Aðrar útgáfur af skjalinu: PDF - Word Perfect. Ferill 351. máls.
140. löggjafarþing 2011–2012.
Þingskjal 1208  —  351. mál.

Síðari umræða.


Nefndarálitum tillögu til þingsályktunar um staðfestingu ákvörðunar sameiginlegu
EES-nefndarinnar nr. 83/2011 um breytingu á XVI. viðauka
(Opinber innkaup) við EES-samninginn.

Frá utanríkismálanefnd.


    Nefndin hefur fjallað um málið og fengið á sinn fund Jóhönnu Bryndísi Bjarnadóttur og Bergþór Magnússon frá utanríkisráðuneyti og Guðrúnu Ögmundsdóttur og Harald Steinþórsson frá fjármálaráðuneyti. Málið var sent til umsagnar til efnahags- og skattanefndar en engar athugasemdir bárust.
    Með tillögunni er leitað heimildar Alþingis til að staðfesta ákvörðun sameiginlegu EES- nefndarinnar nr. 83/2011, frá 1. júlí 2011, um breytingu á XVI. viðauka (Opinber innkaup) við EES-samninginn frá 2. maí 1992, og til að fella inn í samninginn reglugerð framkvæmdastjórnarinnar (EB) nr. 1150/2009 frá 10. nóvember 2009 um breytingu á reglugerð (EB) nr. 1564/2005 að því er varðar stöðluð eyðublöð fyrir birtingu auglýsinga við opinber innkaup í samræmi við tilskipanir ráðsins 89/665/EBE og 92/13/EBE; reglugerð framkvæmdastjórnarinnar (EB) nr. 1177/2009 frá 30. nóvember 2009 um breytingu á tilskipunum Evrópuþingsins og ráðsins 2004/17/EB, 2004/18/EB og 2009/81/EB að því er varðar beitingu viðmiðunarfjárhæða við útboð og gerð samninga; og tilskipun Evrópuþingsins og ráðsins 2007/66/EB frá 11. desember 2007 um breytingu á tilskipunum ráðsins 89/665/EBE og 92/13/EBE að því er varðar aukna skilvirkni í meðferð kærumála vegna gerðar opinberra samninga. Sex mánaða frestur, samkvæmt EES-samningnum, til að aflétta stjórnskipulegum fyrirvara var veittur til 1. janúar 2012. Framsetning tillögunnar telst að mati nefndarinnar í samræmi við 4. gr. reglna um þinglega meðferð EES-mála frá 1. október 2010.
    Markmið tilskipunarinnar er að auka skilvirka réttarvernd hagsmunaaðila í meðferð kærumála vegna gerðar samninga um opinber innkaup, m.a. með því að samningsgerð stöðvist sjálfvirkt eftir að kæra hefur borist kærunefnd útboðsmála og að nefndin geti lýst samninga óvirka. Með reglugerðunum eru gerðar breytingar á formi staðlaðra tilkynningareyðublaða vegna opinberra innkaupa auk þess sem tilteknum viðmiðunarfjárhæðum vegna slíkra innkaupa er breytt.
    Innleiðing tilskipunarinnar og reglugerðanna kallar á lagabreytingar hér á landi og fjallar frumvarp fjármálaráðherra um breytingu á lögum um opinber innkaup, nr. 84/2007, með síðari breytingum, um það efni. Frumvarpið kemur að líkindum til umfjöllunar í efnahags- og viðskiptanefnd.
    Nefndin leggur til að tillagan verði samþykkt.
    Árni Páll Árnason, Bjarni Benediktsson, Helgi Hjörvar og Ragnheiður E. Árnadóttir voru fjarverandi við afgreiðslu málsins.

Alþingi, 29. mars 2012.Árni Þór Sigurðsson,


form., frsm.


Guðfríður Lilja Grétarsdóttir.


Gunnar Bragi Sveinsson.Mörður Árnason.


Sigmundur Davíð Gunnlaugsson.