Aðrar útgáfur af skjalinu: PDF - Word Perfect. Ferill 716. máls.
140. löggjafarþing 2011–2012.
Þingskjal 1151  —  716. mál.




Frumvarp til laga



um breytingu á lögum um nauðungarsölu, lögum um aðför, lögum um meðferð
einkamála og lögum um fjármálafyrirtæki (auglýsing nauðungarsölu,
mál til heimtu bóta, gjafsókn, vörslusviptingar).

Frá meiri hluta efnahags- og viðskiptanefndar (HHj, MN, EyH, TM, ÁÞS, SkH).


I. KAFLI
Breyting á lögum um nauðungarsölu, nr. 90/1991, með síðari breytingum.
1. gr.

    Á eftir orðinu „dagblaði“ í 2. mgr. 26. gr. laganna kemur: á vef sýslumanna.

2. gr.

    Á eftir orðinu „dagblaði“ í 1. málsl. 1. mgr. 64. gr. laganna kemur: á vef sýslumanna.

3. gr.

    Í stað orðsins „þrír“ í 88. gr. laganna kemur: sex.

4. gr.

    Við lögin bætast tvö ný ákvæði til bráðabirgða, svohljóðandi:

    a. (I.)
    Fram til ársloka 2013 skal frestur til að höfða mál til heimtu bóta skv. 88. gr. vera tólf mánuðir.

    b. (II.)
    Sýslumaður skal gæta þess af sjálfsdáðum að uppboðsandvirði verði ekki ráðstafað til greiðslu kröfu ef hún er umdeild í ljósi hæstaréttardóma sem gengið hafa um lögmæti og endurreikning gengistryggðra lána.

II. KAFLI
Breyting á lögum um aðför, nr. 90/1989, með síðari breytingum.
5. gr.

    Í stað orðsins „þrír“ í 98. gr. laganna kemur: sex.

6. gr.

    Við lögin bætist nýtt ákvæði til bráðabirgða, svohljóðandi:
    Fram til ársloka 2013 skal frestur til að höfða mál til heimtu bóta skv. 98. gr. vera tólf mánuðir.

III. KAFLI
Breyting á lögum um meðferð einkamála, nr. 91/1991,     með síðari breytingum.

7. gr.

    Í stað 1. mgr. 126. gr. laganna koma tvær nýjar málsgreinar, svohljóðandi:
    Gjafsókn verður aðeins veitt ef málstaður umsækjanda gefur nægilegt tilefni til málshöfðunar eða málsvarnar og öðru hvoru eftirfarandi skilyrða er að auki fullnægt:
     a.      að fjárhag umsækjanda sé þannig háttað að kostnaður af gæslu hagsmuna hans í máli yrði honum fyrirsjáanlega ofviða, enda megi teljast eðlilegt að öðru leyti að gjafsókn sé kostuð af almannafé,
     b.      að úrlausn máls hafi verulega almenna þýðingu eða varði verulega miklu fyrir atvinnu, félagslega stöðu eða aðra einkahagi umsækjanda.
    Ráðherra getur í reglugerð kveðið nánar á um skilyrði gjafsóknar, þ.m.t. hvenær nægilegt tilefni sé til veitingar gjafsóknar, þau atriði sem líta ber til við mat á fjárhagsstöðu umsækjanda og heimildir til takmörkunar á gjafsókn skv. 1. mgr. 127. gr.

8. gr.

    Við lögin bætist nýtt ákvæði til bráðabirgða, svohljóðandi:
    Þrátt fyrir skilyrði 1. málsl. 1. mgr. 126. gr. skulu skuldarar, enda sé um einstaklinga að ræða, fá gjafsókn vegna dómsmála sem höfðuð verða í kjölfar samstarfs fjármálafyrirtækja á grundvelli 5. gr. í ákvörðun Samkeppniseftirlitsins nr. 4/2012 frá 9. mars 2012. Gjafsóknarheimild þessi tekur til rekstrar máls fyrir héraðsdómi og fyrir Hæstarétti.

IV. KAFLI
Breyting á lögum um fjármálafyrirtæki, nr. 161/2002, með síðari breytingum.
9. gr.

    Við lögin bætist nýtt ákvæði til bráðabirgða, svohljóðandi:
    Þrátt fyrir 2. mgr. 22. gr. er fjármálafyrirtækjum og fjármálafyrirtækjum í slitameðferð ekki heimilt að yfirtaka eignir til að tryggja fullnustu kröfu með vörslusviptingu ef krafan er umdeild í ljósi hæstaréttardóma sem gengið hafa um lögmæti og endurreikning gengistryggðra lána. Dómari tekur afstöðu til þess hvort réttur fjármálafyrirtækis sé svo ótvíræður að heimila megi vörslusviptingu.
    Fjármálaeftirlitið getur lagt stjórnvaldssektir á hvern þann sem brýtur gegn ákvæði þessu, sbr. 110. gr.
    Ákvæði þetta gildir til loka árs 2013.

10. gr.

    Lög þessi öðlast þegar gildi.

Greinargerð.

    Í frumvarpi þessu eru lagðar til breytingar á lögum um nauðungarsölu, nr. 90/1991, lögum um aðför, nr. 90/1989, lögum um meðferð einkamála, nr. 91/1991, og lögum um fjármálafyrirtæki, nr. 161/2002.

Tilurð frumvarpsins.
    Frumvarp þetta er upphaflega samið í innanríkisráðuneytinu að höfðu samráði við efnahags- og viðskiptanefnd í kjölfar hæstaréttardóms frá 15. febrúar í máli nr. 600/2011. Þar var tekist á um það álitaefni hvort kröfuhafi ætti á grundvelli lánssamnings sem innihélt ólögmæta gengistryggingu fjárkröfu á hendur skuldara vegna liðins lánstíma. Hæstiréttur rakti þá meginreglu kröfuréttar að kröfuhafi sem fengið hefur minna greitt en hann átti rétt til í lögskiptum aðila eigi viðbótarkröfu á hendur skuldara um það sem vangreitt er. Fullnaðarkvittun kröfuhafa gæti þó að vissum skilyrðum fullnægðum valdið því að hann glataði þeim rétti. Eins og atvikum málsins var háttað var því slegið föstu að greiðslutilkynningar kröfuhafans og fyrirvaralaus móttaka hans á greiðslum frá skuldara í samræmi við þær tilkynningar hefðu jafngilt fullnaðarkvittunum og að kröfuhafinn gæti ekki krafið skuldara um vexti aftur í tímann.
    Í málinu komst Hæstiréttur einnig að þeirri niðurstöðu að lög nr. 151/2010, um breytingu á lögum nr. 38/2001, um vexti og verðtryggingu, sem höfðu „meðal annars að geyma ákvæði sem lúta að ákvörðun vaxta aftur í tímann af skuldum samkvæmt skuldabréfum þar sem ákvæði um gengistryggingu skuldar hafa verið talin andstæð lögum“ yrði ekki beitt við úrlausn málsins. Tilgangur breytingalaganna var að eyða réttaróvissu um uppgjör gengistryggðra lána, einkum þeirra sem veitt höfðu verið einstaklingum til kaupa á fasteign eða bifreið. Dómurinn varð því Samtökum fjármálafyrirtækja og Dróma hf. tilefni til þess að sækja um undanþágu í þessum sama tilgangi frá banni 10. og 12. gr. samkeppnislaga, nr. 44/2005, við ólögmætu samráði. Nánar tiltekið fóru samtökin fram á að eiga með sér samvinnu um að meta fordæmisgildi dómsins með tilliti lögmætis og uppgjörs gengistryggðra fjárskuldbindinga og velja álitaefni til þess að bera undir dómstóla.
    Samkeppniseftirlitið féllst á undanþáguna með ákvörðun frá 9. mars sl., nr. 4/2012, sem reist var á 15. gr. samkeppnislaga. Þar var vísað til þess að brýna nauðsyn bæri til þess að leysa úr þeirri réttaróvissu sem skapast hefði í kjölfar dómsins en samhliða ákvað eftirlitið að binda samráðið ströngum skilyrðum til að takmarka neikvæð áhrif þess á samkeppni. Skilyrðin lúta m.a. að því að umboðsmaður skuldara taki þátt í samráðsfundunum og mögulega Neytendastofa og talsmaður neytenda og að hlutaðeigandi fjármálafyrirtæki fresti öllum fullnustugerðum sem byggjast á lánum sem ljóst er að falli undir dóminn. Eftirlitið gerði jafnframt kröfu um að skuldarar í þeim dómsmálum sem höfðuð verða á grundvelli samstarfsins verði ekki látnir bera málskostnað gagnaðila sinna. Undanþáguheimildin er tímabundin og rennur út í árslok 2012 og mun ekki takmarka möguleika einstakra lánveitenda til að veita viðskiptamönnum sínum betri kjör en leiðir af samráðinu.
    Skilyrðin sem fram koma í umræddri ákvörðun Samkeppniseftirlitsins eru til þess fallin að slá á þær áhyggjur sem fram hafa komið á fundum nefndarinnar. Forsendur þeirra skilyrða standa aftur á móti og falla með því að fjármálafyrirtækin nýti heimild sína til samráðs. Inngrip löggjafans eins og lagt er til í frumvarpinu eru þeim til fyllingar og réttlætast af mati á almannahagsmunum á meðan skilyrði eftirlitsins er ætlað að standa vörð um virka samkeppni. Í hvoru tilviki fyrir sig þarf að gefa jafnan gaum að stjórnarskrárvörðum hagsmunum skuldara og kröfuhafa.

Þörfin fyrir lagabreytingar.
    Nefndin ræddi ítarlega hver viðbrögð stjórnvalda við umræddum hæstaréttardómi ættu að vera í ljósi reynslunnar af setningu laga nr. 151/2010 og fékk á sinn fund helstu hagsmunaaðila úr röðum kröfuhafa og skuldara sem og fulltrúa stjórnvalda auk annarra sérfræðinga. Má nefna fulltrúa efnahags- og viðskiptaráðuneytis og innanríkisráðuneytis, Samtök fjármálafyrirtækja ásamt fulltrúa frá einstökum aðildarfélögum og Dróma hf., Hagsmunasamtök heimilanna, Samtök lánþega, Fjármálaeftirlitið, réttarfarsnefnd, Félag sýslumanna, umboðsmann skuldara, talsmann neytenda og lögmannsstofuna LEX. Flestum bar saman um mikilvægi þess að hraða úrlausn þeirra álitaefna sem risið hefðu í kjölfar dómsins og að aðilar beggja vegna borðs þyrftu að koma sér saman um hvaða álitaefni brýnast væri að taka afstöðu til. Sjónarmið komu fram um að við þá vinnu þyrfti að tryggja jafnræði skuldara, einkum neytenda, gagnvart fjármálafyrirtækjunum en við umræður í nefndinni lá fyrir lögfræðiálit sem LEX lögmannsstofa vann að beiðni SFF og varðar greiningu á fordæmisgildi dómsins.
    Nefndin ræddi í þessu sambandi kosti þess að lögfesta ákvæði um flýtimeðferð dómsmála er varða lögmæti og uppgjör gengistryggðra lána en tillögur þar að lútandi hafa m.a. komið fram í þingmannafrumvörpum sem lögð hafa verið fram á þessu þingi og á fyrri þingum (sjá þskj. 377, 320. mál frá 140. löggjafarþingi og þskj. 700, 392. mál frá 138. löggjafarþingi). Í umsögn dómstólaráðs sem nefndin aflaði var talið að vegna fjölda slíkra mála og vandkvæða við að afmarka í lagatexta hver þeirra ættu að sæta flýtimeðferð yrði hættan sú að ferlið yrði tafsamt. Hægt væri að ná sama markmiði í málum er varða mikilsverð úrlausnarefni ef lögmenn málsaðila yrðu ásáttir um hvaða mál ætti að miða við í þessum tilgangi og í framhaldi af því mundu dómarar setja málin í forgang. Telur nefndin í því ljósi að ekki sé þörf lagabreytingar í þessum tilgangi og fagnar vilja ráðsins til að setja þau mál í forgang sem aðilar samráðsins telja að henti best til að eyða réttaróvissu á sem skilvirkastan hátt.
    Eins og álit Lex lögmannsstofu ber með sér standa ýmis ágreiningsefni eftir óleyst í kjölfar dómsins sem vakið hefur upp spurningar um lögmæti þeirra innheimtuaðgerða og fullnustugerða sem lánveitendur umþrættra lána hafa farið fram með á hendur lántökum. Sérstaklega geti það átt við í tilviki þeirra fjármálafyrirtækja sem eru með óvissar framtíðarhorfur þar sem möguleikar skuldara á að fá tjón sitt bætt geta verið takmarkaðir. Athygli var þó vakin á því að hugsanlegar endurkröfur skuldara sem til stofnaðist á tímabili slitameðferðar fjármálafyrirtækis væru að öllum líkindum búskröfur sem gengju framar forgangskröfum og almennum kröfum í skuldaröð, sbr. 3. mgr. 102. gr. laga um fjármálafyrirtæki, nr. 161/2002, og 3. tölul. 110. gr. gjaldþrotaskiptalaga, nr. 21/1991. Enn fremur yrði að telja að rík skylda hvíldi á stjórnendum fjármálafyrirtækja til að gefa þau upp til slitameðferðar stæði reksturinn ekki undir sér og stefndi í þrot. Upplýst var að Fjármálaeftirlitið hefði eftir uppkvaðningu hæstaréttardómsins frá 15. febrúar sl. hafið að afla upplýsinga frá fjármálafyrirtækjum til að meta áhrif dómsins á eigið fé þeirra og fjármálakerfið í heild.
    Vegna ríkjandi réttaróvissu í tengslum við gengistryggða láns- og eignaleigusamninga sendi Fjármálaeftirlitið í upphafi marsmánaðar þau tilmæli til lánastofnana að grípa ekki til íþyngjandi vanefndaúrræða gagnvart skuldurum slíkra samninga, svo sem á grundvelli laga um aðför, laga um nauðungarsölu og vörslusviptinga á grundvelli samningsskilmála í þeim tilvikum þar sem óvissa kynni að vera til staðar um ætluð vanskil. Samkeppniseftirlitið setti jafnframt það skilyrði í ákvörðun sinni frá 9. mars sl. að hlutaðeigandi fjármálafyrirtæki frestuðu öllum fullnustugerðum sem byggjast á lánum sem ljóst er að falli undir hæstaréttardóminn frá 15. febrúar sl. Í svari innanríkisráðuneytisins til nefndarinnar hefur auk þess komið fram að ráðuneytið hafi gert öllum sýslumönnum viðvart um þær skyldur sem lagðar væru á fjármálafyrirtækin með umræddri ákvörðun. Samkvæmt upplýsingum sem ráðuneytinu hefðu borist frá sýslumönnum hefðu fjármálafyrirtækin frestað eða afturkallað beiðnir um nauðungarsölur eftir því sem málin væru tekin fyrir í þessum tilvikum. Með hliðsjón af því telur nefndin ekki þörf á að fresta umræddum fullnustugerðum með lagaboði.

Tillögur til breytinga á lögum.
     Í frumvarpinu er í fyrsta lagi lagt til að frestur til að höfða mál til innheimtu skaðabóta vegna tjóns sem orðið hefur vegna þess að ekki hafi verið skilyrði fyrir nauðungarsölu eða aðför eða að nauðungarsala eða aðför hafi farið fram með þeim hætti að hún hafi eða gæti sætt ógildingu verði lengdur úr þremur mánuðum í sex mánuði auk þess sem fresturinn verði tímabundið lengdur í tólf mánuði eða fram til loka árs 2013. Breytingin er lögð til í samráði við innanríkisráðuneyti og réttarfarsnefnd vegna þeirrar réttaróvissu sem risin er í kjölfar hæstaréttardómsins frá 15. febrúar sl.
    Í tengslum við þessa breytingu leitaði nefndin svara við því hvort sérstakt tilefni væri til að heimila skuldurum að óska eftir endurupptöku fullnustugerða með sams konar hætti og gert var með breytingalögum nr. 151/2010, sbr. nú ákvæði til bráðabirgða XIII í lögum um vexti og verðtryggingu. Þetta ákvæði er nú fallið úr gildi en þar var skuldurum lánssamninga sem innihéldu ólögmæt ákvæði um gengistryggingu veittur níu mánaða frestur frá gildistöku breytingalaganna til að endurupptaka fullnustugerðir sem farið höfðu fram á grundvelli samninganna óháð almennum tímafrestum. Á fundum nefndarinnar var athygli vakin á dómum þar sem reynt hefði á gildi umrædds ákvæðis, þar af væri einn hæstaréttardómur í máli nr. 25/ 2012 frá 24. janúar 2012 þar sem beiðni um endurupptöku nauðungarsölu var vísað frá með þeim rökum að engar endurupptökuheimildir væri að finna í lögum um nauðungarsölu heldur heimildir til að leita úrlausnar um gildi nauðungarsölu innan greindra tímamarka.
    Fulltrúar réttarfarsnefndar tóku fram af þessu tilefni að fullnustugerðum væri almennt skipað í tvo flokka, annars vegar gerðir sem ætlað er að takmarka ráðstöfunarmöguleika gerðarþola yfir eign sinni eins og fjárnám og kyrrsetning og hins vegar gerðir sem miða að því að koma eignum gerðarþola í verð eins og gjaldþrotaskipti og nauðungarsala. Ástæður þess að takmarkaðra heimilda nyti til endurupptöku í tilviki hinna síðarnefndu væri sú að þær mundu tæpast skila árangri nema kaupendur eignanna gætu treyst því að þeim yrði ekki brigðað frá þeim.
    Rýmkun bótafresta nauðungarsölulaga og aðfararlaga sem lagðir eru til í frumvarpinu er ætlað að mæta sjónarmiðum þeirra sem hafa lagt áherslu á að veita skuldurum raunhæf úrræði til þess að endurheimta eignir sínar sem ráðstafað hefur verið með fullnustugerðum sem farið hafa fram á grundvelli ólögmætra lánaskilmála. Endurupptökuheimildir eru í eðli sínu takmarkaðar þegar fullnustugerð felst í því að koma eign í verð þar sem kaupendur verða almennt að geta treyst því að eignunum verði ekki brigðað frá þeim. Á þetta hefur réttarfarsnefnd bent auk þess sem taka verði tillit til eignarréttarverndar annarra kröfuhafa sem eiga kröfur sem ekki styðjast við gengistryggð lán. Því sé bótaúrræðið raunhæfara.
    Í annan stað var rætt hvort veita ætti skuldurum í þeim dómsmálum sem höfðuð verða í kjölfar samstarfs fjármálafyrirtækja á grundvelli ákvörðunar Samkeppniseftirlitsins nr. 4/ 2012 frá 9. mars sl. gjafsókn sem skuldbindi ríkið til að greiða þann málskostnað sem viðkomandi skuldarar hafa sjálfir haft af máli enda sé um að ræða einstaklinga. Samkeppniseftirlitið gerir eins og áður segir kröfu um að skuldarar í þeim dómsmálum sem höfðuð verða á grundvelli samstarfsins verði ekki látnir bera málskostnað hlutaðeigandi fjármálafyrirtækja.
    Innanríkisráðuneytið vakti athygli á því við meðferð málsins að megintilgangur gjafsóknar væri að styðja við þá sem ekki hefðu getu til að kosta málsókn sína sjálfir en ekki væri víst að þannig háttaði til um alla skuldara gengistryggðra lána. Nefndin telur samt sem áður að þörf sé á að auka möguleika almennings á gjafsókn óháð fjárhagsstöðu umsóknaraðila og leggur því til breytingu samhljóða þeirri sem fram kemur í frumvarpi Álfheiðar Ingadóttur o.fl. frá 136., 137. og 139. löggjafarþingi.
    Ólík sjónarmið hafa komið fram um það hvort æskilegt sé að leggja til breytingar á reglum nauðungarsölulaga um úthlutun söluverðs til að hindra að uppboðsandvirði verði ekki ráðstafað til greiðslu umdeildra krafna sem kunna að falla undir fordæmisgildi títtnefnds hæstaréttardóms. Ráðuneytið og Félag sýslumanna hafa talið það óþarft og hafa vísað til meginreglu nauðungarsölulaga um að ekki sé úthlutað af söluandvirði fyrr en ágreiningur um umdeildar kröfur hefur verið leiddur til lykta og að sýslumönnum beri að sjálfsdáðum að kynna sér lagalegan grundvöll nauðungarsölubeiðni áður en að fyrstu fyrirtöku kemur. Áhyggjur einstakra nefndarmanna hafa samt sem áður lotið að þeim tilvikum þar sem gerðarþoli gætir ekki hagsmuna sinna við nauðungarsöluferlið og er því í þriðja lagi lagt til í frumvarpinu að sýslumaður gæti þess að ekki komi til úthlutunar af söluandvirði upp í umdeildar kröfur sem eru framangreindu marki brenndar.
    Í fjórða lagi hafa á fundum verið leidd rök að því að einstök fjármálafyrirtæki og fyrirtæki í slitameðferð hafi ekki gætt réttra aðferða við vörslusviptingar á grundvelli gengistryggðra lánssamninga í ljósi óvissu sem gætt hefur um skuldbindingargildi þeirra. Lagt er til í frumvarpinu að Fjármálaeftirlitinu verði veitt heimild til þess að leggja dagsektir virði fyrirtækin ekki atbeina ríkisvaldsins í þessum efnum.

Fyrirkomulag við auglýsingar á nauðungarsölum.
    Að beiðni innanríkisráðuneytisins er lagt til í frumvarpinu að sýslumönnum verði heimilt að auglýsa nauðungarsölu, hvort sem er á fasteignum eða lausafé, með rafrænum hætti á heimasíðu sýslumanna. Er sú breyting lögð til í framhaldi af tillögum sýslumannsins í Bolungarvík og breyttu fyrirkomulagi hjá sýslumönnum við auglýsingar á nauðungarsölum.

Að lokum.
    Nefndin telur eðlilegt að þær tillögur sem lagðar eru til í frumvarpinu komi til frekari skoðunar við þinglega meðferð málsins og ekki síst með hliðsjón af framkomnum efasemdum um hvort efnahags- og viðskiptanefnd sé réttur aðili til að leggja til breytingar á réttarfarslögum. Aðkoma nefndarinnar á sér aftur á móti eðlilegar skýringar þar sem vandinn á rætur í samningum sem voru viðskiptalegs eðlis auk þess sem farsæl lausn varðar efnahag landsins miklu.

Athugasemdir við einstakar greinar frumvarpsins.

Um 1. og 2. gr.


    Hér er lögð til sú breyting á 26. og 64. gr. laga um nauðungarsölu að skýrt verði kveðið á um heimild sýslumanna til að auglýsa nauðungarsölu með rafrænum hætti á vef sýslumanna hvort sem um er að ræða nauðungarsölu á fasteignum eða lausafé. Samkvæmt ákvæðum 26. gr. laga um nauðungarsölu skal sýslumaður birta auglýsingu um byrjun uppboðs á eign með minnst þriggja daga fyrirvara í dagblaði eða á annan samsvarandi hátt. Þá skal sýslumaður skv. 64. gr. nauðungarsölulaga birta í dagblaði eða með öðrum samsvarandi hætti minnst einu sinni með viku fyrirvara auglýsingu um uppboð á lausafé. Sýslumenn hafa nú tekið upp þann hátt að birta á vef sýslumanna á slóðinni www.naudungarsolur.is upplýsingar um nauðungarsölur í stað þess að birta þær í dagblaði samkvæmt heimild laganna um að birta upplýsingar um nauðungarsölur með öðrum hætti en í dagblaði. Með því að birta allar nauðungarsölur á einum stað verða upplýsingarnar aðgengilegri fyrir þá sem málið varðar. Er í frumvarpi þessu lagt til að sérstaklega verði kveðið á um þessa framkvæmd í lögum og tekið fram að auglýsa megi nauðungarsölur á vef sýslumanna.

Um 3. gr. og a-lið 4. gr.


    Í XV. kafla laga um nauðungarsölu er fjallað um ábyrgð á nauðungarsölu. Er í 86. gr. laganna fjallað um að hafi gerðarbeiðandi krafist nauðungarsölu sem síðar er leitt í ljós að skilyrði skorti til ber honum að bæta allt tjón sem aðrir hafa beðið af þeim sökum. Hafi nauðungarsala farið fram með þeim hætti að hún hafi eða gæti sætt ógildingu getur sá sem hefur orðið fyrir tjóni af henni átt rétt til bóta úr hendi gerðarbeiðanda eftir almennum skaðabótareglum. Í 87. gr. laganna kemur fram að þeim sem á tilkall til bóta skv. 86. gr. er heimilt að beina málsókn til heimtu þeirra að ríkinu óskipt með gerðarbeiðanda ef sá sem hafði framkvæmd nauðungarsölunnar með höndum sýndi af sér gáleysi við þá athöfn sem leiddi til tjóns. Þá er í 88. gr. laganna kveðið á um að mál til heimtu bóta skv. 86. gr., sbr. 1. mgr. 87. gr., beri að höfða fyrir héraðsdómi áður en þrír mánuðir eru liðnir frá því að sá sem hefur orðið fyrir tjóni átti þess fyrst kost að hafa kröfu sína uppi. Í frumvarpi þessu er lagt til að frestur sá sem gerðarþoli eða annar sem telur sig hafa orðið fyrir tjóni vegna nauðungarsölu hefur til að höfða mál til innheimtu skaðabóta á grundvelli framangreindra lagaákvæði verði lengdur úr þremur mánuðum í sex mánuði.
    Í ljósi hæstaréttardómsins frá 15. febrúar sl. þykir rétt að þeir sem hugsanlega hafa orðið fyrir tjóni vegna þess að eign hefur verið seld nauðungarsölu án þess að skilyrði væru fyrir hendi eða nauðungarsala ógildanleg hafi rýmri tíma til höfðunar skaðabótamáls af því tilefni. Hæfilegt þykir að sá tími sem um ræðir sé sex mánuðir.
    Umræddur tímafrestur er afstæður í þeim skilningi að mat á því hvenær viðkomandi átti þess fyrst kost að hafa kröfu sína uppi veltur á aðstæðum í hverju máli. Með tilliti til hins nýfallna dóms og þeirrar lagalegu óvissu sem er og hefur verið um endurreikning fjárskuldbindinga sem bundnar hafa verið við gengi erlendra gjaldmiðla verður samt sem áður að skýra frestinn mögulegum tjónþolum í hag reyni á þetta atriði fyrir dómstólum. Af framangreindum ástæðum er auk þess lagt til í a-lið 4. gr. frumvarpsins að fresturinn verði tímabundið lengdur í tólf mánuði eða fram til loka árs 2013 og er það gert að höfðu samráði við réttarfarsnefnd.

Um b-lið 4. gr.


    Hér er lagt til að sýslumenn gæti þess af sjálfsdáðum að ráðstafa ekki söluandvirði eignar til greiðslu kröfu ef hún er umdeild í ljósi hæstaréttardóma sem gengið hafa um lögmæti og endurreikning gengistryggðra lána.

Um 5. og 6. gr.


    Í 16. kafla aðfararlaga er á sama hátt og fram kemur í athugasemdum við 3. gr. og a-lið 4. gr. um ábyrgð á nauðungarsölu fjallað um ábyrgð á aðför. Er þar kveðið á um að mál til heimtu bóta vegna tjóns vegna aðfarar sem krafist hefur verið án þess að skilyrði hafi verið fyrir hendi eða aðfarargerð hafi farið fram með ólögmætum hætti og verið felld úr gildi beri að höfða áður en þrír mánuðir eru liðnir frá því að sá sem fyrir tjóni hefur orðið átti þess fyrst kost að hafa kröfu sína uppi. Hér er lagt til á sama hátt og fram kemur í athugasemdum við 3. gr. og a-lið 4. gr. að frestur þessi verði almennt lengdur úr þremur mánuðum í sex mánuði en fram til loka árs 2013 verði fresturinn tólf mánuðir.

Um 7. gr.


    Frumvarp sama efnis og þetta ákvæði hefur þegar verið lagt fram á yfirstandandi þingi og raunar áður á 136., 137. og 139. þingi en án þess að fá afgreiðslu. Efni þess er nú með samþykki flutningsmanns tekið upp í þetta frumvarp. Tillagan miðar að því að auka möguleika almennings á gjafsókn óháð fjárhagsstöðu umsækjanda. Málið náði ekki fram að ganga á áðurnefndum þingum og er því endurflutt nú. Með frumvarpinu er lögð til breyting á 126. gr. laga um meðferð einkamála um gjafsókn. Einnig felur það í sér reglugerðarheimild fyrir ráðherra til að kveða nánar á um skilyrði gjafsóknar.
    Þegar einkamálalögin voru samþykkt árið 1991 voru skilyrði gjafsóknar skv. 126. gr. laganna þau hin sömu og lögð eru til með 1. gr. frumvarpsins, þ.e. að gjafsókn yrði aðeins veitt ef nægilegt tilefni væri til málshöfðunar eða málsvarnar og öðru hvoru eftirfarandi skilyrða væri fullnægt: að efnahag umsækjanda væri þannig háttað að kostnaður af gæslu hagsmuna hans í máli yrði honum fyrirsjáanlega ofviða, sbr. a-lið 1. mgr., eða úrlausn máls hefði verulega almenna þýðingu eða varðaði verulega miklu fyrir atvinnu, félagslega stöðu eða aðra einkahagsmuni umsækjanda, sbr. b-lið 1. mgr.
    Á 131. löggjafarþingi voru samþykkt lög nr. 7/2005, sem breyttu ákvæðum um gjafsókn í einkamálalögum, nr. 91/1991, og þjóðlendulögum, nr. 58/1998. Sú breyting var þá gerð að fellt var brott skilyrði gjafsóknar skv. b-lið 1. mgr. 126. gr., að úrlausn máls hefði verulega almenna þýðingu eða varðaði verulega miklu fyrir atvinnu, félagslega stöðu eða aðra einkahagi umsækjanda. Ákvæðið hafði þá verið í lögunum í um 12 ár án nokkurra vandkvæða í framkvæmd. Ástæða lagabreytingarinnar var sögð sú að ákvæðið væri afar víðtækt og ekki forsvaranlegt að kosta málshöfðun eða málsvörn einstaklinga af almannafé á grundvelli svo almenns ákvæðis.
    Efni núgildandi ákvæðis þrengir verulega að möguleikum almennings til þess að leita réttar síns með málshöfðun gagnvart stjórnvöldum og opinberum aðilum í málum sem geta varðað einstaklinga og almenning miklu. Slíkar takmarkanir eru í andstöðu við hefðir sem hafa verið að þróast í öðrum lýðræðisríkjum. Með frumvarpinu er því lagt til að fella umrætt skilyrði aftur inn í ákvæðið. Sú rýmkun sem lögð er til í frumvarpinu mun fela í sér að gjafsókn verður möguleg í málum sem eru mikilsverð réttlætismál fyrir hagsmuni einstaklinga og almennings, svo sem mál sem varða heimtu skaðabóta fyrir varanlega örorku þegar örorka er mikil en aflahæfi verulega skert, mál er varða lífeyrisréttindi, atvinnuréttindi og eignarréttindi, mál er varða bætur fyrir missi framfæranda, mál vegna læknamistaka, mál um réttindi varðandi friðhelgi einkalífs og önnur mál er varða hefðbundin mannréttindi. Þá gæti gjafsókn skv. b-lið 1. mgr. verið veitt í málum einstaklinga gagnvart stjórnvöldum.
    Gert er ráð fyrir að áfram feli einkamálalögin í sér heimild til að kveða nánar á um skilyrði gjafsóknar í reglugerð. Á grundvelli laga nr. 7/2005 gaf dómsmálaráðherra út reglugerð nr. 45/2008 þar sem kveðið var nánar á um slík skilyrði. Verði frumvarpið að lögum þarf að gera breytingar á 5. gr. reglugerðarinnar um mat á tilefni til veitingar gjafsóknar fyrir héraðsdómi í samræmi við víkkun á heimild til gjafsóknar.

Um 8. gr.


    Hér er lögð til sú breyting að skuldurum í þeim dómsmálum sem höfðuð verða á grundvelli ákvörðunar Samkeppniseftirlitsins nr. 4/2012 verði veitt gjafsókn enda sé um að ræða einstaklinga.

Um 9. gr.


    Markmið þessarar greinar er að tryggja fylgni fjármálafyrirtækja við tilmæli innanríkisráðuneytis sem komu fram í fréttatilkynningu ráðuneytisins frá 28. júní 2011. Þar segir m.a.: „Samkvæmt 78. gr. aðfararlaga er þeim sem telur sér með ólögmætum hætti aftrað að neyta réttinda sem hann telur sig eiga (kallaður gerðarbeiðandi) og getur fært sönnur á rétt sinn með skriflegum sönnunargögnum heimilt að beina til héraðsdómara beiðni um að hlutur sé tekinn úr vörslu þess sem hlutinn hefur (gerðarþola) og afhentur þeim er réttinn á. Dómari tekur afstöðu til þess hvort réttur gerðarbeiðanda sé svo ótvíræður að heimila megi honum umráð hlutarins. Samkvæmt 3. mgr. 83. gr. aðfararlaga skal að jafnaði hafna aðfararbeiðni ef varhugavert verður talið að láta gerðina ná fram að ganga á grundvelli þeirra sönnunargagna sem heimilt er að afla. Það þýðir að leiki vafi á réttmæti kröfu gerðarbeiðanda skal hafna því að aðför fari fram. Sé slíkri aðfararbeiðni hafnað er gerðarbeiðanda óheimilt að taka eign í sína vörslu þar til leyst hefur verið úr ágreiningi aðila.“

Um 10. gr.


    Lagt er til að lögin öðlist þegar gildi.