Aðrar útgáfur af skjalinu: PDF - Word Perfect. Ferill 570. máls.
140. löggjafarþing 2011–2012.
Þingskjal 1206  —  570. mál.

Síðari umræða.


Nefndarálitum tillögu til þingsályktunar um staðfestingu ákvörðunar sameiginlegu
EES-nefndarinnar nr. 161/2011 um breytingu á XXII. viðauka
(Félagaréttur) við EES-samninginn.

Frá utanríkismálanefnd.


    Nefndin hefur fjallað um málið og fengið á sinn fund Jóhönnu B. Bjarnadóttur og Bergþór Magnússon frá utanríkisráðuneyti og Hörpu Theódórsdóttur frá efnahags- og viðskiptaráðuneyti. Málið var sent til umsagnar efnahags- og viðskiptanefndar en engar athugasemdir bárust.
Með tillögunni er leitað heimildar Alþingis til staðfestingar á ákvörðun sameiginlegu EES-nefndarinnar nr. 161/2011, frá 2. desember 2011, um breytingu á XXII. viðauka (Félagaréttur) við EES-samninginn frá 2. maí 1992, og til að fella inn í samninginn ákvörðun framkvæmdastjórnarinnar 2010/485/ESB frá 1. september 2010 um hæfi lögbærra yfirvalda í Ástralíu og Bandaríkjunum samkvæmt tilskipun Evrópuþingsins og ráðsins 2006/43/EB. Sex mánaða frestur, samkvæmt EES-samningnum, til að aflétta stjórnskipulegum fyrirvara var veittur til 2. júní 2012. Framsetning tillögunnar telst að mati nefndarinnar í samræmi við 4. gr. reglna um þinglega meðferð EES-mála frá 1. október 2010.
    Markmið með ákvörðun 2010/485/ESB er að greiða fyrir samvinnu lögbærra yfirvalda aðildarríkjanna og lögbærra yfirvalda í tilteknum þriðju ríkjum, þ.e. Ástralíu og Bandaríkjunum, hvað varðar eftirlit, gæðaeftirlit og rannsóknir, en jafnframt að tryggja að réttinda hlutaðeigandi aðila sé gætt. Þau yfirvöld sem hér um ræðir eru þau sem gegna eftirlitshlutverki gagnvart endurskoðendum. Hér á landi er það endurskoðendaráð.
    Fram kemur í athugasemdum við tillöguna að innleiðing ákvörðunar 2010/485/ESB kallar á breytingar á lögum nr. 79/2008, um endurskoðendur. Efnahags- og viðskiptaráðherra hyggst leggja fram lagafrumvarp á yfirstandandi löggjafarþingi til innleiðingar á ákvæðum hennar. Lagabreytingarnar munu hafa í för með sér óverulegan kostnað sem hlýst af milligöngu endurskoðendaráðs við afhendingu skjala. Ekki er gert ráð fyrir að breytingarnar hafi stjórnsýslulegar afleiðingar hér á landi né heldur efnahagslegar fyrir einkaaðila.
    Nefndin leggur til að tillagan verði samþykkt.
    Bjarni Benediktsson, Helgi Hjörvar og Ragnheiður E. Árnadóttir voru fjarverandi við afgreiðslu málsins.

Alþingi, 29. mars 2012.Árni Þór Sigurðsson,


formaður.


Árni Páll Árnason,


framsögumaður.

Guðfríður Lilja Grétarsdóttir.Gunnar Bragi Sveinsson.


Mörður Árnason.


Sigmundur Davíð Gunnlaugsson.