Aðrar útgáfur af skjalinu: PDF - Word Perfect. Ferill 605. máls.
140. löggjafarþing 2011–2012.
Þingskjal 1271  —  605. mál.

Síðari umræða.


Nefndarálitum tillögu til þingsályktunar um fullgildingu fríverslunarsamnings milli ríkja Fríverslunarsamtaka Evrópu og Lýðveldisins Svartfjallalands og landbúnaðarsamnings milli Íslands og Lýðveldisins Svartfjallalands.


Frá utanríkismálanefnd.    Nefndin hefur fjallað um málið og fengið á sinn fund Ragnar S. Kristjánsson og Ingólf Friðriksson frá utanríkisráðuneytinu.
    Með tillögunni er leitað heimildar Alþingis til fullgildingar tveggja samninga. Annars vegar er um að ræða fríverslunarsamning milli aðildarríkja Fríverslunarsamtaka Evrópu og Lýðveldisins Svartfjallalands sem undirritaður var 14. nóvember 2011 í Genf og hins vegar landbúnaðarsamning milli Íslands og Lýðveldisins Svartfjallalands sem undirritaður var sama dag.
    Í athugasemdum með tillögunni kemur fram að fríverslunarviðræðurnar við Svartfjallaland voru rökrétt framhald útfærslu fríverslunarnets EFTA-ríkjanna á Balkanskaga, en EFTA-ríkin hafa m.a. gert fríverslunarsamninga við nágrannaríkin Serbíu og Albaníu og viðræður standa yfir við Bosníu og Hersegóvínu. Fríverslunarsamningurinn við Svartfjallaland er af svokallaðri fyrstu kynslóð fríverslunarsamninga en slíkir samningar fela einkum í sér afnám eða lækkun tolla. Í fríverslunarsamningi EFTA-ríkjanna og Svartfjallalands eru jafnframt almenn ákvæði um vernd hugverka, fjárfestingar, þjónustuviðskipti og opinber innkaup.
    Landbúnaðarsamningurinn milli Íslands og Svartfjallalands er viðbótarsamningur og gerður með vísan til fríverslunarsamnings EFTA-ríkjanna og Svartfjallalands. Viðskipti með óunnar landbúnaðarvörur falla undir landbúnaðarsamninginn og kveður hann á um að tollar á tilteknar landbúnaðarvörur verði lækkaðir eða felldir niður. Svartfjallaland mun m.a. lækka tolla á íslenskt lambakjöt, skyr og osta. Ísland mun m.a. fella niður tolla af ýmsum tegundum af matjurtum, grænmeti, ávöxtum, kaffi, kryddi, korni, hunangi, fræjum, plöntum, olíum, sósum og ávaxtasafa.
    Viðskipti milli Íslands og Svartfjallalands hafa verið óveruleg fram til þessa. Hins vegar tryggir fríverslunarsamningur EFTA-ríkjanna og Svartfjallalands að íslenskir útflytjendur sitja við sama borð og samkeppnisaðilar þeirra í ríkjum Evrópusambandsins.
    Nefndin leggur til að tillagan verði samþykkt óbreytt.

Alþingi, 8. maí 2012.Árni Þór Sigurðsson,


form.


Sigmundur Davíð Gunnlaugsson,


frsm.


Árni Páll Árnason.Bjarni Benediktsson.


Guðfríður Lilja Grétarsdóttir.


Gunnar Bragi Sveinsson.Helgi Hjörvar.


Mörður Árnason.


Ragnheiður E. Árnadóttir.