Aðrar útgáfur af skjalinu: PDF - Word Perfect. Ferill 540. máls.
140. löggjafarþing 2011–2012.
Þingskjal 1269  —  540. mál.

Síðari umræða.


Nefndarálitum tillögu til þingsályktunar um staðfestingu ákvörðunar sameiginlegu EES-nefndarinnar nr. 121/2011 um breytingu á XX. viðauka (Umhverfismál) við EES-samninginn.

Frá utanríkismálanefnd.


    Nefndin hefur fjallað um málið og fengið á sinn fund Jóhönnu B. Bjarnadóttur og Bergþór Magnússon frá utanríkisráðuneyti og Kjartan Ingvarsson frá umhverfisráðuneyti. Málið var sent til umsagnar til umhverfis- og samgöngunefndar en engar athugasemdir bárust.
    Með tillögunni er leitað heimildar Alþingis til staðfestingar á ákvörðun sameiginlegu EES-nefndarinnar nr. 121/2011, frá 21. október 2011, um breytingu á XX. viðauka (Umhverfismál) við EES-samninginn frá 2. maí 1992, og fella inn í samninginn tilskipun Evrópuþingsins og ráðsins 2008/50/EB frá 21. maí 2008 um gæði og hreinna loft í Evrópu. Sex mánaða frestur, samkvæmt EES-samningnum, til að aflétta stjórnskipulegum fyrirvara var veittur til 21. apríl 2012. Framsetning tillögunnar telst að mati nefndarinnar í samræmi við 4. gr. reglna um þinglega meðferð EES-mála frá 1. október 2010.
    Markmið tilskipunarinnar er m.a. að meta loftgæði í aðildarríkjum, afla upplýsinga um loftgæði, vinna gegn loftmengun og skaða af hennar völdum ásamt því að hafa eftirlit með langtímaframvindu og bættum loftgæðum svo og að tryggja að upplýsingar um loftgæði séu gerðar aðgengilegar almenningi. Jafnframt er markmið tilskipunarinnar að viðhalda loftgæðum þar sem þau eru mikil en bæta þau ella.
    Innleiðing tilskipunarinnar kallar á breytingar á lögum nr. 7/1998, um hollustuhætti og mengunarvarnir. Í tilskipuninni er kveðið á um ríkari upplýsingaskyldu stjórnvalda til almennings að því er varðar loftgæði en nú er að finna í íslenskum rétti. Umhverfisráðherra hyggst leggja fram lagafrumvarp á yfirstandandi löggjafarþingi í samræmi við framangreint.
    Í athugasemdum við tillöguna kemur fram að kostnaður við upptöku tilskipunar 2008/ 50/EB er talsverður samkvæmt kostnaðarmati umhverfisráðuneytisins. Er það einna helst rekstrarkostnaður sem leggst á Umhverfisstofnun vegna verkefna sem fylgja innleiðingu og framkvæmd tilskipunarinnar sem og stofnkostnaður vegna uppsetningar mælistöðvanets og loftgæðastjórnunarkerfis sem heldur utan um gögn frá mælistöðvum og önnur gögn varðandi loftgæði. Ekki er gert ráð fyrir auknum kostnaði fyrir atvinnulífið vegna innleiðingarinnar en tilskipunin kann að leiða til aukins kostnaðar hjá heilbrigðiseftirliti sveitarfélaga sakir fjölgunar verkefna vegna innleiðingar tilskipunarinnar. Nákvæmt kostnaðarmat verður unnið áður en frumvarp til laga um breytingu á lögum nr. 7/1998 verður lagt fram.
    Nefndin leggur til að tillagan verði samþykkt.
    Árni Páll Árnason, Bjarni Benediktsson, Helgi Hjörvar og Ragnheiður E. Árnadóttir voru fjarverandi við afgreiðslu málsins.

Alþingi, 29. mars 2012.Árni Þór Sigurðsson,


form.


Guðfríður Lilja Grétarsdóttir,


frsm.


Gunnar Bragi Sveinsson.Mörður Árnason.


Sigmundur Davíð Gunnlaugsson.