Aðrar útgáfur af skjalinu: PDF - Word Perfect. Ferill 583. máls.
140. löggjafarþing 2011–2012.
Þingskjal 1095  —  583. mál.

Síðari umræða.


Nefndarálit



um tillögu til þingsályktunar um staðfestingu ákvörðunar sameiginlegu EES-nefndarinnar nr. 76/2011 um breytingu á VI. viðauka (Félagslegt öryggi) við EES-samninginn.

Frá utanríkismálanefnd.

    Nefndin hefur fjallað um málið og fengið á sinn fund Jóhönnu B. Bjarnadóttur og Bergþór Magnússon frá utanríkisráðuneyti, Hildi Sverrisdóttur Röed og Steinunni M. Lárusdóttur frá velferðarráðuneyti og Harald Steinþórsson frá fjármálaráðuneyti. Málið var sent til umsagnar til velferðarnefndar en engar athugasemdir bárust.
    Með tillögunni er leitað heimildar Alþingis til staðfestingar á ákvörðun sameiginlegu EES-nefndarinnar nr. 76/2011, frá 1. júlí 2011, um breytingu á VI. viðauka (Félagslegt öryggi) við EES-samninginn frá 2. maí 1992, og til að fella inn í samninginn eftirfarandi gerðir:
     1.      Reglugerð Evrópuþingsins og ráðsins (EB) nr. 883/2004 frá 29. apríl 2004 um samræmingu almannatryggingakerfa.
     2.      Reglugerð Evrópuþingsins og ráðsins (EB) nr. 988/2009 frá 16. september 2009 um breytingu á reglugerð (EB) nr. 883/2004 um samræmingu almannatryggingakerfa og um að ákveða efni viðaukanna við hana.
     3.      Reglugerð Evrópuþingsins og ráðsins (EB) nr. 987/2009 frá 16. september 2009 sem kveður á um framkvæmd reglugerðar (EB) nr. 883/2004 um samræmingu almannatryggingakerfa.
     4.      Ákvarðanir framkvæmdaráðs um samræmingu almannatryggingakerfa nr. A1, A2, E1, F1, H1, H2, P1, S1, S2, S3, U1, U2 og U3 frá 12. júní 2009.
     5.      Tilmæli framkvæmdaráðs um samræmingu almannatryggingakerfa nr. P1, U1 og U2 frá 12. júní 2009.
    Sex mánaða frestur, samkvæmt EES-samningnum, til að aflétta stjórnskipulegum fyrirvara var veittur til 1. janúar 2012. Framsetning tillögunnar telst að mati nefndarinnar í samræmi við 4. gr. reglna um þinglega meðferð EES-mála frá 1. október 2010.
    Þær reglugerðir, ákvarðanir og tilmæli sem að framan greinir kveða á um rétt til almannatrygginga við frjálsa för milli aðildarríkjanna.
    Innleiðing reglugerða (EB) nr. 883/2004, nr. 988/2009 og nr. 987/2009 og ákvarðana og tilmæla framkvæmdaráðs um samræmingu almannatryggingakerfa kalla á lagabreytingar hér á landi á fleiri en einum lagabálki. Um er að ræða breytingar á lögum nr. 112/2008, um sjúkratryggingar, lögum nr. 100/2007, um almannatryggingar, lögum nr. 54/2006, um atvinnuleysistryggingar, og lögum nr. 95/2000, um fæðingar- og foreldraorlof. Fyrirhugað er að velferðarráðherra leggi fram frumvarp til breytinga á framangreindum lagabálkum á yfirstandandi löggjafarþingi.
    Reglugerð (EB) nr. 883/2004 kveður á um rétt til almannatrygginga við frjálsa för milli aðildarríkjanna og kemur í stað reglugerðar ráðsins (EBE) nr. 1408/71, eins og áður segir. Ein meginbreyting reglugerðarinnar er að persónulegt gildissvið hins tryggða er rýmkað frá núgildandi reglugerð. Samkvæmt ákvæðum reglugerðar (EB) nr. 883/2004 tekur hún einnig til einstaklinga sem ekki hafa verið á vinnumarkaði. Réttarástand hér á landi er í samræmi við reglugerðina og því er ekki búist við miklum kostnaðarauka vegna þessa þar sem einstaklingar sem ekki eru á vinnumarkaði eru þegar tryggðir hér á landi. Hins vegar má ætla að aukinn rekstrarkostnaður kunni að leggjast á þær stofnanir sem sjá um framkvæmd almannatrygginga hér á landi vegna krafna um betri málsmeðferð, aukið gagnsæi og meiri málshraða.
    Í reglugerð (EB) nr. 987/2009 er megináhersla lögð á að framkvæmd almannatrygginga milli aðildarríkjanna og stofnana þeirra verði sem mest rafræn. Reglan er sú að hvert land ber kostnað af því að koma hinu rafræna kerfi á. Undirbúningur hjá þeim stofnunum sem í hlut eiga, þ.e. Tryggingastofnun ríkisins, Sjúkratryggingum Íslands, Vinnumálastofnun, lögbundnum lífeyrissjóðum og ríkisskattstjóra, er kominn langt á leið en sá undirbúningur er jafnframt í samræmi við stefnu stjórnvalda um rafræna stjórnsýslu. Endanlegt kostnaðarmat hefur ekki farið fram en líkur standa til þess að kostnaður við að koma kerfinu í gagnið verði nokkur enda þótt Evrópusambandið leggi löndum til hugbúnað fyrir framkvæmdina.
    Þess má geta að reglugerðirnar munu væntanlega taka gildi milli Sviss og Evrópusambandsins þann 1. apríl nk. Þá liggja fyrir drög að nýjum Norðurlandasamningi um almannatryggingar sem tekur mið af nýju reglugerðunum.
    Nefndin leggur til að tillagan verði samþykkt.
    Helgi Hjörvar var fjarverandi við afgreiðslu málsins.

Alþingi, 27. mars 2012.



Árni Þór Sigurðsson,


form.


Árni Páll Árnason,


frsm.


Bjarni Benediktsson.



Guðfríður Lilja Grétarsdóttir.


Gunnar Bragi Sveinsson.


Mörður Árnason.



Ragnheiður E. Árnadóttir.


Sigmundur Davíð Gunnlaugsson.