Aðrar útgáfur af skjalinu: PDF - Word Perfect. Ferill 657. máls.
140. löggjafarþing 2011–2012.
Þingskjal 1228  —  657. mál.

2. umræða.


Breytingartillaga



við frumvarp til laga um stjórn fiskveiða.

Frá Merði Árnasyni og Valgerði Bjarnadóttur.


     1.      2. mgr. 8. gr. falli brott.
     2.      Við 11. gr.
                  a.      Í stað orðanna „til 20 ára“ í 1. málsl. 1. mgr. komi: í 20 hlutum sem deilast jafnt á næstu 20 ár.
                  b.      3. mgr. orðist svo:
                     Í stað þeirra nýtingarleyfa sem renna út skulu afmörkuð ný nýtingarleyfi til 20 ára og þau boðin til leigu á kvótaþingi.
                  c.      Fyrri málsliður 4. mgr. orðist svo: Allir þeir sem eiga fiskiskip sem hefur almennt veiðileyfi og flytja á það aflahlutdeild frá þeim skipum sem fá leyfi til að nýta aflahlutdeild skv. 1. mgr. eiga rétt á útgáfu nýtingarleyfis með sömu takmörkunum um gildistíma og skilyrðum sem gilda um upphafleg nýtingarleyfi, sbr. 1.–3. mgr.
                  d.      Í stað orðsins „nýrra“ í síðari málslið 4. mgr. komi: slíkra.
     3.      Við 12. gr.
                  a.      2. mgr. orðist svo:
                     Þegar aðilaskipti verða að fiskiskipi, eða aflahlutdeild er flutt til eða á milli fiskiskipa skv. 1. mgr., skal Fiskistofa endurskrá aflahlutdeildir á útgefin og ný nýtingarleyfi aðila í samræmi við magn aflahlutdeilda og í samræmi við nýja og áður útgefna leyfistíma. Til aðilaskipta teljast kaup og sala, sameining og yfirtaka.
                  b.      4. mgr. falli brott.
     4.      Við 17. gr.
                  a.      Í stað orðanna „markað fyrir aflamark“ í inngangsmálslið 1. mgr. komi: markað fyrir aflahlutdeild og aflamark.
                  b.      Í stað orðanna „viðskipta með aflamark“ í a-lið 1. mgr. komi: viðskipta með aflahlutdeild og aflamark.
                  c.      Í stað orðanna „seljenda aflamarks“ í b-lið 1. mgr. komi: seljenda á kvótaþinginu.
                  d.      Í stað orðanna „viðskipti með aflamark“ í c-lið 1. mgr. komi: viðskipti með aflahlutdeild og aflamark.
                  e.      Í stað orðanna „flutningi aflamarks“ í 2. málsl. 4. mgr. komi: flutningi aflahlutdeildar eða aflamarks.
                  f.      Í stað orðanna „viðskipti með aflamark“ og orðanna „verð á aflamarki“ í fyrri málslið 7. mgr. komi: viðskipti með aflahlutdeild og aflamark; og: verð á aflahlutdeild og aflamarki.
     5.      Við 19. gr.
                  a.      1. mgr. orðist svo:
                     Ráðstöfun aflahlutdeildar og aflamarks skal fara um kvótaþing nema á annan veg sé kveðið í lögum þessum. Í reglugerð er heimilt að skilyrða ráðstöfun einstakra heimilda að öllu leyti eða að hluta við útgerðir sem eru staðsettar á tilteknum svæðum að bundnum nánari skilyrðum.
                  b.      Í stað orðanna „ráðstöfun aflamarks“ í fyrri málslið 2. mgr. 19. gr. komi: ráðstöfun aflahlutdeildar og aflamarks.
                  c.      Fyrirsögn greinarinnar orðist svo: Ráðstöfun um kvótaþing.
     6.      Við ákvæði til bráðabirgða II.
                  a.      1. mgr. orðist svo:
                     Aflahlutdeildir fiskiskipa skerðast frá upphafi fiskveiðiársins 2012/2013 um 5% af þorski, 5% af ýsu, 5% af ufsa, 5% af steinbít og 5% af öllum öðrum tegundum þar sem aflahlutdeild hefur verið úthlutað. Frá upphafi fiskveiðiársins 2013/2014 skerðast aflaheimildir um 4,5%, af þorski, 1,9% af ýsu, 2,2% af ufsa, 4,8% af steinbít og 0,3% af öllum öðrum tegundum þar sem aflahlutdeild hefur verið úthlutað. Fyrrgreindum aflahlutdeildum skal ráðstafað varanlega í flokk 2.
                  b.      Við bætist ný málsgrein, svohljóðandi:
                     Við útgáfu nýtingarleyfa skv. 1. mgr. 11. gr. skal skerðingu á heildarafla skv. 1. mgr. þessa ákvæðis mætt með því að stysta nýtingarleyfið falli niður og það næsta í röðinni skerðist í samræmi við skerðingarhlutföll fiskveiðiársins 2013/2014.
     7.      Við bætist nýtt ákvæði til bráðabirgða, svohljóðandi:
                  Í stað þeirra nýtingarleyfa sem gefin verða út í upphafi skv. 11. gr. skal jafnskjótt og þau renna út afmarka og bjóða til leigu á kvótaþingi ný leyfi til 20 ára, sbr. þó ákvæði til bráðabirgða II. Útgerðir þeirra skipa sem fá í upphafi leyfi til að nýta aflahlutdeild skv. 11. gr. skulu fá 90% af metnu endurgjaldi, meðaltalsverði tegundar á viðkomandi ári, sem fæst fyrir ný leyfi í þeirra stað á kvótaþingi fram að upphafi fiskveiðiársins 2032.

Greinargerð.


    Ætlunin með þessum breytingartillögum er að tryggja jafnræði til að nýta nytjastofna á Íslandsmiðum. Gert er ráð fyrir að nýtingarleyfi sé í upphafi gefið út í 20 hlutum, sá fyrsti til eins árs, næsti til tveggja ára og áfram, en sá síðasti yrði gefinn út til 20 ára. Þau nýtingarleyfi sem losna smám saman við þetta eru boðin upp á kvótaþingi. Heimilt er að takmarka þau viðskipti við útgerðir á ákveðnum svæðum. Þangað til ný skipan kemst á með öllu árið 2032 er núverandi handhöfum aflahlutdeildar veittur góður aðlögunartími þar sem til þeirra rennur meginhlutinn af söluverði hvers nýtingarleyfis. Ekki er hér hreyft við neinu öðru í frumvarpinu en því sem þetta varðar.
    Að tillögunum samþykktum þarf að fara yfir lög um veiðigjald. Til að tryggja tekjustreymi í ríkissjóð er eðlilegt að þau gildi að hluta þar til hin nýja skipan er á komin.