Aðrar útgáfur af skjalinu: PDF - Word Perfect. Ferill 818. máls.
140. löggjafarþing 2011–2012.
Þingskjal 1429  —  818. mál.




Tillaga til þingsályktunar



um stuðning við grísku þjóðina.


Flm.: Lilja Mósesdóttir, Atli Gíslason, Guðfríður Lilja Grétarsdóttir.



    Alþingi ályktar að fela utanríkisráðherra að koma á framfæri á alþjóðavettvangi yfirlýsingu um stuðning við grísku þjóðina sem nú gengur í gegnum miklar efnahagslegar þrengingar.

Greinargerð.

    Ekki hefur farið fram hjá nokkrum manni að efnahagskreppa hefur geisað á evrusvæðinu undanfarin ár og flest ríki álfunnar hafa þurft að glíma við fjárhagslega erfiðleika. Fá lönd hafa fengið eins þungt högg og Grikkland og er ríkið á barmi gjaldþrots. Þar er fjárhagslegt neyðarástand, fólk flykkist út á götur til að mótmæla ástandinu auk þess sem erfið stjórnarkreppa flækir málin enn frekar. Ekki ber mönnum saman um orsök og afleiðingar stöðu Grikklands í dag. Leiddar hafa verið líkur að því að hér sé um aðför evrópska fjármálakerfisins að Grikklandi að ræða þó að ekkert sé fast í hendi í þeim efnum. Staða Grikklands hríðversnaði eftir árið 2008, eins og víðast annars staðar í álfunni, og er gríðarlega þungur skuldabaggi erfiður viðfangs þegar harðnar á dalnum. Deilt hefur verið á alþjóðasamfélagið fyrir óbilgirni og viljaleysi til að greiða úr vanda Grikkja. Komist var að samkomulagi um endurgreiðslu skulda sem er þess eðlis að vart er við það unandi af hálfu Grikkja.
    Það er skoðun flutningsmanna að tímabært sé að þjóðþing í Evrópu bregðist við neyðarhrópum grísks almennings, neyð sem stafar af aðgerðum fjármálakerfisins. Þögn þjóðþinga Evrópu sem hafa daufheyrst við kalli grísks almennings er skammarleg.
    Flutningsmenn leggja til að Alþingi Íslendinga feli utanríkisráðherra að lýsa yfir stuðningi við grísku þjóðina á alþjóðavettvangi og fordæma um leið einstrengingslegar aðgerðir evrópskra fjármálaafla vegna skuldavanda Grikkja.