Aðrar útgáfur af skjalinu: PDF Word Perfect.

Þingskjal 1531, 140. löggjafarþing 372. mál: umhverfisábyrgð (heildarlög, EES-reglur).
Lög nr. 55 22. júní 2012.

Lög um umhverfisábyrgð.


I. KAFLI
Markmið, gildissvið, skilgreiningar.

1. gr.

Markmið.
     Markmið laga þessara er að tryggja að sá sem ber ábyrgð á umhverfistjóni af völdum atvinnustarfsemi eða yfirvofandi hættu á slíku tjóni komi í veg fyrir tjón eða bæti úr tjóni ef það hefur orðið og beri kostnað af ráðstöfunum sem af því leiðir í samræmi við greiðslureglu umhverfisréttarins.

2. gr.

Gildissvið.
     Lög þessi gilda um umhverfistjón sem valdið er við atvinnustarfsemi sem fellur undir II. viðauka eða yfirvofandi hættu á umhverfistjóni af völdum slíkrar starfsemi. Rekstraraðili ber ábyrgð samkvæmt lögum þessum þótt tjón eða yfirvofandi hætta á tjóni verði ekki rakið til saknæmrar háttsemi.
     Lög þessi gilda auk þess um umhverfistjón á vernduðum tegundum og náttúruverndarsvæðum og yfirvofandi hættu á slíku tjóni sem rekja má til annarrar atvinnustarfsemi en þeirrar sem fellur undir II. viðauka og valdið er af ásetningi eða gáleysi.
     Lög þessi gilda um rannsóknir og úrbætur vegna umhverfistjóns og rannsóknir og ráðstafanir til að koma í veg fyrir yfirvofandi hættu á umhverfistjóni sem er valdið í atvinnustarfsemi og kostnað sem af því leiðir.
     Lög þessi gilda ekki um umhverfistjón eða yfirvofandi hættu á umhverfistjóni þegar liðin eru meira en 30 ár frá því að atburður sem orsakaði tjónið eða hættuna á tjóni varð.

3. gr.

Umhverfistjón.
     Umhverfistjón sem fellur undir lög þessi er:
  1. Tjón á vernduðum tegundum og náttúruverndarsvæðum, þ.e. tjón sem hefur veruleg skaðleg áhrif á markmið um að ná ákjósanlegri verndarstöðu verndaðra tegunda eða náttúruverndarsvæða eða viðhalda slíkri stöðu. Áhrifin skulu metin með hliðsjón af fyrra ástandi að teknu tilliti til viðmiðana skv. 7. gr. Afleiðingar aðgerða sem hafa verið heimilaðar eða eru heimilar samkvæmt gildandi lögum á sviði náttúruverndar teljast ekki umhverfistjón.
  2. Tjón á vatni, þ.e. tjón sem hefur veruleg skaðleg áhrif á vistfræðilegt ástand og vistmegin vatns, kemur í veg fyrir gott efnafræðilegt ástand vatns eða breytir magnstöðu grunnvatns, samkvæmt skilgreiningum í lögum um stjórn vatnamála og reglugerðum settum samkvæmt þeim lögum.
  3.      Afleiðingar af nýrri starfsemi eða breytingar á vatnshlotum teljast ekki umhverfistjón þegar:
    1. ástæðuna fyrir því að ekki tókst að koma í veg fyrir að ástand yfirborðsvatnshlots eða grunnvatnshlots versnaði má rekja til breytinga, svo sem vegna mengunar eða í tengslum við loftslagsbreytingar, á vatnsgæðum, vistfræðilegum, vatnsformfræðilegum eða efna- og eðlisefnafræðilegum eiginleikum yfirborðsvatnshlots eða á hæð grunnvatnshlots, eða
    2. ný sjálfbær umsvif eða breytingar hafa í för með sér að ástand yfirborðsvatnshlots fer úr mjög góðu í gott.

         Auk skilyrða a- og b-liðar 2. mgr. þurfa eftirtalin skilyrði að vera uppfyllt svo að ekki sé um að ræða umhverfistjón:
    1. gripið sé til allra ráðstafana sem raunhæfar teljast til að draga úr skaðlegum áhrifum á ástand vatnshlots,
    2. tilgangur framkvæmdanna eða umsvifanna vega þyngra vegna almannaheilla og/eða ávinnings fyrir heilsu og öryggi manna, eða fyrir sjálfbæra þróun, en ávinningur af því að umhverfismarkmið náist, og
    3. tilgangi framkvæmdanna eða umsvifanna verður ekki með góðu móti náð með umhverfisvænni leiðum vegna tæknilegra erfiðleika eða óhóflegs kostnaðar.

  4. Tjón á landi, þ.e. hvers kyns mengun á landi sem veldur umtalsverðri hættu á skaðlegum áhrifum á heilsufar manna vegna efna eða lífvera sem með beinum eða óbeinum hætti berast á yfirborð lands eða í jarðveg eða berggrunn.


4. gr.

Undantekningar frá gildissviði.
     Lög þessi gilda ekki um umhverfistjón eða yfirvofandi hættu á umhverfistjóni ef tjónið eða hættan á tjóni er af völdum:
  1. dreifðrar mengunar þegar ekki er unnt að staðfesta tengsl milli tjóns og starfsemi ákveðins eða ákveðinna rekstraraðila,
  2. vopnaðra átaka, hernaðarátaka, borgarastyrjaldar eða uppreisnar,
  3. náttúruhamfara,
  4. starfsemi þar sem eina markmiðið er vernd fyrir yfirvofandi eða yfirstandandi náttúruhamförum, eða
  5. atburðar þar sem ábyrgð eða bætur vegna atburðarins falla undir gildissvið eftirtalinna samninga:
    1. samnings frá 27. nóvember 1992 um einkaréttarlega ábyrgð vegna tjóns af völdum olíumengunar,
    2. samnings frá 27. nóvember 1992 um stofnun alþjóðasjóðs til að bæta tjón af völdum olíumengunar.

     Breytingar á þeim samningum sem eru nefndir í e-lið 1. mgr. gilda gagnvart lögum þessum þegar þær hafa verið innleiddar í íslenskan rétt.
     Ákvæði III. kafla um fyrirmæli hafa ekki áhrif á valdheimildir og ráðstafanir stjórnvalda sem tilgreindar eru í IV. kafla laga um varnir gegn mengun hafs og stranda, nr. 33/2004, lögum um brunavarnir, nr. 75/2000, og lögum um hollustuhætti og mengunarvarnir, nr. 7/1998.

5. gr.

Takmörkun ábyrgðar.
     Lög þessi takmarka ekki heimild þess sem ábyrgð ber vegna umhverfistjóns eða yfirvofandi hættu á umhverfistjóni til að takmarka tjón sitt skv. IX. kafla siglingalaga, nr. 34/1985.

6. gr.

Skilgreiningar.
     Í lögum þessum er merking eftirfarandi orða og orðasambanda sem hér segir:
  1. Atvinnustarfsemi: Hvers kyns starfsemi sem er stunduð í tengslum við hagræna starfsemi, fyrirtæki eða félag, án tillits til þess hvort slík starfsemi er á vegum einkaaðila eða hins opinbera, og hvort hún er rekin í hagnaðarskyni eða ekki.
  2. Ákjósanleg verndarstaða tegundar: Öll áhrif sem verka á viðkomandi tegund og geta skipt máli fyrir langtímaútbreiðslu og stærð stofna tegundarinnar á því svæði sem lög þessi taka til.
  3. Ákjósanleg verndarstaða vistgerðar: Sú staða sem mótast af öllum þeim áhrifum sem verka á vistgerð og þær tegundir lífvera sem eru dæmigerðar fyrir hana og geta til langs tíma skipt máli fyrir náttúrulega útbreiðslu þeirra, formgerð og starfsemi og einnig á langtímalifun dæmigerðra tegunda á því svæði sem lög þessi taka til.
  4. Árósavatn: Vatn í nágrenni ármynnis, ísalt vegna nálægðar við strandsjó en undir verulegum áhrifum af aðstreymi ferskvatns.
  5. Búsvæði: Þeir staðir eða svæði þar sem tegund getur þrifist.
  6. Endurheimt, þar með talin náttúruleg endurheimt: Það ferli að koma náttúruauðlindum og/eða skertri virkni þeirra aftur í fyrra ástand.
  7. Fyrra ástand: Ástand náttúruauðlinda og virkni þeirra áður en tjón varð, metið á grundvelli bestu fáanlegra upplýsinga.
  8. Grunnvatn: Vatn, kalt eða heitt, sem er neðan jarðar í samfelldu lagi, kyrrstætt eða rennandi, og fyllir að jafnaði allt samtengt holrúm í viðkomandi jarðlagi.
  9. Losun: Beint eða óbeint útstreymi efna eða lífvera út í umhverfið af mannavöldum.
  10. Magnstaða: Mælikvarði á það hversu mikil áhrif, bein eða óbein, vatnstaka hefur haft á grunnvatnshlot.
  11. Náttúruauðlindir: Umhverfi ríkt að náttúrugæðum, verndaðar tegundir og náttúruverndarsvæði, vatn og land.
  12. Ráðstafanir til úrbóta: Hvers kyns aðgerðir eða röð aðgerða vegna tjóns á vatni eða vernduðum tegundum og náttúruverndarsvæðum, þ.m.t. mildandi ráðstafanir eða bráðabirgðaráðstafanir, til að endurheimta fyrra ástand, lagfæra eða endurnýja náttúruauðlindir sem hafa orðið fyrir tjóni, og/eða skerta virkni þeirra, eða boð um sambærilega kosti, eins og mælt er fyrir um í I. viðauka. Einnig hvers kyns aðgerðir vegna tjóns á landi við að fjarlægja mengandi efni eða lífverur og endurheimta fyrra ástand, eða jafngildar aðgerðir.
  13. Rekstraraðili: Einstaklingur eða lögaðili sem ber ábyrgð á tiltekinni atvinnustarfsemi.
  14. Sjálfbær umsvif: Starfsleyfisskyld starfsemi eða framkvæmdir sem falla undir lög um mat á umhverfisáhrifum og geta verið ein eða fleiri framkvæmdir, svo sem á tilteknu svæði. Sjálfbærni tryggir að efnahagsleg gæði haldist í hendur við vernd umhverfisins og grunngæði jarðar að teknu tilliti til mótvægisaðgerða.
  15. Strandsjór: Yfirborðsvatn landmegin við línu sem er dregin einni sjómílu utan grunnlínu landhelginnar og nær inn að ytri mörkum árósavatns.
  16. Tjón: Mælanleg skaðleg breyting á náttúruauðlind eða mælanleg bein eða óbein skerðing á virkni náttúruauðlindar.
  17. Umhverfisverndarsamtök: Samtök sem hafa umhverfisvernd að meginmarkmiði. Þau skulu vera opin fyrir almennri aðild, gefa út ársskýrslu um starfsemi sína og hafa endurskoðað bókhald.
  18. Útivistarsamtök: Samtök sem hafa útivist og umhverfisvernd að markmiði. Þau skulu vera opin fyrir almennri aðild, gefa út ársskýrslu um starfsemi sína og hafa endurskoðað bókhald.
  19. Varnarráðstafanir: Hvers kyns ráðstafanir sem eru gerðar í þeim tilgangi að koma í veg fyrir eða lágmarka tjón þegar atburður, aðgerð eða aðgerðaleysi hefur leitt til yfirvofandi hættu á umhverfistjóni.
  20. Vatn: Yfirborðsvatn og grunnvatn.
  21. Vatnshlot: Eining vatns, svo sem allt það vatn sem er að finna í stöðuvatni, á eða strandsjó.
  22. Verndaðar tegundir og náttúruverndarsvæði:
    1. Tegundir villtra fugla og villtra spendýra sem eru friðaðar samkvæmt lögum um vernd, friðun og veiðar á villtum fuglum og villtum spendýrum og tegundir vatnafiska sem njóta verndar samkvæmt lögum um lax- og silungsveiði.
    2. Lífverur, búsvæði þeirra, vistgerðir og vistkerfi sem eru friðlýst samkvæmt lögum um náttúruvernd.
    3. Friðlýst svæði samkvæmt lögum um náttúruvernd, þ.e. þjóðgarðar, friðlönd, fólkvangar og náttúruvætti.
    4. Afmörkuð svæði á landi og sjó sem njóta verndar samkvæmt sérstökum lögum vegna náttúru eða landslags.
    5. Náttúruminjar á náttúruverndaráætlun sem hefur verið samþykkt á Alþingi samkvæmt lögum um náttúruvernd.
    6. Landsvæði í verndarflokki verndar- og orkunýtingaráætlunar samkvæmt lögum um verndar- og orkunýtingaráætlun.
  23. Virkni náttúruauðlindar: Eiginleikar náttúruauðlindar sem nýtast annarri náttúruauðlind eða eru almenningi til hagsbóta að öðru leyti.
  24. Vistgerðir: Staðir eða svæði með ákveðnum einkennum, t.d. hvað varðar gróður- og dýralíf, jarðveg og loftslag.
  25. Vistmegin: Ástand lífríkis í manngerðu eða mikið breyttu vatnshloti samkvæmt gæðaflokkun í besta vistmegin, gott vistmegin og ekki viðunandi vistmegin.
  26. Yfirborðsvatn: Kyrrstætt eða rennandi vatn, straumvötn, stöðuvötn, lón, árósavatn og strandsjór, auk jökla.
  27. Yfirvofandi hætta: Það ástand þegar nægar líkur eru á því að umhverfistjón verði í náinni framtíð.


7. gr.

Mat á tjóni á vernduðum tegundum og náttúruverndarsvæðum.
     Áhrifin af umhverfistjóni skv. 1. tölul. 3. gr. skulu metin með hliðsjón af mati á verndarstöðu tegundar eða svæðis áður en tjón varð, þjónustu tegundar eða svæðis, og getu tegundar eða svæðis til náttúrulegrar endurnýjunar. Nota skal gögn um mælanlega þætti til að staðreyna hvort um sé að ræða verulegar skaðlegar breytingar frá fyrra ástandi, m.a. gögn um:
  1. fjölda einstaklinga, þéttleika þeirra eða útbreiðslusvæði,
  2. það hlutverk sem viðkomandi einstaklingur tegundar eða hið skaðaða svæði gegnir gagnvart tegundinni eða varðveislu svæðisins, og hversu sjaldgæf tegundin eða svæðið er,
  3. getu tegundar til fjölgunar, lífvænleika hennar og getu til náttúrulegrar endurnýjunar,
  4. getu tegundar, búsvæðis hennar eða vistgerðar, eftir að tjón hefur orðið, til þess að endurheimta á skömmum tíma ástand sem er jafngott eða betra en fyrra ástand.

     Flokka skal umhverfistjón sem verulegt tjón ef sannað er að það hafi áhrif á heilsufar manna.
     Eftirfarandi umhverfistjón skal ekki flokka sem verulegt tjón:
  1. sveiflur sem eru minni en náttúrulegar sveiflur sem teljast eðlilegar fyrir viðkomandi tegund eða svæði,
  2. sveiflur sem stafa af náttúrulegum orsökum eða íhlutun í tengslum við stjórnun svæða sem falla undir b–d-liði 22. tölul. 6. gr.,
  3. tjón á tegundum eða svæðum sem hefur verið staðfest að endurheimti fyrra ástand á skömmum tíma og án íhlutunar.

     Ráðherra skal tilgreina í reglugerð þau svæði og tegundir sem falla undir b- og c-lið 22. tölul. 6. gr.

8. gr.

Verndarstaða.
     Verndarstaða tegundar telst ákjósanleg þegar gögn um stofnstærð tegundarinnar gefa til kynna að hún haldi sér við til langs tíma litið sem lífvænlegur þáttur í vistgerðum hennar, náttúrulegt útbreiðslusvæði tegundarinnar fer ekki minnkandi og ólíklegt er að það minnki í fyrirsjáanlegri framtíð og búsvæði tegundarinnar er svo stórt að viðhald stofna þess er tryggt til langs tíma og líklegt er að svo verði áfram.
     Verndarstaða vistgerðar telst ákjósanleg þegar náttúrulegt útbreiðslusvæði vistgerðar og þau svæði innan útbreiðslusvæðisins, sem vistgerðin nær yfir, eru stöðug eða stækkandi, sú sérstaka formgerð og starfsemi sem eru nauðsynlegar til að viðhalda vistgerðinni til lengdar eru fyrir hendi og líklegt er að svo verði um fyrirsjáanlega framtíð og verndarstaða þeirra tegunda sem eru dæmigerðar fyrir vistgerðina er ákjósanleg.

II. KAFLI
Athafnaskylda og tilkynningarskylda.

9. gr.

Umhverfistjón og yfirvofandi hætta á umhverfistjóni.
     Rekstraraðili skal þegar í stað grípa til nauðsynlegra varnarráðstafana vegna yfirvofandi hættu á umhverfistjóni sem rekja má til starfsemi hans. Ef umhverfistjón verður skal rekstraraðili þegar í stað hefja aðgerðir til að takmarka tjón eða afstýra frekara tjóni.
     Rekstraraðili skal þegar í stað tilkynna Umhverfisstofnun um umhverfistjón eða yfirvofandi hættu á umhverfistjóni sem rekja má til starfsemi hans og upplýsa um alla þætti sem máli skipta. Jafnframt skal rekstraraðili setja fram og senda Umhverfisstofnun áætlun um úrbætur vegna umhverfistjóns sem þegar er orðið. Áætlunin skal vera í samræmi við I. viðauka ef um er að ræða tjón skv. 1. eða 2. tölul. 3. gr. Þegar um er að ræða atvinnurekstur sem er háður eftirliti heilbrigðisnefndar sveitarfélags skal Umhverfisstofnun tilkynna viðkomandi heilbrigðisnefnd um málið.

10. gr.

Aukning umhverfistjóns eða yfirvofandi hættu.
     Þegar umhverfistjón sem rekja má til starfsemi rekstraraðila eykst eða yfirvofandi hætta á umhverfistjóni eykst eða leiðir til umhverfistjóns skal rekstraraðilinn þegar í stað grípa til ráðstafana til að koma í veg fyrir eða takmarka enn frekari aukningu.
     Rekstraraðili skal þegar í stað tilkynna Umhverfisstofnun ef þegar orðið umhverfistjón eykst eða yfirvofandi hætta á umhverfistjóni eykst eða leiðir til umhverfistjóns. Þegar um er að ræða atvinnurekstur sem er háður eftirliti heilbrigðisnefndar sveitarfélags skal Umhverfisstofnun tilkynna viðkomandi heilbrigðisnefnd um málið.

11. gr.

Tilkynningar rekstraraðila.
     Tilkynningar rekstraraðila skv. 2. mgr. 9. gr. og 2. mgr. 10. gr. takmarka ekki skyldu hans til að koma á virkan hátt í veg fyrir afleiðingar umhverfistjóns, þar á meðal aukið umhverfistjón, eða að koma í veg fyrir hættu á umhverfistjóni.

12. gr.

Ákvörðun stjórnvalds.
     Umhverfisstofnun metur hvort orðið eða yfirvofandi tjón sé umhverfistjón eða yfirvofandi hætta á umhverfistjóni í skilningi laga þessara og hver beri ábyrgð á slíku tjóni eða hættu á tjóni. Við matið skal stofnunin eftir atvikum leita umsagnar hlutaðeigandi heilbrigðisnefndar, Náttúrufræðistofnunar Íslands, Veðurstofu Íslands, Veiðimálastofnunar, Landgræðslu ríkisins eða annarra sérfróðra aðila. Kalli beiðni um umsögn að mati Umhverfisstofnunar á sérstaka úttekt af hálfu umsagnaraðila er stofnuninni heimilt að greiða honum kostnað vegna úttektarinnar samkvæmt sérstökum samningi. Umhverfisstofnun skal innheimta þennan kostnað hjá rekstraraðila.
     Ákvörðun um hvort tjón eða yfirvofandi hætta á tjóni telst vera umhverfistjón eða yfirvofandi hætta á umhverfistjóni í skilningi laga þessara skal tilkynnt rekstraraðila sem talinn er bera ábyrgð. Í þeirri tilkynningu skal koma fram:
  1. hvort tjón eða yfirvofandi hætta á tjóni sé umhverfistjón eða yfirvofandi hætta á umhverfistjóni í skilningi laga þessara,
  2. að tjón eða yfirvofandi hættu á tjóni megi rekja til atvinnustarfsemi rekstraraðila,
  3. að rekstraraðili skuli innan ákveðins frests senda áætlun um ráðstafanir og úrbætur ef sú áætlun hefur ekki þegar borist, sbr. 2. mgr. 9. gr., vegna umhverfistjóns sem hefur orðið.

     Berist tilkynning eða vitneskja um tjón eða yfirvofandi hættu á tjóni til annars eftirlitsaðila en Umhverfisstofnunar skal sá eftirlitsaðili tilkynna það Umhverfisstofnun án tafar ef grunur leikur á að um umhverfistjón eða yfirvofandi hættu á umhverfistjóni samkvæmt lögum þessum geti verið að ræða.

III. KAFLI
Fyrirmæli.

13. gr.

Fyrirmæli um upplýsingagjöf, rannsóknir o.fl.
     Umhverfisstofnun er heimilt að gefa rekstraraðila sem ábyrgð ber samkvæmt lögum þessum fyrirmæli um að veita upplýsingar og framkvæma rannsóknir sem hafa þýðingu við mat á því hvernig unnt er að bæta úr umhverfistjóni eða koma í veg fyrir umhverfistjón. Fyrirmæli skulu gefin að höfðu samráði við hlutaðeigandi heilbrigðisnefnd þegar viðkomandi atvinnurekstur er háður eftirliti heilbrigðisnefndar. Í heimild Umhverfisstofnunar felst m.a. að unnt er að gefa þeim rekstraraðila sem ber ábyrgð fyrirmæli um vöktun, sýnatöku, greiningu og mælingu efna og aðrar rannsóknir í þeim tilgangi að sýna fram á:
  1. orsakir og áhrif umhverfistjóns eða yfirvofandi hættu á umhverfistjóni,
  2. eðli og umfang umhverfistjóns,
  3. breytingar á umfangi og eðli umhverfistjóns eða yfirvofandi hættu á umhverfistjóni sem tilkynnt er skv. 9. gr.


14. gr.

Fyrirmæli um varnarráðstafanir.
     Umhverfisstofnun skal gefa rekstraraðila sem ábyrgð ber samkvæmt lögum þessum fyrirmæli um nauðsynlegar varnarráðstafanir vegna yfirvofandi hættu á umhverfistjóni eða í þeim tilgangi að koma í veg fyrir frekara umhverfistjón eða takmarka það. Fyrirmæli skulu gefin að höfðu samráði við hlutaðeigandi heilbrigðisnefnd þegar viðkomandi atvinnurekstur er háður eftirliti heilbrigðisnefndar.
     Fyrirmæli skv. 1. mgr. geta, auk kröfu um nauðsynlegar varnarráðstafanir, falið í sér kröfu um ráðstafanir til að endurheimta fyrra ástand eða sambærilegar úrbætur í þeim mæli sem lög heimila.

15. gr.

Fyrirmæli um úrbætur.
     Umhverfisstofnun skal gefa rekstraraðila sem ábyrgð ber samkvæmt lögum þessum, að fenginni áætlun hans skv. 2. mgr. 9. gr., fyrirmæli um úrbætur vegna umhverfistjóns á vernduðum tegundum og náttúruverndarsvæðum eða vatni í samræmi við I. viðauka.
     Umhverfisstofnun skal gefa rekstraraðila sem ábyrgð ber samkvæmt lögum þessum, að fenginni áætlun hans skv. 2. mgr. 9. gr., fyrirmæli um að bæta úr umhverfistjóni á landi með því að eyða mengun og endurheimta fyrra ástand eða gera jafngildar ráðstafanir.
     Hafi Umhverfisstofnun ekki borist áætlun rekstraraðila skv. 2. mgr. 9. gr. innan hæfilegs tíma að mati stofnunarinnar getur hún engu síður gefið rekstraraðila fyrirmæli um úrbætur vegna umhverfistjóns samkvæmt þessari grein. Fyrirmæli Umhverfisstofnunar skulu gefin að höfðu samráði við hlutaðeigandi heilbrigðisnefnd þegar viðkomandi atvinnurekstur er háður eftirliti heilbrigðisnefndar.

16. gr.

Fleiri en eitt umhverfistjón.
     Hafi orðið fleiri en eitt umhverfistjón og ekki er unnt að bæta úr þeim samtímis skv. 15. gr. ákveður Umhverfisstofnun úr hvaða umhverfistjóni skuli fyrst bætt, m.a. að teknu tilliti til eðlis umhverfistjóns, útbreiðslu þess og alvarleika, möguleika á náttúrulegri endurnýjun og hættu fyrir heilsufar manna.

17. gr.

Rekstraraðili hefur ekki umráð eignar.
     Fyrirmæli skv. 13.–15. gr. er unnt að gefa óháð því hvort rekstraraðili sem ábyrgð ber samkvæmt lögum þessum hefur umráð eignar þar sem umhverfistjón verður eða yfirvofandi hætta er á umhverfistjóni.
     Ef sá sem ábyrgð ber samkvæmt lögum þessum hefur ekki umráð eignar þar sem umhverfistjón verður eða yfirvofandi hætta er á umhverfistjóni getur Umhverfisstofnun gefið þeim sem umráðin hefur fyrirmæli um að þola að rannsóknir, varnarráðstafanir og úrbætur verði framkvæmdar af rekstraraðila sem ábyrgð ber á umhverfistjóninu eða hinni yfirvofandi hættu á umhverfistjóni.
     Þegar tjóni er valdið á eign þriðja manns við framkvæmd ráðstafana samkvæmt lögum þessum getur eigandi eða afnotahafi eignarinnar gert skaðabótakröfu á hendur ríkissjóði ef ekki næst samkomulag við tjónvald um bætur eða þegar tjónvaldur getur ekki greitt bótakröfuna.
     Þegar ríkissjóður hefur greitt skaðabótakröfu skv. 3. mgr. öðlast ríkissjóður rétt tjónþola á hendur tjónvaldi.

18. gr.

Fleiri en einn aðili ábyrgur.
     Ef fleiri en einn rekstraraðili bera ábyrgð á umhverfistjóni eða yfirvofandi hættu á umhverfistjóni er unnt að gefa þeim öllum fyrirmæli skv. 13.–15. gr. Fyrirmæli hvers rekstraraðila skulu ákveðin með hliðsjón af hlut viðkomandi í heildartjóni eða hættu á tjóni. Ef ekki er mögulegt að leggja mat á hlut hvers rekstraraðila í ábyrgð á tjóni eða hættu á tjóni skal Umhverfisstofnun leggja til grundvallar jafna skiptingu ábyrgðar. Fyrirmælum skal þó ekki beint til rekstraraðila sem á hverfandi hlutdeild í tjóni.
     Ef rekstraraðilar sem fengið hafa fyrirmæli geta ekki náð samkomulagi um að verða sameiginlega við fyrirmælunum er unnt að gefa þeim sem er talinn hafa valdið mestum hluta tjóns eða mestri hættu á tjóni ný fyrirmæli um framkvæmd rannsókna eða um varnarráðstafanir eða úrbætur.
     Ef Umhverfisstofnun hefur gefið fyrirmæli um jafna skiptingu ábyrgðar og þeir sem ábyrgð bera geta ekki náð samkomulagi um að verða sameiginlega við fyrirmælunum er unnt að gefa þeim fyrirmæli sem ábyrgð ber og hefur umráð eignar sem umhverfistjón snertir. Ef enginn þeirra sem ábyrgð ber hefur eða hefur haft umráð eignar er unnt að gefa fyrirmæli sérhverjum þeim sem ábyrgð ber.
     Rekstraraðili sem skylt er að framkvæma fyrirmæli skv. 2. eða 3. mgr. á endurkröfu um útgjöld sem hann innir af hendi hjá öðrum rekstraraðilum sem ábyrgð bera í réttu hlutfalli við ábyrgð þeirra.

19. gr.

Þinglýsing fyrirmæla.
     Umhverfisstofnun lætur þinglýsa yfirlýsingu um fyrirmæli skv. 13.–15. gr. á fasteign þar sem umhverfistjón hefur orðið á kostnað rekstraraðila sem ábyrgð ber samkvæmt lögum þessum.
     Upplýsingum um fyrirmæli skv. 2. mgr. 17. gr. skal ekki þinglýsa.
     Ef fyrirmæli eru felld úr gildi ber Umhverfisstofnun kostnað vegna aflýsingar.
     Umhverfisstofnun lætur aflýsa þinglýstum yfirlýsingum um fyrirmæli þegar ráðstafanir samkvæmt þeim hafa verið framkvæmdar að mati stofnunarinnar.

20. gr.

Frestur til ráðstafana.
     Í fyrirmælum samkvæmt þessum kafla skal koma fram frestur rekstraraðila sem ábyrgð ber til aðgerða. Við sérstakar aðstæður, þegar ætla má að ráðstafanir þoli ekki bið, má ákveða að fyrirmælin skuli framkvæmd þegar í stað.

IV. KAFLI
Ábyrgð á greiðslu kostnaðar.

21. gr.

Greiðsla kostnaðar.
     Rekstraraðili skal bera kostnað við rannsóknir, varnarráðstafanir og úrbætur sem framkvæma ber samkvæmt lögum þessum. Einnig skal hann bera kostnað stjórnvalda vegna aðgerða sem þeim er samkvæmt lögum falið að grípa til og falla undir lög þessi, m.a. vegna bráðamengunar eða mengunaróhapps. Geta stjórnvöld endurkrafið rekstraraðila um kostnað vegna slíkra aðgerða.
     Rekstraraðili skal þó ekki bera kostnað af rannsóknum, varnarráðstöfunum og úrbótum ef hann getur sannað:
  1. að þriðji aðili hafi valdið tjóninu þrátt fyrir að viðeigandi öryggisráðstafanir hafi verið gerðar, eða
  2. að tjón hafi orðið vegna þess að farið var eftir ófrávíkjanlegum fyrirmælum opinbers stjórnvalds, öðrum en fyrirmælum sem voru gefin vegna losunar eða annars atburðar sem starfsemi rekstraraðilans sjálfs olli.

     Rekstraraðili skal ekki bera kostnað af úrbótum ef hann getur sannað að tjón verði ekki rakið til saknæmrar háttsemi hans og því hafi verið valdið við losun, eða annan atburð, sem var sérstaklega heimiluð og var í fullu samræmi við skilyrði leyfis sem veitt var samkvæmt gildandi lögum.

22. gr.

Fjárhagsleg trygging.
     Rekstraraðili sem ber ábyrgð á umhverfistjóni eða yfirvofandi hættu á umhverfistjóni skal setja fullnægjandi tryggingu fyrir efndum á þeim skyldum sem á honum hvíla samkvæmt lögum þessum. Tryggingin skal ná yfir útgjöld Umhverfisstofnunar vegna ráðstafana skv. 24. gr. og málsmeðferðar, sbr. 30. gr.
     Umhverfisstofnun ákveður fjárhæð og önnur skilyrði tryggingarinnar hverju sinni.
     Ráðherra setur reglur um setningu tryggingar, þar á meðal um skiptingu skyldu til að setja tryggingu þegar fleiri en einn aðili ber ábyrgð á umhverfistjóni, um útreikning og eftirfarandi endurskoðun fjárhæðar tryggingar og um niðurfellingu hennar.

V. KAFLI
Stjórnvöld og eftirlit.

23. gr.

Stjórn og eftirlitsaðilar.
     Ráðherra náttúruverndarmála fer með yfirstjórn mála samkvæmt lögum þessum. Umhverfisstofnun hefur umsjón og eftirlit með framkvæmd laga þessara. Umhverfisstofnun er heimilt að fela heilbrigðisnefnd með samningi tiltekna þætti eftirlitsins sem undir stofnunina heyra. Í samningnum skal m.a. kveðið á um greiðslur til heilbrigðisnefndar vegna eftirlitsins.

24. gr.

Úrræði stjórnvalds á kostnað rekstraraðila.
     Umhverfisstofnun getur látið gera ráðstafanir sem fyrirmæli voru gefin um skv. III. kafla á kostnað rekstraraðila sem ábyrgð ber samkvæmt lögum þessum þegar frestur sem gefinn var til framkvæmda er útrunninn eða þegar framkvæmdir þola ekki bið.

25. gr.

Heimildir eftirlitsaðila.
     Rekstraraðila er skylt að veita allar upplýsingar og hvers konar gögn sem eru nauðsynleg til eftirlits Umhverfisstofnunar með framkvæmd laga þessara.
     Umhverfisstofnun skal heimill aðgangur að lóðum, mannvirkjum og farartækjum í eigu rekstraraðila án dómsúrskurðar til eftirlits eða annarra verkefna samkvæmt lögum þessum. Þar með er talin heimild stofnunarinnar til töku sýna án endurgjalds, til myndatöku og til að ljósrita eða leggja hald á hvers konar gögn og aðra hluti án endurgjalds. Sömu heimildir hefur heilbrigðisnefnd samkvæmt samningi við Umhverfisstofnun, sbr. 23. gr. Við framkvæmd rannsókna og eftirlits skulu eigendur og starfsmenn rekstraraðila veita nauðsynlega aðstoð.
     Umhverfisstofnun getur ef þörf krefur leitað aðstoðar lögreglu við að beita heimildum skv. 2. mgr.
     Sveitarstjórn og viðkomandi heilbrigðisnefnd skulu veita Umhverfisstofnun upplýsingar til notkunar við mat stofnunarinnar á aðstæðum innan sveitarfélags.

VI. KAFLI
Málsmeðferð.

26. gr.

Heimild til að óska aðgerða.
     Þeir sem eiga málskotsrétt skv. 33. gr. geta óskað eftir að Umhverfisstofnun grípi til aðgerða skv. III. og V. kafla.
     Beiðni um aðgerðir skv. 1. mgr. skal studd nauðsynlegum upplýsingum og gögnum. Beiðni umhverfisverndarsamtaka og útivistarsamtaka skulu fylgja samþykktir samtakanna.

27. gr.

Andmælaréttur.
     Áður en tekin er ákvörðun skv. 26. gr. skal tilkynna viðkomandi rekstraraðila og eftir atvikum umráðamanni eignar, sbr. 2. mgr. 17. gr., skriflega um meðferð máls og kynna honum rétt hans til að koma að athugasemdum.
     Heimilt er að falla frá tilkynningu skv. 1. mgr. þegar ætla má að ákvarðanir þoli ekki bið eða ef tilkynning er bersýnilega ónauðsynleg.

28. gr.

Athugasemdaréttur.
     Áður en Umhverfisstofnun tekur ákvörðun skv. 15. gr. skal stofnunin kynna þeim sem eiga málskotsrétt skv. 33. gr. drög að ákvörðun og tilkynna um rétt þeirra til að gera athugasemdir við drögin innan fjögurra vikna. Stofnunin getur við sérstakar aðstæður vikið frá fresti skv. 1. málsl. Þegar um opinbera auglýsingu er að ræða, sbr. 2. mgr., miðast fresturinn þó ávallt við dagsetningu auglýsingar. Ef fresturinn rennur út á laugardegi eða helgidegi framlengist hann til næsta virka dags.
     Tilkynning til þeirra sem eiga málskotsrétt skv. 2. og 3. tölul. 3. mgr. 33. gr., annarra en umráðamanns eignar, sbr. 2. mgr. 17. gr., skal gerð með opinberri auglýsingu í dagblaði sem er í almennri dreifingu.

29. gr.

Tilkynning ákvarðana.
     Ákvarðanir samkvæmt lögum þessum skulu tilkynntar viðkomandi rekstraraðila sem mál beinist að skriflega og eftir atvikum umráðamanni eignar, sbr. 17. gr. Kæranlegar ákvarðanir skulu tilkynntar öðrum sem eiga málskotsrétt skv. 2. og 3. tölul. 3. mgr. 33. gr. með opinberri auglýsingu í blaði sem er í almennri dreifingu.

VII. KAFLI
Gjaldtaka.

30. gr.

     Umhverfisstofnun skal innheimta, á grundvelli gjaldskrár sem ráðherra setur, gjald af rekstraraðila sem ábyrgð ber vegna kostnaðar við eftirlit, vöktun og málsmeðferð skv. II.–VI. kafla. Gjaldskráin skal m.a. taka til vinnuframlags og ferðakostnaðar auk útlagðs kostnaðar stofnunarinnar eða heilbrigðisnefndar. Gjaldskráin skal birt í B-deild Stjórnartíðinda. Gjaldið má innheimta með fjárnámi.
     Ráðherra getur sett reglur um hvernig greiðslu gjaldsins skuli háttað og um greiðslu vaxta ef dráttur verður á greiðslu.

VIII. KAFLI
Fyrning.

31. gr.

     Krafa um endurgreiðslu kostnaðar Umhverfisstofnunar við ráðstafanir skv. 24. gr. og krafa um gjald skv. 1. mgr. 30. gr. fyrnist á fimm árum frá þeim degi þegar ráðstöfunum lauk eða frá því að rekstraraðili, eða þriðji aðili, sem ábyrgð ber hefur verið tilgreindur. Fresturinn skal miðaður við síðara tímamarkið.
     Ákvæði 1. mgr. gildir einnig um kröfu um endurgreiðslu útgjalda vegna ráðstafana sem framkvæmdar eru samkvæmt öðrum lögum þegar unnt hefði verið að gefa fyrirmæli um þær skv. III. kafla.
     Kröfur skv. 1. og 2. mgr. fyrnast í síðasta lagi 30 árum eftir að losun eða annar atburður varð sem leiddi til umhverfistjóns eða yfirvofandi hættu á umhverfistjóni.

IX. KAFLI
Almennar skaðabótareglur.

32. gr.

     Lög þessi takmarka ekki rétt stjórnvalda til skaðabóta samkvæmt almennum reglum skaðabótaréttar innan eða utan samninga eða samkvæmt reglum í öðrum lögum.

X. KAFLI
Málskot.

33. gr.

     Heimilt er að kæra ákvarðanir sem teknar eru á grundvelli laga þessara til úrskurðarnefndar umhverfis- og auðlindamála samkvæmt lögum nr. 130/2011. Kærufrestur er átta vikur frá tilkynningu um ákvörðun. Renni fresturinn út á laugardegi eða helgidegi framlengist hann til næsta virka dags. Úrskurður nefndarinnar er endanlegur úrskurður á stjórnsýslustigi.
     Um réttaráhrif kærðrar ákvörðunar fer eftir 29. gr. stjórnsýslulaga, nr. 37/1993.
     Málskotsrétt samkvæmt þessari grein eiga:
  1. Rekstraraðili sem ákvörðun beinist að.
  2. Aðrir sem eiga lögvarða hagsmuni tengda hinni kærðu ákvörðun.
  3. Umhverfisverndarsamtök og útivistarsamtök, enda séu félagsmenn samtakanna 30 eða fleiri og það samrýmist tilgangi samtakanna að gæta þeirra hagsmuna sem kæran lýtur að.

     Kæru umhverfisverndarsamtaka og útivistarsamtaka skulu fylgja samþykktir samtakanna.

XI. KAFLI
Viðurlög.

34. gr.

     Það varðar sektum eða fangelsi allt að tveimur árum nema þyngri refsing liggi við samkvæmt öðrum lögum að:
  1. fara ekki að fyrirmælum eða vanrækja athafnaskyldu samkvæmt lögum þessum,
  2. vanrækja tilkynningarskyldu skv. 9. og 10. gr., veita rangar eða villandi upplýsingar eða leyna upplýsingum sem máli skipta í tengslum við tilkynningarskyldu eða skyldu til upplýsingagjafar skv. 25. gr.,
  3. hindra aðgang eftirlitsaðila að lóðum, mannvirkjum eða farartækjum þannig að það brjóti í bága við 25. gr.

     Sé um stórfelld eða ítrekuð ásetningsbrot að ræða skulu þau varða fangelsi allt að fjórum árum. Tilraun eða hlutdeild í brotum samkvæmt lögum þessum og reglugerðum settum samkvæmt þeim er refsiverð eftir því sem segir í III. kafla almennra hegningarlaga.
     Sektir má ákvarða lögaðila þó að sök verði ekki sönnuð á fyrirsvarsmenn eða starfsmenn hans eða aðra þá einstaklinga sem í þágu hans starfa, enda hafi brotið orðið eða getað orðið til hagsbóta fyrir lögaðilann. Einnig má, með sama skilorði, gera lögaðila sekt ef fyrirsvarsmenn eða starfsmenn hans eða aðrir einstaklingar sem í þágu hans starfa gerast sekir um brot eða ef það stafar af ófullnægjandi tækjabúnaði eða verkstjórn.

XII. KAFLI
Innleiðing.

35. gr.

     Með lögum þessum er innleidd tilskipun Evrópuþingsins og ráðsins 2004/35/EB frá 21. apríl 2004, um umhverfisábyrgð í tengslum við varnir gegn umhverfistjóni og úrbætur vegna þess, eins og hún var tekin upp í samninginn um Evrópska efnahagssvæðið með ákvörðun sameiginlegu EES-nefndarinnar nr. 17/2009 sem birt var 19. mars 2009 í EES-viðbæti við Stjórnartíðindi Evrópusambandsins nr. 16/2009.

XIII. KAFLI
Gildistaka.

36. gr.

     Lög þessi öðlast þegar gildi.
     Lög þessi gilda um umhverfistjón eða yfirvofandi hættu á umhverfistjóni sem verður eftir gildistöku laganna, sbr. þó 3. og 4. mgr.
     Lög þessi gilda ekki um umhverfistjón eða yfirvofandi hættu á umhverfistjóni sem verður eftir gildistöku laganna ef tjónið eða hættuna má rekja til starfsemi sem fram fór og var lokið fyrir þann dag.
     Lög þessi gilda ekki um umhverfistjón eða yfirvofandi hættu á umhverfistjóni á friðlýstum tegundum lífvera og friðlýstum svæðum, sbr. b- og c-lið 22. tölul. 6. gr., sem verður eftir gildistöku laganna ef rekja má tjónið eða hættuna á tjóni til starfsemi sem fram fór áður en viðkomandi tegund eða svæði var friðlýst.

I. viðauki.
Úrbætur vegna umhverfistjóns á vatni og vernduðum tegundum og náttúruverndarsvæðum.
     Í þessum viðauka eru sameiginleg rammaákvæði sem fylgja ber með það að markmiði að velja heppilegustu ráðstafanirnar til að tryggja úrbætur vegna umhverfistjóns.
  1. Úrbætur vegna umhverfistjóns á vatni, vernduðum tegundum eða náttúruverndarsvæðum felast í því að koma umhverfinu aftur í fyrra ástand sitt með því að gera á því frumúrbætur, fyllingarúrbætur eða jöfnunarúrbætur sem eru skilgreindar svo:
    1. „Frumúrbætur“: Ráðstafanir sem koma náttúruauðlind sem orðið hefur fyrir tjóni og/eða skertri virkni náttúruauðlindar aftur í fyrra ástand eða í átt til þess.
    2. „Fyllingarúrbætur“: Ráðstafanir sem gripið er til í tengslum við náttúruauðlind og/eða virkni náttúruauðlindar til að bæta það upp að frumúrbæturnar nægja ekki til að koma náttúruauðlind sem orðið hefur fyrir tjóni og/eða virkni hennar að fullu í fyrra horf.
    3. „Jöfnunarúrbætur“: Aðgerðir til að bæta upp tímabundið tap á náttúrulegri auðlind og/eða virkni náttúruauðlindar frá því að tjón verður og þar til árangur af frumúrbótum hefur náðst að fullu. „Tímabundið tap“ telst tap sem er afleiðing þess að náttúruauðlind eða virkni náttúruauðlindar, sem hefur orðið fyrir tjóni, getur ekki gegnt vistfræðilegu hlutverki sínu eða nýst fyrir aðrar náttúruauðlindir eða almenning fyrr en frum- eða fyllingarúrbætur eru að fullu komnar til framkvæmda. Slíkt tap felur ekki í sér fébætur til almennings.
    4.      Ef ekki næst að koma umhverfinu aftur í fyrra ástand sitt með frumúrbótum skal grípa til fyllingarúrbóta. Auk þess skal tímabundið tap bætt upp með jöfnunarúrbótum.
           Í úrbótum vegna umhverfistjóns á vatni, vernduðum tegundum eða náttúruverndarsvæðum felst einnig að útrýma allri umtalsverðri hættu á skaðlegum áhrifum á heilsufar manna.

        1.1.     Markmið með úrbótum.
    Tilgangurinn með frumúrbótum.

        1.1.1.    Tilgangurinn með frumúrbótum er að koma náttúruauðlindunum sem orðið hafa fyrir tjóni og/eða skertri virkni þeirra aftur í fyrra ástand eða í átt til þess.
    Tilgangurinn með fyllingarúrbótum.

        1.1.2.    Ef ekki er unnt að koma náttúruauðlindunum sem orðið hafa fyrir tjóni og/eða virkni náttúruauðlinda í fyrra ástand sitt er gripið til fyllingarúrbóta. Tilgangurinn með fyllingarúrbótum er að sjá til þess að náttúruauðlind og/eða virkni náttúruauðlindar, þ.m.t. ef við á náttúruauðlind á öðrum stað en tjónið varð, sé á svipuðu stigi og verið hefði ef svæðinu sem orðið hefur fyrir tjóni hefði verið komið aftur í fyrra ástand. Ef unnt er og við á skal hinn staðurinn vera í landfræðilegum tengslum við staðinn sem orðið hefur fyrir tjóni, með hliðsjón af hagsmunum þeirra íbúa sem málið varðar.
    Tilgangurinn með jöfnunarúrbótum.

        1.1.3.    Beita skal jöfnunarúrbótum til að jafna upp tímabundið tap á náttúruauðlind og virkni náttúruauðlindar meðan þess er beðið að hún jafni sig. Í þessum úrbótum felast frekari endurbætur á vernduðum tegundum og náttúruverndarsvæðum eða vatni, annaðhvort á staðnum sem orðið hefur fyrir tjóni eða á öðrum stað. Jöfnunarúrbætur fela ekki í sér fébætur til almennings.

        1.2.     Ákvörðun um ráðstafanir til úrbóta.
    Ákvörðun ráðstafana til frumúrbóta.

        1.2.1.    Skoða skal þá kosti um aðgerðir sem standa til boða í því skyni að koma náttúruauðlindinni og virkni náttúruauðlindar strax í átt að fyrra ástandi sínu með flýtiferli eða með náttúrulegri endurheimt.
    Ákvörðun ráðstafana til fyllingar- og jöfnunarúrbóta.

        1.2.2.    Þegar umfang ráðstafana til fyllingar- og jöfnunarúrbóta er ákvarðað skal fyrst skoða notkun aðferða þar sem fundin eru jafngildi með því að bera eina auðlind saman við aðra auðlind og virkni einnar náttúruauðlindar saman við virkni annarrar. Samkvæmt þessum aðferðum skal fyrst vega og meta aðgerðir sem gefa af sér náttúruauðlindir og/eða virkni af sömu tegund, gæðum og umfangi og þær sem urðu fyrir tjóni. Verði þessu ekki komið við skal sjá til þess að völ sé á öðrum náttúruauðlindum og/eða virkni þeirra í staðinn. Sem dæmi má nefna að skert gæði skal vega upp með því að auka umfang ráðstafana til úrbóta.

        1.2.3.    Ef ekki er unnt að nota fyrsta kostinn, jafngildisaðferðina, þar sem ein auðlind er borin saman við aðra og virkni einnar við virkni annarrar, skal nota annars konar matsaðferðir. Umhverfisstofnun getur fyrirskipað hvaða aðferð skuli notuð til að ákvarða umfang nauðsynlegra ráðstafana til fyllingar- og jöfnunarúrbóta, t.d. fjárhagslegt mat. Ef unnt er að meta auðlindina sem glataðist, og/eða virkni hennar, en ekki er unnt, innan eðlilegra tímamarka eða með eðlilegum kostnaði, að meta auðlindina og/eða virkni sem kemur í staðinn getur Umhverfisstofnun valið ráðstafanir til úrbóta þar sem kostnaðurinn jafngildir áætluðu, fjárhagslegu virði náttúruauðlindarinnar og/eða virkni sem glataðist. Haga skal ráðstöfunum til fyllingar- og jöfnunarúrbóta þannig að þær gefi af sér frekari náttúruauðlindir og/eða virkni sem endurspeglar forgangsröð í tíma og tímasetningu þessara ráðstafana til úrbóta. Sem dæmi má nefna að því lengri tíma sem það tekur að ná fyrra ástandi því meira verður umfang þeirra ráðstafana til jöfnunarúrbóta sem verða gerðar (að öllu öðru jöfnu).

        1.3.     Val á kostum til úrbóta.

        1.3.1.    Meta skal eðlilega kosti til úrbóta með bestu fáanlegri tækni og á grundvelli eftirfarandi viðmiðana, sem eru:

          –    áhrif hvers kostar á lýðheilsu og almannaöryggi,

          –    kostnaður af því að hrinda viðkomandi kosti í framkvæmd,

          –    líkurnar á að hver kostur fyrir sig skili árangri,

          –    að hve miklu leyti hver kostur kemur í veg fyrir tjón í framtíðinni og að hve miklu leyti framkvæmd þessa kostar kemur í veg fyrir frekara tjón,

          –    að hve miklu leyti hver kostur gagnast mismunandi þáttum náttúruauðlindarinnar og/eða virkni hennar,

          –    að hve miklu leyti hver kostur tekur mið af félagslegum, efnahagslegum og menningarlegum sjónarmiðum sem skipta máli og öðrum þáttum sem skipta máli og eru einkennandi fyrir viðkomandi stað,

          –    hversu langur tími líður þar til úrbæturnar hafa skilað árangri,

          –    að hve miklu leyti hver kostur dugir til að koma í samt lag svæðinu þar sem umhverfistjónið varð,

          –    landfræðileg tengsl við staðinn sem orðið hefur fyrir tjóni.

        1.3.2.    Við mat á þeim kostum til úrbóta sem koma til greina má velja ráðstafanir til frumúrbóta sem koma vatni, vernduðum tegundum eða náttúruverndarsvæðum sem hafa orðið fyrir tjóni ekki að fullu í fyrra ástand sitt eða eru lengur en ella að ná fyrra ástandi. Einungis má taka slíka ákvörðun ef náttúruauðlindirnar og/eða virkni náttúruauðlindar, sem fara forgörðum á upprunalega staðnum vegna þessarar ákvörðunar, eru bættar upp með því að auka fyllingar- og jöfnunaraðgerðir þannig að til verði svipaðar náttúruauðlindir og/eða virkni og sú sem fór forgörðum. Þetta á t.d. við þegar unnt er að sjá fyrir jafngildum náttúruauðlindum og/eða virkni þeirra annars staðar með minni tilkostnaði. Þessar viðbótarráðstafanir til úrbóta skulu ákveðnar í samræmi við reglurnar sem settar eru fram í lið 1.2.2.

        1.3.3.    Þrátt fyrir reglurnar sem settar eru fram í lið 1.3.2 og í samræmi við 15. gr. getur Umhverfisstofnun ákveðið að ekki skuli gera frekari ráðstafanir til úrbóta ef:
    1. þær ráðstafanir til úrbóta sem gerðar hafa verið tryggja að ekki sé lengur fyrir hendi umtalsverð hætta á því að heilsufar manna verði fyrir skaðlegum áhrifum eða veruleg hætta á því að vatn, verndaðar tegundir eða náttúruverndarsvæði verði fyrir skaðlegum áhrifum,
    2. kostnaðurinn við þær ráðstafanir til úrbóta sem gera þarf til að ná fyrra ástandi eða svipuðu ástandi er óhóflegur miðað við ávinninginn af þeim fyrir umhverfið.


II. viðauki.
Starfsemi sem um getur í 1. mgr. 2. gr.
  1. Starfsleyfisskyldur atvinnurekstur á grundvelli 5. gr. a og 6. gr. laga nr. 7/1998, um hollustuhætti og mengunarvarnir, þar sem gerð er krafa um samþættar mengunarvarnir, sbr. I. viðauka reglugerðar um starfsleyfi sem haft getur í för með sér mengun. Einnig starfsleyfisskyldur atvinnurekstur um meðhöndlun úrgangs, sbr. 5. gr. laga nr. 55/2003, um meðhöndlun úrgangs.
  2. Losun efna í vatn (grunnvatn og yfirborðsvatn) sem er háð leyfi eða skráningu og leyfisskyld vatnstaka og vatnsmiðlun.
  3. Framleiðsla efna og efnablandna sem flokkast sem hættuleg efni, eiturefni, varnarefni eða sæfiefni, sbr. lög nr. 45/2008, um efni og efnablöndur, og lög nr. 52/1988, um eiturefni og hættuleg efni, notkun þeirra, geymsla, vinnsla, urðun, losun og flutningur.
  4. Flutningur hættulegs eða mengandi farms á vegum, járnbrautum, skipgengum vatnaleiðum og á sjó eða í lofti, sbr. umferðarlög, nr. 50/1987, og reglugerð um flutning á hættulegum farmi sem sett er á grundvelli þeirra laga, eða lög nr. 41/2003, um vaktstöð siglinga, og reglugerð um vaktstöð siglinga og eftirlit með umferð skipa.
  5. Starfsemi sem þarf leyfi til samkvæmt lögum nr. 18/1996, um erfðabreyttar lífverur.
  6. Flutningur úrgangs milli landa, háður leyfi eða bannaður, sbr. ákvæði laga nr. 55/2003, um meðhöndlun úrgangs.

Samþykkt á Alþingi 12. júní 2012.