Aðrar útgáfur af skjalinu: PDF - Word Perfect. Ferill 567. máls.
140. löggjafarþing 2011–2012.
Þingskjal 1155  —  567. mál.




Svar



fjármálaráðherra við fyrirspurn Guðlaugs Þórs Þórðarsonar um samninga slitastjórnar Landsbanka Íslands og Nýja Landsbanka Íslands um útgáfu viðbótarskuldabréfs.

    

    Óskað var eftir því við Landsbankann að hann léti ráðuneytinu í té upplýsingar til svars við fyrirspurninni. Svör Landsbankans fara hér á eftir og miðast fjárhæðir í svarinu við upplýsingar í nýbirtum ársreikningi Landsbankans fyrir árið 2011. Í reikningnum er jafnframt að finna ítarlegar upplýsingar um bæði veðtryggðu skuldabréfin og skilyrta skuldabréfið.

     1.      Hversu mikið skuldar ríkisbankinn Nýi Landsbanki Íslands þrotabúi Landsbanka Íslands og hversu hátt er áætlað að það viðbótarskuldabréf verði þar sem samið verður um þessa skuld?
    Uppgjör Landsbankans hf. (Landsbankans) við þrotabú Landsbanka Íslands hf. (LBI) vegna yfirfærslu á tilteknum eignum og skuldbindingum frá LBI til Landsbankans í október 2008, var ákveðið með þríhliða samningum í desember 2009 milli Landsbankans (þá NBI hf.), LBI og fjármálaráðuneytisins. Í samkomulaginu fólst að Landsbankinn gaf út veðtryggð skuldabréf til 10 ára í evrum, pundum og bandaríkjadölum. Bókfærð staða þess í árslok 2011 var að jafnvirði 277 milljarða kr. Jafnframt eignaðist LBI 18,7% eignarhlut í Landsbankanum sem þó skyldi ganga aftur til ríkisins í línulegu hlutfalli við útgáfufjárhæð svokallaðs skilyrts skuldabréfs, sem að hámarki getur orðið að fjárhæð 92 milljarðar kr. Skilyrta skuldabréfið verður gefið út í ársbyrjun 2013 og er endanleg útgáfufjárhæð þess háð virði tiltekinna eigna Landsbankans í árslok 2012. Bókfærð staða þess í árslok 2011 var metin 61 milljarður kr.

     2.      Verður þetta viðbótarskuldabréf í erlendri mynt?
    Skilyrta skuldabréfið verður gefið út í evrum, eða annarri mynt sem samningsaðilar koma sér saman um.

     3.      Er búið að ákveða greiðsluskilmála bréfsins og ef svo er, hverjir verða þeir?
    Greiðsluskilmálar skuldabréfsins voru ákveðnir með fyrrgreindum þríhliða samningum i desember 2009. Þeir eru í öllum meginatriðum þeir sömu og gilda fyrir veðtryggðu skuldabréfin.

     4.      Hvaða áhrif mun bréfið hafa á fjárhagsstöðu Nýja Landsbankans?
    Endanleg útgáfufjárhæð skilyrta skuldabréfsins ræðst af virðisaukningu tiltekinna eigna Landsbankans í árslok 2012, umfram virði sömu eigna í stofnefnahagsreikningi bankans. Þannig renna 85% af þeirri virðisaukningu til hækkunar á skilyrta skuldabréfinu, en 15% verða eftir hjá Landsbankanum. Áhrif útgáfu skilyrta skuldabréfsins á skuldbindingar Landsbankans eiga því að haldast í hendur við aukningu á verðmæti eignasafns bankans.

     5.      Hverjir sömdu, eða semja, fyrir hönd ríkisins við slitastjórn Landsbanka Íslands um útgáfu bréfsins, fjárhæð þess og skilmála?
    Væntanleg útgáfa skilyrta skuldabréfsins er hluti af fyrrgreindu þríhliða samkomulagi frá desember 2009. Óháður verðmatsaðili mun ákvarða endanlega útgáfufjárhæð, nema samningsaðilar komi sér saman um endanlega fjárhæð áður en til þess kemur.