Aðrar útgáfur af skjalinu: PDF - Word Perfect. Ferill 545. máls.
140. löggjafarþing 2011–2012.
Þingskjal 1079  —  545. mál.




Svar



forsætisráðherra við fyrirspurn Helga Hjörvar um starfsmannastefnu ráðuneytis
og undirstofnana varðandi atvinnuþátttöku fatlaðs fólks.


     1.      Hafa ráðuneytið og undirstofnanir þess markað sér stefnu sem atvinnuveitendur um hvernig auðvelda megi ráðningar fatlaðs fólks í samræmi við lög um málefni fatlaðs fólks, nr. 59/1992, sbr. 29. og 32. gr. laganna og 27. gr. sáttmála Sameinuðu þjóðanna um réttindi fatlaðs fólks?
    Ráðuneytið og stofnanir þess hafa ekki markað sér slíka stefnu sérstaklega, umfram það sem leiðir af lögum og reglum um auglýsingar lausra starfa hjá ríkinu sem kveða á um að ávallt skuli ráða hæfasta umsækjanda hverju sinni. Í samræmi við 32. gr. laga nr. 59/1992 á fatlað fólk forgang að viðkomandi starfi ef hæfni þess til að gegna því er meiri eða jöfn hæfni annarra umsækjenda um starfið.
    Fyrir liggur að endurskoða mannauðsstefnu Stjórnarráðs Íslands og verður þá sérstaklega hugað að því að hrinda í framkvæmd ákvæðum laga nr. 59/1992, sbr. breytingar sem samþykktar voru með lögum nr. 152/2010 og tillögu til þingsályktunar um framkvæmdaáætlun í málefnum fatlaðs fólks.

     2.      Hafa ráðuneytið og undirstofnanir þess gripið til viðeigandi ráðstafana til að ráða fatlað fólk til starfa og þá hvaða?
    Ekki hefur verið gripið til sérstakra ráðstafana til að ráða fatlað fólk til starfa.

     3.      Hafa forstöðumönnum ráðuneytisins og undirstofnana verið kynnt ákvæði samnings Sameinuðu þjóðanna um viðeigandi ráðstafanir til að auka atvinnuþátttöku fatlaðs fólks?
    Nei, en ráðuneytið hyggst standa fyrir slíkri kynningu, ekki eingöngu fyrir forsætisráðuneytið og stofnanir þess heldur fyrir allt Stjórnarráðið, á vettvangi Stjórnsýsluskóla Stjórnarráðs Íslands og í samráði við velferðarráðuneytið. Þar er m.a. fyrirhugað námskeið fyrir stjórnendur um ráðningar og verður þess gætt að fjalla um mikilvægi þess að auka atvinnuþátttöku fatlaðs fólks og ábyrgð ráðuneytanna í því sambandi.

     4.      Hafa forstöðumönnum ráðuneytisins og undirstofnana verið kynntar breyttar áherslur hvað varðar þátt umhverfishindrana og viðhorfstengdra tálma í fötlun?
    Nei, ekki sérstaklega, en ráðuneytið sér til þess með ýmsum hætti að forstöðumenn séu upplýstir um þróun í lagaumhverfi og annarri umgjörð starfsráðninga.

     5.      Hversu margir fatlaðir starfa hjá ráðuneytinu og undirstofnunum þess og hversu hátt hlutfall er það af starfsmannafjölda þeirra?
    Eftir því sem best er vitað fellur enginn starfsmanna ráðuneytisins eða þriggja stofnana þess undir 2. gr. laga nr. 59/1992 þar sem er að finna leiðsögn um það hvernig beri að skilja hugtakið fötlun.