lýst gjaldþrota eða tekið nauðugt til slitameðferðar, snerti þau ekki þriðju aðila sem reyna að bjarga áðurnefndu félagi.

65. gr.
Upplýsingaskipti milli eftirlitsyfirvalda aðildarríkjanna

Ákvæði 64. gr. skulu ekki útiloka að eftirlitsyfirvöld í mismunandi aðildarríkjum skiptist á upplýsingum. Slíkar upplýsingar skulu háðar þagnarskyldu svo sem kveðið er á um í 64. gr.

66. gr.
Samvinna við þriðju lönd

Aðildarríkjunum er því aðeins heimilt að gera samstarfssamninga um upplýsingaskipti við eftirlitsyfirvöld í þriðju löndum, eða yfirvöld eða stofnanir í þriðju löndum, eins og skilgreint er í 1. og 2. mgr. 68. gr., að um upplýsingarnar sem veita skal ríki þagnarskylda í a.m.k. sama mæli og um getur í þessum þætti. Slík upplýsingaskipti skulu fara fram í þeim tilgangi að fyrrgreind yfirvöld eða stofnanir geti sinnt eftirlitsstörfum sínum.
Ef upplýsingarnar sem aðildarríki skal veita þriðja landi eru upprunnar í öðru aðildarríki skulu þær aðeins veittar með skýlausu samþykki eftirlitsyfirvalda þess aðildarríkis og, eftir því sem við á, aðeins í þeim tilgangi sem þau eftirlitsyfirvöld samþykktu.

67. gr.
Notkun trúnaðarupplýsinga

Eftirlitsyfirvöld, sem fá upplýsingar um trúnaðarmál skv. 64. eða 65 gr. mega einungis notfæra sér þær við skyldustörf sín í eftirfarandi tilgangi:
1)    fylgjast með því að skilyrði fyrir því að hefja vátrygginga- eða endurtryggingastarfsemi séu uppfyllt, og til að auðvelda eftirlit með slíkri starfsemi, einkum m.t.t. eftirlits með vátryggingaskuldum, gjaldþolskröfu, lágmarkskröfum um eigið fé og stjórnkerfi,
2)    beita viðurlögum,
3)    þegar ákvörðun eftirlitsyfirvalds er áfrýjað til æðra stjórnvalds,
4)    í málarekstri fyrir dómstóli samkvæmt þessari tilskipun

68. gr.
Upplýsingaskipti við önnur yfirvöld

1.     Ákvæði 64. og 67. gr. skulu ekki útiloka neitt af eftirfarandi:
a)    upplýsingaskipti milli nokkurra eftirlitsyfirvalda í sama aðildarríki þegar þau gegna eftirlitshlutverki sínu,
b)    upplýsingaskipti milli eftirlitsyfirvalda, þegar þau gegna eftirlitshlutverki sínu, og einhverra af eftirtöldum aðilum sem eru staðsettir í sama aðildarríki:
    i.    yfirvöld sem annast eftirlit með lánastofnunum og öðrum fjármálastofnunum og yfirvöld sem annast eftirlit með fjármálamörkuðum,
    ii.    stofnanir sem hafa afskipti af félagsslitum og gjaldþroti vátrygginga- eða endurtryggingafélaga og annarri sambærilegri málsmeðferð,
    iii.    aðilar sem annast lögboðna endurskoðun á reikningum vátrygginga- og endurtryggingafélaga og annarra fjármálastofnana,
c)    birtingu nauðsynlegra upplýsinga til handa stofnunum sem stjórna lögboðinni slitameðferð eða ábyrgðasjóðum til að þær geti gegnt starfi sínu.
Upplýsingaskiptin sem um getur í b- og c-liðum eru einnig heimil milli mismunandi aðildarríkja.
Upplýsingar, sem þessi yfirvöld, stofnanir og aðilar fá, skulu háðar skilyrðum um þagnarskyldu svo sem mælt er fyrir um í 64. gr.
2.     Ákvæði 64. og 67. gr. skulu ekki útiloka að aðildarríki heimili upplýsingaskipti milli eftirlitsyfirvalda og einhverra eftirfarandi aðila:
a)    yfirvalda sem annast eftirlit með stofnunum sem tengjast félagsslitum og gjaldþrotaskiptum vátryggingafélaga, endurtryggingafélaga og annarri sambærilegri málsmeðferð,
b)    yfirvalda sem annast eftirlit með aðilum sem falin er lögboðin endurskoðun reikninga vátryggingafélaga, endurtryggingafélaga, lánastofnana, fjárfestingarfyrirtækja og annarra fjármálastofnana,
c)    óháðra tryggingafræðinga vátryggingafélaga eða endurtryggingafélaga sem annast lögboðið eftirlit með þessum félögum, svo og stofnana sem annast eftirlit með þessum tryggingafræðingum.
Aðildarríki sem beita ákvæði fyrstu undirgreinar skulu krefjast þess að eftirfarandi skilyrðum sé fullnægt hið minnsta:
a)    upplýsingarnar skal nota í því skyni að hafa umsjón með og annast lögboðið eftirlit eins og um getur í fyrstu undirgrein,
b)    upplýsingarnar sem fengnar eru skulu háðar skilyrðum um þagnarskyldu svo sem mælt er fyrir um í 64. gr.,
c)    Séu upplýsingarnar upprunnar í öðru aðildarríki er ekki heimilt að afhenda þær án skýlauss samþykkis eftirlitsyfirvalds þaðan sem þær eru upprunnar, og þá einungis til þeirra nota sem sama yfirvald hefur gefið samþykki fyrir.
Aðildarríkin skulu tilkynna framkvæmdastjórninni og hinum aðildarríkjunum hvaða yfirvöld, aðilar og stofnanir megi taka við upplýsingum samkvæmt 1. og 2. undirgrein.
3.     Ákvæði 64.–67. gr. skulu ekki koma í veg fyrir að aðildarríkin geti, með það að markmiði að auka stöðugleika fjármálakerfisins og gera það heilsteyptara, leyft skipti á upplýsingum milli eftirlitsyfirvalda og yfirvalda eða stofnana sem hafa það hlutverk að ljóstra upp um og rannsaka brot á félagarétti.
Aðildarríki sem beita ákvæði fyrstu undirgreinar skulu krefjast þess að eftirfarandi skilyrðum sé fullnægt hið minnsta:
a)    upplýsingarnar verða að vera ætlaðar til uppljóstrana og rannsókna eins og um getur í fyrstu undirgrein,
b)    upplýsingar sem fengnar eru skulu háðar skilyrðum um þagnarskyldu svo sem mælt er fyrir um í 64. gr.,
c)    Séu upplýsingarnar upprunnar í öðru aðildarríki skulu þær ekki afhentar án skýlauss samþykkis eftirlitsyfirvalds þaðan sem þær eru upprunnar, og þá einungis til þeirra nota sem sama yfirvald hefur gefið samþykki fyrir.
Ef svo ber undir í aðildarríki að yfirvöld eða stofnanir, sem um getur í fyrstu undirgrein, njóta við uppljóstranir eða rannsóknir sínar aðstoðar einstaklinga, sem hafa verið tilnefndir í þessu skyni vegna sérþekkingar sinnar en starfa ekki á vegum hins opinbera, er heimilt að láta hugsanleg upplýsingaskipti, sem kveðið er á um í fyrstu undirgrein, ná einnig til slíkra einstaklinga með þeim skilyrðum sem sett eru fram í annarri undirgrein.
Við beitingu c-liðar annarrar undirgreinar ber yfirvöldum eða stofnunum, sem um getur í fyrstu undirgrein, að gera eftirlitsyfirvaldinu, þaðan sem upplýsingarnar eru upprunnar, grein fyrir nöfnum og nákvæmu umboði aðilanna sem eiga að fá þær.
4.     Aðildarríkin skulu tilkynna framkvæmdastjórninni og hinum aðildarríkjunum hvaða yfirvöld, aðilar eða stofnanir mega þiggja upplýsingar samkvæmt 3. mgr.

69. gr.
Upplýsingar sem veittar eru stjórnarskrifstofum sem bera ábyrgð á fjármálalöggjöf

Ákvæði 64. og 67. gr. skulu ekki koma ekki í veg fyrir að aðildarríkin heimili, samkvæmt heimildum í lögum, að öðrum deildum stjórnarskrifstofa sem bera ábyrgð á löggjöf um eftirlit með lánastofnunum, fjármálastofnunum, fjárfestingarþjónustu og vátrygginga- eða endurtryggingafélögum og eftirlitsmönnum, sem koma fram fyrir hönd þessara deilda, sé skýrt frá vissum upplýsingum.
Slíkar upplýsingar skal þó aðeins veita þegar þess er þörf vegna varfærnieftirlits með starfseminni. Þó skulu aðildarríkin kveða á um að upplýsingar, sem fengnar eru skv. 65. gr. og 1. mgr. 68. gr. eða með sannprófun á staðnum, s.s. um getur í 32. gr., megi aldrei veita í þeim tilvikum sem um getur í þessari grein nema með skýlausu samþykki eftirlitsyfirvalda aðildarríkisins sem veitti upplýsingarnar eða eftirlitsyfirvalda aðildarríkisins þar sem sannprófunin á staðnum fór fram.

70. gr.
Miðlun upplýsinga til seðlabanka og yfirvalda í peningamálum

Með fyrirvara um þennan þátt getur eftirlitsyfirvald sent upplýsingar, sem ætlað er að koma að haldi við störf þeirra, til eftirfarandi aðila:
1)    seðlabanka og annarra stofnana sem gegna svipuðu hlutverki og yfirvald á sviði peningamála,
2)    eftir atvikum, annarra opinberra yfirvalda sem bera ábyrgð á eftirliti með greiðslukerfum.
Þessi yfirvöld eða stofnanir geta einnig sent eftirlitsyfirvöldum upplýsingar sem þau geta þurft á að halda að því er varðar 67. gr. Um upplýsingar, sem eru fengnar í þessu sambandi, skulu gilda ákvæði um þagnarskyldu sem mælt er fyrir um í þessum þætti.

71. gr.
Samleitni eftirlits

1.     Aðildarríkin skulu tryggja að umboð eftirlitsyfirvalda miðist við tilhlýðilegt tillit til hagsmuna Bandalagsins.
2.     Aðildarríkin skulu sjá til þess að við skyldustörf sín taki eftirlitsyfirvöld tillit til samleitni að því er varðar eftirlitstæki og framkvæmd eftirlits við beitingu laga og stjórnsýslufyrirmæla, sem samþykkt eru samkvæmt þessari tilskipun. Í þeim tilgangi skulu aðildarríkin sjá til þess að eftirlitsyfirvöld taki þátt í starfsemi CEIOPS samkvæmt ákvörðun 2009/79/EB og taki viðeigandi tillit til leiðbeininga og tilmæla sem um getur í 3. mgr. þessarar greinar.
3.     Ef nauðsyn krefur skal CEIOPS kveða á um leiðbeiningar og tilmæli, sem ekki eru bindandi að lögum, varðandi innleiðingu ákvæðanna í þessari tilskipun og framkvæmdarráðstöfun þess, til þess að auka samleitni eftirlitsaðferða. Þá skal CEIOPS gefa Evrópuþinginu, ráðinu og framkvæmdastjórninni skýrslu reglulega, eigi sjaldnar en annað hvert ár, um hvernig samleitni eftirlitsaðferða vindur fram í Bandalaginu.

6. þáttur
Skyldur endurskoðenda
72. gr.
Skyldur endurskoðenda

1.     Aðildarríkin skulu að lágmarki kveða á um að aðilum sem til þess hafa heimild í skilningi áttundu tilskipunar ráðsins 84/253/EBE frá 10. apríl 1984 sem byggð er á g-lið 3. mgr. 54. gr. sáttmálans um löggildingu einstaklinga sem falið er að annast lögboðna endurskoðun bókhaldsgagna ( 1 ), og annast í vátrygginga- eða endurtryggingafélögum hina lögboðnu endurskoðun sem um getur í 51. gr. tilskipunar 78/660/EBE, 37. gr. tilskipunar 83/349/EBE, 85/ 611/EBE eða 31. gr. eða einhverja aðra lögboðna endurskoðun, skuli skylt að upplýsa j endurskoðunaryfirvöld þegar í stað um málsatvik eða ákvarðanir sem snerta félagið, sem viðkomandi hefur orðið áskynja í starfi sínu og getur leitt til einhvers af eftirfarandi:
a)    verulega er gengið á svig við lög eða stjórnsýslufyrirmæli, þar sem mælt er fyrir um skilyrði fyrir veitingu starfsleyfis eða sem fjalla sérstaklega um starfsemi vátryggingafélaga, þ.m.t. endurtryggingafélaga,
b)    skerðing á áframhaldandi starfsemi vátrygginga- eða endurtryggingafélagsins,
c)    ekki er skrifað upp á reikningana eða fyrirvarar settir,
d)    ekki er farið að ákvæðum hvað varðar gjaldþolskröfu,
e)    ekki er farið að ákvæðum hvað varðar lágmarkskröfur um eigið fé.
Einstaklingarnir sem um getur í fyrstu undirgrein skulu einnig upplýsa um málsatvik og ákvarðanir sem þeir hafa orðið áskynja um við að framkvæma verk, eins og um getur í fyrstu undirgrein, í félagi sem hefur náin tengsl vegna yfirráðatengsla við vátrygginga- eða endurtryggingafélagið þar sem þeir framkvæma það verk.
2.     Ekki skal litið svo á að það athæfi einstaklinga, sem til þess hafa heimild í skilningi tilskipunar 84/ 253/EBE, að upplýsa í góðri trú eftirlitsyfirvöld um málsatvik eða ákvarðanir samkvæmt 1. mgr., sé brot á þagnarskyldu sem komið hefur verið á með samningi eða lögum eða stjórnsýsluákvæðum og skal ekki kalla þá til ábyrgðar með neinum hætti.

V. KAFLI
Rekstur líftrygginga- og skaðatryggingastarfsemi
73. gr.
Rekstur líftrygginga- og skaðatryggingastarfsemi

1.     Vátryggingafélögum skal ekki heimilt að reka líftryggingar og skaðatryggingar samtímis.
2.     Þó geta aðildarríkin, þrátt fyrir 1. mgr., kveðið á um að:
a)    félög sem reka líftryggingastarfsemi geti fengið starfsleyfi fyrir skaðatryggingastarfsemi sem tekur til áhættu sem skráð er í 1. og 2. flokki A- hluta í I. vikauka,
b)    félög sem aðeins hafa starfsleyfi vegna áhættu sem skráð er í 1. og 2. flokki A-hluta í I. vikauka geta fengið starfsleyfi til að reka líftryggingastarfsemi.
Rekstur starfseminnar skal þó vera aðgreindur í samræmi við 74. gr.
3.     Aðildarríkin geta kveðið á um að félögin, sem um getur í 2. mgr., hlíti gildandi bókhaldsreglum um líftryggingafélög að því er varðar alla starfsemi þeirra. Þar til samræming fer fram á þessu sviði er aðildarríkjunum einnig heimilt að kveða á um að, að því er varðar reglur um félagsslit, skuli reglur um vátryggingastarfsemi einnig eiga við um starfsemi í tengslum við áhættu sem talin er upp í greinaflokkum 1. og 2. flokki A-hluta í I. vikauka.
4.     Ef skaðatryggingafélag hefur fjárhagsleg, viðskiptaleg eða stjórnunarleg tengsl við líftryggingafélag skulu eftirlitsyfirvöld í heimaaðildarríkinu sjá til þess að ekki séu í gildi samningar eða fyrirkomulag milli þessara félaga sem eru þannig að reikningar viðkomandi félaga gefi ranga mynd eða geti haft áhrif á skiptingu tekna og gjalda milli þeirra.
5.     Félög sem eftirfarandi daga ráku samtímis bæði líftrygginga- og skaðatryggingastarfsemi sem þessi tilskipun tekur til geta haldið því áfram að því tilskildu að rekstur starfseminnar sé aðgreindur skv. 74. gr.
a)    1. janúar 1981, að því er varðar félög með starfsleyfi í Grikklandi,
b)    1. janúar 1986, að því er varðar félög með starfsleyfi á Spáni og í Portúgal,
c)    1. janúar 1995, að því er varðar félög með starfsleyfi í Austurríki, Finnlandi og Svíþjóð,
d)    1. maí 2004, að því er varðar félög með starfsleyfi í Tékklandi, Eistlandi, Kýpur, Lettlandi, Litháen, Ungverjalandi, Möltu, Póllandi, Slóvakíu og Slóveníu,
e)    1. janúar 2007, að því er varðar félög með starfsleyfi í Búlgaríu og Rúmeníu,
f)    15. mars 1979, að því er varðar öll önnur félög.
Heimaaðildarríkið getur gert þá kröfu til vátryggingafélaga að þau hætti samhliða rekstri líftrygginga- og skaðatryggingastarfsemi sem þau stunduðu á þeim dögum sem um getur í fyrstu undirgrein, innan tiltekins frests sem aðildarríkið setur.

74. gr.
Aðskilinn rekstur líftrygginga- og skaðatryggingastarfsemi

1.     Aðgreindum rekstri skv. 73. gr. skal haga þannig að líftryggingastarfsemi sé haldið aðskilinni frá skaðatryggingastarfsemi.
Hagsmunir líftryggingartaka og skaðatryggingataka hverra um sig skulu ekki skaðast og skal þess einkum gætt að hagnaður af líftryggingastarfsemi komi líftryggingartökum til góða á sama hátt og ef félagið ræki einungis líftryggingastarfsemi.
2.     Með fyrirvara um 100. og 128. gr. skulu vátryggingafélögin sem um getur í 2. og 5. mgr. 73. gr. reikna út:
a)    hugsaða lágmarkskröfu um eigið fé að því er varðar líftrygginga- eða endurtryggingastarfsemi, og er hún reiknuð út eins og viðkomandi félag ræki aðeins þá starfsemi, á grundvelli aðskilins bókhalds sem um getur í 6. mgr., og
b)    hugsaða lágmarkskröfu um eigið fé að því er varðar skaðatrygginga- eða endurtryggingastarfsemi, og er hún reiknuð út eins og viðkomandi félag ræki aðeins þá starfsemi, á grundvelli aðskilins bókhalds sem um getur í 6. mgr.
3.     Vátryggingafélögin sem um getur í 2. og 5. mgr. 73. gr. skulu að minnsta kosti taka til eftirfarandi, með jafnhárri fjárhæð í viðurkenndum þáttum eigin fjár:
a)    hin hugsaða lágmarkskrafa um eigið fé, að því er varðar líftryggingarstarfsemi,
b)    hin hugsaða lágmarkskrafa um eigið fé, að því er varðar skaðatryggingar.
Lágmarksfjárhagsskuldbindingarnar sem um getur i fyrstu undirgrein, að því er varðar líftryggingastarfsemi og skaðatryggingastarfsemi, skulu vera með þeim hætti að hvorug starfsemin standi straum af kostnaði hinnar.
4.     Að uppfylltum fjárhagslegum lágmarksskilyrðum sem um getur í 3. mgr., og að því tilskildu að eftirlitsyfirvöldum sé tilkynnt þar um, getur félagið látið aðstoðarhæfa hluta eigin fjár, sem enn eru tiltækir fyrir aðra hvora starfsemina, taka til gjaldþolskröfunnar sem um getur í 100. gr.
5.     Eftirlitsyfirvöld skulu bæði greina niðurstöðurnar fyrir líftrygginga- og skaðatryggingastarfsemi til að tryggja að kröfunum í 1.–4. mgr. sé fullnægt.
6.     Ársskýrsla skal færð þannig að hún sýni aðskildar niðurstöður fyrir líftryggingar og skaðatryggingar. Allar tekjur, einkum iðgjöld, greiðslur frá endurtryggjendum og fjárfestingatekjur, og útgjöld, einkum vátryggingabætur, aukning líftryggingaskuldar, endurtryggingariðgjöld og rekstrarútgjöld í tengslum við vátryggingastarfsemi, skulu sundurliðuð samkvæmt uppruna sínum. Skipting þess sem sameiginlegt er báðum tegundum starfseminnar skal bókfærð samkvæmt reglum sem eftirlitsyfirvöld samþykkja.
Vátryggingafélög skulu semja skýrslu á grundvelli ársreiknings þar sem skýrt koma fram aðstoðarhæfir lágmarkshlutar eigin fjár sem taka til hverrar hugsaðrar lágmarkskröfu um eigið fé sem um getur í 2. mgr., í samræmi við 4. mgr. 98. gr.
7.     Ef fjárhæð aðstoðarhæfra lágmarkshluta eigin fjár, hvað varðar aðra hvora tegund starfseminnar, dugar ekki til að taka til lágmarksfjárskuldbindinga sem um getur í fyrstu undirgrein 3. gr. skulu eftirlitsyfirvöld beita þeim ráðstöfunum sem kveðið er á um í þessari reglugerð gagnvart þeirri starfsemi, óháð niðurstöðunum í hinni tegund starfseminnar.
Þrátt fyrir aðra undirgrein 2. mgr. geta ráðstafanir þessar tekið til heimilda til færslu beinnar fortakslaust aðstoðarhæfra hluta eigin fjár frá annarri tegund starfseminnar til hinnar.

VI. KAFLI
Reglur um mat á eignum og skuldum, vátryggingaskuldum, eigin fé, gjaldþolskröfum, lágmarkskröfum um eigið fé og fjárfestingarreglum
1. þáttur
Mat á eignum og skuldum
75. gr.
Mat á eignum og skuldum

1.     Sé annað ekki tekið fram skulu aðildarríki tryggja að vátryggingafélög, þ.m.t. endurtryggingafélög, meti eignir og skuldir sem hér segir:
a)    Eignir skulu metnar á þá fjárhæð sem unnt er að skipta þeim fyrir í viðskiptum ótengdra aðila sem eru upplýstir og fúsir til viðskiptanna.
b)    Skuldir skulu metnar á þá fjárhæð sem unnt er að yfirfæra þær, eða gera upp, í viðskiptum ótengdra aðila sem eru upplýstir og fúsir til viðskiptanna.
Þegar mat er lagt á skuldir í b-lið skal ekki framkvæma neinar leiðréttingar til að hafa hliðsjón af á lánsfjárstöðu vátrygginga eða endurtryggingafélagsins.
2.     Framkvæmdastjórnin skal samþykkja framkvæmdarráðstafanir til að setja fram aðferðir og forsendur sem nota skal við mat á eignum og skuldum eins og mælt er fyrir um í 1. mgr.
Þessar ráðstafanir, sem er ætlað að breyta veigalitlum þáttum þessarar tilskipunar með því að auka við hana, skulu samþykktar í samræmi við stjórnsýslumálsmeðferðina með athugun sem um getur í 3. mgr. 301. gr.

2. þáttur
Reglur um vátryggingaskuld
76. gr.
Almenn ákvæði

1.     Aðildarríki skulu tryggja að vátryggingafélög, þ.m.t. endurtryggingafélög, komi á vátryggingaskuldum að því er varðar allar vátrygginga- og endurtryggingaskuldbindingar þeirra gagnvart vátryggingatökum og rétthöfum samninga um vátryggingar og endurtryggingar.
2.     Gildi vátryggingaskulda skal samsvara fjárhæðinni sem vátryggingafélög, þ.m.t. endurtryggingafélög, þyrftu að greiða ef þau flyttu vátrygginga- og endurtryggingaskuldbindingar sínar til annars vátrygginga- eða endurtryggingafélags.
3.     Við útreikning á vátryggingaskuld skal notast við upplýsingar fjármálamarkaðanna og almennt aðgengileg gögn um sölutryggingaráhættu (samkvæmni á markaði) og vera í samræmi við þau gögn.
4.     Vátryggingaskuldir skulu reiknaðar á varfærinn, áreiðanlegan og hlutlægan hátt.
5.     Útreikningur á vátryggingaskuld skal vera í samræmi við 77.–82. gr. og 86. gr., samkvæmt meginreglunum sem settar eru fram í 2.–4. mgr. og með tilliti til meginreglnanna sem settar eru fram í 1. mgr. 75. gr.

77. gr.
Útreikningur á vátryggingaskuld

1.     Virði vátryggingaskulda skal vera jafnt samanlagðri fjárhæð besta mats og vikmörkum áhættu eins og sett er fram í 2. og 3. mgr.
2.     Besta mat skal samsvara líkindavegnu meðaltali framtíðarsjóðstreymis, taka tillit til tímavirðis fjármuna (vænt núvirði framtíðarsjóðstreymis), og nota viðeigandi tímavirði hvað varðar áhættulausa vexti.
Útreikning besta mats skal byggja á uppfærðum og trúverðugum upplýsingum og raunhæfum forsendum, og skal fullnægjandi, gildandi og viðeigandi tryggingafræðilegum og tölfræðilegum aðferðum beitt.
Sjóðstreymisspáin sem notuð er við útreikning á besta mati skal taka tillit til alls inn- og útstreymis handbærs fjár sem þörf er á til að jafna vátryggingakvaðir, þ.m.t. endurtryggingakvaðir, á meðan þær gilda.
Besta mat skal reikna brúttó, án þess að dregnar séu frá endurheimtanlegar fjárhæðir vegna endurtryggingarsamninga og félaga með sérstakan tilgang. Þessar fjárhæðir skal reikna sérstaklega, í samræmi við 81. gr.
3.     Vikmörk áhættu skulu ákvörðuð þannig að þau tryggi að vátryggingaskuld sé jöfn upphæðinni sem vænst sé að vátryggingafélög, þ.m.t. endurtryggingafélög, krefjist til að taka yfir og uppfylla vátryggingakvaðir, þ.m.t. endurtryggingakvaðir.
4.     Vátryggingafélög, þ.m.t. endurtryggingafélög, skulu meta besta mat og vikmörk áhættu aðskilið.
Ef unnt er að endurtaka framtíðarsjóðstreymi í tengslum við vátryggingakvaðir, þ.m.t. endurtryggingakvaðir, með áreiðanlegum hætti með því að nota fjármálagerninga með áreiðanlegt og sannreynanlegt markaðsgildi, skal gildi vátryggingaskulda sem tengjast þessu framtíðarsjóðstreymi þó ákveðið á grundvelli markaðsgildis þessara vátryggingaskulda. Í þessu tilviki skal ekki gerð krafa um aðskilda útreikninga á besta mati og vikmörkum áhættu.
5.     Ef vátryggingafélög, þ.m.t. endurtryggingafélög, meta besta mat og vikmörk áhættu aðskilið skal reikna vikmörk áhættu með því að ákveða kostnaðinn við að útvega tækt eigið fé sem er jafnt gjaldþolskröfunni sem nauðsynleg er til að standa undir kvöðum vátryggingafélaga, þ.m.t. endurtryggingafélög, meðan þær gilda.
Vextirnir sem notaðir eru til að ákveða kostnaðinn við að útvega þá fjárhæð viðurkennds eigin fjár (vextir fjármagnskostnaðar) skulu vera hinir sömu fyrir öll vátryggingafélög, þ.m.t. endurtryggingafélög, og skulu endurskoðaðir reglulega.
Vextir fjármagnskostnaðar sem notaðir eru skulu vera jafnir viðbótarvöxtunum, hærri en viðeigandi áhættulausir vextir, sem vátrygginga- eða endurtryggingafélag stofnar til með fjárhæð viðurkennds eigin fjár eins og sett er fram í 3. þætti, jafnháir gjaldþolskröfu sem nauðsynleg er til að standa undir skuldbindingum á sviði vátrygginga, þ.m.t. endurtryggingar, á meðan þessar skuldbindingar eru við lýði.

78. gr.
Aðrir þættir sem taka þarf tillit til við útreikning á vátryggingaskuldum

Í viðbót við það sem segir í 77. gr. skulu vátryggingafélög, þ.m.t. endurtryggingafélög, taka eftirfarandi til greina við útreikning á vátryggingaskuldum:
1)    allan kostnað sem stofnað er til í því skyni að uppfylla skuldbindingar á sviði vátrygginga og endurtrygginga,
2)    verðbólgu, þ.m.t. verðbólga vegna kostnaðar og tjóna,
3)    allar greiðslur til vátryggingartaka og rétthafa, þ.m.t. valkvæð ágóðahlutdeild í framtíðinni, sem vátryggingafélög, þ.m.t. endurtryggingafélög, reikna með að greiða, einnig þær greiðslur sem tryggðar eru í samningum, nema þær falli undir 2. mgr. 91. gr.

79. gr.
Mat á fjárhagslegum tryggingum og samningsbundnum réttindum sem vátryggingasamningar, þ.m.t. endurtryggingarsamningar, taka til

Við útreikning á vátryggingaskuldum skulu vátryggingafélög, þ.m.t. endurtryggingafélög, taka fjárhagslegar tryggingar til greina, sem og samningsbundin réttindi sem stefna vátryggingafélaga, þ.m.t. endurtryggingafélaga, tekur til.
Allar forsendur vátryggingafélaga, þ.m.t. endurtryggingafélaga, að því er varðar líkurnar á því að vátryggingartakar beiti samningsbundnum réttindum, þ.m.t. niðurfelling og endurkaup, skulu vera raunhæfar og byggðar á gildandi, trúverðugum upplýsingum. Í forsendunum skulu, með beinum eða óbeinum hætti, tekin til greina þau áhrif sem framtíðarbreytingar á fjárhagslegum og ófjárhagslegum skilyrðum kunna að hafa á framkvæmd þessara kosta.

80. gr.
Liðun

Vátryggingafélög, þ.m.t. endurtryggingafélög, skulu sundurliða vátryggingakvaðir, þ.m.t. endurtryggingakvaðir, sínar í einsleita áhættuflokka, a.m.k. eftir atvinnugreinum, þegar þau reikna út vátryggingaskuldir sínar.

81. gr.
Endurheimtanlegar fjárhæðir vegna endurtryggingarsamninga og félaga með sérstakan tilgang

Útreikningar vátryggingafélaga, þ.m.t. endurtryggingafélaga, á endurheimtanlegum fjárhæðum vegna endurtryggingarsamninga og félaga með sérstakan tilgang skulu vera í samræmi við 76.–80. gr.
Við útreikning á endurheimtanlegum fjárhæðum vegna endurtryggingarsamninga og félaga með sérstakan tilgang skulu vátryggingafélög, þ.m.t. endurtryggingafélög, hafa tímamuninn milli endurheimta og beinna greiðslna til hliðsjónar.
Niðurstaða þeirra útreikninga skal löguð að því að taka vænt töp, vegna þess að mótaðili lendir í vanskilum, til greina. Sú aðlögun skal byggð á mati á líkunum á því að mótaðili lendi í vanskilum og meðaltap sem af því stafar (tap vegna vanskila).

82. gr.
Gæði gagna og beiting nálgana, þ.m.t. útreikningur á hverju tilviki fyrir sig, vegna vátryggingaskulda

Aðildarríki skulu tryggja að vátryggingafélög, þ.m.t. endurtryggingafélög, komi á innri ferlum og málsmeðferðum til að tryggja að þau gögn sem notuð eru við útreikning á vátryggingaskuldum séu viðeigandi, heilleg og nákvæm.
Ef vátryggingafélög, þ.m.t. endurtryggingafélög, hafa, við sérstakar aðstæður, aðeins yfir að ráða ónógum gögnum af viðeigandi gæðum til að beita áreiðanlegri tryggingafræðilegri aðferð á mengi eða hlutmengi vátryggingakvaða sinna, þ.m.t. endurtryggingakvaðir, eða endurheimtanlegar fjárhæðir vegna endurtryggingarsamninga og félaga með sérstakan tilgang, má nota viðeigandi nálgun, þ.m.t. útreikningur á hverju tilviki fyrir sig, til að reikna út besta mat.

83. gr.
Samanburður við fyrri reynslu

Vátryggingafélög, þ.m.t. endurtryggingafélög, skulu koma á innri ferlum og málsmeðferðum til að tryggja að besta mat, og þær forsendur sem liggja til grundvallar útreikningum á því, sé reglulega borið saman við fyrri reynslu.
Ef samanburðurinn leiðir í ljós kerfisbundið frávik milli fyrri reynslu og útreiknings á besta mati vátrygginga- og endurtryggingafélaga skal hlutaðeigandi félag gera viðeigandi leiðréttingar á þeim tryggingafræðilegu aðferðum sem beitt var og/eða forsendunum sem bjuggu að baki.

84. gr.
Viðeigandi stig vátryggingaskulda

Ef eftirlitsyfirvöld fara fram á það skulu vátryggingafélög, þ.m.t. endurtryggingafélög, sýna fram á viðeigandi stig vátryggingaskulda, sem og beitingu og gildi aðferða sem notaðar voru og hversu vel tölfræðigögnin dugðu sem lögð voru til grundvallar.

85. gr.
Hækkun á vátryggingaskuld

Að því marki sem útreikningar vátryggingafélaga, þ.m.t. endurtryggingafélög, á vátryggingaskuldum fara ekki að 76.–83. gr. geta eftirlitsyfirvöld krafist þess að vátryggingafélög, þ.m.t. endurtryggingafélög, hækki fjárhæð vátryggingaskulda til þess að hún samsvari því stigi sem ákveðið er samkvæmt þessum greinum.

86. gr.
Framkvæmdarráðstafanir

Framkvæmdastjórnin skal samþykkja framkvæmdarráðstafanir sem mæla fyrir um eftirfarandi:
a)    tryggingafræðilega og tölfræðilega aðferðafræði til að reikna út besta mat sem um getur í 2. mgr. 77. gr.,
b)    viðeigandi tímavirði hvað varðar áhættulausa vexti sem nota skal til að reikna út besta mat sem um getur í 2. mgr. 77. gr.,
c)    þau tilvik þar sem vátryggingaskuldir skal reikna út í heild, eða sem samanlagða fjárhæð besta mats og vikmörk áhættu, og þær aðferðir sem nota skal þegar vátryggingaskuldir eru reiknaðar út í heild,
d)    þær aðferðir og forsendur sem nota skal við útreikning á vikmörkum áhættu, þ.m.t. að ákvarða fjárhæð viðurkennds eigin fjár sem nauðsynleg er til að standa undir skuldbindingum á sviði vátrygginga, þ.m.t. endurtryggingar, og kvörðun vaxta fjármagnskostnaðar,
e)    atvinnugreinar sem liggja til grundvallar niðurhlutun skuldbindinga á sviði vátrygginga, þ.m.t. endurtryggingar, við útreikning á vátryggingaskuldum,
f)    staðla sem þarf að uppfylla til að tryggja að gögnin sem notuð eru við útreikning á vátryggingaskuldum séu viðeigandi, heilleg og nákvæm, og þær sérstöku aðstæður þar sem viðeigandi væri að beita nálgunum, þ.m.t. skoðun á hverju tilviki fyrir sig, til að reikna út besta mat,
g)    aðferðafræðina sem beita skal við útreikning á vanskilaaðlögun mótaðila sem um getur í 81. gr. og er til þess gerð að ná yfir vænt tap vegna vanskila mótaðila,
h)    einfaldaðar aðferðir og tækni, ef nauðsyn krefur, við útreikning á vátryggingaskuldum, til að tryggja að þær tryggingafræðilegu og tölfræðilegu aðferðir sem um getur í a- og d-lið séu í samræmi við eðli, umfang og margbreytileika áhættunnar sem vátryggingafélög, þ.m.t. endurtryggingafélög, standa undir, þ.m.t. bundin frumtrygginga- og endurtryggingafélög.
Þessar ráðstafanir, sem er ætlað að breyta veigalitlum þáttum þessarar tilskipunar með því að auka við hana, skulu samþykktar í samræmi við stjórnsýslumálsmeðferðina með athugun sem um getur í 3. mgr. 301. gr.

3. þáttur
Eigið fé
1. undirþáttur
Ákvörðun eigin fjár
87. gr.
Eigið fé

Eigið fé skal samanstanda af summu viðurkennds eigin fjár, sem um getur í 88. gr., og fylgiþátta eigin fjár sem um getur í 89. gr.

88. gr.
Viðurkennt eigið fé

Viðurkennt eigið fé skal sett saman úr eftirfarandi:
1)    eignir umfram skuldir, metnar í samræmi við 75. gr. og 2. þátt,
2)    víkjandi skuldbindingar.
Umframfjárhæð sem um getur í 1. tölulið skal lækkuð sem nemur fjárhæð eigin hlutabréfa vátrygginga- eða endurtryggingafélags.

89. gr.
Fylgiþættir eigin fjár

1.     Fylgiþættir eigin fjár skulu samanstanda af öðrum hlutum en viðurkenndu eigin fé sem hægt er að innkalla til að bera tap.
Fylgihlutir eigin fjár geta tekið til eftirfarandi hluta, að því marki sem þeir eru ekki hlutar viðurkennds eigin fjár:
a)    óinnborgað hlutafé eða stofnfé sem ekki hefur verið innkallað,
b)    loforð um lánveitingu og tryggingar,
c)    allar aðrar lagalega bindandi skuldbindingar sem vátryggingafélög, þ.m.t. endurtryggingafélög, móttaka.
Sé um að ræða gagnkvæm félög eða félög hliðstæðrar gerðar með breytileg iðgjöld geta fylgihlutir eigin fjár einnig tekið til allra krafna í framtíðinni sem viðkomandi félag kann að eiga á hendur meðlimum sínum, á formi kröfu um viðbótarframlag innan næstu tólf mánaða.
2.     Ef fylgihlutir eigin fjár hafa verið innborgaðir eða innkallaðir skal farið með þá sem eign, og eru þeir þá ekki lengur hlutar fylgihluta eigin fjár.

90. gr.
Samþykki eftirlitsyfirvalda á fylgihlutum eigin fjár

1.     Fjárhæðir fylgihluta eigin fjár sem taka skal tillit til þegar eigið fé er ákvarðað skal háð fyrirvara um fyrirframsamþykki eftirlitsyfirvalda.
2.     Upphæðin sem ákvörðuð er fyrir hvern hluta fylgihluta eigin fjár skal endurspegla getu hlutans til að taka á sig tap og skal byggt á varfærnum og raunhæfum forsendum. Ef fylgihlutur eigin fjár er með fast nafnverð skal fjárhæð þess hlutar jafngilda nafnverði þess, ef hún endurspeglar getu hlutans til að taka á sig tap.
3.     Eftirlitsyfirvöld skulu samþykkja annað hvort eftirfarandi atriða:
a)    fjárhæð fyrir hvern hluta fylgihlutar eigin fjár,
b)    aðferð til að ákvarða fjárhæð fyrir hvern hluta fylgihlutar eigin fjár, og skal þá samþykki eftirlitsyfirvalda á fjárhæðinni ákveðið í samræmi við þá aðferð og veitt í tiltekinn tíma.
4.     Fyrir hvern hluta fylgihlutar eigin fjár skulu eftirlitsyfirvöld byggja samþykki sitt á mati á eftirfarandi:
a)    stöðu viðkomandi mótaðila, með tilliti til þess hvort þeir geta greitt og séu fúsir til þess,
b)    endurheimtanleika fjárins, með tilliti til lagalegs forms hlutarins og allra skilyrða sem gætu komið í veg fyrir að hluturinn yrði innborgaður eða innkallaður,
c)    öllum upplýsingum um niðurstöður fyrri innkallana sem vátryggingafélög, þ.m.t. endurtryggingafélög, hafa gert hvað varðar slíka fylgihluta eigin fjár, að því marki sem unnt er að nota upplýsingarnar með áreiðanlegum hætti til að meta vænta útkomu innkallana í framtíðinni.

91. gr.
Umframtekjur

1.     Umframtekjur skulu teljast uppsafnaður hagnaður sem ekki hefur verið gerður aðgengilegur til útgreiðslu til vátryggingataka og rétthafa.
2.     Að svo miklu leyti sem landslög heimila umframtekjur skal ekki litið á þær sem skuldir, að því marki sem þær uppfylla viðmiðanirnar sem settar eru fram í 1. mgr. 94. gr.

92. gr.
Framkvæmdarráðstafanir

1.     Framkvæmdastjórnin skal samþykkja framkvæmdarráðstafanir sem tilgreina eftirfarandi:
a)    viðmiðanir fyrir að veita samþykki eftirlitsyfirvalda í samræmi við 90. gr.
b)    hvernig farið skal með hlutdeild í skilningi 3. undirgreinar 2. mgr. 212. gr. í fjármála- og lánastofnunum, að því er varðar ákvörðun eigin fjár.
Þessar ráðstafanir, sem er ætlað að breyta veigalitlum þáttum þessarar tilskipunar með því að auka við hana, skulu samþykktar í samræmi við stjórnsýslumálsmeðferðina með athugun sem um getur í 3. mgr. 301. gr.
2.     Eftirfarandi telst hlutdeild í fjármála- og lánastofnunum sem um getur í b-lið 1. gr.:
a)    hlutdeild sem vátryggingafélög, þ.m.t. endurtryggingafélög, eiga í:
    i.    lána- og fjármálastofnunum í skilningi 1. mgr. og 5. mgr. 4. gr. tilskipunar 2006/48/ EB,
    ii.    fjárfestingarfyrirtækjum í merkingu 1. liðar 1. mgr. 4. gr. tilskipunar 2004/39/EB,
b)    víkjandi kröfur og gerningar, sem um getur í 63. og 64. gr. tilskipunar 2006/48/EB, sem vátryggingafélög, þ.m.t. endurtryggingafélög, eiga að því er varðar einingar sem skilgreindar eru í a-lið þessarar greinar, þar sem þau eiga hlutdeild.

2. undirþáttur
Flokkun eigin fjár
93. gr.
Einkenni og aðrir eiginleikar sem beitt er til að flokka eigin fé í stig

1.     Hlutar eigin fjár skulu flokkaðir í þrjú stig. Flokkun þessara hluta ræðst af því hvort um hluta viðurkennds eigin fjár eða hluta fylgihluta eigin fjár er að ræða, og að hve miklu leyti þeir búi yfir eftirfarandi eiginleikum:
a)    hluturinn er tiltækur, eða hægt er gera kröfu um að hann verði innkallaður, til að bera tap í áframhaldandi rekstrarhæfi og við slit (ávallt til staðar),
b)    komi til slita er heildarfjárhæð hlutarins tiltæk til að bera tap og er eiganda meinað um endurgreiðslu hlutarins þar til allar skuldbindingar, þ.m.t. vátrygginga- og endurtryggingarskuldir til vátryggingataka og rétthafa vegna vátrygginga- og endurtryggingarsamninga, hafa verið greiddar (undirskipun).
2.     Þegar metið er að hve miklu leyti hlutir eigin fjár hafi yfir þeim einkennum að ráða sem sett eru fram í a- og b-lið 1. liðar, nú og í framtíðinni, skal fullt tillit tekið til varanleika hlutarins, einkum þess hvort hann er í gildi eða ekki. Ef hlutur eigin fjár er fallinn úr gildi skal litið til tiltölulegs varanleika hans, borið saman við varanleika vátrygginga- og endurtryggingaskuldbindinga fyrirtækisins (nægilegur varanleiki).
Að auki skal litið til eftirfarandi:
a)    þess hvort hluturinn sé háður kröfum eða hvötum til að innleysa nafnverðið (engir hvatar til innlausnar),
b)    þess hvort hluturinn sé háður skyldubundnum, föstum gjöldum (engin skyldubundin viðhaldsþjónusta),
c)    þess hvort hluturinn sé laus við íþyngjandi ákvæði (engin íþyngjandi ákvæði).

94. gr.
Helstu viðmiðanir fyrir flokkun í stig

1.     Hluta viðurkennds eigin fjár skal flokka í 1. stig ef þeir búa í meginatriðum yfir einkennum sem sett eru fram í a- og b-lið 1. mgr. 93. gr., að teknu tilliti til einkenna sem sett eru fram í 2. mgr. 93. gr.
2.     Hluta viðurkennds eigin fjár skal flokka í 2. stig ef þeir búa í meginatriðum yfir einkenni sem sett er fram í b-lið 1. mgr. 93. gr., að teknu tilliti til eiginleika sem settir eru fram í 2. mgr. 93. gr.
Hluta fylgihluta eigin fjár skal flokka í 2. stig ef þeir búa í meginatriðum yfir einkennum sem sett eru fram í a- og b-lið 1. mgr. 93. gr., að teknu tilliti til eiginleika sem settir eru fram í 2. mgr. 93. gr.
3.     Alla hluta viðurkennds eigin fjár og fylgihluta eigin fjár sem falla ekki undir 1. og 2. mgr. skal flokka í 3. stig.

95. gr.
Flokkun eigin fjár í stig

Aðildarríki skulu tryggja að vátryggingafélög, þ.m.t. endurtryggingafélög, flokki hluta eigin fjár þeirra á grundvelli þeirra viðmiðana sem mælt er fyrir um í 94. gr.
Í því skyni skulu vátryggingafélög, þ.m.t. endurtryggingafélög, vísa til skrárinnar um hluta eigin fjár sem vísað er til í a-lið 1. mgr. 97. gr. þar sem það á við.
Ef hlutur eigin fjár er ekki í skránni skulu vátryggingafélög, þ.m.t. endurtryggingafélög, meta hann og flokka, í samræmi við 1. mgr. Sú flokkun skal háð samþykki eftirlitsyfirvalds.

96. gr.
Flokkun sértækra hluta eigin fjár hvað varðar vátryggingar

Með fyrirvara um 95. gr. og a-lið 1. mgr. 97. gr. að því er varðar þessa tilskipun skal eftirfarandi flokkunum beitt:
1)    Umframtekjur sem falla undir 2. mgr. 91. gr. skulu flokkaðar í 3. stig,
2)    Loforð um lánveitingu og ábyrgðir sem óháður fjárvörsluaðili varðveitir í fjárvörslusjóðum í þágu vátryggingalánardrottna og lögð eru fram af lánastofnunum sem eru með starfsleyfi í samræmi við tilskipun 2006/48/EB, skulu flokkuð í 2. stig,
3)    allar kröfur í framtíðinni sem gagnkvæm félög og svipuð félög skipaeigenda með breytileg iðgjöld, sem eingöngu tryggja áhættur sem taldar eru upp í flokkum 6, 12 og 17 í A-hluta I. viðauka, kunna að eiga á hendur meðlimum sínum á formi kröfu um viðbótarframlag innan næstu tólf mánaða, skulu flokkaðar í 2. stig.
Í samræmi við annan undirlið 2. mgr. 94. gr. skulu allar kröfur í framtíðinni sem gagnkvæm félög og svipuð félög með breytileg iðgjöld kunna að eiga á hendur meðlimum sínum á formi kröfu um viðbótarframlag innan næstu tólf mánaða og falla ekki undir 3. lið fyrsta undirliðar, flokkaðar í 2. stig, ef þær búa í meginatriðum yfir þeim einkennum sem sett eru fram í a- og b-lið 1. mgr. 93. gr. með tilliti til þeirra einkenna sem sett eru fram í 2. mgr. 93. gr.

97. gr.
Framkvæmdarráðstafanir

1.     Framkvæmdastjórnin skal samþykkja framkvæmdarráðstafanir sem mæla fyrir um eftirfarandi:
a)    skrá yfir hluta eigin fjár, þ.m.t. þá sem um getur í 96. gr. og teljast uppfylla viðmiðanir, sem um getur í 94. gr. og innihalda nákvæma lýsingu, fyrir hvern hluta eigin fjár, á þeim einkennum sem réðu flokkuninni,
b)    aðferðirnar sem eftirlitsyfirvöld skulu nota við samþykki á mati og flokkun hluta eigin fjár sem eru ekki í skránni sem um getur í a-lið.
Þessar ráðstafanir, sem er ætlað að breyta veigalitlum þáttum þessarar tilskipunar með því að auka við hana, skulu samþykktar í samræmi við stjórnsýslumálsmeðferðina með athugun sem um getur í 3. mgr. 301. gr.
2.     Framkvæmdastjórnin skal endurskoða reglulega og uppfæra, eftir því sem við á, skrána sem um getur í a-lið 1. mgr., í ljósi markaðsþróunar.

3. undirþáttur
Viðurkenning á eiginfjárliðum
98. gr.
Hæfi og takmarkanir sem gilda um 1., 2. og 3. stig

1.     Hvað það varðar að farið sé að gjaldþolskröfu skulu aðstoðarhæfar fjárhæðir 2. og 3. stigs vera háðar magntakmörkunum. Þessar takmarkanir skulu tryggja að eftirfarandi skilyrði séu uppfyllt að minnsta kosti:
a)    hlutfall 1. stigs hluta viðurkennds eigin fjár er hærra en einn þriðji af heildarfjárhæð viðurkennds eigin fjár,
b)    aðstoðarhæf fjárhæð 3. stigs hluta er lægri en einn þriðji af heildarfjárhæð viðurkennds eigin fjár.
2.     Hvað það varðar að farið sé að lágmarkskröfum um eigið fé skulu aðstoðarhæfir lágmarkshlutar eigin fjár, sem taka til lágmarkskröfunnar um eigið fé og flokkaðir eru á 2. stig, vera háðir magntakmörkunum. Þessar takmarkanir skulu að lágmarki tryggja að hlutfall viðurkennds eigin fjár á 1. stigi sé hærra en heildarfjárhæð viðurkennds eigin fjár.
3.     Viðurkennd fjárhæð eigin fjár til að ná yfir gjaldþolskröfuna sem sett er fram í 100. gr. skal vera jöfn summu fjárhæðarinnar á 1. stigi, viðurkenndu fjárhæðina á 2. stigi og viðurkenndu fjárhæðina á 3. stigi.
4.     Viðurkennd fjárhæð viðurkennds eigin fjár til að ná yfir lágmarkskröfuna um eigið fé sem sett er fram í 128. gr. skal vera jöfn summu fjárhæðarinnar á 1. stigi og hinnar viðurkenndu fjárhæðar hluta viðurkennds eigin fjár á 2. stigi.

99. gr.
Framkvæmdarráðstafanir

Framkvæmdastjórnin skal samþykkja framkvæmdarráðstafanir sem mæla fyrir um:
a)    magntakmarkanir sem um getur í 1. og 2. mgr. 98. gr.,
b)    aðlaganir sem gera skal til að endurspegla framsalshæfisskort þessara hluta eigin fjár sem aðeins er hægt að nota til að standa straum af töpum vegna sérstakra starfsþátta skulda eða vegna sérstakra áhættna (sjóðir sem haldið er aðgreindum).
Þessar ráðstafanir, sem er ætlað að breyta veigalitlum þáttum þessarar tilskipunar með því að auka við hana, skulu samþykktar í samræmi við stjórnsýslumálsmeðferðina með athugun sem um getur í 3. mgr. 301. gr.

4. þáttur
Gjaldþolskrafa
1. undirþáttur
Almenn ákvæði um gjaldþolskröfuna með því að nota staðalformúluna eða innra líkan
100. gr.
Almenn ákvæði

Aðildarríki skulu krefjast þess að vátryggingafélög, þ.m.t. endurtryggingafélög, eigi tækt eigið fé.
Gjaldþolskrafan skal annaðhvort reiknuð út í samræmi við staðalformúlu í 2. undirþætti eða með því að nota innra líkan eins og sett er fram í 3. undirþætti.

101. gr.
Útreikningur á gjaldþolskröfu

1.     Gjaldþolskrafan skal reiknuð út í samræmi við 2.–5. lið.
2.     Forsenda útreiknings á gjaldþolskröfunni skal vera að fyrirtækið haldi áfram starfsemi.
3.     Gjaldþolskrafan skal kvörðuð þannig að hún tryggi að reiknað sé með öllum magnáhættum vátrygginga- eða endurtryggingafélaga. Hún skal ná yfir núverandi starfsemi og starfsemi sem reiknað er með að hefjist innan tólf mánaða. Hún skal aðeins ná yfir óvænt töp í núverandi starfsemi.
Hún skal samsvara vágildi viðurkennds eigin fjár vátrygginga- eða endurtryggingafélags, með fyrirvara um 99,5% öryggisstig á ársgrundvelli.
4.     Gjaldþolskrafan skal að minnsta kosti ná yfir eftirfarandi áhættu:
a)    skaðatryggingaráhættu,
b)    líftryggingaráhættu,
c)    heilsutryggingaráhættu,
d)    markaðsáhættu,
e)    lánsáhættu,
f)    rekstraráhættu.
Rekstraráhætta sem um getur í f-lið fyrsta undirliðar skal taka til lagalegrar áhættu og undanskilja áhættu vegna stefnumótandi ákvarðana og markaðsfestuáhættu.
5.     Við útreikning á gjaldþolskröfunni skulu vátryggingafélög, þ.m.t. endurtryggingafélög, taka mið af mildandi aðferðum, að því tilskildu að lánsáhætta og aðrar áhættur sem stafa af slíkum aðferðum komi nægjanlega vel fram í gjaldþolskröfunni.

102. gr.
Tíðni útreikninga

1.     Vátryggingafélög, þ.m.t. endurtryggingafélög, skulu reikna gjaldþolskröfuna að minnsta kosti einu sinni á ári og gefa eftirlitsyfirvöldum skýrslu um niðurstöðu útreikninganna.
Vátryggingafélög, þ.m.t. endurtryggingafélög, skulu eiga tækt eigið fé til að ná yfir gjaldþolskröfuna sem síðast var gefin skýrsla um.
Vátryggingafélög, þ.m.t. endurtryggingafélög, skulu stöðugt fylgjast með fjárhæð tæks eigin fjár og gjaldþolskröfunni.
Ef áhættusnið vátrygginga- eða endurtryggingafélags víkur í veigamiklum atriðum frá forsendum þeim sem liggja til grundvallar nýjustu skýrslu um gjaldþolskröfu skal viðkomandi félag endurreikna gjaldþolskröfuna án tafar og gefa eftirlitsyfirvöldum skýrslu.
2.     Ef vísbendingar eru um að áhættusnið vátrygginga- eða endurtryggingafélags hafi breyst marktækt frá síðast tilkynntri dagsetningu gjaldþolskröfu geta eftirlitsyfirvöld krafið viðkomandi félag um endurútreikning á gjaldþolskröfunni.

2. undirþáttur
Stöðluð formúla gjaldþolskröfu (SCR)
103. gr.
Gerð staðalformúlunnar

Gjaldþolskrafan sem reiknuð er á grunni staðalformúlunnar skal vera summan af eftirfarandi:
a)    grunngjaldþolskröfu eins og mælt er fyrir um í 104. gr.
b)    eiginfjárkröfu um rekstraráhættu eins og mælt er fyrir um í 107. gr.
c)    aðlögun á getu vátryggingaskulda og frestaðra skatta til að taka á sig tap, eins og mælt er fyrir um í 108. gr.

104. gr.
Útfærsla á grunngjaldþolskröfu

1.     Grunngjaldþolskrafan skal ná til einstakra áhættueininga, uppsafnaðra í samræmi við 1. lið í IV. viðauka.
Hún skal ná yfir eftirfarandi áhættueiningar hið minnsta:
a)    skaðatryggingaráhættu,
b)    líftryggingaráhættu,
c)    heilsutryggingaráhættu,
d)    markaðsáhættu,
e)    áhættu vegna vanskila mótaðila.
2.     Að því er varðar a-, b- og c-lið 1. liðar skal vátrygginga- eða endurtryggingastarfsemi falin þeirri áhættueiningu sem endurspeglar best tæknilega eiginleika þeirrar áhættu sem liggur til grundvallar.
3.     Fylgnistuðull fyrir samsafn áhættueininga sem um getur í 1. lið, sem og kvörðun eiginfjárkrafna fyrir hverja áhættueiningu, skal leiða til heildargjaldþolskröfu sem er í samræmi við meginreglurnar sem settar eru fram í 101. gr.
4.     Hver þessara áhættueininga sem um getur í 1. lið skal kvörðuð á kvarða vágildis eigin fjár, með 99,5% öryggi, á ársgrundvelli.
Tekið skal tillit til áhrifa fjölbreytileika, eftir því sem við á, við útfærslu hverrar áhættueiningar.
5.     Sama útfærsla og sömu forskriftir fyrir áhættueiningarnar skulu öll vátryggingafélög, þ.m.t. endurtryggingafélög, nota, bæði með tilliti til grunngjaldþolskröfu og allra einfaldaðra útreikninga, eins og mælt er fyrir um í 109. gr.
6.     Með tilliti til áhættu vegna hamfara má nota landfræðilegar forskriftir, eftir því sem við á, við útreikning á líftryggingum, skaðatryggingum og áhættueiningum heilsutrygginga.
7.     Að fengnu samþykki eftirlitsyfirvalda geta vátryggingafélög, þ.m.t. endurtryggingafélög, í krafti útfærslu staðalformúlunnar, skipt hlutmengi breyta sinna út fyrir breytur sem eiga sérstaklega við um viðkomandi félag, við útreikning á líftryggingum, skaðatryggingum og áhættueiningum heilsutrygginga.
Þessar breytur skulu kvarðaðar á grundvelli innri gagna viðkomandi félags eða gagna sem skipta það beinlínis máli og skal stöðluðum aðferðum beitt.
Þegar eftirlitsyfirvöld veita samþykki sitt skulu þau sannreyna að gögnin sem notuð eru séu fullnægjandi, nákvæm og viðeigandi.

105. gr.
Útreikningur á grunngjaldþolskröfu

1.     Grunngjaldþolskrafan skal reiknuð út í samræmi við 2.–6. lið.
2.     Áhættueining fyrir skaðatryggingu skal endurspegla áhættuna sem stafar af tryggingakvöðum skaðatrygginga, með tilliti til áhættu sem tryggt er gegn og vinnsluferla sem beitt er við starfsemina.
Hún skal hafa hliðsjón af óvissu niðurstaðna vátryggingafélaga, þ.m.t. endurtryggingafélög, hvað varðar gildandi vátrygginga- og endurtryggingaskuldbindingar, og hvað varðar nýja starfsemi sem reiknað er með að hefjist innan tólf mánaða.
Í samræmi við 2. lið í IV. viðauka skal hún reiknuð út sem samsetning eiginfjárkrafna fyrir eftirfarandi undireiningar hið minnsta:
a)    hættu á tapi eða neikvæðri breytingu á verðmæti vátryggingaskulda sem stafar af sveiflum í tímasetningum, tíðni og því hversu alvarlegir hinir tryggðu atburðir eru, sem og tímasetningu og fjölda bótakrafna (skaðatryggingaiðgjöld og varasjóðsáhætta),
b)    hættu á tapi eða neikvæðri breytingu á verðmæti vátryggingaskulda sem stafar af umtalsverðri óvissu hvað varðar verðlagningu og skuldbindingar í tengslum við aftakaviðburði og óvænta viðburði (stórslysaáhætta skaðatrygginga).
3.     Áhættueining fyrir líftryggingu skal endurspegla áhættuna sem stafar af tryggingakvöðum líftrygginga, með tilliti til áhættna sem tryggt er gegn og vinnsluferla sem beitt er við starfsemina.
Í samræmi við 3. lið í IV. viðauka skal hún reiknuð út sem samsetning eiginfjárkrafna fyrir eftirfarandi undireiningar hið minnsta:
a)    hættu á tapi eða neikvæðri breytingu á verðmæti vátryggingaskulda sem stafar af breytingum á stigi, þróun og óstöðugleika í dánartíðni, ef aukin dánartíðni veldur því að verðmæti vátryggingaskulda aukast (áhætta vegna dauða),
b)    hættu á tapi eða neikvæðri breytingu á verðmæti vátryggingaskulda sem stafar af breytingum á stigi, þróun og óstöðugleika í dánartíðni, ef lækkuð dánartíðni veldur því að verðmæti vátryggingaskulda aukast (áhætta vegna langlífis),
c)    hættu á tapi eða neikvæðri breytingu á verðmæti vátryggingaskulda sem stafar af breytingum á stigi, þróun og óstöðugleika tíðni á sviði fötlunar, veikinda og sjúkdóma (áhætta vegna fötlunar eða sjúkdóma),
d)    hættu á tapi eða neikvæðri breytingu á verðmæti vátryggingaskulda sem stafar af breytingum á stigi, þróun og óstöðugleika útgjalda sem stofnað er til í því skyni að staðið verði við samninga á sviði vátrygginga- eða endurtrygginga (rekstrarkostnaðaráhætta vegna líftrygginga),
e)    hættu á tapi eða neikvæðri breytingu á verðmæti vátryggingaskulda sem stafar af breytingum á stigi, þróun og óstöðugleika endurskoðunarhlutfalls sem beitt er á lífeyri, vegna breytinga á lagaumhverfinu eða breytingum á heilsufari hins tryggða (endurskoðunaráhætta),
f)    hættu á tapi eða neikvæðri breytingu á verðmæti vátryggingaskulda sem stafa af breytingum á stigi eða óstöðugleika hvað varðar fjölda fyrninga tryggingasamninga, niðurfellinga, endurnýjunar og endurkaupa (fyrningaráhætta),
g)    hættu á tapi eða neikvæðri breytingu á verðmæti vátryggingaskulda sem stafar af umtalsverðri óvissu hvað varðar verðlagningu og skuldbindingar í tengslum við aftakaviðburði og óvænta viðburði (stórslysaáhætta líftrygginga).
4.     Áhættueiningin fyrir heilsutryggingu skal endurspegla áhættuna sem stafar af tryggingakvöðum fyrir heilsutryggingu, hvort sem henni er framfylgt á svipaðan hátt tæknilega og líftryggingum eða ekki, með tilliti til áhættu sem tryggt er gegn og vinnsluferla sem beitt er við starfsemina.
Hún skal a.m.k. taka til eftirfarandi atriða:
a)    hættu á tapi eða neikvæðri breytingu á verðmæti vátryggingaskulda sem stafar af breytingum á stigi, þróun og óstöðugleika útgjalda sem stofnað er til í því skyni að staðið verði við samninga á sviði vátrygginga- eða endurtrygginga,
b)    hættu á tapi eða neikvæðri breytingu á verðmæti vátryggingaskulda sem stafar af sveiflum í tímasetningum, tíðni og því hversu alvarlegir hinir tryggðu atburðir eru, sem og tímasetningu og fjölda bótakrafna þegar gengið er frá þeim,
c)    hættu á tapi eða neikvæðri breytingu á verðmæti vátryggingaskulda sem stafar af umtalsverðri óvissu hvað varðar verðlagningu og skuldbindingar í tengslum við alvarlegar farsóttir sem koma upp, sem og óvenjulega uppsöfnun áhættu við svo alvarlegar aðstæður.
5.     Markaðsáhættueiningin skal endurspegla áhættuna sem stafar af óstöðugleikastigi markaðsverðs fjármálagerninga sem hafa áhrif á verðmæti eigna og skulda félagsins. Hún skal endurspegla á tilhlýðilegan hátt misræmið milli eigna og skulda, einkum að því er það varðar hve lengi það skal vara.
Í samræmi við 4. lið í IV. viðauka skal hún reiknuð út sem samsetning eiginfjárkrafna fyrir eftirfarandi undireiningar hið minnsta:
a)    næmi verðgildis eigna, skulda og fjármálagerninga gagnvart breytingum á stigi eða óstöðugleika gengis (vaxtaáhætta),
b)    næmi verðgildis eigna, skulda og fjármálagerninga gagnvart breytingum á stigi eða óstöðugleika markaðsvirðis eigin fjár (hlutabréfaáhætta),
c)    næmi verðgildis eigna, skulda og fjármálagerninga gagnvart breytingum á stigi eða óstöðugleika markaðsvirðis fasteigna (fasteignaáhætta),
d)    næmi verðgildis eigna, skulda og fjármálagerninga gagnvart breytingum á stigi eða óstöðugleika lánsáhættu gagnvart áhættulausum vaxtaskilmálum (áhættudreifing),
e)    næmi verðgildis eigna, skulda og fjármálagerninga gagnvart breytingum á stigi eða óstöðugleika gengis (gjaldmiðilsáhætta),
f)    viðbótaráhættur vátrygginga- eða endurtryggingafélaga sem annaðhvort eru tilkomnar vegna skorts á fjölbreytni í eignasafninu eða vegna mikillar hættu á vanskilaáhættu eins útgefanda verðbréfa eða flokks tengdra útgefenda (samþjöppun markaðsáhættu).
6.     Áhættueining vanskila mótaðila skal endurspegla hugsanleg töp vegna óvæntra vanskila, eða versnandi fjárhagsstöðu, mótaðila og skuldara vátryggingafélaga, þ.m.t. endurtryggingafélög, næstu tólf mánuði. Áhættueining vanskila mótaðila skal taka til samninga sem draga úr áhættu, t.d. tilhögun endurtrygginga, verðbréfana og afleiðna, viðskiptakröfur frá miðlurum, sem og öll önnur lánaáhætta sem undireining áhættudreifingar tekur ekki til. Hún skal taka viðeigandi mið af tryggingum eða öðrum verðbréfum í eigu eða í reikningi vátrygginga- eða endurtryggingafélagsins og þeim áhættum sem þessu tengjast.
Fyrir hvern mótaðila skal áhættueining vanskila mótaðila taka mið af heildarmótaðilaáhættu viðkomandi vátrygginga- eða endurtryggingafélags gagnvart mótaðilanum, án tillits til lagalegs forms samningsbundinna skyldna þess félags.

106. gr.
Útreikningur á undireiningu hlutabréfaáhættu: samhverfur stillibúnaður

1.     Undireining hlutabréfaáhættu sem reiknuð er út í samræmi við staðalformúluna skal ná yfir samhverfa aðlögun að eiginfjárkröfum sem beitt er til að ná yfir áhættur vegna breytinga á verði eigin fjár.
2.     Hin samhverfa aðlögun sem gerð er á hinni stöðluðu eiginfjárkröfu, kvörðuð í samræmi við 4. mgr. 104. gr. og nær yfir áhættuna sem verður til vegna breytinga á stigi eigin fjár, skal byggð á hlutverki núverandi stigs viðeigandi hlutabréfavísitölu og vegnu meðaltalsstigi þeirrar vísitölu. Hið vegna meðaltal skal reiknað út fyrir viðeigandi tímabil og skal það vera hið sama fyrir öll vátryggingafélög, þ.m.t. endurtryggingafélög.
3.     Hin samhverfa aðlögun sem gerð er á hinni stöðluðu eiginfjárkröfu og, nær yfir áhættuna sem verður til vegna breytinga á stigi eigin fjár, skal ekki leiða til þess að beitt sé eiginfjárkröfu sem er 10% lægri eða hærri en hin staðlaða eiginfjárkrafa.

107. gr.
Eiginfjárkrafa vegna rekstraráhættu

1.     Eiginfjárkrafa vegna rekstraráhættu skal endurspegla rekstraráhættu að því marki sem hún kemur ekki þegar fram í áhættueiningunum sem um getur í 104. gr. Skal sú krafa kvörðuð í samræmi við 3. mgr. 101. gr.
2.     Að því er varðar líftryggingarsamninga þar sem tryggingartakar bera fjárfestingaráhættuna skal útreikningur eiginfjárkröfu vegna rekstraráhættu taka mið af árlegum kostnaði sem þessar tryggingakvaðir hafa í för með sér.
3.     Að því er varðar rekstur vátrygginga, þ.m.t. endurtryggingar, annarra en þeirra sem um getur í 2. mgr., skal útreikningur eiginfjárkröfu vegna rekstraráhættu taka mið af umfangi rekstrarins hvað varðar iðgjöld ársins og vátryggingaskuldir sem hann hefur yfir að ráða til að standa við þessar vátrygginga- og endurtryggingakvaðir. Í þessu tilviki skal eiginfjárkrafa vegna rekstraráhættu ekki hafa verið hærri en 30% af grunngjaldþolskröfunni hvað þennan vátrygginga- og endurtryggingarekstur varðar.

108. gr.
Aðlögun á getu vátryggingaskulda og frestaðra skatta til að taka á sig töp

Aðlögunin sem vikið er að í c-lið 103. gr. um getu vátryggingaskulda og frestaðra skatta til að taka á sig töp skal endurspegla mögulegar bætur fyrir óvænt töp með því að lækka samtímis vátryggingaskuldir eða frestaða skatta eða hvort tveggja.
Sú aðlögun skal taka tillit til áhrifa mildunar áhættu vegna eigin ákvarðana um ávinning af tryggingasamningum í framtíðinni, að því marki sem vátryggingafélög, þ.m.t. endurtryggingafélög, geta sýnt fram á að nota megi lækkun slíkra bóta til að ná yfir óvænt töp þegar þau koma til. Þau áhrif mildunar áhættu vegna eigin ávinnings skulu ekki vera hærri en summan af vátryggingaskuldum og frestuðum sköttum sem varða eigin ávinning í framtíðinni.
Að því er 2. mgr. varðar skal virði eigin ávinnings í framtíðinni við óhagstæði skilyrði borið saman við virði slíks ávinnings samkvæmt grundvallarforsendum útreiknings á besta mati.

109. gr.
Einfaldanir staðalformúlunnar

Vátryggingafélög, þ.m.t. endurtryggingafélög, geta beitt einfölduðum útreikningum á tilteknar undireiningar eða áhættueiningar ef eðli, umfang og það hversu flóknar áhætturnar eru sem þau standa frammi fyrir réttlæta það, og ef óhóflegt væri að krefjast þess að öll vátryggingafélög, þ.m.t. endurtryggingafélög, beiti stöðluðum útreikningum.
Einfaldaðir útreikningar skulu kvarðaðir í samræmi við 3. mgr. 101. gr.

110. gr.
Umtalsverð frávik frá forsendunum sem liggja staðalformúlu útreikninga til grundvallar

Ef ekki er viðeigandi að reikna gjaldþolskröfuna í samræmi við staðalformúluna, eins og sett er fram í 2. undirþætti, vegna þess að áhættusnið viðkomandi vátrygginga- eða endurtryggingafélags víkur í veigamiklum atriðum frá forsendum þeim sem liggja útreikningum á staðalformúlunni til grundvallar, geta eftirlitsyfirvöld, með rökstuddri ákvörðun, krafist þess að viðkomandi félag skipti hlutmengi breyta sinna út í útreikningum á staðalformúlunni fyrir breytur sem eiga sérstaklega við um það félag þegar líftryggingar, skaðatryggingar og áhættueiningar heilsutrygginga eru reiknaðar út, eins og sett er fram í 7. mgr. 104. gr. Þessar sérstöku breytur skulu reiknaðar þannig út að tryggt sé að félagið uppfylli 3. mgr. 101. gr.

111. gr.
Framkvæmdarráðstafanir

1.     Til að tryggja að öll vátryggingafélög, þ.m.t. endurtryggingafélög, sitji við sama borð við útreikning á gjaldþolskröfunni á grundvelli staðalformúlunnar, eða með hliðsjón af markaðsþróun, skal framkvæmdastjórnin samþykkja framkvæmdarráðstafanir til að ákveða eftirfarandi:
a)    staðalformúlu í samræmi við ákvæði 101. gr. og 103.–109. gr.,
b)    allar undireiningar sem eru nauðsynlegar eða ná nákvæmar yfir áhættur sem falla undir viðkomandi áhættueiningar sem um getur í 104. gr., sem og allar síðari uppfærslur,
c)    aðferðir þær, forsendur og staðalbreytur sem beita skal við útreikning á áhættueiningum eða undireiningum grunngjaldþolskröfunnar sem mælt er fyrir um í 104. gr., 105. gr. og 304. gr., samhverfan stillibúnað og viðeigandi tímabil í mánuðum eins og um getur í 106. gr., og viðeigandi nálgun til að fella aðferðina sem um getur í 304. gr. inn í gjaldþolskröfuna eins og hún er reiknuð út í samræmi við staðalformúluna,
d)    samsvörunarbreytur, þ.m.t. ef nauðsyn krefur þær sem settar eru fram í IV. viðauka, og verklagsreglur til að uppfæra þessar breytur,
e)    ef vátryggingafélög, þ.m.t. endurtryggingafélög, nota mildandi áhættuaðferðir, aðferðir þær og forsendur sem nota skal til að meta breytingarnar á áhættusniði viðkomandi félags og leiðrétta útreikninginn á gjaldþolskröfunni,
f)    þau eigindlegu viðmið sem hinar mildandi áhættuaðferðir um getur í e-lið verða að uppfylla til að tryggja að áhættan hafi í raun verið flutt yfir á þriðja aðila,
g)    þær aðferðir og breytur sem nota skal við mat á eiginfjárkröfu fyrir rekstraráhættu eins og sett er fram í 107. gr., þ.m.t. það hlutfall sem um getur í 3. mgr. 107. gr.,
h)    þær aðferðir og aðlaganir sem nota skal til að endurspegla minnkandi möguleika vátryggingafélaga, þ.m.t. endurtryggingafélög, til áhættudreifingar með tilliti til sjóða sem haldið er aðgreindum,
i)    aðferð sem nota skal til að reikna út aðlögun á getu vátryggingaskulda eða frestaðra skatta til að taka á sig töp, eins og mælt er fyrir um í 108. gr.,
j)    hlutmengi staðalbreyta í líftryggingum, skaðatryggingum og áhættueiningum heilsutrygginga sem hægt er að skipta út fyrir breytur sem eiga við tiltekið félag eins og sett er fram í 7. mgr. 104. gr.,
k)    staðalaðferðir sem vátrygginga- eða endurtryggingafélagið skal nota til að reikna út breytur sem eiga við tiltekið félag sem um getur í j-lið, og allar viðmiðanir með tilliti til þess að gögnin sem notuð eru séu fullnægjandi, nákvæm og viðeigandi, áður en eftirlitsyfirvöld gefa samþykki sitt,
l)    einfaldaða útreikninga sem nota má á tilteknar undireiningar og áhættueiningar, sem og viðmiðanir sem vátryggingafélög, þ.m.t. endurtryggingafélög, þ.m.t. bundin frumtryggingafélög og bundin endurtryggingafélög, skulu krafin um að uppfylla til að fá leyfi til að nota þessar einfaldanir eins og sett er fram í 109. gr.,
m)    nálgun sem beita skal gagnvart skyldum félögum, í skilningi 212. gr. við útreikning á gjaldþolskröfunni, einkum útreikning á undireiningu hlutabréfaáhættu sem um getur í 5. mgr. 105. gr., að teknu tilliti til líkindanna á ´minnkandi óstöðugleika í virði þessara skyldu félaga sem stafa af stefnumarkandi eðli þessara fjárfestinga og áhrifanna sem þátttökufélagið hefur á þessi skyldu félög.
Þessar ráðstafanir, sem er ætlað að breyta veigalitlum þáttum þessarar tilskipunar með því að auka við hana, skulu samþykktar í samræmi við stjórnsýslumálsmeðferðina með athugun sem um getur í 3. mgr. 301. gr.
2.     Framkvæmdastjórnin getur samþykkt framkvæmdarráðstafanir um magntakmarkanir og hæfisviðmiðanir fyrir eignir til að taka á áhættum sem undireining tryggir ekki nægjanlega. Slíkar framkvæmdarráðstafanir skulu gilda um fjármuni sem ná yfir vátryggingaskuldir, að undanskildum fjármunum sem haldið er vegna líftryggingarsamninga ef vátryggingatakar bera fjárfestingaráhættuna. Þessar ráðstafanir skal framkvæmdastjórnin endurskoða í ljósi þróunar staðalformúlunnar og fjármálamarkaða.
Þessar ráðstafanir, sem er ætlað að breyta veigalitlum þáttum þessarar tilskipunar með því að auka við hana, skulu samþykktar í samræmi við stjórnsýslumálsmeðferðina með athugun sem um getur í 3. mgr. 301. gr.

3. undirþáttur
Heildstæð eða hlutstæð innri líkön gjaldþolskröfu
112. gr.
Almenn ákvæði um samþykki heildstæðra eða hlutstæðra innri líkana

1.     Aðildarríki skulu tryggja að vátrygginga- eða endurtryggingafélög geti reiknað út gjaldþolskröfuna með því að nota heildstætt eða hlutstætt innra líkan sem samþykkt er af eftirlitsyfirvöldum.
2.     Vátryggingafélög, þ.m.t. endurtryggingafélög, geta notað hlutstæð innri líkön til að reikna út eitt eða fleiri eftirtalinna atriða:
a)    eina eða fleiri áhættueiningar, eða undireiningar, grunngjaldþolskröfunnar eins og hún er sett fram í 104. og 105. gr.,
b)    eiginfjárkröfu um rekstraráhættu eins og hún er sett fram í 107. gr.,
c)    aðlögunina sem um getur í 108. gr.
Að auki má nota hlutstæð reiknilíkön á alla starfsemi vátryggingafélaga, þ.m.t. endurtryggingafélaga, eða aðeins eina eða fleiri hinna stærri rekstrareininga.
3.     Í öllum umsóknum um samþykki skulu vátryggingafélög, þ.m.t. endurtryggingafélög, að lágmarki leggja fram skjalfesta sönnun þess að innra líkanið uppfylli kröfurnar sem settar eru fram í 120.–125. gr.
Ef umsókn um það samþykki tengist hlutstæðu innra líkani skal aðlaga kröfurnar sem settar eru fram í 120.–125. gr. svo að tekið sé tillit til takmarkaðs gildissviðs líkansins.
4.     Eftirlitsyfirvöld skulu taka ákvörðun um umsóknina innan sex mánaða frá því að fullfrágenginni umsókn var veitt viðtaka.
5.     Eftirlitsyfirvöld skulu því aðeins samþykkja umsóknina að þau hafi fullvissað sig um að kerfin sem vátrygginga- eða endurtryggingafélagið notar til að greina, mæla, fylgjast með, stjórna og tilkynna um áhættu séu fullnægjandi, og einkum að innra líkanið uppfylli kröfurnar sem um getur í 3. mgr.
6.     Ef eftirlitsyfirvöld ákveða að hafna umsókn um leyfi til að nota innra líkan skulu þau tilgreina ástæður höfnunarinnar.
7.     Að fengnu samþykki eftirlitsyfirvalda fyrir notkun innra líkans má krefjast þess að vátryggingafélög, þ.m.t. endurtryggingafélög, leggi fram rökstudda ákvörðun við eftirlitsyfirvöld, með mati á gjaldþolskröfunni sem ákveðin er í samræmi við staðalformúluna eins og hún er sett fram í 2. undirþætti.

113. gr.
Sértæk ákvæði um samþykki hlutstæðra innri líkana

1.     Eftirlitsyfirvöld samþykkja því aðeins hlutstætt innra líkan að það uppfylli kröfurnar sem settar eru fram í 112. gr., auk eftirtalinna skilyrða:
a)    félagið rökstyður ástæðuna fyrir takmörkuðu gildissviði módelsins á tilhlýðilegan hátt,
b)    gjaldþolskrafan sem leiðir af módelinu endurspeglar betur áhættusnið félagsins og samrýmist einkum meginreglunum sem settar eru fram í 1. undirþætti.
c)    útfærsla líkansins er í samræmi við meginreglurnar sem settar eru fram í 1. undirþætti, og því er hægt að aðlaga hana staðalformúlu gjaldþolskröfunnar að fullu.
2.     Þegar metin er umsókn um leyfi til að nota hlutstætt innra líkan sem aðeins tekur til ákveðinna undireininga tiltekinnar áhættueiningar, eða nokkurra rekstrareininga vátryggingafélags, þ.m.t. endurtryggingafélags að því er varðar tiltekna áhættueiningu eða hvort tveggja, geta eftirlitsyfirvöld krafist þess að viðkomandi félög leggi fram raunhæfa bráðabirgðaáætlun til að auka við gildissvið líkansins.
Í bráðabirgðaáætluninni skal sett fram hvernig vátryggingafélögin, þ.m.t. endurtryggingafélögin, áætla að auka við gildissvið líkansins þannig að það taki til annarra undireininga eða rekstrareininga, til þess að tryggja að líkanið nái yfir stærsta hluta tryggingastarfsemi þeirra, að því er varðar þá tilteknu áhættueiningu.

114. gr.
Framkvæmdarráðstafanir

Framkvæmdastjórnin skal samþykkja framkvæmdarráðstafanir sem tilgreina eftirfarandi:
1)    tilhögunina sem fylgja skal við samþykki innra líkansins,
2)    breytingarnar sem gera skal á stöðlunum sem settir eru fram í 120.–125. gr. til þess að höfð sé hliðsjón af takmörkuðu gildissviði hins hlutstæða innra líkans.
Þessar ráðstafanir, sem er ætlað að breyta veigalitlum þáttum þessarar tilskipunar með því að auka við hana, skulu samþykktar í samræmi við stjórnsýslumálsmeðferðina með athugun sem um getur í 3. mgr. 301. gr.

115. gr.
Stefna til að breyta heildstæðum eða hlutstæðum innri líkönum

Sem hluta af upphaflegu samþykktarferli innra líkans skulu eftirlitsyfirvöld samþykkja stefnuna um breytt líkan vátrygginga- eða endurtryggingafélags. Vátryggingafélög, þ.m.t endurtryggingafélög, geta breytt innri líkönum sínum í samræmi við þessa stefnu.
Í stefnunni skulu tilgreindar allar minni háttar og meiri háttar breytingar á innra líkaninu.
Meiri háttar breytingar á innra líkaninu, sem og breytingar á stefnunni, skulu alltaf háðar fyrirframsamþykki eftirlitsyfirvalda eins og mælt er fyrir um í 112. gr.
Minni háttar breytingar á innra líkaninu skulu ekki háðar fyrirframsamþykki eftirlitsyfirvalda, að því leyti sem þær eru þróaðar í samræmi við stefnuna.

116. gr.
Ábyrgð stjórnar, framkvæmdastjórnar eða eftirlitsstjórnar

Stjórn, framkvæmdastjórn eða eftirlitsstjórn vátryggingafélaga, þ.m.t. endurtryggingafélaga, skulu samþykkja umsóknina til eftirlitsyfirvalda um samþykki innra líkansins sem um getur í 112. gr., sem og umsókn um samþykki fyrir öllum síðari meiri háttar breytingum á því líkani.
Stjórn, framkvæmdastjórn eða eftirlitsstjórn skal bera ábyrgð á að koma á kerfum sem tryggja að innra líkanið virki rétt og stöðugt.

117. gr.
Skipti yfir í staðalformúluna

Að fengnu samþykki í samræmi við 112. gr. skulu vátryggingafélög, þ.m.t. endurtryggingafélög, ekki hverfa aftur til þess að reikna gjaldþolskröfuna, að hluta eða öllu leyti, í samræmi við staðalformúluna eins og hún er sett fram í 2. undirþætti, nema í tilhlýðilega rökstuddum tilvikum og að fengnu samþykki eftirlitsyfirvalda.

118. gr.
Ekki farið að ákvæðum innra líkansins

1.     Ef vátryggingafélög, þ.m.t. endurtryggingafélög, eftir að hafa fengið samþykki eftirlitsyfirvalda til að nota innra líkan, uppfylla ekki lengur kröfurnar sem settar eru fram í 120.–125. gr. skulu þau án tafar kynna eftirlitsyfirvöldum áætlun um að fara að ákvæðum innan hæfilegs tíma eða sýna fram á að áhrifin af því að fara ekki að ákvæðum skipti litlu máli.
2.     Ef vátryggingafélög, þ.m.t. endurtryggingafélög, framkvæma ekki áætlunina sem um getur í 1. mgr. geta eftirlitsyfirvöld krafist þess að vátryggingafélög, þ.m.t. endurtryggingafélög, hverfi aftur til þess að reikna gjaldþolskröfuna í samræmi við staðalformúluna eins og hún er sett fram í 2. undirþætti.

119. gr.
Umtalsverð frávik frá forsendunum sem liggja staðalformúlu útreikninga til grundvallar

Ef ekki er viðeigandi að reikna gjaldþolskröfuna í samræmi við staðalformúluna eins og sett er fram í 2. undirþætti, vegna þess að áhættusnið viðkomandi vátrygginga- eða endurtryggingafélags víkur í veigamiklum atriðum frá forsendum þeim sem liggja útreikningum á staðalformúlunni til grundvallar, geta eftirlitsyfirvöld, með rökstuddri ákvörðun, krafist þess að viðkomandi félag noti innra líkan til að reikna út gjaldþolskröfuna, eða viðeigandi áhættueiningar hennar.

120. gr.
Notkunarpróf

Vátryggingafélög, þ.m.t. endurtryggingafélög, skulu sýna fram á að innra líkaninu sé mikið beitt og að það gegni mikilvægu hlutverki í stjórnkerfi þeirra sem um getur í 41.–50. gr., einkum:
a)    áhættustjórnunarkerfi þeirra eins og mælt er fyrir um í 44. gr. og ferli þeirra við ákvarðanatöku,
b)    mats- og úthlutunarferlum þeirra sem lúta að efnahag og gjaldþoli, þ.m.t. matið sem um getur í 45. gr.
Með því að beita innra líkaninu skulu vátryggingafélög, þ.m.t. endurtryggingafélög, að auki sýna fram á að tíðni útreikninga á gjaldþolskröfunni sé í samræmi við tíðni annarrar beitingar á innra líkaninu sem fellur undir 1. mgr.
Stjórn, framkvæmdastjórn eða eftirlitsstjórn skulu bera ábyrgð á að tryggja að hönnun og virkni innra líkansins eigi ávallt við, og að innra líkanið haldi áfram að endurspegla, með viðeigandi hætti, áhættusnið viðkomandi vátryggingafélaga, þ.m.t. endurtryggingafélaga.

121. gr.
Gæðastaðlar hagskýrslna

1.     Innra líkanið, einkum útreikningur á líkindadreifingu byggðri á spá sem liggur því til grundvallar, skal vera í samræmi við viðmiðanirnar sem settar eru fram í 2.–9. gr.
2.     Aðferðirnar sem notaðar eru til að reikna líkindadreifingu sem byggist á spá skulu byggðar á fullnægjandi, gildandi og viðeigandi tryggingafræðilegum og tölfræðilegum aðferðum og skulu vera í samræmi við þær aðferðir sem beitt er við útreikning á vátryggingaskuldum.
Aðferðirnar sem beitt er við útreikning á líkindadreifingu byggðri á spá skulu byggðar á gildandi, trúverðugum upplýsingum og raunhæfum forsendum.
Vátryggingafélög, þ.m.t. endurtryggingafélög, skulu geta fært rök fyrir forsendunum sem búa að baki innri líkönum þeirra, gagnvart eftirlitsyfirvöldum.
3.     Gögnin sem beitt er gagnvart innra líkaninu skulu vera nákvæm, fullgerð og viðeigandi.
Vátryggingafélög, þ.m.t. endurtryggingafélög, skulu uppfæra gagnasöfnin sem beitt er við útreikning á líkindadreifingu byggðri á spá a.m.k. árlega.
4.     Ekki skal mælt fyrir um neina sérstaka aðferð við útreikning á líkindadreifingu byggðri á spá.
Óháð reikningsaðferðinni sem beitt er skal geta innra líkansins til að forgangsraða áhættum vera nægjanleg til að tryggja að því sé almennt beitt og að það gegni mikilvægu hlutverki í stjórnkerfi vátryggingafélaga, þ.m.t. endurtryggingafélaga, einkum hvað varðar áhættustjórnunarkerfi þeirra og ferli við ákvarðanatöku, auk ráðstöfunar eigin fjár í samræmi við 120. gr.
Innra líkanið skal taka til hvers konar efnislegra áhættna sem vátryggingafélögin, þ.m.t. endurtryggingafélögin, verða fyrir. Innri líkön skulu hið minnsta taka til þeirra áhættna sem settar eru fram í 4. mgr. 101. gr.
5.     Hvað varðar áhrif fjölbreytileika geta vátryggingafélög, þ.m.t. endurtryggingafélög, litið til innri líkana sinna hvað það varðar að vera háð innan áhættuflokka og þvert á þá, að því tilskildu að eftirlitsyfirvöld séu sannfærð um kerfin sem notuð eru til að mæla áhrif fjölbreytileikans séu fullnægjandi.
6.     Vátryggingafélög, þ.m.t. endurtryggingafélög, geta að fullu tekið til greina áhrif áhættumildandi aðferða í innri líkönum sínum, að því tilskildu að lánsáhætta og aðrar áhættur sem áhættumildandi aðferðir valda endurspeglist með tilhlýðilegum hætti í innra líkaninu.
7.     Vátryggingafélög, þ.m.t. endurtryggingafélög, skulu meta af nákvæmni þær tilteknu tegundir áhættu sem tengjast fjárhagslegum tryggingum og öllum samningskostum í innra líkönum sínum, ef þau eru mikilvæg. Þau skulu einnig meta áhættuna sem bæði tengjast kostum vátryggingartaka og samningskostum vátryggingafélaga, þ.m.t. endurtryggingafélaga. Í forsendunum skulu, með beinum eða óbeinum hætti, tekin til greina þau áhrif sem framtíðarbreytingar á fjárhagslegum og ófjárhagslegum skilyrðum kunna að hafa á framkvæmd þessara kosta.
8.     Í innri líkönum sínum geta vátryggingafélög, þ.m.t. endurtryggingafélög, tekið tillit til rekstraraðgerða í framtíðinni sem reikna má með að þau hafi vænst að framkvæma við tilteknar aðstæður.
Í þeim tilvikum sem sett eru fram í fyrsta undirlið skal viðkomandi félag taka tillit til þess tíma sem nauðsynlegur er til að framkvæma slíkar aðgerðir.
9.     Í innri líkönum sínum skulu vátryggingafélög, þ.m.t. endurtryggingafélög, hafa hliðsjón af öllum greiðslum til tryggingartaka og rétthafa sem þau reikna með að inna af hendi, einnig þeim greiðslum sem eru tryggðar með samningum.

122. gr.
Kvörðunarstaðlar

1.     Vátryggingafélög, þ.m.t. endurtryggingafélög, geta notað annað tímabil eða áhættumat en það sem sett er fram í 3. mgr. 101. gr. við gerð innri líkana sinna, svo framarlega sem þessi félög geta notað niðurstöður innra líkansins til að reikna út gjaldþolskröfuna á þann hátt að tryggingartökum og rétthöfum sé séð fyrir umfangi verndunar sem jafngildi því sem sett er fram í 101. gr.
2.     Þar sem því verður komið við skulu vátryggingafélög, þ.m.t. endurtryggingafélög, leiða gjaldþolskröfuna beint af líkindadreifingu byggðri á spá sem stafa af innri líkönum þessara félaga, og nota til þess mælikvarða vágildis sem settur er fram í 3. mgr. 101. gr.
3.     Ef vátryggingafélög, þ.m.t. endurtryggingafélög, geta ekki leitt gjaldþolskröfuna beint af líkindadreifingu byggðri á spá sem stafar af innra líkaninu geta eftirlitsyfirvöld leyft að nálgunum sé beitt við útreikning á gjaldþolskröfunni, svo framarlega sem félögin geta sýnt eftirlitsyfirvöldum fram á að tryggingartökum sé séð fyrir vernd sem jafngildi þeirri sem kveðið er á um í 101. gr.
4.     Eftirlitsyfirvöld geta krafist þess að vátryggingafélög, þ.m.t. endurtryggingafélög, starfræki innri líkön á viðeigandi vátryggingasöfnum til viðmiðunar og noti forsendur sem byggðar eru á ytri frekar en innri gögnum til að sannreyna kvörðun innra líkansins og ganga úr skugga um að forskriftin sé í samræmi við almennt viðurkenndar markaðsvenjur.

123. gr.
Skipting hagnaðar og taps

Vátryggingafélög, þ.m.t. endurtryggingafélög, skulu endurskoða, að minnsta kosti árlega, orsakir og upptök hagnaðar og taps fyrir stærri rekstrareiningar.
Þau skulu sýna fram á hvernig áhættuflokkun í innra líkaninu sýnir fram á orsakir og upptök hagnaðar og taps. Áhættuflokkun og skipting hagnaðar og taps skal endurspegla áhættusnið vátryggingafélaga, þ.m.t. endurtryggingafélaga.

124. gr.
Fullgildingarstaðlar

Vátryggingafélög, þ.m.t. endurtryggingafélög, skulu fullgilda líkanið reglulega, en slík fullgilding tekur til þess að vakta hvernig innra líkanið virkar, fylgjast með því að forskriftin sé við hæfi og bera niðurstöðurnar saman við reynsluna.
Fullgildingarferli líkansins skal taka til skilvirks tölfræðiferlis til fullgildingar á innra líkaninu, en það gerir vátryggingafélögum, þ.m.t. endurtryggingafélögum, kleift að sýna eftirlitsyfirvöldum fram á að eiginfjárkröfurnar sem af þessu stafa séu viðeigandi.
Tölfræðiaðferðirnar sem beitt er skulu prófa hversu viðeigandi líkindadreifingin sem byggð er á spá er, ekki aðeins borið saman við reynslu af tapi heldur einnig öll efnisleg ný gögn og upplýsingar sem tengjast þeim.
Fullgildingarferli líkansins skal taka til greiningar á stöðugleika innra líkansins, einkum prófunar á því hve næmar niðurstöður innra líkansins eru á breytingar á þeim forsendum sem að baki búa. Það skal líka taka til mats á því hve nákvæm, heildstæð og viðeigandi gögnin eru sem innra líkanið styðst við.

125. gr.
Skráningarkerfi

Vátryggingafélög, þ.m.t. endurtryggingafélög, skulu skrá hönnun og rekstraratriði innra líkansins.
Skráningin skal sýna að líkanið sé í samræmi við 120.–124. gr.
Í skráningunni skal vera nákvæmt yfirlit yfir kenningar, forsendur og þann stærðfræðilega og empíríska grunn sem býr að baki innra líkaninu.
Í skráningunni skulu gefin til kynna öll tilvik þegar innra líkan virkar ekki með skilvirkum hætti.
Vátryggingafélög, þ.m.t. endurtryggingafélög, skulu skrá helstu breytingar sem innri líkön þeirra taka, eins og sett er fram í 115. gr.

126. gr.
Ytri líkön og gögn

Ekki skal litið á notkun líkans eða gagna sem fengin eru frá þriðja aðila sem réttlætingu á undanþágu frá neinum krafnanna til innra líkansins sem settar eru fram í 120.–125. gr.

127. gr.
Framkvæmdarráðstafanir

Framkvæmdastjórnin skal samþykkja framkvæmdarráðstafanir að því er varðar 120.–126. gr. til að tryggja samhæfða nálgun við notkun innra líkana í gervöllu Bandalaginu, og til að stuðla að betra mati á áhættusniði og stjórnun vátryggingafélaga, þ.m.t. endurtryggingafélaga.
Þessar ráðstafanir, sem er ætlað að breyta veigalitlum þáttum þessarar tilskipunar með því að auka við hana, skulu samþykktar í samræmi við stjórnsýslumálsmeðferðina með athugun sem um getur í 3. mgr. 301. gr.

5. þáttur
Lágmarkskröfur um eigið fé
128. gr.
Almenn ákvæði

Aðildarríki skulu krefjast þess að vátryggingafélög, þ.m.t. endurtryggingafélög, eigi tækt eigið fé til að ná yfir lágmarkskröfur um eigið fé.

129. gr.
Útreikningur á lágmarkskröfum um eigið fé

1.     Lágmarkskrafan um eigið fé skal reiknuð út í samræmi við eftirfarandi meginreglur:
a)    hún skal reiknuð á skýran og einfaldan hátt, og þannig að tryggt sé að hægt sé að endurskoða útreikningana,
b)    hún skal samsvara lágmarksupphæð tæks eigin fjár til að tryggingartakar og rétthafar þurfi ekki að sæta óviðunandi áhættu ef vátryggingafélög, þ.m.t. endurtryggingafélög, fá leyfi fyrir áframhaldandi starfsemi,
c)    línulegt fall sem um getur í 2. lið og notað er við útreikning á lágmarkskröfunni um eigið fé skal kvarðað að vágildi lágmarksfjárhæðar eigin fjár vátrygginga- eða endurtryggingafélags, með fyrirvara um 85% öryggisstig á ársgrundvelli,
d)    algjört lágmark hennar skal vera:
    i.    hvað varðar skaðatryggingafélög 2 200 000 evrur, nema í þeim tilvikum er allar eða sumar áhætturnar eru innifaldar í einhverjum flokka 10–15 sem skráðir eru í A-hluta 1. viðauka, og skal þá ekki vera lægri en 3 200 000 evrur,
    ii.    hvað varðar líftryggingafélög, þ.m.t. bundin frumtryggingafélög, 3 200 000 evrur,
    iii.    hvað varðar endurtryggingafélög 3 200 000 evrur, nema um bundin endurtryggingafélög sé að ræða og skal lágmarkskrafan um eigið fé þá ekki vera undir 1 000 000 evrum,
    iv.    summan af þeim fjárhæðum sem settar eru fram í i- og ii-lið fyrir vátryggingafélög sem um getur í 5. mgr. 73. gr.
2.     Með fyrirvara um 3. lið skal lágmarkskrafan um eigið fé reiknuð sem línulegt fall af mengi eða hlutmengi eftirtalinna breyta: vátryggingaskuldir félagsins, bókfærð iðgjöld, áhættufjárhæð, frestaður skattur og stjórnunarkostnaður. Breyturnar sem notaðar eru skulu metnar að frádregnum hluta endurtryggjenda.
3.     Með fyrirvara um d-lið 1. liðar skal lágmarkskrafan um eigið fé hvorki vera undir 25% né yfir 45% af gjaldþolskröfu félagsins, reiknuð í samræmi við 2. eða 3. undirgrein 4. þáttar VI. kafla, og að meðtöldum öllum viðbótargjaldþolskröfum sem komið er á í samræmi við 37. gr.
Á tímabili sem lýkur eigi síðar en 31. október 2014 skulu aðildarríki veita eftirlitsyfirvöldum leyfi til að krefjast þess að vátryggingafélag eða endurtryggingafélag beiti hlutföllunum sem um getur í 1. undirlið eingöngu á gjaldþolskröfu félagsins, í samræmi við 2. undirgrein 4. þáttar VI. kafla.
4.     Vátryggingafélög, þ.m.t. endurtryggingafélög, skulu reikna lágmarkskröfu um eigin fé að minnsta kosti ársfjórðungslega og gefa eftirlitsyfirvöldum skýrslu um niðurstöðurnar.
Ef önnur hvor mörkin sem um getur í 3. mgr. ákvarða lágmarkskröfu um eigið fé félags skal félagið veita eftirlitsyfirvöldum upplýsingar sem leiða ástæður þessa skýrt í ljós.
5.     Framkvæmdastjórnin skal leggja skýrslu fyrir Evrópuþingið og Evrópunefnd um vátryggingar og starfstengda lífeyrissjóði sem komið var á með ákvörðun framkvæmdastjórnarinnar 2004/9/EB ( 1 ), fyrir 31. október 2017, um reglur aðildarríkjanna og starfsreglur eftirlitsyfirvalda samkvæmt 1.–4. mgr.
Í skýrslunni skal einkum fjallað um notkun og stig hámarks og lágmarks sem sett er fram í 3. mgr., sem og vandamál sem eftirlitsyfirvöld og félög kunna að þurfa að fást við þegar þessari grein er beitt.

130. gr.
Framkvæmdarráðstafanir

Framkvæmdastjórnin skal samþykkja framkvæmdarráðstafanir þar sem tilgreint er hvernig útreikningi á lágmarkskröfu um eigið fé skal háttað, eins og um getur í 128. og 129. gr.
Þessar ráðstafanir, sem er ætlað að breyta veigalitlum þáttum þessarar tilskipunar með því að auka við hana, skulu samþykktar í samræmi við stjórnsýslumálsmeðferðina með athugun sem um getur í 3. mgr. 301. gr.

131. gr.
Bráðabirgðafyrirkomulag hvað það varðar að farið sé að ákvæðum um lágmarkskröfu um eigið fé

Þrátt fyrir ákvæði 139. og 144. gr. skulu vátryggingafélög, þ.m.t. endurtryggingafélög, fara að ákvæðum um tilskilið gjaldþol sem um getur í 28. gr. tilskipunar 20027783/EB, 16. gr. a í tilskipun 73/ 239/EBE, eða 37. gr., 38. gr. eða 39. gr. tilskipunar 2005/68/EB þann 31. október 2012, en hafa ekki yfir að ráða lágmarksupphæð tæks eigin fjár til að standa straum af lágmarkskröfu um eigið fé skal viðkomandi félag fara að ákvæðum 128. gr. eigi síðar en 31. október 2013.
Ef viðkomandi félag fer ekki að 128. gr. innan þess tíma sem settur er fram í 1. lið skal starfsleyfi félagsins afturkallað. með fyrirvara um viðeigandi málsmeðferð sem kveðið er á um í landslöggjöf.

6. þáttur
Fjárfestingar
132. gr.
Varfærnismeginregla

1.     Aðildarríkin skulu sjá til þess að vátryggingafélög, þ.m.t. endurtryggingafélög, fjárfesti allar eignir sínar í samræmi við varfærnismeginregluna, eins og tilgreint er í 2., 3. og 4. mgr.
2.     Að því er varðar eignasafnið í heild, skulu vátryggingafélög, þ.m.t. endurtryggingafélög, einungis fjárfesta í eignum og gerningum sem hlutaðeigandi félag getur með viðeigandi hætti skilgreint, metið, haft eftirlit með, stýrt, stjórnað og gefið skýrslu um, og tekið með viðeigandi hætti tillit til við mat á heildargjaldþolsþörf í samræmi við a-lið annarrar undirgreinar 1. mgr. 45. gr.
Allar eignir, einkum þær sem nýttar eru til að uppfylla lágmarkskröfur um eigið fé og gjaldþolskröfu, skulu fjárfestar með þeim hætti að öryggi, gæði, seljanleiki og arðsemi eignasafnsins í heild sinni sé tryggt. Auk þess skulu eignirnar staðsettar þannig að tryggt sé að þær séu aðgengilegar.
Við fjárfestingar í eignum til jöfnunar á móti vátryggingaskuld skal hafa hliðsjón af eðli og tímalengd vátrygginga- og endurtryggingaskuldbindinga. Þessar eignir skulu fjárfestar með hagsmuni allra tryggingartaka og rétthafa í huga með tilliti til allra framlagðra vátryggingamála.
Ef um er að ræða hagsmunaárekstur skulu vátryggingafélögin eða einingin sem stýrir safni þeirra sjá til þess að fjárfestingin sé eingöngu í þágu tryggingartaka og rétthafa.
3.     Án þess að hafa áhrif á 2. mgr., skulu önnur, þriðja og fjórða undirgrein þessarar málsgreinar gilda að því er varðar eignir í tengslum við líftryggingarsamninga ef tryggingartakar bera fjárfestingaráhættuna.
Þegar bætur samkvæmt samningi eru með beinum hætti tengdar verðgildi eininga í verðbréfasjóði eins og skilgreint í tilskipun 85/611/EBS eða verðgildi eigna í sjóðum, sem eru í vörslu vátryggingafélaganna og er yfirleitt skipt í einingar, skal vátryggingaskuld vegna bótanna mætt, eins og hægt er, með þessum einingum eða, þegar slíkar einingar eru ekki fyrir hendi, með þessum eignum.
Ef bætur samkvæmt samningi eru með beinum hætti tengdar hlutabréfavísitölu eða einhverju öðru viðmiðunargildi en því sem um getur í annarri undirgrein skal vátryggingaskuld vegna bótanna mætt, eins og hægt er, annaðhvort með einingum sem taldar eru sýna viðmiðunargildið eða, ef þessar einingar eru ekki fyrir hendi, með hæfilega öruggum og söluhæfum eignum sem samsvara eins og hægt er þeim eignum sem hið tiltekna viðmiðunargildi byggist á.
Ef bæturnar sem um getur í annarri og þriðju undirgrein fela í sér ábyrgð á fjárfestingarárangri eða annars konar ábyrgðan ávinning, skulu eignirnar, sem nýttar eru til að uppfylla ákvæði um samsvarandi viðbótarvátryggingaskuld, falla undir 4. mgr.
4.     Ákvæði annarrar til fimmtu undirgreinar þessarar málsgreinar skulu, án þess að hafa áhrif á 2. mgr., gilda um eignir, aðrar en þær sem falla undir 3. mgr.
Notkun afleiðugerninga skal vera möguleg að því marki sem þeir geta dregið úr áhættu eða stuðla að hagkvæmri stýringu vátryggingastofns.
Fjárfestingar og eignir, sem ekki eru skráðar á skipulegum fjármálamarkaði, verða ávallt að vera innan varfærnismarka.
Eignir skulu vera nægilega fjölbreytilegar þannig að komast megi hjá því að treyst sé óþarflega mikið á tiltekna eign, útgefanda eða fyrirtækjasamstæðu eða landsvæði og uppsöfnun áhættu í eignasafninu í heild.
Fjárfestingar í eignum sem gefnar eru úr af sama útgefanda eða útgefendum, sem tilheyra sömu samstæðu, skulu ekki leiða til þess að áhætta safnist fyrir í of miklum mæli hjá vátryggingafélaginu.

133. gr.
Frelsi til fjárfestinga

1.     Aðildarríkin geta ekki gert kröfu um að vátryggingafélög, þ.m.t. endurtryggingafélög, fjárfesti í tilteknum eignaflokkum.
2.     Aðildarríkin skulu ekki skilyrða fjárfestingarákvarðanir vátrygginga- eða endurtryggingafélags eða forstöðumanns fjárfestinga þess á yfirráðasvæði þeirra við neins konar fyrirframsamþykki eða kerfisbundna tilkynningarskyldu.
3.     Þessi grein hefur ekki áhrif á kröfur aðildarríkja um takmarkanir á tegundum eigna eða viðmiðunargilda sem tryggingabætur geta verið tengdar. Þess háttar reglum skal aðeins beitt ef tryggingartaki, sem er einstaklingur, ber fjárfestingaráhættu og skulu ekki vera meira takmarkandi en þær sem settar eru fram í tilskipun 85/611/EBE.

134. gr.
Staðsetning eigna og bann við veðsetningu eigna

1.     Að því er varðar vátryggingaráhættu innan Bandalagsins, skulu aðildarríki ekki krefjast þess að eignir sem ætlaðar eru til að bæta vátryggingaskuld í tengslum við þá áhættu séu staðsettar í Bandalaginu eða í tilteknu aðildarríki.
Auk þess skulu aðildarríki, að því er varðar kröfur vegna endurtryggingarsamninga við félög, sem hafa leyfi í samræmi við þessa tilskipun eða hafa aðalskrifstofu í þriðja landi sem hefur eftirlitsfyrirkomulag sem talið er jafngilt í samræmi við 172. gr., ekki krefjast þess að eignir sem eru ætlaðar vegna þeirra krafna séu staðsettar innan Bandalagsins
2.     Aðildarríki skulu ekki viðhalda eða taka upp, vegna myndunar vátryggingaskuldar, kerfi með brúttóvarasjóðum sem binda eignir til að mæta væntum iðgjöldum og útistandandi tjónaskuld ef endurtryggjandinn er vátrygginga- eða endurtryggingafélag með starfsleyfi í samræmi við þessa tilskipun.

135. gr.
Framkvæmdarráðstafanir

1.     Til að tryggja samræmda beitingu þessarar tilskipunar, getur framkvæmdastjórnin samþykkt framkvæmdarráðstafanir sem tilgreina megindlegar kröfur á eftirfarandi sviðum:
a)    greiningu, mælingu, vöktun, stýringu og skýrslugjöf vegna áhættu sem leiðir af fjárfestingum í tengslum við fyrstu undirgrein 2. mgr. 132. gr.,
b)    greiningu, mælingu, vöktun, stýringu og skýrslugjöf vegna sérstakrar áhættu sem leiðir af fjárfestingum í afleiðugerningum og eignum sem um getur í annarri undirgrein 4. mgr. 132. gr.
2.     Til að tryggja stöðugleika þvert á atvinnugreinar og til að koma í veg fyrir misræmi milli hagsmuna fyrirtækja sem „endurpakka“ útlán í seljanleg verðbréf og annarra fjármálagerninga (útgefanda) og hagsmuna vátrygginga- eða endurtryggingafélaga sem fjárfesta í þess háttar verðbréfum eða gerningum, skal framkvæmdastjórnin samþykkja framkvæmdarráðstafanir sem setja fram:
a)    kröfurnar sem útgefandi þarf að uppfylla til þess að vátrygginga- eða endurtryggingafélag sé heimilt að fjárfesta í þess háttar verðbréfum eða gerningum eftir 1. janúar 2011, þ.m.t. kröfur sem tryggja að útgefandi viðhaldi hluta af fjárhagslegri áhættu sem nemur ekki minna en 5 %,
b)    eigindlegar kröfur sem vátrygginga- eða endurtryggingafélög, sem fjárfesta í þess háttar verðbréfum eða gerningum, skulu uppfylla.
3.     Þessar ráðstafanir, sem er ætlað að breyta veigalitlum þáttum þessarar tilskipunar með því að auka við hana, skulu samþykktar í samræmi við stjórnsýslumálsmeðferðina með athugun sem um getur í 3. mgr. 301. gr.

VII. KAFLI
Vátryggingafélög, þ.m.t. endurtryggingafélög, sem eiga í erfiðleikum eða búa við óvenjulegar aðstæður
136. gr.
Greining og tilkynning vátrygginga- og endurtryggingafélags um versnandi fjárhagsleg skilyrði

Vátryggingafélög, þ.m.t. endurtryggingafélög, skulu hafa verklagsreglur til að greina versnandi fjárhagsleg skilyrði og skulu tafarlaust tilkynna eftirlitsyfirvöldum um versnandi skilyrði.

137. gr.
Ef ekki er farið að ákvæðum um vátryggingaskuld

Fari vátrygginga- eða endurtryggingafélag ekki að ákvæðum annars þáttar VI. kafla geta eftirlitsyfirvöld í heimaaðildarríki þess bannað frjálsa ráðstöfun eigna þess eftir að hafa áður tilkynnt eftirlitsyfirvöldum gistiaðildarríkisins um fyrirætlun sína. Eftirlitsyfirvöld heimaaðildarríkis skulu tilnefna eignir sem skulu falla undir þess háttar ráðstafanir.

138. gr.
Ef ekki er farið að ákvæðum hvað varðar gjaldþolskröfu

1.     Vátryggingafélög, þ.m.t. endurtryggingafélög, skulu tafarlaust upplýsa eftirlitsyfirvöld ef þau telja að gjaldþolskröfur séu ekki lengur uppfylltar, eða ef hætta er á að ekki verði farið að ákvæðunum á næstu þremur mánuðum.
2.     Innan tveggja mánaða frá því að tekið er eftir því að ekki sé farið að ákvæðum um gjaldþolskröfur, skal hlutaðeigandi vátrygginga- eða endurtryggingafélag leggja fram raunhæfa endurreisnaráætlun til samþykkis fyrir eftirlitsyfirvaldið.
3.     Eftirlitsyfirvöld skulu krefjast þess að hlutaðeigandi vátrygginga- eða endurtryggingafélag geri viðeigandi ráðstafanir, innan sex mánaða frá því að kemur í ljós að ekki sé farið að ákvæðum um gjaldþolskröfur, til að ná aftur nauðsynlegu stigi eigin fjár sem þarf til að uppfylla kröfur um gjaldþol eða lækkun á áhættusniði til að tryggja að farið sé að ákvæðum um gjaldþolskröfur.
Eftirlitsyfirvöld geta, ef við á, framlengt það tímabil um þrjá mánuði.
4.     Ef um er að ræða óvenjulegt hrun á fjármálamörkuðum, getur eftirlitsyfirvald framlengt tímabilið sem sett er fram í annarri undirgrein 3. mgr. um viðeigandi tímabil að teknu tilliti til allra viðeigandi þátta.
Hlutaðeigandi vátrygginga- eða endurtryggingafélag skal, á þriggja mánaða fresti, leggja fram framvinduskýrslu til eftirlitsyfirvalda sinna þar sem settar eru fram ráðstafanir sem gerðar eru og framvinda við að ná aftur nauðsynlegu stigi eigin fjár, sem þarf til að uppfylla kröfur um gjaldþol, eða til að lækka áhættusnið til að tryggja að farið sé að ákvæðum um gjaldþolskröfu.
Framlengingin sem um getur í fyrstu undirgrein skal afturkölluð ef framvinduskýrsla sýnir fram á að engin marktæk framvinda hafi átt sér stað til að ná aftur nauðsynlegu stigi eigin fjár, sem þarf til að uppfylla kröfur um gjaldþol, eða lækkun áhættusniðs til að tryggja að farið sé að ákvæðum um gjaldþolskröfur, frá þeim degi sem kom í ljós að ekki var farið að ákvæðum um gjaldþolskröfur og þeim degi sem framvinduskýrslan er lögð fram.
5.     Í undantekningartilvikum getur eftirlitsyfirvald, telji það að fjárhagsstaða hlutaðeigandi félags eigi eftir að versna enn frekar, takmarkað eða bannað frjálsa ráðstöfun eigna þess félags. Viðkomandi eftirlitsyfirvald skal upplýsa eftirlitsyfirvöld gistiaðildarríkis um gerðar ráðstafanir. Þau yfirvöld skulu, samkvæmt beiðni eftirlitsyfirvalds heimaaðildarríkis, gera sömu ráðstafanir. Eftirlitsyfirvald heimaaðildarríkis skulu tilnefna eignir sem skulu falla undir þess háttar ráðstafanir.

139. gr.
Ef ekki er farið að ákvæðum hvað varðar lágmarkskröfur um eigið fé

1.     Vátryggingafélög, þ.m.t. endurtryggingafélög, skulu tafarlaust upplýsa eftirlitsyfirvöld ef þau telja að lágmarkskröfur um eigið fé séu ekki lengur uppfylltar, eða ef hætta er á að ekki verði farið að ákvæðunum á næstu þremur mánuðum.
2.     Innan eins mánaðar frá því að kemur í ljós að ákvæði um lágmarkskröfur um eigið fé eru ekki uppfyllt, skal hlutaðeigandi vátrygginga- eða endurtryggingafélag leggja fram raunhæfa skammtíma fjárhagsáætlun, til eftirlitsyfirvalds til samþykktar, um að ná aftur nauðsynlegu viðurkenndu eigin fé, að lágmarki sem nemur lágmarkskröfum um eigið fé, eða lækkun áhættusniðs til að tryggja að farið sé að ákvæðum um lágmarkskröfur um eigið fé.
3.     Eftirlitsyfirvald heimaaðildarríkis getur einnig takmarkað eða bannað frjálsa ráðstöfun eigna vátrygginga- eða endurtryggingafélags. Það skal upplýsa eftirlitsyfirvöld gistiaðildarríkis til samræmis við það. Þau yfirvöld skulu, samkvæmt beiðni eftirlitsyfirvalds heimaaðildarríkis, gera sömu ráðstafanir. Eftirlitsyfirvald heimaaðildarríkis skulu tilnefna eignir sem skulu falla undir þess háttar ráðstafanir.

140. gr.
Bann við frjálsri ráðstöfun eigna sem eru á yfirráðasvæði aðildarríkis

Aðildarríki skulu gera nauðsynlegar ráðstafanir svo þau geti, í samræmi við landslög, bannað frjálsa ráðstöfun eigna sem eru á yfirráðasvæði þess, að beiðni heimaaðildarríkis félagsins, í þeim tilvikum sem um getur í 137. til 139. og 2. mgr. 144. gr., en heimaaðildarríkið skal tilgreina um hvaða eignir þessar ráðstafanir gilda.

141. gr.
Eftirlitsheimildir við versnandi fjárhagsleg skilyrði

Ef gjaldþolsstaða félags heldur áfram að versna, skulu eftirlitsyfirvöld, þrátt fyrir 138. og 139. gr., hafa heimild til að gera nauðsynlegar verndarráðstafanir til að gæta hagsmuna tryggingartaka ef um er að ræða vátryggingarsamninga, eða skuldbindinga sem leiða af endurtryggingarsamninga.
Þessar ráðstafanir skulu vera í réttu hlutfalli við og endurspegla stig og tímalengd versnandi gjaldþolsstöðu hlutaðeigandi vátrygginga- eða endurtryggingafélags.

142. gr.
Endurreisnaráætlun og fjárhagsáætlun

1.     Endurreisnaráætlunin sem um getur í 2. mgr. 138. gr. og fjárhagsáætlun sem um getur í 2. mgr. 139. gr. skal að lágmarki tilgreina eftirfarandi atriði eða staðfestingu á þeim:
a)    áætlaðan rekstrarkostnað, einkum almennan kostnað vegna daglegs reksturs og umboðslauna,
b)    spá um tekjur og kostnað vegna frumtryggingastarfsemi, móttöku endurtrygginga og vegna endurtryggingaverndar,
c)    áætlaðan efnahagsreikning,
d)    mat á fjármagni sem ætlað er að standa straum af vátryggingaskuldum, gjaldþolskröfum og lágmarkskröfum um eigið fé,
e)    heildarstefnu varðandi endurtryggingar.
2.     Ef eftirlitsyfirvöld hafa krafist þess að gerð sé endurreisnaráætlun sem um getur í 2. mgr. 138. gr. eða fjárhagsáætlun sem um getur i 2. mgr. 139. gr. í samræmi við 1. mgr. þessarar greinar, skulu þau láta vera að gefa út skírteini í samræmi við 39. gr. svo lengi sem þau telja að réttindi tryggingartaka, eða samningsskuldbindingar endurtryggingafélags, sé ógnað.

143. gr.
Framkvæmdarráðstafanir

Framkvæmdastjórnin skal samþykkja framkvæmdarráðstafanir sem tilgreina þá þætti sem skulu teknir til greina við beitingu 4. mgr. 138. gr., þ.m.t. lengsta viðeigandi tímabil, tilgreint í heildarfjölda mánaða, sem skal vera það sama að því er varðar öll vátryggingafélög, þ.m.t. endurtryggingafélög, eins og um getur í fyrstu undirgrein 4. mgr. 138. gr.
Ef nauðsynlegt er að bæta samleitni, getur framkvæmdastjórnin samþykkt framkvæmdarráðstafanir þar sem mælt er fyrir um frekari forskriftir með tilliti til endurreisnaráætlunarinnar sem um getur í 2. mgr. 138. gr., fjárhagsáætlunar sem um getur í 2. mgr. 139. gr. og með tilliti til 141. gr. og þess vandlega gætt að forðast sveifluaukandi áhrif.
Þessar ráðstafanir, sem er ætlað að breyta veigalitlum þáttum þessarar tilskipunar með því að auka við hana, skulu samþykktar í samræmi við stjórnsýslumálsmeðferðina með athugun sem um getur í 3. mgr. 301. gr.

144. gr.
Afturköllun starfsleyfis

1.     Eftirlitsyfirvald heimaaðildarríkis getur afturkallað leyfi sem veitt er vátrygginga- eða endurtryggingafélögum í eftirfarandi tilvikum:
a)    hlutaðeigandi félag nýtir ekki starfsleyfið innan tólf mánaða, afsalar sér því afdráttarlaust eða hættir rekstri starfseminnar í meira en sex mánuði, nema hlutaðeigandi aðildarríki hafi kveðið á um að starfsleyfið renni út í slíkum tilvikum,
b)    hlutaðeigandi félag uppfyllir ekki lengur skilyrði fyrir leyfi,
c)    hlutaðeigandi félag bregst alvarlega skyldum sem á henni hvíla samkvæmt gildandi reglugerðum.
Eftirlitsyfirvald heimaaðildarríkis skal afturkalla leyfi sem veitt er vátrygginga- eða endurtryggingafélagi í því tilviki sem félag uppfyllir ekki lágmarkskröfur um eigið fé og eftirlitsyfirvald telur að fjárhagsáætlun sem lögð er fram sé í augljóslega ófullnægjandi eða hlutaðeigandi félag tekst ekki að standa við samþykkta áætlun innan við þremur mánuðum eftir að athugun leiddi í ljós að ekki er farið að ákvæðum um lágmarkskröfur um eigið fé.
2.     Sé starfsleyfi afturkallað eða ef það rennur út tilkynnir eftirlitsyfirvald í heimaaðildarríkinu það til eftirlitsyfirvalda í hinum aðildarríkjunum sem skulu gera viðeigandi ráðstafanir til að koma í veg fyrir að vátrygginga- eða endurtryggingafélagið hefji á ný starfsemi á yfirráðasvæði þeirra.
Eftirlitsyfirvald heimaaðildarríkis skal, ásamt þeim yfirvöldum, gera nauðsynlegar ráðstafanir til að vernda hagsmuni hinna tryggðu aðila og sérstaklega hamla frjálsa ráðstöfun eigna vátryggingafélags í samræmi við 140. gr.
3.     Við ákvörðun um að afturkalla leyfi skal tilgreina allar ástæður þess og skal tilkynna hana hlutaðeigandi vátrygginga- eða endurtryggingafélagi.

VIII. KAFLI
Staðfesturéttur og frelsi til að veita þjónustu

1. þáttur
Stofnsetning vátryggingafélaga
145. gr.
Skilyrði fyrir stofnun útibús

1.     Aðildarríki skulu sjá til þess að vátryggingafélag sem óskar eftir að stofna útibú á yfirráðasvæði annars aðildarríkis skal tilkynni það eftirlitsyfirvöldum í heimaaðildarríki sínu.
Fara skal með allt fast aðsetur félags í aðildarríki eins og um útibú væri að ræða enda þótt það sé ekki í formi útibús heldur felist einungis í skrifstofu sem rekin er af starfsfólki félagsins sjálfs eða óháðum aðila sem hefur ótímabundna heimild til að koma fram fyrir hönd félagsins með sama hætti og umboð.
2.     Aðildarríki skulu gera kröfu um að vátryggingafélag sem óskar eftir að stofna útibú á yfirráðasvæði annars aðildarríkis láti eftirfarandi fylgja tilkynningunni sem um getur í 1. mgr.:
a)    upplýsingar um í hvaða aðildarríki það óskar eftir að stofna útibú,
b)    rekstraráætlun þar sem a.m.k. er tilgreint hvaða starfsemi það hyggst stunda og uppbygging útibúsins,
c)    nafn aðila sem hefur umboð til að skuldbinda vátryggingafélagið, í tengslum við þriðja aðila, eða, í tilviki Lloyd's, viðkomandi vátryggjanda og til að koma fram fyrir hönd þess í tengslum við yfirvöld og dómstóla gistiaðildarríkis (viðurkenndur umboðsmaður),
d)    heimilisfang í gistiaðildarríki ar sem hægt er að nálgast og afhenda skjöl, þ.m.t. allar tilkynningar til viðurkennds umboðsmanns.
Hvað Lloyd's-vátryggjendur varðar skulu tryggðir, komi til málaferla í gistiaðildarríki vegna vátryggingaskuldbindinga, hljóta sambærilega meðferð og ef mál hefði verið höfðað gegn starfsemi af hefðbundinni gerð.
3.     Ef skaðatryggingafélag ætlar útibúi að bera ábyrgð á áhættu sem flokkast í 10. flokk A-hluta I. viðauka, fyrir utan ábyrgð vegna flutninga, skal það leggja fram yfirlýsingu um að það sé aðili að landsskrifstofu og landsbundnum ábyrgðarsjóði gistiaðildarríkis.
4.     Ef breytingar verða á einstökum atriðum, sem tilkynnt eru skv. b-, c- eða d-lið 2. mgr., skal vátryggingafélag tilkynna eftirlitsyfirvöldum heimaaðildarríkisins og aðildarríki útibúsins skriflega um viðkomandi breytingu a.m.k. mánuði áður en breytingin er gerð til að gera lögbærum yfirvöldum heimaaðildarríkisins fært að taka ákvörðun skv. 3. mgr. og eftirlitsyfirvöldum aðildarríkis útibúsins að taka ákvörðun um breytinguna skv. 3. og 146. mgr.

146. gr.
Upplýsingar veittar

1.     Eftirlitsyfirvöld í heimaaðildarríkinu skulu, að teknu tilliti til fyrirhugaðs rekstrar, og innan þriggja mánaða frá móttöku upplýsinganna sem um getur í 2. mgr 145. gr., senda þær eftirlitsyfirvöldum aðildarríkisins og láta hlutaðeigandi vátryggingafélag vita nema þau hafi ástæðu til að efast um fullnægjandi stjórnskipulag eða fjárhagsstöðu vátryggingafélagsins, kröfur um hæfni og heiðvirði viðurkennds umboðsmanns í samræmi við 42. gr.
Eftirlitsyfirvöld heimaaðildarríkisins skulu einnig votta að vátryggingafélagið uppfylli gjaldþolskröfur og lágmarkskröfur um eigið fé sem er reiknað út skv. 100. og 129. gr.
2.     Neiti eftirlitsyfirvöld heimaaðildarríkisins að veita eftirlitsyfirvöldum í aðildarríkinu upplýsingarnar sem um getur 2. mgr. 145. gr. ber þeim að greina hlutaðeigandi vátryggingafélagi frá ástæðum fyrir synjuninni innan þriggja mánaða frá því að allar upplýsingar bárust.
Heimilt er að áfrýja til dómstóla í heimaaðildarríkinu ef um er að ræða synjun eða ef ekkert svar berst.
3.     Áður en útibú vátryggingafélags hefur starfsemi skulu eftirlitsyfirvöld í aðildarríki útibúsins, eigi síðar en tveimur mánuðum eftir að upplýsingarnar sem um ræðir í 1. mgr. hafa borist, tilkynna eftirlitsyfirvaldi í heimaaðildarríkinu um hvaða skilyrðum starfsemin skuli hlíta í gistiaðildarríki útibúsins svo almennra hagsmuna sé gætt. Eftirlitsyfirvald heimaaðildarríkis skal upplýsa hlutaðeigandi vátryggingafélag um þetta.
Vátryggingafélagið getur komið á fót útibúi og hafið starfsemi frá og með þeim degi sem eftirlitsyfirvald heimaaðildarríkis hefur móttekið þess háttar upplýsingar eða, ef engar upplýsingar hafa verið mótteknar, þegar tímabilið sem kveðið er á um í fyrstu undirgrein lýkur.

2. þáttur
Frelsi vátryggingafélaga til að veita þjónustu
1. undirþáttur
Almenn ákvæði
147. gr.
Fyrirframtilkynning til heimaaðildarríkis

Vátryggingafélag, sem hyggst reka starfsemi í fyrsta sinn í einu eða fleiri aðildarríkjum samkvæmt frelsi til að veita þjónustu, skal fyrst tilkynna það eftirlitsyfirvöldum í heimaaðildarríkinu og tilgreina hvers konar áhættur eða skuldbindingu það hyggst gangast undir.

148. gr.
Tilkynning heimaaðildarríkis

1.     Eftirlitsyfirvöld í heimaaðildarríkinu skulu, innan eins mánaðar frá tilkynningunni sem kveðið er á um í 147. gr., senda aðildarríkinu eða ríkjunum þar sem vátryggingafélagið hyggst reka starfsemi samkvæmt frelsi til að veita þjónustu eftirfarandi:
a)    vottorð um að vátryggingafélagið hafi það lágmarksgjaldþol og uppfylli lágmarkskröfur um eigið fé sem reiknað er út skv. 100. og 129. gr.,
b)    upplýsingar um í hvaða greinaflokkum vátrygginga vátryggingafélagið hefur starfsleyfi,
c)    eðli áhættna eða skuldbindinga sem vátryggingafélagið ætlar að ábyrgjast í gistiaðildarríki.
Á sama tíma skulu eftirlitsyfirvöld heimaaðildarríkis upplýsa hlutaðeigandi vátryggingafélag um það.
2.     Ef skaðatryggingafélag fyrirætlar að veita þjónustu á grundvelli frelsis til að veita þjónustu og í tengslum við það að bera ábyrgð á áhættu sem flokkast í 10. flokk A-hluta I. viðauka, fyrir utan ábyrgð vegna flutninga, á yfirráðasvæði aðildarríkis, getur aðildarríkið krafist þess að vátryggingafélag leggi fram eftirfarandi:
a)    nafn og heimilisfang fulltrúa sem um getur í h-lið 1. mgr. 18. gr.,
b)    yfirlýsingu um að félagið sé aðili að landsskrifstofu og innlendum ábyrgðarsjóði gistiaðildarríkis.
3.     Sendi eftirlitsyfirvöld heimaaðildarríkisins upplýsingarnar sem um getur í 1. mgr. ekki innan tilskilins frests ber þeim að greina vátryggingafélaginu frá ástæðum fyrir synjuninni innan sama frests.
Heimilt er að áfrýja til dómstóla í heimaaðildarríkinu ef um er að ræða synjun eða ef ekkert svar berst.
4.     Vátryggingafélaginu er heimilt að hefja starfsemi frá og með þeim degi sem staðfest er að það hafi verið látið vita um í tilkynningunni sem um getur í fyrstu undirgrein í 1. mgr.

149. gr.
Breytingar á eðli áhættnanna eða skuldbindinganna

Málsmeðferðin í 145. og 148. gr. gildir um allar breytingar sem vátryggingafélagið hyggist gera á upplýsingunum sem um getur í 147. gr.

2. undirþáttur
Bótaábyrgð þriðja aðila á vélknúnum ökutækjum
150. gr.
Lögboðnar bótaábyrgðir þriðja aðila á vélknúnum ökutækjum

1.     Ef skaðatryggingafélag, með milligöngu stofnunar sem staðsett er í einu aðildarríkjanna, ábyrgist áhættu, aðra en ábyrgð vegna flutninga, sem flokkast í 10. flokk A-hluta I. viðauka sem er í öðru aðildarríki, skal gistiaðildarríki krefjast þess að félag verði aðili að og taki þátt í fjármögnun landsskrifstofu og innlendum ábyrgðarsjóði þess.
2.     Fjárframlag sem um getur í 1. mgr. skal aðeins lagt fram í tengslum við áhættur, aðrar en ábyrgð vegna flutninga, sem flokkast í 10. flokk í A-hluta I. viðauka sem fellur undir þjónustustarfsemi. Það framlag skal reiknað út á sama grundvelli fyrir skaðatryggingafélög sem bera ábyrgð á þeim áhættum með milligöngu stofnunar í því aðildarríki.
Útreikningurinn skal gerður með vísan í iðgjaldatekjur vátryggingafélags af þeim flokki í gistiaðildarríkinu eða fjölda áhættna í þeim flokki sem félagið ber ábyrgð á þar.
3.     Gistiaðildarríkið getur krafist þess að vátryggingafélag, sem veitir þjónustu, starfi í samræmi við ákvæði reglna í því aðildarríki að því er varðar ábyrgð á aukinni áhættu, að svo miklu leyti sem þær eiga við um skaðatryggingafélög sem komið er á fót í því ríki.

151. gr.
Bann við mismunun aðila sem sækja kröfur

Gistiaðildarríkið skal krefjast þess að skaðatryggingafélag tryggi að aðilar sem sækja kröfur, sem leiða af atburðum sem eiga sér stað á yfirráðasvæði þess, og eru ekki í verri stöðu vegna þess að félagið ber ábyrgð á áhættu, fyrir utan ábyrgð vegna flutninga, sem flokkast í 10. flokk í A-hluta I. viðauka sem fellur undir þjónustustarfsemi, frekar en með milligöngu stofnunar sem staðsett er í því ríki.

152. gr.
Fulltrúi

1.     Í þeim tilgangi sem um getur í 151. gr., skal gistiaðildarríki krefjast þess að skaðatryggingafélag tilnefni fulltrúa sem er búsettur eða heimilisfastur á yfirráðasvæði þess, sem skal safna öllum nauðsynlegum upplýsingum í tengslum við kröfur, og skal hafa umboð til að koma fram fyrir hönd félagsins í gagnvart aðilum sem orðið hafa fyrir tjóni og gætu sótt kröfur, þ.m.t. greiðslu þess háttar krafna, og komið fram fyrir hönd þess eða, ef nauðsyn krefur, frammi fyrir dómstólum og yfirvöldum þess aðildarríkis í tengslum við þær kröfur.
Þess getur einnig verið krafist að sá fulltrúi komi fram fyrir hönd skaðatryggingafélags frammi fyrir eftirlitsyfirvöldum gistiaðildarríkis að því er varðar athugun á tilvist og lögmæti ábyrgðartrygginga vélknúinna ökutækja.
2.     Gistiaðildarríki skal ekki krefjast þess að fulltrúi skuldbindi sig til að annast önnur störf fyrir hönd skaðatryggingafélags sem tilnefndi hann en þau sem sett eru fram í 1. mgr.
3.     Tilnefning fulltrúa skal ekki í sjálfu sér tákna stofnun útibús að því er varðar 145. gr.
4.     Ef vátryggingafélag hefur ekki tilnefnt fulltrúa geta aðildarríkin samþykkt að tjónauppgjörsfulltrúi, sem tilnefndur er í samræmi við 4. gr. tilskipunar 2000/26/EB annist störf fulltrúans sem um getur í 1. mgr. þessarar greinar.

3. þáttur
Valdsvið eftirlitsyfirvalda gistiaðildarríkisins
1. undirþáttur
Vátryggingar
153. gr.
Tungumál

Eftirlitsyfirvöld gistiaðildarríkisins geta krafist þess að upplýsingarnar, sem þau geta farið fram á varðandi starfsemi vátryggingafélags á yfirráðasvæði þess, séu veittar á opinberu tungumáli eða tungumálum þess ríkis.

154. gr.
Fyrirframtilkynning og fyrirframsamþykki

1.     Gistiaðildarríkjunum er óheimilt að samþykkja ákvæði þar sem krafist er fyrirframsamþykkis við eða reglubundinna tilkynninga á almennum og sérstökum tryggingaskilmálum, iðgjaldatöxtum, eða í tilviki líftrygginga, tæknilegum grundvelli sem er einkum notaður við útreikning á iðgjaldatöxtum og líftryggingaskuld eða eyðublöðum og öðrum skjölum sem vátryggingafélagið hefur í hyggju að nota í skiptum sínum við vátryggingataka.
2.     Í því skyni að hafa eftirlit með því að vátryggingafyrirtæki fari að innlendum ákvæðum um vátryggingarsamninga, má gistiaðildarríkið aðeins krefjast ókerfisbundinna tilkynninga vegna tryggingaskilmála og annarra skjala frá vátryggingafélagi sem fyrirhugar að stunda vátryggingastarfsemi á yfirráðasvæði þess, og þær kröfur skulu ekki vera skilyrði þess að vátryggingafélag stundi starfsemi.
3.     Gistiaðildarríki skulu ekki viðhalda eða taka upp kröfur um fyrirframtilkynningar eða samþykkis hækkunar iðgjalda, nema sem hluti af almennu verðstýringakerfi.

155. gr.
Vátryggingafélög sem fara ekki að lagaákvæðum

1.     Nú komast eftirlitsyfirvöld gistiaðildarríkis að því að vátryggingafélag, sem hefur útibú eða rekur starfsemi samkvæmt frelsi til að veita þjónustu á yfirráðasvæði þess, fer ekki að þeim lagaákvæðum sem um það gilda í því aðildarríki og skulu þau þá krefjast þess af vátryggingafélaginu að það bindi enda á hinar óvenjulegu aðstæður.
2.     Nú gerir umrætt vátryggingafélag ekki nauðsynlegar ráðstafanir og skulu þá eftirlitsyfirvöld viðkomandi aðildarríkis tilkynna það eftirlitsyfirvöldum heimaaðildarríkisins.
Eftirlitsyfirvöld heimaaðildarríkisins skulu við fyrsta tækifæri gera allar viðeigandi ráðstafanir til að tryggja að vátryggingafélag sem hlut á að máli bindi enda á þetta óeðlilega ástand.
Eftirlitsyfirvald heimaaðildarríkisins skal tilkynna eftirlitsyfirvaldi gistiaðildarríkisins um ráðstafanir sem gerðar eru.
3.     Nú heldur vátryggingafélagið áfram að brjóta gegn lagaákvæðum sem í gildi eru í viðkomandi gistiaðildarríki þrátt fyrir áðurnefndar ráðstafanir af hálfu heimaaðildarríkis eða vegna þess að ráðstafanirnar eru ónógar eða hafa ekki verið gerðar og geta þá yfirvöld gistiaðildarríkis, er þau hafa skýrt eftirlitsyfirvöldum heimaaðildarríkisins frá því, gert viðeigandi ráðstafanir til að koma í veg fyrir eða refsa fyrir frekari brot og þar á meðal, að því marki sem það er nauðsynlegt, komið í veg fyrir að félagið geri fleiri vátryggingasamninga á yfirráðasvæði þess.
Aðildarríkin skulu sjá til þess að á þeirra yfirráðasvæði sé unnt að birta vátryggingafélögum nauðsynleg lagaskjöl vegna slíkra ráðstafana.
4.     Ákvæði 1., 2. og 3. mgr. hafa ekki áhrif á rétt viðkomandi aðildarríkis til að gera nauðsynlegar ráðstafanir í neyðartilvikum til að koma í veg fyrir eða refsa fyrir lagabrot á yfirráðasvæði þess. Þetta felur einnig í sér þann möguleika að koma í veg fyrir að vátryggingafélög geri fleiri vátryggingasamninga á yfirráðasvæði þess.
5.     Ákvæði 1., 2. og 3. mgr. hafa ekki áhrif á rétt aðildarríkis til að refsa fyrir brot sem eru framin á yfirráðasvæði þess.
6.     Hafi vátryggingafélag, sem hefur gerst brotlegt, starfsstöð eða eigi eignir í viðkomandi aðildarríki geta eftirlitsyfirvöld hins síðarnefnda beitt þeim stjórnsýsluviðurlögum sem landslög þeirra leggja við broti, með refsiaðgerðum gagnvart þeirri starfsstöð eða þeirri eign sem um ræðir.
7.     Allar ráðstafanir, sem gripið er til skv. 2. til 6. mgr. og fela í sér takmörkun vátryggingastarfsemi, skulu rökstuddar og tilkynntar því vátryggingafélagi sem í hlut á.
8.     Vátryggingafélög skulu afhenda eftirlitsyfirvöldum gistiaðildarríkis öll gögn sem þau óska eftir að þau afhendi að því er varðar 1. til 7. mgr. að því marki sem vátryggingafélögum sem hafa aðalskrifstofu í því aðildarríki sé einnig skylt að gera það.
9.     Aðildarríki skulu upplýsa framkvæmdastjórnina um fjölda og tegundir tilvika sem leiða til höfnunar skv. 146. og 148. gr. eða þar sem ráðstafanir hafa verið gerðar skv. 4. mgr. þessarar greinar.
Á grundvelli þeirra upplýsinga skal framkvæmdastjórnin upplýsa Evrópunefnd um vátryggingar og starfstengda lífeyrissjóði á tveggja ára fresti.

156. gr.
Auglýsingastarfsemi

Vátryggingafélög sem hafa aðalskrifstofur í aðildarríkjum mega auglýsa þjónustu sína í öllum tiltækum miðlum í gistiaðildarríkinu, svo fremi farið sé eftir reglum um framsetningu og efni slíkra auglýsinga sem settar hafa verið í þágu almennra hagsmuna.

157. gr.
Skattlagning iðgjalda

1.     Án þess að það hafi áhrif á síðari samhæfingu, skulu vátryggingarsamningar einungis falla undir óbeina skattlagningu og skattatengda gjaldtöku af tryggingariðgjöldum í þeim aðildarríkjum sem áhættan er staðsett eða í aðildarríki skuldbindingarinnar.
Að því er varðar fyrstu undirgrein, teljast færanlegar eignir í fasteign sem er innan yfirráðasvæðis aðildarríkis, að undanskildum vörum í umflutningi, áhætta staðsett í því aðildarríki, jafnvel ef fasteignin og innihald hennar falli ekki undir sama vátryggingarsamning.
Á Spáni leggjast einnig á vátryggingarsamninga aukagjöld, sem komið er á með löglegum hætti í þágu 'Consorcio de Compensación de Seguros' á Spáni til þess að þau geti framkvæmt verkefni sín í tengslum við bætur vegna taps af völdum óvenjulegra atburða sem eiga sér stað í því aðildarríki.
2.     Löggjöf, sem við á um samninginn skv. 178. gr. þessarar tilskipunar og samkvæmt reglugerð (EB) nr. 593/2008, skal óháð hinni skattalegu tilhögun sem í gildi er.
3.     Hvert aðildarríki skal beita eigin innlendum ákvæðum gagnvart þeim vátryggingafélögum sem ábyrgjast áhættu eða skuldbindingar innan yfirráðasvæðis síns varðandi ráðstafanir sem gerðar eru til að tryggja innheimtu óbeinna skatta og skattatengdra gjalda til greiðslu skv. 1. mgr.

2. undirþáttur
Endurtryggingar
158. gr.
Endurtryggingafélög sem fara ekki að lagaákvæðum

1.     Nú komast eftirlitsyfirvöld gistiaðildarríkis að því að endurtryggingafélag, sem hefur útibú eða rekur starfsemi samkvæmt frelsi til að veita þjónustu á yfirráðasvæði þess, fer ekki að þeim lagaákvæðum sem um það gilda í því aðildarríki og skulu þau þá krefjast þess af endurtryggingafélaginu að það bindi enda á það ástand og fari að settum reglum. Á sama tíma skulu þau vísa málinu til eftirlitsyfirvalds í heimaaðildarríkinu.
2.     Nú heldur endurtryggingafélagið áfram að brjóta gegn lagaákvæðum sem í gildi eru í viðkomandi gistiaðildarríki þrátt fyrir áðurnefndar ráðstafanir af hálfu heimaaðildarríkis eða vegna þess að ráðstafanirnar eru ónógar og geta þá yfirvöld gistiaðildarríkis, er þau hafa skýrt eftirlitsyfirvöldum heimaaðildarríkisins frá því, gert viðeigandi ráðstafanir til að koma í veg fyrir eða refsa fyrir frekari brot og þar á meðal, að því marki sem það er nauðsynlegt, komið í veg fyrir að endurtryggingafélagið geri fleiri endurtryggingasamninga á yfirráðasvæði þess.
Aðildarríkin skulu sjá til þess að á þeirra yfirráðasvæði sé unnt að birta endurtryggingafélögum nauðsynleg lagaskjöl vegna slíkra ráðstafana.
3.     Allar ráðstafanir, sem gripið er til skv. 1. og 2. mgr. og fela í sér viðurlög eða takmörkun á endurtryggingastarfsemi, skulu vel rökstuddar og tilkynntar því endurtryggingafélagi sem í hlut á.

4. þáttur
Tölfræðilegar upplýsingar
159. gr.
Tölfræðilegar upplýsingar um starfsemi yfir landamæri

Vátryggingafélög skulu, sundurliðað eftir því hvort um er að ræða viðskipti sem eru stunduð samkvæmt staðfesturétti eða viðskipti sem stunduð eru samkvæmt frelsi til að veita þjónustu, skýra lögbæru eftirlitsyfirvaldi í heimaaðildarríkinu frá fjárhæð iðgjalda, krafna og þóknana áður en endurtryggingariðgjöld eru dregin frá, fyrir hvert aðildarríki og hvern eftirfarandi:
a)    að því er varðar skaðatryggingar, hóp flokka eins og sett er fram í V. viðauka,
b)    að því er varðar líftryggingar, hvern flokk I til IX eins og sett er fram í II. viðauka.
Að því er varðar 10. flokk A-hluta I. viðauka, að undanskildum ábyrgð vegna flutninga, skal hlutaðeigandi félag einnig upplýsa það eftirlitsyfirvald um tíðni og meðalkostnað krafna.
Eftirlitsyfirvald heimaaðildarríkis skal framsenda upplýsingar, sem um getur í fyrstu og annarri undirgrein, innan hæfilegs frests og í samanteknu formi til eftirlitsyfirvalda hlutaðeigandi aðildarríkja samkvæmt ósk þeirra.

5. þáttur
Meðferð samninga útibúa í slitameðferð
160. gr.
Slit vátryggingafélaga

Nú er vátryggingafélagi slitið og skal þá gera upp skuldbindingar vegna samninga, sem gerðir hafa verið fyrir milligöngu útibús eða samkvæmt frelsi til að veita þjónustu, á sama hátt og þær sem eiga rætur að rekja til annarra vátryggingasamninga félagsins og burtséð frá þjóðerni tryggðra eða rétthafa.

161. gr.
Slit endurtryggingafélaga

Nú er endurtryggingafélagi slitið og skal þá gera upp skuldbindingar vegna samninga sem gerðir hafa verið fyrir milligöngu útibús eða samkvæmt frelsi til að veita þjónustu, á sama hátt og þær sem eiga rætur að rekja til annarra endurtryggingasamninga félagsins.

IX. KAFLI
Útibú sem stofnuð eru innan bandalagsins og tilheyra vátryggingafélögum, þ.m.t. endurtryggingafélög, sem hafa aðalskrifstofur utan bandalagsins

1. þáttur
Rekstur hafinn
162. gr.
Meginreglur um leyfisveitingu og skilyrði

1.     Aðildarríki skulu krefjast þess að félag, sem hefur aðalskrifstofu sína utan Bandalagsins, afli sér starfsleyfis til að stunda í ríkinu þá starfsemi sem um getur í 1. mgr. 2. gr.
2.     Aðildarríki er heimilt að veita félagi starfsleyfi að uppfylltum eftirfarandi lágmarksskilyrðum:
a)    það hefur leyfi til að stunda vátryggingastarfsemi samkvæmt landslögum sínum,
b)    það kemur á fót útibúi innan yfirráðasvæðis þess aðildarríkis þar sem sóst er eftir leyfi,
c)    það skuldbindi sig til að halda reikninga fyrir atvinnureksturinn, á þeim stað þar sem eða útibúið hefur aðsetur og geyma þar öll gögn viðvíkjandi starfseminni,
d)    það tilnefni aðalumboðsmann sem eftirlitsyfirvöld viðurkenna,
e)    það hafi yfir að ráða, í því aðildarríki þar sem það óskar eftir starfsleyfi, eignum sem jafngildi a.m.k. helmingi lágmarksfjárhæðar, sem kveðið er á um í d-lið 1. mgr. 129. gr. að því er varðar lágmarkskröfur um eigið fé, og leggi fram sem geymslufé einn fjórða af lágmarksfjárhæðinni,
f)    það skuldbindur sig til að uppfylla gjaldþolskröfur og lágmarkskröfur um eigið fé í samræmi við kröfurnar sem um getur í 100. og 128. gr.,
g)    það tilkynni nafn og heimilisfang tjónauppgjörsfulltrúa sem tilnefndur er í hverju aðildarríki öðru en því þar sem sótt er um starfsleyfið, ef áhættan sem tryggt er gegn flokkast í 10. flokk í A-hluta I. viðauka, að undanskilinni ábyrgð vegna flutninga.
h)    það leggi fram rekstraráætlun samkvæmt ákvæðum 163. gr.,
i)    það uppfyllir kröfur um stjórnunarhætti sem mælt er fyrir um í 2. þætti IV. kafla.
3.     Að því er varðar þennan kafla merkir „útibú“ stöðug viðvera félags sem um getur í 1. mgr. á yfirráðasvæði aðildarríkis, sem fær starfsleyfi í því aðildarríki og stundar vátryggingastarfsemi.

163. gr.
Rekstraráætlun útibús

1.     Í rekstraráætlun útibús sem um getur í h-lið 2. mgr. 162. gr. skal setja fram eftirfarandi:
a)    eðli þeirra áhættna eða skuldbindinga sem félagið hyggst taka að sér,
b)    meginreglur endurtryggingar,
c)    mat á framtíðargjaldþolskröfum, eins og mælt er fyrir um í 4. þætti VI. kafla, á grundvelli áætlaðs efnahagsreiknings og einnig reikningsaðferðin sem beitt er til að leiða fram þetta mat,
d)    mat á framtíðarlágmarkskröfum um eigið fé, eins og mælt er fyrir um í 5. þætti VI. kafla, á grundvelli áætlaðs efnahagsreiknings og einnig reikningsaðferðin sem beitt er til að leiða fram þetta mat,
e)    yfirlit yfir tækt eigið fé og viðurkennt eigið fé félags með tilliti til gjaldþolskröfu og lágmarkskrafna um eigið fé eins og um getur í 4. og 5. þætti VI. kafla,
f)    áætlaðan kostnað við að koma upp rekstraraðstöðu og skipulagi til að tryggja áframhaldandi starfsemi, fjármagn sem ætlað er að standa straum af honum og, ef áhættan sem tryggt er gegn flokkast í 18. flokk A-hluta I. viðauka, aðgengileg úrræði til að veita þá aðstoð,
g)    upplýsingar um skipulag stjórnkerfis.
2.     Auk skilyrðanna sem sett eru fram í 1. mgr. skal eftirfarandi koma fram í rekstraráætluninni fyrir þrjú fyrstu fjárhagsárin:
a)    áætlaðan efnahagsreikning,
b)    mat á fjármagni sem ætlað er að standa straum af vátryggingaskuldum, lágmarkskröfum um eigið fé og gjaldþolskröfum,
c)    þegar um er að ræða skaðatryggingar:
    i.    áætlaður stjórnunarkostnaður, annar en uppsetningarkostnaður, einkum almennur kostnaður vegna daglegs reksturs og umboðslauna,
    ii.    áætluð iðgjöld eða framlög og kröfur,
d)    varðandi líftryggingar, áætlun með nákvæmri spá um tekjur og kostnað vegna frumtryggingastarfsemi, móttöku endurtrygginga og vegna endurtryggingaverndar,
3.     Að því er varðar líftryggingar getur aðildarríki krafist þess að vátryggingafélag tilkynni reglulega um hvaða tæknilegi grundvöllur er notaður við útreikning á iðgjaldatöxtum og líftryggingaskuld, en þessi krafa er þó ekki skilyrði fyrir því að líftryggingafélag geti rekið starfsemi sína.

164. gr.
Yfirfærsla vátryggingastofns

1.     Með þeim skilyrðum sem sett eru í landslögum skulu aðildarríki veita útibúum, sem stofnsett eru á yfirráðasvæði þeirra og þessi kafli tekur til, leyfi til að yfirfæra samningasafn þeirra að einhverju eða öllu leyti til viðtökufélags sem stofnsett er í sama aðildarríki, enda staðfesti eftirlitsyfirvöld þess aðildarríkis eða, ef við á, aðildarríkið sem um getur í 167. gr. að gjaldþol viðtökufélagsins sé fullnægjandi er tekið hefur verið tillit til yfirfærslunnar.
2.     Með þeim skilyrðum sem sett eru í landslögum skulu aðildarríki veita útibúum, sem stofnsett eru á yfirráðasvæði þeirra og þessi kafli tekur til, leyfi til að yfirfæra samningasafn þeirra að einhverju eða öllu leyti til vátryggingafélags sem hefur aðalskrifstofu í öðru aðildarríki, enda staðfesti eftirlitsyfirvöld þess aðildarríkis að nauðsynlegt viðurkennt eigið fé viðtökufélagsins sé fullnægjandi að því er varðar gjaldþolskröfur sem um getur í fyrstu undirgrein 100. gr. er tekið hefur verið tillit til yfirfærslunnar.
3.     Ef aðildarríki, samkvæmt skilyrðunum sem kveðið er á um í landslögum, leyfir útibúum á yfirráðasvæði sínu, sem falla undir þennan kafla, að yfirfæra samningasafn þeirra að einhverju eða öllu leyti til útibús sem fellur undir þennan kafla og er stofnsett innan yfirráðasvæðis annars aðildarríkis, skal það tryggja að eftirlitsyfirvöld aðildarríkis félagsins sem tekur við safninu eða, ef við á, aðildarríkisins sem um getur í 167. gr. votti:
a)    að félagið sem tekur við yfirfærslunni hafi nauðsynlegt viðurkennt eigið fé til að uppfylla gjaldþolskröfur, eftir að hafa tekið við yfirfærslunni,
b)    að löggjöf aðildarríkis félags sem tekur við yfirfærslunni heimili þess háttar yfirfærslu og
c)    að aðildarríki hafi samþykkt yfirfærsluna.
4.     Í þeim tilvikum sem um getur í 1. til 3. mgr. skal aðildarríkið, þar sem útibúið sem yfirfærir vátryggingastofn sinn er staðsett, heimila yfirfærsluna, að fengnu samþykki eftirlitsyfirvalda þess aðildarríkis þar sem áhættan er eða gengist er undir skuldbindinguna, ef það er ekki aðildarríkið þar sem útibúið er sem yfirfærir vátryggingastofn sinn.
5.     Eftirlitsyfirvöld í aðildarríkjunum sem samráð er haft við skulu tilkynna eftirlitsyfirvöldum í heimaaðildarríki vátryggingafélagsins sem yfirfærir vátryggingastofn sinn um álit sitt eða samþykki innan þriggja mánaða frá því að þeim barst beiðnin, Ef yfirvöldin sem samráð er haft við hafa ekki svarað innan þess frests telst það jafngilda jákvæðu svari eða þegjandi samþykki.
6.     Yfirfærsla vátryggingastofns sem heimiluð er í samræmi við 1.–5. mgr. skal birt eins og mælt er fyrir um í landslögum aðildarríkisins þar sem áhættan er staðsett eða í aðildarríkinu þar sem gengist er undir skuldbindinguna.
Slík yfirfærsla öðlast sjálfkrafa gildi gagnvart vátryggingatökum, hinum tryggðu og öllum þeim öðrum sem eiga rétt eða bera skyldu vegna þeirra samninga sem yfirfærðir hafa verið.

165. gr.
Vátryggingaskuld

Aðildarríki skulu krefjast þess að félög reikni fullnægjandi vátryggingaskuld til að tryggja vátrygginga- og endurtryggingaskuldbindingar, sem þau stofna til innan yfirráðasvæðis þeirra, reiknað út í samræmi við 2. þátt VI. Kafla. Aðildarríki skulu krefjast þess að félög meti eignir og skuldir í samræmi við 1. þátt VI. kafla og ákvarði eigið fé í samræmi við 3. þátt VI. kafla.

166. gr.
Gjaldþolskrafa og lágmarkskröfur um eigið fé

1.     Hvert aðildarríki skal krefjast þess að útibú, sem komið er á fót á yfirráðasvæði þess, hafi yfir að ráða fjárhæð viðurkennds eigin fjár sem samanstendur af þeim þáttum sem um getur í 3. mgr. 98. gr.
Gjaldþolskröfu og lágmarkskröfur um eigið fé skal reikna út í samræmi við ákvæði 4. og 5. þáttar VI. kafla.
Að því er varðar útreikning á gjaldþolskröfu og lágmarkskröfum um eigið fé skal þó aðeins taka tillit til þeirrar starfsemi sem viðkomandi útibú hefur áhrif á, bæði í tilviki líf- og skaðatrygginga.
2.     Tæk fjárhæð eigin fjár sem krafist er til að uppfylla lágmarkskröfur um eigið fé og lágmarksfjárhæð þeirra lágmarkskrafna um eigið fé skal ákvörðuð í samræmi við 4. mgr. 98. gr.
3.     Tæk fjárhæð eigin fjár skal ekki vera lægri en helmingur lágmarksfjárhæðar sem krafist er skv. d- lið 1. mgr. 129. gr.
Tryggingarfé sem hefur verið lagt fram í samræmi við e-lið 2. mgr. 162. gr. skal reiknast á móti þess háttar tæku eigin fé í því skyni að uppfylla lágmarkskröfur um eigið fé.
4.     Eignir, sem tryggja gjaldþol, skulu varðveittar í því aðildarríki þar sem starfsemin er rekin að því marki sem samsvarar lágmarkskröfum um eigið fé og það sem umfram er skal varðveitt innan Bandalagsins.

167. gr.
Ávinningur fyrir félög sem hafa starfsleyfi í fleiri en einu aðildarríki

1.     Félögum, sem óskað hafa eftir eða fengið hafa starfsleyfi í fleiri en einu aðildarríki, er heimilt að sækja um ávinning af eftirtöldum tegundum sem einungis má veita leyfi fyrir öllum í einu:
a)    að gjaldþolkröfur, sem um getur í 166. gr., verði reiknaðar á grundvelli allrar starfsemi þess innan Bandalagsins,
b)    að geymslufé það, sem krafist er skv. e-lið 2. mgr. 162. gr., skuli aðeins lagt fram í einu aðildarríkjanna,
c)    að eignir, sem tryggja lágmarkskröfur um eigið fé, megi í samræmi við 134. gr. vera í einhverju aðildarríkjanna þar sem félagið starfar og þá í hverju þeirra sem er.
Í þeim tilvikum sem um getur í a-lið fyrstu undirgreinar, skal aðeins taka til greina starfsemi útibúa sem stofnsett hafa verið innan Bandalagsins þegar þessi útreikningur er gerður.
2.     Umsókn um að nýta þær tegundir ávinnings, sem um getur í 1. mgr., skal senda eftirlitsyfirvöldum þeirra aðildarríkja sem í hlut eiga. Í umsókninni skal koma fram það yfirvald aðildarríkis sem framvegis skuli annast eftirlit með gjaldþoli fyrir samanlagða starfsemi útibúa sem stofnsett hafa verið innan Bandalagsins. Félagið skal skýra frá ástæðu þess að viðkomandi yfirvald varð fyrir valinu.
Tryggingarfé sem um getur í e-lið 2. mgr. 162. gr. skal lagt fram í því aðildarríki.
3.     Því aðeins má veita leyfi fyrir þeim tegundum ávinnings sem mælt er fyrir um í 1. mgr. að eftirlitsyfirvöld í öllum aðildarríkjum, þar sem sótt hefur verið um, veiti samþykki sitt.
Þeir ávinningar taka gildi frá þeim tíma þegar eftirlitsyfirvaldið, sem varð fyrir valinu, tilkynnir öðrum eftirlitsyfirvöldum að það muni hafa eftirlit með gjaldþolsstöðu samanlagðrar starfsemi útibúa innan Bandalagsins.
Eftirlitsyfirvaldið, sem valið er, aflar allra nauðsynlegra upplýsinga frá öðrum aðildarríkjum til þess að hafa eftirlit með heildargjaldþoli útibúa sem stofnuð eru á yfirráðasvæðum þeirra.
4.     Krefjist eitt eða fleiri hlutaðeigandi aðildarríki þess skulu þær tegundir ávinnings, sem útibúum hefur verið veitt leyfi fyrir samkvæmt 1., 2. og 3. mgr., felldar úr gildi samtímis af öllum aðildarríkjum sem hlut eiga að máli.

168. gr.
Reikningsskil, varfærnis- og tölfræðilegar upplýsingar og félög í erfiðleikum

Að því er varðar þennan þátt, gilda 34. gr., 3. mgr. 139. gr. og 140. og 141. gr.
Ef félag uppfyllir skilyrði til að njóta ávinnings sem kveðið er á um 1., 2. og 3. mgr. 167. gr., að því er varðar beitingu 137. til 139. gr., skal meðhöndla eftirlitsyfirvald, sem ber ábyrgð á að votta gjaldþol útibúa sem komið er á fót innan Bandalagsins að því er tekur til allrar starfsemi þeirra, á sama hátt og eftirlitsyfirvald aðildarríkis þess yfirráðasvæðis sem félag sem komið er á fót í Bandalaginu hefur aðalskrifstofu.

169. gr.
Aðgreining skaða- og líftryggingastarfsemi

1.     Útibú sem um getur í þessum þætti skulu ekki á sama tíma stunda líf- og skaðatryggingastarfsemi í sama aðildarríki.
2.     Þrátt fyrir 1. mgr. er aðildarríkjunum heimilt að kveða á um að þau útibú, sem þessi þáttur á við um og reka samtímis báðar tegundir starfsemi í aðildarríki á þeim dögum sem um getur í fyrstu undirgrein 5. mgr. 73. gr., geti haldið því áfram enda sé rekstur hvorrar starfsemi fyrir sig aðgreindur skv. 74. gr.
3.     Aðildarríki sem krefst þess samkvæmt annarri undirgrein 5. mgr. 73. gr. að félög, sem stofnuð eru á yfirráðasvæði þess, hætti að reka samtímis báðar tegundir starfsemi, sem stundaðar eru á viðkomandi dögum sem um getur í fyrstu undirgrein 5. mgr. 73. gr., skal enn fremur gera sömu kröfur varðandi útibú, sem þessi þáttur á við um, og eru á yfirráðasvæði þess og stunda þar samtímis báðar tegundir starfseminnar.
Aðildarríkjunum er heimilt að leyfa útibúum, sem þessi þáttur á við um, að halda áfram starfsemi sinni þar þótt aðalskrifstofa þeirra reki samtímis, á þeim dögum sem um getur í fyrstu undirgrein 5. mgr. 73. gr., báðar tegundir starfsemi en innan aðildarríkisins einungis líftryggingastarfsemi. Ef félag ætlar að stunda skaðatryggingastarfsemi á því yfirráðasvæði má það einungis stunda skaðatryggingastarfsemi í gegnum dótturfélags.

170. gr.
Afturköllun starfsleyfis til félaga sem hafa starfsleyfi í fleiri en einu aðildarríki

Afturkalli yfirvaldið, sem um getur í 2. mgr. 167. gr., starfsleyfi skal það tilkynna slíkt eftirlitsyfirvöldum hinna aðildarríkjanna þar sem félagið er með starfsemi og skulu yfirvöldin gera viðeigandi ráðstafanir.
Ef ástæða afturköllunar er ófullnægjandi heildargjaldþol eins og það er ákvarðað af aðildarríkjunum sem samþykktu beiðni sem um getur í 167. gr., skal aðildarríkið sem veitti samþykki sitt einnig afturkalla veitt starfsleyfi.

171. gr.
Samningar við þriðju lönd

Bandalaginu er heimilt að víkja frá ákvæðum sem kveðið er á um í þessum þætti með samningum sem gerðir eru í samræmi við stofnsáttmálann við eitt eða fleiri þriðju lönd á grundvelli gagnkvæmni, í því skyni að tryggja vátryggingatökum og hinum tryggðu í aðildarríkjunum fullnægjandi vernd.

2. þáttur
Endurtryggingar
172. gr.
Jafngildi

1.     Framkvæmdastjórnin skal samþykkja framkvæmdarráðstafanir sem tilgreina viðmið til að meta jafngildi gjaldþolsreglna þriðja lands, sem beitt er á endurtryggingastarfsemi félaga með aðalskrifstofu í því þriðja landi, við þær sem mælt er fyrir um í I. bálki.
Þessar ráðstafanir, sem er ætlað að breyta veigalitlum þáttum þessarar tilskipunar með því að auka við hana, skulu samþykktar í samræmi við stjórnsýslumálsmeðferðina með athugun sem um getur í 3. mgr. 301. gr.
2.     Framkvæmdastjórnin getur, í samræmi við reglunefndarmeðferð sem um getur í 2. mgr. 301. gr. og að teknu tilliti til viðmiðana sem samþykkt eru í samræmi við 1. mgr., ákvarðað hvort gjaldþolsreglur þriðja lands, sem beitt er gagnvart endurtryggingastarfsemi félaga með aðalskrifstofu sína í því þriðja landi, séu jafngildar þeim sem kveðið er á um í I. bálki.
Þær ákvarðanir skulu endurskoðaðar reglulega.
3.     Ef, í samræmi við 2. mgr., gjaldþolsreglur þriðja lands teljast jafngildar þeim sem mælt er fyrir um í þessari tilskipun, skal meðhöndla endurtryggingarsamninga, sem gerðir eru við félög sem hafa aðalskrifstofu í því þriðja landi, með sama hætti og endurtryggingarsamninga sem gerðir eru við félög sem hafa starfsleyfi í samræmi við þessa tilskipun.

173. gr.
Bann við veðsetningu eigna

Aðildarríki skulu ekki viðhalda eða taka upp, vegna myndunar vátryggingaskuldar, kerfi með brúttóvarasjóðum sem binda eignir til að mæta væntum iðgjöldum og útistandandi tjónaskuld ef endurtryggjandinn er vátrygginga- eða endurtryggingafélag í þriðja landi, staðsettur í landi þar sem gilda gjaldþolsreglur sem teljast jafngildar þeim sem mælt er fyrir um í þessari tilskipun í samræmi við 172. gr.

174. gr.
Meginregla og skilyrði fyrir rekstri endurtryggingastarfsemi

Aðildarríki skal ekki beita endurtryggingafélögum í þriðju löndum, sem stofna eða stunda endurtryggingastarfsemi á yfirráðasvæði þess, ákvæðum sem leiða til hagstæðari meðferð en veitt er endurtryggingafélagi sem hefur aðalskrifstofu sína í því aðildarríki.

175. gr.
Samningar við þriðju lönd

1.     Framkvæmdastjórninni er heimilt að leggja fyrir ráðið tillögur vegna samningaviðræðna við eitt eða fleiri þriðju lönd um hvernig annast skuli viðbótareftirlit með eftirfarandi:
a)    endurtryggingafélögum í þriðja landi sem stunda endurtryggingastarfsemi innan Bandalagsins,
b)    endurtryggingafélögum innan Bandalagsins sem stunda endurtryggingastarfsemi á yfirráðasvæði þriðja lands.
2.     Í samningunum, sem um getur í 1. mgr., skal einkum leitast við að tryggja skilvirkan markaðsaðgang, á grundvelli skilyrða um samsvörunar í varfærnisreglum, fyrir endurtryggingafélög á yfirráðasvæði hvers samningsaðila og kveða á um gagnkvæma viðurkenningu á eftirlitsreglum og starfsvenjum í endurtryggingum. Einnig skal leitast við að tryggja:
a)    að eftirlitsyfirvöld í aðildarríkjunum geti aflað upplýsinga sem nauðsynlegar eru vegna eftirlits með endurtryggingafélögum sem hafa aðalskrifstofur sínar í Bandalaginu og stunda starfsemi á yfirráðasvæðum viðkomandi þriðju landa,
b)    að eftirlitsyfirvöld í þriðju löndum geti aflað upplýsinga sem nauðsynlegar eru vegna eftirlits með endurtryggingafélögum sem hafa aðalskrifstofur sínar á yfirráðasvæði þeirra og stunda starfsemi í Bandalaginu.
3.     Með fyrirvara um 1. og 2. mgr. 300. gr. sáttmálans skal framkvæmdastjórnin, með aðstoð Evrópunefndar um vátryggingar og starfstengdar lífeyrisgreiðslur, fara yfir niðurstöður samningaviðræðnanna sem um getur í 1. mgr. þessarar greinar og meta árangur þeirra.

X. KAFLI
Dótturfélög vátryggingafélaga, þ.m.t. endurtryggingafélaga, sem heyra undir löggjöf þriðja lands og öflun slíkra félaga á eignarhlutum
176. gr.
Upplýsingar frá aðildarríkjum til framkvæmdastjórnarinnar

Eftirlitsyfirvöld aðildarríkjanna skulu upplýsa framkvæmdastjórnina og eftirlitsyfirvöld annarra aðildarríkja um öll starfsleyfi sem veitt eru beinu eða óbeinu dótturfélagi, ef eitt eða fleiri móðurfélaga þeirra heyrir undir löggjöf þriðja lands.
Í þeim tilvikum skal einnig upplýsa um skipulag viðkomandi samstæðu.
Ef félag sem heyrir undir löggjöf þriðja lands yfirtekur eignarhlutdeild í vátrygginga- eða endurtryggingafélagi með starfsleyfi í Bandalaginu, sem myndi breyta því vátrygginga- eða endurtryggingafélagi í dótturfélag þess félags frá þriðja landi, skulu eftirlitsyfirvöld heimaaðildarríkis upplýsa framkvæmdastjórnina og eftirlitsyfirvöld annarra aðildarríkja.

177. gr.
Meðhöndlun þriðja lands á vátryggingafélögum, þ.m.t. endurtryggingafélögum, úr Bandalaginu

1.     Aðildarríkin skulu tilkynna framkvæmdastjórninni um alla erfiðleika almenns eðlis sem vátrygginga- eða endurtryggingafélög þeirra lenda í við að öðlast staðfestu og við rekstur í þriðja landi eða þegar þau stunda starfsemi sína í þriðja landi.
2.     Framkvæmdastjórnin skal, reglubundið, leggja fram skýrslu til ráðsins þar sem rannsökuð er sú meðhöndlun sem vátrygginga- eða endurtryggingafélög með starfsleyfi í Bandalaginu fær að því er varðar eftirfarandi:
a)    stofnun vátrygginga- eða endurtryggingafélaga, með starfsleyfi í Bandalaginu, í þriðja landi
b)    yfirtaka eignarhlutdeildar í vátrygginga- eða endurtryggingafélögum í þriðja landi,
c)    rekstur þess háttar félaga, sem komið hefur verið á fót, á vátrygginga- og endurtryggingastarfsemi,
d)    veiting vátrygginga- eða endurtryggingastarfsemi frá Bandalaginu yfir landamæri til þriðju landa.
Framkvæmdastjórnin skal leggja skýrslurnar fyrir ráðið, ásamt tillögum og tilmælum, eftir því sem við á.

II. HLUTI
SÉRTÆK ÁKVÆÐI UM VÁTRYGGINGAR OG ENDURTRYGGINGAR
I. KAFLI
Gildandi lög og skilmálar um frumtryggingasamninga

1. þáttur
Gildandi lög
178. gr.
Gildandi lög

Aðildarríki sem ekki eru bundin af beitingu reglugerðar (EB) nr. 593/2008 skulu beita ákvæðum þeirrar reglugerðar til að ákvarða hvaða löggjöf um vátryggingasamninga fellur innan gildissviðs 7. gr. þeirrar reglugerðar.

2. þáttur
Lögboðnar tryggingar
179. gr.
Tengdar skuldbindingar

1.     Skaðatryggingafélög geta, að uppfylltum þeim skilyrðum sem sett eru fram í þessari grein, boðið fram og gert samninga um lögboðnar tryggingar.
2.     Ef aðildarríki leggur á þá skyldu að kaupa tryggingu, getur vátryggingarsamningur ekki fullnægt þeirri skuldbindingu nema hann samræmist þeim sértæku ákvæðum sem varða trygginguna sem mælt er fyrir um af viðkomandi aðildarríki.
3.     Krefjist aðildarríki lögboðinnar tryggingar og sé vátryggingafélagið skyldugt að tilkynna eftirlitsyfirvöldum um stöðvun tryggingar, getur slíkri stöðvun einungis verið beitt gagnvart tjónþola sem er þriðji aðili við þær aðstæður sem mælt er fyrir um af viðkomandi aðildarríki.
4.     Sérhvert aðildarríki skal tilkynna framkvæmdastjórninni gegn hvaða áhættu vátrygging sé lögboðin samkvæmt löggjöf þess, með eftirfarandi upplýsingum:
a)    sértæk lagaákvæði að því er varðar trygginguna og
b)    upplýsingar sem gefa þarf upp í skírteininu sem skaðatryggingafélag þarf að gefa út til vátryggðs aðila þegar það aðildarríki krefst sönnunar um að farið sé að þeirri skyldu að kaupa vátryggingu.
Aðildarríki getur krafist þess að upplýsingarnar sem um getur í b-lið fyrsta undirliðar feli í sér yfirlýsingu vátryggingafélags þess efnis að samningurinn samrýmist sértækum ákvæðum sem varða þá tryggingu.
Framkvæmdastjórnin skal birta upplýsingarnar sem um getur í b-lið fyrstu undirgreinar í Stjórnartíðindum Evrópusambandsins.

3. þáttur
Almennir hagsmunir
180. gr.
Almennir hagsmunir

Hvorki aðildarríkið, þar sem áhætta er staðsett, né aðildarríkið þar sem gengist er undir skuldbindinguna skulu hindra vátryggingartaka í að gera samning við viðurkennt vátryggingafélag samkvæmt skilyrðum 14. gr., svo fremi sem sú samningagerð brjóti ekki gegn lagaákvæðum sem sett eru í þágu almennra hagsmuna í aðildarríkinu þar sem áhættan er staðsett eða í aðildarríkinu þar sem gengist er undir skuldbindinguna.

4. þáttur
Skilmálar vátryggingarsamninga og iðgjaldataxta
181. gr.
Skaðatryggingar

1.     Aðildarríkin mega ekki setja ákvæði þar sem krafist er fyrirframsamþykkis á almennum og sérstökum tryggingaskilmálum, iðgjaldatöxtum og eyðublöðum og öðrum prentuðum skjölum sem tryggingafélagið hyggst nota í skiptum sínum við vátryggingartaka, né að um slíkt sé tilkynnt kerfisbundið.
Aðildarríki geta krafist að tilkynnt sé með ókerfisbundnum hætti um þessa tryggingaskilmála og önnur skjöl, einungis í þeim tilgangi að sannreyna hvort farið sé að ákvæðum landslaga varðandi vátryggingarsamninga. Þessar kröfur eru þó ekki skilyrði fyrir því að vátryggingafélag geti stundað viðskipti.
2.     Aðildarríki sem lögfestir vátryggingar er heimilt að krefjast þess að vátryggingafélög tilkynni eftirlitsyfirvöldum um almenn og sértæk skilyrði slíkrar vátryggingar áður en þær eru teknar í notkun.
3.     Aðildarríki skulu ekki viðhalda eða taka upp skuldbindingu vegna fyrri tilkynningar eða samþykkis hækkunar iðgjaldataxta, nema að það sé hluti af almennu verðstýringakerfi.

182. gr.
Líftryggingar

Aðildarríkjunum er ekki heimilt að setja reglur þar sem krafist er fyrirframsamþykkis við almennum og sérstökum líftryggingaskilmálum, iðgjaldatöxtum, tæknilegum grunni fyrir útreikningi á iðgjöldum og líftryggingaskuld eða eyðublöðum og öðrum prentuðum skjölum sem líftryggingafélagið hyggst nota í skiptum sínum við vátryggingataka, né að um slíkt sé tilkynnt kerfisbundið.
Þó er heimaaðildarríkinu heimilt að krefjast, en eingöngu í þeim tilgangi að sannreyna hvort farið sé að ákvæðum í landslögum varðandi tryggingafræðilegar grundvallarreglur, að tilkynnt sé reglulega um hvaða tæknilegi grundvöllur sé notaður við útreikning á iðgjaldatöxtum og tryggingaskuld. Þessar kröfur eru þó ekki skilyrði fyrir því að vátryggingafélag geti stundað viðskipti.

5. þáttur
Upplýsingar sem veittar skulu vátryggingatökum
1. undirþáttur
Skaðatryggingar
183. gr.
Almennar upplýsingar sem veittar skulu vátryggingatökum

1.     Áður en skaðatryggingasamningur er gerður skal skaðatryggingafélagið upplýsa vátryggingartaka um eftirfarandi:
a)    þau lög sem gilda um samninginn, þar sem aðilar hafa ekki val,
b)    þá staðreynd að aðilum er frjálst að velja gildandi lög og þau lög sem vátryggjandi leggur til að verði valin.
Vátryggingafélagið skal einnig gera vátryggingartakanum grein fyrir tilhögun við meðhöndlun kvartana vátryggingartaka varðandi samninga, þ.m.t. eftir því sem við á, hvort stofnanir séu fyrir hendi sem hægt er að bera upp kvartanir við, án þess að hafa áhrif á rétt vátryggingartaka til málareksturs.
2.     Skuldbindingarnar sem um getur í 1. mgr. skulu aðeins gilda þegar vátryggingartakinn er einstaklingur.
3.     Ákveða skal ítarlegar reglur til að hrinda ákvæðum 1. og 2. mgr. í framkvæmd í samræmi við löggjöf aðildarríkisins þar sem áhættan er fyrir hendi.

184. gr.
Viðbótarupplýsingar ef um er að ræða skaðatryggingar sem eru boðnar samkvæmt staðfesturétti eða frelsi til að veita þjónustu

1.     Þar sem skaðatryggingar eru boðnar samkvæmt staðfesturétti eða frelsi til að veita þjónustu skal vátryggingartaka skýrt frá því, áður en gengist er undir skuldbindingu, í hvaða aðildarríki aðalskrifstofa er staðsett, eða útibú, eftir því sem við á, sem gengið er til samninga við.
Upplýsingarnar sem um getur í fyrstu undirgrein skulu koma fram í öllum skjölum sem gefin eru út til vátryggingartaka.
Skuldbindingarnar sem eru lagðar á í fyrstu og annarri undirgrein gilda ekki um stóráhættu.
2.     Í samningi eða hverju öðru skjali sem veitir vátryggingavernd, ásamt vátryggingatilboði þar sem það er bindandi fyrir vátryggingartaka, skal heimilisfang aðalskrifstofu tilgreint, eða eftir því sem við á, útibú skaðatryggingafélagsins sem veitir vátryggingaverndina.
Aðildarríkin geta krafist þess að nafn og heimilisfang fulltrúa skaðatryggingafélags sem um getur í a- lið 2. mgr. 148. gr. birtist einnig í skjölunum sem um getur í fyrstu undirgrein þessarar málsgreinar.

2. undirþáttur
Líftryggingar
185. gr.
Upplýsingar sem veittar skulu vátryggingatökum

1.     Áður en líftryggingarsamningur er gerður skal upplýsa vátryggingataka a.m.k. um þær upplýsingar sem settar eru fram í 2. til 4. mgr.
2.     Upplýsa skal um eftirfarandi varðandi líftryggingafélagið:
a)    heiti félagsins og rekstrarform að lögum,
b)    heiti aðildarríkisins þar sem aðalskrifstofan er staðsett og, ef við á, heiti útibúsins þar sem samningurinn er gerður,
c)    heimilisfang aðalskrifstofu og, ef við á, heiti útibúsins þar sem samningurinn er gerður,
d)    raunverulega vísun í skýrslu um gjaldþol og fjárhagsleg skilyrði eins og mælt er fyrir um í 51. gr., sem veitir vátryggingartakanum aðgang að þessum upplýsingum á auðveldan hátt.
3.     Upplýsa skal um eftirfarandi að því er varðar skuldbindinguna:
a)    skilgreiningu á einstökum tryggingum og öllum valmöguleikum,
b)    samningstíma,
c)    uppsagnarskilmála,
d)    greiðslumáta iðgjalda og greiðslutíma,
e)    aðferðir við útreikning og skiptingu ágóðahlutdeildar,
f)    upplýsingar um endurkaupsverð og verðmæti gjaldfrjálsra trygginga og að hvaða marki þær eru tryggðar,
g)    upplýsingar um iðgjöld fyrir einstakar tryggingar, bæði aðaltryggingar og viðbótartryggingar, ef við á,
h)    að því er varðar líftryggingu með fjárfestingaráhættu líftryggingataka, skilgreiningu á hlutdeildarbréfum sem þessar tryggingar eru tengdar,
i)    upplýsingar um eðli þeirra eigna sem liggja til grundvallar líftryggingum með fjárfestingaráhættu líftryggingataka,
j)    skilyrði fyrir beitingu umþóttunartíma,
k)    almennar upplýsingar um skattafyrirkomulagið sem gildir um tiltekna gerð líftryggingar,
l)    ráðstafanir vegna meðferðar á kvörtunum varðandi samninga af hálfu vátryggingataka, líftryggðra eða rétthafa samkvæmt samningum, þ.m.t. ef við á, hvort til séu stofnanir sem leita má til með kvartanir með fyrirvara um rétt til að hefja málarekstur,
m)    gildandi lög um samninga ef aðilar geta ekki valið eða ef aðilar geta valið um viðeigandi löggjöf, lögin sem líftryggingafélagið leggur til að verði valin.
4.     Til viðbótar skal veita sérstakar upplýsingar í þeim tilgangi að tryggja réttan skilning á áhættu sem liggur til grundvallar samningnum sem vátryggingartaki stofnar til.
5.     Vátryggingataki skal látinn vita um allar breytingar sem verða á samningstímanum á eftirfarandi upplýsingum:
a)    tryggingaskilmálum, bæði almennum og sérstökum,
b)    heiti líftryggingafélagsins, rekstrarformi þess að lögum eða heimilisfangi aðalskrifstofu þess og, ef við á, á útibúi þar sem samningurinn er gerður,
c)    allar upplýsingar sem taldar eru upp í d- til j-lið 3. mgr. ef breytingar verða á tryggingaskilmálum eða breytingar á lögum sem gilda um samninginn,
d)    árlega skal veita upplýsingar um stöðu ágóðahlutdeildar.
Þegar vátryggjandi í tengslum við tilboð eða gerð líftryggingarsamnings gefur upp tölur sem varða upphæð hugsanlegra greiðslna umfram samningsbundnar greiðslur, skal vátryggjandi veita vátryggingartaka sýnishorn útreiknings þar sem hugsanlegur gjalddagi er settur fram til að leggja grunn að iðgjaldaútreikningi með þrenns konar mismunandi vaxtahlutfalli. Þetta skal ekki gilda að því er varðar trygginga- og samningsskilmála. Vátryggjandi skal upplýsa vátryggingartaka á skýran og auðskiljanlegan hátt um að sýnishorn útreiknings sé einungis útreikningslíkan byggt á huglægum forsendum og að vátryggingartaki geti ekki lagt fram neinar samningskröfur byggðar á sýnishorni útreiknings.
Sé um tryggingar að ræða með ágóðahluti frá endurtryggjendum skal vátryggjandinn árlega upplýsa vátryggingartakann skriflega um stöðu kröfu vátryggingartaka, þ.m.t. um ágóðahluta frá endurtryggjendum. Þegar vátryggjandi hefur lagt fram tölur um mögulega framtíðarþróun ágóðahluta frá endurtryggjendum skal vátryggjandinn upplýsa vátryggingartakann um muninn á raunverulegri þróun og upphaflegum gögnum.
6.     Upplýsingarnar sem um getur í 2. til 5. mgr. skulu lagðar fram skriflega á skýran og nákvæman hátt, á opinberu tungumáli aðildarríkisins þar sem gengist er undir skuldbindinguna.
Þó er heimilt að veita slíkar upplýsingar á öðru tungumáli að beiðni vátryggingartaka og ef lög aðildarríkisins heimila það eða ef vátryggingartaki getur valið um löggjöf.
7.     Aðildarríkið þar sem gengist er undir skuldbindinguna getur krafist þess að líftryggingafélög leggi fram upplýsingar til viðbótar við þær sem taldar eru upp í 2. til 5. mgr., en eingöngu ef það er nauðsynlegt til að vátryggingartaki geti skilið fullkomlega helstu þætti skuldbindingarinnar.
8.     Aðildarríkið þar sem gengist er undir skuldbindinguna skal ákveða ítarlegar reglur til að hrinda ákvæðum 1. til 7. mgr. í framkvæmd.

186. gr.
Uppsagnarfrestur

1.     Hvert aðildarríki skal kveða á um að vátryggingartaki, sem gerir samning um einstaklingslíftryggingu, hafi 14–30 daga frest til að falla frá samningnum frá því honum er tilkynnt um gerð hans.
Uppsagnartilkynning vátryggingartakanna leysir þá undan hvers kyns skuldbindingum sem síðar geta leitt af samningnum.
Réttaráhrif og skilyrði uppsagnar fara að öðru leyti eftir þeim lögum sem um samninginn gilda, þar á meðal um á hvern hátt vátryggingartaka verði tilkynnt að samningur hafi verið gerður.
2.     Aðildarríkjum er heimilt að beita ekki 1. mgr. í eftirfarandi tilvikum:
a)    þegar samningur er gerður til sex mánaða eða skemmri tíma,
b)    þegar vátryggingartaki þarfnast ekki þessarar sérstöku verndar vegna stöðu sinnar eða þeirra aðstæðna sem ríktu þegar samningurinn var gerður.
Ef aðildarríki notfærir sér þann valkost sem settur er fram í fyrstu undirgrein skal það tilgreina þá staðreynd í lögum sínum.

II. KAFLI
Ákvæði sem gilda sérstaklega um skaðatryggingar

1. þáttur
Almenn ákvæði
187. gr.
Tryggingaskilmálar

Almennir og sérstakir tryggingaskilmálar skulu ekki hafa að geyma nein skilyrði sem eru sett vegna sérstakra aðstæðna í einstökum tilvikum í tengslum við þá áhættu sem tryggt er gegn.

188. gr.
Afnám einokunar

Aðildarríki skulu sjá til þess að einokun sé afnumin, að því er varðar stofnun reksturs tiltekinna tryggingargreina til handa rekstraraðilum með staðfestu á yfirráðasvæði þeirra og sem um getur í 8. gr.

189. gr.
Þátttaka í innlendum ábyrgðarkerfum

Gistiaðildarríki geta krafist þess að skaðatryggingafélög verði aðilar að og taki þátt í kerfi sem er ætlað að tryggja greiðslu tryggingakrafna til handa þeim tryggðu og tjónþola sem er þriðji aðili með sömu skilmálum og viðurkennt skaðatryggingafélag á þeirra svæði.

2. þáttur
Samtryggingar í Bandalaginu
190. gr.
Samtryggingastarfsemi innan Bandalagsins

1.     Þessi þáttur gildir um þá samtryggingastarfsemi innan Bandalagsins sem tengist einni eða fleiri áhættum í flokkum 3 til 16 í A. hluta I. viðauka og sem uppfylla eftirfarandi skilyrði:
a)    áhættan er stóráhætta,
b)    áhættan fellur undir einn samning með heildariðgjaldi og fyrir sama tímabil hjá tveimur eða fleiri vátryggingafélögum, sem hver um sig er samvátryggjandi, þar af er einn af þeim aðalvátryggingafélag,
c)    áhættan er staðsett í Bandalaginu,
d)    að því er varðar tryggingavernd er farið með aðalvátryggingafélagið líkt og það væri vátryggingafélagið sem gengst undir alla áhættuna,
e)    að minnsta kosti einn af samvátryggjendunum tekur þátt í samningnum í gegnum aðalskrifstofu eða útibú sem var komið á fót í öðru aðildarríki en því þar sem aðalvátryggingafélag er,
f)    aðalvátryggingafélagið fylgir til fullnustu aðalhlutverki í samtryggingum og ákveður einkum skilmála og skilyrði trygginga og taxta.
2.     Ákvæði 147. til 152. gr. eiga einungis við um aðalvátryggingafélag.
3.     Samtryggingastarfsemi sem uppfyllir ekki skilyrðin sem eru sett fram í 1. mgr. skal áfram heyra undir ákvæði þessarar tilskipunar, að undanskildum ákvæðum þessa þáttar.

191. gr.
Þátttaka í samtryggingum Bandalagsins

Réttur vátryggingafélaga til að taka þátt í samtryggingum Bandalagsins skal ekki vera háður öðrum ákvæðum en þeim sem eru í þessum þætti.

192. gr.
Tryggingaskuld

Fjárhæð tryggingaskulda skal ákvörðuð af mismunandi samvátryggjendum samkvæmt þeim reglum sem gilda í þeirra heimaaðildarríki eða, sé ekki um slíkar reglur að ræða, samkvæmt viðteknum venjum í því ríki.
Tryggingaskuld skal þó að lágmarki vera sú sama og aðalvátryggjandi ákveður samkvæmt reglum heimaaðildarríkis síns.

193. gr.
Tölfræðileg gögn

Heimaaðildarríki skulu tryggja að samvátryggjendur haldi utan um tölfræðileg gögn er sýna umfang samtryggingarstarfsemi Bandalagsins sem þau taka þátt í og hlutaðeigandi aðildarríki.

194. gr.
Meðferð samtryggingasamninga við slitameðferð

Komi til slita vátryggingafélags verða skuldbindingar sem leiða af þátttöku í samtryggingasamningum Bandalagsins gerðar upp á sama hátt og þær sem eiga rætur að rekja til annarra vátryggingasamninga þess félags burtséð frá þjóðerni þess vátryggða og rétthafa.

195. gr.
Upplýsingaskipti milli eftirlitsyfirvalda

Eftirlitsyfirvöld í aðildarríkjunum skulu , að því er varðar framkvæmd þessa þáttar, veita hvert öðru allar nauðsynlegar upplýsingar, innan samstarfsrammans sem um getur í 5. þætti, IV. kafla, I. bálks.

196. gr.
Samvinna um framkvæmd

Framkvæmdastjórnin og eftirlitsyfirvöld aðildarríkjanna skulu hafa með sér náið samstarf í þeim tilgangi að rannsaka vandkvæði sem upp geta komið við framkvæmd þessa þáttar.
Sem liður í þeirri samvinnu skal sérstaklega athuga einstök atriði sem gætu bent til þess að aðalvátryggingafélagið gegni ekki því hlutverki sínu sem leiðandi aðili í samtryggingum eða að áhættan sem gengist er við þarfnist ekki þátttöku tveggja eða fleiri vátryggjenda til að bera hana.

3. þáttur
Aðstoð
197. gr.
Starfsemi sem er sambærileg við aðstoð við ferðamenn

Aðildarríki geta kveðið á um aðstoð til handa einstaklingum sem lenda í erfiðleikum í annars konar aðstæðum en um getur í 2. mgr. 2. gr. sem fellur undir þessa tilskipun.
Grípi aðildarríki til slíkra ákvæða skal farið með slíka starfsemi líkt og hún væri flokkuð í 18. flokk í A. hluta I. viðauka.
Önnur málsgrein skal á engan hátt hafa áhrif á flokkunarmöguleikana sem mælt er fyrir um í I. viðauka vegna starfsemi sem greinilega tilheyrir öðrum flokkum.

4. þáttur
Vátryggingar í tengslum við málsvarnarkostnað
198. gr.
Gildissvið þessa þáttar

1.     Þessi þáttur skal gilda um tryggingar í tengslum við málsvarnarkostnað sem um getur í 17. flokki í A. hluta I. viðauka en samkvæmt honum heitir vátryggingafélag, gegn greiðslu iðgjalds, að bera kostnað vegna málareksturs og veita aðra þjónustu sem tengist beint tryggingavernd, einkum með eftirfarandi í huga:
a)    að tryggja bætur vegna skaða, tjóns eða áverka sem hinn tryggði verður fyrir, með uppgjöri utan dómstóla eða við meðferð einkamáls eða sakamáls,
b)    að verja eða vera fulltrúi hins tryggða í einkamálum, sakamálum, stjórnsýslumálum eða í öðrum málarekstri, eða vegna hvaða annarrar kröfu sem er gerð á hendur þeim aðila.
2.     Þessi þáttur skal hins vegar ekki gilda um eftirfarandi:
a)    málsvarnarkostnaðarvátryggingu þar sem slík trygging varðar ágreining eða áhættu sem upp er komin vegna, eða í tengslum við, notkun hafskipa,
b)    starfsemi vátryggingafélags sem veitir einkaréttarábyrgð í þeim tilgangi að verja eða koma fram fyrir hönd hins tryggða í hvaða rannsókn eða málshöfðun sem er, þar sem sú starfsemi er á sama tíma rekin í þágu viðkomandi vátryggingafélags,
c)    þar sem aðildarríki ákveður svo, starfsemi málsvarnarkostnaðartryggingarfélags sem aðstoðarvátryggjandi ábyrgist, og uppfyllir eftirfarandi skilyrði:
    i.    starfsemin er rekin í öðru aðildarríki en þar sem hinn vátryggði hefur fasta búsetu,
    ii.    starfsemin myndar hluta samnings sem nær eingöngu til aðstoðarinnar sem veitt er einstaklingum sem rata í vandræði á ferðalögum, að heiman eða annars staðar en þar sem þeir eiga fasta búsetu.
Að því er varðar c-lið fyrstu undirgreinar skal í samningnum tilgreint á skýran hátt að viðkomandi tryggingarvernd sé takmörkuð við aðstæður sem um getur í þeim lið og sé til viðbótar við aðstoðina.

199. gr.
Aðgreindir samningar

Tryggingarvernd í tengslum við málsvarnarkostnað skal vera viðfangsefni samnings, sem er aðskilinn frá þeim sem eru útbúnir fyrir aðra tryggingaflokka eða sem eru meðhöndlaðir í aðgreindum hluta staks vátryggingarskírteinis þar sem tegund tryggingar í tengslum við málsvarnarkostnað er tilgreind og óski aðildarríki eftir því, þar sem fjárhæð viðeigandi iðgjalds er tilgreind.

200. gr.
Meðferð krafna

1.     Heimaaðildarríkið skal sjá til þess að vátryggingafélögin samþykki, í samræmi við þann valkost sem aðildarríkið velur, eða að eigin vali, þar sem aðildarríkið samþykkir svo, að lágmarki eina af aðferðunum fyrir meðferð krafna sem settar voru fram í liðum 2, 3 og 4.
Óháð því hvaða lausn er samþykkt, skal vernda hagsmuni einstaklinga sem tryggðir eru gegn málsvarnarkostnaði á sambærilegan hátt í þessum þætti.
2.     Vátryggingafélög skulu sjá til þess að ekkert af starfsfólki sem kemur að meðferð krafna í tengslum við málsvarnarkostnað eða lögfræðiráðgjöf reki á sama tíma sambærilega starfsemi í öðru félagi sem tengist fjárhagslega, viðskiptalega eða stjórnunarlega fyrsta vátryggingafélaginu og nái yfir einn eða fleiri af öðrum vátryggingaflokkum sem settir eru fram í I. viðauka.
Samsett vátryggingafélög skulu sjá til þess að ekkert af starfsfólki sem kemur að meðferð krafna í tengslum við málsvarnarkostnað eða lögfræðiráðgjöf reki á sama tíma sambærilega starfsemi fyrir annan flokk sem þau annast viðskipti með.
3.     Vátryggingafélagið skal fela félagi með aðskilda lögformlega stöðu meðferð krafna að því er varðar tryggingar í tengslum við málsvarnarkostnað. Kveðið skal á um það félag í aðskildum samningi eða aðskildum þætti sem um getur í 199. gr.
Þegar félagið hefur aðskilda lögformlega stöðu, og tengist vátryggingafélagi sem hefur einn eða fleiri vátryggingaflokka sem um getur í A. hluta I. viðauka, skal starfsfólk félagsins með aðskilda lögformlega stöðu sem kemur að meðferð krafna, eða lögfræðiráðgjöf í tengslum við slíka meðferð, ekki reka sömu eða sambærilega starfsemi í hinu vátryggingafélaginu á sama tíma. Aðildarríkin geta lagt sömu kröfur á aðila stjórnar, framkvæmdastjórnar eða eftirlitsstjórnar.
4.     Í samningnum skal kveðið á um að þeir tryggðu geti falið lögfræðingi að eigin vali að verja hagsmuni sína eða, að því marki sem landslög heimila, annan til þess hæfan einstakling, frá þeirri stund sem þeir tryggðu eiga kröfu samkvæmt þeim samningi.

201. gr.
Frjálst val á lögfræðingi

1.     Í sérhverjum vátryggingarsamningi í tengslum við málsvarnarkostnað skal kveðið skýrt á um:
a)    að þegar leitað er aðstoðar lögmanns eða annars sem hæfur telst samkvæmt landslögum að verja vátryggðan, reka erindi hans eða gæta hagsmuna við málsrannsókn eða málshöfðun, skuli vátryggðum frjálst að velja sér lögmann eða þann mann annan sem telst hæfur,
b)    að vátryggðum sé frjálst að velja sér lögmann, eða ef þeir óski eftir því, annan hæfan mann, að því marki sem landslög leyfa, til þess að gæta hagsmuna þeirra hvenær sem hagsmunaárekstrar koma upp.
2.     „Lögmaður“ er í þessum þætti hvaða einstaklingur sem hefur rétt til að stunda atvinnustarfsemi samkvæmt einhverju þeirra heita sem tilgreind eru í tilskipun ráðsins 77/249/EBE frá 22. mars 1977 um að auðvelda lögmönnum að neyta réttar til að veita þjónustu ( 1 ).

202. gr.
Undanþága frá reglunni um frjálst val á lögfræðingi

1.     Aðildarríki geta veitt undanþágu frá 1. mgr. 201. gr. vegna tryggingar í tengslum við málsvarnarkostnað að öllum eftirfarandi skilyrðum uppfylltum:
a)    að tryggingin sé takmörkuð við tilvik sem leiða af notkun ökutækja innan yfirráðasvæðis hlutaðeigandi aðildarríkis,
b)    að tryggingin tengist samningi um veitingu aðstoðar ef slys ber að höndum eða bilun á ökutæki á sér stað,
c)    að hvorki vátryggingafélag vegna málsvarnarkostnaðar né vátryggjandi vegna aðstoðar veita einhverja tegund ábyrgðartryggingar,
d)    að ráðstafanir verði gerðar til að óháðir lögfræðingar og fulltrúar sérhvers aðila annist lögfræðilega ráðgjöf vegna ágreinings, þar sem þessir aðilar eru tryggðir vegna málsvarnarkostnaðar af sama vátryggingafélaginu.
2.     Undanþága sem veitt er skv. 1. undirgrein skal ekki hafa áhrif á beitingu 200. gr.

203. gr.
Gerðardómur

Aðildarríki skulu kveða á um gerðardóm eða aðrar aðferðir sem veita sambærilegar ábyrgðir um hlutlægni til lausnar deilumála á milli vátryggingafélags vegna málsvarnarkostnaðar og þess tryggða, og með fyrirvara um rétt til áfrýjunar til dómsaðila sem landslög kveða á um.
Vátryggingarsamningurinn skal kveða á um rétt hins tryggða til endurkröfu við slíka málsmeðferð.

204. gr.
Hagsmunaárekstrar

Komi til hagsmunaárekstra eða ágreinings vegna lausnar deilumála skal vátryggjandi málsvarnarkostnaðar, eða eftir því sem við á skrifstofan sem sér um uppgjör bótakrafna, upplýsa hinn tryggða um þann rétt sem um getur í 1. mgr. 201. gr. og um möguleikann á endurkröfurétti vegna málsmeðferðarinnar sem um getur í 203. gr.

205. gr.
Afnám kröfu um sérhæfingu tryggingar í tengslum við málsvarnarkostnað

Aðildarríki skulu fella niður öll ákvæði sem banna vátryggingafélagi að reka samtímis vátryggingar í tengslum við málsvarnarkostnað og aðra vátryggingaflokka innan þeirra yfirráðasvæðis.

5. þáttur
Sjúkratryggingar
206. gr.
Sjúkratryggingar sem valkostur við almannatryggingar

1.     Aðildarríkjum er heimilt að krefjast þess, þar sem samningar sem tryggja gegn áhættu samkvæmt 2. flokki í A. hluta I. viðauka geta að einhverju eða öllu leyti komið í stað sjúkratrygginga sem almannatryggingakerfin bjóða:
a)    að þessir samningar hlíti sérstökum lagaákvæðum sem samþykkt eru í því aðildarríki til að vernda almenna hagsmuni í viðkomandi vátryggingaflokki,
b)    að hinum almennu og sérstöku skilyrðum þessarar vátryggingar sé komið á framfæri við eftirlitsyfirvöld í því aðildarríki áður en þeir eru teknir í notkun.
2.     Aðildarríki geta krafist þess að sjúkratryggingakerfið sem um getur í 1. mgr. sé starfrækt á tæknilegum grunni, á sambærilegan hátt og við líftryggingar þar sem uppfylla þarf öll eftirfarandi skilyrði:
a)    greidd iðgjöld eru reiknuð á grundvelli sjúkrataflna og annarra tölfræðilegra gagna er varða aðildarríkið þar sem áhættan er staðsett, í samræmi við stærðfræðilegar aðferðir sem eru notaðar í vátryggingum,
b)    varasjóði er komið upp vegna hækkandi aldurs,
c)    vátryggjandinn getur einungis sagt samningnum upp innan ákveðins tímabils sem er ákvarðað af aðildarríkinu þar sem áhættan er staðsett,
d)    samningurinn gerir ráð fyrir að hækka megi iðgjöld eða lækka bætur, jafnvel þegar um er að ræða gildandi samninga,
e)    samningurinn kveður á um að vátryggingatakar geti breytt núverandi samningi í nýjan samning sem er í samræmi við ákvæði 1. mgr., sem sama vátryggingarfélag, eða útibú býður og að teknu tilliti til áunninna réttinda þeirra.
Í því tilviki sem um getur í fyrstu undirgrein e-liðar, skal taka tillit til sjóðs vegna hækkandi aldurs og eingöngu er heimilt að gera kröfu um nýja læknisskoðun þegar um er að ræða aukna tryggingu.
Eftirlitsyfirvöld hlutaðeigandi aðildarríkis skulu birta sjúkratöflur og önnur tölfræðileg gögn sem skipta máli, sem um getur í a-lið fyrstu undirgreinar og senda þau til eftirlitsyfirvalda heimaaðildarríkis.
Iðgjöld skulu fullnægjandi, samkvæmt skynsamlegum tryggingafræðilegum forsendum, svo að vátryggingafélög geti staðið við allar skuldbindingar sínar með hliðsjón af öllum þáttum í fjárhagsstöðu þeirra. Heimaaðildarríkið skal krefjast tæknilegs grundvallar vegna útreiknings á iðgjöldum sem tilkynna á til eftirlitsyfirvalda áður en trygging er sett á markað.
Þriðji og fjórði undirliður skulu einnig gilda þegar núverandi samningum er breytt.

6. þáttur
Atvinnuslysatrygging
207. gr.
Lögbundin atvinnuslysatrygging

Aðildarríkjum er heimilt að krefjast þess að öll vátryggingafélög sem á eigin ábyrgð bjóða lögbundnar atvinnuslysatryggingar á yfirráðastæðum sínum hlíti sértækum ákvæðum í landslögum um slíkar tryggingar, nema þegar um er að ræða ákvæði er varða fjárhagslegt eftirlit, sem er eingöngu á ábyrgð heimaaðildarríkis.

III. KAFLI
Ákvæði sem gilda sérstaklega um líftryggingar

208. gr.
Bann við kröfu um að félög endurtryggi hluta af starfsemi sinni

Aðildarríkin skulu ekki gera kröfu um að líftryggingafélög endurtryggi hluta af starfsemi sinni, skv. 3. mgr. 2. gr., hjá samtökum, einum eða fleiri, sem tilnefnd eru samkvæmt landslögum.

209. gr.
Iðgjöld fyrir nýja starfsemi

Iðgjöld fyrir nýja starfsemi skulu nægja, samkvæmt skynsamlegu tryggingafræðilegu mati, til að tryggt sé að líftryggingafélagið geti staðið við allar skuldbindingar sínar, þ.m.t. myndun fullnægjandi líftryggingaskuldar.
Í þessu skyni skal taka til greina fjárhagsstöðu líftryggingafélagsins frá öllum hliðum, þó skal þess gætt að telja ekki kerfisbundið og stöðugt með aðrar greiðslur en iðgjöld og tekjur af þeim þannig að það geti stofnað gjaldþoli félagsins í hættu til lengri tíma litið.

IV. KAFLI
Reglur sem gilda sérstaklega um endurtryggingar

210. gr.
Takmarkaðar endurtryggingar

1.     Aðildarríki skulu sjá til þess að vátrygginga- og endurtryggingafélög sem gera takmarkaða endurtryggingasamninga eða reka takmarkaða endurtryggingarstarfsemi séu fær um að greina, mæla, vakta, stjórna, stýra og tilgreina á tilhlýðilegan hátt áhættu sem leiðir af þessum samningum eða starfsemi.
2.     Til að tryggja að samhæfð nálgun sé samþykkt að því er varðar takmarkaða endurtryggingarstarfsemi getur framkvæmdastjórnin samþykkt framkvæmdarráðstafanir sem tilgreina ákvæði 1. mgr., með tilliti til vöktunar, stjórnunar og stýringar áhættu sem leiðir af takmarkaðri endurtryggingastarfsemi.
Samþykkja skal þessar ráðstafanir, sem er ætlað að breyta veigalitlum þáttum þessarar reglugerðar m.a. með því að bæta við hana, í samræmi við reglunefndarmeðferð með grannskoðun sem um getur í 3. mgr. 301. gr.
3.     Í 1. og 2. mgr. merkir takmörkuð endurtrygging: endurtrygging þar sem beint mögulegt hámarkstap, mælt sem yfirfærð fjárhagsleg hámarksáhætta, sem leiðir af yfirfærslu verulegrar vátryggingaráhættu er tengist bæði vátryggingaratburði og tímasetningu yfirfærslu áhættu, er hærra en iðgjaldið á gildistíma samningsins sem svarar til takmarkaðrar en þó verulegrar fjárhæðar, ásamt a.m.k. einu eftirfarandi atriða:
a)    skýru og efnislegu mati á tímavirði peninga,
b)    samningsbundnum ákvæðum um að ná, til lengri tíma litið, jafnvægi í fjárhagslegri reynslu aðilanna við að ná þeirri yfirfærslu á áhættu sem stefnt er að.

211. gr.
Félög með sérstakan tilgang

1.     Aðildarríki skulu heimila að félög með sérstakan tilgang séu stofnuð á yfirráðasvæði sínu, með fyrirvara um fyrirframsamþykki eftirlitsaðila.
2.     Til að tryggja samhæfða nálgun að því er varðar félög með sérstakan tilgang skal framkvæmdastjórnin samþykkja framkvæmdarráðstafanir sem ákvarða eftirfarandi:
a)    gildissvið starfsleyfis,
b)    lögboðin skilyrði sem skulu vera í öllum útgefnum samningum,
c)    kröfur sem um getur í 42. gr. um hæfni og heiðvirði þeirra sem reka félög með sérstakan tilgang,
d)    hæfilegar og viðeigandi kröfur fyrir hluthafa eða aðila með virka eignarhlutdeild í félagi með sérstakan tilgang,
e)    traustar stjórnunar- og bókhaldsaðferðir, fullnægjandi innra eftirlitskerfi og kröfur um áhættustýringu,
f)    kröfur um reikningsskil, varfærnisupplýsingar og tölfræðilegar upplýsingar,
g)    gjaldþolskröfur.
Samþykkja skal þessar ráðstafanir, sem er ætlað að breyta veigalitlum þáttum þessarar reglugerðar m.a. með því að auka við hana, í samræmi við reglunefndarmeðferð með grannskoðun sem um getur í 3. mgr. 301. gr.
3.     Félög með sérstakan tilgang sem fá starfsleyfi fyrir 31. október 2012 skulu falla undir löggjöfina í því aðildarríki sem hefur heimilað félag með sérstakan tilgang. Samt sem áður skal hvaða starfsemi sem hefst hjá slíku félagi með sérstakan tilgang eftir þá dagsetningu falla undir ákvæði 1. og 2. mgr.

III. BÁLKUR
EFTIRLIT MEÐ VÁTRYGGINGAFÉLÖGUM, Þ.M.T. ENDURTRYGGINGAFÉLÖGUM, Í SAMSTÆÐU
I. KAFLI
Samstæðueftirlit: skilgreiningar, dæmi um beitingu, gildissvið og stig
1. þáttur
Skilgreiningar
212. gr.
Skilgreiningar

1.     Í þessum bálki gilda eftirfarandi skilgreiningar:
a)    „hluteignarfélag“: félag sem er annaðhvort móðurfélag eða annað félag sem á hlutdeild í öðru félagi eða félag sem hefur tengsl við annað félag í skilningi 1. mgr. 12. gr. tilskipunar 83/ 349/EBE,
b)    „tengt félag“: annaðhvort dótturfélag eða annað félag sem önnur félög eiga hlutdeild í eða félag með tengsl við annað félag í skilningi 1. mgr. 12. gr. tilskipunar 83/349/EBE,
c)    „samstæða“: fyrirtækjasamstæða sem:
    i.    í eru hluteignarfélag, dótturfélög þess og aðilar sem hluteignarfélagið eða dótturfélögin eiga hlutdeild í og einnig félög sem tengjast hvert öðru með tengslum sem um getur í 1. mgr. 12. gr. tilskipunar 83/349/EBE eða
    ii.    grundvallast á sterkum og sjálfbærum fjárhagslegum tengslum með samningi eða á annan hátt á meðal þessara fyrirtækja og getur falið í sér gagnkvæm félög eða félög hliðstæðrar gerðar, að því tilskildu að:
         –    eitt þessara félaga hafi í reynd í hendi sér, með miðlægri samræmingu, ráðandi áhrif yfir ákvörðunum, þ.m.t. fjárhagslegum ákvörðunum, hinna félaganna sem eru hluti samstæðunnar og
         –    að stofnun og slit slíkra tengsla að því er varðar þennan bálk séu með fyrirvara um fyrirframsamþykki eftirlitsaðila samstæðu,
        þar sem félagið sem beitir miðlægri samræmingu skal teljast móðurfélagið og hin félögin skulu teljast dótturfélög,
d)    „eftirlitsaðili samstæðu“: ábyrgt eftirlitsyfirvald með eftirliti samstæðu, ákvarðað í samræmi við 247. gr.,
e)    „samstarfshópur eftirlitsaðila“: varanlegt en sveigjanlegt skipulag fyrir samvinnu og samræmingu á meðal eftirlitsyfirvalda hlutaðeigandi aðildarríkis,
f)    „eignarhaldsfélag á vátryggingasviði“: móðurfélag sem er ekki blandað eignarhaldsfélag á fjármálasviði í skilningi tilskipunar 2002/87/EB og aðalstarfsemi þess er að yfirtaka og eiga hlutdeild í dótturfélögum, þar sem þessi dótturfélög eru eingöngu eða aðallega vátrygginga- eða endurtryggingafélög, eða vátrygginga- eða endurtryggingafélög í þriðja landi, þar sem að lágmarki eitt af slíkum dótturfélögum er vátrygginga- eða endurtryggingafélag,
g)    „blandað eignarhaldsfélag á vátryggingasviði“: móðurfélag sem er ekki vátryggingafélag, vátryggingafélag í þriðja landi, endurtryggingafélag, endurtryggingafélag í þriðja landi, eignarhaldsfélag á vátryggingasviði eða blandað eignarhaldsfélag á fjármálasviði í skilningi tilskipunar 2002/87/EB þar sem a.m.k. eitt dótturfélaganna er vátryggingafélag eða endurtryggingafélag.
2.     Að því er varðar þennan bálk skulu eftirlitsyfirvöld einnig telja hvaða félag móðurfélag, sem að þeirra mati beitir á skilvirkan hátt ráðandi áhrifum yfir öðru félagi.
Þau skulu einnig líta á félag sem dótturfélag þar sem móðurfélag, að mati eftirlitsyfirvalda, beitir í reynd ráðandi áhrifum.
Þau skulu einnig líta á eignarhlutdeild, sem með beinum eða óbeinum hætti býr yfir atkvæðisrétti eða hlutafé í félagi, sem hlutdeild þar sem að mati eftirlitsyfirvalda er verulegum áhrifum beitt í reynd.

2. þáttur
Dæmi um beitingu og gildissvið
213. gr.
Dæmi um beitingu samstæðueftirlits

1.     Aðildarríki skulu, í samræmi við þennan bálk, kveða á um eftirlit á samstæðustigi með vátrygginga- og endurtryggingafélögum sem eru hluti samstæðu.
Ákvæði þessarar tilskipunar sem mæla fyrir um reglur vegna eftirlits með einstökum vátrygginga- og endurtryggingafélögum skulu gilda áfram um slík félög, nema kveðið sé sérstaklega á um annað samkvæmt þessum bálki.
2.     Aðildarríki skulu sjá til þess að eftirlit á samstæðustigi eigi við eftirfarandi:
a)    um vátrygginga- eða endurtryggingafélög sem eru hluteignarfélög í a.m.k. einu vátryggingafélagi, endurtryggingafélagi, vátryggingafélagi í þriðja landi eða endurtryggingafélagi í þriðja landi, í samræmi við 218.–258. gr.,
b)    um vátrygginga- eða endurtryggingafélög þar sem móðurfélagið er eignarhaldsfélag á vátryggingasviði sem hefur aðalskrifstofu í Bandalaginu, í samræmi við 218.–258. gr.,
c)    vátrygginga- eða endurtryggingafélög þar sem móðurfélagið er eignarhaldsfélag á vátryggingasviði sem hefur aðalskrifstofu í Bandalaginu eða vátrygginga- eða endurtryggingafélag í þriðja landi, í samræmi við 260.–263. gr.,
d)    vátrygginga- eða endurtryggingafélög þar sem móðurfélagið er eignarhaldsfélag á vátryggingasviði sem er með blandaða starfsemi, í samræmi við 265. gr.
3.     Í þeim tilvikum sem um getur í a- og b-lið 2. mgr., þar sem hluteignarfélag á trygginga- eða endurtryggingasviði eða eignarhaldsfélag á vátryggingasviði sem er með aðalskrifstofu sína í Bandalaginu er fyrirtæki tengt eftirlitsskyldum aðila eða blönduðu eignarhaldsfélagi á fjármálasviði sem fellur undir viðbótareftirlit í samræmi við 2. mgr. 5. gr. tilskipunar 2002/87/EB, er eftirlitsaðila samstæðu heimilt, að höfðu samráði við önnur hlutaðeigandi eftirlitsyfirvöld, að ákveða að viðhafa ekki eftirlit með áhættusamþjöppun á stigi hluteignarfélags á tryggingafélags- eða endurtryggingasviði eða eignarhaldsfélags á fjármálasviði sem um getur í 244. gr. þessarar tilskipunar, eftirlit með viðskiptum innan samstæðu sem um getur í 245. gr. þessarar tilskipunar eða hvoru tveggja.

214. gr.
Umfang samstæðueftirlits

1.     Framkvæmd eftirlits með samstæðu í samræmi við ákvæði 213. gr. gerir ekki þá kröfu á hendur eftirlitsyfirvöldum að þau takist á hendur eftirlit í tengslum við vátryggingafélag í þriðja landi, endurtryggingafélag í þriðja landi, eignarhaldsfélag á vátryggingasviði eða eignarhaldsfélag á vátryggingasviði sem er með blandaða starfsemi, með fyrirvara um ákvæði 257. gr. að því er varðar eignarhaldsfélög á vátryggingasviði.
2.     Eftirlitsaðili samstæðu getur ákveðið í hverju tilviki fyrir sig að telja ekki félag með í samstæðueftirliti sem um getur í 213. gr. þegar:
a)    félagið er staðsett í þriðja landi þar sem eru lagalegar hömlur á flutningi nauðsynlegra upplýsinga, með fyrirvara um ákvæði 229. gr.,
b)    félagið, sem taka ber með, hefur litla þýðingu sé tekið mið af markmiðum samstæðueftirlitsins eða
c)    óviðeigandi eða villandi væri að telja félagið með, m.t.t. markmiðanna um samstæðueftirlit.
Ef undanskilja á mörg félög í sömu samstæðu, hvert fyrir sig, skv. b-lið fyrstu undirgreinar, verður þó að taka þau með ef áhrif þeirra samanlagt eru ekki óveruleg.
Sé eftirlitsaðili samstæðu þeirrar skoðunar að ekki eigi að taka vátryggingafélag eða endurtryggingafélag með í samstæðueftirliti samkvæmt b- eða c-lið fyrstu undirgreinar, skal hann hafa samráð við önnur hlutaðeigandi eftirlitsyfirvöld áður en ákvörðunin er tekin.
Taki eftirlitsaðili samstæðu ekki vátryggingafélag eða endurtryggingafélag með í samstæðueftirliti samkvæmt b- eða c-lið fyrstu undirgreinar, geta eftirlitsyfirvöld í aðildarríkinu þar sem viðkomandi félag er staðsett beðið félagið sem er í forsvari fyrir samstæðuna um allar upplýsingar sem geta greitt fyrir eftirliti hlutaðeigandi vátryggingafélags eða endurtryggingafélags.

3. þáttur
Stig
215. gr.
Endanlegt móðurfélag innan Bandalagsins

1.     Þar sem hluteignarfélag á trygginga- eða endurtryggingasviði eða eignarhaldsfélag á vátryggingasviði sem um getur í a- og b-lið 2. mgr. 213. gr. er sjálft dótturfélag annars vátrygginga- eða endurtryggingafélags eða annars eignarhaldsfélags á vátryggingasviði sem hefur aðalskrifstofu sína í Bandalaginu, skulu 218.–258. gr. einungis gilda gagnvart endanlegu móðurtryggingafélagi eða endurtryggingafélagi eða eignarhaldsfélagi á vátryggingasviði sem hefur aðalskrifstofu í Bandalaginu.
2.     Þar sem endanlegt móðurtryggingafélag eða endurtryggingafélag eða eignarhaldsfélag á vátryggingasviði sem er með aðalskrifstofu í Bandalaginu, sem um getur í 1. mgr., er dótturfélag félags sem fellur undir viðbótareftirlit í samræmi við 2. mgr. 5. gr. tilskipunar 2002/87/EB, er eftirlitsaðila samstæðu heimilt, að höfðu samráði við önnur hlutaðeigandi eftirlitsyfirvöld, að ákveða að viðhafa ekki eftirlit með áhættusamþjöppun á stigi endanlegs móðurtryggingafélags sem um getur í 244. gr., eftirlit með viðskiptum innan samstæðu sem um getur í 245. gr. eða hvoru tveggja.

216. gr.
Endanlegt móðurfélag á landsvísu

1.     Þar sem hluteignarfélag á vátrygginga- eða endurtryggingasviði eða eignarhaldsfélag á vátryggingasviði sem hefur aðalskrifstofu í Bandalaginu, sem um getur í a- og b-lið 2. mgr. 213. gr., hefur ekki aðalskrifstofu í sama aðildarríki og endanlegt móðurfélag innan Bandalagsins sem um getur í 215. gr. geta aðildarríki heimilað eftirlitsyfirvöldum að ákvarða, að höfðu samráði við eftirlitsaðila samstæðu og endanlegt móðurfélag innan Bandalagsins, að nota samstæðueftirlit vegna endanlegs móðurtryggingafélags eða endurtryggingafélags eða eignarhaldsfélags á vátryggingasviði á landsvísu.
Í slíku tilfelli skal eftirlitsyfirvald útskýra ákvörðun sína gagnvart bæði eftirlitsaðila samstæðu og endanlegu móðurfélagi innan Bandalagsins.
Ákvæðum 218.–258. gr. skal beita að breyttu breytanda, með fyrirvara um ákvæði sem sett eru fram í 2.–6. mgr.
2.     Eftirlitsyfirvald getur takmarkað samstæðueftirlit endanlegs móðurfélags á landsvísu við einn eða nokkra þætti II. kafla.
3.     Þegar eftirlitsyfirvald ákveður að láta 1. þátt, II. kafla gilda um endanlegt móðurfélag á landsvísu, skal líta á val aðferðarinnar sem ákvarðandi af eftirlitsaðila samstæðu í samræmi við 220. gr. að því er varðar endanlegt móðurfélag á landsvísu sem um getur í 215. gr. og skal henni beitt af eftirlitsyfirvaldi í hlutaðeigandi aðildarríki.
4.     Þegar eftirlitsyfirvald ákveður að láta 1. þátt, II. kafla gilda um endanlegt móðurfélag á landsvísu og þar sem endanlegt móðurfélag á landsvísu, sem um getur í 215. gr., hefur fengið leyfi innan Bandalagsins í samræmi við 231. gr. eða 5. mgr. 233. gr. til að reikna gjaldþolskröfu samstæðu, sem og gjaldþolskröfu vátrygginga- og endurtryggingafélaga í samstæðunni, á grunni innra líkans, skal ákvörðunin viðurkennd sem ákvarðandi og skal beita henni af eftirlitsyfirvaldi í hlutaðeigandi aðildarríki.
Í slíkum aðstæðum, þar sem eftirlitsyfirvaldið telur áhættusnið endanlegs móðurfélags á landsvísu víkja marktækt frá samþykktu innra líkani innan Bandalagsins, og svo lengi sem það félag tekst ekki á við áhyggjur eftirlitsyfirvalds á viðeigandi hátt, getur það eftirlitsyfirvald ákveðið að leggja viðbótargjaldþolskröfu á gjaldþolskröfu samstæðu þess félags sem er reiknað á grunni gildandi líkans, eða í undantekningartilvikum, þar sem slík viðbótargjaldþolskrafa væri ekki viðeigandi, að krefja félagið um útreikning gjaldþolskröfu samstæðunnar á grunni hefðbundinnar formúlu.
Eftirlitsyfirvald skal útskýra slíkar ákvarðanir bæði gagnvart félaginu og eftirlitsaðila samstæðunnar.
5.     Þegar eftirlitsyfirvald ákveður að láta 1. þátt, II. kafla gilda um endanlegt móðurfélag á landsvísu skal félaginu ekki heimilt, í samræmi við ákvæði 236. gr. eða 243. gr. að sækja um leyfi til að beita ákvæðum 238. gr. og 239. gr. á neitt af dótturfélögum sínum.
6.     Þegar aðildarríki leyfa eftirlitsyfirvöldum sínum að taka þá ákvörðun sem um getur í 1. mgr. skulu þau sjá til þess að ekki sé hægt að taka eða viðhalda neinni slíkri ákvörðun þegar endanlegt móðurfélag á landsvísu er dótturfélag þess endanlega móðurfélags innan Bandalagsins sem um getur í 215. gr. og hið síðara hefur í samræmi við 237. gr. eða 243. gr. hlotið heimild til að 238. gr. og 239. gr. gildi um það dótturfélag.
7.     Framkvæmdastjórnin getur samþykkt framkvæmdarráðstafanir sem tilgreina við hvaða kringumstæður er hægt að taka ákvörðunina sem um getur í 1. mgr.
Þessar ráðstafanir, sem er ætlað að breyta veigalitlum þáttum þessarar tilskipunar með því að auka við hana, skulu samþykktar í samræmi við reglunefndarmeðferð með grannskoðun sem um getur í 3. mgr. 301. gr.

217. gr.
Móðurfélag sem nær til nokkurra aðildarríkja

1.     Þegar aðildarríki leyfa eftirlitsyfirvöldum sínum að taka þá ákvörðun sem um getur í 216. gr. eiga þau einnig að leyfa þeim að ákvarða um gerð samnings við eftirlitsyfirvöld í öðrum aðildarríkjum þar sem annað tengt endanlegt móðurfélag á landsvísu er fyrir hendi, í því skyni að framkvæma samstæðueftirlit á stigi undirhóps sem nær til nokkurra aðildarríkja.
Þegar viðkomandi eftirlitsyfirvöld hafa gert samning eins og um getur í fyrstu undirgrein, skal ekki viðhafa samstæðueftirlit á stigi neins endanlegs móðurfélags sem um getur í 216. gr. sem er í öðrum aðildarríkjum en því aðildarríki þar sem undirhópurinn sem um getur í fyrstu undirgrein þessarar málsgreinar er staðsettur.
2.     Ákvæði 2.–6. mgr. 216. gr. gilda að breyttu breytanda.
3.     Framkvæmdastjórnin getur samþykkt framkvæmdarráðstafanir sem tilgreina undir hvaða kringumstæðum er hægt að taka ákvörðunina sem um getur í 1. mgr.
Þessar ráðstafanir, sem er ætlað að breyta veigalitlum þáttum þessarar tilskipunar með því að auka við hana, skulu samþykktar í samræmi við reglunefndarmeðferð með grannskoðun sem um getur í 3. mgr. 301. gr.

II. KAFLI
Fjárhagsstaða
1. þáttur
Gjaldþol samstæðu
1. undirþáttur
Almenn ákvæði
218. gr.
Eftirlit með gjaldþoli samstæðu

1.     Eftirlit með gjaldþoli samstæðu skal viðhaft í samræmi við 2. og 3. málsgrein þessarar greinar, 246. gr. og III. kafla.
2.     Í því tilviki sem um getur í a-lið 2. mgr. 213. gr. skulu aðildarríki krefjast þess að hluteignarfélög á trygginga- eða endurtryggingasviði tryggi að viðurkennt eigið fé sé tiltækt í samstæðunni sem er ætíð að lágmarki jafnt útreiknaðri gjaldþolskröfu samstæðu í samræmi við 2., 3. og 4. undirþátt.
3.     Í því tilviki sem um getur í b-lið 2. mgr. 213. gr. skulu aðildarríki krefjast þess að tryggingafélög eða endurtryggingafélög í samstæðu tryggi að viðurkennt eigið fé sé tiltækt í samstæðu sem er ætíð að lágmarki jafnt útreiknaðri gjaldþolskröfu samstæðu í samræmi við 5. undirþátt.
4.     Kröfurnar sem um getur í 2. og 3. mgr. skulu háðar endurskoðun eftirlitsaðila samstæðu í samræmi við III. kafla. Ákvæði 136. gr. og 1.–4. mgr. 138. gr. skulu gilda að breyttu breytanda.
5.     Um leið og hluteignarfélag hefur gengið úr skugga um og upplýst eftirlitsaðila samstæðu um að gjaldþolskrafa samstæðu sé ekki lengur uppfyllt, eða að hætta sé á að það uppfylli hana ekki á næstu þremur mánuðum skal eftirlitsaðili samstæðu upplýsa önnur eftirlitsyfirvöld innan samstarfshóps eftirlitsaðila sem skulu þá greina stöðu samstæðunnar.

219. gr.
Tíðni útreikninga

1.     Eftirlitsaðili samstæðu skal sjá til þess að útreikningarnir sem um getur í 2. og 3. mgr. 218. gr. séu gerðir að lágmarki árlega, annaðhvort af hluteignarfélögum á vátryggingar- eða endurtryggingarsviði eða af eignarhaldsfélagi á vátryggingasviði.
Hluteignarfélag á vátryggingar- eða endurtryggingarsviði skal senda viðeigandi upplýsingar og niðurstöður þess útreiknings til eftirlitsaðila samstæðu, eða þar sem aðalfyrirtæki samstæðu er ekki vátryggingafélag eða endurtryggingafélag skal senda upplýsingar frá eignarhaldsfélagi á vátryggingasviði eða af félagi í samstæðu sem er auðkennt af eftirlitsaðila samstæðu að höfðu samráði við önnur hlutaðeigandi eftirlitsyfirvöld og samstæðuna sjálfa.
2.     Vátryggingafélag, þ.m.t. endurtryggingafélag og eignarhaldsfélag á vátryggingasviði skulu reglulega fylgjast með gjaldþolskröfu samstæðu. Þar sem áhættusnið samstæðu víkur umtalsvert frá undirliggjandi forsendum síðast tilkynntrar gjaldþolskröfu samstæðu skal endurreikna gjaldþolskröfu samstæðu án tafar og tilkynna hana til eftirlitsaðila samstæðu.
Þar sem vísbendingar eru um að áhættusnið samstæðu hafi breyst marktækt frá síðast tilkynntri dagsetningu gjaldþolskröfu samstæðu getur eftirlitsaðili samstæðu krafist endurútreiknings á gjaldþolskröfu samstæðu.

2. undirþáttur
Val á útreikningsaðferð og almennar grundvallarreglur
220. gr.
Val á aðferð

1.     Útreikningur á gjaldþoli samstæðu vátryggingafélaga, þ.m.t. endurtryggingafélaga sem um getur í a-lið 2. mgr. 213. gr., skal fara fram í samræmi við tæknilegar meginreglur og eina af aðferðunum sem er sett fram í 221.–233. gr.
2.     Aðildarríki skulu sjá til þess að útreikningur á gjaldþoli samstæðu vátryggingafélaga, þ.m.t. endurtryggingafélaga, sem um getur í a-lið 2. mgr. 213. gr., fari fram í samræmi við 1. aðferð sem mælt er fyrir um í 230.–232. gr.
Samt sem áður skulu aðildarríki heimila eftirlitsyfirvöldum sínum, þar sem þau taka sér hlutverk eftirlitsaðila samstæðu að því er varðar tiltekna samstæðu að ákvarða, að höfðu samráði við önnur hlutaðeigandi eftirlitsyfirvöld og samstæðuna sjálfa, að beita 2. aðferð á samstæðuna sem er mælt fyrir um í 233. gr. og 234. gr., eða samsetningu aðferða 1 og 2 þar sem notkun 1. aðferðar eingöngu væri ekki viðeigandi.

221. gr.
Hlutfallslegur eignarhluti talinn með

1.     Þegar gjaldþol samstæðu er reiknað skal tekið tillit til hlutfallslegs eignarhluta hluteignarfélagsins í félögum því tengdu.
Að því er varðar fyrstu undirgreinina skal hlutfallslegur eignarhluti ná yfir annað af eftirfarandi:
a)    þar sem 1. aðferð er notuð, hlutföll sem eru notuð við gerð samstæðureikninga eða
b)    þar sem 2. aðferð er notuð, hluti skráðs hlutafjár sem beint eða óbeint, er í vörslu hluteignarfélagsins.
Ef tengda félagið er dótturfélag með ófullnægjandi viðurkennt eigið fé til að ná yfir gjaldþolskröfu sína verður að taka tillit til slíks ófullnægjandi gjaldþols dótturfélagsins í heild, sama hvaða aðferð er beitt.
Telji eftirlitsyfirvöld á hinn bóginn að ábyrgð móðurfélags, sem á hlutafé í félaginu, sé skýrt og ótvírætt bundin við það hlutafé getur eftirlitsaðili samstæðu samt sem áður heimilað að hlutfallslega verði tekið tillit til ófullnægjandi gjaldþols dótturfélagsins.
2.     Eftirlitsaðili samstæðu skal ákvarða, að höfðu samráði við önnur hlutaðeigandi eftirlitsyfirvöld og samstæðuna sjálfa að taka skuli tillit til hlutfallslegs eignarhluta í eftirfarandi tilvikum:
a)    þar sem engin fjármagnstengsl eru á milli sumra félaganna í samstæðu,
b)    þar sem eftirlitsyfirvald hefur ákvarðað að eignarhlutdeild atkvæðisréttar, með beinum eða óbeinum hætti, eða hlutafé í félagi sé hlutdeild, þar sem verulegum áhrifum er beitt í reynd í því félagi að þess mati,
c)    þar sem eftirlitsyfirvald hefur ákvarðað að félag sé móðurfélag annars félags, þar sem það, að mati eftirlitsyfirvalds, beitir í reynd ráðandi áhrifum í því félagi.

222. gr.
Afnám tvínotkunar viðurkennds eigin fjár

1.     Ekki skal heimila tvínotkun viðurkennds eigin fjár til borgunar gjaldþolskröfu á meðal mismunandi vátryggingafélaga, þ.m.t. endurtryggingafélaga, í þeim útreikningi.
Í því skyni skal undanskilja eftirtaldar fjárhæðir þegar gjaldþol samstæðu er reiknað út og ekki er kveðið á um það í aðferðunum sem lýst er í 4. undirþætti:
a)    verðmæti sérhverrar eignar hluteignarfélags á vátryggingar- eða endurtryggingasviði, sem ætlað er að fjármagna viðurkennt eigið fé með, sem getur verið hluti af gjaldþolskröfu eins af tengdu vátryggingafélögum eða endurtryggingafélögum þess,
b)    verðmæti sérhverrar eignar tengds vátryggingafélags eða endurtryggingafélags hluteignarfélags á vátrygginga- eða endurtryggingasviði, sem ætlað er að fjármagna eigið fé með, sem getur verið hluti af gjaldþolskröfu eins af tengdum hluteignarfélögum þess á vátrygginga- eða endurtryggingasviði,
c)    verðmæti sérhverrar eignar tengds vátryggingafélags eða endurtryggingafélags hluteignarfélags á trygginga- eða endurtryggingasviði, sem ætlað er að fjármagna eigið fé með, sem getur verið hluti af gjaldþolskröfu eins af tengdum vátryggingafélögum eða endurtryggingafélögum við hluteignarfélagið á vátrygginga- eða endurtryggingasviði.
2.     Með fyrirvara um 1. málsgrein er einungis hægt að telja eftirfarandi atriði með í útreikningi svo fremi sem þau séu tæk vegna gjaldþolskröfu tengds hlutaðeigandi félags:
a)    umframtekjur sem falla undir ákvæði 2. mgr. 91. gr. sem verða til í tengdu líftrygginga- eða endurtryggingafélagi hluteignarfélags á vátrygginga- eða endurtryggingasviði sem gjaldþol samstæðu er reiknað fyrir,
b)    allt skráð, óinnborgað hlutafé tengds vátryggingafélags eða endurtryggingafélags hjá hluteignarfélaginu á vátrygginga- eða endurtryggingasviði sem gjaldþol samstæðu er reiknað fyrir.
Eftirfarandi atriði skulu þó útilokuð frá útreikningnum:
i.    skráð, óinnborgað hlutafé sem hugsanlega skuldbindur hluteignarfélagið,
ii.    skráð, óinnborgað hlutafé hluteignarfélags á vátrygginga- eða endurtryggingasviði sem hugsanlega skuldbindur tengt vátryggingafélag eða endurtryggingafélag,
iii.    skráð, óinnborgað hlutafé tengds vátryggingafélags eða endurtryggingafélags, sem hugsanlega skuldbindur annað tengt vátryggingafélag eða endurtryggingafélag sama hluteignarfélags á vátryggingasviði eða endurtryggingasviði.
3.     Ef eftirlitsyfirvöld telja að tiltekið viðurkennt eigið fé, sem getur verið hluti af gjaldþolskröfu tengds vátryggingafélags eða endurtryggingafélags annarra en þeirra sem um getur í 2. mgr., sé ekki raunverulega til umráða til að mæta gjaldþolskröfu hluteignarfélagsins á vátryggingasviði eða endurtryggingasviði, sem verið er að reikna gjaldþol samstæðu fyrir, má aðeins taka þetta eigin fé með við útreikninginn að því marki sem það getur fullnægt gjaldþolskröfu tengda félagsins.
4.     Samtala eigin fjár, sem um getur í 2. og 3. mgr., má ekki vera hærri en gjaldþolskrafa tengda vátryggingafélagsins eða endurtryggingafélagsins.
5.     Einungis skal telja viðurkennt eigin fé tengds vátryggingafélags eða endurtryggingafélags hluteignarfélags á vátryggingasviði eða endurtryggingasviði sem gjaldþol samstæðu er reiknað fyrir, sem er með fyrirvara um fyrri heimild frá eftirlitsyfirvaldi í samræmi við 90. gr., með í útreikningi svo fremi það hafi verið heimilað á viðeigandi hátt af eftirlitsyfirvaldi, sem ber ábyrgð á eftirliti viðkomandi tengds félags.

223. gr.
Útilokun fjármögnunar innan samstæðunnar

1.     Þegar gjaldþol samstæðu er reiknað skal ekki taka tillit til neins viðurkennds eigin fjár sem getur verið hluti af gjaldþolskröfu og fellur til við gagnkvæma fjármögnun hluteignarfélags á vátryggingasviði eða endurtryggingafélagsins og einhvers af eftirfarandi:
a)    tengds félags,
b)    hluteignarfélags,
c)    annars félags sem er tengt einhverju hluteignarfélaga þess.
2.     Við útreikning gjaldþols samstæðu skal ekki tekið tillit til neins viðurkennds eigin fjár sem getur verið hluti af gjaldþolskröfu tengds vátryggingafélags eða endurtryggingafélags sem er tengt hluteignarfélaginu á vátrygginga- eða endurtryggingasviði, sem aðlagað gjaldþol er reiknað fyrir, þegar viðkomandi eigið fé verður til við gagnkvæma fjármögnun með öðru tengdu félagi þess hluteignarfélags á vátrygginga- eða endurtryggingasviði.
3.     Að lágmarki telst um gagnkvæma fjármögnun að ræða þegar vátryggingafélag eða endurtryggingafélag, eða eitthvert félag því tengt, á hlutabréf í eða veitir lán til annars félags sem, beint eða óbeint, ræður yfir viðurkenndu eigin fé sem getur verið hluti af gjaldþolskröfu fyrst nefnda félagsins.

224. gr.
Mat

Virði eigna og skulda skal metið í samræmi við ákvæði 75. gr.

3. undirþáttur
Beiting útreikningsaðferða
225. gr.
Tengd vátryggingafélög, þ.m.t. endurtryggingafélög

Þegar vátryggingafélag eða endurtryggingafélag er tengt fleiri en einu vátryggingafélagi eða endurtryggingafélagi, skal reikna gjaldþol samstæðu með hliðsjón af hverju og einu þessara tengdu vátryggingafélaga eða endurtryggingafélaga.
Hafi tengt vátryggingafélag eða tengt endurtryggingafélag aðalskrifstofu í öðru aðildarríki en vátryggingafélagið eða endurtryggingafélagið, sem verið er að reikna gjaldþol samstæðu fyrir, geta aðildarríkin kveðið á um að við útreikninginn sé, að því er varðar tengda félagið, tekið tillit til gjaldþolskröfu þess og viðurkennds eigin fjár til að uppfylla þá kröfu sem mælt er fyrir um í viðkomandi aðildarríki.

226. gr.
Eignarhaldsfélög á vátryggingasviði sem eru milliliðir

1.     Við útreikning á gjaldþoli samstæðu vátryggingafélags eða endurtryggingafélags, sem á hlutdeild í tengdu vátryggingafélagi, tengdu endurtryggingafélagi, vátryggingafélagi þriðja lands eða endurtryggingafélagi þriðja lands, í gegnum eignarhaldsfélag á vátryggingasviði, er tekið tillit til stöðu eignarhaldsfélagsins á vátryggingasviði.
Eingöngu að því er varðar þennan útreikning skal farið með eignarhaldsfélagið á vátryggingasviði sem er milliliður eins og það væri vátryggingafélag eða endurtryggingafélag sem fellur undir reglurnar sem mælt er fyrir um í 1., 2. og 3. undirlið 4. þáttar VI. kafla I. bálks að því er varðar gjaldþolskröfuna og sem fellur undir sömu skilyrði og mælt er fyrir um í 1., 2. og 3. undirþætti 3. þáttar VI. kafla I. bálks að því er varðar viðurkennt eigin fé fyrir gjaldþolskröfuna.
2.     Í tilvikum þar sem eignarhaldsfélag á vátryggingasviði sem er milliliður hefur víkjandi skuldir undir höndum eða annað viðurkennt eigið fé sem fellur undir takmörkun í samræmi við ákvæði 98. gr. skal það fært sem viðurkennt eigið fé upp að útreiknuðum fjárhæðum með beitingu framsettra takmarkana í 98. gr. að heildartölu útistandandi viðurkennds eigin fjár á samstæðustigi, í samanburði við gjaldþolskröfuna á samstæðustigi.
Einungis má telja viðurkennt eigin fé eignarhaldsfélags á vátryggingasviði sem er milliliður, sem myndi krefjast fyrirframleyfis frá eftirlitsyfirvaldi í samræmi við 90. gr. ef það væri í vörslu vátryggingafélags eða endurtryggingafélags, með í útreikningi gjaldþols samstæðu að svo miklu leyti sem það er heimilað af eftirlitsaðila samstæðu.

227. gr.
Tengd vátryggingafélög, þ.m.t. endurtryggingafélög, þriðja lands

1.     Við útreikning gjaldþols samstæðu vátrygginga- eða endurtryggingafélags sem er hluteignarfélag á vátrygginga- eða endurtryggingasviði í þriðja landi, í samræmi við ákvæði 233. gr., skal farið með síðarnefnda félagið, einungis að því er varðar útreikninginn, á hliðstæðan hátt og tengt vátryggingafélag eða tengt endurtryggingafélag.
Sé þess hins vegar krafist í þriðja landi, þar sem þetta félag hefur aðalskrifstofu, að það hafi starfsleyfi, auk þess sem gjaldþolsreglur gilda um það sem eru a.m.k. sambærilegar við þær sem mælt er fyrir um í VI. kafla I. bálks, geta aðildarríkin kveðið á um að í útreikningnum sé tekið tillit til kröfunnar um gjaldþol og viðurkennt eigið fé sem fullnægir þeirri kröfu eins og mælt er fyrir um af viðkomandi þriðja landi, að því er varðar það félag.
2.     Eftirlitsaðili samstæðu skal framkvæma sannprófun á jafngildi reglu um þriðju lönd að beiðni hluteignarfélags eða að eigin frumkvæði.
Eftirlitsaðili samstæðu skal hafa samráð við önnur hlutaðeigandi eftirlitsyfirvöld og samstarfsnefnd evrópskra vátrygginga- og lífeyrissjóðaeftirlita áður en ákvörðun um jafngildi er tekin.
3.     Framkvæmdastjórnin getur samþykkt framkvæmdarráðstafanir sem tilgreina viðmið vegna mats á jafngildi gjaldþolsreglna þriðja lands við það sem mælt var fyrir um í VI. kafla, I. bálks.
Þessar ráðstafanir, sem er ætlað að breyta veigalitlum þáttum þessarar tilskipunar með því að auka við hana, skulu samþykktar í samræmi við reglunefndarmeðferð með grannskoðun sem um getur í 3. mgr. 301. gr.
4.     Framkvæmdastjórnin getur, að höfðu samráði við nefnd evrópskra eftirlitsaðila með vátryggingum og starfstengdum lífeyrissjóðum og í samræmi við reglunefndarmeðferð sem um getur í 2. mgr. 301. gr. og með tilliti til samþykktra viðmiðana í samræmi við 3. mgr. þessarar greinar, ákveðið hvort gjaldþolsreglur í þriðja landi séu jafngildar þeim sem mælt var fyrir um í VI. kafla, I. bálks.
Þessar ákvarðanir skal endurskoða reglulega með tilliti til breytinga á gjaldþolsreglum sem mælt var fyrir um í VI. kafla I. bálks og gjaldþolsreglna þriðja lands.
5.     Ákvæði 2. málsgreinar eiga ekki við þegar framkvæmdastjórnin samþykkir ákvörðun um jafngildi gjaldþolsreglna þriðja lands í samræmi við ákvæði 4. málsgreinar.
Þegar samþykkt ákvörðunar framkvæmdastjórnarinnar í samræmi við 4. mgr. leiðir til þess að gjaldþolsreglur þriðja lands séu ekki jafngildar, skal valkosturinn sem um getur í annarri undirgrein 1. mgr. um að taka tillit til gjaldþolskröfunnar og viðurkennds eigin fjár eins og hlutaðeigandi þriðja land mælti fyrir um, ekki gilda og skal farið með vátrygginga- eða endurtryggingafélag þriðja lands einungis í samræmi við fyrstu undirmálsgrein 1. mgr.

228. gr.
Tengdar lánastofnanir, fjárfestingarfyrirtæki og fjármálastofnanir

Við útreikning gjaldþols samstæðu vátrygginga- eða endurtryggingafélags sem er hluteignarfélag í lánastofnun, fjárfestingarfyrirtæki eða fjármálastofnun skulu aðildarríki heimila sínum hluteignarfélögum á vátrygginga- eða endurtryggingasviði að beita aðferðum 1 eða 2 sem settar eru fram í I. viðauka við tilskipun 2002/87/EB að breyttu breytanda. Einungis má beita aðferð 1 sem sett er fram í þeim viðauka ef eftirlitsaðili samstæðu hefur fulla vissu fyrir því að hve miklu leyti stjórnun er samþætt og innra eftirlit viðhaft að því er varðar einingar sem á að taka með í samstæðureikningsskilunum. Jafnan skal beita aðferðinni, sem valin er, á samræmdan hátt.
Aðildarríkin skulu samt sem áður heimila eftirlitsyfirvöldum sínum, þar sem þau taka að sér hlutverk eftirlitsaðila samstæðu að því er varðar tiltekna samstæðu, að ákvarða, að beiðni hluteignarfélags eða að þeirra frumkvæði að draga hlutdeild sem um getur í fyrstu málsgrein frá viðurkenndu eigin fé gjaldþols samstæðu hluteignarfélags.

229. gr.
Fáist nauðsynlegar upplýsingar ekki

Hafi hlutaðeigandi eftirlitsyfirvöld ekki aðgang að upplýsingum, sem eru nauðsynlegar til að reikna gjaldþol samstæðu fyrir vátryggingafélag eða endurtryggingafélag er varða tengt félag með aðalskrifstofu í aðildarríki eða þriðja landi, skal draga bókfært virði þess félags í hluteignarfélaginu á vátryggingasviði eða endurtryggingasviði frá viðurkenndu eigin fé sem getur verið hluti af gjaldþoli samstæðu.
Þegar svo ber undir er ekki hægt að færa dulinn hagnað af slíkri hlutdeild sem viðurkennt eigið fé vegna gjaldþols samstæðu.

4. undirþáttur
Útreikningsaðferðir
230. gr.
Aðferð 1 (Notuð í flestum tilfellum): Aðferð byggð á samstæðureikningsskilum

1.     Samstæðugjaldþol hluteignarfélags á vátryggingasviði eða endurtryggingasviði skal reiknað á grundvelli samstæðureikninga.
Samstæðugjaldþol hluteignarfélags á vátryggingasviði eða endurtryggingasviði er mismunurinn á eftirfarandi:
a)    viðurkenndu eigin fé sem nær yfir gjaldþolskröfuna, reiknuðu út á grunni samstæðugagna,
b)    gjaldþolskröfu samstæðustigs, reiknaðri út á grunni samstæðugagna.
Reglurnar sem mælt er fyrir um í 1., 2. og 3. undirþætti 3. þáttar VI. kafla I. bálks og í 1., 2. og 3. undirþætti 4. þáttar VI. kafla I. bálks skulu gilda fyrir útreikning viðurkennds eigin fjár vegna gjaldþolskröfu og gjaldþolskröfu samstæðustigs á grundvelli samstæðugagna.
2.     Til útreiknings á gjaldþolskröfu samstæðustigs sem byggir á samstæðugögnum (gjaldþolskrafa samstæðu) skal annaðhvort byggja á grunni staðlaðrar reiknireglu eða samþykkts innra líkans, á samræmdan hátt við meginreglu sem er innifalin í 1. og 2. undirþætti 4. þáttar VI. kafla I. bálks og 1. og 3. undirþætti 4. þáttar VI. kafla I. bálks, eftir því sem við á.
Gjaldþolskrafa samstæðu skal að lágmarki vera summa eftirfarandi:
a)    lágmarkskröfu um eigið fé hluteignarfélags á vátryggingasviði eða endurtryggingasviði sem um getur í 129. gr.,
b)    hlutfallslegs eignarhluta lágmarkskröfunnar um eigið fé í tengdu vátryggingafélögunum, þ.m.t. endurtryggingafélögunum.
Þetta lágmark fellur undir viðurkenndan eiginfjárgrunn í samræmi við ákvæði 4. mgr. 98. gr.
Til að ákvarða hvort slíkt viðurkennt eigið fé sé hæft til að ná yfir lágmarksgjaldþolskröfu samstæðu skulu meginreglurnar sem settar eru fram í 221.–229. gr. gilda að breyttu breytanda. Ákvæði 1. og 2. mgr. 139. gr. gilda að breyttu breytanda.

231. gr.
Innra líkan samstæðu

1.     Leggi vátryggingafélög, þ.m.t. endurtryggingafélög og félög tengd þeim fram umsókn um heimild til að reikna út gjaldþolskröfu samstæðu, sem og gjaldþolskröfu vátryggingafélaga, þ.m.t. endurtryggingafélaga samstæðu, á grunni innra líkans, eða ef umsókn er lögð fram sameiginlega af tengdum félögum eignarhaldsfélags á vátryggingasviði, skulu hlutaðeigandi eftirlitsyfirvöld vinna saman til að ákveða hvort veita eigi þá heimild og til að ákvarða skilmála og skilyrði, ef einhver eru, sem slík heimild er veitt með fyrirvara um.
Leggja skal fram umsókn, eins og um getur í fyrstu undirgrein, til eftirlitsaðila samstæðu.
Eftirlitsaðili samstæðu skal án tafar upplýsa önnur hlutaðeigandi eftirlitsyfirvöld.
2.     Hlutaðeigandi eftirlitsyfirvöld skulu gera allt sem í þeirra valdi stendur til að komast að sameiginlegri niðurstöðu um umsóknina innan sex mánaða frá viðtökudegi fullgerðrar umsóknar til eftirlitsaðila samstæðu.
Eftirlitsaðili samstæðu skal án tafar áframsenda fullgerðu umsóknina til annarra hlutaðeigandi eftirlitsyfirvalda.
3.     Á tímabilinu sem um getur í 2. mgr. geta eftirlitsaðili samstæðu og einhver hinna hlutaðeigandi eftirlitsyfirvalda haft samráð við samstarfsnefnd evrópskra vátrygginga- og lífeyrissjóðaeftirlita (CEIOPS). Einnig skal samráð haft við samstarfsnefnd evrópskra vátrygginga- og lífeyrissjóðaeftirlita fari hluteignarfélagið fram á það.
Sé samráð haft við samstarfsnefnd evrópskra vátrygginga- og lífeyrissjóðaeftirlita skal upplýsa öll hlutaðeigandi eftirlitsyfirvöld þar um og tímabilið sem um getur í 2. mgr. skal framlengt um tvo mánuði.
4.     Sé samráð ekki haft við samstarfsnefnd evrópskra vátrygginga- og lífeyrissjóðaeftirlita í samræmi við ákvæði fyrstu undirgreinar 3. mgr. og sé ekki um sameiginlega ákvörðun hlutaðeigandi eftirlitsyfirvalda að ræða innan sex mánaða frá viðtökudegi fullgerðrar umsóknar til eftirlitsaðila samstæðu, skal eftirlitsaðili samstæðu fara fram á það við samstarfsnefnd evrópskra vátrygginga- og lífeyrissjóðaeftirlita, innan tveggja mánaða til viðbótar, að öllum hlutaðeigandi eftirlitsyfirvöldum sé veitt ráðgjöf. Eftirlitsaðili samstæðu skal í síðasta lagi taka ákvörðun þremur vikum eftir sendingu þeirrar ráðgjafar og taka fullt tillit til hennar.
5.     Þrátt fyrir að samráð hafi verið haft við samstarfsnefnd evrópskra vátrygginga- og lífeyrissjóðaeftirlita skal ákvörðun eftirlitsaðila samstæðu tilgreina allar ástæður og taka tillit til álita annarra hlutaðeigandi eftirlitsyfirvalda.
Eftirlitsaðili samstæðu skal veita umsækjanda og öðrum hlutaðeigandi eftirlitsyfirvöldum upplýsingar um ákvörðunina.
Hlutaðeigandi eftirlitsyfirvöld skulu fara að ákvörðuninni.
6.     Ef ekki er komist að sameiginlegri niðurstöðu á þeim tímabilum sem sett eru fram í 2. og 3. mgr. eftir því sem við á, skal eftirlitsaðili samstæðu taka eigin ákvörðun varðandi umsóknina.
Eftirlitsaðili samstæðu skal á viðeigandi hátt við ákvarðanatöku sína taka tillit til eftirfarandi:
a)    skoðana og fyrirvara annarra hlutaðeigandi eftirlitsyfirvalda sem þau hafa látið í ljós á gildandi tímabili,
b)    ráðlegginga samstarfsnefndar evrópskra vátrygginga- og lífeyrissjóðaeftirlita, hafi samráð verið haft við hana.
Í ákvörðuninni skulu allar ástæður tilgreindar og hún skal innihalda útskýringu á sérhverju umtalsverðu fráviki frá samþykktri afstöðu samstarfsnefndar evrópskra vátrygginga- og lífeyrissjóðaeftirlita.
Eftirlitsaðili samstæðu skal senda ákvörðunina til umsækjandans og annarra hlutaðeigandi eftirlitsyfirvalda.
Sú ákvörðun skal viðurkennd sem ákvarðandi og skulu hlutaðeigandi eftirlitsyfirvöld beita henni.
7.     Þegar einhver af hlutaðeigandi eftirlitsyfirvöldum telur áhættusnið vátrygginga- eða endurtryggingafélags undir sínu eftirliti víkja marktækt frá undirliggjandi forsendum samþykkts innra líkans á samstæðustigi, og svo fremi sem það félag hefur ekki fjallað um áhyggjuefni eftirlitsyfirvalda á tilhlýðilegan hátt, getur yfirvaldið, í samræmi við 37. gr. lagt viðbótargjaldþolskröfu á gjaldþolskröfu þess vátrygginga- eða endurtryggingafélags sem beitir slíku innra líkani við útreikning hennar.
Í undantekningartilvikum, þar sem slík viðbótargjaldþolskrafa væri ekki viðeigandi getur eftirlitsyfirvaldið krafið hlutaðeigandi félag um útreikning á gjaldþolskröfu sinni á grunni staðalformúlu sem um getur í 1. og 2. undirþætti 4. þáttar VI. kafla I. bálks. Í samræmi við a- og c-lið 1. mgr. 37. gr. getur eftirlitsyfirvaldið lagt viðbótargjaldþolskröfu á gjaldþolskröfu þess vátrygginga- eða endurtryggingafélags sem leiðir af beitingu staðalformúlunnar.
Eftirlitsyfirvaldið skal útskýra hvaða ákvörðun sem um getur í fyrstu og annarri undirgrein gagnvart bæði vátrygginga- eða endurtryggingafélaginu og eftirlitsaðila samstæðu.

232. gr.
Viðbótargjaldþolskrafa samstæðu

Við ákvörðun þess hvort samsteypt gjaldþolskrafa samstæðu endurspegli áhættusnið samstæðu á viðeigandi hátt skal eftirlitsaðili samstæðu veita sérstakan gaum sérhverju tilviki þar sem aðstæður sem um getur í a- til c-lið 1. mgr. 37. gr. geta komið fram á samstæðustigi, einkum þar sem:
a)    sérstök áhætta sem er fyrir hendi á samstæðustigi fellur ekki nægjanlega að staðalformúlu eða innra líkani sem notað er, þar sem erfitt er að meta hana,
b)    viðbótargjaldþolskrafa er lögð við gjaldþolskröfu tengdra vátrygginga- eða endurtryggingafélaga af hlutaðeigandi eftirlitsyfirvöldum, í samræmi við 37. gr. og 7. mgr. 231. gr.
Þar sem áhættusnið samstæðu endurspeglast ekki nægilega er leyfilegt að leggja viðbótargjaldþolskröfu á samsteypta gjaldþolskröfu samstæðu.
Beita skal ákvæðum 1.–5. mgr. 37. gr. ásamt framkvæmdarráðstöfunum sem gripið hefur verið til í samræmi við 6. mgr. 37. gr. að breyttu breytanda.

233. gr.
Aðferð 2 (fráviksaðferð): Frádráttar- og samlagningaraðferð

1.     Samstæðugjaldþol hluteignarfélags á vátryggingasviði eða endurtryggingasviði á að vera mismunurinn á eftirfarandi:
a)    uppsöfnuðu viðurkenndu eigin fé samstæðu, líkt og kveðið er á um í 2. mgr.,
b)    virði hlutdeildarfélaga á vátrygginga- eða endurtryggingasviði í tengdu vátryggingar- eða endurtryggingafélagi og uppsafnaðri gjaldþolskröfu samstæðu, líkt og kveðið er á um í 3. mgr.
2.     Uppsafnað viðurkennt eigið fé samstæðu er summa eftirfarandi:
a)    nægilegs viðurkennds eigin fjár vegna gjaldþolskröfu hluteignarfélags á vátryggingasviði eða endurtryggingasviði,
b)    hlutfallslegs eignarhluta hluteignarfélags á vátryggingasviði eða endurtryggingasviði í viðurkenndu eigin fé vegna gjaldþolskröfu tengdra vátrygginga- eða endurtryggingafélaga.
3.     Uppsöfnuð gjaldþolskrafa samstæðu er summa eftirfarandi:
a)    gjaldþolskröfu hluteignarfélags á vátryggingasviði eða endurtryggingasviði,
b)    hlutfallslegs eignarhluta gjaldþolskröfu tengdu vátrygginga- eða endurtryggingafélaganna.
4.     Ef hlutdeild í tengdu vátryggingafélagi eða tengdu endurtryggingafélagi felst, algjörlega eða að hluta til, í óbeinu eignarhaldi skal telja virði hlutdeildarfélags á vátrygginga- eða endurtryggingasviði í tengdum vátrygginga- eða endurtryggingafélögum með í virði slíks óbeins eignarhalds, að teknu tilliti til viðkomandi raðtengdra hagsmuna, og liðir sem um getur í b-lið 2. mgr. og b-lið 3. mgr. skulu innihalda samsvarandi hlutfallslegan eignarhluta, eftir því sem við á vegna viðurkennds eigin fjár fyrir gjaldþolskröfu tengdra vátrygginga- eða endurtryggingafélaga og vegna gjaldþolskröfu tengdra vátrygginga- eða endurtryggingafélaga.
5.     Leggi vátryggingafélög, þ.m.t. endurtryggingafélög, fram umsókn um heimild til að reikna út gjaldþolskröfu vátryggingafélaga, þ.m.t. endurtryggingafélög, í samstæðu á grunni innra líkans sem var lagt fram af vátrygginga- eða endurtryggingafélagi og tengdum félögum, eða umsókn er lögð fram sameiginlega af tengdum félögum eignarhaldsfélags á vátryggingasviði, skulu ákvæði 231. gr. gilda að breyttu breytanda.
6.     Við ákvörðun þess hvort uppsöfnuð gjaldþolskrafa samstæðu, reiknuð út eins og sett er fram í þriðju málsgrein, endurspegli áhættusnið samstæðunnar á viðeigandi hátt, skulu hlutaðeigandi eftirlitsyfirvöld gefa því sérstakan gaum hvort sérstök áhætta sé fyrir hendi á samstæðustigi sem ekki er náð fullkomlega fyrir, þar sem erfitt er að meta hana.
Þar sem áhættusnið samstæðu víkur umtalsvert frá undirliggjandi forsendum uppsafnaðrar gjaldþolskröfu samstæðu, er heimilt að leggja viðbótargjaldþolskröfu á gjaldþolskröfuna.
Beita skal ákvæðum 1.–5. mgr. 37. gr. ásamt framkvæmdarráðstöfunum sem gripið hefur verið til í samræmi við 6. mgr. 37. gr. að breyttu breytanda.

234. gr.
Framkvæmdarráðstafanir

Framkvæmdastjórnin skal samþykkja framkvæmdarráðstafanir sem tilgreina tæknilegar meginreglur og aðferðir sem eru settar fram í 220.–229. gr. og beitingu ákvæða 230.–233. gr. til að tryggja samræmda beitingu innan Bandalagsins.
Þessar ráðstafanir, sem er ætlað að breyta veigalitlum þáttum þessarar tilskipunar með því að auka við hana, skulu samþykktar í samræmi við reglunefndarmeðferð með grannskoðun sem um getur í 3. mgr. 301. gr.

5. undirþáttur
Eftirlit með gjaldþoli samstæðna hjá vátryggingafélögum, þ.m.t. endurtryggingafélögum, sem eru dótturfélög eignarhaldsfélags á vátryggingasviði
235. gr.
Samstæðugjaldþol eignarhaldsfélags á vátryggingasviði

Þegar vátryggingafélög, þ.m.t. endurtryggingafélög, eru dótturfélög eignarhaldsfélags á vátryggingasviði skal eftirlitsaðili samstæðu sjá til þess að útreikningur gjaldþols samstæðu sé framkvæmdur á stigi eignarhaldsfélagsins á vátryggingasviði með beitingu ákvæða 2. mgr. 220. gr. og 233. gr.
Að því er varðar þennan útreikning skal farið með móðurfélagið sem vátrygginga- eða endurtryggingafélag sem fellur undir reglurnar sem mælt er fyrir um í 1., 2. og 3. undirþætti 4. þáttar VI. kafla I. bálks að því er varðar gjaldþolskröfuna og sem fellur undir sömu skilyrði og mælt var fyrir um í 1., 2. og 3. undirþætti 3. þáttar VI. kafla I. bálks að því er varðar viðurkennt eigið fé fyrir gjaldþolskröfuna.

6. undirþáttur
Eftirlit með gjaldþoli samstæðna hjá samstæðum með miðlæga áhættustjórnun
236. gr.
Dótturfélög vátrygginga- eða endurtryggingafélags: skilyrði

Aðildarríkin skulu kveða á um að reglurnar sem mælt er fyrir um í 238. gr. og 239. gr. skulu gilda varðandi hvaða vátrygginga- eða endurtryggingafélag sem er, sé það dótturfélag vátrygginga- eða endurtryggingafélags þar sem öll eftirfarandi skilyrði eru uppfyllt:
a)    dótturfélagið, sem eftirlitsaðili samstæðu hefur ekki tekið ákvörðun fyrir samkvæmt 2. mgr. 214. gr., er innifalið í samstæðueftirliti sem er framkvæmt af eftirlitsaðila samstæðu á stigi móðurfélagsins í samræmi við þennan bálk,
b)    ferli við áhættustjórnun og innri eftirlitskerfi móðurfélagsins ná yfir dótturfélagið og eftirlitsyfirvöld viðurkenna að móðurfélagið viðhafi varfærna stjórnun dótturfélags,
c)    móðurfélagið hefur móttekið samkomulagið sem um getur í þriðju undirgrein 4. mgr. 246. gr.,
d)    móðurfélagið hefur móttekið samkomulagið sem um getur í 2. mgr. 256. gr.,
e)    móðurfélagið hefur sent umsókn um heimild til að falla undir ákvæði 238. og 239. gr. og hagstæð ákvörðun hefur verið tekin um slíka umsókn í samræmi við málsmeðferðina sem sett er fram í 237. gr.

237. gr.
Dótturfélög vátrygginga- eða endurtryggingafélags: ákvörðun umsóknar

1.     Þegar um er að ræða umsóknir um heimild til að heyra undir reglurnar sem kveðið er á um í 238. og 239. gr. skulu hlutaðeigandi eftirlitsyfirvöld vinna saman innan samstarfshóps eftirlitsaðila í fullu samráði að ákvörðun um hvort heimild sem sótt er um verði veitt og til að ákvarða aðra skilmála og skilyrði, ef einhver eru, sem slík heimild ætti að vera háð.
Einungis skal leggja fram umsókn, eins og um getur í fyrstu undirgrein, til eftirlitsyfirvalda sem hafa veitt dótturfélaginu leyfi. Það eftirlitsyfirvald skal upplýsa og áframsenda fullgerðu umsóknina til annarra eftirlitsyfirvalda innan samstarfshóps eftirlitsaðila án tafar.
2.     Hlutaðeigandi eftirlitsyfirvöld skulu gera allt sem í þeirra valdi stendur til að komast að sameiginlegri niðurstöðu um umsóknina innan þriggja mánaða frá viðtökudegi fullgerðrar umsóknar til allra eftirlitsyfirvalda innan samstarfshóps eftirlitsaðila.
3.     Ef um skiptar skoðanir er að ræða varðandi samþykki umsóknar sem um getur í 1. mgr., á tímabilinu sem um getur í 2. mgr., geta eftirlitsaðili samstæðu eða einhver hinna hlutaðeigandi eftirlitsyfirvalda haft samráð við samstarfsnefnd evrópskra vátrygginga- og lífeyrissjóðaeftirlita. Sé samráð haft við samstarfsnefnd evrópskra vátrygginga- og lífeyrissjóðaeftirlita skal upplýsa öll hlutaðeigandi eftirlitsyfirvöld þar um og tímabilið sem um getur í 2. mgr. skal framlengt um einn mánuð.
Sé samráð haft við samstarfsnefnd evrópskra vátrygginga- og lífeyrissjóðaeftirlita skulu hlutaðeigandi eftirlitsyfirvöld íhuga slíka ráðleggingu á viðeigandi hátt áður en þau taka sameiginlega ákvörðun.
4.     Eftirlitsyfirvaldið sem hefur veitt dótturfélaginu leyfi skal veita umsækjanda sameiginlegu ákvörðunina sem um getur í 2. og 3. mgr., skal tilgreina allar ástæður og hafi samráð verið haft við samstarfsnefnd evrópskra vátrygginga- og lífeyrissjóðaeftirlita, útskýra umtalsverð frávik frá samþykktri stöðu samstarfsnefndar evrópskra vátrygginga- og lífeyrissjóðaeftirlita. Sameiginlega ákvörðunin skal viðurkennd sem ákvarðandi og skal beita henni af hlutaðeigandi eftirlitsyfirvöldum.
5.     Komist hlutaðeigandi eftirlitsyfirvöld ekki að sameiginlegri niðurstöðu á þeim tímabilum sem sett eru fram í 2. og 3. mgr., skal eftirlitsaðili samstæðu taka eigin ákvörðun að því er varðar umsóknina.
Eftirlitsaðili samstæðu skal á viðeigandi hátt taka eftirfarandi til athugunar við ákvarðanatöku sína:
a)    skoðanir og fyrirvara hlutaðeigandi eftirlitsyfirvalda sem þau hafa látið í ljós á viðeigandi tímabili,
b)    fyrirvara annarra hlutaðeigandi eftirlitsyfirvalda innan samstarfshóps eftirlitsaðila sem þau hafa látið í ljós á viðeigandi tímabili,
c)    ráðlegginga samstarfsnefndar evrópskra vátrygginga- og lífeyrissjóðaeftirlita, hafi samráð verið haft við hana.
Í ákvörðuninni skulu tilgreindar allar ástæður og skal hún innihalda útskýringu á umtalsverðu fráviki frá bókunum annarra hlutaðeigandi eftirlitsyfirvalda og frá ráðleggingum samstarfsnefndar evrópskra vátrygginga- og lífeyrissjóðaeftirlita. Eftirlitsaðili samstæðu skal veita umsækjanda og öðrum hlutaðeigandi eftirlitsyfirvöldum afrit af ákvörðuninni.

238. gr.
Dótturfélög vátrygginga- eða endurtryggingafélags: ákvörðun gjaldþolskröfu

1.     Með fyrirvara um 231. gr. skal reikna gjaldþolskröfu dótturfélags líkt og sett er fram í ákvæðum 2., 4. og 5. málsgreinar þessarar greinar.
2.     Þegar gjaldþolskrafa dótturfélags er reiknuð á grunni innra líkans sem samþykkt er á samstæðustigi í samræmi við 231. gr. og telji eftirlitsyfirvaldið sem veitti dótturfélaginu leyfi að áhættusnið þess víki marktækt frá þessu innra líkani og svo fremi sem það félag takist ekki á tilhlýðilegan hátt við áhyggjur eftirlitsyfirvaldsins, getur það yfirvald, í þeim tilvikum sem um getur í 37. gr. lagt til að sett verði viðbótargjaldþolskrafa á gjaldþolskröfu þess dótturfélags sem leiðir af beitingu slíks líkans, eða í undantekningartilvikum þar sem slík viðbótargjaldþolskrafa væri ekki viðeigandi, krafið félagið um útreikning á gjaldþolskröfu á grunni staðalformúlunnar. Eftirlitsyfirvaldið skal ræða tillögur sínar innan samstarfshóps eftirlitsaðila og tilkynna ástæður slíkra tillagna til bæði dótturfélags og samstarfshóps eftirlitsaðila.
3.     Þegar gjaldþolskrafa dótturfélags er reiknuð á grunni staðalformúlunnar og eftirlitsyfirvaldið sem veitti dótturfélaginu leyfi telur að áhættusnið þess víki marktækt frá þeim forsendum sem liggja til grundvallar staðalformúlunnar, og svo lengi sem það félag tekst ekki á tilhlýðilegan hátt við áhyggjur eftirlitsyfirvaldsins, getur það yfirvald, í undantekningartilvikum lagt til að félagið skipti út hlutmengi breyta sem notaðar eru í útreikningi staðalformúlunnar með breytum sem eiga sérstaklega við það félag þegar áhættueiningar líftrygginga, skaðatrygginga og heilsutrygginga eru reiknaðar út, líkt og sett fram í 110. gr., eða í þeim tilvikum sem um getur í 37. gr. til að ákveða viðbótargjaldþolskröfu við gjaldþolskröfu þess dótturfélags.
Eftirlitsyfirvaldið skal fjalla um tillögu sína innan samstarfshóps eftirlitsaðila og tilkynna ástæður slíkrar tillögu til bæði dótturfélagsins og samstarfshóps eftirlitsaðila.
4.     Samstarfshópur eftirlitsaðila skal gera allt sem í hans valdi stendur til að komast að samkomulagi um tillögu eftirlitsyfirvalds sem veitti dótturfélaginu leyfi eða um aðrar hugsanlegar ráðstafanir.
5.     Rísi ágreiningur á milli eftirlitsyfirvalds og eftirlitsaðila samstæðu, skal málinu innan mánaðar frá tillögu eftirlitsyfirvalds, vísað áfram til samráðs hjá samstarfsnefnd evrópskra vátrygginga- og lífeyrissjóðaeftirlita, sem skal veita ráðleggingar innan tveggja mánaða frá slíkri vísun.
Eftirlitsyfirvaldið sem veitti dótturfélaginu leyfi skal íhuga slíka ráðleggingu á viðeigandi hátt áður en það tekur sína endanlegu ákvörðun.
Í ákvörðuninni skal tilgreina allar ástæður og taka tillit til sjónarmiða, þ.m.t. fyrirvara annarra eftirlitsyfirvalda innan samstarfshóps eftirlitsaðila, og til ráðlegginga frá samstarfsnefnd evrópskra vátrygginga- og lífeyrissjóðaeftirlita.
Senda skal ákvörðunina til dótturfélagsins og samstarfshóps eftirlitsaðila.

239. gr.
Dótturfélög vátrygginga- eða endurtryggingafélags: ekki er farið að gjaldþolskröfum og lágmarkskröfum um eigið fé

1.     Sé ekki farið að gjaldþolskröfu og þrátt fyrir 138. gr. skal eftirlitsyfirvaldið sem veitti dótturfélaginu leyfi án tafar áframsenda endurreisnaráætlunina, sem dótturfélagið hefur lagt fram, til samstarfshóps eftirlitsaðila til að ná, innan sex mánaða frá athugun þess að ekki sé farið að gjaldþolskröfu, að koma að nýju á nægilegu viðurkenndu eigin fé eða skerðingu á áhættusniði til að tryggja að farið sé að gjaldþolskröfunni.
Samstarfshópur eftirlitsaðila skal gera allt sem í hans valdi stendur til að komast að samkomulagi um tillögu eftirlitsyfirvalds varðandi samþykki endurreisnaráætlunarinnar innan fjögurra mánaða frá þeim degi sem fyrst var tekið eftir að ekki væri farið að gjaldþolskröfu.
Sé slíkt samkomulag ekki fyrir hendi skal eftirlitsyfirvaldið sem veitti dótturfélaginu leyfi ákveða hvort samþykkja eigi endurreisnaráætlunina, að teknu tilliti til skoðana og fyrirvara annarra eftirlitsyfirvalda innan samstarfshóps eftirlitsaðila.
2.     Komist eftirlitsyfirvaldið sem veitti dótturfélaginu leyfi að því, í samræmi við 136. gr., að fjárhagsleg skilyrði hafi versnað, skal það tilkynna samstarfshópi eftirlitsaðila án tafar um fyrirhugaðar ráðstafanir sem grípa skal til. Fyrir utan neyðarástand, skal fjalla um ráðstafanir sem grípa skal til innan samstarfshóps eftirlitsaðila.
Samstarfshópur eftirlitsaðila skal, innan mánaðar frá tilkynningu, gera allt sem í hans valdi stendur til að komast að samkomulagi um fyrirhugaðar ráðstafanir sem grípa skal til.
Sé slíkt samkomulag ekki fyrir hendi skal eftirlitsyfirvaldið sem veitti dótturfélaginu leyfi ákveða hvort samþykkja eigi fyrirhugaðar ráðstafanir, að teknu tilliti til skoðana og fyrirvara annarra eftirlitsyfirvalda innan samstarfshóps eftirlitsaðila.
3.     Sé ekki farið að lágmarkskröfum um eigið fé og þrátt fyrir 139. gr. skal eftirlitsyfirvaldið sem veitti dótturfélaginu leyfi áframsenda án tafar skammtímafjárhagsáætlunina sem dótturfélagið lagði fram til samstarfshóps eftirlitsaðila til að ná, innan þriggja mánaða frá þeim degi sem fyrst var tekið eftir að ekki var farið að lágmarkskröfum um eigi fé, að koma að nýju á nægilegu viðurkenndu eigin fé sem nær yfir lágmarkskröfu um eigið fé eða skerðingu á áhættusniði til að sjá til þess að farið sé að lágmarkskröfunni um eigið fé. Einnig skal upplýsa samstarfshóp eftirlitsaðila um allar ráðstafanir sem gripið er til, til að framfylgja lágmarkskröfunni um eigið fé á stigi dótturfélags.

240. gr.
Dótturfélög vátrygginga- eða endurtryggingafélags: lok undanþága fyrir dótturfélag

1.     Reglurnar sem kveðið er á um í 238. og 239. gr., skulu falla úr gildi þegar:
a)    skilyrði sem um getur í a-lið 236. gr. er ekki lengur uppfyllt,
b)    skilyrði sem um getur í b-lið 236. gr. er ekki lengur uppfyllt og samstæðan fer ekki að ákvæðinu innan hæfilegs tímabils,
c)    skilyrðin sem um getur í c- og d-lið 236. gr. eru ekki lengur uppfyllt.
Í því tilviki sem um getur í a-lið fyrstu undirgreinar, þar sem eftirlitsaðili samstæðu, að höfðu samráði við samstarfshóp eftirlitsaðila, ákveður að taka dótturfélagið ekki lengur með í samstæðueftirlitinu sem hann framkvæmir, skal hann tafarlaust upplýsa hlutaðeigandi eftirlitsyfirvald og móðurfélagið.
Að því er varðar ákvæði b-, c- og d-liðar 236. gr. skal móðurfélagið bera ábyrgð á að sjá til þess að stöðugt sé farið að skilyrðum. Sé ekki farið að skilyrðum, skal móðurfélagið upplýsa eftirlitsaðila samstæðu og eftirlitsyfirvald hlutaðeigandi dótturfélags án tafar. Móðurfélagið skal kynna áætlun um að farið sé að ákvæðum að nýju innan hæfilegs tímabils.
Með fyrirvara um þriðju undirgreinina skal eftirlitsaðili samstæðu a.m.k. árlega sannreyna, að eigin frumkvæði, að áfram sé farið að skilyrðunum sem um getur í b-, c- og d-lið 236. gr. Eftirlitsaðili samstæðu skal einnig framkvæma slíka sannprófun að beiðni hlutaðeigandi eftirlitsyfirvalds, þar sem hið síðara hefur umtalsverðar áhyggjur sem tengjast því hvort stöðugt sé farið að ákvæðum þessara skilyrða.
Þegar komið er auga á veikleika við framkvæmd sannprófunarinnar skal eftirlitsaðili samstæðu krefja móðurfélagið um að setja fram áætlun um að farið sé að ákvæðum að nýju innan hæfilegs tímabils.
Þegar eftirlitsaðili samstæðu, að höfðu samráði við samstarfshóp eftirlitsaðila, ákvarðar að áætlunin sem um getur í þriðju eða fimmtu undirgrein sé ófullnægjandi eða síðar að hún hafi ekki verið framkvæmd innan samþykkts tímabils, skal eftirlitsaðili samstæðu komast að þeirri niðurstöðu að ekki sé lengur farið að skilyrðunum sem um getur í b-, c- og d-lið 236. gr. og skal hann tafarlaust upplýsa hlutaðeigandi eftirlitsyfirvald þar um.
2.     Fyrirkomulagið sem kveðið er á um í 238. og 239. gr. skal gilda aftur þegar móðurfélagið sendir nýja umsókn og hlýtur hagstæða ákvörðun í samræmi við framsetta tilhögun í 237. gr.

241. gr.
Dótturfélög vátrygginga- eða endurtryggingafélags: framkvæmdarráðstafanir

Til að tryggja samræmda beitingu 236.–240. gr. skal framkvæmdastjórnin samþykkja framkvæmdarráðstafanir sem tilgreina:
a)    viðmiðanir sem á að beita við mat á því hvort skilyrðin sem tilgreind eru í 236. gr. eru uppfyllt,
b)    viðmiðanir sem á að beita við mat á því hvað skal teljast neyðarástand skv. 2. mgr. 239. gr. og
c)    málsmeðferðarreglur sem eftirlitsyfirvöld eiga að fylgja við upplýsingaskipti, til að leita réttar síns og til að uppfylla skyldur sínar í samræmi við 237.–240. gr.
Þessar ráðstafanir, sem er ætlað að breyta veigalitlum þáttum þessarar tilskipunar með því að auka við hana, skulu samþykktar í samræmi við reglunefndarmeðferð með grannskoðun sem um getur í 3. mgr. 301. gr.

242. gr.
Endurskoðun

1.     Framkvæmdastjórnin skal fyrir 31. október 2014 leggja mat á beitingu III. bálks, einkum að því er varðar samvinnu eftirlitsyfirvalda, og virkni, innan samstarfshóps eftirlitsaðila, réttarstöðu samstarfsnefndar evrópskra vátrygginga- og lífeyrissjóðaeftirlita og eftirlitsstarfsemi varðandi ákvörðun viðbótargjaldþolskrafna og skal hún leggja fram skýrslu til Evrópuþingsins og ráðsins, ásamt tillögum að breytingu þessarar tilskipunar, eftir því sem við á.
2.     Framkvæmdastjórnin skal fyrir 31. október 2015 leggja mat á hagræði af því að bæta samstæðueftirlit og fjármagnsstýringu innan samstæðu vátrygginga- eða endurtryggingafélaga, þ.m.t. vísun í COM(2008) 0119 og skýrslu nefndar Evrópuþingsins um efnahags- og peningamál varðandi þessa tillögu frá 16. október 2008 (A6-0413/2008). Það mat skal innihalda líklegar ráðstafanir til að bæta áreiðanleika stjórnunar vátryggingasamstæða yfir landamæri, einkum varðandi áhættu- og eignastýringu. Framkvæmdastjórnin skal m.a. taka tillit til nýrrar þróunar og framþróunar í mati sínu varðandi:
a)    samræmdan ramma til snemmíhlutunar,
b)    starfsvenjur miðlægrar áhættustýringar og rekstur innri líkana samstæðu, þ.m.t. álagsprófun,
c)    viðskipti innan samstæðu og áhættusamþjappanir,
d)    áhrif fjölbreytileika og samþjöppunar með tímanum,
e)    bindandi lagaramma vegna sáttaumleitana vegna ágreinings eftirlitsyfirvalda,
f)    samræmdan ramma um framsalshæfi eigna, ógjaldfærnimeðferð og slitameðferð sem upprætir landsbundnar hindranir félaga- eða fyrirtækjaréttar sem skipta máli vegna framsalshæfis eigna,
g)    sambærilega vernd vátryggingataka og rétthafa félaga sama hóps, einkum í krísuástandi,
h)    samræmda og fullnægjandi fjármagnaða lausn innan Evrópusambandsins fyrir ábyrgðarkerfi vátrygginga,
i)    samræmdan og bindandi lagaramma á milli lögbærra yfirvalda, seðlabanka og fjármálaráðuneyta hvað varðar hættustjórnun, lausnir og skiptingu efnahagsbyrði sem samræmir eftirlitsheimildir og fjárhagslega ábyrgð.
Framkvæmdastjórnin skal leggja fram skýrslu fyrir Evrópuþingið og ráðið, auk tillagna um breytingu þessarar tilskipunar, eftir því sem við á.

243. gr.
Dótturfélög eignarhaldsfélags á vátryggingasviði

Ákvæði 236.–242. gr. skulu gilda að breyttu breytanda um vátryggingafélög, þ.m.t. endurtryggingafélög, sem eru dótturfélög eignarhaldsfélags á vátryggingasviði.

2. þáttur
Samþjöppun áhættu og viðskipti innan samstæðu
244. gr.
Eftirlit með áhættusamþjöppun

1.     Eftirlit með áhættusamþjöppun á samstæðustigi skal viðhaft í samræmi við 2. og 3. málsgrein þessarar greinar, 246. gr. og III. kafla.
2.     Aðildarríki skulu krefja vátryggingafélög, þ.m.t. endurtryggingafélög, eða eignarhaldsfélög á vátryggingasviði um að senda reglulega skýrslu, og a.m.k. árlega, til eftirlitsaðila samstæðu um verulega áhættusamþjöppun á samstæðustigi.
Vátrygginga- eða endurtryggingafélagið sem fer fyrir samstæðunni skal senda nauðsynlegar upplýsingar til eftirlitsaðila samstæðu, eða þar sem fyrir samstæðunni fer ekki vátryggingafélag eða endurtryggingafélag skal senda upplýsingar frá eignarhaldsfélagi á vátryggingasviði eða af vátrygginga- eða endurtryggingafélagi í samstæðu sem er auðkennd af eftirlitsaðila samstæðu, að höfðu samráði við önnur hlutaðeigandi eftirlitsyfirvöld og samstæðuna sjálfa.
Áhættusamþjöppun skal háð eftirlitsendurskoðun eftirlitsaðila samstæðu.
3.     Eftirlitsaðili samstæðu skal, að höfðu samráði við önnur hlutaðeigandi eftirlitsyfirvöld og samstæðuna, greina áhættuflokka sem vátryggingafélög, þ.m.t. endurtryggingafélög, í tiltekinni samstæðu skulu tilkynna um við allar kringumstæður.
Þegar eftirlitsaðili samstæðu og önnur hlutaðeigandi eftirlitsyfirvöld skilgreina eða gefa álit sitt á áhættuflokkum skulu þau taka tillit til sérstakrar uppbyggingar samstæðna og áhættustjórnunaraðferða í samstæðunni.
Til að geta greint verulega áhættusamþjöppun sem ber að tilkynna, skal eftirlitsaðili samstæðu, að höfðu samráði við önnur hlutaðeigandi eftirlitsyfirvöld og samstæðuna, leggja á viðeigandi viðmiðunarmörk byggð á gjaldþolskröfum, vátryggingaskuld eða hvoru tveggja.
Við endurskoðun áhættusamþjöppunar skal eftirlitsaðili samstæðu einkum fylgjast með mögulegri smithættu innan samstæðunnar, hættu á hagsmunaárekstrum og stigi eða umfangi áhættu.
4.     Framkvæmdastjórnin getur samþykkt framkvæmdarráðstafanir, að því er varðar skilgreiningu og auðkenningu umtalsverðrar áhættusamþjöppunar og tilkynningu slíkrar áhættusamþjöppunar, að því er varðar 2. og 3. málsgrein.
Þessar ráðstafanir, sem er ætlað að breyta veigalitlum þáttum þessarar tilskipunar með því að auka við hana, skulu samþykktar í samræmi við reglunefndarmeðferð með grannskoðun sem um getur í 3. mgr. 301. gr.

245. gr.
Eftirlit með viðskiptum innan samstæðu

1.     Eftirlit með viðskiptum innan samstæðu skal viðhaft í samræmi við 2. og 3. málsgrein þessarar greinar, 246. gr. og III. kafla.
2.     Aðildarríki skulu krefja vátryggingafélög, þ.m.t. endurtryggingafélög eða eignarhaldsfélög á vátryggingasviði um að senda reglulega skýrslu, a.m.k. árlega til eftirlitsaðila samstæðu varðandi öll veruleg viðskipti vátryggingarfélaga innan samstæðu, þ.m.t. endurtryggingafélög innan samstæðu, þ.m.t. þau sem eru gerð við einstakling með náin tengsl við félag í samstæðunni.
Til viðbótar skulu aðildarríki krefjast tilkynningar um veruleg viðskipti innan samstæðu eins fljótt og auðið er.
Vátrygginga- eða endurtryggingafélag sem fer fyrir samstæðunni skal senda nauðsynlegar upplýsingar til eftirlitsaðila samstæðu, eða þar sem fyrir samstæðunni fer ekki vátryggingafélag eða endurtryggingafélag skal senda upplýsingar frá eignarhaldsfélagi á vátryggingasviði eða af vátrygginga- eða endurtryggingafélagi í samstæðu sem er auðkennt af eftirlitsaðila samstæðu að höfðu samráði við önnur hlutaðeigandi eftirlitsyfirvöld og samstæðuna sjálfa.
Viðskipti innan samstæðu skulu falla undir eftirlitsendurskoðun eftirlitsaðila samstæðu.
3.     Eftirlitsaðili samstæðu skal, að höfðu samráði við önnur hlutaðeigandi eftirlitsyfirvöld og samstæðuna, greina eðli viðskipta vátryggingafélaga innan samstæðu, þ.m.t. endurtryggingafélaga innan samstæðu í tiltekinni samstæðu sem skal tilkynna við allar kringumstæður. Ákvæði 3. mgr. 244. gr. gilda, að breyttu breytanda.
4.     Framkvæmdastjórnin getur samþykkt framkvæmdarráðstafanir, að því er varðar skilgreiningu og greiningu verulegra viðskipta innan samstæðu og tilkynningu slíkra viðskipta innan samstæðu, að því er varðar 2. og 3. málsgrein.
Þessar ráðstafanir, sem er ætlað að breyta veigalitlum þáttum þessarar tilskipunar með því að auka við hana, skulu samþykktar í samræmi við reglunefndarmeðferð með grannskoðun sem um getur í 3. mgr. 301. gr.

3. þáttur
Áhættustjórnun og innra eftirlit
246. gr.
Eftirlit með stjórnkerfi

1.     Kröfurnar sem eru settar fram í 2. þætti IV. kafla I. bálks skulu gilda að breyttu breytanda á samstæðustigi.
Með fyrirvara um fyrstu undirgrein skal koma áhættustýringu og innri eftirlitskerfum og verklagi við skýrslugjöf á með samræmdum hætti í öllum félögum sem eru innan samstæðueftirlits samkvæmt ákvæðum a- og b-liðar 2. mgr. 213. gr. til að hægt sé að stýra þessum kerfum og verklagi við skýrslugjöf á samstæðustigi.
2.     Með fyrirvara um ákvæði 1. málsgreinar skal innra eftirlitskerfi samstæðu að lágmarki innihalda eftirfarandi:
a)    fullnægjandi kerfi að því er varðar gjaldþol samstæðu til að greina og mæla alla verulega áhættu sem stofnað er til og tengja viðurkennt eigið fé áhættunni á viðeigandi hátt,
b)    traust fyrirkomulag við skýrslugjöf og bókhald til að fylgjast með og stýra viðskiptum innan samstæðunnar og áhættusamþjöppun.
3.     Eftirlitsaðili samstæðu hefur endurskoðun kerfismeðferðar og verklags við skýrslugjöf með höndum sem um getur í 1. og 2. málsgrein, í samræmi við reglurnar sem mælt er fyrir um í III. kafla.
4.     Aðildarríki skulu fara fram á að hluteignarfélag á vátryggingasviði eða endurtryggingasviði eða eignarhaldsfélag á vátryggingasviði taki að sér matið á samstæðustigi sem krafist er skv. 45. gr. Matið á eigin áhættu og gjaldþoli sem fer fram á samstæðustigi skal vera háð endurskoðun eftirlitsaðila samstæðu í samræmi við III. kafla.
Þar sem útreikningur gjaldþols á samstæðustigi er framkvæmdur í samræmi við 1. aðferð sem um getur í 230. gr., skulu hluteignarfélag á vátryggingasviði eða endurtryggingasviði eða eignarhaldsfélag á vátryggingasviði veita eftirlitsaðila samstæðu viðeigandi upplýsingar um mismuninn á milli summu gjaldþolskrafna allra tengdra vátrygginga- eða endurtryggingafélaga samstæðu og samsteyptri gjaldþolskröfu samstæðu.
Þar sem hluteignarfélag á tryggingasviði eða endurtryggingasviði eða eignarhaldsfélag á vátryggingasviði ákveður svo, og með fyrirvara um samkomulag eftirlitsaðila samstæðu, getur það framkvæmt hvaða mat sem krafist er í 45. gr. á samstæðustigi og á stigi hvaða dótturfélags sem er í samstæðunni á sama tíma og getur búið til eitt skjal sem tekur til allra mata.
Áður en samkomulag er veitt í samræmi við þriðju undirgrein skal eftirlitsaðili samstæðu hafa samráð við aðila að samstarfshópi eftirlitsaðila og taka tillit til skoðana þeirra eða fyrirvara á viðeigandi hátt.
Þegar samstæðan beitir valkostinum í þriðju undirgrein skal hún senda skjalið til allra hlutaðeigandi eftirlitsyfirvalda á sama tíma. Með beitingu þess valkosts skulu hlutaðeigandi dótturfélög ekki undanþegin frá skuldbindingunni sem tryggir að skilyrðin í 45. gr. séu uppfyllt.

III. KAFLI
Ráðstafanir til að auðvelda samstæðueftirlit

247. gr.
Eftirlitsaðili samstæðu

1.     Tilnefna skal einstakan eftirlitsaðila sem ber ábyrgð á samræmingu og beitingu eftirlits með samstæðu (eftirlitsaðili samstæðu), úr hópi eftirlitsyfirvalda hlutaðeigandi aðildarríkja.
2.     Þar sem sama eftirlitsyfirvaldið er lögbært fyrir öll vátryggingafélög, þ.m.t. endurtryggingafélög, samstæðu skal verkefni eftirlitsaðila samstæðu vera í höndum þess eftirlitsyfirvalds.
Í öllum öðrum tilvikum og með fyrirvara um 3. mgr. skulu verkefni eftirlitsaðila samstæðu framkvæmd á eftirfarandi hátt:
a)    þar sem vátrygginga- eða endurtryggingafélag fer fyrir samstæðunni, af eftirlitsyfirvaldi sem hefur heimilað viðkomandi félag,
b)    þar sem vátrygginga- eða endurtryggingafélag fer ekki fyrir samstæðunni, af eftirlitsyfirvaldi sem eftirfarandi á við um:
    i.    þar sem móðurfélag vátrygginga- eða endurtryggingafélags er eignarhaldsfélag á vátryggingasviði, af eftirlitsyfirvaldi sem hefur heimilað það vátrygginga- eða endurtryggingafélag,
    ii.    þar sem eitt eða fleiri vátrygginga- eða endurtryggingafélag hefur aðalskrifstofu í Bandalaginu þar sem móðurfélag þeirra er sama eignarhaldsfélag á vátryggingasviði og eitt þessara félaga hefur fengið starfsleyfi í aðildarríkinu þar sem eignarhaldsfélag á fjármálasviði hefur aðalskrifstofu sína, af eftirlitsyfirvaldi vátrygginga- eða endurtryggingafélags sem hefur fengið starfsleyfi í því aðildarríki,
    iii.    þar sem fleiri en eitt eignarhaldsfélag á vátryggingasviði fer fyrir samstæðunni sem hefur aðalskrifstofu í mismunandi aðildarríkjum og þar sem vátrygginga- eða endurtryggingafélag er í hverju þessara aðildarríkja, af eftirlitsyfirvaldi vátrygginga- eða endurtryggingafélags með hæstu niðurstöðutölu efnahagsreiknings,
    iv.    þar sem eitt eða fleiri vátrygginga- eða endurtryggingafélög hafa aðalskrifstofu í Bandalaginu þar sem móðurfélagið er sama eignarhaldsfélag á vátryggingasviði og ekkert þessara félaga hefur fengið starfsleyfi í aðildarríkinu þar sem eignarhaldsfélag á fjármálasviði hefur aðalskrifstofu sína, af eftirlitsyfirvaldi sem veitti vátrygginga- eða endurtryggingafélagi með hæstu niðurstöðutölu efnahagsreiknings starfsleyfi eða
    v.    þar sem samstæðan er samstæða án móðurfélags, eða við einhverjar kringumstæðum þar sem hennar er ekki getið í i.–iv. lið, af eftirlitsyfirvaldi sem veitti vátrygginga- eða endurtryggingafélagi með hæstu niðurstöðutölu efnahagsreiknings starfsleyfi.
3.     Í sérstökum tilvikum geta hlutaðeigandi eftirlitsyfirvöld, að beiðni einhverra yfirvalda, tekið sameiginlega ákvörðun um að víkja frá framsettum viðmiðunum í 2. mgr. þar sem beiting þeirra væri óviðeigandi, með tilliti til uppbyggingar samstæðunnar og hlutfallslegs mikilvægis starfsemi vátryggingafélaga, þ.m.t. endurtryggingafélaga, í mismunandi löndum og tilnefnt annað eftirlitsyfirvald sem eftirlitsaðila samstæðu.
Í því skyni getur eitthvert hlutaðeigandi eftirlitsyfirvalda farið fram á að fjallað sé um hvort viðmiðunin sem um getur í 2. mgr. sé viðeigandi. Slík umfjöllun skal ekki fara fram oftar en árlega.
Hlutaðeigandi eftirlitsyfirvöld skulu gera allt sem í þeirra valdi stendur til að komast að sameiginlegri niðurstöðu um val á eftirlitsaðila samstæðu innan þriggja mánaða frá beiðninni um umfjöllun. Áður en hlutaðeigandi eftirlitsyfirvöld taka ákvörðun skulu þau gefa samstæðunni tækifæri á að tjá álit sitt.
4.     Á þriggja mánaða tímabilinu sem um getur í þriðju undirgrein 3. mgr. getur hvert hlutaðeigandi eftirlitsyfirvald farið fram á að samráð sé haft við samstarfsnefnd evrópskra vátrygginga- og lífeyrissjóðaeftirlita. Sé samráð haft við samstarfsnefnd evrópskra vátrygginga- og lífeyrissjóðaeftirlita skal tímabilið framlengt um tvo mánuði.
5.     Komi til þess að samráð sé haft við samstarfsnefnd evrópskra vátrygginga- og lífeyrissjóðaeftirlita, skulu hlutaðeigandi eftirlitsyfirvöld á viðeigandi hátt taka tillit til ráðlegginga samstarfsnefndar evrópskra vátrygginga- og lífeyrissjóðaeftirlita áður en þau taka sameiginlega ákvörðun. Í sameiginlegu ákvörðuninni skal tilgreina allar ástæður og skal hún innihalda útskýringu á umtalsverðu fráviki frá öllum ráðleggingum sem samstarfsnefnd evrópskra vátrygginga- og lífeyrissjóðaeftirlita hefur veitt.
6.     Ef ekki er komist að sameiginlegri ákvörðun um að víkja frá framsettum viðmiðunum í 2. mgr. skal verkefni eftirlitsaðila samstæðu framkvæmt af auðkenndu eftirlitsyfirvaldi í samræmi við 2. málsgrein.
7.     Samstarfsnefnd evrópskra vátrygginga- og lífeyrissjóðaeftirlita skal upplýsa Evrópuþingið, ráðið og framkvæmdastjórnina a.m.k. árlega um veruleg vandkvæði varðandi beitingu 2., 3. og 6. málsgreinar.
Komi upp veruleg vandkvæði vegna beitingar framsettra viðmiðana í 2. og 3. mgr. skal framkvæmdastjórnin samþykkja framkvæmdarráðstafanir sem tilgreina þessar viðmiðanir.
Þessar ráðstafanir, sem er ætlað að breyta veigalitlum þáttum þessarar tilskipunar með því að auka við hana, skulu samþykktar í samræmi við reglunefndarmeðferð með grannskoðun sem um getur í 3. mgr. 301. gr.
8.     Ef í aðildarríki eru fleiri en eitt eftirlitsyfirvald sem hafa með höndum varfærniseftirlit vátryggingafélaga, þ.m.t. endurtryggingafélaga, skulu þau aðildarríki grípa til nauðsynlegra ráðstafana til að tryggja samræmingu á milli þessara yfirvalda.

248. gr.
Réttindi og skyldur eftirlitsaðila samstæðu og annarra eftirlitsaðila – samstarfshópur eftirlitsaðila

1.     Réttindi og skyldur sem úthlutað er til eftirlitsaðila samstæðu að því er varðar samstæðueftirlit skulu taka til eftirfarandi:
a)    samræmingar söfnunar og miðlunar viðeigandi eða mikilvægra upplýsinga, vegna áframhaldandi rekstrarhæfis og neyðartilvika, þ.m.t. miðlun upplýsinga sem eru mikilvægar fyrir eftirlitsverkefni eftirlitsyfirvalds,
b)    sérstakrar endurskoðunar og mats á fjárhagsstöðu samstæðu,
c)    mats á því hvort farið sé að reglunum um gjaldþol og áhættusamþjöppun og viðskiptum innan samstæðunnar eins og fram kemur í 218.–245. gr.,
d)    mats á stjórnkerfi samstæðunnar, líkt og sett er fram í 246. gr. og hvort aðilar að stjórn, framkvæmdastjórn eða eftirlitsstjórn hluteignarfélags uppfylli kröfurnar sem settar eru fram í 42. gr. og 257. gr.,
e)    áætlanagerðar og samræmingar, með reglulegum fundum sem eru haldnir að lágmarki árlega eða með öðrum viðeigandi leiðum, með eftirlitsstarfsemi fyrir áframhaldandi rekstrarhæfi sem og í neyðartilvikum í samstarfi við hlutaðeigandi eftirlitsyfirvöld þar sem tekið er tillit til eðlis, umfangs og þess hve flókin innbyggð áhætta er í viðskiptum allra félaga sem eru hluti samstæðunnar,
f)    annarra verkefna, ráðstafana og ákvarðana sem úthlutað er til eftirlitsaðila samstæðu með þessari tilskipun eða hljótast af beitingu þessarar tilskipunar, einkum vegna þess sem leiðir fullgildingarferli innra líkans á samstæðustigi líkt og sett er fram í 231. og 233. gr. og leiðir ferlið til að heimila beitingu reglna sem var komið á með ákvæðum 237.–240. gr.
2.     Til að greiða fyrir beitingu verkefna samstæðueftirlits sem um getur í 1. mgr. skal koma á fót samstarfshópi eftirlitsaðila undir forystu eftirlitsaðila samstæðu.
Samstarfshópur eftirlitsaðila skal sjá til þess að samvinna, upplýsingaskipti og samráðsferli fari fram á skilvirkan hátt á meðal eftirlitsyfirvalda sem eru meðlimir í samstarfshópi eftirlitsaðila, í samræmi við III. bálk, með það í huga að kynna samleitni viðkomandi ákvarðana og aðgerða.
3.     Aðild að samstarfshópi eftirlitsaðila skal ná yfir eftirlitsaðila samstæðu og eftirlitsyfirvöld allra aðildarríkjanna þar sem aðalskrifstofa allra dótturfélaga er staðsett.
Eftirlitsyfirvöldum mikilvægra útibúa og tengdra félaga skal einnig gert kleift að taka þátt í samstarfshópi eftirlitsaðila. Þó skal takmarka þátttöku þeirra við að ná markmiðinu um skilvirk upplýsingaskipti.
Til að ná árangursríkri starfsemi samstarfshóps eftirlitsaðila, gæti þess verið krafist að einhver verkefni séu í höndum færri eftirlitsyfirvalda.
4.     Án þess að hafa áhrif á ráðstafanir sem eru samþykktar samkvæmt þessari tilskipun, skal byggja stofnun og rekstur samstarfshóps eftirlitsaðila á samræmingarfyrirkomulagi sem var komið á af eftirlitsaðila samstæðu og öðrum hlutaðeigandi eftirlitsyfirvöldum.
Séu skiptar skoðanir varðandi samræmingarfyrirkomulag getur hvaða aðili að samstarfshópi eftirlitsaðila sem er vísað málinu til samstarfsnefndar evrópskra vátrygginga- og lífeyrissjóðaeftirlita.
Að höfðu samráði við hlutaðeigandi eftirlitsyfirvöld skal eftirlitsaðili samstæðu íhuga ráðleggingar samstarfsnefndar evrópskra vátrygginga- og lífeyrissjóðaeftirlita á viðeigandi hátt innan tveggja mánaða frá móttöku þeirra áður en hann tekur endanlega ákvörðun. Í ákvörðuninni skal tilgreina allar ástæður og skal hún innihalda útskýringu á umtalsverðu fráviki frá hvers konar ráðleggingum sem samstarfsnefnd evrópskra vátrygginga- og lífeyrissjóðaeftirlita hefur veitt. Eftirlitsaðili samstæðu skal senda ákvörðunina til annarra hlutaðeigandi eftirlitsyfirvalda.
5.     Með fyrirvara um ráðstafanir sem samþykktar eru samkvæmt þessari tilskipun, skal samræmingarfyrirkomulagið sem um getur í 4. mgr. tilgreina málsmeðferð fyrir:
a)    ferli við ákvarðanatöku á meðal hlutaðeigandi eftirlitsyfirvalda í samræmi við 231., 232. og 247. gr.,
b)    samráð skv. 4. mgr. þessarar greinar og samkvæmt 5. mgr. 218. gr.
Með fyrirvara um réttindi og skyldur sem úthlutað er til eftirlitsaðila samstæðu og til annarra eftirlitsyfirvalda með þessari tilskipun getur samræmingarfyrirkomulagið haft í för með sér viðbótarverkefni til handa eftirlitsaðila samstæðu eða til annarra eftirlitsyfirvalda þar sem þetta gæti leitt til skilvirkara eftirlits með samstæðunni og myndi ekki skerða eftirlitsstarfsemi aðila að samstarfshópi eftirlitsaðila að því er varðar einstaklingsábyrgð.
Til viðbótar getur samræmingarfyrirkomulagið sett fram málsmeðferðarreglur fyrir:
a)    samráð hlutaðeigandi eftirlitsyfirvalda, einkum sem um getur í 213.–217. gr., 219.–221. gr., 227. gr., 244.–246. gr., 250. gr., 256. gr., 260. gr. og 262. gr.,
b)    samvinnu við önnur eftirlitsyfirvöld.
6.     Samstarfsnefnd evrópskra vátrygginga- og lífeyrissjóðaeftirlita skal útfæra viðmiðunarreglur fyrir rekstrarþætti samstarfshóps eftirlitsaðila á grunni ítarlegrar endurskoðunar á vinnu þeirra til að meta stig samleitni á milli þeirra. Slík endurskoðun skal að lágmarki fara fram á þriggja ára fresti. Aðildarríki skulu sjá til þess að eftirlitsaðili samstæðu sendi upplýsingar til samstarfsnefndar evrópskra vátrygginga- og lífeyrissjóðaeftirlita um rekstur samstarfshóps eftirlitsaðila og um alla erfiðleika sem koma í ljós sem skipta máli vegna þessarar endurskoðunar.
7.     Framkvæmdastjórnin skal samþykkja framkvæmdarráðstafanir vegna samræmingar samstæðueftirlits að því er varðar 1. til 6. mgr., þ.m.t. skilgreiningin „mikilvægt útibú“.
Þessar ráðstafanir, sem er ætlað að breyta veigalitlum þáttum þessarar tilskipunar með því að auka við hana, skulu samþykktar í samræmi við reglunefndarmeðferð með grannskoðun sem um getur í 3. mgr. 301. gr.

249. gr.
Samvinna og upplýsingaskipti milli eftirlitsyfirvalda

1.     Yfirvöld sem bera ábyrgð á eftirliti einstakra vátryggingafélaga, þ.m.t. endurtryggingafélaga, í samstæðu og eftirlitsaðili samstæðu skulu vinna náið saman, einkum þegar vátrygginga- eða endurtryggingafélag á í fjárhagserfiðleikum.
Með það að markmiði að tryggja að eftirlitsyfirvöld, þ.m.t. eftirlitsaðili samstæðu, búi yfir sömu upplýsingum sem skipta máli, með fyrirvara um viðkomandi ábyrgð þeirra, og án tillits til staðfestu þeirra í sama aðildarríki, skulu þau veita hvort öðru slíkar upplýsingar til að heimila og greiða fyrir beitingu eftirlitsverkefna annarra yfirvalda samkvæmt ákvæðum þessarar tilskipunar. Með það fyrir augum skulu hlutaðeigandi eftirlitsyfirvöld og eftirlitsaðili samstæðu tilkynna hvort öðru án tafar allar upplýsingar sem skipta máli, jafnskjótt og þær eru fáanlegar. Upplýsingarnar sem um getur í þessari undirgrein ná yfir, en eru ekki afmarkaðar við, upplýsingar um aðgerðir samstæðunnar og eftirlitsyfirvalda og upplýsingar sem hafa verið veittar af samstæðunni.
2.     Yfirvöld sem bera ábyrgð á eftirliti einstakra vátryggingafélaga, þ.m.t. endurtryggingafélaga, í samstæðu og eftirlitsaðili samstæðu skulu hver um sig boða öll eftirlitsyfirvöld sem hafa tekið þátt í samstæðueftirliti til fundar a.m.k. við eftirfarandi kringumstæður:
a)    þegar þau verða þess áskynja að um umtalsvert brot einstakra vátrygginga- eða endurtryggingafélaga á gjaldþolskröfu eða brot á lágmarkskröfu um eigið fé er að ræða,
b)    þegar þau verða þess áskynja að um umtalsvert brot á gjaldþolskröfu á samstæðustigi er að ræða, reiknað út á grunni samsteyptra gagna eða uppsafnaðrar gjaldþolskröfu samstæðu, í samræmi við hvaða útreikniaðferð er notuð skv. 4. undirþætti 1. þáttar II. kafla III. bálks,
c)    þegar aðrar sérstakar aðstæður koma upp eða hafa komið upp.
3.     Framkvæmdastjórnin skal samþykkja framkvæmdarráðstafanir þar sem ákvarðað er hvaða upplýsingum eftirlitsaðili samstæðu skal safna á kerfisbundinn hátt og miðla til annarra hlutaðeigandi eftirlitsyfirvalda eða sem önnur hlutaðeigandi eftirlitsyfirvöld skulu senda eftirlitsaðila samstæðu.
Framkvæmdastjórnin skal samþykkja framkvæmdarráðstafanir þar sem þær upplýsingar eru tilgreindar sem eru mikilvægar eða viðeigandi fyrir eftirlit á samstæðustigi með það í huga að bæta samleitni skýrslugjafar eftirlitsaðila.
Þær ráðstafanir, sem um getur í þessari málsgrein og er ætlað að breyta veigalitlum þáttum þessarar tilskipunar með því að bæta við hana, skulu samþykktar í samræmi við þá reglunefndarmeðferð með grannskoðun sem um getur í 3. mgr. 301. gr.

250. gr.
Samráð eftirlitsyfirvalda

1.     Með fyrirvara um 248. gr. skulu hlutaðeigandi eftirlitsyfirvöld, áður en mikilvæg ákvörðun varðandi eftirlitsverkefni annarra eftirlitsyfirvalda er tekin, hafa samráð sín á milli innan samstarfshóps eftirlitsaðila að því er varðar eftirfarandi:
a)    breytingar á hluthafafyrirkomulagi, stjórnskipulagi eða stjórnunarfyrirkomulagi vátryggingafélaga, þ.m.t. endurtryggingafélaga, í samstæðu sem þarfnast samþykkis eða leyfis eftirlitsyfirvalda og
b)    ströng viðurlög eða sérstakar neyðarráðstafanir sem eftirlitsyfirvöld grípa til, þ.m.t. álagning viðbótargjaldþolskröfu á gjaldþolskröfuna ,skv. 37. gr. og álagningu takmarkana á notkun innra líkans við útreikning á gjaldþolskröfunni skv. 3. undirþætti, 4. þáttar, VI. kafla, I. bálks.
Að því er varðar b-lið, skal ávallt hafa samráð við eftirlitsaðila samstæðu.
Þar að auki skulu hlutaðeigandi eftirlitsyfirvöld hafa samráð sín á milli fyrir ákvarðanatöku, ef ákvörðun er byggð á upplýsingum frá öðrum eftirlitsyfirvöldum.
2.     Með fyrirvara um 248. gr. getur eftirlitsyfirvald ákveðið að hafa ekki samráð í málum sem þola enga bið eða þegar slíkt samráð getur teflt skilvirkni ákvörðunar í tvísýnu. Í því tilviki skal eftirlitsyfirvaldið án tafar tilkynna öðrum hlutaðeigandi eftirlitsyfirvöldum um það.

251. gr.
Beiðnir eftirlitsaðila samstæðu til annarra eftirlitsyfirvalda um upplýsingar

Eftirlitsaðili samstæðu getur farið fram á að eftirlitsyfirvöld aðildarríkisins þar sem móðurfélag hefur aðalskrifstofu sína, og sem hafa ekki sjálf samstæðueftirlit með höndum skv. 247. gr., leiti eftir öllum upplýsingum frá móðurfélaginu sem gætu skipt máli fyrir framkvæmd réttinda til samræmingar, sem mælt er fyrir um í 248. gr., og sendi eftirlitsaðila samstæðunnar þær upplýsingar.
Ef eftirlitsaðili samstæðu þarfnast upplýsinga sem um getur í 2. mgr. 247. gr., sem hafa þegar verið gefnar öðru eftirlitsyfirvaldi, skal hann hafa samband við það yfirvald, þegar unnt er, til að koma í veg fyrir tvítekningu skýrslugjafar til hinna ýmsu yfirvalda, sem koma að eftirliti.

252. gr.
Samstarf við yfirvöld sem bera ábyrgð á lánastofnunum og fjárfestingarfyrirtækjum

Ef vátrygginga- eða endurtryggingafélag og annaðhvort lánastofnun eins og hún er skilgreind í tilskipun 2006/48/EB eða fjárfestingarfyrirtæki eins og það er skilgreint í tilskipun 2004/39/EB eða bæði, eru tengd beint eða óbeint eða hafa sameiginlegt hluteignarfélag, skulu hlutaðeigandi eftirlitsyfirvöld og yfirvöld sem bera ábyrgð á eftirliti með þessum öðru félögum hafa með sér náið samstarf.
Með fyrirvara um ábyrgð hvers fyrir sig skulu þessi yfirvöld veita hvert öðru allar upplýsingar sem geta auðveldað störf þeirra, einkum eins og sett er fram í þessum bálki.

253. gr.
Þagnarskylda og trúnaðarkvöð

Aðildarríkin skulu heimila upplýsingaskipti á milli eftirlitsyfirvalda sinna og á milli eftirlitsyfirvalda sinna og annarra yfirvalda eins og um getur í ákvæðum 249.–252. gr.
Um upplýsingar sem aflað er innan rammafyrirkomulags við samstæðueftirlit, einkum hvers konar upplýsingaskipti á milli eftirlitsyfirvalda og á milli eftirlitsyfirvalda og annarra yfirvalda, sem kveðið er á um í þessum bálki, gilda ákvæði 295. gr.

254. gr.
Aðgangur að upplýsingum

1.     Aðildarríki skulu sjá til þess að einstaklingar og lögaðilar sem falla undir samstæðueftirlit, og tengd félög og hluteignarfélög þeirra, geti skipst á upplýsingum sem gætu skipt máli við samstæðueftirlit.
2.     Aðildarríki skulu kveða á um að yfirvöld þeirra sem bera ábyrgð á framkvæmd samstæðueftirlits skuli hafa aðgang að öllum upplýsingum, sem skipta máli að því er varðar það eftirlit, án tillits til tegundar hlutaðeigandi félags. Ákvæði 35. gr. gilda að breyttu breytanda.
Hlutaðeigandi eftirlitsyfirvöld mega aðeins hafa beint samband við félög í samstæðunni í þeim tilgangi að nálgast nauðsynlegar upplýsingar ef vátrygginga- eða endurtryggingafélagið sem fellur undir samstæðueftirlitið hefur beðið um þær upplýsingar og félagið hefur ekki gefið þær upp innan hæfilegs tíma.

255. gr.
Sannprófun upplýsinga

1.     Aðildarríki skulu sjá til þess að eftirlitsyfirvöldum þeirra sé heimilt að sannprófa á vettvangi, innan yfirráðasvæða þeirra, annað hvort sjálf eða fyrir milligöngu einstaklinga sem þau tilnefna í því skyni, upplýsingarnar sem um getur í 254. gr. á athafnasvæði eftirfarandi:
a)    vátrygginga- eða endurtryggingafélags sem fellur undir samstæðueftirlit,
b)    félaga sem eru tengd vátrygginga- eða endurtryggingafélaginu,
c)    móðurfélaga vátrygginga- eða endurtryggingafélagsins,
d)    félaga sem eru tengd móðurfélagi vátrygginga- eða endurtryggingafélagsins.
2.     Kjósi eftirlitsyfirvöld að sannprófa, í sérstökum tilvikum, upplýsingar um félag sem er hluti af samstæðu og staðsett í öðru aðildarríki, hvort sem það er eftirlitsskylt eða ekki, skulu þau fara þess á leit að eftirlitsyfirvöld þess aðildarríkis annist sannprófunina.
Yfirvöld, sem fá slíka beiðni, skulu bregðast við beiðninni innan ramma síns valdsviðs, annaðhvort með því að framkvæma sannprófunina sjálf, með því að heimila endurskoðanda eða sérfræðingi að framkvæma hana eða með því að heimila yfirvaldinu, sem lagði fram beiðnina, að annast sannprófunina sjálft. Upplýsa skal eftirlitsaðila samstæðu um þá aðgerð sem gripið er til.
Eftirlitsyfirvaldið, sem lagði fram beiðnina, getur tekið þátt í sannprófun sem það annast ekki sjálft ef það óskar eftir því.

256. gr.
Skýrsla um gjaldþol samstæðu og fjárhagsstöðu

1.     Aðildarríki skulu krefjast þess að hluteignarfélög á vátrygginga- og endurtryggingasviði eða eignarhaldsfélög á vátryggingasviði birti opinberlega, á ársgrundvelli, skýrslu um gjaldþol og fjárhagsstöðu á samstæðustigi. Ákvæði 51. gr. og 53.–55. gr. gilda að breyttu breytanda.
2.     Ef hluteignarfélag á vátrygginga- eða endurtryggingasviði eða eignarhaldsfélag á vátryggingasviði ákveður svo, og með fyrirvara um samþykki eftirlitsaðila samstæðu, getur það lagt fram eina skýrslu um gjaldþol og fjárhagsstöðu sem skal taka til eftirfarandi:
a)    upplýsingar á samstæðustigi sem skulu birtar í samræmi við 1. mgr.,
b)    upplýsingar um öll dótturfélög innan samstæðu, sem hægt verður að greina fyrir hvert þeirra, og birtar í samræmi við 51. gr. og 53.–55. gr.
Áður en samþykki er veitt í samræmi við fyrstu undirgrein, skal eftirlitsaðili samstæðu ráðfæra sig við aðila samstarfshóps eftirlitsaðila og taka tillit til álita og fyrirvara þeirra.
3.     Ef skýrslan sem um getur í 2. mgr. tekur ekki til upplýsinga sem eftirlitsyfirvald, sem hefur viðurkennt dótturfélag innan samstæðu, hefur krafist frá sambærilegum félögum og vöntun þeirra upplýsinga er veigamikil, skal hlutaðeigandi eftirlitsyfirvald hafa heimild til að krefjast þess að viðkomandi dótturfélag birti nauðsynlegar viðbótarupplýsingar.
4.     Framkvæmdastjórnin skal samþykkja framkvæmdarráðstafanir og tilgreina þar með nánar þær upplýsingar sem verður að birta, og með hvaða aðferðum því verði náð að því er varðar eina skýrslu um gjaldþol og fjárhagsstöðu.
Þessar ráðstafanir, sem er ætlað að breyta veigalitlum þáttum þessarar tilskipunar með því að auka við hana, skulu samþykktar í samræmi við reglunefndarmeðferð með grannskoðun sem um getur í 3. mgr. 301. gr.

257. gr.
Stjórn, framkvæmdastjórn eða eftirlitsaðili eignarhaldsfélaga á vátryggingasviði

Aðildarríki skulu tryggja að allir þeir aðilar sem í reynd stjórna rekstri eignarhaldsfélags á vátryggingasviði séu hæfir og heiðarlegir til að uppfylla skyldur sínar.
Ákvæði 42. gr. gilda að breyttu breytanda.

258. gr.
Fullnusturáðstafanir

1.     Uppfylli vátrygginga- eða endurtryggingafélög í samstæðu ekki kröfurnar, sem um getur í 218.–246. gr., eða, ef kröfunum er fullnægt en gjaldþoli kann engu að síður að vera teflt í tvísýnu eða ef viðskipti innan samstæðunnar eða áhættusamþjöppun ógnar fjárhagsstöðu vátrygginga- eða endurtryggingafélaganna, er þess krafist að eftirfarandi aðilar geri nauðsynlegar ráðstafanir til að ráða bót á vandanum eins fljótt og unnt er:
a)    eftirlitsaðili samstæðu að því er varðar eignarhaldsfélag á vátryggingasviði,
b)    eftirlitsyfirvöld að því er varðar vátryggingafélög, þ.m.t. endurtryggingafélög.
Ef eftirlitsaðili samstæðu er ekki eitt eftirlitsyfirvalda þess aðildarríkis þar sem eignarhaldsfélag á vátryggingasviði hefur aðalskrifstofu sína, í tilviki sem um getur í a-lið fyrstu undirgreinar, skal eftirlitsaðili samstæðu upplýsa þau eftirlitsyfirvöld um niðurstöður sínar með það í huga að gera þeim kleift að gera viðeigandi ráðstafanir.
Ef eftirlitsaðili samstæðu er ekki eitt eftirlitsyfirvalda þess aðildarríkis þar sem vátrygginga- eða endurtryggingafélag hefur aðalskrifstofu sína, í tilviki sem um getur í b-lið fyrstu undirgreinar, skal eftirlitsaðili samstæðu upplýsa þau eftirlitsyfirvöld um niðurstöður sínar með það í huga að gera þeim kleift að gera viðeigandi ráðstafanir.
Með fyrirvara um 2. mgr. skulu aðildarríkin ákvarða hvaða ráðstafana eftirlitsyfirvöld þeirra geta gripið til varðandi eignarhaldsfélög á vátryggingasviði.
Hlutaðeigandi eftirlitsyfirvöld, þ.m.t. eftirlitsaðili samstæðu, skulu samræma fullnusturáðstafanir eftir því sem við á.
2.     Án þess að hafa áhrif á ákvæði hegningarlaga sinna, skulu aðildarríki sjá til þess að hægt sé að beita viðurlögum eða gera ráðstafanir vegna eignarhaldsfélaga á vátryggingasviði sem brjóta í bága við lög, reglugerðir eða stjórnsýsluákvæði sem samþykkt eru vegna framkvæmdar á þessum bálki, eða vegna aðila sem í reynd stýra þeim félögum. Eftirlitsyfirvöld skulu hafa með sér nána samvinnu til að sjá til þess að þessi viðurlög eða ráðstafanir séu skilvirk, einkum ef yfirstjórn eða höfuðstöðvar eignarhaldsfélags á vátryggingasviði eru ekki á aðalskrifstofu þess.
3.     Framkvæmdastjórnin getur samþykkt framkvæmdarráðstafanir vegna samræmingar á ráðstöfunum til framfylgdar sem um getur í 1. og 2. málsgrein.
Þessar ráðstafanir, sem er ætlað að breyta veigalitlum þáttum þessarar tilskipunar með því að bæta við hana, skulu samþykktar í samræmi við reglunefndarmeðferð með grannskoðun sem um getur í 3. mgr. 301. gr.

259. gr.
Skýrslugjöf samstarfsnefndar evrópskra vátrygginga- og lífeyrissjóðaeftirlita (CEIOPS)

1.     Samstarfsnefnd evrópskra vátrygginga- og lífeyrissjóðaeftirlita skal árlega taka þátt í almennri skýrslugjöf þingmannanefndar í Evrópuþinginu. Ef þess háttar þátttaka fellur saman við kröfu samstarfsnefndar evrópskra vátrygginga- og lífeyrissjóðaeftirlita um upplýsingaskyldu skv. 3. mgr. 71. gr., skal uppfylla þá kröfu, að því er varðar Evrópuþingið, með þátttöku samstarfsnefndar evrópskra vátrygginga- og lífeyrissjóðaeftirlita í þeirri skýrslugjöf.
2.     Við skýrslugjöfina sem um getur í 1. mgr. skal samstarfsnefnd evrópskra vátrygginga- og lífeyrissjóðaeftirlita m.a. gefa skýrslu um alla viðkomandi og mikilvæga reynslu af eftirlitsstarfsemi og samstarfi milli eftirlitsaðila innan ramma III. bálks og einkum:
a)    ferlið við útnefningu eftirlitsaðila samstæðu, fjölda eftirlitsaðila samstæðu og landfræðilega dreifingu,
b)    starfsemi samstarfshóps eftirlitsaðila, einkum þátttöku og skuldbindingu eftirlitsyfirvalda ef þau eru ekki eftirlitsaðili samstæðu.
3.     Samstarfsnefnd evrópskra vátrygginga- og lífeyrissjóðaeftirlita er einnig heimilt, að því er varðar 1. mgr., að gefa skýrslu um helstu reynslu sem draga má af endurskoðuninni sem um getur í 6. mgr. 248. gr., eftir því sem við á.

IV. KAFLI
Þriðju lönd
260. gr.

Móðurfélög utan Evrópubandalagsins: sannprófun á jafngildi

1.     Í því tilviki sem um getur í c-lið 2. mgr. 213. gr., skulu hlutaðeigandi eftirlitsyfirvöld sannprófa hvort vátryggingafélög, þ.m.t. endurtryggingafélög, sem hafa móðurfélag sem hefur aðalskrifstofu utan Bandalagsins, falli undir eftirlit eftirlitsyfirvalds þriðja lands, sem er jafngilt því sem kveðið er á um í þessum bálki um eftirlit á samstæðustigi vátryggingafélaga, þ.m.t. endurtryggingafélaga, sem um getur í a- og b-lið 2. mgr. 213. gr.
Eftirlitsyfirvaldið, sem væri eftirlitsaðili samstæðu ef viðmiðanirnar, sem eru settar fram í 2. mgr. 247. gr. giltu, skal framkvæma sannprófunina að beiðni móðurfélagsins eða einhvers af vátryggingafélögunum, þ.m.t. endurtryggingafélögunum, sem fengið hafa starfsleyfi í Bandalaginu, eða að eigin frumkvæði, nema ef framkvæmdastjórnin hefur áður komist að niðurstöðu að því er varðar jafngildi hlutaðeigandi þriðja lands. Í því sambandi skal eftirlitsyfirvald hafa samráð við önnur hlutaðeigandi eftirlitsyfirvöld og samstarfsnefnd evrópskra vátrygginga- og lífeyrissjóðaeftirlita áður en ákvörðun er tekin.
2.     Framkvæmdastjórnin getur samþykkt framkvæmdarráðstafanir sem tilgreina viðmiðanir vegna mats á jafngildi varfærnisfyrirkomulags þriðja lands við það sem mælt var fyrir um í þessum bálki. Þessar ráðstafanir, sem er ætlað að breyta veigalitlum þáttum þessarar tilskipunar með því að auka við hana, skulu samþykktar í samræmi við reglunefndarmeðferð með grannskoðun sem um getur í 3. mgr. 301. gr.
3.     Framkvæmdastjórnin getur, að höfðu samráði við nefnd evrópskra eftirlitsaðila með vátryggingum og starfstengdum lífeyrissjóðum og í samræmi við reglunefndarmeðferðina sem um getur í 2. mgr. 301. gr. og með tilliti til viðmiðana sem samþykkt eru í samræmi við ákvæði 2. mgr., ákveðið hvort varfærnisfyrirkomulag vegna eftirlits með samstæðum í þriðja landi sé jafngilt því sem mælt er fyrir um í þessum bálki.
Þær ákvarðanir skulu endurskoðaðar reglulega til að taka tillit til breytinga á varfærnisfyrirkomulagi við eftirlit með samstæðum, sem mælt er fyrir um í þessum bálki, og breytinga á varfærnisfyrirkomulagi í þriðja landi við eftirlit með samstæðum og allar aðrar breytingar á reglugerðum sem gætu haft áhrif á ákvörðun um jafngildi.
Þegar ákvörðun hefur verið samþykkt af framkvæmdastjórninni, í samræmi við fyrstu undirgrein, að því er varðar þriðja land, skal sú ákvörðun viðurkennd sem ákvarðandi að því er varðar sannprófunina sem um getur í 1. mgr.

261. gr.
Móðurfélög utan Bandalagsins: jafngildi

1.     Ef um er að ræða jafngilt eftirlit sem um getur í 260. gr., skulu aðildarríki reiða sig á jafngilt samstæðueftirlit sem framkvæmt er af eftirlitsyfirvöldum í þriðja landi, í samræmi við 2. málsgrein.
2.     Ákvæði 247.–258. gr. skulu gilda að breyttu breytanda að því er varðar samstarf við eftirlitsyfirvöld þriðja lands.

262. gr.
Móðurfélög utan Evrópubandalagsins: jafngildi er ekki fyrir hendi

1.     Ef ekki er um jafngilt eftirlit að ræða eins og um getur í 260. gr., skulu aðildarríki beita annaðhvort ákvæðum 218.–258. gr. á vátryggingafélög, þ.m.t. endurtryggingafélög, að breyttu breytanda, fyrir utan ákvæði 236.–243. gr., eða einni af þeim aðferðum sem settar eru fram í 2. málsgrein.
Almennar meginreglur og aðferðir sem settar eru fram í 218.–258. gr. gilda á stigi eignarhaldsfélags á vátryggingasviði, vátryggingafélags í þriðja landi eða endurtryggingafélags í þriðja landi.
Farið skal með móðurfélag sem vátrygginga- eða endurtryggingafélag, sem fellur undir sömu kröfur og settar eru fram í 1., 2. og 3. undirþætti 3. þáttar VI. kafla I. bálks, einungis að því er varðar útreikning á gjaldþoli samstæðu, að því er varðar eigið fé sem er viðurkennt fyrir gjaldþolskröfu og annað hvort eftirfarandi:
a)    gjaldþolskröfu sem er ákvörðuð í samræmi við meginreglur 226. gr. ef um er að ræða eignarhaldsfélag á vátryggingasviði,
b)    gjaldþolskröfu sem er ákvörðuð í samræmi við meginreglur 227. gr. ef um er að ræða vátryggingafélag í þriðja landi eða endurtryggingafélag í þriðja landi.
2.     Aðildarríki skulu heimila eftirlitsyfirvöldum sínum að beita öðrum aðferðum sem tryggja viðeigandi eftirlit með vátryggingafélögum, þ.m.t. endurtryggingafélögum, í samstæðu. Þessar aðferðir skulu samþykktar af eftirlitsaðila samstæðu, að höfðu samráði við önnur hlutaðeigandi eftirlitsyfirvöld.
Eftirlitsyfirvöld geta einkum krafist þess að komið sé á fót eignarhaldsfélagi á vátryggingasviði með aðalskrifstofu í Bandalaginu og beitt þessum bálki gagnvart vátryggingafélögum, þ.m.t. endurtryggingafélögum, í samstæðu sem eignarhaldsfélagið á vátryggingasviði fer fyrir.
Markmiðin með samstæðueftirlitinu skulu nást með þessum völdu aðferðum eins og skilgreint er í þessum bálki og skal tilkynna öðrum hlutaðeigandi eftirlitsyfirvöldum, sem málið varðar, og framkvæmdastjórninni um þær.

263. gr.
Móðurfélög utan Bandalagsins: stig

Ef móðurfélag sem um getur í 260. gr. er dótturfélag eignarhaldsfélags á vátryggingasviði sem hefur aðalskrifstofu utan Bandalagsins eða vátrygginga- eða endurtryggingafélags í þriðja landi, skulu aðildarríki aðeins beita sannprófun sem kveðið er á um í 260. gr. á stigi endanlegs móðurfélags sem er eignarhaldsfélag á vátryggingasviði í þriðja landi, vátryggingafélag í þriðja landi eða endurtryggingafélag í þriðja landi.
Þó skulu aðildarríki heimila eftirlitsyfirvöldum sínum að ákveða, ef ekki er um að ræða jafngildi eftirlits sem um getur í 260. gr., að framkvæma nýja sannprófun á lægra stigi ef móðurfélag vátrygginga- eða endurtryggingafélaga er til staðar, hvort sem það er eignarhaldsfélag á vátryggingasviði í þriðja landi, vátryggingafélag í þriðja landi eða endurtryggingafélag í þriðja landi.
Í slíku tilviki, skal eftirlitsyfirvaldið sem um getur í annarri undirgrein 1. mgr. 260. gr. skýra ákvörðun sína fyrir samstæðunni.
Ákvæði 262. gr. gilda að breyttu breytanda.

264. gr.
Samvinna við eftirlitsyfirvöld í þriðja landi

1.     Framkvæmdastjórninni er heimilt að leggja fyrir ráðið tillögur vegna samningaviðræðna við eitt eða fleiri þriðju lönd um hvernig annast skuli samstæðueftirlit með:
a)    vátrygginga- eða endurtryggingafélögum sem eiga, sem hluteignarfélög, félög í skilningi 213. gr. sem hafa aðalskrifstofu sína í þriðja landi, og
b)    vátrygginga- eða endurtryggingafélögum í þriðja landi sem eiga, sem hluteignarfélög, félög í skilningi 213. gr. sem hafa aðalskrifstofu sína í Bandalaginu.
2.     Í samningunum, sem um getur í 1. mgr., skal einkum leitast við að tryggja:
a)    að eftirlitsyfirvöld í aðildarríkjunum geti fengið þær upplýsingar sem nauðsynlegar eru vegna eftirlits vátryggingafélaga, þ.m.t. endurtryggingafélaga, á samstæðustigi sem hafa aðalskrifstofu í Bandalaginu og eiga dótturfélög eða hlutdeild í félögum utan Bandalagsins og
b)    að eftirlitsyfirvöld í þriðju löndum geti fengið þær upplýsingar sem nauðsynlegar eru fyrir eftirlit á samstæðustigi vátryggingafélaga, þ.m.t. endurtryggingafélaga, í þriðja landi sem hafa aðalskrifstofu á yfirráðasvæðum þeirra og eiga dótturfélög eða hlutdeild í félögum í einu eða fleiri aðildarríkjum.
3.     Með fyrirvara um 1. og 2. mgr. 300. gr. sáttmálans skal framkvæmdastjórnin, með aðstoð nefndar evrópskra eftirlitsaðila með vátryggingum og starfstengdum lífeyrissjóðum, fara yfir niðurstöður samningaviðræðnanna sem um getur í 1. mgr.

V. KAFLI
Eignarhaldsfélög á vátryggingasviði með blandaða starfsemi

265. gr.
Viðskipti innan samstæðu

1.     Aðildarríki skulu tryggja að eftirlitsyfirvöld sem bera ábyrgð á eftirliti með þess háttar vátrygginga- eða endurtryggingafélögum hafi almennt eftirlit með viðskiptum milli þessara vátrygginga- eða endurtryggingafélaga og blandaða eignarhaldsfélagsins og tengdum félögum þess ef móðurfélag eins eða fleiri vátrygginga- eða endurtryggingafélaga er eignarhaldsfélag á vátryggingasviði með blandaða starfsemi.
2.     Ákvæði 245. gr., 249.–255. gr. og 258. gr. skulu gilda að breyttu breytanda.

266. gr.
Samvinna við þriðju lönd

Að því er varðar samvinnu við þriðju lönd gilda ákvæði 264. gr. að breyttu breytanda.

IV. BÁLKUR
ENDURSKIPULAGNING OG SLIT VÁTRYGGINGAFÉLAGA
I. KAFLI
Gildissvið og skilgreiningar

267. gr.
Gildissvið þessa hluta

Þessi bálkur gildir um endurskipulagningarráðstafanir og slitameðferð sem tengist eftirfarandi:
a)    vátryggingafélögum,
b)    útibúum vátryggingafélaga þriðja lands á yfirráðasvæði Bandalagsins.

268. gr.
Skilgreiningar

1.     Í þessum bálki gilda eftirfarandi hugtök:
a)    „lögbær yfirvöld“: stjórnvöld eða dómsmálayfirvöld í aðildarríkjunum sem eru til þess bær að sjá um endurskipulagningarráðstafanir eða slitameðferð,
b)    „útibú“: hvers kyns fast aðsetur vátryggingafélags á yfirráðasvæði aðildarríkis, sem ekki er heimaaðildarríki, sem stundar vátryggingastarfsemi,
c)    „endurskipulagningarráðstafanir“: ráðstafanir sem fela í sér hvers kyns íhlutun af hálfu lögbærra yfirvalda í þeim tilgangi að viðhalda fjárhagsstöðu vátryggingafélags eða koma henni í eðlilegt horf og hafa áhrif á þau réttindi þriðju aðila, annarra en vátryggingafélagsins sjálfs, sem þegar eru til, þ.m.t., en þó ekki eingöngu, ráðstafanir sem fela í sér hugsanlega greiðslustöðvun, frestun fullnusturáðstafana eða lækkun á kröfum,
d)    „slitameðferð“: sameiginleg málsmeðferð sem felur í sér innlausn eigna og skiptingu afrakstursins milli lánardrottna, hluthafa eða félaga, eftir því sem við á, og felur í sér hvers konar íhlutun lögbærra yfirvalda, þ.m.t. þau tilvik þegar sameiginlegri málsmeðferð lýkur með nauðasamningi eða annarri hliðstæðri ráðstöfun, hvort sem hún er vegna gjaldþrots, að eigin frumkvæði eða lögboðin,
e)    „stjórnandi“: hver einstaklingur eða aðili sem tilnefndur er af lögbæru yfirvaldi til að hafa umsjón með endurskipulagningarráðstöfunum,
f)    „skiptastjóri“: hver sá einstaklingur eða aðili sem tilnefndur er af lögbæru yfirvaldi eða stjórn vátryggingafélags til að fara með stjórn slitameðferðar,
g)    „vátryggingakrafa“: hver sú fjárhæð sem vátryggingafélag skuldar vátryggðum, vátryggingartökum, rétthöfum eða öðrum sem eiga beina kröfu á vátryggingafélagið og er til komin á grundvelli vátryggingarsamnings eða hverrar annarrar aðgerðar sem er, eins og kveðið er á um í b- og c-lið 3. mgr. 2. gr. í frumtryggingarstarfsemi, þ.m.t. fjárhæð sem lögð hefur verið til hliðar fyrir þá einstaklinga, þegar ekki er vitað um suma þætti skuldarinnar.
Einnig skulu iðgjöld, sem vátryggingafélag skuldar og eru til komin vegna þess að þessum vátryggingasamningum hefur ekki verið komið á eða ekki verið lokið eða vátryggingastarfsemin, sem um getur í g- lið fyrsta undirliðar, í samræmi við lög um slíka samninga eða starfsemi áður en slitameðferð hefst, talin til vátryggingakrafna.
2.     Við beitingu þessa bálks á endurskipulagningarráðstafanir og slitameðferð vegna útibús í eigu vátryggingafélags í þriðja landi, sem staðsett er í aðildarríki, eiga eftirfarandi skilgreiningar við:
a)    „heimaaðildarríki“: aðildarríkið þar sem útibúi hefur verið veitt starfsleyfi í samræmi við 145.– 149. gr.,
b)    „eftirlitsyfirvöld“: eftirlitsyfirvöld heimaaðildarríkis,
c)    „lögbær yfirvöld“: lögbær yfirvöld heimaaðildarríkis.

II. KAFLI
Endurskipulagningarráðstafanir

269. gr.
Samþykkt endurskipulagningarráðstafana – gildandi lög

1.     Lögbær yfirvöld heimaaðildarríkis skulu ein hafa heimild til þess að ákveða endurskipulagningarráðstafanir sem snerta vátryggingafélagið, þ.m.t. útibú þess.
2.     Endurskipulagningarráðstafanirnar skulu ekki koma í veg fyrir að heimaaðildarríki hefji slitameðferð.
3.     Endurskipulagningarráðstafanirnar skulu lúta lögum, reglum og málsmeðferð, sem í gildi eru í heimaaðildarríkinu, nema kveðið sé á um annað í 285. til 292. gr.
4.     Endurskipulagningarráðstafanir, sem grípa skal til í samræmi við löggjöf heimaaðildarríkis, skulu hafa fullt gildi, án frekari formsatriða, í öllu Bandalaginu, þ.m.t. gagnvart þriðju aðilum í öðrum aðildarríkjum og einnig þegar löggjöf þessara annarra aðildarríkja kveður ekki á um slíkar endurskipulagningarráðstafanir eða gerir framkvæmd þeirra háða skilyrðum sem ekki eru uppfyllt.
5.     Endurskipulagningarráðstafanirnar skulu gilda í öllu Bandalaginu þegar þær taka gildi í heimaaðildarríkinu.

270. gr.
Upplýsingar til eftirlitsyfirvalda

Lögbær yfirvöld heimaaðildarríkis skulu tilkynna eftirlitsyfirvöldum heimaaðildarríkisins, svo skjótt sem kostur er, um úrskurð sinn um sérhverja endurskipulagningarráðstöfun, helst áður en ráðstöfunin er samþykkt og, ef það bregst, strax að því loknu.
Eftirlitsyfirvöld heimaaðildarríkis skulu tilkynna eftirlitsyfirvöldum allra hinna aðildarríkjanna, svo skjótt sem kostur er, að þau hafi samþykkt endurskipulagningarráðstafanir og þar með einnig um áþreifanleg áhrif slíkra ráðstafana.

271. gr.
Birting ákvarðana um endurskipulagningarráðstafanir

1.     Ef unnt er, í heimaaðildarríki, að krefjast málskots ákvörðunar um endurskipulagningarráðstöfun skulu lögbær yfirvöld í heimaaðildarríkinu, stjórnandi eða hver sá einstaklingur sem er til þess bær í heimaaðildarríkinu birta opinberlega ákvörðun sína um endurskipulagningarráðstöfun í samræmi við málsmeðferð við birtingu sem kveðið er á um í heimaaðildarríkinu og enn fremur að birta við fyrsta tækifæri í Stjórnartíðindum Evrópusambandsins útdrátt úr skjalinu þar sem endurskipulagningarráðstafanirnar eru ákvarðaðar.
Eftirlitsyfirvöld hinna aðildarríkjanna, sem tilkynnt hefur verið um úrskurðinn um endurskipulagningarráðstöfunina, skv. 270. gr., geta tryggt birtingu slíks úrskurðar á yfirráðasvæði sínu með þeim hætti sem þau telja viðeigandi.
2.     Í þeim upplýsingum, sem birtar eru og kveðið er á um í 1. mgr., skal tilgreina lögbært yfirvald heimaaðildarríkisins, gildandi lög, eins og kveðið er á um í 3. mgr. 269. gr., og stjórnanda sem tilnefndur er, ef nokkur. Þær skulu birtar á opinberu tungumáli eða einu af opinberum tungumálum þess aðildarríkis þar sem upplýsingarnar eru birtar.
3.     Endurskipulagningarráðstafanirnar skulu gilda þrátt fyrir ákvæðin um birtingu í 1. og 2. mgr. og gilda að fullu gagnvart lánardrottnum, nema lögbær yfirvöld heimaaðildarríkis eða lög þess aðildarríkis kveði á um annað.
4.     Ef endurskipulagningarráðstafanir hafa einungis áhrif á rétt hluthafa, félaga eða starfsmanna í vátryggingafélaginu, í þeirri stöðu sem þeir gegna sem slíkri, gilda 1. 2. og 3. mgr. ekki, nema að kveðið sé á um annað í lögum um endurskipulagningarráðstafanir.
Lögbær yfirvöld skulu ákveða með hvaða hætti tilkynning skal send, í samræmi við þá löggjöf sem við á, þeim aðilum sem um getur í fyrsta undirlið.

272. gr.
Upplýsingar til þekktra lánardrottna – rétturinn til að lýsa kröfum

1.     Þegar þess er krafist samkvæmt lögum heimaaðildarríkis að kröfum sé lýst eigi að taka þær gildar eða að kveðið er á um að lögboðið sé að tilkynna lánardrottnum, sem eru með fasta búsetu, lögheimili eða aðalskrifstofu sína í því ríki, um endurskipulagningarráðstöfunina skulu lögbær yfirvöld heimaaðildarríkisins eða stjórnandi einnig tilkynna það þekktum lánardrottnum sem eru með fasta búsetu, lögheimili sitt eða aðalskrifstofu sína í öðrum aðildarríkjum, í samræmi við ákvæði 281. gr. og 1. mgr. 283. gr.
2.     Þegar lög heimaaðildarríkis kveða á um rétt lánardrottna, sem eru með fasta búsetu, lögheimili sitt eða aðalskrifstofu í því ríki, til að lýsa kröfum eða leggja fram athugasemdir varðandi kröfur sínar skulu lánardrottnar með fasta búsetu, lögheimili sitt eða aðalskrifstofu í öðru aðildarríki hafa sama rétt, í samræmi við 282. gr. og 2. mgr. 283. gr.

III. KAFLI
Slitameðferð

273. gr.
Upphaf slitameðferðar – upplýsingar til eftirlitsyfirvalda

1.     Lögbær yfirvöld heimaaðildarríkis skulu ein hafa heimild til þess að taka ákvörðun um að hefja slitameðferð vátryggingafélags, þ.m.t. útibúa þess í öðrum aðildarríkjum. Þessa ákvörðun má taka þótt ekki hafi verið gerðar endurskipulagningarráðstafanir eða í kjölfar þess að þær eru samþykktar.
2.     Ákvörðun varðandi upphaf slitameðferðar vátryggingafélags, þ.m.t. útibúa þess í öðrum aðildarríkjum, sem samþykkt er í samræmi við löggjöf heimaaðildarríkis, skal viðurkennd án frekari formsatriða í öllu Bandalaginu og gilda þar jafnskjótt og ákvörðunin tekur gildi í aðildarríkinu þar sem slitameðferðin hefst.
3.     Lögbær yfirvöld heimaaðildarríkis skulu gera eftirlitsyfirvöldum þess aðildarríkis tafarlaust kunnugt um þá ákvörðun að hefja slitameðferð áður en til hennar kemur, ef því verður við komið, en ef það tekst ekki um leið og slitameðferð er hafin.
Eftirlitsyfirvöld heimaaðildarríkis skulu, svo skjótt sem kostur er, gera eftirlitsyfirvöldum allra hinna aðildarríkjanna kunnugt um þá ákvörðun að hefja slitameðferð og einnig um áþreifanleg áhrif slíkra ráðstafana.

274. gr.
Gildandi lög

1.     Ákvörðun um að hefja slitameðferð vátryggingafélags, slitameðferðin og áhrif hennar skulu lúta þeim lögum sem í gildi eru í heimaaðildarríkinu, nema kveðið sé á um annað í 285.–292. gr.
2.     Lög heimaaðildarríkis skulu hið minnsta ákvarða eftirfarandi:
a)    hvaða eignir mynda hluta af búinu og meðferð eigna sem vátryggingafélagið hefur aflað eða hafa runnið til þess eftir að slitameðferð hefst,
b)    heimild vátryggingafélags og skiptastjóra hvors um sig,
c)    þær aðstæður þar sem beita má skuldajöfnun,
d)    áhrif slitameðferðar á gildandi samninga sem vátryggingafélagið er aðili að,
e)    áhrif slitameðferðar á málsmeðferð sem einstakir lánardrottnar hefja, að undanskildum yfirstandandi málaferlum, sem um getur í 292. gr.,
f)    þær kröfur sem er lýst á hendur búi vátryggingafélagsins og meðferð krafna sem lýst er eftir að slitameðferð hefst,
g)    reglur sem gilda um lýsingu, sannprófun og skráningu krafna,
h)    reglur sem gilda um skiptingu afraksturs af sölu eigna, forgangsröðun krafna og réttindi lánardrottna sem hafa fengið skuldakröfum sínum fullnægt að hluta eftir að slitameðferð hófst, með skírskotun til hlutbundins veðréttar eða með skuldajöfnun,
i)    skilyrðin og áhrif þess að slitameðferð sé lokið, einkum með nauðungarsamningum,
j)    réttindi lánardrottna eftir að slitameðferð er lokið,
k)    aðilann sem skal bera kostnað og útgjöld sem stofnað er til við slitameðferð og
l)    reglur er varða það hvort löggerningar, sem eru öllum lánardrottnum skaðlegir, séu ógildir, ógildanlegir eða ekki aðfararhæfir.

275. gr.
Meðferð vátryggingakrafna

1.     Aðildarríki skulu tryggja að vátryggingakröfur fái forgang fram yfir aðrar kröfur í vátryggingafélagið með annarri hvorri eða báðum eftirfarandi aðferða:
a)    vátryggingakröfur skulu, að því er varðar eignir sem ætlað er að mæta vátryggingarskuld, hafa algeran forgang fram yfir allar aðrar kröfur á hendur vátryggingafélaginu,
b)    vátryggingakröfur skulu, að því er varðar heildareignir vátryggingafélagsins, hafa forgang fram yfir allar aðrar kröfur á hendur vátryggingafélaginu með möguleika á eftirfarandi undantekningum eingöngu:
    i.    kröfur frá starfsmönnum sem til eru komnar vegna ráðningarsamninga eða -sambanda,
    ii.    skattakröfur opinberra aðila,
    iii.    kröfur vegna launa og launatengdra gjalda,
    iv.    kröfur í eignir sem njóta hlutbundins veðréttar.
2.     Með fyrirvara um 1. mgr. geta aðildarríki kveðið á um að öll útgjöld eða hluti þeirra sem hljótast af slitameðferð, samkvæmt skilgreiningu í landslögum þeirra, skuli hafa forgang fram yfir vátryggingakröfur.
3.     Aðildarríki, sem hafa kosið að beita aðferðinni sem kveðið er á um í a-lið 1. mgr., skulu krefjast þess að vátryggingafélög taki saman sérstaka skrá í samræmi við ákvæði 276. gr.

276. gr.
Sérstök skrá

1.     Sérhvert vátryggingafélag skal halda, í aðalskrifstofu sinni, sérstaka skrá yfir þær eignir sem notaðar eru til að jafna þá vátryggingarskuld sem reiknuð er og ávöxtuð í samræmi við lög heimaaðildarríkisins.
2.     Ef vátryggingafélag stundar bæði rekstur skaðatrygginga og líftrygginga skal það halda aðskildar skrár fyrir hvorn reksturinn um sig í aðalskrifstofu sinni.
Ef aðildarríki heimilar hins vegar vátryggingafélögum að reka bæði líftryggingar og mæta áhættunni, sem skráð er í 1. og 2. flokki A-hluta í I. viðauka, má kveða á um að þessi vátryggingafélög skuli halda eina skrá um alla starfsemi sína.
3.     Heildarverðgildi eigna, sem skráðar eru og metnar í samræmi við gildandi lög í heimaaðildarríkinu, skal aldrei vera lægra en verðgildi vátryggingarskuldarinnar.
4.     Ef eign, sem færð er í skrána, er háð hlutbundnum veðrétti sem er í hag lánardrottni eða þriðja aðila og af því hlýst að sá hluti verðgildis eignarinnar er ekki tiltækur til að mæta skuldbindingum, er sú staðreynd færð í skrána og fjárhæðin, sem ekki er tiltæk, er ekki reiknuð með í heildarverðgildinu, sem um getur í 3. lið.
5.     Meðferð eignar við slitameðferð vátryggingafélags, að teknu tilliti til aðferðarinnar, sem kveðið er á um í a-lið 1. mgr. 275. gr., skal lúta löggjöf heimaaðildarríkisins, nema 286., 287. og 288. gr. gildi um þessa eign þegar:
a)    eignin, sem notuð er til jöfnunar vátryggingarskuldar, er háð hlutbundnum veðrétti sem er í hag lánardrottni eða þriðja aðila, en uppfyllir ekki skilyrði 4. liðar,
b)    slík eign er háð eignarréttarfyrirvara sem er lánardrottni eða þriðja aðila í hag eða
c)    lánardrottinn á rétt á að krefjast skuldajöfnunar kröfu sinnar gagnvart kröfu vátryggingafélagsins.
6.     Samsetningu þeirra eigna sem færðar eru í skrána í samræmi við 1.–5. lið, þegar slitameðferð hefst, skal ekki breytt eftir það og ekki skal færa neinar breytingar í skrárnar aðrar en leiðréttingar á augljósum ritvillum nema með leyfi lögbærs yfirvalds.
Eigi að síður skulu skiptastjórar leggja ávöxtun téðra eigna við þær sem og virði hreinna iðgjalda sem móttekin eru í tengslum við þá tilteknu vátryggingagrein, frá því slitameðferð hefst og þar til vátryggingakröfur eru greiddar eða þar til vátryggingastofn hefur verið fluttur.
7.     Ef afraksturinn af sölu eigna er minni en virði þeirra, eins og það er metið í skránum, skulu skiptastjórar rökstyðja að svo sé gagnvart eftirlitsstjórnvöldum í heimaaðildarríkjunum.

277. gr.
Framsal kröfu til ábyrgðasjóðs

Ef réttur vátryggingalánardrottna hefur verið framseldur til ábyrgðarsjóðs, sem komið hefur verið á fót í heimaaðildarríkinu, getur heimaaðildarríkið kveðið á um að kröfur úr þessum sjóði skuli ekki njóta góðs af ákvæðum 1. mgr. 275. gr.

278. gr.
Jöfnun eigna á móti kröfum sem hafa forgang

Þau aðildarríki sem velja aðferðina, sem sett er fram í b-lið 1. mgr. 275. gr., skulu krefjast þess af sérhverju vátryggingafélagi að sjá til þess að kröfum, sem kunna að hafa forgang fram yfir vátryggingakröfur skv. b-lið 1. mgr. 275. gr. og sem skráðar eru í reikninga vátryggingafélagsins, sé lýst hvenær sem er og óháð hugsanlegum slitum með eignum.

279. gr.
Afturköllun starfsleyfis

1.     Ef tekin er ákvörðun um að hefja slitameðferð í tengslum við vátryggingafélag skal afturkalla starfsleyfi fyrir vátryggingafélagið í samræmi við málsmeðferðina sem mælt er fyrir um í 144. gr., nema að því leyti sem nauðsynlegt er vegna ákvæða 2. mgr.
2.     Afturköllun starfsleyfis skv. 1. mgr. skal ekki hindra skiptastjóra eða aðra einstaklinga, sem lögbær yfirvöld fela framkvæmd slitanna, í því að halda áfram starfsemi vátryggingafélagsins að hluta til að svo miklu leyti sem það er nauðsynlegt eða viðeigandi vegna slitanna.
Heimaaðildarríki getur kveðið á um að slíkri starfsemi sé haldið áfram með samþykki og undir eftirliti eftirlitsstjórnvalda þess aðildarríkis.

280. gr.
Birting ákvarðana um slitameðferðir

1.     Lögbært yfirvald, skiptastjóri eða annar einstaklingur, sem lögbæra yfirvaldið tilnefnir í þessu skyni, skal birta ákvörðunina um að hefja slitameðferð í samræmi við málsmeðferð við birtingu, sem kveðið er á um í heimaaðildarríkinu, og skal einnig birta útdrátt úr ákvörðuninni um slit í Stjórnartíðindum Evrópusambandsins.
Eftirlitsstjórnvöld allra hinna aðildarríkjanna, sem tilkynnt hefur verið um ákvörðunina um slitameðferð í samræmi við 3. mgr. 273. gr., geta tryggt birtingu slíkrar ákvörðunar á yfirráðasvæði sínu með þeim hætti sem þau telja viðeigandi.
2.     Í þeim upplýsingum sem um getur í 1. mgr. skal tilgreina lögbært yfirvald heimaaðildarríkisins, gildandi lög og þann skiptastjóra sem tilnefndur hefur verið. Upplýsingarnar skulu birtar á opinberu tungumáli eða einu af opinberum tungumálum aðildarríkisins þar sem þær eru birtar.

281. gr.
Upplýsingar til þekktra lánardrottna

1.     Þegar slitameðferð hefst skulu lögbær yfirvöld heimaaðildarríkisins, skiptastjórinn eða hver sá einstaklingur, sem lögbær yfirvöld hafa tilnefnt í því skyni, tafarlaust senda skriflega tilkynningu þess efnis til allra þekktra lánardrottna sem eru með fasta búsetu, lögheimili eða aðalskrifstofu í öðru aðildarríki.
2.     Í tilkynningunni, sem um getur í 1. mgr., skulu vera upplýsingar um tímamörk og viðurlög varðandi þau, hvaða aðili eða yfirvald hefur umboð til að viðurkenna kröfur sem lýst er eða athugasemdir um kröfur og aðrar ráðstafanir.
Í tilkynningunni skal einnig koma fram hvort lánardrottnar, sem eiga kröfur, sem hafa forgang, eða njóta hlutbundins veðréttar þurfi að lýsa kröfum sínum.
Þegar um vátryggingakröfur er að ræða skal enn fremur koma fram í tilkynningunni almenn áhrif slitameðferðarinnar á vátryggingasamninga, einkum dagsetningin þegar vátryggingasamningar eða starfsemin hætta að hafa áhrif og réttindi og skyldur vátryggðra að því er varðar samninginn eða starfsemina.

282. gr.
Réttur til að lýsa kröfum

1.     Allir lánardrottnar með lögheimili, fasta búsetu eða aðalskrifstofu í öðru aðildarríki en heimaaðildarríkinu, þ.m.t. opinber yfirvöld aðildarríkja, skulu hafa rétt til að lýsa kröfum eða leggja fram skriflegar athugasemdir er varða kröfur.
2.     Með kröfur allra lánardrottna, sem um getur í 1. mgr., skal farið á sama hátt og þeim forgangsraðað eins og samsvarandi kröfum sem lánardrottnar með fasta búsetu, lögheimili eða aðalskrifstofu í heimaaðildarríkinu geta lýst. Lögbær yfirvöld skulu því starfa án mismununar á vettvangi Bandalagsins.
3.     Ef undan eru skilin þau tilvik þegar annað er heimilt samkvæmt lögum heimaaðildarríkis skal lánardrottinn senda lögbærum yfirvöldum afrit af fylgiskjölum og tilgreina eftirfarandi:
a)    eðli og fjárhæð kröfunnar,
b)    daginn þegar krafan er stofnuð,
c)    hvort hann skírskoti til forgangs, hlutbundins veðréttar eða eignarréttarfyrirvara að því er varðar kröfuna,
d)    eftir því sem við á, hvaða eignir falla undir trygginguna.
Ekki er nauðsynlegt að tilgreina þann forgang sem vátryggingakröfur hafa skv. 275. gr.

283. gr.
Tungumál og eyðublöð

1.     Upplýsingarnar í tilkynningunni, sem um getur í 1. mgr. 281. gr., skulu vera á opinberu tungumáli eða einu af opinberum tungumálum heimaaðildarríkisins.
Nota skal eyðublað sem á er letrað önnur hvor eftirfarandi fyrirsagna á öllum opinberum tungumálum Evrópusambandsins:
a)    „Innköllun krafna; tímamörk sem skulu virt“ eða
b)    ef lög heimaaðildarríkisins kveða á um að athugasemdir varðandi kröfuna séu lagðar fram, „Boð um að leggja fram athugasemdir varðandi kröfu; tímamörk sem skulu virt“.
Sé þekktur lánardrottinn, hins vegar, kröfuhafi vátryggingarkröfu skal veita upplýsingarnar í tilkynningunni, sem getið er um í 1. mgr. 281. gr., á opinberu tungumáli eða einu af opinberum tungumálum þess aðildarríkis þar sem lánardrottinn er með fasta búsetu, lögheimili eða aðalskrifstofu.
2.     Lánardrottnar sem hafa fasta búsetu, lögheimili eða aðalskrifstofu í öðru aðildarríki en heimaaðildarríkinu geta lýst kröfu eða lagt fram athugasemdir varðandi kröfuna á opinberu tungumáli eða einu af opinberum tungumálum þess aðildarríkis.
Ef svo ber undir skal krafan sem hann lýsir eða athugasemdirnar sem hann leggur fram við kröfuna, eftir því sem við á, bera fyrirsögnina „Kröfulýsing“ eða „Afhending athugasemda er varða kröfu“, eftir því sem við á, á opinberu tungumáli eða einu af opinberum tungumálum heimaaðildarríkisins.

284. gr.
Reglubundnar upplýsingar til lánardrottna

1.     Skiptastjórar skulu reglulega veita lánardrottnum upplýsingar, með þeim hætti sem við á, um framvindu slitanna.
2.     Eftirlitsyfirvöld í aðildarríkjunum geta farið fram á upplýsingar um framvindu slitameðferðar frá eftirlitsyfirvöldum í heimaaðildarríkinu.

IV. KAFLI
Sameiginleg ákvæði

285. gr.
Áhrif á tiltekna samninga og réttindi

Þrátt fyrir ákvæði 269. og 274. gr. ákvarðast áhrif upphafs endurskipulagningarráðstafana eða slitameðferðar af eftirfarandi reglum:
a)    að því er varðar ráðningarsamninga og -sambönd, einvörðungu af lögum aðildarríkisins sem gilda um ráðningarsamninginn eða -sambandið,
b)    að því er varðar samninga sem veita réttindi til að nýta eða eignast fasteign, einvörðungu af lögum þess aðildarríkis þar sem fasteignin er,
c)    að því er varðar réttindi vátryggingafélagsins er varða fasteignir, skip eða loftfar háð skráningu í opinbera skrá, einvörðungu af lögum þess aðildarríkis þar sem skráin er færð.

286. gr.
Hlutbundinn veðréttur þriðju aðila

1.     Innleiðing endurskipulagningarráðstafana eða upphaf slitameðferðar skal ekki hafa áhrif á hlutbundinn veðrétt lánardrottna eða þriðju aðila að því er varðar efnislegar eða óefnislegar eignir, lausafé eða fasteignir – bæði sérstakar eignir og söfn ótiltekinna eigna sem heildar, og sem breytast öðru hverju – sem tilheyra vátryggingafélaginu og eru á yfirráðasvæði annars aðildarríkis á þeim tíma þegar slíkar ráðstafanir voru innleiddar eða málsmeðferð hófst.
2.     Rétturinn, sem um getur í 1. mgr., er einkum:
a)    rétturinn til að selja eða láta selja eignir og njóta góðs af afrakstrinum eða af tekjunum af þessum eignum, einkum með veði eða fasteignaveði,
b)    einkaréttur á því að fallist sé á kröfu, einkum réttur sem tryggður er með veði í kröfunni eða með framsali kröfunnar með ábyrgð,
c)    rétturinn til að krefjast eignanna eða skila af hverjum þeim sem hefur yfirráð yfir eignunum eða not af þeim í trássi við óskir aðila sem til þess hefur rétt,
d)    réttindi til að njóta afraksturs af eignunum.
3.     Rétturinn, sem skráður er í opinbera skrá og nýtur réttarverndar gagnvart þriðja aðila, og sem á þann hátt veitir hlutbundinn veðrétt í skilningi 1. mgr., skal teljast hlutbundinn veðréttur.
4.     Ákvæði 1. mgr. skulu ekki koma í veg fyrir aðgerðir vegna ógildingar, ógildanleika eða skorts á aðfararhæfi sem getið er um í l-lið 2. mgr. 274. gr.

287. gr.
Eignarréttarfyrirvari

1.     Innleiðing endurskipulagningarráðstafana eða það að hafin er slitameðferð gagnvart vátryggingafélagi, sem kaupir eignir, skal ekki hafa áhrif á réttindi seljandans, sem eru byggð á eignarréttarfyrirvara, í þeim tilvikum þegar eignin er á yfirráðasvæði aðildarríkis annars en aðildarríkisins þar sem ráðstafanirnar voru innleiddar eða málsmeðferðin hófst.
2.     Innleiðing endurskipulagningarráðstafana, eða það að slitameðferð er hafin gagnvart vátryggingafélagi, sem selur eign eftir að afhending á eigninni hefur farið fram, skal ekki vera ástæða riftunar eða ógildingar sölunnar og hindra kaupandann í að öðlast eignarrétt í þeim tilvikum þegar eignin, sem seld er, er staðsett á yfirráðasvæði aðildarríkis annars en aðildarríkisins þar sem ráðstafanirnar eða málsmeðferðin hófst á þeim tíma þegar slíkar ráðstafanir voru innleiddar eða málsmeðferð hófst.
3.     Ákvæði 1. og 2. mgr. skulu ekki koma í veg fyrir aðgerðir vegna ógildingar, ógildanleika eða skorts á aðfararhæfi, sem um getur í l-lið 2. mgr. 274. gr.

288. gr.
Skuldajöfnun

1.     Innleiðing endurskipulagningarráðstafana eða það að slitameðferð er hafin skal ekki hafa áhrif á rétt lánardrottna til að krefjast skuldajöfnunar krafna sinna gegn kröfum vátryggingafélagsins þegar slík skuldajöfnun er heimiluð í lögum sem gilda um kröfu vátryggingafélagsins.
2.     Ákvæði 1. mgr. skulu ekki koma í veg fyrir aðgerðir vegna ógildingar, ógildanleika eða skorts á aðfararhæfi sem getið er um í l-lið 2. mgr. 274. gr.

289. gr.
Markaðir undir opinberu eftirliti

1.     Með fyrirvara um 286. gr. skulu áhrif endurskipulagningarráðstöfunar eða þess að slitameðferð hefst á réttindi og skyldur aðila, sem lúta opinberu eftirliti, einvörðungu falla undir lög sem gilda um þann markað.
2.     Ákvæði 1. mgr. skulu ekki koma í veg fyrir hvers konar aðgerðir vegna ógildingar, ógildanleika eða skorts á aðfararhæfi sem um getur í l-lið 2. mgr. 274. gr. sem kann að eiga sér stað í þeim tilgangi að leggja til hliðar greiðslur eða færslur í samræmi við þau lög sem gilda um þann markað.

290. gr.
Löggerningar sem eru lánardrottnum skaðlegir

Ákvæði l-liðar 2. mgr. 274. gr. gilda ekki ef einstaklingur, sem hefur haft hag af löggerningi sem er skaðlegur öllum lánardrottnum, leggur fram sannanir fyrir því að gerningurinn falli undir lög annars aðildarríkis en heimaaðildarríkisins og leggur fram sannanir fyrir því að þau hin sömu lög feli ekki í sér nein úrræði til að véfengja viðkomandi gerning.

291. gr.
Vernd kaupenda sem eru þriðju aðilar

Eftirfarandi lög skulu gilda ef vátryggingafélag ráðstafar gegn endurgjaldi með aðgerð, sem er gerð eftir samþykkt endurskipulagningarráðstöfunar eða eftir að slitameðferð hófst:
a)    varðandi fasteignir: lög aðildarríkisins þar sem fasteign er staðsett,
b)    varðandi skip eða loftfar: háð skráningu í opinbera skrá skulu einvörðungu falla undir lög þess aðildarríkis þar sem skráin er færð,
c)    varðandi framseljanleg verðbréf eða önnur verðbréf: forsenda fyrir því að þau séu til eða hægt að framselja þau er að þau séu færð í skrá eða reikning sem mælt er fyrir um í lögum eða að þau eru skráð í verðbréfamiðstöð sem lýtur lögum aðildarríkisins, lögum aðildarríkisins þar sem skráin, reikningurinn er færður eða skráð er í verðbréfamiðstöð.

292. gr.
Yfirstandandi málaferli

Áhrif endurskipulagningarráðstafana eða slitameðferðar á yfirstandandi málaferli er varða eign eða réttindi sem vátryggingafélag hefur látið af hendi skulu falla einvörðungu undir lög aðildarríkisins þar sem málaferlin fara fram.

293. gr.
Stjórnendur og skiptastjórar

1.     Færa skal sönnur á tilnefningu stjórnanda eða skiptastjóra með staðfestu endurriti af upprunalegri ákvörðun um tilnefningu hans eða með annarri staðfestingu sem gefin er út af lögbærum yfirvöldum heimaaðildarríkisins.
Aðildarríki þar sem stjórnandinn eða skiptastjórinn hyggst starfa er heimilt að krefjast þýðingar yfir á opinbert tungumál eða eitt af opinberum tungumálum þess aðildarríkis. Ekki er krafist formlegrar sannvottunar þeirrar þýðingar eða annarra slíkra formsatriða.
2.     Stjórnendum og skiptastjórum er heimilt að beita því valdi, sem þeim er heimilt að beita á yfirráðasvæði heimaaðildarríkisins, á yfirráðasvæði allra aðildarríkja.
Einnig má, í samræmi við lög heimaaðildarríkisins, tilnefna einstaklinga til aðstoðar eða, þegar það á við, sem fulltrúa stjórnenda og skiptastjóra meðan á endurskipulagningarráðstöfun eða slitameðferð stendur, einkum í gistiaðildarríkjum, sérstaklega í því skyni að aðstoða lánardrottna við að yfirstíga erfiðleika sem þeir standa frammi fyrir í gistiaðildarríkinu.
3.     Við beitingu valds síns í samræmi við löggjöf heimaaðildarríkis skal stjórnandi eða skiptastjóri fara að lögum þess aðildarríkis þar sem hann hyggst starfa, einkum að því er varðar verklagsreglur um sölu eigna og upplýsingamiðlun til starfsmanna.
Þetta vald má ekki fela í sér þvingunaraðgerðir eða rétt til að úrskurða í málarekstri eða deilumálum.

294. gr.
Skráning í opinbera skrá

1.     Stjórnandi, skiptastjóri eða það annað yfirvald eða einstaklingur sem hefur tilskilið umboð í heimaaðildarríkinu getur óskað eftir því að endurskipulagningarráðstöfun eða ákvörðun um að hefja slitameðferð sé skráð í viðeigandi opinbera skrá sem færð er í öðrum aðildarríkjum.
Mæli aðildarríki fyrir um lögboðna skráningu skal yfirvaldið eða einstaklingurinn, sem um getur í fyrstu undirgrein, gera allar nauðsynlegar ráðstafanir til að sjá um slíka skráningu.
2.     Líta ber á kostnaðinn við skráninguna sem kostnað og útgjöld í tengslum við málsmeðferðina.

295. gr.
Þagnarskylda

Allir einstaklingar sem þurfa að taka við eða skýra frá upplýsingum í tengslum við málsmeðferð sem mælt er fyrir um í 270., 273. og 296. gr., skulu bundnir þagnarskyldu líkt og mælt er fyrir um í 64. til 69. gr., að undanskildum þeim dómsmálayfirvöldum sem innlend ákvæði gilda um.

296. gr.
Meðferð útibúa vátryggingafélaga þriðju landa

Þegar vátryggingafélag er með útibú í fleiri en einu aðildarríki er farið með hvert útibú sem sjálfstæða einingu að því er varðar beitingu þessa hluta.
Lögbær yfirvöld og eftirlitsyfirvöld í þessum aðildarríkjum skulu leggja sig fram um að samræma aðgerðir sínar.
Stjórnendur og skiptastjórar skulu einnig leitast við að samræma aðgerðir sínar.

V. BÁLKUR
ÖNNUR ÁKVÆÐI
297. gr.
Réttur til að vísa til dómstóla

Aðildarríkin skulu sjá til þess að unnt sé að vísa til dómstóls öllum ákvörðunum sem teknar eru um vátrygginga- og endurtryggingafélög samkvæmt lögum og stjórnsýslufyrirmælum sem sett eru til framkvæmdar þessari tilskipun.

298. gr.
Samvinna milli aðildarríkjanna og framkvæmdastjórnarinnar

1.     Aðildarríkin skulu starfa saman að því að auðvelda eftirlit með vátryggingum og endurtryggingum innan Bandalagsins og beitingu þessarar tilskipunar.
2.     Framkvæmdastjórnin og eftirlitsyfirvöld aðildarríkjanna skulu hafa með sér náið samstarf til þess að auðvelda eftirlit með vátryggingum og endurtryggingum innan Bandalagsins og við að rannsaka vandkvæði sem upp geta komið við beitingu þessarar tilskipunar.
3.     Aðildarríki skulu skýra framkvæmdastjórninni frá öllum meiri háttar vandkvæðum sem upp kunna að koma við framkvæmd þessarar tilskipunar.
Framkvæmdastjórnin og eftirlitsyfirvöld þeirra aðildarríkja sem hlut eiga að máli skulu skoða slík vandkvæði svo fljótt sem unnt er til þess að finna viðeigandi lausn.

299. gr.
Evrur

Þegar vísað er til evru í þessari tilskipun skal nota gengi gjaldmiðla viðkomandi aðildarríkis sem gildir frá 31. desember ár hvert til síðasta dags næstliðins októbermánaðar, þegar gengi evrunnar gagnvart öllum gjaldmiðlum aðildarríkja Bandalagsins liggur fyrir.

300. gr.
Endurskoðun fjárhæða sem tilgreindar eru í evrum

Endurskoða skal fjárhæðir sem eru tilgreindar í evrum í þessari tilskipun á fimm ára fresti og hækka grunnfjárhæðina í evrum í hlutfalli við breytingu á samræmdum vísitölum neysluverðs allra aðildarríkja sem Hagstofa Evrópubandalaganna gefur út frá 31. október 2012 til endurskoðunardags og námunda að margfeldi af 100 000 evrum.
Ef breytingin á hlutfallinu frá síðustu endurskoðun er undir 5% verða fjárhæðirnar ekki endurskoðaðar.
Framkvæmdastjórnin skal birta endurskoðaðar fjárhæðir í Stjórnartíðindum Evrópusambandsins.
Aðildarríkin innleiða endurskoðaðar fjárhæðir innan 12 mánaða frá útgáfu í Stjórnartíðindum Evrópusambandsins.

301. gr.
Nefndarmeðferð

1.     Framkvæmdastjórnin skal njóta aðstoðar Evrópunefndar um vátryggingar og starfstengdar lífeyrisgreiðslur.
2.     Þegar vísað er til þessarar málsgreinar skulu ákvæði 5. og 7. gr. ákvörðunar 1999/468/EB gilda, með hliðsjón af ákvæðum 8. gr. hennar.
3.     Þegar vísað er til þessarar málsgreinar skulu ákvæði 1. til 4. mgr. 5. gr. a og 7. gr. ákvörðunar 1999/468/EB gilda, með hliðsjón af ákvæðum 8. gr. hennar.

302. gr.
Tilkynningar sendar fyrir gildistöku laga og stjórnsýslufyrirmæla sem nauðsynleg eru til að fara að ákvæðum 57. til 63. greinar

Matsmeðferð vegna fyrirhugaðra yfirtaka, sem tilkynntar hafa verið lögbærum yfirvöldum, skv. 57. gr., áður en nauðsynleg lög og stjórnsýslufyrirmæli til að fara að ákvæðum 57. til 63. gr. taka gildi, skal fara fram í samræmi við gildandi landslög aðildarríkjanna á þeim tíma þegar tilkynning er send.

303. gr.
Breytingar á tilskipun 2003/41/EB

Tilskipun 2003/41/EB er breytt sem hér segir:
1.     Í stað 2. mgr. 17. gr. komi eftirfarandi:
    „2.     Við útreikning á lágmarksfjárhæð viðbótareignanna skulu reglur, sem mælt er fyrir um í 17. gr. a til 17gr. d gilda.“
2.     Eftirfarandi greinar bætist við:
     „17. gr. a
     Raunverulegt gjaldþol
    1.     Aðildarríki skal gera kröfu um að hver sú stofnun sem um getur í 1. mgr. 17. gr., sem er með aðalskrifstofu innan yfirráðasvæðis þess, sjái til þess að raunverulegt gjaldþol þeirra vegna starfseminnar í heild sé ætíð fullnægjandi og a.m.k. í samræmi við kröfur í þessari tilskipun.
    2.     Raunverulegt gjaldþol er hreinar eignir stofnunar sem ekki tengjast neinum fyrirsjáanlegum skuldbindingum, að frádregnum öllum óefnislegum eignum, þ.m.t.:
    a)    innborgað hlutafé eða, ef um er að ræða gagnkvæmt félag, upphaflegt stofnfé, að viðbættum reikningum félagsaðila gagnkvæms félags sem uppfylla eftirtalin skilyrði:
        i.    í stofnsamþykktum skal kveðið á um að ekki sé heimilt að greiða félagsaðilum gagnkvæms félags af þessum reikningum hafi það í för með sér að raunverulegt gjaldþol fari niður fyrir tilskilið lágmark eða, ef um er að ræða félagsslit, að fyrst skuli gera upp aðrar skuldir félagsins,
        ii.    í stofnsamþykktum skal kveðið á um, að því er varðar greiðslur sem um getur í i. tölulið, af öðrum ástæðum en við útgöngu félagsaðila úr gagnkvæma félaginu, skuli lögbærum yfirvöldum tilkynnt um það með a.m.k. eins mánaðar fyrirvara og geta þau, þar til sá tími rennur út, bannað greiðslu og
        iii.    eingöngu er heimilt að breyta viðkomandi ákvæðum í stofnsamþykktum eftir að lögbær yfirvöld hafa lýst því yfir að þau hreyfi engum andmælum við breytingunni, sbr. þó skilyrðin sem kveðið er á um í i. og ii. lið,
    b)    varasjóðir (bundnir og frjálsir) sem ekki tengjast vátryggingarskuldbindingum,
    c)    hagnaður eða tap frá fyrra ári, að frádregnum arðgreiðslum og
    d)    enn fremur, að því marki sem landslög heimila, ágóðasjóðir sem koma fram í efnahagsreikningi og nota má til að mæta hvers kyns tapi, hafi ekki þegar verið tekin ákvörðun um úthlutun úr þeim til félaga og rétthafa.
    Raunverulegt gjaldþol skal lækkað um fjárhæð sem nemur eign stofnunarinnar í eigin hlutum.
    3.     Aðildarríki geta einnig kveðið á um að til raunverulegs gjaldþols megi einnig telja:
    a)    samanlagða fjárhæð forgangshlutafjár og víkjandi lána sem ekki mega fara yfir 50% af raunverulegu gjaldþoli eða lágmarksgjaldþoli, eftir því hvort er lægra, og þar af mega víkjandi lán með fastan gjalddaga eða heildarfjárhæð forgangshlutafjár með fastan lánstíma ekki fara yfir 25%, að því tilskildu, ef um er að ræða gjaldþrot eða slit líftryggingarfélags, að til sé bindandi samkomulag um að víkjandi lánum eða forgangshlutabréfum sé skipað aftar kröfum allra annarra kröfuhafa og þau verði ekki endurgreidd fyrr en allar aðrar útistandandi skuldir hafa verið greiddar.
    b)    verðbréf án tiltekins lánstíma og aðrir gerningar, þ.m.t. forgangshlutabréf, önnur en þau sem um getur í a-lið, en þau ásamt víkjandi lánum, sem um getur í a-lið, mega vera að hámarki 50% af raunverulegu gjaldþoli eða lágmarksgjaldþoli, eftir því hvort er lægra, að því tilskildu að þau uppfylli eftirtalin skilyrði:
        i.    óheimilt sé að endurgreiða þau að frumkvæði handhafa eða án þess að lögbært yfirvald hafi áður veitt samþykki sitt,
        ii.    útgáfusamningurinn verður að gera líftryggingarfélaginu kleift að fresta greiðslu vaxta af láninu,
        iii.    skipa skal kröfum lánveitanda á hendur líftryggingarfélaginu aftar öllum öðrum kröfum kröfuhafa sem ekki eru víkjandi,
        iv.    í skjölunum, sem gilda um útgáfu verðbréfanna, skal kveðið á um að nota megi skuldir og ógreidda vexti til að mæta tapi á meðan líftryggingarfélaginu er gert kleift að halda áfram starfsemi sinni og
        v.    aðeins er heimilt að telja með innborgaðar fjárhæðir.
        Að því er varðar a-lið skal víkjandi lán einnig uppfylla eftirfarandi skilyrði:
        i.    aðeins er heimilt að telja með innborgaðar fjárhæðir,
        ii.    upphaflegur lánstími lána með föstum lánstíma skal ekki vera skemmri en fimm ár. Eigi síðar en einu ári áður en kemur að endurgreiðslu skal líftryggingarfélagið leggja fyrir lögbær yfirvöld til samþykktar áætlun um hvernig raunverulegu gjaldþoli skuli haldið eða það aukið þannig að það nái tilskildu marki á gjalddaga, nema um sé að ræða lán sem má telja hluta af raunverulegu gjaldþoli sem unnt er að lækka í áföngum, á a.m.k. fimm árum fyrir endurgreiðslu. Lögbær yfirvöld geta veitt heimild til að flýta endurgreiðslu slíkra lána svo fremi líftryggingarfélagið sæki um það og að því tilskildu að raunverulegt gjaldþol fari ekki niður fyrir tilskilið lágmark,
        iii.    lán sem eru ekki með föstum gjalddaga skulu vera með fimm ára uppsagnarfresti nema lánið teljist ekki lengur hluti af raunverulegu gjaldþoli eða samþykki lögbærra yfirvalda þurfi til að það fáist greitt fyrr. Í síðara tilvikinu verður líftryggingarfélagið að senda lögbærum yfirvöldum tilkynningu a.m.k. sex mánuðum fyrir áætlaðan greiðsludag þar sem það tilgreinir raunverulegt gjaldþol og lágmarksgjaldþol, bæði fyrir og eftir endurgreiðsluna. Lögbær yfirvöld skulu eingöngu heimila endurgreiðslu fari raunverulegt gjaldþol líftryggingarfélagsins ekki niður fyrir tilskilið lágmark,
        iv.    lánssamningurinn má ekki fela í sér nein ákvæði þar sem gert er ráð fyrir að lán verði við sérstakar aðstæður endurgreitt fyrir gjalddaga nema um sé að ræða slit líftryggingarfélagsins,
        v.    einungis er heimilt að breyta lánssamningnum eftir að lögbær yfirvöld hafa lýst því yfir að þau hreyfi ekki andmælum við breytingunni,
    4.     Samkvæmt rökstuddri umsókn stofnunar til lögbærs yfirvalds heimaðildarríkis og að fengnu samþykki viðkomandi lögbærs yfirvalds má einnig telja til handbærs gjaldþols:
    a)    ef Zillmer-aðferð er ekki beitt eða ef henni er beitt en miðað við álag vegna sölukostnaðar sem er lægra en samsvarandi álag sem er innifalið í iðgjöldum, mismunurinn annars vegar á líftryggingarsjóði, sem er ekki reiknaður samkvæmt Zillmer-aðferðinni eða reiknaður er að hluta samkvæmt Zillmer-aðferð, og hins vegar líftryggingarsjóði, sem er reiknaður samkvæmt Zillmer-aðferð, þar sem gengið er út frá álagi á iðgjöld sem samsvarar sölukostnaðinum,
    b)    dulda nettóvarasjóði sem stafa af mati á eignum, að svo miklu leyti sem slíkir duldir nettóvarasjóðir eru ekki óvenjulegs eðlis,
    c)    helming ógreidds hlutafjár eða stofnfjár, enda nemi hlutinn, sem greiddur hefur verið, a.m.k. 25% hlutafjár eða stofnfjár, og þessi liður verði í mesta lagi 50% af raunverulegu eða lágmarksgjaldþoli, eftir því hvort er lægra.
    Fjárhæðin, sem um getur í a-lið, má þó ekki fara yfir 3,5% af samanlögðum mismun á líftryggingarfjárhæðum og starfstengdum lífeyri vegna allra samninga þar sem unnt er að nota Zillmer-aðferð. Frá þeim mismun skal draga allan óafskrifaðan, eignfærðan sölukostnað.
    5.     Framkvæmdastjórnin getur samþykkt framkvæmdaráðstafanir sem varða 2. til 4. mgr. til að taka tillit til þróunar sem réttlætir tæknilega aðlögun þeirra liða sem mynda mega raunverulegt gjaldþol.
    Þessar ráðstafanir, sem er ætlað að breyta veigalitlum þáttum þessarar tilskipunar með því að auka við hana, skulu samþykktar í samræmi við reglunefndarmeðferðina með athugun sem um getur í grein 21b.
     Grein 17b
     Lágmarksgjaldþol
    1.     Með fyrirvara um grein 17c skal lágmarksgjaldþol ákvarðað eins og mælt er fyrir um í málsgreinum 2 til 6 í samræmi við þær skuldbindingar sem stofnunin tekur á sig.
    2.     Lágmarksgjaldþol skal nema samtölu eftirfarandi liða:
    a)    fyrri niðurstaða:
        margfalda skal hluta sem nemur 4% af vátryggingasjóðum, í frumtryggingum og endurtryggingum, án frádráttar á hlut endurtryggjenda, og
        vegna móttekinna endurtrygginga, með hlutfallinu, sem skal ekki vera lægra en 85%, milli samanlagðra vátryggingafjárhæða, að frádregnum hlut endurtryggjenda, og heildarvátryggingafjárhæða eins og hlutfallið var á fyrra fjárhagsári.
    b)    síðari niðurstaða:
        margfalda skal hluta, sem nemur 0,3% af áhættufjárhæð vátrygginga, sem stofnunin hefur tekið á sig, þar sem áhættufjárhæðin er ekki neikvæð tala, með hlutfallinu milli samanlagðra líftryggingafjárhæða í eigin áhættu félagsins eftir endurtryggingu og endurtryggingu endurtryggjenda (úttrygging) og samanlagðra líftryggingafjárhæða án frádráttar endurtrygginga eins og það var á fyrra fjárhagsári – hlutfallið má þó aldrei vera lægra en 50%.
        Þegar um er að ræða tímabundnar dánaráhættulíftryggingar, að hámarki til þriggja ára, skal reikna 0,1% af fjárhæðinni. Séu líftryggingarnar til lengri tíma en þriggja ára en skemmri en fimm ára skal reikna 0,15% af fjárhæðinni.
    3.     Þegar um er að ræða viðbótartryggingar þær sem um getur í iii. lið a-liðar 3. mgr. 2. gr. tilskipunar 2009/138/EB Evrópuþingsins og ráðsins frá 25. nóvember 2009 um stofnun og rekstur fyrirtækja á sviði vátrygginga og endurtrygginga (Gjaldþolsáætlun II)(*) skal lágmarksgjaldþol vera jafnt lágmarksgjaldþoli stofnana sem mælt er fyrir um í 17. gr. d.
    4.     Þegar um er að ræða fjármögnunarstarfsemi, sem um getur í ii. lið b-liðar 3. mgr. 2. gr. tilskipunar 2009/138/EB, skal lágmarksgjaldþol vera jafnt 4% af líftryggingaskuld, reiknað í samræmi við a-lið 2. mgr.
    5.     Þegar um er að ræða starfsemi, sem um getur í i. lið b-liðar 3. mgr. 2. gr. tilskipunar 2009/138/ EB, skal lágmarksgjaldþol vera jafnt 1% af eignum þeirra.
    6.     Þegar um er að ræða vátryggingar skv. i. og ii. lið a-liðar 3. mgr. 2. gr. tilskipunar 2009/138/ EB, sem tengjast fjárfestingarsjóðum og starfsemi, sem um getur í iii., iv. og v. lið b-liðar 3. mgr. 2. gr. tilskipunar 2009/138/EB, skal lágmarksgjaldþol vera jafnt og summa eftirfarandi liða:
    a)    4% af líftryggingarskuld, reiknuð í samræmi við a-lið 2. mgr., beri stofnunin fjárfestingaráhættu,
    b)    1% af líftryggingaskuld, reiknað í samræmi við a-lið 2. mgr., ef félagið ber enga fjárfestingaráhættu en þeirri fjárhæð, sem á að mæta rekstrarkostnaði, er dreift á lengri tíma en fimm ár,
    c)    25% af hreinum skrifstofu- og stjórnunarkostnaði fyrra fjárhagsárs er lýtur að slíkri starfsemi ef félagið ber fjárfestingaráhættu og rekstrarkostnaði er ekki dreift á lengri tíma en fimm ár,
    d)    0,3% af líftryggingafjárhæð sem reiknuð er í samræmi við skilyrði, sem kveðið er á um í b-lið 2. mgr., ef starfsemi líftryggingarfélagsins nær til dánaráhættulíftrygginga.
     Grein 17c
     Ábyrgðarsjóður
    1.     Aðildarríkin geta kveðið á um að ábyrgðarsjóður skuli nema þriðjungi lágmarksgjaldþols eins og það er tilgreint í 17. gr. b. Þessi sjóður skal myndaður af liðum sem tilgreindir eru í 2. og 3. mgr. 17. gr. a og, að fengnu samþykki lögbærs yfirvalds heimaaðildarríkisins, í b-lið 4. mgr. 17. gr. a.
    2.     Ábyrgðarsjóður má þó ekki vera lægri en 3 milljónir evra. Aðildarríkjunum er heimilt að kveða á um lækkun um 25% á lágmarki ábyrgðarsjóðs þegar um er að ræða gagnkvæm félög og hliðstæð félagsform.
     Grein 17d
     Lágmarksgjaldþol að því er varðar 3. mgr. 17. gr. b
    1.     Lágmarksgjaldþol skal annaðhvort ákveðið á grundvelli árlegrar fjárhæðar iðgjalda og framlaga eða á grundvelli meðaltjónakostnaðar þriggja næstliðinna fjárhagsára.
    2.     Lágmarksgjaldþol skal eigi vera lægra en sú niðurstöðutala sem hærri er þeirra tveggja sem settar eru fram í 3. og 4. mgr.
    3.     Iðgjaldagrunnurinn skal reiknaður út með því að nota bókfærð iðgjöld og framlög, eins og þau eru reiknuð hér á eftir, eða verg iðgjöld og framlög ársins, hvort sem hærra reynist.
    Iðgjöld eða framlög (þar með talin viðbótargjöld eða viðbótarframlög) sem féllu í gjalddaga á fyrra fjárhagsári vegna frumtryggingastarfsemi skulu lögð saman.
    Þar við bætast iðgjöld fyrir allar mótteknar endurtryggingar á næstliðnu fjárhagsári.
    Frá þessari samtölu skal draga heildarfjárhæð niðurfelldra iðgjalda eða framlaga á næstliðnu fjárhagsári sem og heildarfjárhæð skatta og álagðra gjalda sem innifalin eru í iðgjöldum eða framlögum sem fara í samtöluna.
    Fjárhæðinni sem þannig fæst, er skipt í tvo hluta, annan, sem nemur allt að 50 milljón evrum, og hinn því sem umfram er. Reiknuð eru 18% af fyrri fjárhæðinni og 16% af þeirri síðari og þær fjárhæðir lagðar saman.
    Samtalan sem þannig fæst skal margfölduð með hlutfalli milli tjóna þriggja næstliðinna fjárhagsára, sem fyrirtækið ber í eigin áhættu eftir að hlutur endurtryggjenda í tjónum hefur verið dreginn frá, og tjóna í heild. Þetta hlutfall má þó aldrei vera lægra en 50% .
    4.     Tjónagrunnur skal reiknaður á eftirfarandi hátt:
    Bókfærð tjón í frumtryggingum (án frádráttar á hlut endurtryggjenda) á því tímabili, sem tiltekið er í 1. mgr., skulu lögð saman.
    Þar við er bætt bókfærðum tjónum í mótteknum endurtryggingum á sama tímabili og tjónaskuld í lok næstliðins fjárhagsárs, bæði vegna frumtryggingastarfsemi og móttekinna endurtrygginga.
    Frá þeirri samtölu skal draga fjárhæðir endurheimtar á þeim tímabilum sem um getur í 1. mgr.
    Frá upphæðinni, er þá stendur eftir, dregst tjónaskuld í upphafi næstliðins fjárhagsárs á undan síðasta fjárhagsári sem reikningar eru til fyrir, bæði í frumtryggingastarfsemi og mótteknum endurtryggingum.
    Einum þriðja hluta af fjárhæðinni sem þannig fæst, er skipt í tvo hluta, annan, sem nemur allt að 35 milljón evrum, og hinn síðari því sem umfram er. Reiknuð eru 26% af fyrri fjárhæðinni og 23% af þeirri síðari og þær fjárhæðir lagðar saman.
    Samtalan, sem þannig fæst, skal margfölduð með hlutfalli milli tjóna þriggja næstliðinna fjárhagsára, sem fyrirtækið ber í eigin áhættu eftir að hlutur endurtryggjenda í tjónum hefur verið dreginn frá, og tjóna í heild. Þetta hlutfall má þó aldrei vera lægra en 50% .
    5.     Ef lágmarksgjaldþol, eins og það er reiknað út í 2. til 4. mgr., reynist vera lægra en lágmarksgjaldþol fyrra árs skal lágmarksgjaldþol nema a.m.k. lágmarksgjaldþoli fyrra árs, margfölduðu með hlutfalli tjónaskuldar í lok síðasta fjárhagsárs og tjónaskuldar í byrjun síðasta fjárhagsárs. Í þessum útreikningum skulu vátryggingarskuldir reiknaðar að frádregnum hluta endurtryggjenda (úttrygging) en hlutfallið skal aldrei vera hærra en 1.
    

Hér er efni sem sést aðeins í pdf-skjalinu.


( *)    Stjtíð. ESB L 335, 17.12.2009, bls. 1.
3.     Eftirfarandi greinar bætast við:
     „Grein 21a
     Endurskoðun á fjárhæð ábyrgðarsjóðs
    1.     Fjárhæðin í evrum, sem mælt er fyrir um í 2. mgr. 17. gr. c, skal endurskoðuð árlega frá og með 31. október 2012 með hliðsjón af breytingum á samræmdum vísitölum neysluverðs allra aðildarríkjanna sem Hagstofa Evrópubandalaganna (Eurostat) gefur út .
    Þá fjárhæð skal aðlaga sjálfkrafa með því að hækka grunnfjárhæðina í evrum í hlutfalli við breytingu á vísitölunni frá 31. desember 2009 til endurskoðunardags og námunda að margfeldi af 100 000 evrum.
    Ef breytingin á hlutfallinu frá síðustu aðlögun er undir 5% fer engin aðlögun fram.
    2.     Framkvæmdastjórnin skal ár hvert tilkynna Evrópuþinginu og ráðinu um endurskoðunina og aðlöguðu fjárhæðina sem um getur í 1. mgr.
     21. gr. b
     Nefndarmeðferð
    1.     Framkvæmdastjórnin skal njóta aðstoðar Evrópunefndar um vátryggingar og starfstengda lífeyrissjóði, sem komið var á fót með ákvörðun framkvæmdastjórnarinnar 2004/9/EB(*).
    2.     Þegar vísað er til þessarar málsgreinar gilda ákvæði 1.–4. mgr. 5. gr. a og 7. gr. ákvörðunar 1999/468/EB með hliðsjón af ákvæðum 8. gr. hennar.“
    

Hér er efni sem sést aðeins í pdf-skjalinu.


( *)    Stjtíð. ESB L 3, 7.1.2004, bls. 34.

304. gr.
Undireining hlutabréfaáhættu sem samsvarar gildistíma

1.     Aðildarríki geta veitt þeim líftryggingarfélögum starfsleyfi sem bjóða:
a)    starfstengdan lífeyri í samræmi við 4. gr. tilskipunar 2003/41/EB eða
b)    eftirlaun, sem miðast við greiðslu þegar starfslokum er náð, eða þegar vænst er að þeim sé náð, ef greidd iðgjöld vegna eftirlaunanna veita vátryggingartaka rétt til skattafrádráttar í samræmi við landslög þess aðildarríkis sem veitt hefur félaginu starfsleyfi,
    þar sem:
    i.    allar eignir og skuldir, sem samsvara fyrirtækinu, sem annast starfstengda lífeyrinn, eru afmarkaðar (e. ring-fenced) og stýring þeirra og skipulagning er aðgreind frá allri annarri starfsemi vátryggingafélagsins og enginn möguleiki er á yfirfærslu,
    ii.    starfsemi félagsins, sem tengist a- og b-lið, að því er varðar þá aðferð sem beitt er og um getur í þessari málsgrein, er einungis rekin í því aðildarríki þar sem félagið hefur starfsleyfi og
    iii.    meðallíftími skuldbindinga félagsins, sem samsvara fyrirtækinu, sem annast starfstengda lífeyrinn, er að meðaltali lengri en 12 ár,
    til að nota einingu vegna hlutabréfaáhættu sem er hluti af gjaldþolskröfunni, sem er stillt með vágildismælingu, á tímabili sem er í samræmi við dæmigert eignartímabil eiginfjár viðkomandi félags með öryggismörkum sem veitir vátryggingartökum og rétthöfum sambærilega vernd og um getur í 101. gr., þegar aðferðin, sem kveðið er á um í þeirri grein, er einungis notuð vegna þeirra eigna og skuldbindinga sem um getur í i. lið. Við útreikning gjaldþolskröfunnar skal tekið fullt tillit til eigna og skuldbindinga í þeim tilgangi að meta áhrif áhættudreifingar, með fyrirvara um þörfina á að vernda hagsmuni vátryggingartaka og rétthafa í öðrum aðildarríkjum.
    Að fengnu samþykki eftirlitsyfirvalda skal einungis nota aðferðina, sem sett er fram í fyrsta undirlið, ef gjaldþols- og greiðsluhæfisstaða og stefna, verklag og reikningsskilaaðferðir viðkomandi félags, að því er varðar eigna- og skuldastýringu, eru þannig að það tryggi, miðað við áframhaldandi rekstrarhæfi, að félagið geti átt eigið fé á tímabili sem er í samræmi við dæmigert tímabil eignarhalds viðkomandi félags á eigin fé. Félagið skal geta sýnt eftirlitsyfirvaldinu fram á að það skilyrði sé sannprófað við þau öryggismörk sem nauðsynleg eru til að veita vátryggingartökum og rétthöfum þá vernd sem fram kemur í 101. gr.
    Vátrygginga- og endurtryggingafélög skulu ekki hverfa aftur til notkunar á aðferðinni sem er sett fram í 105. gr., nema aðstæður gefi nægilegt tilefni til og að fengnu samþykki eftirlitsyfirvalda.
2.     Framkvæmdastjórnin skal leggja fyrir Evrópunefnd um vátryggingar og starfstengda lífeyrissjóði og Evrópuþingið skýrslu fyrir 31. október 2015 um beitingu aðferðarinnar, sem er sett fram í 1. mgr., og þær starfsreglur eftirlitsyfirvalda sem samþykkt hefur verið að taka upp skv. 1. mgr., ásamt viðeigandi tillögum, eftir því sem við á. Í þeirri skýrslu skal einkum fjallað um áhrif yfir landamæri af beitingu þeirrar aðferðar til að koma í veg fyrir eftirlitshögnun vátrygginga- og endurtryggingafélaga vegna breytilegs regluumhverfis landa (e. regulatory arbitrage).

VI. BÁLKUR
UMBREYTINGAR- OG LOKAÁKVÆÐI
I. KAFLI
Umbreytingarákvæði

1. þáttur
Vátryggingar
305. gr.
Undanþágur og afnám takmarkandi ráðstafana

1.     Aðildarríki geta undanþegið skaðatryggingafélög sem uppfylltu ekki kröfur í 16. og 17. gr. tilskipunar 73/239/EBE hinn 31. janúar 1975, og höfðu ekki enn hinn 31. júlí 1978 náð árlegum iðgjöldum eða framlögum sem námu sexfaldri fjárhæð þess lágmarkstryggingarsjóðs sem krafist er skv. 2. mgr. 17. gr. tilskipunar 73/239/EBE, frá kröfum um að stofna lágmarkstryggingasjóð fyrir lok fjárhagsársins, þar sem iðgjöld eða framlög nema allt að sexfaldri fjárhæð þess háttar lágmarkstryggingasjóðs. Að teknu tilliti til niðurstaða þeirra athugana sem mælt er fyrir um í 2. mgr. 298. gr. skal ráðið, að tillögu framkvæmdastjórnarinnar, ákveða samhljóða hvenær aðildarríki eigi að fella niður þá undanþágu.
2.     Skaðatryggingafélögum sem komið er á fót í Breska konungsríkinu með „Royal Charter“ eða „private Act“ eða „special public Act“ er heimilt að halda áfram að reka starfsemi sína með því rekstrarformi að lögum sem þau voru stofnuð samkvæmt þann 31. júlí 1973 um ótakmarkaðan tíma.
Líftryggingarfélög sem komið er á fót í Breska konungsríkinu með „Royal Charter“ eða „private Act“ eða „special public Act“ er heimilt að halda áfram að reka starfsemi sína með því rekstrarformi að lögum sem þau voru stofnuð samkvæmt þann 15. mars 1979 um ótakmarkaðan tíma.
Breska konungsríkið skal gera skrá yfir þessi félög sem um getur í fyrstu og annarri undirgrein og senda hana öðrum aðildarríkjum og framkvæmdastjórninni.
3.     Félögum skráðum í Breska Konungsríkinu samkvæmt „Friendly Societies Acts“ er heimilt að halda áfram þeirri líftryggingarstarfsemi og innlánsstarfsemi, sem þau stunduðu, í samræmi við tilgang sinn, 15. mars 1979.
4.     Að beiðni skaðatryggingafélaga, sem fara að kröfunum, sem mælt er fyrir um í 2., 4. og 5. þætti, VI. kafla í I. bálki, skulu aðildarríki fella takmarkandi ráðstafanir úr gildi, eins og þær sem varða veðlán, tryggingarfé og verðbréf.

306. gr.
Áunnin réttindi útibúa og líftryggingarfélaga sem fyrir eru

1.     Útibú, sem hófu starfsemi í samræmi við gildandi ákvæði í aðildarríkinu, þar sem útibúið er, fyrir 1. júlí 1994, teljast falla undir málsmeðferðina í 145. og 146. gr.
2.     Ákvæði 147. og 148. gr. hafa ekki áhrif á áunnin réttindi líftryggingarfélaga sem reka starfsemi á grundvelli frelsis til að veita þjónustu fyrir 1. júlí 1994.

2. þáttur
Endurtryggingar
307. gr.
Aðlögunartímabil vegna 57. gr. (3. mgr.) og 60. gr. (6. mgr.) tilskipunar 2005/68/EB

Aðildarríkjum er heimilt að fresta beitingu ákvæða 3. mgr. 57. gr. tilskipunar 2005/68/EB sem breytir 3. mgr. 15. gr. tilskipunar 73/239/EBE og ákvæði 6. mgr. 60. gr. tilskipunar 2005/68/EB til 10. desember 2008.

308. gr.
Áunnin réttindi starfandi endurtryggingafélaga

1.     Endurtryggingafélög, sem heyra undir þessa tilskipun og fengu starfsleyfi eða réttindi til að annast endurtryggingastarfsemi í samræmi við ákvæði aðildarríkjanna þar sem þau hafa aðalskrifstofur fyrir 10. desember 2005, teljast vera með starfsleyfi í samræmi við 14. gr.
Hins vegar er þeim skylt að fara að ákvæðum þessarar tilskipunar, að því er varðar rekstur endurtrygginga, og kröfunum sem eru settar fram í 1. mgr. 18. gr. (b-, d- og g-liður), 19., 20. og 24. gr. og í 2., 3. og 4. þætti VI. kafla I. bálks.
2.     Aðildarríkin geta heimilað að endurtryggingafélög, sem um getur í 1. mgr. og hafa ekki farið að 1. mgr. 18. gr. (b-liður), 19. og 20. gr. og 2., 3. og 4. þætti VI. kafla I. bálks 10. desember 2005, fái frest til 10. desember 2008 til að uppfylla þessar kröfur.

II. KAFLI
Lokaákvæði

309. gr.
Lögleiðing

1.     Aðildarríkin skulu samþykkja nauðsynleg lög og stjórnsýslufyrirmæli til að fara að greinum 4, 10, 13, 14, 18, 23, 26–32, 34–49, 51–55, 67, 68, 71, 72, 74– 85, 87–91, 93–96, 98,100–110, 112, 113, 115–126, 128, 129, 131–134, 136–142, 144, 146, 148, 162– 167, 172, 173, 178, 185, 190, 192, 210–233, 235– 240, 243–258, 260–263, 265, 266, 303 og 304 og III. og IV. viðauka eigi síðar en 31. október 2012.
Þegar aðildarríkin samþykkja þessar ráðstafanir skal vera í þeim tilvísun í þessa tilskipun eða þeim fylgja slík tilvísun þegar þær eru birtar opinberlega. Í þeim skal einnig vera yfirlýsing um að líta beri á tilvísanir í gildandi lögum og stjórnsýslufyrirmælum í tilskipanirnar sem eru felldar niður með þessari tilskipun sem tilvísanir í þessa tilskipun. Aðildarríkin skulu setja nánari reglur um slíka tilvísun og hvernig yfirlýsingin skal sett fram.
2.     Aðildarríkin skulu senda framkvæmdastjórninni helstu ákvæði úr landslögum sem þau samþykkja um málefni sem tilskipun þessi tekur til.

310. gr.
Niðurfelling

Tilskipanir 64/225/EBE, 73/239/EBE, 73/240/EBE, 76/580/EBE, 78/473/EBE, 84/641/EBE, 87/344/ EBE, 88/357/EBE, 92/49/EBE, 98/78/EB, 2001/17/ EB, 2002/83/EB og 2005/68/EB, eins og þeim var breytt með gerðum í A-hluta VI. viðauka, eru felldar úr gildi frá og með 1. nóvember 2012, með fyrirvara um skuldbindingar aðildarríkja sem varða fresti til lögleiðingar og beitingu tilskipana sem eru settar fram í B-hluta VI. viðauka.
Líta ber á tilvísanir í niðurfelldu tilskipanirnar sem tilvísanir í þessa tilskipun og skulu þær lesnar með hliðsjón af samsvörunartöflunni í VII. viðauka.

311. gr.
Gildistaka

Tilskipun þessi öðlast gildi á tuttugasta degi eftir að hún birtist í Stjórnartíðindum Evrópusambandsins.
Ákvæði greina 1–3, 5–9, 11, 12, 15–17, 19–22, 24, 25, 33, 56–66, 69, 70, 73, 143, 145, 147, 149–161, 168–171, 174–177, 179–184, 186–189, 191, 193– 209, 267–300, 302, 305–308 og I., II., V., VI. og VII. viðauka skulu gilda frá 1. nóvember 2012.

312. gr.
Viðtakendur

Tilskipun þessari er beint til aðildarríkjanna.
Gjört í Strassborg 25. nóvember 2009.
Fyrir hönd Evrópuþingsins, Fyrir hönd ráðsins,
J. BUZEK Åsa TORSTENSSON
forseti. forseti.

I. VIÐAUKI
FLOKKAR SKAÐATRYGGINGA

A.    Röðun áhættu í vátryggingarflokka
     1.    Slys (þar með talin vinnuslys og atvinnusjúkdómar):
        –     bætur með föstum fjárhæðum
        –     bætur eftir eðli tjóns
        –     samsetning þessa tveggja
        –     slys á farþegum
     2.     Veikindi
        –     bætur með föstum fjárhæðum
        –     bætur eftir eðli tjóns
        –     samsetning þessa tveggja
     3.     Ökutæki til notkunar á landi (önnur en járnbrautarvagnar)
        Allt tjón og skemmdir á
        –     vélknúnum ökutækjum til notkunar á landi
        –     ökutækjum til notkunar á landi öðrum en vélknúnum ökutækjum
     4.     Járnbrautarvagnar
        Allt tjón og skemmdir á járnbrautarvögnum
     5.     Loftför
        Allt tjón og skemmdir á loftförum
     6.     Skip (á sjó, vötnum, fljótum og síkjum)
        Allt tjón og skemmdir á
        –     fljóta- og síkjabátum
        –     vatnabátum
        –     sjóskipum
     7.     Vöruflutningar (þ.m.t. söluvarningur, farangur og aðrar vörur)
        Allt tjón og skemmdir á vörum í flutningi án tillits til þess hvernig flutt er
     8.     Bruni og náttúruöfl
        Allt eignatjón og skemmdir (á öðrum eignum en þeim sem eru í 3., 4., 5., 6. og 7. flokki) sem verða vegna
        –     elds
        –     sprengingar
        –     óveðurs
        –     náttúruafla annarra en óveðurs
        –     kjarnorku
        –     landsigs
     9.     Annað eignatjón
        Allt eignatjón og skemmdir (á öðrum eignum en þeim sem eru í 3., 4., 5., 6. og 7. flokki) sem verða vegna hagls, frosts og atburða eins og þjófnaðar, annars en innifalinn er í 8. flokki.
     10.     Ábyrgð vegna ökutækja
        
Hvers konar ábyrgð vegna ökutækja til notkunar á landi (þar með talin ábyrgð vegna flutninga).
     11.     Ábyrgð vegna loftfara
        Hvers konar ábyrgð vegna notkunar loftfara (þ.m.t. ábyrgð vegna flutninga)
     12.     Ábyrgð vegna báta eða skipa (á sjó, vötnum, fljótum og síkjum)
        Hvers konar ábyrgð vegna notkunar skipa eða báta á sjó, vatni, fljótum eða síkjum (þar með talin ábyrgð vegna flutninga)
     13.     Almenn ábyrgð
        Hvers konar ábyrgð önnur en sem um getur í 10., 11. og 12. flokki.
     14.     Greiðslur
        –     ógjaldfærni (almennt)
        –     útflutningslán
        –     afborgunarskilmálar
        –     veð
        –     landbúnaðarlán
     15.     Efndir
        –     beinar
        –     óbeinar
     16.     Ýmislegt fjárhagstjón
        –     atvinnuleysisáhætta
        –     ófullnægjandi tekjur (almennt)
        –     óveður
        –     ábatamissir
        –     áframhaldandi almennur kostnaður
        –     ófyrirsjáanleg viðskiptaútgjöld
        –     tap á markaðsverði
        –     tap á leigu eða tekjum
        –     annað óbeint tap á viðskiptum
        –     fjárhagstjón (þó ekki í viðskiptum)
        –     annað fjárhagstjón
     17.     Réttaraðstoð
        Réttaraðstoð og kostnaður við málarekstur
     18.     Aðstoð
        Aðstoð við fólk sem lendir í erfiðleikum á ferðalögum, að heiman eða fjarri föstum búsetustað.
B.    Heiti á greinaflokkum þegar starfsleyfi er veitt samtímis fyrir fleiri en einn flokk vátrygginga
    Eftirfarandi heiti skal gefa starfsleyfum sem ná yfir eftirfarandi flokka:
    a)    Flokkar 1 og 2: „Slysa- og sjúkratryggingar“,
    b)    Flokkar 1 (fjórði undirliður), 3, 7 og 10: „Ökutækjatryggingar“,
    c)    Flokkar 1 (fjórði undirliður), 4, 6, 7 og 12: „Sjó- og flutningstryggingar“,
    d)    Flokkar 1 (fjórði undirliður), 5, 7 og 11: „Flugtryggingar“,
    e)    Flokkar 8 og 9: „Brunatryggingar og aðrar eignatryggingar“,
    f)    Flokkar 10, 11, 12 og 13: „Ábyrgðartryggingar“,
    g)    Flokkar 14 og 15: „Greiðslu- og efndavátryggingar“,
    h)    Allir flokkar, sem aðildarríkin ákveða, og skulu þau tilkynna öðrum aðildarríkjum og framkvæmdastjórn val sitt.

II. VIÐAUKI
FLOKKAR LÍFTRYGGINGA

I.    Líftryggingin sem um getur í i., ii. og iii. lið a-liðar í 3. mgr. 2. gr., að undanskildum þeim sem um getur í II. og III. lið
II.    Hjónalíftrygging, líftrygging við fæðingu
III.    Vátryggingin sem um getur í i. og ii. lið a-liðar í 3. mgr. 2. gr. og tengist fjárfestingarsjóðum
IV.    Varanleg heilsutrygging sem um getur í iv. lið a-liðar í 3. mgr. 2. gr.
V.    Erfðalífrentusjóðurinn sem um getur í i. lið b-liðar í 3. mgr. 2. gr.
VI.    Fjármögnunarstarfsemin sem um getur í ii. lið b-liðar í 3. mgr. 2. gr.
VII.    Rekstur lífeyrissjóða, sem um getur í iii. og iv. lið b-liðar í 3. mgr. 2. gr.
VIII.    Rekstur sem um getur í v. lið b-liðar í 3. mgr. 2. gr.
IX.     Rekstur sem um getur í c-lið 3. mgr. 2. gr.

III. VIÐAUKI
LAGALEGT FORM FÉLAGA

A.     Skaðatryggingafélög:
    1)    í Konungsríkinu Belgíu: 'société anonyme/naamloze vennootschap', 'société en commandite par actions/commanditaire vennootschap op aandelen', 'association d'assurance mutuelle/onderlinge verzekeringsvereniging', 'société coopérative/coöperatieve vennootschap', 'société mutualiste/ maatschappij van onderlinge bijstand';
    2)    í Lýðveldinu Búlgaríu: '.......... .........';
    3)    í Tékklandi: 'akciová spolecnost', 'druzstvo';
    4)    í Konungsríkinu Danmörku: 'aktieselskaber', 'gensidige selskaber';
    5)    í Sambandslýðveldinu Þýskalandi: 'Aktiengesellschaft', 'Versicherungsverein auf Gegenseitigkeit', 'Öffentlich-rechtliches Wettbewerbsversicherungsunternehmen';
    6)    í Lýðveldinu Eistlandi: 'aktsiaselts';
    7)    á Írlandi: 'incorporated companies limited by shares or by guarantee or unlimited';
    8)    í Lýðveldinu Grikklandi: '.....µ. .......', '................. ..........µ..';
    9)    í Konungsríkinu Spáni: 'sociedad anónima', 'sociedad mutua', 'sociedad cooperativa';
    10)    Í Lýðveldinu Frakklandi: 'société anonyme', 'société d'assurance mutuelle', 'institution de prévoyance régie par le code de la sécurité sociale', 'institution de prévoyance régie par le code rural', 'mutuelles régies par le code de la mutualité';
    11)    í Lýðveldinu Ítalíu: 'società per azioni', 'società cooperativa', 'mutua di assicurazione';
    12)    í Lýðveldinu Kýpur: '........ ........µ.... ....... µ. µ......', '........ ........µ.... ....... ..... µ....... ........';
    13)    í Lýðveldinu Lettlandi: 'apdrosinãsanas akciju sabiedriba', 'savstarpejãs apdrosinãsanas kooperativã biedriba';
    14)    í Lýðveldinu Litháen: 'akcine bendrove', 'uzdaroji akcine bendrove';
    15)    í Stórhertogadæminu Lúxemborg: 'société anonyme', 'société en commandite par actions', 'association d'assurances mutuelles', 'société coopérative';
    16)    í Lýðveldinu Ungverjalandi: 'biztosító részvénytársaság', 'biztosító szövetkezet', 'biztosító egyesület', 'külföldi székhelyu biztosító magyarországi fióktelepe';
    17)    í Lýðveldinu Möltu: 'limited liability company/kumpannija b' responsabbilta' limitata';
    18)    í Konungsríkinu Hollandi: 'naamloze vennootschap', 'onderlinge waarborgmaatschappij';
    19)    í Lýðveldinu Austurríki: 'Aktiengesellschaft', 'Versicherungsverein auf Gegenseitigkeit';
    20)    í Lýðveldinu Póllandi: 'spólka akcyjna', 'towarzystwo ubezpieczen wzajemnych';
    21)    í Lýðveldinu Portúgal: 'sociedade anónima', 'mútua de seguros';
    22)    í Rúmeníu: 'societãti pe actiuni', 'societãti mutuale';
    23)    í Lýðveldinu Slóveníu: 'delniska druzba', 'druzba za vzajemno zavarovanje';
    24)    í Lýðveldinu Slóvakíu: 'akciová spolocnost';
    25)    í Lýðveldinu Finnlandi: 'keskinäinen vakuutusyhtiö/ömsesidigt försäkringsbolag', 'vakuutusosakeyhtiö/försäkringsaktiebolag', 'vakuutusyhdistys/försäkringsförening';
    26)    í Konungsríkinu Svíþjóð: 'försäkringsaktiebolag', 'ömsesidiga försäkringsbolag', 'understödsföreningar';
    27)    á Stóra-Bretlandi: 'companies limited by shares or by guarantee or unlimited, societies registered under the Industrial and Provident Societies Acts, societies registered under the Friendly Societies Acts, the association of underwriters known as Lloyd's';
    28)    í öllu falli og sem annan kost en þau félagsform skaðatryggingafélaga sem tilgreind eru í 1.–27. lið getur fyrirtæki tekið upp félagsform Evrópufélags (SE) eins og það er skilgreint í reglugerð (EB) nr. 2157/2001( 1 ).
B.    Líftryggingafélög:
    
1)    í Konungsríkinu Belgíu: 'société anonyme/naamloze vennootschap', 'société en commandite par actions/commanditaire vennootschap op aandelen', 'association d'assurance mutuelle/onderlinge verzekeringsvereniging', 'société coopérative/coöperatieve vennootschap';
    2)    í Lýðveldinu Búlgaríu: '.......... .........', '..................... ..........';
    3)    í Tékklandi: 'akciová spolecnost', 'druzstvo';
    4)    í Konungsríkinu Danmörku: 'aktieselskaber', 'gensidige selskaber', 'pensionskasser omfattet af lov om forsikringsvirksomhed (tværgående pensionskasser)';
    5)    í Sambandslýðveldinu Þýskalandi: 'Aktiengesellschaft', 'Versicherungsverein auf Gegenseitigkeit', 'öffentlich-rechtliches Wettbewerbsversicherungsunternehmen';
    6)    í Lýðveldinu Eistlandi: 'aktsiaselts';
    7)    á Írlandi: 'incorporated companies limited by shares or by guarantee or unlimited', 'societies registered under the Industrial and Provident Societies Acts', 'societies registered under the Friendly Societies Acts';
    8)    í Lýðveldinu Grikklandi: '.....µ. .......';
    9)    í Konungsríkinu Spáni: 'sociedad anónima', 'sociedad mutua', 'sociedad cooperativa';
    10)    Í Lýðveldinu Frakklandi: 'société anonyme', 'société d'assurance mutuelle', 'institution de prévoyance régie par le code de la sécurité sociale', 'institution de prévoyance régie par le code rural', 'mutuelles régies par le code de la mutualité';
    11)    í Lýðveldinu Ítalíu: 'società per azioni', 'società cooperativa', 'mutua di assicurazione';
    12)    í Lýðveldinu Kýpur: '........ ........µ.... ....... µ. µ......', '........ ........µ.... ....... µ. .......';
    13)    í Lýðveldinu Lettlandi: 'apdrosinãsanas akciju sabiedriba', 'savstarpejãs apdrosinãsanas kooperativã biedriba';
    14)    í Lýðveldinu Litháen: 'akcine bendrove', 'uzdaroji akcine bendrove';
    15)    í Stórhertogadæminu Lúxemborg: 'société anonyme', 'société en commandite par actions', 'association d'assurances mutuelles', 'société coopérative';
    16)    í Lýðveldinu Ungverjalandi: 'biztosító részvénytársaság', 'biztosító szövetkezet', 'biztosító egyesület', 'külföldi székhelyu biztosító magyarországi fióktelepe';
    17)    í Lýðveldinu Möltu: 'limited liability company/kumpannija b' responsabbilta' limitata';
    18)    í Konungsríkinu Hollandi: 'naamloze vennootschap', 'onderlinge waarborgmaatschappij';
    19)    í Lýðveldinu Austurríki: 'Aktiengesellschaft', 'Versicherungsverein auf Gegenseitigkeit';
    20)    í Lýðveldinu Póllandi: 'spólka akcyjna', 'towarzystwo ubezpieczen wzajemnych';
    21)    í Lýðveldinu Portúgal: 'sociedade anónima', 'mútua de seguros';
    22)    í Rúmeníu: 'societãti pe actiuni', 'societãti mutuale';
    23)    í Lýðveldinu Slóveníu: 'delniska druzba', 'druzba za vzajemno zavarovanje';
    24)    í Lýðveldinu Slóvakíu: 'akciová spolocnost';
    25)    í Lýðveldinu Finnlandi: 'keskinäinen vakuutusyhtiö/ömsesidigt försäkringsbolag', 'vakuutusosakeyhtiö/försäkringsaktiebolag', 'vakuutusyhdistys/försäkringsförening';
    26)    í Konungsríkinu Svíþjóð: 'försäkringsaktiebolag', 'ömsesidiga försäkringsbolag', 'understödsföreningar';
    27)    á Stóra-Bretlandi: 'companies limited by shares or by guarantee or unlimited, societies registered under the Industrial and Provident Societies Acts, societies registered or incorporated under the Friendly Societies Acts, the association of underwriters known as Lloyd's';
    28)    í öllu falli, og sem annan kost en þau félagsform líftryggingafyrirtækis sem tilgreind eru í 1.–27. lið, getur fyrirtæki tekið upp félagsform Evrópufélags (SE) eins og það er skilgreint í reglugerð (EB) nr. 2157/2001.
C.    Félagsform endurtryggingafélaga:
    
1)    í Konungsríkinu Belgíu: 'société anonyme/naamloze vennootschap', 'société en commandite par actions/commanditaire vennootschap op aandelen', 'association d'assurance mutuelle/onderlinge verzekeringsvereniging', 'société coopérative/coöperatieve vennootschap';
    2)    í Lýðveldinu Búlgaríu: '.......... .........';
    3)    í Tékklandi: 'akciová spolecnost';
    4)    í Konungsríkinu Danmörku: 'aktieselskaber', 'gensidige selskaber';
    5)    í Sambandslýðveldinu Þýskalandi: 'Aktiengesellschaft', 'Versicherungsverein auf Gegenseitigkeit', 'Öffentlich-rechtliches Wettbewerbsversicherungsunternehmen';
    6)    í Lýðveldinu Eistlandi: 'aktsiaselts';
    7)    á Írlandi: 'incorporated companies limited by shares or by guarantee or unlimited';
    8)    í Lýðveldinu Grikklandi: '.....µ. .......', '................. ..........µ..';
    9)    í Konungsríkinu Spáni: 'sociedad anónima';
    10)    Í Lýðveldinu Frakklandi: 'société anonyme', 'société d'assurance mutuelle', 'institution de prévoyance régie par le code de la sécurité sociale', 'institution de prévoyance régie par le code rural', 'mutuelles régies par le code de la mutualité';
    11)    í Lýðveldinu Ítalíu: 'società per azioni';
    12)    í Lýðveldinu Kýpur: '........ ........µ.... ....... µ. µ......', '........ ........µ.... ....... µ. .......';
    13)    í Lýðveldinu Lettlandi: 'akciju sabiedriba', 'sabiedriba ar ierobezotu atbildibu';
    14)    í Lýðveldinu Litháen: 'akcine bendrove', 'uzdaroji akcine bendrove';
    15)    í Stórhertogadæminu Lúxemborg: 'société anonyme', 'société en commandite par actions', 'association d'assurances mutuelles', 'société coopérative';
    16)    í Lýðveldinu Ungverjalandi: 'biztosító részvénytársaság', 'biztosító szövetkezet', 'harmadik országbeli biztosító magyarországi fióktelepe';
    17)    í Lýðveldinu Möltu: 'limited liability company/kumpannija tà responsabbiltà limitata';
    18)    í Konungsríkinu Hollandi: 'naamloze vennootschap', 'onderlinge waarborgmaatschappij';
    19)    í Lýðveldinu Austurríki: 'Aktiengesellschaft', 'Versicherungsverein auf Gegenseitigkeit';
    20)    í Lýðveldinu Póllandi: 'spólka akcyjna', 'towarzystwo ubezpieczen wzajemnych';
    21)    í Lýðveldinu Portúgal: 'sociedade anónima', 'mútua de seguros';
    22)    í Rúmeníu: 'societate pe actiuni';
    23)    í Lýðveldinu Slóveníu: 'delniska druzba';
    24)    í Lýðveldinu Slóvakíu: 'akciová spolocnost';
    25)    í Lýðveldinu Finnlandi: 'keskinäinen vakuutusyhtiö/ömsesidigt försäkringsbolag', 'vakuutusosakeyhtiö/försäkringsaktiebolag', 'vakuutusyhdistys/försäkringsförening';
    26)    í Konungsríkinu Svíþjóð: 'försäkringsaktiebolag', 'ömsesidigt försäkringsbolag';
    27)    á Stóra-Bretlandi: 'companies limited by shares or by guarantee or unlimited, societies registered under the Industrial and Provident Societies Acts, societies registered or incorporated under the Friendly Societies Acts, the association of underwriters known as Lloyd's';
    28)    í öllu falli og sem annan kost en þau félagsform endurtryggingafélaga sem tilgreind eru í 1.–27. lið getur fyrirtæki tekið upp félagsform Evrópufélags (SE) eins og það er skilgreint í reglugerð (EB) nr. 2157/2001.

IV. VIÐAUKI
STÖÐLUÐ FORMÚLA GJALDÞOLSKRÖFU (SCR)

1.     Útreikningur á grunngjaldþolskröfu
    Grunngjaldþolskrafan, sem sett er fram í 1. mgr. 104. gr., er reiknuð á eftirfarandi hátt:

Grunngjaldþolskrafa =


Hér er efni sem sést aðeins í pdf-skjalinu.



    þar sem SCR i er áhættueining i og SCR j er áhættueining j, og þar sem 'i,j' merkir að summa mismunandi skilmála skuli taka til allra hugsanlegra samsetninga á i og j. Í útreikningnum kemur eftirfarandi í stað SCR i og SCR j:
    –     SCR non-life sem er áhættueining skaðatrygginga,
    –     SCR life sem er áhættueining líftrygginga,
    –     SCR health táknar áhættueiningu heilsutrygginga,
    –     SCR market táknar áhættueiningu markaðarins,
    –     SCR default táknar sjálfgefna áhættueiningu mótaðila,
    Stuðullinn Corr i,j táknar þáttinn sem er settur fram í i-línu og í j-dálki eftirfarandi fylgnifylki:

Hér er efni sem sést aðeins í pdf-skjalinu.


j
i
Markaður Vanefndir Líftrygging Heilsa Skaðatrygging
Markaður 1 0,25 0,25 0,25 0,25
Líftrygging 0,25 0,25 1 0,25 0
Heilsa 0,25 0,25 0,25 1 0
Vanefndir 0,25 1 0,25 0,25 0,5
Skaðatrygging 0,25 0,5 0 0 1
2.     Útreikningur á áhættueiningu skaðatrygginga
    
Áhættueining skaðatrygginga, sem er sett fram í 2. mgr. 105. gr., er reiknuð á eftirfarandi hátt:

SCR non-life =


Hér er efni sem sést aðeins í pdf-skjalinu.



    þar sem SCR i er undireining i og SCR j er undireining j, og 'i,j' merkir að summa mismunandi skilmála skuli taka til allra hugsanlegra samsetninga i og j. Í útreikningum koma, SCRi og SCRj í stað eftirfarandi:
    –     SCR nl premium and reserve sem eru skaðatryggingaiðgjöld og undireining varasjóðsáhættu,
    –     SCR nl catastrophe sem er undireining stórslysaáhættu skaðatrygginga,
3.     Útreikningur á áhættueiningu líftrygginga
    
Áhættueining líftrygginga, sem er sett fram í 3. mgr. 105. gr., er reiknuð á eftirfarandi hátt:

SCR life =


Hér er efni sem sést aðeins í pdf-skjalinu.



    þar sem SCR i táknar undireiningu i og SCR j táknar undireiningu j, og þar sem 'i,j' merkir að summa mismunandi skilmála eigi að ná yfir allar mögulegar samsetningar i og j. Í útreikningum koma, SCR i og SCR j í stað eftirfarandi:
    –     SCR mortality sem er undireining dánaráhættu,
    –     SCR longevity táknar undireiningu áhættu vegna langlífis,
    –     SCR disability táknar undireiningu áhættu vegna fötlunar eða sjúkdómsástands,
    –     SCR life expense táknar undireiningu áhættu líftryggingaútgjalda,
    –     SCR revision táknar undireiningu endurskoðunaráhættu,
    –     SCR lapse táknar undireiningu fyrningaráhættu,
    –     SCR life catastrophe táknar undireiningu stórslysaáhættu líftrygginga,
4.     Útreikningur á markaðsáhættueiningu
    Uppbygging markaðsáhættueiningar
    Markaðsáhættueining, sem er sett fram í 5. mgr. 105. gr., er reiknuð á eftirfarandi hátt:

SCR market =


Hér er efni sem sést aðeins í pdf-skjalinu.



    þar sem SCR i táknar undireiningu i og SCR j táknar undireiningu j, og þar sem 'i,j' merkir að summa mismunandi skilmála eigi að ná yfir allar mögulegar samsetningar i og j. Í útreikningum koma, SCRi og SCRj í stað eftirfarandi:
    SCR interest rate sem er undireining vaxtaáhættu,
    SCR equity táknar undireiningu hlutabréfaáhættu,
    SCR property táknar undireiningu fasteignaáhættu,
    SCR property táknar undireiningu áhættudreifingar,
    SCR concentration táknar undireiningu samsafnaðrar markaðsáhættu,
    SCR currency táknar undireiningu gjaldmiðilsáhættu,

V. VIÐAUKI
FLOKKAR SKAÐATRYGGINGA AÐ ÞVÍ ER VARÐAR 159. GR.

1.    Slys og veikindi (1. og 2. flokkur í I. viðauka),
2.    ökutæki (flokkar 3, 7 og 10 í I. viðauka, tölur fyrir 10. flokk að undanskilinni bótaábyrgð flutningsaðila, gefnar upp sérstaklega),
3.    brunar og annað eignatjón (flokkar 8 og 9 í I. viðauka),
4.    loft-, sjó- og flutningstryggingar (flokkar 4, 5, 6, 7, 11 og 12 í I. viðauka)
5.    almenn bótaábyrgð (13. flokkur í I. viðauka),
6.    greiðslu- og efndavátryggingar (flokkar 14 og 15 í I. viðauka),
7.    aðrir flokkar (flokkar 16, 17 og 18 í I. viðauka).

VI. VIÐAUKI
A-HLUTI
Niðurfelldar tilskipanir með skrá yfir síðari breytingar þeirra
(sem um getur í 310. gr.)

Tilskipun ráðsins 64/225/EBE
(Stjtíð. EB L 56, 4.4.1964, bls. 878).
    Aðildarlög frá 1973, 1. liður G-liðar III. liðar I. viðauka 29. gr.
    (Stjtíð. EB L 73, 27.3.1972, bls. 89).
Fyrsta tilskipun ráðsins 73/239/EBE
(Stjtíð. EB L 228, 16.8.1973, bls. 3).
    Aðildarlög frá 1994, 1. liður II. liðar B-liðar XI. liðar I. viðauka
    (Stjtíð. EB C 241, 29.8.1994, bls. 197).
    (í samræmi við ákvæði sem sett voru í stað þeirra með ákvörðun ráðsins 95/1/EB)
    (Stjtíð. EB L 1, 1.1.1995, bls. 1).
    Aðildarlög frá 2003, 1. liður 3. liðar II. viðauka 20. gr.
    (Stjtíð. ESB L 236, 23.9.2003, bls. 335).
    Aðildarlög frá 1985, a-liður 1. liðar c-liðar II. liðar I. viðauka 26. gr.
    (Stjtíð. EB L 302, 15.11.1985, bls. 156).
    Tilskipun ráðsins 76/580/EBE     eingöngu 1. gr.
    (Stjtíð. EB L 189, 13.7.1976, bls. 13).
    Tilskipun ráðsins 84/641/EBE     eingöngu 1.–14. gr.
    (Stjtíð. EB L 339, 27.12.1984, bls. 21).
    Tilskipun ráðsins 87/343/EBE     eingöngu 1. gr. og viðauki
    (Stjtíð. EB L 185, 4.7.1987, bls. 72).
    Tilskipun ráðsins 87/344/EBE     eingöngu 9. gr.
    (Stjtíð. EB L 185, 4.7.1987, bls. 77).
    Önnur tilskipun ráðsins 88/357/EBE     eingöngu greinar 9, 10 og 11
    (Stjtíð. EB L 172, 4.7.1988, bls. 1).
    Tilskipun ráðsins 90/618/EBE     eingöngu greinar 2, 3 og 4
    (Stjtíð. EB L 330, 29.11.1990, bls. 44).
    Tilskipun ráðsins 92/49/EBE    eingöngu greinar 4, 5, 6, 7, 9, 10, 11, 13, 14, 17, 18, 24, 32, 33 og 53
    (Stjtíð. EB L 228, 11.8.1992, bls. 1).
    Tilskipun Evrópuþingsins og ráðsins 95/26/EB    eingöngu 1. gr., þriðji undirliður 2. mgr. 2. gr. og 1. mgr. 3. gr.
    (Stjtíð. EB L 168, 18.7.1995, bls. 7).
    Tilskipun Evrópuþingsins og ráðsins 2000/26/EB     eingöngu 8. gr.
    (Stjtíð. EB L 181, 20.7.2000, bls. 65).
    Tilskipun Evrópuþingsins og ráðsins 2002/13/EB     eingöngu 1. gr.
    (Stjtíð. EB L 77, 20.3.2002, bls. 17).
    Tilskipun Evrópuþingsins og ráðsins 2002/87/EB     eingöngu 22. gr.
    (Stjtíð. ESB L 35, 11.2.2003, bls. 1).
    Tilskipun Evrópuþingsins og ráðsins 2005/1/EB     eingöngu 4. gr.
    (Stjtíð. ESB L 79, 24.3.2005, bls. 9).
    Tilskipun Evrópuþingsins og ráðsins 2005/68/EB     eingöngu 57. gr.
    (Stjtíð. ESB L 323, 9.12.2005, bls. 1).
    Tilskipun Evrópuþingsins og ráðsins 2006/101/EB     eingöngu 1. gr. og 1. liður viðauka
    (Stjtíð. ESB L 363, 20.12.2006, bls. 238).
Tilskipun ráðsins 73/240/EBE
(Stjtíð. EB L 228, 16.8.1973, bls. 20).
Tilskipun ráðsins 76/580/EBE
(Stjtíð. EB L 189, 13.7.1976, bls. 13).
Tilskipun ráðsins 78/473/EBE
(Stjtíð. EB L 151, 7.6.1978, bls. 25).
Tilskipun ráðsins 84/641/EBE
(Stjtíð. EB L 339, 27.12.1984, bls. 21).
Tilskipun ráðsins 87/344/EBE
(Stjtíð. EB L 185, 4.7.1987, bls. 77).
Önnur tilskipun ráðsins 88/357/EBE
(Stjtíð. EB L 172, 4.7.1988, bls. 1).
    Tilskipun ráðsins 90/618/EBE     eingöngu 5. til 10. gr.
    (Stjtíð. EB L 330, 29.11.1990, bls. 44).
    Tilskipun ráðsins 92/49/EBE    eingöngu 12. gr. (1. mgr.), 19. gr., 23. gr., 27. gr., 30. gr. (1. mgr.), 34. gr., 35. gr., 36. gr., 37. gr., 39. gr. (1. mgr.), 40. gr. (1. mgr.), 42. gr. (1. mgr.), 43. gr. (1. mgr.), 44. gr. (1. mgr.), 45. gr. (1. mgr.) og 46. gr. (1. mgr.).
    (Stjtíð. EB L 228, 11.8.1992, bls. 1).
    Tilskipun Evrópuþingsins og ráðsins 2000/26/EB     eingöngu 9. gr.
    (Stjtíð. EB L 181, 20.7.2000, bls. 65).
    Tilskipun Evrópuþingsins og ráðsins 2005/14/EB     eingöngu 3. gr.
    (Stjtíð. ESB L 149, 11.6.2005, bls. 14).
Tilskipun ráðsins 92/49/EBE
(Stjtíð. EB L 228, 11.8.1992, bls. 1).
    Tilskipun Evrópuþingsins og ráðsins 95/26/EB    einungis annar undirliður 1. gr., fyrsti undirliður 1. mgr. 2. gr., 1., 3. og 5. mgr. 4. gr. og annar undirliður 5. gr.
    (Stjtíð. EB L 168, 18.7.1995, bls. 7).
    Tilskipun Evrópuþingsins og ráðsins 2000/64/EB     eingöngu 2. gr.
    (Stjtíð. EB L 290, 17.11.2000, bls. 27).
    Tilskipun Evrópuþingsins og ráðsins 2002/87/EB     eingöngu 24. gr.
    (Stjtíð. ESB L 35, 11.2.2003, bls. 1).
    Tilskipun Evrópuþingsins og ráðsins 2005/1/EB     eingöngu 6. gr.
    (Stjtíð. ESB L 79, 24.3.2005, bls. 9).
    Tilskipun Evrópuþingsins og ráðsins 2005/68/EB     eingöngu 58. gr.
    (Stjtíð. ESB L 323, 9.12.2005, bls. 1).
    Tilskipun Evrópuþingsins og ráðsins 2007/44/EB     eingöngu 1. gr.
    (Stjtíð. ESB L 247, 21.9.2007, bls. 1).
Tilskipun Evrópuþingsins og ráðsins 98/78/EB
(Stjtíð. EB L 330, 5.12.1998, bls. 1).
    Tilskipun Evrópuþingsins og ráðsins 2002/87/EB     eingöngu 28. gr.
    (Stjtíð. ESB L 35, 11.2.2003, bls. 1).
    Tilskipun Evrópuþingsins og ráðsins 2005/1/EB     eingöngu 7. gr.
    (Stjtíð. ESB L 79, 24.3.2005, bls. 9).
    Tilskipun Evrópuþingsins og ráðsins 2005/68/EB     eingöngu 59. gr.
    (Stjtíð. ESB L 323, 9.12.2005, bls. 1).
Tilskipun Evrópuþingsins og ráðsins 2001/17/EB
(Stjtíð. EB L 110, 20.4.2001, bls. 28).
Tilskipun Evrópuþingsins og ráðsins 2002/83/EB
(Stjtíð. EB L 345, 19.12.2002, bls. 1).
    Tilskipun ráðsins 2004/66/EB     eingöngu II. liður viðauka
    (Stjtíð. ESB L 168, 1.5.2004, bls. 35).
    Tilskipun Evrópuþingsins og ráðsins 2005/1/EB     eingöngu 8. gr.
    (Stjtíð. ESB L 79, 24.3.2005, bls. 9).
    Tilskipun Evrópuþingsins og ráðsins 2005/68/EB     eingöngu 60. gr.
    (Stjtíð. ESB L 323, 9.12.2005, bls. 1).
    Tilskipun Evrópuþingsins og ráðsins 2006/101/EB     eingöngu 1. gr. og 3. liður viðaukans
    (Stjtíð. ESB L 363, 20.12.2006, bls. 238).
    Tilskipun Evrópuþingsins og ráðsins 2007/44/EB     eingöngu 2. gr.
    (Stjtíð. ESB L 247, 21.9.2007, bls. 1).
    Tilskipun Evrópuþingsins og ráðsins 2008/19/EB     eingöngu 1. gr.
    (Stjtíð. ESB L 76, 19.3.2008, bls. 44).
Tilskipun Evrópuþingsins og ráðsins 2005/68/EB
(Stjtíð. ESB L 323, 9.12.2005, bls. 1).
    Tilskipun Evrópuþingsins og ráðsins 2007/44/EB     eingöngu 4. gr.
    (Stjtíð. ESB L 247, 21.9.2007, bls. 1).
    Tilskipun Evrópuþingsins og ráðsins 2008/19/EB     eingöngu 1. gr.
    (Stjtíð. ESB L 76, 19.3.2008, bls. 44).
    Tilskipun Evrópuþingsins og ráðsins 2008/37/EB     eingöngu 1. gr.
    (Stjtíð. ESB L 81, 20.3.2008, bls. 1).

B-HLUTI
Skrá yfir fresti til lögleiðingar í aðildarríkjunum
(sem um getur í 310. gr.)

Tilskipun Frestur til lögleiðingar Tímamörk fyrir beitingu
64/225/EBE 26. ágúst 1965
73/239/EBE 27. janúar 1975 27. janúar 1976
73/240/EBE 27. janúar 1975
76/580/EBE 31. desember 1976
78/473/EBE 2. desember 1979 2. júní 1980
84/641/EBE 30. júní 1987 1. janúar 1988
87/343/EBE 1. janúar 1990 1. júlí 1990
87/344/EBE 1. janúar 1990 1. júlí 1990
88/357/EBE 30. desember 1989 30. júní 1990
90/618/EBE 20. maí 1992 20. nóvember 1992
92/49/EBE 31. desember 1993 1. júlí 1994
95/26/EB 18. júlí 1996 18. júlí 1996
98/78/EB 5. júní 2000
2000/26/EB 20. júlí 2002 20. janúar 2003
2000/64/EB 17. nóvember 2002
2001/17/EB 20. apríl 2003
2002/13/EB 20. september 2003
2002/83/EB 17. nóvember 2002, 20. september 2003, 19. júní 2004 (með hliðsjón af gildandi ákvæðum)
2002/87/EB 11. ágúst 2004
2004/66/EB 1. maí 2004
2005/1/EB 13. maí 2005
2005/14/EB 11. júní 2007
2005/68/EB 10. desember 2007
2006/101/EB 1. janúar 2007
2008/19/EB Á ekki við
2008/37/EB Á ekki við

V     II. VIÐAUKI
SAMSVÖRUNARTAFLA

Tilskipun 73/239/EBE Tilskipun 78/473/EBE Tilskipun 87/344/EBE Tilskipun 88/357/EBE Tilskipun 92/49/EBE Tilskipun 98/78/EB Tilskipun 2001/17/EB Tilskipun 2002/83/EB Tilskipun 2005/68/EB Tilskipun 2007/44/EB Þessi tilskipun
1. mgr. 1. gr. 2. gr. 1. mgr. 1. gr. Fyrsti málsliður 2. gr. 1. mgr. 1. gr. 1. gr., 2. og 3. mgr. 2. gr. og 267. gr.
2. mgr. 1. gr. 2. mgr. 2. gr.
3. mgr. 1. gr.
a- til c-liður 1. mgr. 2. gr.
d-liður 1. mgr. 2. gr. 4. mgr. 3. gr. 3. gr.
e-liður 1. mgr. 2. gr.
a-liður 2. mgr. 2. gr. 1. mgr. 5. gr.
b-liður 2. mgr. 2. gr. 2. mgr. 5. gr.
c-liður 2. mgr. 2. gr. 3. mgr. 5. gr.
d-liður 2. mgr. 2. gr. 4. mgr. 5. gr.
Fyrsta til fjórða undirgrein 3. mgr. 2. gr. 6. gr.
Fimmta undirgrein 3. mgr. 2. gr. 4. mgr. 15. gr.
Fyrsta og önnur undirgrein 1. mgr. 3. gr.
Þriðja undirgrein 1. mgr. 3. gr. 5. mgr. 4. gr.
2. mgr. 3. gr. 7. gr.
Fyrsti málsliður 4. gr. Fyrsti málsliður 8. gr.
a-liður 4. gr. 2. mgr. 8. gr.
b-liður 4. gr.
c-liður 4. gr. 3. mgr. 8. gr.
e-liður 4. gr.
f-liður 4. gr. 1. mgr. 8. gr.
g-liður 4. gr. 4. mgr. 8. gr.
a-liður 5. gr.
b-liður 5. gr. o-liður 1. mgr. 1. gr.
c-liður 5. gr. p-liður 1. mgr. 1. gr. 1. mgr. 134. gr.
d-liður 5. gr.
6. gr. 4. gr. 4. gr. 3. gr. 1. mgr., a- og b-liður 2. mgr. 14. gr.
1. mgr. og fyrsta undirgrein 2. mgr. 7. gr. 1. mgr. 5. gr. og fyrsta undirgrein 2. mgr. 1. mgr. og fyrsta undirgrein 2. mgr. 5. gr. 1. mgr. og fyrsta undirgrein 2. mgr. 15. gr.
a-liður annarrar undirgreinar 2. mgr. 7. gr. a-liður annarrar undirgreinar 2. mgr. 5. gr. Fyrsta undirgrein 3. mgr. 15. gr.
b-liður annarrar undirgreinar 2. mgr. 7. gr. b-liður annarrar undirgreinar 2. mgr. 5. gr.
a-liður 1. mgr. 8. gr. a-liður 1. mgr. 6. gr. a-liður 1. mgr. 6. gr. I. viðauki Viðaukar IIIA og B
Lokagrein a-liðar 1. mgr. 8. gr. 2. mgr. 5. gr. 2. mgr. 17. gr.
b-liður 1. mgr. 8. gr. b-liður 1. mgr. 6. gr. b-liður 1. mgr. 6. gr. a-liður 6. gr. a-liður 1. mgr. 18. gr.
a-liður 6. gr. b-liður 1. mgr. 18. gr.
c-liður 1. mgr. 8. gr. c-liður 1. mgr. 6. gr. c-liður 1. mgr. 6. gr. b-liður 6. gr. c-liður 1. mgr. 18. gr.
d-liður 1. mgr. 8. gr. d-liður 1. mgr. 6. gr. d-liður 1. mgr. 6. gr. c-liður 6. gr. d-liður 1. mgr. 18. gr.
e-liður 1. mgr. 8. gr. e-liður 1. mgr. 6. gr. e-liður 1. mgr. 6. gr. d-liður 6. gr. g-liður 18. gr.
f-liður 1. mgr. 8. gr. h-liður 18. gr.
Önnur til fjórða undirgrein 1. mgr. 8. gr. 2. mgr. 6. gr. 7. gr. 19. gr.
1. mgr. a 8. gr. 3. mgr. 6. gr. 8. gr. 20. gr.
2. mgr. 8. gr. 2. mgr. 6. gr. 4. mgr. 6. gr. 2. mgr. 18. gr.
Fyrsta undirgrein 3. mgr. 8. gr. Fyrsta undirgrein 3. mgr. 6. gr. Þriðja undirgrein 5. mgr. 6. gr. 1. mgr. 9. gr. 4. mgr. 21. gr.
Önnur undirgrein 3. mgr. 8. gr. Önnur undirgrein 3. mgr. 6. gr. og fyrsti málsliður 1. undirgreinar 29. gr. Fyrsta undirgrein 5. mgr. 6. gr. 2. mgr. 9. gr. Fyrsta undirgrein 1. mgr. 21. gr.
Þriðja undirgrein 3. mgr. 8. gr. Þriðja undirgrein 3. mgr. 6. gr. og önnur undirgrein 29. gr. 2. mgr. 21. gr.
Fjórða undirgrein 3. mgr. 8. gr. Fjórða undirgrein 3. mgr. 6. gr. 3. mgr. 21. gr.
4. mgr. 8. gr. 4. mgr. 6. gr. 6. mgr. 6. gr. 10. gr. 22. gr.
a–d-liður 9. gr. a–d-liður 7. gr. a–d-liður 7. gr. a-, c-, d- og e-liður 1. mgr. 11. gr. a-, c-, d- og e-liður 1. mgr. 23. gr.
e- og f-liður 9. gr. e- og f-liður 7. gr. a- og b-liður 2. mgr. 11. gr. e-liður 2. mgr. 23. gr.
g- og h-liður 9. gr. g- og h-liður 7. gr. f- og g-liður 7. gr. c- og d-liður 2. mgr. 11. gr. a- og d-liður 2. mgr. 23. gr.
1. mgr. 10. gr. 1. mgr. 32. gr. 1. mgr. 40. gr. Fyrsta undirgrein 1. mgr. 145. gr.
Fyrsta undirgrein 2. mgr. 10. gr. Fyrsta undirgrein 2. mgr. 32. gr. 2. mgr. 40. gr. 2. mgr. 145. gr.
Önnur undirgrein 2. mgr. 10. gr. Önnur undirgrein 2. mgr. 32. gr. 3. mgr. 145. gr.
3. mgr. 10. gr. 3. mgr. 32. gr. 3. mgr. 40. gr. 1. og 2. mgr. 146. gr.
4. mgr. 10. gr. 4. mgr. 32. gr. 4. mgr. 40. gr. 3. mgr. 146. gr.
5. mgr. 10. gr. 5. mgr. 32. gr. 5. mgr. 40. gr. Önnur undirgrein 3. mgr. 146. gr.
6. mgr. 10. gr. 6. mgr. 32. gr. 6. mgr. 40. gr. 4. mgr. 145. gr.
11. gr. 33. gr.
12. gr. 56. gr. 9. gr. 13. gr. Önnur undirgrein 25. gr.
Grein 12a Grein 9a 14. gr. og 2. mgr. 60. gr. 26. gr.
Fyrsta undirgrein 1. og 2. mgr. 13. gr. Fyrsta undirgrein 1. og 2. mgr. 9. gr. Fyrsti málsliður 1. mgr. og fyrsta undirgrein 2. mgr. 10. gr. Fyrsta undirgrein 1. og 2. mgr. 15. gr. 1. mgr. 30. gr., fyrsta undirgrein 2. mgr.
Önnur undirgrein 2. mgr. 13. gr. Önnur undirgrein 2. mgr. 9. gr. Önnur undirgrein 2. mgr. 30. gr.
Annar og þriðji málsliður 1. mgr. 10. gr. Önnur undirgrein 1. mgr. 15. gr. 3. mgr. 30. gr.
Þriðja undirgrein 2. mgr. 13. gr. Önnur undirgrein 2. mgr. 10. gr. 3. mgr. 60. gr. 1. mgr. 32. gr.
3. mgr. 13. gr. 3. mgr. 9. gr. 3. mgr. 10. gr. 4. mgr. 15. gr.
14. gr. 10. gr. 11. gr. 16. gr. 33. gr.
1. og 2. mgr. og önnur undirgrein 3. mgr. 15. gr. 17. gr. 1.–3. mgr. og önnur undirgrein 4. mgr. 20. gr. 1. og 3. mgr. 32. gr. 76.–86. gr.
Fyrsta undirgrein 3. mgr. 15. gr. Fyrsta undirgrein 4. mgr. 20. gr. 2. mgr. 32. gr. 2. mgr. 134. og 173. gr.
Grein 15a 18. gr. 33. gr.
16. gr. 27. gr. 35. gr., 36. gr., 8. mgr. 60. gr. 87.–99. gr.
Grein 16a 28. gr. 37.–39. gr., 9. mgr. 60. gr. 100.–127. gr.
1. mgr. 17. gr. 1. mgr. 29. gr. 1. mgr. 40. gr. 128. gr. og a–c-liður 1. mgr. og 2. mgr. 129. gr.
2. mgr. 17. gr. 2. mgr. 29. gr. 2. mgr. 40. gr. d-liður 1. mgr. 129. gr.
Grein 17a 30. gr. 41. gr.
Grein 17b 28. gr. og a-liður 28. gr. 10. mgr. 60. gr.
18. gr. 31. gr.
14. gr. 11. gr. 16. gr. 33. gr.
2. mgr. 19. gr. 2. mgr. 11. gr. 2. mgr. 13. gr. 2. mgr. 17. gr. 35. gr.
a- og b-liður í fyrstu og annarri undirgrein, 3. mgr. 19. gr. 10. gr. a- og b-liður í fyrstu og annarri undirgrein 3. mgr. 11. gr. 1. og 2. a- og b-liður í fyrstu og annarri undirgrein 3. mgr. 13. gr. a- og b-liður fyrstu undirgreinar, 3. og 4. mgr. 17. gr. 3., 5., 6. og 7. liður 1. mgr. 34. gr.
c-liður annarrar undirgreinar 3. mgr. 19. gr. 10. gr. c-liður annarrar undirgreinar 3. mgr. 11. gr. c-liður annarrar undirgreinar 3. mgr. 13. gr. c-liður fyrstu undirgreinar 4. mgr. 17. gr. 8. mgr. 34. gr.
Þriðja undirgrein 3. mgr. 19. gr. 10. gr. Þriðja undirgrein 3. mgr. 11. gr. Þriðja undirgrein 3. mgr. 13. gr. Önnur undirgrein 4. mgr. 17. gr. b-liður 2. mgr. 35. gr.
1. mgr. 20. gr. 1. mgr. 37. gr. 1. mgr. 42. gr. 137. gr.
Fyrsta undirgrein 2. mgr. 20. gr. Fyrsta undirgrein 2. mgr. 13. gr. Fyrsta undirgrein 2. mgr. 37. gr. Fyrsta undirgrein 2. mgr. 42. gr.
Önnur undirgrein 2. mgr. 20. gr. Önnur undirgrein 2. mgr. 13. gr. Önnur undirgrein 2. mgr. 37. gr. Önnur undirgrein 2. mgr. 42. gr. 5. mgr. 138. gr.
Fyrsta undirgrein 3. mgr. 20. gr. Fyrsta undirgrein 3. mgr. 13. gr. Fyrsta undirgrein 3. mgr. 37. gr. Fyrsta undirgrein 3. mgr. 42. gr.
Önnur undirgrein 3. mgr. 20. gr. Önnur undirgrein 3. mgr. 13. gr. Önnur undirgrein 3. mgr. 37. gr. Önnur undirgrein 3. mgr. 42. gr. 3. mgr. 139. gr.
4. mgr. 20. gr. 4. mgr. 13. gr.
5. mgr. 20. gr. Önnur undirgrein 2. mgr. og 5. mgr. 13. gr. Önnur undirgrein 2. mgr. og 5. mgr. 37. gr. Önnur undirgrein 2. mgr. og 4. mgr. 42. gr. 5. mgr. 138. gr.
Fyrsti málsliður fyrstu undirgreinar 1. mgr. greinar 20a. Fyrsti málsliður 1. mgr. 38. gr. 1. mgr. 43. gr. 2. mgr. 138. gr. og 2. mgr. 139. gr.
a–e-liður annars málsliðar fyrstu undirgreinar 1. mgr. greinar 20a. a–e-liður annars málsliðar 1. mgr. 38. gr. a–e-liður 2. mgr. 43. gr. 1. mgr. 142. gr.
2. mgr. greinar 20a 2. mgr. 38. gr. 141. gr.
3. mgr. greinar 20a 3. mgr. 38. gr. 4. mgr. 43. gr. 2. mgr. 140. gr.
4. mgr. greinar 20a 4. mgr. 38. gr. 5. mgr. 43. gr.
5. mgr. greinar 20a 5. mgr. 38. gr. 6. mgr. 43. gr. 2. mgr. 142. gr.
21. gr. 1. mgr. 11. gr.
a-, b- og d- liður fyrstu undirgreinar 1. mgr. 22. gr. 14. gr. a-, b- og d- liður fyrstu undirgreinar 1. mgr. 39. gr. a-, b- og d- liður fyrstu undirgreinar 1. mgr. 44. gr. a-, b- og c- liður 1. mgr. 144. gr.
Fyrsti málsliður annarrar undirgreinar 1. mgr. 22. gr. Fyrsti málsliður annarrar undirgreinar 1. mgr. 39. gr. Önnur undirgrein 1. mgr. 44. gr. Fyrsta undirgrein 2. mgr. 144. gr.
Annar málsliður annarrar undirgreinar 1. mgr. 22. gr. Annar málsliður annarrar undirgreinar 1. mgr. 39. gr. Önnur undirgrein 2. mgr. 144. gr.
2. mgr. 22. gr. 2. mgr. 39. gr. 2. mgr. 44. gr. 3. mgr. 144. gr.
1. mgr. 23. gr. 1. mgr. 51. gr. 1. mgr. 162. gr.
a–g-liður 2. mgr. 23. gr. 2. mgr. 51. gr. a–f-liður og h-liður 2. mgr. 162. gr.
h-liður 2. mgr. 23. gr. g-liður 2. mgr. 162. gr.
Fyrsti málsliður fyrstu undirgreinar 24. gr. Fyrsti málsliður fyrstu undirgreinar 54. gr. Fyrsti málsliður 165. gr.
Fyrsta undirgrein, annar málsliður og þriðja undirgrein 24. gr. Fyrsta undirgrein, annar málsliður – þriðja undirgrein 54. gr.
25. gr. 55. gr. 166. gr.
26. gr. 56. gr. 167. gr.
Fyrsta undirgrein 27. gr. Fyrsta undirgrein 2. mgr. 52. gr. Fyrsta undirgrein 168. gr.
Önnur undirgrein 27. gr. Önnur undirgrein 2. mgr. 52. gr. Önnur undirgrein 168. gr.
28. gr. 3. mgr. 52. gr. 170. gr.
Grein 28a 53. gr. 53. gr. 164. gr.
29. gr. 57. gr. 171. gr.
Grein 29a 58. gr. Fyrsta, önnur og þriðja undirgrein 176. gr.
1. og 2. mgr. greinar 29b 1. og 2. mgr. 59. gr. 1. og 2. mgr. 52. gr. 1. og 2. mgr. 177. gr.
3.–6. liður greinar 29b 3.–6. mgr. 59. gr. 3. og 4. mgr. 52. gr.
1. mgr. og a-liður 2. mgr. 30. gr.
b-liður 2. mgr. 30. gr. 1. mgr. 305. gr.
4. mgr. 30. gr. 2. mgr. 305. gr.
5. mgr. 30. gr. 4. mgr. 305. gr.
31. gr.
32. gr.
33. gr. 28. gr. 62. gr. 2. mgr. 54. gr. 2. og 3. mgr. 298. gr.
34. gr. 9. gr. 29. gr. 5. mgr. 11. gr. Fjórða undirgrein 5. mgr. 6. gr. 6. gr.
35. gr. 10. gr. 10. gr. 32. gr. 1. mgr. 57. gr. 1.–3. mgr. 11. gr. 1. og 2. mgr. 31. gr. 1.–4. mgr. 69. gr. 1. mgr. 64. gr. 1. mgr. 7. gr. 1. mgr. 309. gr.
36. gr. 11. gr. 11. gr. 33. gr. 2. mgr. 57. gr. 4. mgr. 11. gr. 3. mgr. 31. gr. 70. gr. 2. mgr. 64. gr. 2. mgr. 7. gr. 2. mgr. 309. gr.
37. gr. 34. gr.
38. gr. 12. gr. 12. gr. 35. gr. 58. gr. 13. gr. 33. gr. 74. gr. 66. gr. 9. gr. 312. gr.
A-hluti viðaukans Önnur undirgrein 2. mgr. 15. gr. og A-hluti I. viðaukans.
A-, B-hluti viðaukans A- og B- hluti I. viðauka
C-hluti viðaukans 16. gr.
D-hluti viðaukans
Fyrsta undirgrein 1. mgr. 1. gr. 1. mgr. 190. gr.
Önnur undirgrein 1. mgr. 1. gr. 2. mgr. 190. gr.
2. mgr. 1. gr.
1. mgr. 2. gr. 1. mgr. 190. gr.
2. mgr. 2. gr. 3. mgr. 190. gr.
3. gr. 191. gr.
1. mgr. 4. gr. Fyrsta og önnur undirgrein 192. gr.
2. mgr. 4. gr.
5. gr. 193. gr.
6. gr. 195. gr.
7. gr. 194. gr.
8. gr. 196. gr.
1. gr.
2. gr. 198. gr.
1. mgr. 3. gr. 199. gr.
Fyrsti málsliður fyrstu undirgreinar 2. mgr. 3. gr. Fyrsta undirgrein 1. mgr. 200. gr.
a- til c-liður 2. mgr. 3. gr. 2.–4. mgr. 200. gr.
3. mgr. 3. gr. Önnur undirgrein 1. mgr. 200. gr.
4. gr. 201. gr.
5. gr. 202. gr.
6. gr. 203. gr.
7. gr. 204. gr.
8. gr. 205. gr.
9. gr. 2. mgr. 16. gr.
1. gr.
a-, b- og e- liður 2. gr.
c-liður 2. gr. c-liður 1. mgr. 1. gr. e-liður 1. mgr. 2. gr.
d-liður 2. gr. 13. mgr. 13. gr.
f-liður 2. gr. e-liður 1. gr. h-liður 1. mgr. 1. gr.
3. gr. Annar málsliður, b-liður 1. gr. Önnur undirgrein 1. mgr. 145. gr.
4. gr. 187. gr.
6. gr.
a- til e-liður 1. mgr. 7. gr.
f-liður 1. mgr. 7. gr. 27. gr.
g-liður og 3. liður, 1. mgr. 7. gr.
1. og 2. mgr. 8. gr. 1. og 2. mgr. 179. gr.
3. mgr. 8. gr.
a- og c-liður, 4. mgr. 8. gr. 1. mgr. 30. gr.
d-liður, 4. mgr. 8. gr. 3. mgr. 179. gr.
5. mgr. 8. gr. 4. mgr. 179. gr.
12. gr.
1.–3. mgr. greinar 12a 150. gr.
Fyrsta undirgrein 4. mgr. greinar 12a 151. gr.
Annar til sjötti undirliður 4. mgr. greinar 12a 152. gr.
14. gr. 34. gr. 41. gr. 147. gr.
Fyrsta og önnur undirgrein, 1. mgr. 16. gr. 35. gr. 42. gr. 148. gr.
Þriðja undirgrein 1. mgr. 16. gr. 35. gr. 2. mgr. 148. gr.
17. gr. 36. gr. 43. gr. 149. gr.
26. gr.
27. gr.
31. gr. 299. gr.
31. gr. 2. mgr. 68. gr. 300. gr.
I. viðauki 23. gr. II. viðauki
Viðauki 2A
Viðauki 2B
5. gr., 9. gr., 10. gr. og 11. gr.
a-liður 1. gr. a-liður 1. gr. a-liður 2. gr. a-liður 1. mgr. 1. gr. 1. mgr. 13. gr.
b-liður 1. gr. b-liður 1. mgr. 1. gr. d-liður 1. mgr. 2. gr. 11. mgr. 13. gr.
c-liður 1. gr. e-liður 2. gr. e-liður 1. mgr. 1. gr. f-liður 1. mgr. 2. gr. a-liður 8. mgr. 13. gr.
d-liður 1. gr. f-liður 1. mgr. 1. gr. g-liður 1. mgr. 2. gr.
f-liður 1. gr. i-liður 1. mgr. 1. gr. i-liður 1. mgr. 2. gr. 18. mgr. 13. gr.
g-liður 1. gr. j-liður 1. mgr. 1. gr. j-liður 1. mgr. 2. gr. 21. mgr. 13. gr., 2. mgr. 24. gr. og 63. gr.
h-liður 1. gr. d-liður 1. gr. k-liður 1. mgr. 1. gr. k-liður 1. mgr. 2. gr. 15. mgr. 13. gr.
i-liður 1. gr. e-liður 1. gr. l-liður 1. mgr. 1. gr. l-liður 1. mgr. 2. gr. 16. mgr. 13. gr.
j-liður 1. gr. m-liður 1. mgr. 1. gr. 22. mgr. 13. gr.
k-liður 1. gr. k-liður 1. gr. h-liður 2. gr. n-liður 1. mgr. 1. gr. m-liður 1. mgr. 2. gr. 10. mgr. 13. gr.
l-liður 1. gr. r-liður 1. mgr. 1. gr. n-liður 1. mgr. 2. gr. 17. mgr. 13. gr.
a-liður l- liðar 1. gr. f-liður 1. gr. i-liður r- liðar 1. mgr. 1. gr. i-liður n- liðar 1. mgr. 2. gr. 20. mgr. 13. gr.
b-liður l- liðar 1. gr. ii-liður r- liðar 1. mgr. 1. gr. ii-liður n- liðar 1. mgr. 2. gr. 18. mgr. 13. gr.
3. gr. 188. gr.
8. gr. 12. gr. 1. mgr. 24. gr.
2. mgr. 12. gr. 1. mgr. 14. gr. 18. gr. 1. mgr. 39. gr.
3.–6. mgr. 12. gr. 2.–5. mgr. 14. gr. 2.–6. mgr. 39. gr.
1. og 2. mgr.15. gr. 1. og 2. mgr. 15. gr. 1. mgr. 19. gr. 57. gr.
3. mgr. 15. gr. 3. mgr. 15. gr. 22. gr. 61. gr.
4. mgr. 15. gr. 4. mgr. 15. gr. 23. gr. 62. gr.
Grein 15a Grein 15a 2.–8. mgr. 19. gr. 1.–7. mgr. 58. gr.
Grein 15b Grein 15b Grein 19a 59. gr.
Grein 15c Grein 15c 20. gr. 60. gr.
1. mgr. 16. gr. 1. mgr. 16. gr. 24. gr. 64. gr.
2. mgr. 16. gr. 2. mgr. 16. gr. 25. gr. 65. gr.
3. mgr. 16. gr. 3. mgr. 16. gr. 26. gr. 66. gr.
4. mgr. 16. gr. 4. mgr. 16. gr. 27. gr. 67. gr.
5. mgr. 16. gr. 5. mgr. 16. gr. 1. mgr. 28. gr. 1. mgr. 68. gr.
Fyrsta til fjórða undirgrein málsgreinar 5b 16. gr. Fyrsta til fjórða undirgrein 7. mgr. 16. gr. Fyrsta til fjórða undirgrein 3. mgr. 28. gr. 3. mgr. 68. gr.
Fimmta undirgrein málsgreinar 5b 16. gr. Fimmta undirgrein 7. mgr. 16. gr. Fimmta undirgrein 3. mgr. 28. gr. 4. mgr. 68. gr.
3. mgr. 16. gr. 66. gr.
5. mgr. c 16. gr. 8. mgr. 16. gr. 29. gr. 70. gr.
5. mgr. a 16. gr. 6. mgr. 16. gr. 2. mgr. 28. gr. 2. mgr. 68. gr.
a-liður 1. mgr. greinar 16a a-liður 1. mgr. 17. gr. Fyrsta undirgrein 1. mgr. 31. gr. a–c-liður 1. mgr. 72. gr.
b-liður 1. mgr. greinar 16a b-liður 1. mgr. 17. gr. Önnur undirgrein 1. mgr. 31. gr. Önnur undirgrein 1. mgr. 72. gr.
2. mgr. greinar 16a 2. mgr. 17. gr. 2. mgr. 31. gr. 2. mgr. 72. gr.
20. gr. 22. gr.
21. gr. 23. gr. 1.–3. mgr. 34. gr.
22. gr. 24. gr. 4. mgr. 34. gr.
25. gr.
28. gr. 33. gr. 180. gr.
29. gr. 1. og 3. mgr. 181. gr.
2. mgr. 30. gr. 2. mgr. 181. gr.
31. gr. 183. gr.
38. gr. 44. gr. 153. gr.
2. og 3. mgr. 39. gr. 45. gr. 154. gr.
2. mgr. 40. gr. 1. mgr. 46. gr. 8. mgr. 155. gr.
3. mgr. 40. gr. 2. mgr. 46. gr. 1. mgr. 155. gr.
4., 6.–8. og 10. mgr. 40. gr. 3., 5.–7. og 9. mgr. 46. gr. 2., 4.–6. og 9. mgr. 155. gr.
5. mgr. 40. gr. 4. mgr. 46. gr. 3. mgr. 155. gr.
9. mgr. 40. gr. 8. mgr. 46. gr. 7. mgr. 155. gr.
41. gr. 47. gr. 156. gr.
2. mgr. 42. gr. 48. gr. 160. gr.
2. og 3. mgr. 43. gr. 184. gr.
2. mgr. 44. gr. 49. gr. 159. gr. og V. viðauki
2. mgr. 45. gr. 189. gr.
Fyrsta og þriðja undirgrein 2. mgr. 46. gr. Fyrsta og þriðja undirgrein 1. mgr. og 2. mgr. 50. gr. 157. gr.
47.–50. gr.
51. gr. 64. gr. 56. gr.
Síðasti undirliður 51. gr. 4. mgr. 1. gr. 8. mgr. 58. gr.
52. gr.
54. gr. 206. gr.
55. gr. 207. gr.
24. og 26. gr.
1. mgr. 12. gr., 19. gr., 33. gr., 37. gr., 1. mgr. 39. gr., 1. mgr. 40. gr., 1. mgr. 42. gr., 1. mgr. 43. gr., 1. mgr. 44. gr., 1. mgr. 45. gr., 1. mgr. 46. gr.
b-liður 1. gr. 3. mgr. 13. gr.
c-liður 1. gr. s-liður 1. mgr. 1. gr. c-liður 1. mgr. 2. gr. 4. mgr. 13. gr.
g-liður 1. gr. a-liður 1. mgr. 212. gr.
h-liður 1. gr. b-liður 1. mgr. 212. gr.
i-liður 1. gr. i-liður a- liðar 2. mgr. 59. gr. f-liður 1. mgr. 210. gr.
j-liður 1. gr. j-liður a- liðar 2. mgr. 59. gr. g-liður 1. mgr. 210. gr.
l-liður 1. gr. b-liður 2. mgr. 59. gr. 6. mgr. 13. gr.
2. gr. 3. mgr. 59. gr. 1. mgr. 214. gr.
3. gr. 3. mgr. 59. gr. fyrsta og önnur undirgrein 1. og 2. mgr. 214. gr.
4. gr. 3. mgr. 59. gr. 1. mgr. 247. gr.
1. mgr. 5. gr. 4. mgr. 59. gr. 246. gr.
2. mgr. 5. gr. 1. mgr. 254. gr.
6. gr. 5. mgr. 59. gr. 2. mgr. 254. gr., 1. og 2. mgr. 255. gr.
7. gr. 5. mgr. 59. gr. 1. mgr. 249. gr., 252. gr., 253. gr.
8. gr. 5. mgr. 59. gr. 245. gr., 246. gr., 1. mgr. 258. gr.
9. gr. 6. mgr. 59. gr. 218. gr., 219. gr., 1. mgr. 258. gr.
10. gr. 7. mgr. 59. gr. 218. gr., 219. gr., 1. mgr. 258. gr., 260.–263. gr.
Grein 10a 8. mgr. 59. gr. 264. gr.
Grein 10b 257. gr.
12. gr. 32. gr. 73. gr. 65. gr. 1. mgr. 8. gr. 311. gr.
I. viðauki 9. mgr. 59. gr. og II. viðauki 213.–215. gr., 218.–246. gr.
II. viðauki 9. mgr. 59. gr. og II. viðauki 215.–217. gr., 220.–243. gr.
2. mgr. 1. gr. 267. gr.
b-liður 2. gr. b-liður 1. mgr. 268. gr.
c-liður 2. gr. c-liður 1. mgr. 268. gr.
d-liður 2. gr. d-liður 1. mgr. 268. gr.
f-liður 2. gr. h-liður 1. mgr. 2. gr. 9. mgr. 13. gr.
g-liður 2. gr. a-liður 1. mgr. 268. gr.
i-liður 2. gr. e-liður 1. mgr. 268. gr.
j-liður 2. gr. f-liður 1. mgr. 268. gr.
k-liður 2. gr. g-liður 1. mgr. 268. gr.
3. gr.
4. gr. 269. gr.
5. gr. 270. gr.
6. gr. 271. gr.
7. gr. 272. gr.
8. gr. 273. gr.
9. gr. 274. gr.
10. gr. 275. gr.
11. gr. 277. gr.
12. gr. 278. gr.
13. gr. 279. gr.
14. gr. 280. gr.
15. gr. 281. gr.
16. gr. 282. gr.
17. gr. 283. gr.
18. gr. 284. gr.
19. gr. 285. gr.
20. gr. 286. gr.
21. gr. 287. gr.
22. gr. 288. gr.
23. gr. 289. gr.
24. gr. 290. gr.
25. gr. 291. gr.
26. gr. 292. gr.
27. gr. 293. gr.
28. gr. 294. gr.
29. gr. 295. gr.
1. mgr. 30. gr. 2. mgr. 268. gr.
2. mgr. 30. gr. 296. gr.
Viðauki 276. gr.
d-liður 1. mgr. 1. gr.
g-liður 1. mgr. 1. gr. 14. mgr. 13. gr.
q-liður 1. mgr. 1. gr.
2. mgr. 1. gr. 3. mgr. 2. gr.
1. mgr. 2. gr. 3. mgr. 2. gr.
2., 3. og 8. mgr. 3. gr. 9. gr.
5. og 7 mgr. 3. gr. 10. gr.
6. mgr. 3. gr.
Önnur og þriðja undirgrein 2. mgr. 5. gr. Þriðji undirliður 2. mgr. og annar undirliður 3. mgr. 15. gr.
Fyrsta og önnur undirgrein 5. mgr. 6. gr. 1. mgr. 21. gr.
e-liður 7. gr. f-liður 2. mgr. 23. gr.
8. gr. 12. gr. 1. mgr. 24. gr.
12. gr. 208. gr.
9. mgr. 16. gr. 30. gr. 69. gr.
1.–6. mgr. 18. gr. 73. gr.
7. mgr. 18. gr.
Fyrsti undirliður fyrstu undirgreinar 1. mgr. 19. gr. 1. mgr. 74. gr.
Annar undirliður annarrar undirgreinar 1. mgr. 19. gr. Önnur undirgrein 3. mgr. 74. gr.
Önnur undirgrein 1. mgr., 2. og 3. mgr. 19. gr. 4.–7. mgr. 74. gr.
21. gr. 209. gr.
25. gr.
26. gr.
32. gr.
34. gr. 182. gr.
35. gr. 186. gr.
1. mgr. 36. gr. 1. mgr. 185. gr.
2. mgr. 36. gr. Fyrsti málsliður 4. mgr. 185. gr.
Viðauki IIIA 6. mgr. 185. gr.
3. mgr. 36. gr. 7. mgr. 185. gr.
41. gr. 147. gr.
1.–3. mgr. 42. gr. 1., 3. og 4. mgr. 148. gr.
43. gr. 149. gr.
45. gr.
48. gr. 160. gr.
49. gr. 159. gr.
a–g-liður 2. mgr. 51. gr. a–e, g- og h-liður 2. mgr. 162. gr.
3. og 4. mgr. 51. gr. 163. gr.
1. mgr. 52. gr. 169. gr.
1. og 2. mgr. 55. gr. 1. og 2. mgr. 166. gr.
56. gr. 167. gr.
1. og 2. mgr. 59. gr. 1. og 2. mgr. 52. gr. 1. og 2. mgr. 177. gr.
3. og 6. mgr. 59. gr. 3. og 4. mgr. 52. gr.
1. mgr. 60. gr. Önnur og þriðja undirgrein 2. mgr. 305. gr.
2. mgr. 60. gr. 3. mgr. 305. gr.
31. gr. 61. gr. 43. gr.
65. gr. 55. gr. 1. og 3. mgr. 301. gr.
66. gr. 308. gr.
67. gr. 53. gr. 297. gr.
1. mgr. 68. gr.
71. gr.
72. gr. 310. gr.
I. viðauki II. viðauki
III. viðauki a–c-liður 2. mgr., 3. mgr. og fyrsti undirliður 5. mgr. 185. gr.
IV. viðauki
V. viðauki VI. viðauki
VI. viðauki VII. viðauki
d-liður 2. mgr. 1. gr. 11. gr.
a-liður 1. mgr. 2. gr. 7. mgr. 13. gr.
b-liður 1. mgr. 2. gr.
h-liður 1. mgr. 2. gr. 9. mgr. 13. gr.
o-liður 1. mgr. 2. gr. 25. mgr. 13. gr.
p-liður 1. mgr. 2. gr. 26. mgr. 13. gr.
q-liður 1. mgr. 2. gr. 3. mgr. 210. gr.
2. mgr. 2. gr.
2. mgr. 4. gr. 5. mgr. 15. gr.
Fyrsta undirgrein 1. mgr. og 2. mgr. 5. gr. 1. og 2. mgr. 17. gr. og viðauki IIIC,
1. mgr. 9. gr. 4. mgr. 21. gr.
b-liður 1. mgr. 11. gr. b-liður 1. mgr. 23. gr.
3. mgr. 15. gr. 2. mgr. 32. gr.
21. gr.
45. gr.
46. gr. 1. og 2. mgr. 211. gr.
47. gr. 158. gr.
48. gr. 161. gr.
50. gr. 175. gr.
51. gr. 176. gr.
1. mgr. 54. gr. 1. mgr. 298. gr.
61. gr. 308. gr.
62. gr. 12. gr.
63. gr. 307. gr.
57., 58., 59. og 60. gr. II. viðauka,
4. mgr 1. gr., 4. mgr. 2. gr. og 6. mgr. 4. gr. 8. mgr. 58. gr.
2. mgr. 8. gr. 312. gr.
Neðanmálsgrein: 1
(1)    Stjtíð. ESB L 58, 3.3.2011, bls. 77, og EES-viðbætir við Stjtíð. ESB nr. 12, 3.3.2011, bls. 20.
Neðanmálsgrein: 2
(2)    Stjtíð. ESB L 335, 17.12.2009, bls. 1.
Neðanmálsgrein: 3
(3)    Stjtíð. EB L 56, 4.4.1964, bls. 878.
Neðanmálsgrein: 4
(4)    Stjtíð. EB L 228, 16.8.1973, bls. 3.
Neðanmálsgrein: 5
(5)    Stjtíð. EB L 228, 16.8.1973, bls. 20.
Neðanmálsgrein: 6
(6)    Stjtíð. EB L 189, 13.7.1976, bls. 13.
Neðanmálsgrein: 7
(7)    Stjtíð. EB L 151, 7.6.1978, bls. 25.
Neðanmálsgrein: 8
(8)    Stjtíð. EB L 339, 27.12.1984, bls. 21.
Neðanmálsgrein: 9
(9)    Stjtíð. EB L 185, 4.7.1987, bls. 77.
Neðanmálsgrein: 10
(10)    Stjtíð. EB L 172, 4.7.1988, bls. 1.
Neðanmálsgrein: 11
(11)    Stjtíð. EB L 228, 11.8.1992, bls. 1.
Neðanmálsgrein: 12
(12)    Stjtíð. EB L 330, 5.12.1998, bls. 1.
Neðanmálsgrein: 13
(13)    Stjtíð. EB L 110, 20.4.2001, bls. 28.
Neðanmálsgrein: 14
(14)    Stjtíð. EB L 345, 19.12.2002, bls. 1.
Neðanmálsgrein: 15
(15)    Stjtíð. ESB L 323, 9.12.2005, bls. 1.
Neðanmálsgrein: 16
(*)    Stjórnskipuleg skilyrði gefin til kynna.
Neðanmálsgrein: 17
(1)    Stjtíð. ESB L 224, 30.8.2008, bls. 11.
Neðanmálsgrein: 18
(2)    Álit Evrópuþingsins frá 22. apríl 2009 (hefur enn ekki verið birt í Stjórnartíðindum ESB) og ákvörðun ráðsins frá 10. nóvember 2009.
Neðanmálsgrein: 19
(3)    Stjtíð. EB L 228, 16.8.1973, bls. 3.
Neðanmálsgrein: 20
(4)    Stjtíð. EB L 151, 7.6.1978, bls. 25.
Neðanmálsgrein: 21
(5)    Stjtíð. EB L 185, 4.7.1987, bls. 77.
Neðanmálsgrein: 22
(6)    Stjtíð. EB L 172, 4.7.1988, bls. 1.
Neðanmálsgrein: 23
(7)    Stjtíð. EB L 228, 11.8.1992, bls. 1.
Neðanmálsgrein: 24
(8)    Stjtíð. EB L 330, 5.12.1998, bls. 1.
Neðanmálsgrein: 25
(9)    Stjtíð. EB L 110, 20.4.2001, bls. 28.
Neðanmálsgrein: 26
(10)    Stjtíð. EB L 345, 19.12.2002, bls. 1.
Neðanmálsgrein: 27
(11)    Stjtíð. ESB L 323, 9.12.2005, bls. 1.
Neðanmálsgrein: 28
(1)    Stjtíð. EB L 103, 2.5.1972, bls. 1.
Neðanmálsgrein: 29
(2)    Stjtíð. EB L 193, 18.7.1983, bls. 1.
Neðanmálsgrein: 30
(3)    Stjtíð. EB L 8, 11.1.1984, bls. 17.
Neðanmálsgrein: 31
(4)    Stjtíð. ESB L 145, 30.4.2004, bls. 1.
Neðanmálsgrein: 32
(5)    Stjtíð. ESB L 177, 30.6.2006, bls. 1.
Neðanmálsgrein: 33
(6)    Stjtíð. EB L 181, 20.7.2000, bls. 65.
Neðanmálsgrein: 34
(1)    Stjtíð. ESB L 35, 11.2.2003, bls. 1.
Neðanmálsgrein: 35
(1)    Stjtíð. ESB L 25, 29.1.2009, bls. 28.
Neðanmálsgrein: 36
(2)    Stjtíð. ESB L 157, 9.6.2006, bls. 87.
Neðanmálsgrein: 37
(1)    Stjtíð. ESB L 177, 4.7.2008, bls. 6.
Neðanmálsgrein: 38
(1)    Stjtíð. EB L 184, 17.7.1999, bls. 23.
Neðanmálsgrein: 39
(2)    Stjtíð. EB L 56, 4.4.1964, bls. 878.
Neðanmálsgrein: 40
(3)    Stjtíð. EB L 228, 16.8.1973, bls. 20.
Neðanmálsgrein: 41
(4)    Stjtíð. EB L 189, 13.7.1976, bls. 13.
Neðanmálsgrein: 42
(5)    Stjtíð. EB L 339, 27.12.1984, bls. 21.
Neðanmálsgrein: 43
(6)    Stjtíð. ESB L 235, 23.9.2003, bls. 10
Neðanmálsgrein: 44
(7)    Stjtíð. EB L 9, 15.1.2003, bls. 3.
Neðanmálsgrein: 45
(1)    Stjtíð. ESB C 321, 31.12.2003, bls. 1.
Neðanmálsgrein: 46
(1)    Stjtíð. EB L 222, 14.8.1978, bls. 11.
Neðanmálsgrein: 47
(1)    Stjtíð. ESB L 390, 31.12.2004, bls. 38.
Neðanmálsgrein: 48
(1)    Stjtíð. EB L 375, 31.12.1985, bls. 3.
Neðanmálsgrein: 49
(1)    Stjtíð. ESB L 309, 25.11.2005, bls. 15.
Neðanmálsgrein: 50
(1)    Stjtíð. EB L 126, 12.5.1984, bls. 20.
Neðanmálsgrein: 51
(1)    Stjtíð. ESB L 3, 7.1.2004, bls. 34.
Neðanmálsgrein: 52
(1)    Stjtíð. EB L 78, 26.3.1977, bls. 17.
Neðanmálsgrein: 53
(1)    Stjtíð. EB L 294, 10.11.2001, bls. 1.