Aðrar útgáfur af skjalinu: PDF - Word Perfect. Ferill 586. máls.
140. löggjafarþing 2011–2012.
Þingskjal 1223  —  586. mál.




Svar



efnahags- og viðskiptaráðherra við fyrirspurn Eyglóar Harðardóttur
um eignarhald á bifreiðum og tækjum.


    Ráðherra hefur áður svarað fyrirspurn um svokallaða kaupleigusamninga um bifreiðar á þingskjali 658, 419. mál, á yfirstandandi löggjafarþingi og er vísað til þess sem þar kemur fram.

     1.      Hvernig hefur ráðherra fylgt því eftir gagnvart Fjármálaeftirlitinu að tryggja að bifreiðar og önnur tæki séu færð sem eign þegar kemur að greiðslu skatta og gerð ársreikninga?
    Vísað er til svars við fyrirspurn á þingskjali 658, 419. mál, hvað varðar eignarhald undirliggjandi eigna. Í svarinu kemur m.a. fram að í dómum Hæstaréttar í málum nr. 153/2010, 92/2010 og 282/2011 sé hvorki fjallað um eignarhald á undirliggjandi eignum né að fjármögnunarfyrirtækin séu ekki eigendur þeirra bifreiða sem um ræddi. Það er ekki á forræði efnahags- og viðskiptaráðherra að vísa til hliðar einkaréttarlegum samningi aðila eða skera á annan hátt úr um þetta atriði.
    Um eftirlit Fjármálaeftirlitsins fer samkvæmt lögum nr. 87/1998, um opinbert eftirlit með fjármálastarfsemi, með síðari breytingum. Í einstökum ákvæðum laganna er ekki gert ráð fyrir því að efnahags- og viðskiptaráðherra hafi afskipti af málum sem Fjármálaeftirlitið hefur til meðferðar. Í almennum athugasemdum í frumvarpi því er varð að lögum nr. 87/1998 er vísað til þess að tryggja verði starfsemi stofnunarinnar sjálfstæði. Tekið er fram að „stofnuninni [sé] ætlað mikið sjálfstæði til ákvarðana og gert ráð fyrir að stofnunin hafi sérstaka stjórn.“ Þá segir enn fremur: „Gert er ráð fyrir að stofnunin falli stjórnskipulega undir viðskiptaráðherra, en honum er ekki ætlað vald til að hafa áhrif á ákvarðanir stofnunarinnar eða til að endurskoða þær.“ Um stjórnskipulega stöðu Fjármálaeftirlitsins segir svo í 1. mgr. 3. gr. laganna: „Með eftirlit samkvæmt lögum þessum fer sérstök stofnun er nefnist Fjármálaeftirlitið. Fjármálaeftirlitið er ríkisstofnun og lýtur sérstakri stjórn. Stofnunin heyrir undir [efnahags- og viðskiptaráðherra].“ Í athugasemdum við 3. gr. frumvarps þess sem varð að lögum nr. 87/1998 kemur fram að Fjármálaeftirlitið sé sjálfstæð stofnun með sérstakri stjórn og sjálfstæðan fjárhag. Í 4. gr. laganna er fjallað nánar um stjórn stofnunarinnar. Kemur þar fram að með yfirstjórn hennar fari þriggja manna stjórn sem ráðherra skipar til fjögurra ára í senn. Hann skipar jafnframt formann stjórnar og ákveður þóknun stjórnarmanna. Samkvæmt 2. mgr. 4. gr. er hlutverk stjórnar að móta áherslur í starfi og fylgjast með starfsemi og rekstri Fjármálaeftirlitsins. Tekið er fram að meiri háttar ákvarðanir skuli bera undir stjórnina til samþykktar eða synjunar. Sjálfstæði Fjármálaeftirlitsins er enn fremur áréttað í skýringum við 4. gr. þess frumvarps sem varð að lögum nr. 87/1998, en þar segir:
    „Þó Fjármálaeftirlitið falli undir viðskiptaráðherra er honum ekki ætlað að hafa efnisleg eða fagleg afskipti af starfsemi stofnunarinnar. Því er nauðsynlegt að sérstök stjórn fari með yfirstjórn stofnunarinnar og hafi eftirlit með starfseminni. Þannig er stjórninni ætlað að taka þátt í mikilvægum ákvörðunum sem varða eftirlit og aðgerðir gagnvart eftirlitsskyldum aðilum. Í því ljósi má líta á stjórnina sem ákveðinn öryggisventil gagnvart fjármagnsmarkaðnum, sem meðal annars tryggi að meðalhófs sé gætt í öllum aðgerðum. Ekki er gert ráð fyrir að eftirlitsskyldir aðilar eigi fulltrúa í stjórn Fjármálaeftirlitsins. Stjórninni er ætlað mikið vald við ákvarðanatöku og væri óeðlilegt ef fulltrúar eftirlitsskyldra aðila væru settir í þá stöðu að þurfa að taka afstöðu til slíkra aðgerða. … Stjórninni er ætlað að móta samskipti sín við forstjóra og starfsmenn og mun hún skilgreina nánar hvað átt er við með meiri háttar ákvörðunum í 2. mgr., sbr. og ákvæði III. kafla.“
    Samkvæmt framansögðu verður ekki dregin önnur ályktun af tilvitnuðum lagaákvæðum en að Fjármálaeftirlitið sé sjálfstæð stofnun og að ekki sé gert ráð fyrir því að ráðherra fari með almennar stjórnunar- og eftirlitsheimildir gagnvart stofnuninni eða stjórn hennar. Getur ráðherra því ekki gefið stjórn Fjármálaeftirlitsins bindandi fyrirmæli um framkvæmd stjórnsýslu, nema hafa til þess lagaheimild.

     2.      Hvernig hefur ráðherra fylgt því eftir að skýra eignarhald undirliggjandi eigna í svokölluðum kaupleigusamningum?
    Vísað er til svars við fyrirspurn á þingskjali 658, 419. mál, um svokallaða kaupleigusamninga um bifreiðar.
    Í svari við 1. tölul. í framangreindri fyrirspurn kemur m.a. fram að í dómum Hæstaréttar í málum nr. 153/2010, 92/2010 og 282/2011 sé hvorki fjallað um eignarhald á undirliggjandi eignum né að fjármögnunarfyrirtækin séu ekki eigendur bifreiðanna sem um ræddi í málunum. Það er ekki á forræði efnahags- og viðskiptaráðherra að skera úr um þetta atriði.

     3.      Telur ráðherra ásættanlega þá óvissu sem er um eignarhald undirliggjandi eigna í svokölluðum kaupleigusamningum? Ef svo er, af hverju? Ef ekki, hvernig hyggst ráðherra bregðast við?
    Vísa er til svars við fyrirspurn á þingskjali 658, 419. mál, um svokallaða kaupleigusamninga um bifreiðar.
    Í svari við 1. tölul. í framangreindri fyrirspurn kemur m.a. fram að þegar um leigusamning er að ræða, samkvæmt staðli IAS 17, skuli bifreiðin vera eign fjármögnunarfyrirtækisins þar til eignarhald bifreiðarinnar hefur verið yfirfært til leigutakans í lok leigutímans, ef svo er um samið. Sé um lánasamning að ræða er bifreiðin eign lántakanda.