Aðrar útgáfur af skjalinu: PDF - Word Perfect. Ferill 524. máls.
140. löggjafarþing 2011–2012.
Þingskjal 1025  —  524. mál.
Svarforsætisráðherra við fyrirspurn Vigdísar Hauksdóttur um nefndir, ráð,
verkefnisstjórnir og starfshópa.


    Fyrirspurnin hljóðar svo:
     1.      Hvaða nefndir, ráð, verkefnisstjórnir og starfshópa hefur ráðuneytið sett á stofn frá alþingiskosningum 2009?
     2.      Hvað sitja margir í framangreindum nefndum? Hvert er hlutverk þeirra, er skipun þeirra samkvæmt heimild eða fyrirmælum í lögum, hver er skipunartíminn og hverjar þeirra hafa lokið störfum? Hver er launakostnaðurinn, sundurliðaður eftir nefndum?
     3.      Hvað hefur hver nefnd marga starfsmenn, hver er launakostnaður þeirra og eru einhverjir starfsmenn þeirra verktakar og ef svo er, hvað heita þeir og hvað hafa þeir fengið greitt úr ríkissjóði?
    Óskað er eftir upplýsingum um það hvaða einstaklingar hafa verið skipaðir, tilnefndir eða valdir með öðrum hætti til setu í þessum nefndum, ráðum, verkefnisstjórnum og starfshópum, hver hafi skipað eða eftir atvikum tilnefnt þá og hvort störfin séu launuð eða ólaunuð.


Almennur fyrirvari.
    Sá hluti fyrirspurnarinnar sem lýtur að starfsmönnum nefnda er túlkaður svo af hálfu ráðuneytisins að þar sé einungis spurt um fasta starfsmenn, þ.e. starfsmenn sem taka að fullu þátt í störfum nefndar og sitja fundi hennar. Er þannig ekki litið svo á að spurt sé um einstaklinga, hvort sem um er að ræða starfsmenn stjórnsýslunnar eða utanaðkomandi verktaka, sem einungis taka að sér að vinna tilfallandi afmörkuð verkefni fyrir nefnd.

1. Ráðherranefnd um efnahagsmál.
    Hinn 4. nóvember 2009 skipaði forsætisráðherra ráðherranefnd um efnahagsmál samkvæmt samþykkt ríkisstjórnar. Í nefndinni voru í byrjun Jóhanna Sigurðardóttir forsætisráðherra, formaður, Steingrímur J. Sigfússon fjármálaráðherra og Árni Páll Árnason efnahags- og viðskiptaráðherra. Oddný G. Harðardóttir hefur nú komið inn sem fjármálaráðherra og Steingrímur J. Sigfússon sem efnahags- og viðskiptaráðherra í stað Árna Páls Árnasonar. Hlutverk nefndarinnar er að samræma stefnu ríkisstjórnarinnar í efnahagsmálum og hafa eftirlit með framkvæmd á efnahagsstefnunni á einstökum sviðum. Skipunartími nefndarinnar er ótímabundinn. Nefndin er ólaunuð. Með nefndinni starfa tveir starfsmenn. Starfsmönnum nefndarinnar er ekki greitt sérstaklega fyrir störf sín fyrir nefndina. Enginn af föstum starfsmönnum nefndarinnar starfar þar sem verktaki.

2. Ráðherranefnd um Evrópumál.
    Hinn 23. október 2009 skipaði forsætisráðherra ráðherranefnd um Evrópumál samkvæmt samþykkt ríkisstjórnar. Í nefndinni eru Jóhanna Sigurðardóttir forsætisráðherra, Össur Skarphéðinsson utanríkisráðherra, Steingrímur J. Sigfússon, fyrst sem fjármálaráðherra en síðar sem sjávarútvegs- og landbúnaðarráðherra og efnahags- og viðskiptaráðherra, og Katrín Jakobsdóttir, mennta- og menningarmálaráðherra. Hlutverk nefndarinnar er að vera vettvangur pólitísks samráðs, samræmingar og undirbúnings ákvarðanatöku ríkisstjórnar vegna aðildarumsóknar að Evrópusambandinu. Nefndin hefur ekki lokið störfum. Nefndin er ólaunuð. Með nefndinni starfa tveir starfsmenn. Starfsmönnum nefndarinnar er ekki greitt sérstaklega fyrir störf sín fyrir nefndina og eru ekki verktakar.

3. Ráðherranefnd um jafnrétti kynja.
    Hinn 6. nóvember 2009 skipaði forsætisráðherra ráðherranefnd um jafnrétti kynja, samkvæmt samþykkt ríkisstjórnar. Í nefndinni eru Jóhanna Sigurðardóttir forsætisráðherra, Oddný G. Harðardóttir fjármálaráðherra (áður Steingrímur J. Sigfússon fjármálaráðherra) Guðbjartur Hannesson velferðarráðherra og Ögmundur Jónasson innanríkisráðherra í málum sem varða kynbundið ofbeldi og mansal. Hlutverk nefndarinnar er að leggja áherslu á baráttu fyrir mannréttindum og kvenfrelsi og veita málaflokki jafnréttismála aukið vægi innan stjórnkerfisins. Einn starfsmaður starfar með nefndinni. Skipunartími nefndarinnar er ótímabundinn og nefndin er ólaunuð. Starfsmanni nefndarinnar er ekki greitt sérstaklega fyrir störf sín fyrir nefndina og er ekki verktaki.

4. Ráðherranefnd um ríkisfjármál.
    Hinn 23. október 2009 var ráðherranefnd um ríkisfjármál skipuð samkvæmt samþykkt ríkisstjórnarinnar. Í nefndinni eru Jóhanna Sigurðardóttir forsætisráðherra og Steingrímur J. Sigfússon fjármálaráðherra, sem kalla aðra ráðherra til fundar eftir því sem ástæða er til. Tveir starfsmenn starfa með nefndinni. Hlutverk nefndarinnar er að fjalla um stefnu ríkisstjórnarinnar í ríkisfjármálum og meginþætti fjárlagagerðar og framkvæmd fjárlaga. Meðal verkefna nefndarinnar er undirbúningur fjárlagagerðar, þ.e. tímaáætlun, verklag, tekju- og útgjaldastefna og forgangsröðun, eftirlit með framkvæmd fjárlaga og langtímaáætlun í ríkisfjármálum. Skipunartími nefndarinnar er ótímabundinn. Einn starfsmaður starfar með nefndinni. Starfsmanni nefndarinnar er ekki greitt sérstaklega fyrir störf sín fyrir nefndina og er ekki verktaki.

5. Ráðherranefnd um skuldavanda heimilanna.
    Hinn 1. október 2010 skipaði forsætisráðherra ráðherranefnd um skuldavanda heimilanna samkvæmt samþykkt ríkisstjórnar. Í nefndinni voru Jóhanna Sigurðardóttir forsætisráðherra, Steingrímur J. Sigfússon fjármálaráðherra, Árni Páll Árnason, efnahags- og viðskiptaráðherra, og Ögmundur Jónasson, dóms- og mannréttindamálaráðherra og samgönguráðherra. Hlutverk nefndarinnar var að finna leiðir og úrræði til að mæta skuldavanda heimilanna í kjölfar hruns fjármálakerfisins. Nefndin var ólaunuð. Með nefndinni starfaði einn starfsmaður. Starfsmanni nefndarinnar var ekki greitt sérstaklega fyrir störf sín fyrir nefndina og var ekki verktaki.

6. Ráðherranefnd um atvinnumál.
    Hinn 11. febrúar 2011 var ráðherranefnd um atvinnumál skipuð samkvæmt samþykkt ríkisstjórnarinnar. Í nefndinni eru Jóhanna Sigurðardóttir forsætisráðherra og Oddný G. Harðardóttir fjármálaráðherra. Aðrir ráðherrar sitja fundi eftir því hvaða mál eru til umfjöllunar: Efnahags- og viðskipta-, sjávarútvegs- og landbúnaðar- og iðnaðarráðherrar þegar fjallað er um atvinnumál og velferðar- og mennta- og menningarmálaráðherrar þegar fjallað er um vinnumarkaðsúrræði og starfs- og endurmenntun. Lykilaðilar í atvinnulífi og stofnunum eru eftir því sem tilefni er til kallaðir til funda í þeim tilgangi að upplýsa stjórnvöld um stöðu mála. Hlutverk nefndarinnar er að fylgja eftir á vikulegum fundum áætlunum og áformum um opinberar framkvæmdir, fjárfestingaverkefni og hvers kyns mannaflsfrekar og atvinnuskapandi aðgerðir. Skipunartími nefndarinnar er ótímabundinn. Nefndin er ólaunuð. Tveir starfsmenn starfa með nefndinni. Starfsmönnum nefndarinnar er ekki sérstaklega greitt fyrir störf sín fyrir nefndina og eru ekki verktakar.

7. Ráðherranefnd um endurskoðun frumvarps til laga um stjórn fiskveiða.
    Hinn 29. nóvember 2011 var ráðherranefnd um endurskoðun frumvarps til laga um stjórn fiskveiða skipuð samkvæmt samþykkt ríkisstjórnar. Í nefndinni eru Guðbjartur Hannesson velferðarráðherra og Katrín Jakobsdóttir mennta- og menningarmálaráðherra. Hlutverk nefndarinnar er að taka til skoðunar vinnuskjöl sjávarútvegs- og landbúnaðarráðherra um endurskoðun laga um stjórn fiskveiða. Skipunartími nefndarinnar err ótímabundinn. Nefndin hefur ekki lokið störfum. Nefndin er ólaunuð. Einn starfsmaður starfar með nefndinni. Starfsmaður nefndarinnar fær ekki sérstaklega greitt fyrir störf sín í nefndinni og er ekki verktaki.

8. Ráðherranefnd um stjórnkerfisumbætur.

    Hinn 17. janúar 2012 var ráðherranefnd um stjórnkerfisumbætur skipuð, samkvæmt samþykkt ríkisstjórnar. Í nefndinni eru Jóhanna Sigurðardóttir forsætisráðherra, Össur Skarphéðinsson utanríkisráðherra, Steingrímur J. Sigfússon, sjávarútvegs-, landbúnaðar- og efnahagsráðherra, Svandís Svavarsdóttir umhverfisráðherra og Oddný G. Harðardóttir fjármálaráðherra. Hlutverk nefndarinnar er að vinna að stjórnkerfisbreytingum og umbótum í því skyni að gera þjónustu hins opinbera við almenning og atvinnulíf eins góða og kostur er með þeim fjármunum sem til ráðstöfunar eru hverju sinni. Að fækka ráðuneytum í áföngum í níu ráðuneyti, ný forgangsröðun þar sem þess er þörf og breyta verkaskiptingu þar sem færð eru saman verkefni til að ná sem mestum samlegðaráhrifum. Skipunartími nefndarinnar er ótímabundinn. Nefndin er ólaunuð. Með nefndinni starfa þrír starfsmenn. Enginn af starfsmönnunum fær sérstaklega greitt fyrir vinnu sína fyrir nefndina eða er verktaki.

9. Nefnd um fjármál stjórnmálaflokka.
    Hinn 15. maí 2009 skipaði forsætisráðherra nefnd um fjármál stjórnmálaflokka samkvæmt bráðabirgðaákvæði við lög nr. 162/2006, um fjármál stjórnmálasamtaka og frambjóðenda. Í nefndina voru skipuð Ágúst Geir Ágústsson, lögfræðingur í forsætisráðuneytinu, formaður, skipaður án tilnefningar. Margrét S. Björnsdóttir, forstöðumaður stofnunar stjórnsýslufræða og stjórnmála í Háskóla Íslands, tilnefnd af Samfylkingunni, Gréta Ingþórsdóttir, framkvæmdastjóri Sjálfstæðisflokksins, tilnefnd af Sjálfstæðisflokknum, Drífa Snædal, framkvæmdastjóri Vinstri hreyfingarinnar – græns framboðs, tilnefnd af Vinstri hreyfingunni – grænu framboði, Sigfús Ingi Sigfússon, framkvæmdastjóri Framsóknarflokksins, tilnefndur af Framsóknarflokknum, Magnús Reynir Guðmundsson, framkvæmdastjóri Frjálslynda flokksins, tilnefndur af Frjálslynda flokknum. Hlutverk nefndarinnar var að endurskoða lög nr. 162/2006, um fjármál stjórnmálasamtaka og frambjóðanda, og að fylgja eftir og leiða til lykta hugmyndir forsætisráðherra um að Ríkisendurskoðun, eftir atvikum í kjölfar lagabreytingar, verði falið að gera úttekt á fjárreiðum þeirra stjórnmálaflokka sem átt hafa fulltrúa á Alþingi árin 1999–2006, eða fram að gildistöku laga nr. 162/2006. Nefndin lauk störfum í apríl 2010. Nefndin var ólaunuð.

10. Starfshópur um menntun og atvinnusköpun ungs fólks.
    Hinn 14. september 2011 skipaði forsætisráðherra starfshóp um menntun og atvinnusköpun ungs fólks samkvæmt þingsályktun sem samþykkt var á á Alþingi 7. júní 2011. Í starfshópinn voru skipuð Skúli Helgason, formaður, fulltrúi forsætisráðuneytis, Þórir Ólafsson, fulltrúi mennta- og menningarmálaráðuneytis, Bjarnheiður Gautadóttir, fulltrúi velferðarráðuneytis, Hanna Dóra Másdóttir, fulltrúi iðnaðarráðuneytis, Helga Jónsdóttir, fulltrúi efnahags- og viðskiptaráðuneytis, Guðrún Eyjólfsdóttir, fulltrúi Samtaka atvinnulífsins, Gestur Guðmundsson, fulltrúi Háskóla Íslands, Ari Kristinn Jónsson, fulltrúi Háskólans í Reykjavík, Jón B. Stefánsson, fulltrúi Tækniskólans, Hrafnhildur Tómasdóttir, fulltrúi Vinnumálastofnunar, Ingibjörg Elsa Guðmundsdóttir, fulltrúi Fræðslumiðstöðvar atvinnulífsins, Halldór Grönvold, fulltrúi Alþýðusambands Íslands, og Sindri Snær Einarsson, fulltrúi Landssamtaka æskulýðsfélaga. Halldór Árnason tók við af Guðrúnu Eyjólfsdóttur sem fulltrúi Samtaka atvinnulífsins á starfstímanum og Margrét Sæmundsdóttir tók við af Helgu Jónsdóttur sem fulltrúi efnahags- og viðskiptaráðuneytis. Hlutverk starfshópsins er að móta aðgerðaáætlun sem hafi þann tilgang að samþætta áherslur í menntastefnu og atvinnustefnu stjórnvalda með áherslu á að greina menntunarþörf atvinnulífsins, auka vægi starfsnáms í íslensku menntakerfi og þróa nýjar fjölbreyttar starfsnámsleiðir. Nefndin hefur ekki lokið störfum. Nefndin er ólaunuð. Með nefndinni starfar einn starfsmaður. Starfsmanni starfshópsins er ekki greitt sérstaklega fyrir störf sín fyrir starfshópinn og hann er ekki verktaki.

11. Stýrihópur um sóknaráætlanir til eflingar atvinnulífs og samfélags.
    Hinn 10. júní 2009 skipaði forsætisráðherra stýrihóp um sóknaráætlanir til eflingar atvinnulífs og samfélags. Í stýrihópinn voru skipuð Dagur B. Eggertsson borgarfulltrúi, formaður, Karl Björnsson, framkvæmdastjóri Sambands ísl. sveitarfélaga, Katrín Jakobsdóttir, mennta- og menningarmálaráðherra, Sigrún Björk Jakobsdóttir, fyrrverandi bæjarstjóri, og Svafa Grönfeldt háskólarektor, öll án tilnefningar. Seinna bættust við Svandís Svavarsdóttir, Katrín Júlíusdóttir, Kristján R. Möller og Kristinn Tryggvi Gunnarsson. Hlutverk stýrihópsins er að hafa yfirstjórn með undirbúningi og framkvæmd víðtæks samráðs um sóknaráætlanir fyrir alla landshluta til eflingar atvinnulífs og lífsgæða til framtíðar. Markmiðið er að kalla fram sameiginlega framtíðarsýn og að samþættar verði áætlanir í samgöngumálum, fjarskiptamálum og ferðamálum og byggðaáætlanir, auk áætlana um eflingu sveitarstjórnarstigsins og ýmissa vaxtarsamninga og annarrar opinberrar stefnumótunar og framkvæmdaáætlana sem ætla má að komi til endurskoðunar í kjölfar efnahagshrunsins. Haldnir voru fundir með þjóðfundarsniði í átta landshlutum. Stýrihópurinn lauk störfum í desember 2010. Stýrihópurinn var ólaunaður. Með stýrihópnum starfaði einn starfsmaður frá ráðuneytinu og einn starfsmaður frá fyrirtækinu Expectus ehf. sem verktaki. Heildarkostnaður var 36.514.307 kr.

12. Starfshópur um rekstur grunnskráa.
    Hinn 17. júlí 2009 skipaði forsætisráðherra starfshóp um rekstur grunnskráa að eigin frumkvæði. Í nefndina voru skipuð Ásdís Ingibjargardóttir, tilnefnd af dóms- og kirkjumálaráðuneyti, Ólafur Hjálmarsson hagstofustjóri, sem jafnframt er formaður hópsins, Birgir Gunnarsson, rekstrarstjóri Umferðarstofu, samkvæmt tilnefningu samgönguráðuneytis og Haraldur A. Bjarnason sérfræðingur, samkvæmt tilnefningu fjármálaráðuneytis. Hlutverk starfshópsins var að fara yfir fyrirkomulag og mögulega hagræðingu vegna reksturs grunnskráa hjá ríkinu, þ.e. þjóðskrá, fasteignaskrá, fyrirtækjaskrá og ökutækjaskrá. Skipunartími nefndarinnar var fram til 30. september 2009. Nefndin hefur lokið störfum. Starfshópurinn var ólaunaður. Enginn starfsmaður starfaði með nefndinni.

13. Starfshópur um endurskoðun á upplýsingalögum.
    Hinn 29. júní 2009 skipaði forsætisráðherra starfshóp um endurskoðun á upplýsingalögum samkvæmt samþykkt ríkisstjórnar. Í starfshópinn voru skipuð Trausti Fannar Valsson, lektor við Háskóla Íslands, formaður, Margrét Vala Kristjánsdóttir, dósent við Háskólann í Reykjavík og Þórhallur Vilhjálmsson, skrifstofustjóri í menntamálaráðuneyti, öll án tilnefningar. Hlutverk nefndarinnar var að endurskoða upplýsingalög, nr. 50/1996, og skoða hvernig megi rýmka aðgengi almennings að upplýsingum í fórum stjórnvalda. Starfshópurinn skyldi jafnframt skoða hvort möguleiki væri á því að víkka út gildissvið upplýsingalaganna, t.d. þannig að þau næðu til einkaaðila, þ.e. hlutafélaga og sameignarfélaga, sem alfarið væru í eigu hins opinbera. Nefndin hefur lokið störfum. Trausti Fannar Valsson formaður og Margrét Vala Kristjánsdóttir fengu greitt fyrir störf sín fyrir starfshópinn samtals 2.130.000 kr. Einn starfsmaður starfaði með nefndinni. Starfsmaður nefndarinnar fékk ekki greitt sérstaklega fyrir störf sín fyrir nefndina og var ekki verktaki.

14. Nefnd um endurskoðun á lögum um Stjórnarráð Íslands.
    Hinn 3. desember 2009 skipaði forsætisráðherra nefnd um endurskoðun á lögum um Stjórnarráð Íslands samkvæmt samþykkt ríkisstjórnarinnar. Í nefndina voru skipuð Anna Kristín Ólafsdóttir, formaður, Hafdís Ólafsdóttir skrifstofustjóri, tilnefnd af fjármálaráðherra, Gunnar Helgi Kristinsson prófessor, Páll Þórhallsson lögfræðingur og Sigurbjörg Sigurgeirsdóttir stjórnsýslufræðingur. Síðar sagði Anna Kristín Ólafsdóttir sig frá nefndinni og Arnar Þór Másson tók við starfi formanns 1. júlí 2010. Hlutverk nefndarinnar var að endurskoða lög um Stjórnarráð Íslands í heild sinni og gera tillögur um lagabreytingar. Nefndin lauk störfum 10. desember 2010.
    Eftirfarandi nefndarmenn þáðu laun fyrir setu í nefndinni: Anna Kristín Ólafsdóttir, Gunnar Helgi Kristinsson og Sigurbjörg Sigurgeirsdóttir og var heildarlaunakostnaður 4.129.020 kr.
    Með nefndinni störfuðu tveir starfsmenn, annar þeirra var Arnar Þór Másson sem síðar tók til starfa sem formaður nefndarinnar. Starfsmönnum nefndarinnar var ekki greitt sérstaklega fyrir störf sín fyrir nefndina. Enginn af föstum starfsmönnum nefndarinnar starfaði þar sem verktaki.

15. Nefnd um viðbrögð stjórnsýslunnar við skýrslu rannsóknarnefndar Alþingis.
    Hinn 14. janúar 2010 skipaði forsætisráðherra nefnd um viðbrögð stjórnsýslunnar við skýrslu rannsóknarnefndar Alþingis að eigin frumkvæði. Í nefndina voru skipuð Gunnar Helgi Kristinsson, prófessor í stjórnmálafræði við Háskóla Íslands, formaður, Oddný Mjöll Arnardóttir, prófessor við lagadeild Háskólans í Reykjavík, Ómar H. Kristmundsson, dósent í opinberri stjórnsýslu við Háskóla Íslands, Kristín Benediktsdóttir hdl. og Trausti Fannar Valsson, lektor við lagadeild Háskóla Íslands, öll án tilnefningar. Hlutverk nefndarinnar var að taka skýrslu rannsóknarnefndar Alþingis til ítarlegrar umfjöllunar og meta þau atriði sem beinast kunna sérstaklega að stjórnsýslunni og starfsháttum Stjórnarráðsins. Nefndin lauk störfum 6. maí 2010.
    Nefndin var launuð og þáðu allir nefndarmenn laun fyrir setu í nefndinni og var heildarlaunakostnaður samtals að fjárhæð 3.590.000 kr. Einn starfsmaður starfaði með nefndinni. Starfsmanni nefndarinnar var ekki greitt sérstaklega fyrir störf sín fyrir nefndina og hann var ekki verktaki.

16. Vinnuhópur um tilhögun rafrænna samskipta opinberra aðila við einstaklinga og lögaðila.
    Hinn 9. júní 2010 skipaði forsætisráðherra vinnuhóp um tilhögun rafrænna samskipta opinberra aðila við einstaklinga og lögaðila að eigin frumkvæði. Í vinnuhópinn voru skipuð Halla Björg Baldursdóttir, forsætisráðuneyti, formaður, Margrét Hauksdóttir, dóms- og mannréttindaráðuneyti, Bragi Leifur Hauksson, félags- og tryggingamálaráðuneyti, Haraldur Bjarnason, fjármálaráðuneyti, og Ottó V. Winther, samgöngu- og sveitarstjórnarráðuneyti. Hlutverk vinnuhópsins var að kynna sér helstu aðferðir sem völ er á við að veita einstaklingum, fyrirtækjum og opinberum aðilum rafrænan aðgang að skjölum sem fara þeirra á milli, ásamt aðferðum til að halda utan um samskipti þessara aðila á hagkvæman og notendavænan hátt. Vinnuhópnum var enn fremur ætlað að koma með tillögu að útfærslu hér á landi ásamt kostnaðaráætlun. Nefndin lauk störfum 27. október 2011. Vinnuhópurinn var ólaunaður. Enginn starfsmaður starfaði með nefndinni og enginn verktaki.

17. Vinnuhópur um innleiðingu frjáls og opins hugbúnaðar.
    Hinn 26. maí 2010 skipaði forsætisráðherra vinnuhóp um innleiðingu frjáls og opins hugbúnaðar samkvæmt samþykkt ríkisstjórnar. Í vinnuhópinn voru skipuð Haraldur Bjarnason, fjármálaráðuneyti, formaður, Björn Sigurðsson, forsætisráðuneyti, Kristín Jónsdóttir, menntamálaráðuneyti, Hugi Þórðarson, Umferðarstofu, fulltrúi samgöngu- og sveitarstjórnarráðuneytis, Hjörtur Grétarsson, Reykjavíkurborg, fulltrúi Sambands íslenskra sveitarfélaga, Björn Jónsson, Landspítala – háskólasjúkrahúsi, fulltrúi heilbrigðisráðuneytis, sem tók við af Ástu Valdimarsdóttir, Einkaleyfastofunni, fulltrúa efnahags- og viðskiptaráðuneytis sem sagði sig úr nefndinni 30. september 2010. Hlutverk vinnuhópsins var að gera tillögur að aðgerðaáætlun um innleiðingu á frjálsum og opnum hugbúnaði í opinberum rekstri. Í því fólst m.a. að gera tillögur um val á hugbúnaði sem vel væri til þess fallinn að nota í opinberum rekstri, velja samstarfsaðila, skipuleggja og framkvæma frumgerðarverkefni og gera langtímaáætlun. Vinnuhópurinn lauk störfum 15. mars 2011. Vinnuhópurinn var ólaunaður. Enginn starfsmaður starfaði með nefndinni og enginn verktaki.

18. Starfshópur um fyrirkomulag stjórnsýsluumbóta og hagræðingarmála.
    Hinn 5. október 2009 skipaði forsætisráðherra starfshóp um fyrirkomulag stjórnsýsluumbóta og hagræðingarmála samkvæmt samþykkt ríkisstjórnar. Í nefndina voru skipuð Ómar H. Kristmundsson, formaður, Guðbjörg Sigurðardóttir og Halla Björg Baldursdóttir, forsætisráðuneyti, Angantýr Einarsson, fjármálaráðuneyti og Arnar Þór Másson og Gunnar Björnsson, fjármálaráðuneyti. Hlutverk starfshópsins var að gera tillögu um endurskipulagningu þróunar-, umbóta og hagræðingarmála hjá ríkinu sem tengjast stjórnsýsluumbótum, rafrænni stjórnsýslu, mannauðsmálum og stjórnun stofnana. Nefndin lauk störfum 22. febrúar 2010. Starfshópurinn var ólaunaður. Ómar H. Kristinsson formaður fékk greitt fyrir vinnu sína samtals 390.438 kr. Með nefndinni störfuðu Anna Kristín Ólafsdóttir stjórnsýslufræðingur og Haukur Arnþórsson stjórnsýslufræðingur. Heildarlaunakostnaður starfsmanna nefndarinnar var 1.046.000 kr. og þeir störfuðu sem verktakar.

19. Nefnd um bætur til tjónþola í náttúruhamförum.
    Hinn 17. nóvember 2010 skipaði forsætisráðherra nefnd um bætur til tjónþola í náttúruhamförum að eigin frumkvæði. Í nefndina voru skipuð Ólafur Örn Haraldsson, þjóðgarðsvörður á Þingvöllum, sem jafnframt er formaður, Víðir Reynisson, deildarstjóri almannavarnadeildar ríkislögreglustjóra, Hafsteinn Pálsson, sérfræðingur í umhverfisráðuneyti, Baldur P. Erlingsson, lögfræðingur í sjávarútvegs- og landbúnaðarráðuneyti, Ingþór Karl Eiríksson, sérfræðingur í fjármálaráðuneyti, Auður Ýr Steinarsdóttir, lögfræðingur í efnahags- og viðskiptaráðuneyti, Oddur Einarsson, rekstrarstjóri í samgöngu- og sveitarstjórnarráðuneyti, Eydís Eyjólfsdóttir, sérfræðingur í forsætisráðuneyti, og Herdís Sigurjónsdóttir, umhverfis- og auðlindafræðingur, tilnefnd af Sambandi íslenskra sveitarfélaga. Hlutverk nefndarinnar er að gera tillögur sem miði að því að tjónþolar í náttúruhamförum fái bætur samkvæmt föstum verklagsreglum og ríkissjóður standi ekki frammi fyrir óvæntum og stórfelldum útgjöldum eins og raunin hefur verið. Nefndin hefur ekki lokið störfum. Nefndin, fyrir utan formanninn, er ólaunuð. Launakostnaður formanns til þessa er 715.350 kr. Með nefndinni starfa tveir starfsmenn. Starfsmönnum nefndarinnar var ekki greitt sérstaklega fyrir störf sín fyrir nefndina. Enginn af föstum starfsmönnum nefndarinnar starfaði þar sem verktaki.

20. Starfshópur um bætur vegna misgjörða á vistheimilum fyrir börn.
    Hinn 30. september 2009 skipaði forsætisráðherra starfshóp um bætur vegna misgjörða á vistheimilum fyrir börn að eigin frumkvæði. Í nefndina voru skipuð Páll Þórhallsson, deildarstjóri í forsætisráðuneytinu, sem jafnframt gengdi formennsku í hópnum, Ása Ólafsdóttir, aðstoðarmaður dóms-og kirkjumálaráðherra, Kristrún Heimisdóttir, lögfræðilegur ráðgjafi félags- og tryggingamálaráðherra, Kristbjörg Stephensen borgarlögmaður, og Eiríkur Jónsson, lektor við lagadeild Háskóla Íslands. Hlutverk nefndarinnar var að semja drög að frumvarpi til laga þar sem mælt yrði fyrir um greiðslu bóta til þeirra sem orðið hafa fyrir illri meðferð eða ofbeldi á stofnunum eða heimilum er heyra undir gildissvið laga nr. 26/2007, um vistheimilisnefnd. Nefndin lauk störfum 10. mars 2010. Ekki var greitt sérstaklega fyrir þátttöku í störfum starfshópsins nema að því er varðar vinnu sérfræðings utan stjórnsýslu ráðuneyta og sveitarfélaga. Eiríkur Jónsson fékk greitt fyrir störf í nefndinni samtals 798.180 kr.

21. Samhæfingarnefnd um siðferðileg viðmið fyrir stjórnsýsluna.
    Hinn 1. október 2010 skipaði forsætisráðherra samhæfingarnefnd um siðferðileg viðmið fyrir stjórnsýsluna samkvæmt 17. gr. laga nr. 73/1969. Í nefndina voru skipuð Jón Ólafsson prófessor, formaður, skipaður án tilnefningar, Kristín Ástgeirsdóttir, framkvæmdastjóri Jafnréttisstofu og Páll Þórhallsson, skrifstofustjóri forsætisráðuneytinu, skipuð án tilnefningar, Magnús Pétursson ríkissáttasemjari, samkvæmt tilnefningu Félags forstöðumanna ríkisstofnana, Sonja Ýr Þorbergsdóttir, lögfræðingur hjá BSRB, og Guðfinna Halla Þorvaldsdóttir, framkvæmdastjóri Sálfræðingafélags Íslands, samkvæmt tilnefningu BSRB, KÍ og BHM. Hlutverk nefndarinnar er að stuðla að því að siðferðileg viðmið séu í hávegum höfð í opinberum störfum og veita stjórnvöldum ráðleggingar um ráðstafanir til að koma í veg fyrir hagsmunaárekstra og spillingu. Helstu verkefni samhæfingarnefndarinnar eru að öðru leyti tíunduð í 3. mgr. 17. gr. laganna. Skipunartími nefndarinnar er til þriggja ára. Formaður nefndar fær greiddar 20 einingar á mánuði og var heildarlaunakostnaður fram til febrúar 2012 var 175.500 kr. Halldóra Friðjónsdóttir, nefndarmaður og sérfræðingur í fjármálaráðuneytinu, er jafnframt starfsmaður nefndarinnar. Starfsmanni nefndarinnar hefur ekki verið greitt sérstaklega fyrir störf sín fyrir nefndina. Enginn af föstum starfsmönnum nefndarinnar starfar þar sem verktaki.

22. Nefnd um orku- og auðlindamál.
    Hinn 6. ágúst 2010 skipaði forsætisráðherra nefnd um orku- og auðlindamál samkvæmt samþykkt ríkisstjórnar. Í nefndina voru skipuð, Hjördís Hákonardóttir, fyrrv. hæstaréttardómari, formaður, Bjarnveig Eiríksdóttir hdl., LL.M. í Evrópurétti og alþjóðaviðskiptarétti, Ólafur Páll Jónsson, dósent í heimspeki við Háskóla Íslands, og Aagot Óskarsdóttir lögfræðingur. Hlutverk nefndarinnar var að meta lögmæti kaupa fyrirtækisins Magma Energy á eignarhlutum í HS Orku og starfsumhverfi orkugeirans hér á landi. Nefndin lauk störfum 24. nóvember 2010. Nefndin er ólaunuð. Með nefndinni starfaði einn starfsmaður. Starfsmaður nefndarinnar fékk ekki greitt sérstaklega fyrir störf sín fyrir nefndinni og var ekki verktaki.

23. Starfshópur um mótun stefnu um starfsemi sjálfstæðra úrskurðarnefnda.
    Hinn 18. janúar 2011 skipaði forsætisráðherra starfshóp um mótun stefnu um starfsemi sjálfstæðra úrskurðarnefnda samkvæmt samþykkt ríkisstjórnar. Í starfshópinn voru skipuð Ágúst Geir Ágústsson, samkvæmt tilnefningu forsætisráðuneytis, formaður, Þóra M. Hjaltested, samkvæmt tilnefningu efnahags- og viðskiptaráðuneytis, Haraldur Steinþórsson, samkvæmt tilnefningu fjármálaráðuneytis, Bryndís Helgadóttir, samkvæmt tilnefningu innanríkisráðuneytis, Ingvi Már Pálsson, samkvæmt tilnefningu iðnaðarráðuneytis, Jón Vilberg Guðjónsson, samkvæmt tilnefningu mennta- og menningarmálaráðuneytis, Sigríður Norðmann, samkvæmt tilnefningu sjávarútvegs- og landbúnaðarráðuneytis, Kristín Rannveig Snorradóttir, samkvæmt tilnefningu umhverfisráðuneytis, Kristján Andri Stefánsson, samkvæmt tilnefningu utanríkisráðuneytis. Hlutverk starfshópsins er að móta stefnu og semja viðmiðunarreglur um það í hvaða tilvikum sjálfstæðar úrskurðarnefndir eigi rétt á sér. Starfshópurinn hefur ekki lokið störfum. Starfshópurinn er ólaunaður. Einn starfsmaður starfar með starfshópnum. Starfsmaðurinn fær ekki greitt fyrir störf sín fyrir starfshópinn og er ekki verktaki.

24. Nefnd um stefnumótun í auðlindamálum ríkisins.
    Hinn 8. júlí 2011 skipaði forsætisráðherra nefnd um stefnumörkun í auðlindamálum ríkisins samkvæmt samþykkt ríkisstjórnar. Í nefndina voru skipuð Álfheiður Ingadóttir, tilnefnd af umhverfisráðherra, Bjarni Harðarson, tilnefndur af sjávarútvegs- og landbúnaðarráðherra, Gunnar Tryggvason, tilnefndur af iðnarráðherra, Svanfríður Inga Jónasdóttir, tilnefnd af efnahags- og viðskiptaráðherra, Arnar Guðmundsson, formaður án tilnefningar, Indriði H. Þorláksson, tilnefndur af fjármálaráðherra, og Ragnar Arnalds, tilnefndur af innanríkisráðherra. Í ársbyrjun 2012 urðu þær breytingar að Bjarni Harðarson fór úr nefndinni, Svanfríður Inga Jónasdóttir varð fulltrúi fjármálaráðherra og Indriði H. Þorláksson fulltrúi sjávarútvegs- og landbúnaðarráðherra. Hlutverk nefndarinnar er að taka á þeim þáttum sem varða ráðstöfun nýtingarréttar sameiginlegra auðlinda og ýmissa réttinda sem ríkið ræður yfir, umsýslu þessara réttinda og meðferð tekna sem hún skapar samanber samþykktir um stofnun Auðlindasjóðs í samstarfsyfirlýsingu ríkisstjórnarinnar og áætluninni Ísland 2020. Skipunartími nefndarinnar er tímabundinn og hefur nú verið framlengdur til 1. júní 2012. Nefndin er ólaunuð. Með nefndinni starfa þrír starfsmenn. Starfsmönnum nefndarinnar er ekki greitt sérstaklega fyrir störf sín fyrir nefndina. Enginn af föstum starfsmönnum nefndarinnar starfaði þar sem verktaki.

25. Starfshópur um öryggismál æðstu stjórnar ríkisins.
    Hinn 30. janúar 2012 skipaði forsætisráðherra starfshóp um öryggismál æðstu stjórnar ríkisins að eigin frumkvæði. Í nefndina voru skipuð Anna Jóhannsdóttir, forsætisráðuneyti, sem jafnframt er formaður, án tilnefningar, Pétur Ásgeirsson, utanríkisráðuneyti, tilnefndur af utanríkisráðuneyti, Þórunn J. Hafstein, innanríkisráðuneyti, tilnefnd af innanríkisráðuneyti, Angantýr Einarsson, fjármálaráðuneyti, tilnefnd af fjármálaráðuneyti, Jón F. Bjartmarz, embætti ríkislögreglustjóra, tilnefndur af embætti ríkislögreglustjóra. Hlutverk starfshópsins er að bregðast við ábendingum í skýrslu ríkislögreglustjóra frá 30. september 2011 um öryggismál æðstu stjórnar og gera tillögur um verkefni og mögulegar leiðir til úrbóta. Skipunartími starfshópsins er tímabundinn. Starfshópurinn hefur ekki lokið störfum. Starfshópurinn er ólaunaður. Enginn starfsmaður starfar með starfshópnum.

26. Starfshópur vegna ógildingar kosninga til stjórnlagaþings.
    Hinn 3. febrúar 2011 skipaði forsætisráðherra starfshóp vegna ógildingar kosninga til stjórnlagaþings. Í starfshópinn voru skipuð, Ágúst Geir Ágústsson, formaður, Álfheiður Ingadóttir, fulltrúi Vinstri hreyfingarinnar – græns framboðs, Birgitta Jónsdóttir, fulltrúi Hreyfingarinnar, Höskuldur Þórhallsson, fulltrúi Framsóknarflokksins, Valgerður Bjarnadóttir, fulltrúi Samfylkingarinnar, og Birgir Ármannsson, fulltrúi Sjálfstæðisflokksins. Hlutverk starfshópsins var að greina þá stöðu sem upp kom í kjölfar ákvörðunar Hæstaréttar og meta hvaða leið væri vænlegust til þess að ljúka því verkefni að endurskoða stjórnarskrána. Starfshópurinn hefur lokið störfum. Starfshópurinn var ólaunaður. Einn starfsmaður starfaði með starfshópnum. Starfsmaður starfsfhópsins fékk ekki greitt sérstaklega fyrir störf sín fyrir starfshópinn og var ekki verktaki.

27. Starfshópur um jafnræði og gagnsæi við sölu fyrirtækja í eigu.
    Hinn 16. febrúar 2011 skipaði forsætisráðherra starfshóp um jafnræði og gagnsæi við sölu fyrirtækja í eigu ríkisins ríkisins samkvæmt samþykkt ráðherranefndar um efnahagsmál. Í starfshópinn voru skipuð Arnar Þór Másson, forsætisráðuneyti, formaður, Pétur Berg Matthíasson, fjármálaráðuneyti, tilnefndur af fjármálaráðuneyti, Þóra M. Hjaltested, skrifstofustjóri í efnahags- og viðskiptaráðuneyti, tilnefnd af efnahags- og viðskiptaráðuneyti. Hlutverk starfshópsins er að yfirfara hvort nægilega sé tryggt í lögum og reglum að jafnræðis og gagnsæis sé gætt við sölu á fyrirtækjum eða hlutum í fyrirtækjum í beinni eða óbeinni eigu ríkisins. Nefndin lauk störfum 24. febrúar 2012. Starfshópurinn var ólaunaður. Með starfshópunum starfaði einn starfsmaður. Starfsmanni starfshópsins var ekki greitt sérstaklega fyrir störf sín fyrir starfshópinn og var ekki verktaki.

28. Ráðgjafarhópur um gerð samnings mili HS Orku hf. og íslenska ríkisins um nýtingu jarðvarma vegna Reykjanesvirkjunar.
    Hinn 2. janúar 2012 skipaði forsætisráðherra ráðgjafarhóp um gerð samnings mili HS Orku hf. og íslenska ríkisins um nýtingu jarðvarma vegna Reykjanesvirkjunar að eigin frumkvæði. Í ráðgjafarhópinn voru skipuð Aðalheiður Jóhannsdóttir, Daði Már Kristófersson og Gunnar Tryggvason, öll án tilnefningar. Gunnar Tryggvason sagði sig síðar úr hópnum. Hlutverk ráðgjafarhópsins er að stuðla að því að væntanlegir samningar ríkisins við HS Orku hf. séu ríkinu hagfelldir innan marka gildandi laga og byggðir á bestu fáanlegu upplýsingum um áhrif þeirra. Skipunartími ráðgjafarhópsins er tímabundinn, fram til 1. júlí 2012. Nefndin hefur ekki lokið störfum. Laun fyrir setu í nefndinni þáði Aðalheiður Jóhannsdóttir og var heildarlaunakostnaður 263.500 kr. Með nefndinni starfaði einn starfsmaður. Starfsmanni nefndarinnar var ekki greitt sérstaklega fyrir störf sín fyrir nefndina og er ekki verktaki.

29. Starfshópur um Stjórnsýsluskóla Stjórnarráðsins.
    Hinn 3. febrúar 2011 skipaði forsætisráðherra starfshóp um Stjórnsýsluskóla Stjórnarráðsins. Í starfshópinn eru skipuð Páll Þórhallsson, forsætisráðuneyti, formaður, Jón Vilberg Guðjónsson, mennta- og menningarmálaráðuneyti, og Ágústa Hlín Gústafsdóttir, fjármálaráðuneyti. Hlutverk starfshópsins er að skilgreina verkefni og umgjörð Stjórnsýsluskóla Stjórnarráðsins og vera í samráði við háskólastofnanir sem sinna fræðslu á starfssviði Stjórnarráðsins og félög ríkisstarfsmanna. Skipunartími nefndarinnar er ótímabundinn. Nefndin hefur ekki lokið störfum. Nefndin er ólaunuð. Enginn starfsmaður starfar með nefndinni.