Aðrar útgáfur af skjalinu: PDF - Word Perfect. Ferill 440. máls.
140. löggjafarþing 2011–2012.
Þingskjal 1340  —  440. mál.

Síðari umræða.


Nefndarálitum tillögu til þingsályktunar um framkvæmdaáætlun
í málefnum fatlaðs fólks til ársins 2014.


Frá meiri hluta velferðarnefndar.    Nefndin hefur fjallað um málið og fengið á sinn fund Láru Björnsdóttur og Rósu Bergþórsdóttur frá velferðarráðuneyti, Guðjón Bragason, Gyðu Hjartardóttur og Tryggva Þórhallsson frá Sambandi íslenskra sveitarfélaga, Kristínu Tómasdóttur frá Geðhjálp, Grétar Pétur Geirsson frá Sjálfsbjörg, Friðrik Sigurðsson og Gerði Árnadóttur frá Þroskahjálp, Guðmund Magnússon, Hrefnu K. Óskarsdóttur og Lilju Þorgeirsdóttur frá Öryrkjabandalagi Íslands, Freyju Haraldsdóttur og Emblu Ágústsdóttur frá NPA-miðstöðinni svf., Rannveigu Traustadóttur frá Rannsóknarsetri í fötlunarfræðum, Önnu Egilsdóttur og Ara Hannesson frá Hólabrekku, Ólaf Pál Vignisson, Þorstein Jóhannsson og Kristján Valdimarsson frá Hlutverki, Maríu Hildiþórsdóttur og Helgu Gísladóttur frá Fjölmennt, Sonju Ýri Þorbergsdóttur frá Bandalagi starfsmanna ríkis og bæja, Halldór Hauksson og Heiðu Björgu Pálmadóttur frá Barnaverndarstofu og Söru Pálsdóttur frá Mannréttindaskrifstofu Íslands. Umsagnir bárust frá Akraneskaupstað, Akureyrarbæ, Árneshreppi, Bandalagi starfsmanna ríkis og bæja, Barnaverndarstofu, Bláskógabyggð, Blindrafélaginu, Félagi íslenskra félagsliða, Félagsráðgjafafélagi Íslands, Fjölmennt, Greiningar- og ráðgjafarstöð ríkisins, Hafnarfjarðarbæ, Hlutverki, Kópavogsbæ, Landspítala, Læknafélagi Íslands, Mannréttindaskrifstofu Íslands, Mosfellsbæ, NPA-miðstöðinni svf., Rannsóknarsetri í fötlunarfræðum við Háskóla Íslands, velferðarsviði Reykjavíkurborgar, réttindagæslumanni fatlaðs fólks á Austurlandi, Sambandi íslenskra sveitarfélaga, Samtökum sveitarfélaga á Norðurlandi vestra, Sjálfsbjörg, Sjónarhóli, Starfsgreinasambandi Íslands, Sveitarfélaginu Árborg, Tryggingastofnun ríkisins, velferðarnefnd Árnesþings, þjónusturáði Suðurlands í málefnum fatlaðs fólks, Þroskahjálp og Öryrkjabandalagi Íslands.
    Meiri hlutinn telur fram komna tillögu mjög mikilvæga. Í henni birtast meginmarkmið sem hafa ber í heiðri þegar málefni fatlaðs fólks eru til umfjöllunar og markviss áætlun um það hvernig staðið skuli að upplýsingaöflun um stöðuna í málaflokknum og hvernig aðgerðaáætlun byggð á þeim upplýsingum skuli vera.
    Þingsályktunartillagan skiptist í þrjá þætti. Í fyrsta þætti kemur fram stefna í málaflokki fatlaðs fólks árin 2012–2020. Í öðrum þætti er framkvæmdaáætlun í málaflokki fatlaðs fólks árin 2012–2014. Í þriðja þætti eru nákvæmari útlistanir á einstökum málasviðum framkvæmdaáætlunarinnar. Tillagan er samstarfsverkefni margra aðila sem koma að málefnum fatlaðs fólks, svo sem Sambands íslenskra sveitarfélaga og hagsmunasamtaka fatlaðs fólks. Hin endanlega þingsályktunartillaga er því óhjákvæmilega ákveðin málamiðlun þeirra sjónarmiða sem fram komu við vinnu hennar.
    Til grundvallar framkvæmdaáætlun í málefnum fatlaðs fólks liggur samningur Sameinuðu þjóðanna um réttindi fatlaðs fólks. Í samningnum er sá skilningur á fötlun lagður til grundvallar að um margbreytilegt hugtak sé að ræða og að fötlun verði til í samspili og samskiptum einstaklinga með skerðingar við umhverfi sitt og viðhorfa sem hindri fulla og virka samfélagsþátttöku. Þessi skilningur hafnar því að fötlun sé einstaklingsbundið vandamál fatlaðs fólks og dregur athyglina að þeim þáttum í umhverfinu sem hindra samfélagsþátttöku einstaklinga sem búa við ákveðnar hindranir. Til grundvallar þessu þarf einnig að tryggja að fötluðum einstaklingum sé ekki mismunað og að þeim séu tryggð mannréttindi á við annað fólk. Meiri hlutinn telur brýnt að unnið verði markvisst og ákveðið að því að lögfesta samning Sameinuðu þjóðanna um réttindi fatlaðs fólks og að frumvarp þess efnis verði lagt fyrir Alþingi eigi síðar en á vorþingi 2013 eins og fram kemur í framkvæmdaáætluninni.
    Meiri hluti nefndarinnar leggur til nokkrar breytingar á tillögunni og leggur til að meiri áhersla verði lögð á mannréttindi og stjórn fatlaðs fólks á eigin lífi. Í því skyni telur nefndin að hugmyndafræðin um sjálfstætt líf þurfi að leika lykilhlutverk í framkvæmdaáætlun um málefni fatlaðs fólks. Meiri hlutinn leggur áherslu á að mannréttindi eru vítt hugtak og fatlað fólk á rétt á að njóta allra mannréttinda sem tryggð eru með lögum eða stjórnarskrá. Þá telur nefndin að falla eigi frá fyrirsögn áætlunarinnar. Kjörorðið „Eitt samfélag fyrir alla“ var mikið notað á Norðurlöndum og víðar eftir 1980 og vísaði til þess að fatlað fólk ætti rétt á samfélagsþátttöku á við aðra. Nú þykir slíkt sjálfsagt en baráttan snýr meira að því að ryðja burt hindrunum innan samfélagsins til að fatlaðir einstaklingar njóti lífsgæða til jafns við ófatlaða einstaklinga. Til þess að svo megi hins vegar verða í reynd er nauðsynlegt að unnið sé eftir framkvæmdaáætluninni til að ryðja megi brott hindrunum, huglægum sem og efnislegum, sem oft standa í vegi fyrir því að fatlað fólk geti lifað sjálfstæðu lífi byggðu á eigin ákvörðunum.
    Meiri hlutinn leggur á það áherslu að tillagan er fyrst og fremst áætlun um að safna gögnum um stöðuna í málaflokknum, um frekari skoðun og rannsókn málaflokksins og áætlanagerð á grundvelli þeirra gagna sem safnað verður.
    Fyrir nefndinni komu fram þau sjónarmið að gera ætti notendastýrðri persónulegri aðstoð (NPA) hærra undir höfði en gert er í framkvæmdaáætluninni. Í notendastýrðri persónulegri aðstoð felst að notandinn fær greiðslur sem hann getur ráðstafað sjálfur, kaupir þá þjónustu sem honum hentar og frá þeim þjónustuaðilum sem hann vill. Notandinn hefur þar með frumkvæðið að þjónustunni og valdið færist frá kerfinu til notandans sjálfs. Notendastýrð persónuleg aðstoð er mikilvægt tæki til þess að fatlað fólk geti lifað eðlilegu og sjálfstæðu lífi úti í samfélaginu. Meiri hlutinn leggur áherslu á góða framvindu þess þróunarverkefnis sem farið er af stað þar sem NPA er viðurkennt sem mikilvægt form þjónustu við fatlað fólk. Þá var það einnig gagnrýnt fyrir nefndinni að fatlaðir einstaklingar hefðu ekki haft beina aðkomu að vinnu tillögunnar. Hagsmunasamtök fatlaðs fólks, sem hafa mikla þekkingu á þörfum fatlaðs fólks, höfðu hins vegar beina aðkomu að gerð tillögunnar. Þá voru fatlaðir einstaklingar kallaðir fyrir nefndina og komu þar sjónarmiðum sínum á framfæri og komið hefur verið til móts við hluta af þeim athugasemdum í breytingartillögum meiri hlutans. Það sama má segja um athugasemdir Rannsóknarseturs í fötlunarfræðum en samkvæmt þeirra ábendingum er lagt til að ítarlegri stefna verði unnin í málaflokknum.
    Þá kom einnig fram fyrir nefndinni að enn er verið að vinna að framtíðarfyrirkomulagi í atvinnumálum fatlaðs fólks í sérstökum starfshópi og bindur meiri hlutinn vonir við að starfshópurinn nái viðunandi niðurstöðu enda mikilvægt að unnið verði að atvinnumálum fatlaðra í góðu samstarfi sveitarfélaganna, atvinnulífsins og fatlaðra einstaklinga.
    Þjónusta við fatlað fólk var flutt frá ríki til sveitarfélaga með lögum nr. 152/2010, um breytingu á lögum um málefni fatlaðra, nr. 59/1992. Ráðherra fer þó enn með yfirstjórn málaflokksins og á m.a. að sjá um stefnumótun. Sveitarfélögin bera hitann og þungann af vinnu í málaflokki fatlaðra eftir yfirfærslu málaflokksins frá ríki til sveitarfélaga. Af hálfu Sambands íslenskra sveitarfélaga komu fram þau sjónarmið að tillaga þessi kallaði á mun meiri kostnað en gert er ráð fyrir í kostnaðarmati hennar. Í greinargerð með tillögunni kemur fram að gert sé ráð fyrir kostnaðarauka fyrir þá aðila sem hafa verkefni á höndum samkvæmt tillögunni. Kemur þar fram að gert er ráð fyrir að heildarkostnaður sem skiptast muni á þrjú ár verði um 150 millj. kr. Í þessu sambandi áréttar meiri hlutinn það sem segir hér að framan að hér er um að ræða áætlun um gagnasöfnun og kortlagningu og það er sérstaklega mikilvægt fyrir sveitarfélögin að niðurstöður þeirrar vinnu liggi fyrir áður en kemur að endurmati á framkvæmd og kostnaði við flutning málaflokksins frá ríki til sveitarfélaga árið 2014.
    Meiri hlutinn beinir þeim tilmælum til velferðarráðherra að sett verði af stað vinna að skýrri stefnumótun í málaflokknum sem lokið verði fyrir árslok 2013.
    Meiri hlutinn telur að hér sé um afar þarfa þingsályktunartillögu að ræða og mikilvægt sé að hún verði samþykkt svo mögulegt verði að vinna greinargóðar upplýsingar um málaflokkinn sem nýtast munu við framtíðarvinnu í málefnum fatlaðs fólks.
    Meiri hlutinn leggur til að tillaga þessi verði samþykkt með þeim breytingum sem gerð hefur verið grein fyrir og eru í sérstöku þingskjali.

Alþingi, 14. maí 2012.Álfheiður Ingadóttir,


form.


Jónína Rós Guðmundsdóttir,


frsm.


Lúðvík Geirsson.Guðmundur Steingrímsson.


Sigmundur Ernir Rúnarsson.


Magnús M. Norðdahl.