Aðrar útgáfur af skjalinu: PDF - Word Perfect. Ferill 385. máls.
140. löggjafarþing 2011–2012.
Prentað upp.

Þingskjal 1015  —  385. mál.
Undirskriftir.

Síðari umræða.


Nefndarálit með breytingartillöguum tillögu til þingsályktunar um stefnu um beina erlenda fjárfestingu.

Frá efnahags- og viðskiptanefnd.


    Nefndin hefur fjallað um málið og fengið á sinn fund Valgerði Rún Benediktsdóttur og Ingva Má Pálsson frá iðnaðarráðuneyti, dr. Ásgeir Jónsson höfund greinargerðarinnar „Þýðing beinnar erlendrar fjárfestingar fyrir Ísland“ sem fylgir tillögunni, Pétur Reimarsson frá Samtökum atvinnulífsins, Bjarna Má Gylfason frá Samtökum iðnaðarins, Þórð Hilmarsson frá Íslandsstofu, Sonju Bjarnadóttur og Guðmund Sigurðsson frá Samkeppniseftirlitinu, Friðrik Friðriksson og Svein Hjört Hjartarson frá Landssambandi íslenskra útvegsmanna, Reinhard Reynisson frá Atvinnuþróunarfélagi Þingeyinga, Eirík Blöndal og Bjarna Jónsson frá Bændasamtökum Íslands og Harald Birgisson frá Viðskiptaráði. Þá hafa borist umsagnir frá Alþýðusambandi Íslands, atvinnuveganefnd Alþingis, Atvinnuþróunarfélagi Þingeyinga, Bændasamtökum Íslands, iðnaðarráðuneyti, Íslandsstofu, Landssambandi íslenskra útvegsmanna, samkeppniseftirlitinu, Samorku, Samtökum atvinnulífsins, Samtökum fjármálafyrirtækja, Samtökum iðnaðarins og Viðskiptaráði Íslands.
    Í tillögunni er stjórnvöldum falið að hrinda úr vör samstilltu átaki til að auka veg erlendrar fjárfestingar hér á landi. Er lagt til að efnahags- og viðskiptaráðherra og iðnaðarráðherra leggi fram á þessu þingi tímasetta áætlun um aðgerðir til að efla markaðs- og kynningarstarf sem byggðar verði á eftirsóknarverðum viðmiðum sem stuðla eiga að samkeppnishæfara atvinnulífi, verðmætasköpun, fjölgun starfa og sjálfbærni. Samkvæmt tillögunni ályktar Alþingi einnig um mikilvægi þess að lagaumhverfi erlendrar fjárfestingar hér á landi verði endurskoðað með viðmiðin að leiðarljósi og á þann hátt að reglurnar verði skýrar og ótvíræðar og meðferð málanna gagnsæ.
    Af athugasemdum við tillöguna virðist mega ráða að markmið hennar sé að beina erlendri fjárfestingu til uppbyggingar í atvinnugreinum sem byggi hvað mest á styrkleikum lands og þjóðar. Samkvæmt skýrslu starfshóps iðnaðarráðherra birtast styrkleikarnir m.a. í endurnýjanlegri orku og hreinni náttúru, sem og vel menntuðu vinnuafli. Aðstæður hér á landi opna því tækifæri til fjárfestingar í ýmsum umhverfisvænum og orkuháðum tækniiðnaði og eru sem dæmi nefnd í athugasemdunum hugbúnaðariðnaður, gagnaver, skapandi greinar, þjónustuiðnaður, heilsutengd ferðaþjónusta og líftækniiðnaður.
    Forsenda árangurs er talin vera sú að stjórnvöld leggi rækt við markaðsstarf sem veki áhuga erlendra fjárfesta og nýti auk þess heimildir fyrir beitingu sérstakra ívilnana, sbr. lög nr. 99/2010. Markmið þeirra laga var að auka samkeppnishæfni Íslands með því að koma á fót gegnsærri rammalöggjöf um ívilnanir vegna nýfjárfestinga og tryggja að eingöngu væri veitt ívilnun til fjárfestingarverkefna sem leiddi til raunverulegrar eflingar íslensks atvinnulífs og hefði jákvæð efnahagsleg jafnt sem samfélagsleg áhrif í för með sér.
    Fram kemur í athugasemdum tillögunnar að á grundvelli laganna hafi verið gerðir fjárfestingarsamningar um uppbyggingu gagnavers og kísilvers en auk þess hefur nefndinni borist minnisblað iðnaðarráðuneytisins frá 26. janúar sl. um stöðu þessara verkefna, sem og fyrirliggjandi umsókna um fjárfestingarsamninga. Fulltrúar Íslandsstofu bentu á að flestar umsóknir á grundvelli laganna hefðu komið til í gegnum fjárfestingarsvið stofunnar og að verkefnin væru af ýmsum toga. Fulltrúar stofunnar töldu að mikilvægt væri að efla samstarf ráðuneyta og stofnana ríkisins innbyrðis og við sveitarfélög og aðila vinnumarkaðarins þar sem verkefni gætu varðað ólíka hagsmuni og mismunandi anga stjórnsýslunnar.
    Við umfjöllun í nefndinni hefur ítrekað komið fram að hlutfall fjárfestingar í landsframleiðslu hafi nú um stundir verið mjög lágt í sögulegu samhengi. Þessa stöðu megi m.a. rekja til erfiðrar skuldastöðu innan margra atvinnugreina, óvissu um stöðu og eignarhald fjölda fyrirtækja, takmarkaðs aðgengis að lánsfé vegna gjaldeyrishaftanna og óvissu um þróun og horfur á erlendum mörkuðum. Staðan endurspegli enn fremur þá veikleika sem til staðar voru í íslensku efnahagslífi á árunum fyrir hrun sem var drifið áfram af erlendu lánsfé og veki menn til umhugsunar um á hvaða forsendum erlent fjármagn komi inn í landið. Í greinargerð dr. Ásgeirs Jónssonar, „Þýðing beinnar erlendrar fjárfestingar fyrir Ísland“, sem fylgir tillögunni, er talið að Ísland hafi sjaldan haft meiri not fyrir beina erlenda fjárfestingu og að hún sé bæði forsenda fyrir afnámi gjaldeyrishafta og áframhaldandi uppbyggingu í helstu útflutningsgreinum þjóðarinnar.
    Fulltrúar Samkeppniseftirlitsins komu á fund nefndarinnar og áréttuðu fyrri sjónarmið um að virk samkeppni sé mikilvæg til þess að hraða efnahagsbata og mynda grundvöll fyrir atvinnusköpun og hagsæld. Eftirlitið hefur í úttektum sínum bent á að ein stærsta aðgangshindrunin að mörkuðum við núverandi aðstæður sé skortur á fjármagni.
    Viðmælendur nefndarinnar hafa bent á að bein erlend fjárfesting hafi á liðnum áratugum einkennst af fjárfestingu í stóriðju sem fyrst og fremst hafi verið tilkomin vegna hagstæðs orkuverðs. Illa hafi gengið að laða að aðra fjárfestingu og að orsakaþættirnir séu ýmist af landfræðilegum, náttúrulegum, efnahagslegum og pólítískum toga. Af hálfu Íslandsstofu var á það bent að mörg þeirra verkefna sem nú væru til skoðunar vörðuðu lítil og meðalstór fyrirtæki í leit að erlendri fjárfestingu og má í því ljósi ætla að tillögunni sé ætlað að vega á móti þeim hindrunum sem þar standa í vegi. Skýrsla nefndar um orku- og auðlindamál um kaup Magma Energy Sweden AB á eignarhlutum í HS Orku hf. vitnar aftur á móti til um að ýmis ljón kunni að vera í veginum á þeim sviðum þar sem umdeildir almannahagsmunir eru annars vegar.
    Nefndin leggur til að tillagan verði samþykkt með eftirfarandi

BREYTINGU:


    4. mgr. tillögugreinarinnar falli brott.

Alþingi, 13. mars 2012.Helgi Hjörvar,


form., frsm.


Lilja Rafney Magnúsdóttir.


Skúli Helgason.Sigurður Ingi Jóhannsson.


Lilja Mósesdóttir,


með fyrirvara.


Tryggvi Þór Herbertsson,


með fyrirvara.Guðlaugur Þór Þórðarson,


með fyrirvara.


Magnús M. Norðdahl.

Fylgiskjal.


Álit


um tillögu til þingsályktunar um stefnu um beina erlenda fjárfestingu.


Frá atvinnuveganefnd.


    Atvinnuveganefnd hefur að beiðni efnahags- og viðskiptanefndar fjallað um efni tillögu til þingsályktunar um stefnu um beina erlenda fjárfestingu, sbr. bréf efnahags- og viðskiptanefndar dags. 27. janúar 2012 og 3. mgr. 10. gr. bráðabirgðastarfsreglna um fastanefndir Alþingis.
    Nefndin hefur rætt efni tillögunnar og fengið á sinn fund Valgerði Rún Benediktsdóttur frá efnahags- og viðskiptaráðuneytinu og Ingva Má Pálsson frá iðnaðarráðuneytinu.
    Nefndin fagnar þeirri vinnu sem unnin hefur verið við undirbúning tillögunnar. Það er mat hennar að starfið hafi skilað góðri afurð sem leiða muni til áframhaldandi nauðsynlegrar umræðu um beina erlenda fjárfestingu á Íslandi.
    Nokkuð rík þörf virðist fyrir skýra leiðsögn um þau grunngildi sem afstaða stjórnvalda til erlendrar fjárfestingar á að grundvallast á.
    Þá bendir nefndin á að stefna varðandi beina erlenda fjárfestingu þurfi að haldast í hendur við atvinnustefnu landsins og framtíðarsýn fyrir íslenskt atvinnu- og efnahagslíf. Af þeim sökum er veruleg þörf á því að innlend viðmið um beina erlenda fjárfestingu haldist í hendur við opinbera stefnumörkun sem taki mið af styrkleikum og samkeppnishæfni Íslands.
    Að framangreindu sögðu leggur nefndin til að þingsályktunartillagan verði samþykkt óbreytt.

Alþingi, 28. febrúar 2012.

Kristján L. Möller, form.
Lilja Rafney Magnúsdóttir.
Sigmundur Ernir Rúnarsson.
Ólína Þorvarðardóttir.
Einar K. Guðfinnsson.
Jón Gunnarsson.
Sigurður Ingi Jóhannsson.
Þór Saari.