Aðrar útgáfur af skjalinu: PDF - Word Perfect. Ferill 617. máls.
140. löggjafarþing 2011–2012.
Þingskjal 1202  —  617. mál.
Svarmennta- og menningarmálaráðherra við fyrirspurn Þorgerðar K. Gunnarsdóttur
um framkvæmdir á vegum ráðuneytisins.


    Fyrirspurnin hljóðar svo:
    Hvaða framkvæmdir, eins og húsbyggingar og endurbætur á fasteignum, eru á verkefna- og ábyrgðarsviði ráðuneytisins á næstu fimm árum?

    Eftirtaldar nýbyggingar og endurbætur eru á verkefna- og ábyrgðarsviði ráðuneytisins á næstu fimm árum:
          Framhaldsskólinn í Mosfellsbæ. Hönnuð hefur verið um 4.100 fermetra nýbygging. Áætlað er að verkinu ljúki fyrir lok ársins 2013.
          Menntaskólinn við Sund. Í undirbúningi er samkeppni um hönnun 2.700 fermetra nýbygginga sem áætlað er að ljúki í september næstkomandi. Áætlað að hönnun ljúki vorið 2013 og að í framhaldi af því verði verkið boðið út.
          Fjölbrautaskólinn við Ármúla. Á undanförnum árum hefur verið byggt við Fjölbrautaskólann við Ármúla og í sumar verður unnið að frágangi á lóð skólans.
          Fjölbrautaskóli Suðurlands.Stefnt er að því að hefja framkvæmdir við 1.600 fermetra stækkun verknámsaðstöðu Fjölbrautaskóla Suðurlands á næsta ári og að þeim ljúki árið 2014.
          Háskólinn á Akureyri. Nú stendur yfir hönnun á 5. áfanga byggingar Háskólans á Akureyri. Stefnt er að því að henni verði lokið fyrir haustið og að útboð á framkvæmdum fari þá fram. Þessi áfangi er áætlaður um 740 fermetrar.
          Stofnun Vigdísar Finnbogadóttur. Hús Stofnunar Vigdísar Finnbogadóttur mun rísa á horni Suðurgötu og Brynjólfsgötu og verður um 4.000 fermetrar að stærð auk bílakjallara. Nú stendur yfir samkepnni um hönnun byggingarinnar og mun niðurstaða dómnefndar liggja fyrir í maí. Áætlað er að framkvæmdum verði lokið árið 2014.
          Hús íslenskra fræða. Hús íslenskra fræða mun rísa sunnan við Þjóðarbókhlöðuna. Um er að ræða 6.500 fermetra byggingu sem í verða handritageymslur, sýningarsalir, rannsóknarstofur, fyrirlestrarsalir og skrifstofur. Hönnun er lokið og verkið tilbúið til útboðs.
          Aðrar framkvæmdir. Auk framantalinna verkefna verða unnin fjölmörg viðhaldsverkefni á fasteignum sem eru á ábyrgðarsviði ráðuneytisins. Má þar nefna viðhald á byggingum Háskóla Íslands, sem Háskóli Íslands sér um, og viðhald framhaldsskóla, menningarstofnana og háskóla sem eru í umsjá Fasteigna ríkissjóðs.
    Ákvarðanir um frekari nýbyggingar verða teknar með tilliti til aðstæðna í ríkisfjármálum en ljóst er að þar er hægt að ráðast í næg verkefni.