Aðrar útgáfur af skjalinu: PDF - Word Perfect. Ferill 385. máls.
140. löggjafarþing 2011–2012.
Nr. 44/140.

Þingskjal 1497  —  385. mál.


Þingsályktun

um stefnu um beina erlenda fjárfestingu.


    Alþingi ályktar að mikilvægt sé að efla fjárfestingu í íslensku atvinnulífi.
    Alþingi ályktar að bætt samkeppnishæfni Íslands gagnvart erlendri fjárfestingu og markaðssetning byggð á skýrum markmiðum sé sérstakt viðfangsefni sem leggja beri aukna áherslu á.
    Alþingi ályktar að íslensk stjórnvöld skuli í því skyni tryggja gagnsæja meðferð mála er varða erlenda fjárfestingu og að gildandi reglur séu jafnan skýrar og ótvíræðar.
    Alþingi felur stjórnvöldum að sækjast sérstaklega eftir fjárfestingu sem:
     1.      stuðlar að fjölbreytni atvinnulífs,
     2.      styður við verndun og nýtingu umhverfis á sjálfbærum grunni,
     3.      nýtir nýjustu tækni,
     4.      skapar í gegnum framleiðsluferli sem mestan virðisauka innan lands,
     5.      skapar hlutfallslega mörg störf og hátt hlutfall verðmætra starfa,
     6.      stuðlar að eflingu rannsókna og þróunar og öflun nýrrar þekkingar,
     7.      er arðsöm og skilar hlutfallslega miklum skatttekjum,
     8.      skapar ný tækifæri eða tækifæri sem talin eru æskileg til að styrkja innlenda starfsemi sem fyrir er.
    Efnahags- og viðskiptaráðherra og iðnaðarráðherra leggi fyrir vorþing 2012 tímasetta áætlun um aðgerðir til að bæta samkeppnisstöðu Íslands og efla markaðs- og kynningarstarf í því skyni. Þá verði mótaðar tillögur um samhæfða stjórnsýslu til að styðja við framangreind markmið.

Samþykkt á Alþingi 11. júní 2012.