Aðrar útgáfur af skjalinu: PDF - Word Perfect. Ferill 641. máls.
140. löggjafarþing 2011–2012.
Þingskjal 1035  —  641. mál.




Fyrirspurn



til forseta Alþingis um endurskoðun löggjafar o.fl.

Frá Unni Brá Konráðsdóttur.


     1.      Hvernig er staðan á þeirri endurskoðun löggjafar, og eftir atvikum undirbúningi nýrrar löggjafar, sem Alþingi ályktaði 28. september 2010 (þskj. 1537 á 138. löggjafarþingi) að ráðist skyldi í og miða við að yrði lokið fyrir 1. október 2012, þ.e. á eftirfarandi:
                  a.      stjórnarskrá lýðveldisins Íslands, nr. 33/1944,
                  b.      lögum um þingsköp Alþingis, nr. 55/1991,
                  c.      lögum um ráðherraábyrgð, nr. 4/1963, og lögum um landsdóm, nr. 3/1963,
                  d.      lögum um Stjórnarráð Íslands, nr. 73/1969, stjórnsýslulögum, nr. 37/1993, upplýsingalögum, nr. 50/1996, og lögum um réttindi og skyldur starfsmanna ríkisins, nr. 70/1996,
                  e.      löggjöf um starfsemi á fjármálamarkaði,
                  f.      lögum um skyldutryggingu lífeyrisréttinda og starfsemi lífeyrissjóða, nr. 129/1997,
                  g.      löggjöf um eftirlit með fjármálastarfsemi á vettvangi Seðlabanka Íslands, Fjármálaeftirlitsins og annarra eftirlitsaðila, og gerð viðbragðsáætlunar við fjármálaáfalli,
                  h.      löggjöf um háskóla og fjölmiðla,
                  i.      löggjöf um reikningsskil og bókhald,
                  j.      lögum um endurskoðendur, nr. 79/2008,
                  k.      stofnun sjálfstæðrar ríkisstofnunar sem fylgdist með þjóðhagsþróun og semdi þjóðhagsspá,
                  l.      annarri löggjöf sem nauðsynlegt er að endurskoða með hliðsjón af tillögum þingmannanefndar, sbr. 15. gr. laga nr. 142/2008, um rannsókn á aðdraganda og orsökum falls íslensku bankanna 2008 og tengdra atburða?
     2.      Hver er staðan á eftirtöldum rannsóknum og úttektum sem Alþingi samþykkti að ráðist skyldi í og verður þeim lokið fyrir 1. október 2012:
                  a.      sjálfstæðri og óháðri rannsókn á starfsemi lífeyrissjóða á Íslandi frá setningu laga um skyldutryggingu lífeyrisréttinda og starfsemi lífeyrissjóða, nr. 129/1997, með síðari breytingum, og heildarendurskoðun á stefnu og starfsemi lífeyrissjóðanna í kjölfar rannsóknarinnar,
                  b.      sjálfstæðri og óháðri rannsókn á aðdraganda og orsökum falls sparisjóða á Íslandi frá því að viðskipti með stofnfé voru gefin frjáls og heildarendurskoðun á stefnu og starfsemi sparisjóðanna í kjölfar þeirrar rannsóknar,
                  c.      stjórnsýsluúttekt á Fjármálaeftirlitinu og Seðlabanka Íslands og á grundvelli hennar mat kosta og galla þess að sameina starfsemi stofnananna í þeim tilgangi að tryggja heildaryfirsýn yfir kerfisáhættu, fjármálalegan stöðugleika og ábyrgð á samræmingu viðbragða?
     3.      Hvernig er eftirliti því sem fjallað er um í III. kafla ályktunarinnar háttað?


Skriflegt svar óskast.