Aðrar útgáfur af skjalinu: PDF - Word Perfect. Ferill 373. máls.
140. löggjafarþing 2011–2012.
Þingskjal 1344  —  373. mál.

Síðari umræða.


Nefndarálitum tillögu til þingsályktunar um samþykkt rammasamnings milli ríkisstjórnar Íslands
og framkvæmdastjórnar Evrópusambandsins um reglur um samstarf er varðar fjárhagsaðstoð ESB við Ísland innan ramma stuðningsaðgerða
sjóðs er fjármagnar aðstoð við umsóknarríki ESB (IPA).


Frá 2. minni hluta utanríkismálanefndar.    Með tillögunni er leitað eftir heimild Alþingis til að samþykkja rammasamning milli ríkisstjórnar Íslands og framkvæmdastjórnar Evrópusambandsins um reglur um samstarf er varðar fjárhagsaðstoð ESB við Ísland innan ramma stuðningsaðgerða sjóðs er fjármagnar aðstoð við umsóknarríki ESB (IPA) sem undirritaður var 8. júlí 2011. Samningurinn er gerður í samræmi við regluverk ESB og fjallar í stórum dráttum um viðtöku IPA-styrkja og eftirlit með ráðstöfun þeirra.
    Annar minni hluti utanríkismálanefndar bendir á að með flutningi þessarar tillögu og afgreiðslu hennar viðurkenna ríkisstjórnin og stuðningsmenn hennar í utanríkismálanefnd Alþingis að aðildarumsókn Íslands til Evrópusambandsins leiðir ekki til þess eins að unnt sé að „kíkja í pakkann“ í Brussel heldur er óhjákvæmilegt að laga innviði umsóknarríkisins, lög og stjórnsýslu að kröfum ESB. Afgreiðsla tillögunnar úr utanríkismálanefnd og afstaða 1. minni hluta sýnir að ríkisstjórnin og stuðningsmenn hennar hafa gefist upp við að hylma yfir hið rétta eðli aðildarumsóknarinnar, hún hefur leitt til aðlögunarferlis. IPA-styrkir eru veittir umsóknarríkjum til að standa undir kostnaði við aðlögunina.
    Annar minni hluti telur að hvorki ESB-umsóknin sjálf né aðlögunarviðræðurnar gefi tilefni til að samþykkja þennan samning eða setja sérstök lög um framkvæmd hans. Þær aðgerðir einar fela í sér aðlögun að kröfum ESB og eru með öllu ótímabærar í ljósi þess að allt er í meiri óvissu en nokkru sinni fyrr um framvindu viðræðnanna vegna hótana ESB um refsiaðgerðir gegn Íslendingum til að brjóta makrílveiðar íslenskra skipa á bak aftur og vegna meðalgöngu framkvæmdastjórnar ESB við hlið Eftirlitsstofnunar EFTA (ESA) í Icesave- málinu fyrir EFTA-dómstólnum.
    Nefndinni var kynnt svokölluð landsáætlun IPA 2011. Verkefni á áætluninni eru gagnleg og gagnmerk og jafnvel þess eðlis að þverpólitísk samstaða gæti myndast um þau á Alþingi í betra efnahagslegu árferði óháð aðildarviðræðunum við ESB. Athygli vekur að verkefnin eru mistengd aðildarumsókninni að Evrópusambandinu. Sem dæmi má nefna verkefni um að efla fullorðinsfræðslu fólks með litla eða enga formlega menntun eða vinnu að þróunaráætlun til eflingar atvinnu- og byggðaþróun á Eyjafjallajökulssvæðinu. Slík verkefni eru að sjálfsögðu góðra gjalda verð en vandséð er hvernig þau tengjast aðildarviðræðunum með beinum hætti. Verkefnunum er m.a. ætlað að veita innsýn í regluverk Byggðaþróunarsjóðs og Félagsmálasjóðs ESB en rökstuðningur um nauðsyn þess að ráðast í þau á meðan á aðildarviðræðum stendur liggur ekki fyrir.
    Verkefni eins og að efla þjóðhagsreikninga Hagstofunnar til að bæta stefnumótun á sviði efnahagsstefnu og peningamála eru sömuleiðis góðra gjalda vert óháð aðildarviðræðunum og í raun hluti af því að uppfylla skilyrði EES-samningsins. Það verkefni hefur þó ekki notið forgangs við fjárlagagerð í fjöldamörg ár og því ekki verið nógu ofarlega á verkefnalista stjórnvalda. 2. minni hluti leggur áherslu á að það sé íslenskra stjórnvalda að forgangsraða og ráðast í tiltekin verkefni þegar forsendur eru fyrir hendi hér innan lands en ekki þegar erlent styrkfé býðst með óeðlilegum hætti eins og raun er nú í tengslum við aðildarviðræður við Evrópusambandið.
    Með því að ráðast í þau undir þeim formerkjum að óhjákvæmilegt sé vegna hugsanlegrar aðildar Íslands að Evrópusambandinu er brugðið upp rangri mynd af stöðu aðildarmálsins á Alþingi og meðal þjóðarinnar. Þá er einnig gefið til kynna með samþykkt þessarar tillögu að líklegt sé að Ísland gangi í Evrópusambandið. Slík yfirlýsing af hálfu ríkisstjórnar og Alþingis er með öllu ótímabær og er aðeins til þess fallin að veikja stöðu viðræðunefndar Íslands þar sem málsvarar Evrópusambandsins líta þannig á að úthlutun IPA-styrkja úr ESB-sjóðum leiði til þess að sambandið og fulltrúar þess eignist hönk upp í bakið á þeim sem styrkina hljóta.
    Í þessu sambandi ber að hafa í huga að frá árinu 1994 hafa öll ný aðildarríki ESB notið styrkja af þessu tagi til að búa þau undir aðild að ESB. Litið er á þessa styrki sem tæki til að koma ár ESB fyrir borð og breyta samfélögum á þann hátt að falli að hagsmunum ESB enda liggur það í hlutarins eðli að fé yrði ekki veitt úr sjóðum ESB nema í þessum tilgangi, sjálft heiti styrkjanna gefur þennan tilgang til kynna. Þetta á ekki aðeins við um Ísland.
    Þótt IPA-styrkir hafi hentað Austur-Evrópuríkjum sem gengu í Evrópusambandið á árunum 2004 og 2007 er ekki unnt að vísa til aðstöðu þar og nota sem fordæmi hér á landi. Efnahagsaðstæður í ríkjunum voru allt aðrar en hér, stjórnsýsla var víða í molum og innviðir þjóðfélaganna voru að hruni komnir eftir margra áratuga ofstjórn kommúnista. Í þessum löndum ríkti jafnframt víðtæk samstaða um aðild að ESB öfugt við það sem hér gerist, annar stjórnarflokkurinn segist ætla að berjast gegn aðild þótt samningur takist um hana. Að þessi flokkur skuli samt standa að því að sækja um aðlögunar- og aðildarstyrki til ESB sýnir gagnrýnisverða tvöfeldni.
    Samningur íslenskra stjórnvalda og Evrópusambandsins var undirritaður 8. júlí 2011 með fyrirvara um samþykki Alþingis. Tillagan um samþykki þingsins kom þó ekki til fyrri umræðu fyrr en 24. janúar 2012 eða rúmum sex mánuðum síðar. 2. minni hluti telur að eðlilegt hefði verið að tillagan um samþykkt samningsins og frumvarp til laga um frávik frá lögum um skatta og gjöld vegna IPA-styrkja hefðu komið fram samhliða fjárlagafrumvarpinu þar sem fjármunir eru veittir til verkefna sem styrkja á með IPA-styrkjum. Með því að vinna fjárlögin fyrst og láta samþykkt samningsins um IPA-styrkina bíða má segja að þingmenn séu settir í þá stöðu að standa frammi fyrir orðnum hlut því búið er að ákveða að fara í tiltekin verkefni. Synji þingheimur ríkisstjórninni um samþykki samningsins falla IPA-styrkir niður og kostnaður af verkefnunum fellur á skattgreiðendur eins og utanríkisráðherra staðfesti við fyrri umræðu. 2. minni hluti átelur þessi vinnubrögð harðlega.
    Í hnotskurn eru IPA-styrkir óeðlileg fjárinnspýting til aðlögunar vegna aðildarviðræðna við ESB. Þær viðræður eru mjög umdeildar og njóta lítils stuðnings hjá þjóðinni og því leggst 2. minni hluti gegn samþykkt tillögunnar.

Alþingi, 30. apríl 2012.Ragnheiður E. Árnadóttir,


frsm.


Sigmundur Davíð Gunnlaugsson.


Sigurgeir Sindri Sigurgeirsson.