Aðrar útgáfur af skjalinu: PDF - Word Perfect. Ferill 641. máls.
140. löggjafarþing 2011–2012.
Þingskjal 1153  —  641. mál.
Svarforseta Alþingis við fyrirspurn Unnar Brár Konráðsdóttur um endurskoðun löggjafar o.fl.


     1.      Hvernig er staðan á þeirri endurskoðun löggjafar, og eftir atvikum undirbúningi nýrrar löggjafar, sem Alþingi ályktaði 28. september 2010 (þskj. 1537 á 138. löggjafarþingi) að ráðist skyldi í og miða við að yrði lokið fyrir 1. október 2012, þ.e. á eftirfarandi:
                  a.      stjórnarskrá lýðveldisins Íslands, nr. 33/1944,
                  b.      lögum um þingsköp Alþingis, nr. 55/1991,
                  c.      lögum um ráðherraábyrgð, nr. 4/1963, og lögum um landsdóm, nr. 3/1963,
                  d.      lögum um Stjórnarráð Íslands, nr. 73/1969, stjórnsýslulögum, nr. 37/1993, upplýsingalögum, nr. 50/1996, og lögum um réttindi og skyldur starfsmanna ríkisins, nr. 70/1996,
                  e.      löggjöf um starfsemi á fjármálamarkaði,
                  f.      lögum um skyldutryggingu lífeyrisréttinda og starfsemi lífeyrissjóða, nr. 129/1997,
                  g.      löggjöf um eftirlit með fjármálastarfsemi á vettvangi Seðlabanka Íslands, Fjármálaeftirlitsins og annarra eftirlitsaðila, og gerð viðbragðsáætlunar við fjármálaáfalli,
                  h.      löggjöf um háskóla og fjölmiðla,
                  i.      löggjöf um reikningsskil og bókhald,
                  j.      lögum um endurskoðendur, nr. 79/2008,
                  k.      stofnun sjálfstæðrar ríkisstofnunar sem fylgdist með þjóðhagsþróun og semdi þjóðhagsspá,
                  l.      annarri löggjöf sem nauðsynlegt er að endurskoða með hliðsjón af tillögum þingmannanefndar, sbr. 15. gr. laga nr. 142/2008, um rannsókn á aðdraganda og orsökum falls íslensku bankanna 2008 og tengdra atburða?
a.    Endurskoðun stjórnarskrár er í því ferli sem samþykkt var af Alþingi með þingsályktun 24. mars 2011. Skýrslu forsætisnefndar Alþingis um tillögur stjórnlagaráðs um breytingar á stjórnarskrá Íslands var útbýtt á Alþingi 4. október sl. og var að lokinni umræðu vísað til stjórnskipunar- og eftirlitsnefndar sem hefur málið til meðferðar.
b.    Þingsköp voru endurskoðuð á árinu 2010 og lauk þeirri endurskoðun með breytingum á þingsköpum, sbr. lög nr. 84 23. júní 2011. Þingskapanefnd, sem Alþingi kaus 11. október sl., vinnur að frekari endurskoðun þingskapa.
c.    Forsætisnefnd Alþingis ákvaða að bíða með endurskoðun laga um ráðherraábyrgð og landsdóm þar sem talið var heppilegast að slík endurskoðun biði þar til því máli lyki sem nú er rekið fyrir landsdómi.
d.    Lögum um Stjórnarráð Íslands var breytt með lögum nr. 115 23. september 2011. Frumvarpi til laga um upplýsingalög var útbýtt á Alþingi 30. nóvember sl. og er til umfjöllunar í stjórnskipunar- og eftirlitsnefnd. Unnið er að endurskoðun laga um réttindi og skyldur starfsmanna ríkisins í Stjórnarráðinu. Þá vinnur nefnd á vegum Stjórnarráðsins að því að meta hugsanlegar breytingar á stjórnsýslulögum.
e.    Lögum um fjármálafyrirtæki var breytt með lögum nr. 75 23. júní 2010.
f.    Unnið er að endurskoðun laga um skyldutryggingu lífeyrisréttinda og starfsemi lífeyrissjóða.
g.    Efnahags- og viðskiptaráðherra kynnti ríkisstjórn 23. mars sl. skýrslu sem lögð verður fram á Alþingi um framtíðarskipan íslenska fjármálakerfisins og opinbert eftirlit með því. Ráðherrann hefur jafnframt skipað starfshóp sérfræðinga – með þátttöku erlendra sérfræðinga – til þess að undirbúa tillögur um samræmda heildarumgjörð laga og reglna um alla starfsemi á íslenskum fjármálamarkaði.
h.    Lögum um opinbera háskóla var breytt með lögum nr. 50 9. júní 2010. Frumvarp til laga um breytingu á lögum um fjölmiðla (eignarhaldsreglur, leiðrétting og úrbætur) var útbýtt á Alþingi 13. mars sl. og er til umfjöllunar.
i.    Unnið er að endurskoðun á lögum um reikningsskil og bókhald.
j.    Unnið er að endurskoðun á lögum um endurskoðendur.
k.    Alþingi og Stjórnarráðið hafa í sameiningu haft til athugunar að koma á fót sjálfstæðri stofnun sem fylgist með þjóðhagsþróun og semji þjóðhagsspá eða aðrar lausnir sem þjónuðu sama eða svipuðu markmiði.
l.    Forsætisnefnd Alþingis hefur skipað tvær nefndir sem nú eru að störfum við að endurskoða lög um Ríkisendurskoðun og embætti umboðsmanns Alþingis. Endurskoðun laganna er liður í því að styrkja eftirlitshlutverk Alþingis í samræmi við skýrslu þingmannanefndarinnar sem fjallaði um viðbrögð Alþingis við skýrslu rannsóknarnefndar Alþingis 2010.

     2.      Hver er staðan á eftirtöldum rannsóknum og úttektum sem Alþingi samþykkti að ráðist skyldi í og verður þeim lokið fyrir 1. október 2012:
                  a.      sjálfstæðri og óháðri rannsókn á starfsemi lífeyrissjóða á Íslandi frá setningu laga um skyldutryggingu lífeyrisréttinda og starfsemi lífeyrissjóða, nr. 129/1997, með síðari breytingum, og heildarendurskoðun á stefnu og starfsemi lífeyrissjóðanna í kjölfar rannsóknarinnar,
                  b.      sjálfstæðri og óháðri rannsókn á aðdraganda og orsökum falls sparisjóða á Íslandi frá því að viðskipti með stofnfé voru gefin frjáls og heildarendurskoðun á stefnu og starfsemi sparisjóðanna í kjölfar þeirrar rannsóknar,
                  c.      stjórnsýsluúttekt á Fjármálaeftirlitinu og Seðlabanka Íslands og á grundvelli hennar mat kosta og galla þess að sameina starfsemi stofnananna í þeim tilgangi að tryggja heildaryfirsýn yfir kerfisáhættu, fjármálalegan stöðugleika og ábyrgð á samræmingu viðbragða?
a.    Hinn 3. febr. 2012 var birt skýrsla „Úttekt á fjárfestingarstefnu, ákvarðanatöku og lagalegu umhverfi lífeyrissjóðanna í aðdraganda bankahrunsins 2008“. Skýrslan var samIn af þriggja manna óháðri nefnd undir forustu Hrafns Bragasonar, fyrrverandi hæstaréttardómara. Hún var skipuð af ríkissáttasemjara eftir ósk sameiginlegs fundar stjórnar og varastjórnar Samtaka lífeyrissjóða frá 24. júní 2010. Umræða um skýrsluna fór fram á Alþingi 16. febrúar sl. Forseti Alþingis vísaði síðan skýrslunni til umfjöllunar stjórnskipunar- og eftirlitsnefndar. Nefndin mun síðar gefa Alþingi skýrslu um það hvort ástæða sé til frekari athugunar á einhverjum þáttum málsins.
b.    Alþingi samþykkti 10. júní 2011 ályktun um rannsókn á aðdraganda og orsökum erfiðleika og falls sparisjóðanna. Í framhaldi af því skipaði forseti Alþingis þriggja manna rannsóknarnefnd sem unnið hefur að málinu. Þá samþykkti Alþingi 17. desember 2010 ályktun um rannsókn á Íbúðalánasjóði og skipaði forseti Alþingis þriggja manna rannsóknarnefnd sem vinnur að málinu.
c.    Enn hefur ekki verið hrint í framkvæmd stjórnsýsluúttekt á Fjármálaeftirlitinu og Seðlabanka Íslands.

     3.      Hvernig er eftirliti því sem fjallað er um í III. kafla ályktunarinnar háttað?

    Forsætisnefnd Alþingis hefur falið stjórnskipunar- og eftirlitsnefnd að hafa eftirlit af hálfu Alþingis með framkvæmd þeirra úrbóta á löggjöf sem lagðar eru til í ályktun Alþingis frá 28. september 2010 um viðbrögð Alþingis við skýrslu rannsóknarnefndar Alþingis 2010.