Aðrar útgáfur af skjalinu: PDF - Word Perfect. Ferill 792. máls.
140. löggjafarþing 2011–2012.
Þingskjal 1677  —  792. mál.




Svar



umhverfisráðherra við fyrirspurn Höskuldar Þórhallssonar um
tæki slökkviliða til að bregðast við umferðarslysum.

    Fyrirspurnin hljóðar svo:
     Er ráðherra reiðubúinn að beita sér fyrir því að slökkvilið hvarvetna á landinu hafi yfir að ráða nauðsynlegum tækjum, eins og klippum til björgunarstarfa, til að bregðast við umferðarslysum?

    Með breytingum á lögum um brunavarnir, nr. 161/2010, var ákveðið að slökkviliðum yrði falið það verkefni að bjarga fastklemmdu fólki úr mannvirkjum og farartækjum með sérhæfðum björgunarbúnaði og er verkefnið því alfarið á vegum sveitarfélaga. Áratugina á undan höfðu langflest slökkvilið landsins sinnt þessu verkefni án lagaskyldu. Björgun fólks úr farartækjum, t.d. eftir umferðarslys, krefst sérhæfðs búnaðar og þjálfunar þeirra sem búnaðinn nota. Þegar beita þarf slíkum tækjum er nauðsynlegt að slökkvilið sé á staðnum vegna eldhættu við farartækið. Því skapaðist sú hefð að slökkvilið sinnti þessu verkefni og kennsla í meðferð búnaðarins hefur um langt árabil verið hluti af námsefni Brunamálaskólans og allir slökkviliðsmenn landsins hafa fengið kennslu af því tagi. Búnaðurinn nýtist einnig við björgun fólks úr mannvirkjum. Með því að gera verkefnið lögbundið var tryggt að þessi þjónusta yrði fyrir hendi á öllu landinu og að hún uppfyllti tilteknar lágmarkskröfur. Þannig varð unnt að setja reglur um lágmarksbúnað, þjálfun starfsmanna, forvarnir og viðbragðsáætlanir.
    Umhverfisráðuneytið mat í samráði við Samband íslenskra sveitarfélaga forsendur kostnaðaráhrifa þessara breytinga á lögum um brunavarnir. Ekki var talið að um nýjan kostnað væri að ræða fyrir sveitarfélögin nema í undantekningartilvikum og höfðu flest slökkvilið landsins sinnt þessu verkefni í meira en áratug án lagaskyldu.
    Samkvæmt upplýsingum Mannvirkjastofnunar er almennt talið að tækjakostur og mönnun hjá slökkviliðum landsins sé í góðu horfi. Þó eru einhverjar undantekningar hjá einstaka sveitarfélögum varðandi vissa þætti starfsumhverfis slökkviliðs sveitarfélagsins. Starfsaðstæður og skyldur slökkviliða geta verið mjög mismunandi eftir landsvæðum og áhætta sem krefst viðbúnaðar slökkviliða er oft ekki í hlutfalli við mannfjölda sveitarfélagsins.
    Sveitarfélög setja fram brunavarnaáætlun til fimm ára í senn þar sem fram kemur hver stefnan sé varðandi viðbúnað slökkviliðs, gerð er grein fyrir búnaði og mannskap slökkviliðs og settar fram áætlanir um uppbyggingu tækjakosts og þjálfun manna.
    Mannvirkjastofnun hefur nýverið gert ítarlegri úttekt en fram kemur í brunavarnaáætlun á stöðu tækjakosts slökkviliða vegna búnaðar til björgunar á fastklemmdu fólki. Stofnunin metur það svo að þörf sé á endurnýjun á búnaði á landsvísu næstu þrjú árin til þess að eðlileg endurnýjun og uppbygging tækjakosts eigi sér stað eða sem svarar 5–6 klippisettum á ári.
    Með hliðsjón af því að hér er um að ræða lögbundið verkefni sveitarfélaga telur ráðherra að eðlilegur vettvangur til að endurskoða fjármögnun þess sé í samstarfsnefnd ríkis og sveitarfélaga.