Aðrar útgáfur af skjalinu: PDF - Word Perfect. Ferill 724. máls.
140. löggjafarþing 2011–2012.
Þingskjal 1293  —  724. mál.
Svarumhverfisráðherra við fyrirspurn Telmu Magnúsdóttur um staðfestingu aðalskipulags Blönduósbæjar, Húnavatnshrepps og Sveitarfélagsins Skagafjarðar.


    Fyrirspurnin hljóðar svo:
     Hvenær hyggst ráðherra staðfesta aðalskipulag Húnavatnshrepps, Blönduósbæjar og sveitarfélagsins Skagafjarðar sem eru nú fullbúin og brýnt er að hljóti staðfestingu, m.a. til frekari uppbyggingar ferðaþjónustu í viðkomandi sveitarfélögum?

    Í júní 2010 tilkynnti ráðuneytið Sveitarfélaginu Skagafirði þá niðurstöðu sína að fresta bæri staðfestingu á þeim hluta aðalskipulags sveitarfélagsins Skagafjarðar2009–2021 er varðar legu Hringvegar 1 á 15 km kafla í Skagafirði, þ.e. þeim hluta aðalskipulagsins þar sem Vegagerðin og sveitarfélagið voru ekki sammála um legu veglínunnar, sbr. 2. og 3. mgr. 19. gr. skipulags- og byggingarlaga, nr. 73/1997, sbr. einnig 28. gr. vegalaga nr. 80/2007.
    Í maí 2011 tilkynnti ráðuneytið Blönduósbæ þá niðurstöðu sína að fresta bæri þeim hluta aðalskipulags Blönduósbæjar 2010–2030 á því svæði þar sem ný veglína hringvegar um Húnavallaleið liggur, sbr. 2. og 3. mgr. 19. gr. skipulags- og byggingarlaga, nr. 73/1997, sbr. einnig 28. gr. vegalaga, nr. 80/2007.
    Í maí 2011 tilkynnti ráðuneytið Húnavatnshreppi þá niðurstöðu sína að fresta bæri þeim hluta aðalskipulags Húnavatnshrepps 2010–2022 á því svæði þar sem ný veglína hringvegar um Húnavallaleið liggur, sbr. 2. og 3. mgr. 19. gr. skipulags- og byggingarlaga, nr. 73/1997, sbr. einnig 28. gr. vegalaga, nr. 80/2007.
    Í öllum framangreindum málum var sveitarfélögunum tilkynnt að aðalskipulag þeirra yrði staðfest þegar nýir skipulagsuppdrættir hefðu borist ráðuneytinu sem geri grein fyrir frestun aðalskipulags að hluta eða á því svæði sem umræddar veglagnir taka til.
    Hinn 25. apríl sl. barst ráðuneytinu bréf Skipulagsstofnunar þar sem meðfylgjandi var afrit af bréfi Vegagerðarinnar til framangreindra sveitarfélaga, dags. 17. apríl 2012. Í bréfi Vegagerðarinnar kemur fram að innanríkisráðherra hafi ákveðið að Vegagerðin skuli ekki vinna áfram að tillögum um breytingar á legu hringvegar í sveitarfélögunum Blönduósbæ, Húnavatnshreppi og Sveitarfélaginu Skagafirði. Af þeim sökum dragi Vegagerðin til baka kröfur um að hugsanlegar veglínur verði sýndar á aðalskipulagi sveitarfélaganna.
    Í ljósi bréfs Vegagerðarinnar frá 17. apríl sl. er nú unnið að staðfestingu framangreindra skipulagstillagna í ráðuneytinu.