Aðrar útgáfur af skjalinu: PDF - Word Perfect. Ferill 573. máls.
140. löggjafarþing 2011–2012.
Þingskjal 1285  —  573. mál.

Síðari umræða.


Nefndarálit



um tillögu til þingsályktunar um staðfestingu ákvörðunar sameiginlegu EES-nefndarinnar nr. 120/2010 um breytingu á IX. viðauka (Fjármálaþjónusta) við EES-samninginn.


Frá utanríkismálanefnd.



    Nefndin hefur fjallað um málið og fengið á sinn fund Jóhönnu B. Bjarnadóttur og Bergþór Magnússon frá utanríkisráðuneyti og Guðmund Kára Kárason frá efnahags- og viðskiptaráðuneyti. Málið var sent efnahags- og viðskiptanefnd til umsagnar sem ekki hafði athugasemdir við málið.
    Með tillögunni er leitað heimildar Alþingis til staðfestingar á ákvörðun sameiginlegu EES-nefndarinnar nr. 120/2010, frá 10. nóvember 2010, um breytingu á IX. viðauka (Fjármálaþjónusta) við EES-samninginn frá 2. maí 1992, og til að fella inn í samninginn eftirtaldar gerðir:
     1.      Tilskipun Evrópuþingsins og ráðsins 2009/65/EB frá 13. júlí 2009 um samræmingu á lögum og stjórnsýslufyrirmælum að því er varðar verðbréfasjóði (UCITS).
     2.      Tilskipun framkvæmdastjórnarinnar 2009/83/EB frá 27. júlí 2009 um breytingu á tilteknum viðaukum við tilskipun Evrópuþingsins og ráðsins 2006/48/EB að því er varðar tæknileg ákvæði um áhættustýringu.
     3.      Tilskipun Evrópuþingsins og ráðsins 2009/110/EB frá 16. september 2009 um stofnun og rekstur rafeyrisfyrirtækja og varfærniseftirlit með þeim, breytingu á tilskipunum 2005/60/EB og 2006/48/EB og um niðurfellingu á tilskipun 2000/46/EB.
     4.      Tilmæli framkvæmdastjórnarinnar 2009/384/EB frá 30. apríl 2009 um starfskjarastefnu á sviði fjármálaþjónustu.
    Sex mánaða frestur, samkvæmt EES-samningnum, til að aflétta stjórnskipulegum fyrirvara var veittur til 10. maí 2011. Framsetning tillögunnar telst að mati nefndarinnar í samræmi við 4. gr. reglna um þinglega meðferð EES-mála frá 1. október 2010.
    Í athugasemdum við tillöguna kemur fram að innleiðing tveggja tilskipana kallar á lagabreytingar hér á landi. Efnahags- og viðskiptaráðherra hefur lagt fram frumvarp til breytinga á lögum um verðbréfasjóði, fjárfestingarsjóði og fagfjárfestasjóði, til innleiðingar á ákvæðum tilskipunar 2009/65/EB. Ráðherrann hefur einnig lagt fram frumvarp til laga um rafeyrisfyrirtæki sem ætlað er að innleiða ákvæði tilskipunar 2009/110/EB. Líklegt er að sérákvæði um rafeyrisfyrirtæki verði þá felld úr lögum um fjármálafyrirtæki. Innleiðing tilskipunarinnar mun líklega leiða til aukinnar útgáfu og notkunar rafeyris hér á landi.
    Nefndin leggur til að tillagan verði samþykkt.

Alþingi, 8. maí 2012.



Árni Þór Sigurðsson,


form.


Bjarni Benediktsson,


frsm.


Árni Páll Árnason.



Guðfríður Lilja Grétarsdóttir.


Gunnar Bragi Sveinsson.


Helgi Hjörvar.



Mörður Árnason.


Ragnheiður E. Árnadóttir.


Sigmundur Davíð Gunnlaugsson.