Aðrar útgáfur af skjalinu: PDF - Word Perfect. Ferill 638. máls.
140. löggjafarþing 2011–2012.
Þingskjal 1026  —  638. mál.




Tillaga til þingsályktunar



um byggðastefnu fyrir allt landið.

Flm.: Höskuldur Þórhallsson, Sigmundur Davíð Gunnlaugsson,
Gunnar Bragi Sveinsson, Sigurður Ingi Jóhannsson,
Birkir Jón Jónsson, Eygló Harðardóttir, Siv Friðleifsdóttir,
Ásmundur Einar Daðason, Vigdís Hauksdóttir.


    Alþingi ályktar að fela ríkisstjórninni að stofna starfshóp sem vinni að mótun byggðastefnu fyrir allt landið. Starfshópurinn verði skipaður fulltrúum frá sveitarfélögum og ráðuneytum. Starfshópurinn skili tillögum sínum fyrir lok þessa löggjafarþings.
    Starfshópurinn skoði sérstaklega norsku byggðastefnuna þar sem skattkerfi, afslættir og styrkir eru notaðir með góðum árangri. Meðal þess sem skoðað verði í stefnu Norðmanna er skipting landsins í skattsvæði, skattar og gjöld á einstaklinga og fyrirtæki eftir skattsvæðum, afsláttur námslána, flutningsstyrkir, orkukostnaður o.fl.

Greinargerð.


    Stjórnsýsla byggðamála á Íslandi stendur að mörgu leyti á tímamótum. Sóknaráætlun stjórnvalda um einföldun, samþættingu og styrkingu stjórnsýslu ríkisins annars vegar og eflingu sveitarstjórna og landshlutasamtaka hins vegar vekur áleitnar spurningar um hvernig málaflokki byggðamála verður hagað í framtíðinni. Jafnframt hefur íslensk byggðastefna sætt sívaxandi gagnrýni og ýmsir haldið því fram fullum fetum að hér á landi sé engin heildstæð byggðastefna. Í stjórnarsáttmála ríkisstjórnarinnar er kveðið á um að byggðamálin skuli færast undir innanríkisráðuneytið og er það í samræmi við vaxandi skilning á því að árangursrík byggðastefna feli í sér samþættingu margvíslegra málaflokka ólíkra ráðuneyta og má þar nefna málefni sveitarstjórna, samgöngur, löggæslu, heilbrigðisþjónustu, jafnrétti, umhverfisvernd, menntun og menningarstarfsemi auk atvinnumála.
    Á sama tíma er nauðsynlegt að efla sveitarfélögin og landshlutasamtök þeirra til að þau geti tekið við sem flestum þáttum almannaþjónustu. Þótt ódýrast kunni að vera að þjappa allri þjónustu hins opinbera saman á höfuðborgarsvæðinu er augljóslega hagkvæmast fyrir skattgreiðendur um land allt að skattar þeirra renni til þess að efla þjónustu og skapa fjölbreyttari störf í heimabyggð. Meðal helstu ógnana við sóknarmöguleika landsbyggðarinnar má nefna stórfelldan niðurskurð á velferðarþjónustu, skort á nauðsynlegum samfélagslegum samgöngubótum, óhóflega skattlagningu eldsneytis, andstöðu við uppbyggingu fjölbreytts iðnaðar utan suðvesturhornsins og sívaxandi kröfur um að almenn jafnt sem sérhæfð starfsemi ríkisins sé einvörðungu staðsett á því svæði þar sem flestir búa. Með því að virkja sköpunarkraft og áræði íbúa landsbyggðarinnar má snúa vörn í sókn, öllum landsmönnum til hagsbóta.
    Flutningsmenn telja æskilegt að hið fyrsta verði mótuð byggðastefna fyrir allt landið. Í því skyni þarf að stofna starfshóp skipaðan fulltrúum sveitarfélaga og allra ráðuneytanna. Því er þessi þingsályktunartillaga lögð fram.