Aðrar útgáfur af skjalinu: PDF - Word Perfect. Ferill 636. máls.
140. löggjafarþing 2011–2012.
Prentað upp.

Þingskjal 1019  —  636. mál.




Tillaga til þingsályktunar



um ráðgefandi þjóðaratkvæðagreiðslu um tillögur stjórnlagaráðs að frumvarpi til stjórnarskipunarlaga og tiltekin álitaefni þeim tengd.


Frá meiri hluta stjórnskipunar- og eftirlitsnefndar (VBj, ÁI, RM, JRG, MN, MT).


    
    Alþingi ályktar að tillögur að frumvarpi til stjórnarskipunarlaga sem stjórnlagaráð afhenti forseta Alþingis 29. júlí 2011 og álitaefni þeim tengd skuli borin upp í ráðgefandi þjóðaratkvæðagreiðslu, sbr. 1. mgr. 1. gr. laga nr. 91/2010, um framkvæmd þjóðaratkvæðagreiðslna.
    Þjóðaratkvæðagreiðslan fari fram samhliða forsetakosningum 30. júní 2012.
    Eftirfarandi spurningar verði bornar upp í þjóðaratkvæðagreiðslunni:
          1.      Vilt þú að tillaga stjórnlagaráðs verði lögð fram sem frumvarp að nýrri stjórnarskrá eftir að hún hefur verið yfirfarin með tilliti til laga og alþjóðasamninga?
               Merktu í reitinn fyrir framan þann valmöguleika sem þú kýst.
                ❏    Já, ég vil að tillaga stjórnlagaráðs verði lögð fram sem frumvarp að nýrri stjórnarskrá eftir að hún hefur verið yfirfarin með tilliti til laga og alþjóðasamninga.
                ❏    Nei, ég vil ekki að tillaga stjórnlagaráðs verði lögð fram sem frumvarp að nýrri stjórnarskrá.
                ❏    Tek ekki afstöðu.
          2.      Einnig ertu beðin(n) um að svara nokkrum efnislegum spurningum um nýja stjórnarskrá.
    Vilt þú að í nýrri stjórnarskrá Íslands verði Nei Tek ekki afstöðu
     1.      náttúruauðlindir lýstar þjóðareign ?
     2.      ákvæði um þjóðkirkju Íslendinga óbreytt frá því sem nú er ?
     3.      persónukjör í kosningum til Alþingis heimilað í meira mæli en nú er ?
     4.      ákvæði um að atkvæði kjósenda alls staðar að af landinu vegi jafnt ?
     5.      ákvæði um að tiltekið hlutfall kosningabærra manna geti krafist þess að mál fari í þjóðaratkvæðagreiðslu?
        ef já, hve hátt finnst þér að þetta hlutfall ætti að vera?


❏ 10%
❏ 15%
❏ 20%

Greinargerð.


    Með þingsályktun sem samþykkt var 22. febrúar sl. (6. mál) ákvað Alþingi að stjórnlagaráð skyldi kallað saman á ný til fjögurra daga fundar til að fjalla um spurningar og tillögur stjórnskipunar- og eftirlitsnefndar að mögulegum breytingum á frumvarpi til stjórnarskipunarlaga sem stjórnlagaráð afhenti forseta Alþingis 29. júlí 2011.
    Fundur stjórnlagaráðs var haldinn í Reykjavík 8.–11. mars 2012. Fundinn sótti 21 af 25 fulltrúum. Stjórnskipunar- og eftirlitsnefnd var 8. mars boðuð til fundar við stjórnlagaráð. Svör stjórnlagaráðs voru afhent formanni stjórnskipunar- og eftirlitnefndar 12. mars sl. Þar tóku fulltrúar í stjórnlagaráði afstöðu til spurninga og álitaefna sem stjórnskipunar- og eftirlitsnefnd hafði beint til þeirra og vörðuðu m.a. ákvæði um umhverfi og auðlindir, embætti forseta Íslands og þjóðaratkvæðagreiðslur. Fulltrúar úr stjórnlagaráði mættu síðan á fund stjórnskipunar- og eftirlitsnefndar og fóru yfir svörin.
    Ályktun Alþingis frá 22. febrúar kvað jafnframt á um að stjórnskipunar- og eftirlitsnefnd skyldi gera tillögu til Alþingis um að tillögurnar í heild, með breytingartillögum stjórnlagaráðs ef við ætti, yrðu bornar upp í ráðgefandi þjóðaratkvæðagreiðslu. Enn fremur yrðu samhliða bornar upp spurningar sem lytu að helstu álitaefnum. Þá samþykkti Alþingi með framangreindri ályktun að tillaga þessa efnis skyldi koma til lokaafgreiðslu á Alþingi, til samþykktar eða synjunar, eigi síðar en 29. mars en þá rennur út sá frestur sem Alþingi hefur samkvæmt lögum nr. 91/2010, um framkvæmd þjóðaratkvæðagreiðslu, til að ákveða að þjóðaratkvæðagreiðslan fari fram samhliða forsetakosningum 30. júní.
    Samkvæmt ályktuninni skal Alþingi standa fyrir víðtækri kynningu á efni þeirra tillagna og spurninga sem bornar verða upp í þjóðaratkvæðagreiðslu, sbr. 6. gr. laga um framkvæmd þjóðaratkvæðagreiðslna. Telja flutningsmenn að þegar litið er til þess að hér er um að ræða tillögur og spurningar sem varða grundvallarlög þjóðarinnar mjög mikilvægt að vandað verði til kynningarinnar og að hún takist vel.
    Með vísan til framangreinds er þingsályktunartillaga þessi flutt.