Aðrar útgáfur af skjalinu: PDF - Word Perfect. Ferill 834. máls.
140. löggjafarþing 2011–2012.
Þingskjal 1710  —  834. mál.




Svar



fjármálaráðherra við fyrirspurn Lilju Mósesdóttur og Atla Gíslasonar um SpKef.


     1.      Hvert var framlag ríkisins við stofnun SpKef?
    Við stofnun SpKef sparisjóðs var framlag ríkisins 900 millj. kr. sem var stofnfé sparisjóðsins. Tók fjárhæðin mið af ákvæðum 2. mgr. 14. gr. laga nr. 161/2002, um fjármálafyrirtæki, um lágmarksstofnfé sparisjóða.

     2.      Hvaða skuldbindingar tók ríkið á sig við stofnun SpKef?
    Ríkið tók ekki á sig sérstakar skuldbindingar við stofnun SpKef sparisjóðs. Sparisjóðurinn tók hins vegar við öllum innstæðuskuldbindingum Sparisjóðsins í Keflavík og eignum, sú yfirtaka var án ábyrgðar frá ríkinu. Í samræmi við yfirlýsingu stjórnvalda frá haustinu 2008, sem síðan hefur verið ítrekuð af núverandi ríkisstjórn, er ljóst að allar innstæður í íslenskum bönkum og sparisjóðum eru tryggðar.

     3.      Hvert var rekstrartap SpKef á starfstíma sparisjóðsins og hvað skýrir tapið?
    Samkvæmt drögum að ársreikningi SpKef sparisjóðs fyrir árið 2010 var rekstrartap hans frá stofnun 22. apríl 2010 til 31. desember 2010, samtals 1.447 millj. kr. sem skýrist aðallega af því að almennur rekstur sparisjóðsins skilaði mjög litlum hagnaði eða aðeins um 130 millj. kr. Lítill hagnaður skýrist af því að tekjur af útlánum og vaxtamunur milli útlána og innlána var lítill. Kostnaður af rekstri SpKef sparisjóðs fólst fyrst og fremst í því að sparisjóðurinn rak samtals 16 útibú og afgreiðslustaði á Vesturlandi og Vestfjörðum með yfir 110 starfsmönnum. Launa- og rekstrarkostnaður útibúa sparisjóðsins fyrir tímabilið 22. apríl til 31. desember 2010 nam rúmum 1,5 milljörðum kr. sem skýrir rekstrartap ársins 2010.
    Á starfstíma sparisjóðsins árið 2011, eða til 7. mars 2011, var tap af rekstri samtals um 450 millj. kr., að mestu af sömu ástæðum og áður greinir, auk þess sem tap vegna gengismunar var um 200 millj. kr. á tímabilinu.

     4.      Hvað rýrnuðu eignir SpKef mikið á starfstíma sparisjóðsins og hvað skýrir rýrnunina?
    Samkvæmt mati Íslenskra endurskoðenda ehf., sem Fjármálaeftirlitið fól að leggja mat á verðmæti þeirra eigna sem SpKef sparisjóður yfirtók frá Sparisjóðnum í Keflavík, var verðmæti yfirtekinna eigna samtals 57 milljarðar kr., þar af 40 vegna útlána.
    Samkvæmt niðurstöðu úrskurðarnefndar samkvæmt samningi íslenska ríkisins við Landsbankann hf. um yfirtöku á SpKef sparisjóði var verðmæti eigna sem runnu til Landsbankans 7. mars 2011 samtals 55 milljarðar kr., þar af útlán um 36 milljarðar kr.
    Rýrnun eigna á starfstíma SpKef sparisjóðs skýrist því fyrst og fremst af rýnun á verðmæti útlánasafns, sem er til komið vegna þess að greiðslugeta skuldara SpKef sparisjóðs var metin minni í lok starfstíma hans en í upphafi. Tekið skal fram að við mat Íslenskra endurskoðenda ehf. á útlánasafninu við yfirtöku þess af SpKef sparisjóði var tekið tillit til verðrýrnunar á útlánasafninu vegna ólögmætra gengistryggðra lána.

     5.      Hver var innlánaaukningin hjá SpKef á starfstíma sparisjóðsins og hvað skýrir aukninguna?
    Á starfstíma SpKef sparisjóðs jukust innlán ekki heldur minnkuðu þvert á móti nokkuð. Meðfylgjandi er yfirlit yfir þróun innlána hjá Sparisjóðnum í Keflavík og svo SpKef sparisjóði:
Sparisjóðurinn í Keflavík Milljarðar kr.
Júní 2008 44,9
Des. 2008 54,7
Mars 2009 57,7
Júní 2009 61,3
Sept. 2009 61,7
Des. 2009 63,2
22. apríl 2010 64,3
SpKef sparisjóður Milljarðar kr.
22. apríl 2010 64,3
Júní 2010 64,1
Sept. 2010 62,6
Des. 2010 59,7
7. mars 2011 57,6

    Hafa ber í huga við skoðun á þessum tölum að áfallnir vextir og verðbætur hækka þessa fjárhæð yfir tímabilið.

     6.      Hvað kemur í meginatriðum fram í skýrslu sem endurskoðunarfyrirtækið PwC vann fyrir Fjármálaeftirlitið um SpKef?
    Í spurningunni er væntanlega vísað til skýrslu sem PWC vann fyrir Fjármálaeftirlitið og slitastjórn Sparisjóðsins í Keflavík, um starfsemi Sparisjóðsins í Keflavík. Fjármálaráðuneytið hefur ekki fengið afrit af þeirri skýrslu.