Aðrar útgáfur af skjalinu: PDF - Word Perfect. Ferill 353. máls.
140. löggjafarþing 2011–2012.
Þingskjal 1270  —  353. mál.

Síðari umræða.


Nefndarálit



um tillögu til þingsályktunar um staðfestingu ákvörðunar sameiginlegu EES-nefndarinnar nr. 67/2011 um breytingu á II. viðauka (Tæknilegar reglugerðir, staðlar, prófanir og vottun) og IV. viðauka (Orka) við EES-samninginn.

Frá utanríkismálanefnd.


    Nefndin hefur fjallað um málið og fengið á sinn fund Jóhönnu Bryndísi Bjarnadóttur og Bergþór Magnússon frá utanríkisráðuneyti og Ingva Má Pálsson frá iðnaðarráðuneyti. Málið var sent til umsagnar til efnahags- og viðskiptanefndar en engar athugasemdir bárust.
    Með tillögunni er leitað heimildar Alþingis til að staðfesta ákvörðun sameiginlegu EES- nefndarinnar nr. 67/2011, frá 1. júlí 2011, um breytingu á II. viðauka (Tæknilegar reglugerðir, staðlar, prófanir og vottun) og IV. viðauka (Orka) við EES-samninginn frá 2. maí 1992, og til að fella inn í samninginn tilskipun Evrópuþingsins og ráðsins 2009/125/EB frá 21. október 2009 um ramma til að setja fram kröfur varðandi visthönnun að því er varðar orkutengdar vörur (endurútgefin) og reglugerð framkvæmdastjórnarinnar (ESB) nr. 347/2010 frá 21. apríl 2010 um breytingu á reglugerð framkvæmdastjórnarinnar (EB) nr. 245/2009 að því er varðar kröfur varðandi visthönnun flúrpera án innbyggðrar straumfestu, háþrýstra úrhleðslupera og varðandi straumfestur og lampa fyrir slíkar ljósaperur.
    Sex mánaða frestur, skv. EES-samningnum, til að aflétta stjórnskipulegum fyrirvara var veittur til 1. janúar 2012. Framsetning tillögunnar telst að mati nefndarinnar í samræmi við 4. gr. reglna um þinglega meðferð EES-mála frá 1. október 2010.
    Tilskipun Evrópuþingsins og ráðsins 2009/125/EB frá 21. október 2009 er endurútgáfa tilskipunar 2005/32/EB um kröfur um visthönnun vöru sem notar orku sem var tekin upp í EES-samninginn samkvæmt ákvörðun sameiginlegu EES-nefndarinnar nr. 102/2007. Markmið þeirrar tilskipunar var að tryggja frjálst flæði vöru sem m.a. er hönnuð með betri orkunýtni í huga svo draga megi úr orkunotkun og losun gróðurhúsalofttegunda. Tilskipunin var innleidd í íslenskan rétt með lögum nr. 42/2009, um visthönnun vöru sem notar orku.
    Reglugerð framkvæmdastjórnarinnar (ESB) nr. 347/2010 frá 21. apríl 2010 um breytingu á reglugerð framkvæmdastjórnarinnar (EB) nr. 245/2009 hefur það markmið að koma í veg fyrir óæskileg áhrif á afköst og aðgengi að vörum sem fjallað er um í reglugerð nr. 245/2009.
    Innleiðing tilskipunar 2009/125/EB kallar á breytingar á lögum nr. 42/2009, um visthönnun vöru sem notar orku. Fyrirhugað er að iðnaðarráðherra leggi á yfirstandandi löggjafarþingi fram frumvarp til slíkra lagabreytinga. Þegar sú lagabreyting hefur verið gerð er jafnframt unnt að innleiða umrædda reglugerð framkvæmdastjórnarinnar (ESB) nr. 347/2010 á grundvelli þeirra laga.
    Nefndin leggur til að tillagan verði samþykkt.

Alþingi, 8. maí 2012.



Árni Þór Sigurðsson,


form., frsm.


Árni Páll Árnason.


Bjarni Benediktsson.



Guðfríður Lilja Grétarsdóttir.


Gunnar Bragi Sveinsson.


Helgi Hjörvar.



Mörður Árnason.


Ragnheiður E. Árnadóttir.


Sigmundur Davíð Gunnlaugsson.