Aðrar útgáfur af skjalinu: PDF - Word Perfect. Ferill 504. máls.
140. löggjafarþing 2011–2012.
Þingskjal 1011  —  504. mál.
Svarsjávarútvegs- og landbúnaðarráðherra við fyrirspurn Lúðvíks Geirssonar
um bann við lúðuveiðum.


     1.      Hversu margir bátar stunduðu eingöngu lúðuveiðar með haukalóð á árinu 2011?
    Einungis tveir bátar voru eingöngu á lúðuveiðum á haukalóð og stunduðu engar aðrar veiðar. Að auki voru 14 aðrir bátar á lúðuveiðum með haukalóð en þeir voru einnig á öðrum veiðum 2011.

     2.      Hver var heildarafli þessara báta og verðmæti veiðanna á árinu 2011?

    Þeir tveir bátar sem voru eingöngu á lúðuveiðum með haukalóð öfluðu samtals 37.495 kg (slægður afli) að verðmæti 44.327.838 kr.
    Þeir 14 bátar sem stunduðu einnig lúðuveiðar á haukalóð ásamt öðrum veiðum veiddu samtals 241.900 kg (slægður afli) að verðmæti 204.314.229 kr.

     3.      Hver er réttarstaða viðkomandi útgerða eftir að ótímabundið veiðibann við lúðuveiðum með haukalóð tók gildi þann 1. janúar sl.?
    Heimild ráðherra til að ráðstafa aflaheimildum til að mæta áföllum skv. 1. tölul. 1. mgr. 10. gr. laga um stjórn fiskveiða, er bundin við áföll „vegna verulegra breytinga á aflamarki einstakra tegunda“. Lúða hefur ekki verið hlutdeildarsett og aflamarki í lúðu hefur ekki verið ráðstafað til einstakra skipa, sbr. 2. mgr. 8. gr. sömu laga. Af þeim sökum fellur bann við lúðuveiðum naumast undir téð ákvæði 1. tölul. 1. mgr. 10. gr. Ráðuneytið hyggst ekki taka til nánari skoðunar að greiða bætur.

     4.      Eru fordæmi fyrir því að hálfu stjórnvalda að veita veiðirétt í öðrum aflategundum þegar sambærilegt veiðibann hefur verið sett?
    Á árunum 1991/1992 varð aflabrestur í loðnuveiðunum. Ekki var um eiginlegt bann við veiðum að ræða en ráðgjöf um hámarksafla fór úr 900 þús. tonnum á vertíðinni 1989/1990 í 250 þús. tonn 1990/1991. Ljóst var að áhrifin yrðu víðtæk á útgerðir loðnuskipa, vinnslur og þau byggðarlög þar sem loðnuvinnsla var mikilvæg. Í þágildandi lögum um stjórn fiskveiða, lögum nr. 38/1990, var ráðherra heimilt að bregðast við verulegum tekjubresti í sérveiðum með því að skerða botnfiskveiðiheimildir flotans í heild og verja skerðingunni til að bæta upp tekjutap sérveiðiflokksins.
    Samstarfsnefnd nokkurra ráðuneyta (utanríkis-, félagsmála-, sjávarútvegs- og forsætisráðuneytis) sem fjallaði um málið mælti ekki með því að ráðherra nýtti sér framangreinda heimild í lögum þar sem skerðingin á botnfiskheimildum flotans í heild yrði mjög mikil vegna þess mikla taps sem af loðnubrestinum hlytist. Aflaheimildir í flestum botnfisktegundum, þó sérstaklega þorski, höfðu minnkað á undanförnum árum og því þótti það ekki fýsilegur kostur að skerða þær enn frekar.
    Þáverandi sjávarútvegsráðherra lagði fram frumvarp til laga um ráðstafanir vegna aflabrests í loðnuveiðunum haustið 1990. Í frumvarpinu var lagt til að 8.000 þorskígildislestir af veiðiheimildum Hagræðingasjóðs og 5.000 lestir af viðbótarafla í úthafsrækju yrði ráðstafað tímabundið til loðnuflotans, frá 1. janúar til 31. ágúst 1991.
    Frumvarpið var samþykkt og ráðherra veitt heimild til að skipta heimildum milli loðnuskipa og miða við aflahlutdeild skipanna af loðnu og loðnuafla þeirra á haustvertíð 1990.
    Veiðar á innfjarðarækju drógust mikið saman um síðustu aldamót. Veiðibann var sett á úti fyrir Norðurlandi á árunum 1999–2002 og er enn í gildi. Veiðar voru bannaðar í Ísafjarðardjúpi 2003 og í Arnarfirði 2005. Stofninn við Eldey hrundi 1997 og voru veiðar bannaðar í framhaldi. Með reglugerð árið 2000 var þeim bátum sem hlutdeild áttu í rækju á innfjarðarsvæðum og við Eldey og urðu fyrir skerðingu í aflaheimildum 1999/2000 úthlutað aflamarki í botnfiski. Sett voru viðmiðunarmörk vegna útreiknings bóta og samkvæmt henni varð skerðingin í rækju 1999/2000 að hafa verið meiri en 30% frá meðalafla síðustu sex vertíða. Bátar sem voru með meðaltalsafla yfir 52,2 tonnum á viðkomandi svæði 1999/2000 fengu ekki bætur. Uppbótum var úthlutað til báta á grundvelli þeirrar aflahlutdeildar sem þeir höfðu í rækju á viðkomandi svæði og skiptust á eftirgreindar tegundir: þorsk, ýsu, ufsa og steinbít.
    Á árunum 2001–2003 varð mikill samdráttur í veiðum á hörpuskel sem endaði með veiðibanni í Breiðafirði 2004. Vegna þessara skerðinga var bátum sem áttu hlutdeild í hörpuskel í Ísafjarðardjúpi, Húnaflóa, Hvalfirði og á Breiðafirði úthlutað aflamarki. Við útreikning uppbóta var miðað við að skerðingin væri ekki meiri en 30% frá meðalafla áranna 1993–2003. Uppbæturnar skiptust á eftirtaldar tegundir: þorsk, ýsu, ufsa og steinbít.
    Ákvörðun um bætur þær sem skel- og rækjubátar fengu úthlutað í samræmi við hlutdeild í skel og rækju var byggð á 9. gr. þáverandi laga um stjórn fiskveiða (10. gr. núverandi laga nr. 116/2006, um stjórn fiskveiða) sem fjallaði um bætur vegna aflabrests og stuðnings við byggðalög. Í þeim lögum var ráðherra heimilt að ráðstafa 12.000 lestum af óslægðum botnfiski í þorskígildum talið í samræmi við 9. gr.