Aðrar útgáfur af skjalinu: PDF - Word Perfect. Ferill 750. máls.
140. löggjafarþing 2011–2012.
Þingskjal 1188  —  750. mál.




Frumvarp til laga



um breytingu á lögum um verslun með áfengi og tóbak, nr. 86/2011,
með síðari breytingum (tóbak).

Flm.: Álfheiður Ingadóttir, Siv Friðleifsdóttir,
Lúðvík Geirsson, Jónína Rós Guðmundsdóttir.


1. gr.

    Fyrirsögn 11. gr. laganna verður svohljóðandi: Vöruval áfengis.

2. gr.

    Á eftir 11. gr. laganna kemur ný grein, 11. gr. a., ásamt fyrirsögn, svohljóðandi:

Vöruval tóbaks.

    Ráðherra setur reglugerð um vöruval og innkaup ÁTVR á tóbaki.
    Reglurnar skulu miða að því að tryggja vöruúrval með hliðsjón af eftirspurn kaupenda, jafnframt því að tryggja framleiðendum og birgjum tóbaks möguleika á því að koma vörum í sölu á íslenska markaðnum.
    ÁTVR skal leitast við að innkaup séu í samræmi við alþjóðasáttmála.
    ÁTVR er heimilt að hafna vörum sem innihalda gildishlaðnar eða ómálefnalegar upplýsingar eða gefa til kynna að tóbak auki líkamlega, andlega, félagslega eða kynferðislega getu, særa blygðunarkennd eða brjóta á annan hátt í bága við almennt velsæmi, m.a. með skírskotun til ofbeldis, trúar, ólöglegra fíkniefna, stjórnmálaskoðana, mismununar og refsiverðrar háttsemi.
    ÁTVR er heimilt að hafna vörum sem sérstaklega höfða til unglinga eða ungs fólks.

3. gr.

    Lög þessi öðlast þegar gildi.

Greinargerð.


    Lagt er til að lögfest verði ákvæði um vörval tóbaks sem er samsvarandi ákvæði um vöruval áfengis. Flutningsmenn telja mikilvægt að slíkt ákvæði sé fært í lög enda mikil ásókn í að selja unglingum tóbak og tóbaksvörur með áróðri eða í dulargervi sælgætis eða heilsuvöru. Mikilvægt er að vinna stöðugt gegn því að unglingar byrji að nota tóbak enda um afar skaðlegt og ávanabindandi efni að ræða. Í almennum athugasemdum við frumvarp það er varð að lögum nr. 86/2011 kemur fram að eitt af markmiðum stjórnvalda er að leyfa ekki sölu á óæskilegum áfengum vörum sem geta verið í búningi sælgætis eða í umbúðum sem eru blekkjandi fyrir neytendur, sbr. einnig c-lið 2. gr. laganna. Þessi sjónarmið eiga jafnt við um áfengi og tóbak og því mikilvægt að lögfest verði vöruvalsákvæði um tóbak svipað því sem er nú um áfengi í 11. gr. laga nr. 86/2011. Reynsla af því ákvæði hefur verið góð og ekki er ástæða til að hafa vægari ákvæði hvað tóbak varðar.