Aðrar útgáfur af skjalinu: PDF - Word Perfect. Ferill 597. máls.
140. löggjafarþing 2011–2012.
Þingskjal 1146  —  597. mál.




Svar



mennta- og menningarmálaráðherra við fyrirspurn Kristjáns Þórs Júlíussonar
um kostnað Ríkisútvarpsins vegna launa o.fl.


    Fyrirspurnin hljóðar svo:
     Hver var launakostnaður Ríkisútvarpsins og annar kostnaður við reglulega starfsemi, aðra en þá sem varðar dreifikerfi, 1. september 2010 til 31. ágúst 2011, skipt eftir starfsstöðvum?

    Þar sem fyrirspurnin snertir starfsemi Ríkisútvarpsins beint leitaði ráðuneytið eftir svörum þess við fyrirspurninni.
    Meginstarfsstöð Ríkisútvarpsins er sem kunnugt er í Útvarpshúsinu við Efstaleiti. Félagið hefur einnig aðstöðu á Akureyri, Egilsstöðum, Ísafirði og í Borgarnesi auk þess sem nokkur mannskapur hér á landi og erlendis sinnir fréttaöflun og dagskrárgerð fyrir félagið. Má sem dæmi nefna Gísla Einarsson í Borgarnesi, Magnús Hlyn Hreiðarsson á Selfossi, Sighvat Jónsson í Vestmannaeyjum, Svein Helgason í Bandaríkjunum og Borgþór Arngrímsson í Danmörku.
    Eins og fram kemur í ársskýrslu RÚV var heildarkostnaður félagsins á síðasta rekstrarári, án dreifikerfis, afskrifta og fjármagnskostnaðar, 4.211 millj. kr. og skiptist hann þannig:
    Kostnaður við starfsstöðina í Efstaleiti nam 4.073 millj. kr. og þar af var launakostnaður 1.990 millj. kr. Kostnaður við starfsstöðina á Akureyri nam 82 millj. kr. Sökum fámennis á öðrum starfsstöðvum er ekki hægt að sundurgreina kostnað án þess að laun einstakra starfsmanna séu greinanleg. Þessir staðir eru Egilsstaðir, Ísafjörður, Borgarnes, Selfoss, Sauðárkrókur og Vestmannaeyjar. Samanlagður kostnaður vegna þeirra er 55 millj. kr.