Aðrar útgáfur af skjalinu: PDF - Word Perfect. Ferill 62. máls.
141. löggjafarþing 2012–2013.
Þingskjal 62  —  62. mál.




Tillaga til þingsályktunar



um aukin áhrif Íslands á mótun og töku ákvarðana á vettvangi Evrópusamstarfs.

Flm.: Einar K. Guðfinnsson, Ragnheiður E. Árnadóttir, Ásbjörn Óttarsson,
Guðlaugur Þór Þórðarson, Gunnar Bragi Sveinsson, Lilja Mósesdóttir,
Jón Gunnarsson, Ásmundur Einar Daðason, Höskuldur Þórhallsson,
Vigdís Hauksdóttir, Sigurður Ingi Jóhannsson, Eygló Harðardóttir,
Kristján Þór Júlíusson, Ragnheiður Ríkharðsdóttir.


    Alþingi ályktar að efla beri þátttöku stjórnmálamanna og embættismanna í hagsmunagæslu tengdri Evrópusamstarfi með það að markmiði að auka áhrif Íslands á mótun og töku ákvarðana á vettvangi Evrópusamstarfs.

Greinargerð.


    Tillaga þessi var áður flutt á 140. löggjafarþingi (587. mál). Henni fylgdi svohljóðandi greinargerð:
    „Mikil umræða á sér stað um samskipti Íslands og Evrópuríkja. Alþingi ákvað 16. júlí árið 2009 „að fela ríkisstjórninni að leggja inn umsókn um aðild Íslands að ESB og að loknum viðræðum við sambandið verði haldin þjóðaratkvæðagreiðsla um væntanlegan aðildarsamning. Við undirbúning viðræðna og skipulag þeirra skal ríkisstjórnin fylgja þeim sjónarmiðum um verklag og meginhagsmuni sem fram koma í áliti meiri hluta utanríkismálanefndar.“
    Um þetta er eins og kunnugt er mikill ágreiningur.
    Því hefur verið haldið fram að með því samstarfi sem nú fer fram á grundvelli EES-samningsins hafi Íslendingar takmörkuð áhrif og megi lúta því að þurfa að taka við tilskipunum og ákvörðunum frá Evrópusambandinu án þess að geta lagt þar mikið til málanna.

Álit Evrópunefndar.
    Hinn 7. mars árið 2007 skilaði áliti nefnd sem skipuð var fulltrúum allra þingflokka, undir forustu Björns Bjarnasonar, þáverandi dómsmálaráðherra, viðamikilli skýrslu um tengsl Íslands og Evrópusambandsins. Í nefndinni sátu:

Sjálfstæðisflokkur: Björn Bjarnason, formaður, og
Einar K. Guðfinnsson.
Framsóknarflokkur: Hjálmar Árnason og Jónína Bjartmarz.
Samfylkingin: Össur Skarphéðinsson og Bryndís Hlöðversdóttir, en síðla árs 2006 tók Ágúst Ólafur Ágústsson sæti Bryndísar.
Vinstri hreyfingin – grænt framboð: Ragnar Arnalds og Katrín Jakobsdóttir.
Frjálslyndi flokkurinn: Brynjar Sindri Sigurðsson.

    Nefnd þessi, Evrópunefndin, fjallaði mjög um það hvort og þá hvernig hægt væri að auka áhrif Íslands í þessu samstarfi á grundvelli þess fyrirkomulags sem nú er með EES-samningnum. Lagði nefndin fram ítarlegar tillögur sem fólu í sér „að Ísland leggi áherslu á aukna þátttöku stjórnmálamanna og embættismanna í hagsmunagæslu tengdu Evrópusamstarfi, með það að markmiði að auka áhrif Íslands á mótun og töku ákvarðana á þessum vettvangi“ eins og orðrétt segir í niðurstöðum hennar.
    Í þessum niðurstöðum var síðan að finna ítarlegar tillögur um það hvernig þessu mætti ná fram. Var þar lögð áhersla á að þetta mætti gera með margvíslegum hætti.
     1.      Með því að auka tengsl stjórnmálamanna Íslands og ríkja ESB. Gilti það jafnt um samstarf á vettvangi ríkisstjórnar og Alþingis.
     2.      Nýttur yrði réttur sem Ísland hefði til þess að auka aðkomu embættismanna að undirbúningi mála á vegum Evrópusambandsins.
     3.      Lögð yrði áhersla á að rækja samstarf EFTA-ríkjanna við framkvæmd EES-samningsins.
     4.      Aukin yrði upplýsingagjöf um málefni sem snerti samstarf okkar við ESB og starf okkar á vettvangi EFTA. Sérstaklega verði tryggt að almenningur hafi tækifæri til að kynna sér þátttöku Íslands í Evrópusamstarfi.
     5.      Samstarf sem hefur þróast á milli ýmissa hagsmunasamtaka á Evrópuvettvangi verði eflt.
     6.      Fagnað er aukinni kennslu í háskólum landsins á sviði Evrópufræða og taldi nefndin hana nauðsynlega til að efla þekkingu á þátttöku Íslands í Evrópusamstarfi. Námsmönnum yrðu gefin tækifæri til starfsnáms, þátttöku í fundum í Brussel og greiningar á einstökum viðfangsefnum á vettvangi Evrópusamstarfsins.
     7.      Hvatt var til virkrar þátttöku í Schengen-samstarfinu.
    Nánar er gerð grein fyrir þessum tillögum í fylgiskjali sem þessari þingsályktunartillögu fylgir. Segja má að kjarni þeirra felist almennt í þessum orðum í niðurstöðukafla skýrslunnar:
    „Nefndin er sammála um að æskilegt sé að samskipti Íslands við Evrópusambandið verði aukin á ýmsum sviðum og er víða að finna ábendingar þess efnis í skýrslu nefndarinnar. Þar má nefna að Íslendingar taka þegar virkan þátt í tæplega 200 nefndum og sérfræðingahópum framkvæmdastjórnar ESB en full ástæða er til að efla þá þátttöku og nýta með því enn frekar þau tækifæri sem gefast til að hafa áhrif á stefnumótun sambandsins í þessum efnum. Þá telur nefndin miklu skipta að fylgjast náið með því, hvernig samstarf Evrópusambandsríkjanna þróast á sviði utanríkis- og öryggismála.
    Í stuttu máli telur nefndin nauðsynlegt að Ísland leggi áherslu á aukna þátttöku stjórnmálamanna og embættismanna í hagsmunagæslu tengdu Evrópusamstarfi, með það að markmiði að auka áhrif Íslands á mótun og töku ákvarðana á þessum vettvangi“.

Tillögur utanríkismálanefndar Alþingis.
    Hinn 8. október árið 2008 skilaði utanríkismálanefnd Alþingis ítarlegri skýrslu um þinglega meðferð EES-mála. Þar var einnig tekið á ýmsum þeim málum sem snerta almennt samskipti okkar við Evrópusambandið. Með skýrslunni brást nefndin við beiðni forseta Alþingis frá 13. febrúar 2008 um að hún mótaði tillögur á þessu sviði. Var beiðni þingforseta send í framhaldi af fundi formanns utanríkismálanefndar og formanns Íslandsdeildar þingmannanefndar EFTA með forsætisnefnd Alþingis 16. nóvember 2007. Helstu tillögur nefndarinnar voru eftirfarandi:
     1.      Upplýsingagjöf til Alþingis og samráð stjórnvalda við utanríkismálanefnd um EES-mál á tillögu- og mótunarstigi verði aukin og formfest.
     2.      Upplýsingagjöf til Alþingis og reglulegt samráð stjórnvalda við utanríkismálanefnd fyrir fundi sameiginlegu EES-nefndarinnar, þar sem ákvarðanir eru teknar um hvaða ESB- gerðir skulu teknar upp í EES-samninginn, verði gert að skilyrði.
     3.      Utanríkisráðherra, eða aðrir fagráðherrar eftir atvikum, komi á fundi utanríkismálanefndar þegar til umfjöllunar eru EES-mál á tillögu- og mótunarstigi.
     4.      Utanríkisráðherra, eða aðrir fagráðherrar eftir atvikum, komi á fundi utanríkismálanefndar fyrir fundi sameiginlegu EES-nefndarinnar og þar sem utanríkismálanefnd veiti ráðherra leiðbeinandi tilmæli um afgreiðslu mála í sameiginlegu EES-nefndinni.
     5.      Aukin áhersla verði lögð á að meta fyrr hver áhrif EES-gerðar kunni að verða á íslensk lög og hagsmuni.
     6.      Settar verði skýrar og samræmdar reglur um hvernig EES-mál eru lögð formlega fyrir Alþingi, m.a. um að stjórnskipulegum fyrirvara á ákvörðunum sameiginlegu EES-nefndarinnar verði einungis aflétt með þingsályktun.
     7.      Sérstakri upplýsingasíðu um Evrópumál verði komið upp hjá Alþingi eða utanríkisráðuneytinu sem veitir yfirsýn yfir mál sem koma til umfjöllunar í sameiginlegu EES-nefndinni.
    Eins og nefndin bendir á enduróma þessar tillögur að hluta tillögur í skýrslu Evrópunefndar frá mars 2007. Enn fremur segir í niðurstöðum hennar: „Utanríkismálanefnd er meðvituð um þá auknu skuldbindingu í starfi sem tillögur hennar hafa í för með sér. Fjölga þarf fundum nefndarinnar þar sem við munu bætast fundir sem sérstaklega eru helgaðir EES-málum. Þá er ljóst að starfsskilyrði nefndarinnar og stuðning við hana innan skrifstofu Alþingis þarf að bæta. Nefndinni og einstökum nefndarmönnum þarf jafnframt að tryggja svigrúm til að fylgja eftir þeim málum sem pólitískur áhugi er á með milliliðalausum samskiptum við Evrópuþingið.“

Aukið vægi Evrópusamstarfs á grundvelli EES-samningsins.
    Af þessu má ráða að mikill samhljómur sé á meðal þingmanna um að auka beri vægi samvinnu okkar við Evrópusambandið á grundvelli EES-samningsins. Niðurstaðan er ótvírætt sú að það megi gera án aðildar að Evrópusambandinu og að áhrif Íslands við mótun og töku ákvarðana á þessum vettvangi megi efla.
    Því miður hefur þessum tillögum að allt of litlu leyti verið hrint í framkvæmd og segja má að með aðildarumsókninni að ESB árið 2009 hafi þær verið lagðar til hliðar. Brýnt er hins vegar að sú mikla vinna sem þverpólitísk nefnd, Evrópunefndin og utanríkismálanefnd hafa lagt af mörkum verði notuð í þeim tilgangi sem að framan er lýst.“



Fylgiskjal I.


Niðurstöður og tillögur nefndar um tengsl Íslands og Evrópusambandsins.


    Nefndin telur að samningurinn um Evrópska efnahagssvæðið (EES-samningurinn) hafi staðist tímans tönn og að hann sé sá grundvöllur sem samskipti Íslands og ESB byggjast á og rétt er að þróa áfram. Breytingar innan Evrópusambandsins, aukið vægi þings þess og fjölgun aðildarríkja hafa ekki hróflað við EES-samningnum. Íslensk stjórnvöld, Alþingi og ríkisstjórn, hafa hrundið ákvörðunum vegna aðildarinnar skipulega í framkvæmd og þær stofnanir, sem eiga að fylgjast með framkvæmd samningsins, Eftirlitsstofnun EFTA (ESA) og EFTA-dómstóllinn hafa orðið virkir þátttakendur í framkvæmdinni gagnvart Íslandi.
    Schengen-samstarfið verður sífellt viðameira. Innan Evrópusambandsins gætir þeirrar viðleitni, að samvinna ríkjanna á sviði laga og réttar verði ekki lengur á grundvelli þjóðréttarsamninga eins og nú er heldur flytjist undir fyrstu stoð sambandsins og þar með meirihlutaákvarðanir á vettvangi þess. Framkvæmd Schengen-samningsins hvílir efnislega á dóms- og kirkjumálaráðuneytinu og stofnunum þess. Nauðsynlegt er að fylgjast náið með laga- og stofnanaþróun á þessu sviði innan Evrópusambandsins.
    Það er mat nefndarinnar, að framkvæmd EES- og Schengen-samninganna hafi almennt gengið vel. Ágreiningsefni hafa verið leyst innan ramma samninganna, en það verður ekki gert án góðrar eftirfylgni. Þegar á heildina er litið telur nefndin, að vel hafi til tekist á vettvangi Alþingis og framkvæmdavaldsins að vinna að framgangi mála á grundvelli EES- og Schengen-samninganna og vel hefur tekist til við að gæta hagsmuna Íslands þegar litið er til þátttöku í nefndum, aðlagana og við stækkun EES 2004. Ráðuneytin og sendiráð Íslands í Brussel gegna lykilhlutverki við þessa hagsmunagæslu, en í sendiráðinu starfa ekki aðeins embættismenn úr utanríkisráðuneytinu heldur einnig frá öðrum ráðuneytum. Við framkvæmd Schengen-samningsins hvílir meginþunginn á dóms- og kirkjumálaráðuneytinu og starfsmönnum þess. Nefndin telur mikilvægt að tryggð verði öflug starfsemi á vegum ráðuneyta og sendiráðsins í Brussel og jafnframt lögð rækt við náið samstarf við starfsmenn EFTA, sem búa yfir mikilli þekkingu á öllum álitaefnum vegna framkvæmdar EES-samningsins. Í tillögum nefndarinnar felst síður en svo gagnrýni á hið góða starf, sem unnið hefur verið á þessum vettvangi á undanförnum árum, heldur ber að líta á þær, sem ábendingu um, hvert stefna skuli til að styrkja þessa hagsmunagæslu enn betur.
    Nefndin er sammála um að æskilegt sé að samskipti Íslands við Evrópusambandið verði aukin á ýmsum sviðum og er víða að finna ábendingar þess efnis í skýrslu nefndarinnar. Þar má nefna að Íslendingar taka þegar virkan þátt í tæplega 200 nefndum og sérfræðingahópum framkvæmdastjórnar ESB en full ástæða er til að efla þá þátttöku og nýta með því enn frekar þau tækifæri sem gefast til að hafa áhrif á stefnumótun sambandsins í þessum efnum. Þá telur nefndin miklu skipta að fylgjast náið með því, hvernig samstarf Evrópusambandsríkjanna þróast á sviði utanríkis- og öryggismála.
    Í stuttu máli telur nefndin nauðsynlegt að Ísland leggi áherslu á aukna þátttöku stjórnmálamanna og embættismanna í hagsmunagæslu tengdu Evrópusamstarfi, með það að markmiði að auka áhrif Íslands á mótun og töku ákvarðana á þessum vettvangi. Í því sambandi telur nefndin sérstaklega mikilvægt að hugað sé að eftirfarandi atriðum:

1. Tengsl stjórnmálamanna.
A. Ríkisstjórn.

1.    Á vettvangi Stjórnarráðsins er nauðsynlegt að samhæfa á öflugan hátt frumkvæði, hagsmunagæslu og eftirfylgni við framkvæmd EES-samningsins. Tryggð verði á einum stað í Stjórnarráðinu sýn yfir þróun samskiptanna við ESB og samræmd samvinna við einstök ráðuneyti við úrlausn mála.
2.    Ríkisstjórn gefi Alþingi árlega skýrslu um þróun EES- og Schengen mála, sem og um helstu stefnumál ríkisstjórnarinnar í samskiptum við Evrópusambandið.
3.    Ríkisstjórn kynni Alþingi tillögur framkvæmdastjórnar ESB um nýjar gerðir, helstu breytingartillögur ráðherraráðs og Evrópuþings, samþykktar gerðir, ESB-áætlanir, grænbækur, hvítbækur og önnur stefnumótandi skjöl svo fljótt sem unnt er.
4.    Lögð verði rík áhersla á að fylgjast með áhersluatriðum forysturíkis Evrópusambandsins hverju sinni og ræða við ráðherra eða embættismenn þess, ef meðal þeirra eru álitaefni, sem sérstaklega snerta hagsmuni Íslands.
5.    Ráðherrar og ráðuneyti haldi góðum tengslum við stjórnanda síns málaflokks innan framkvæmdastjórnar Evrópusambandsins og skrifstofu hans.

B. Alþingi.
1.    Kjörin verði Evrópunefnd á Alþingi, sem fylgist með tengslum Íslands og Evrópusambandsins, einkum framkvæmd EES-samningsins en einnig lagaþróun á vettvangi Schengen-samstarfsins.
2.    Alþingi eigi fulltrúa í sendiráði Íslands í Brussel, sem fylgist með framvindu mála í samskiptum þings Evrópusambandsins og framkvæmdastjórnar og miðli upplýsingum til Evrópunefndar og fastanefnda þingsins.
3.    Fastanefndir Alþingis eigi þess kost að fylgjast með þróun einstakra EES-gerða á sínu verksviði.
4.    Evrópunefnd Alþingis og fastanefndir fái reglulega lista yfir tillögur framkvæmdastjórnar ESB, sem síðar kunna að verða teknar upp í landsrétt sem lög eða stjórnvaldsreglugerðir.
5.    Þingflokkum sé gert kleift að rækta samskipti við systurþingflokka á Evrópuþinginu.

2. Tengsl embættismanna.
1.    Réttur til fundarsetu í nefndum og sérfræðingahópum framkvæmdastjórnar ESB sé nýttur sem best til gæslu íslenskra hagsmuna.
2.    Innan Stjórnarráðsins sé ferðasjóður til að auðvelda einstökum ráðuneytum á grundvelli rökstuddra umsókna að senda fulltrúa sína eða sérfræðinga til funda í Brussel. Þá verði einnig skapað fjárhagslegt svigrúm til að bregðast við útgjöldum, ef einstök mál krefjast sérstakrar athygli.
3.    Þá verði einnig skapað fjárhagslegt svigrúm til að bregðast við útgjöldum, ef einstök mál krefjast sérstakrar athygli.
4.    Starfsmenn ráðuneyta og opinberra stofnana fái aukin tækifæri til að starfa tímabundið hjá EFTA, ESA og EFTA-dómstólnum til að auka reynslu og þekkingu þeirra á ESB og EES- samstarfinu.
5.    Starfsmenn ráðuneyta og opinberra stofnana fái tækifæri til að starfa sem sérfræðingar á kostnað íslenska ríkisins hjá framkvæmdastjórn ESB, ef áhugi er fyrir slíku af hálfu framkvæmdastjórnarinnar.
6.    Tryggð sé virk þátttaka embættismanna og sérfræðinga í nefndum vegna Schengen-samstarfsins.

3. Samstarf innan EFTA.
    Nefndin telur miklu skipta, að lögð sé rækt við samstarf EFTA-ríkjanna við framkvæmd EES-samningsins. Á vettvangi EFTA er unnið að öflun upplýsinga og stuðlað að því að miðla þeim til þeirra, sem hlut eiga að máli, auk þess sem starfsmenn EFTA taka þátt í fjölda funda með fulltrúum ESB og fylgjast náið með því, sem er að gerast á vettvangi ESB. Er það mat nefndarinnar, að virk aðild Íslands að allri starfsemi EFTA sé mikilvægur liður í því að rækta góð tengsl við ESB.
    Á vegum EFTA starfa mikilvægar stofnanir, sem fylgjast með framkvæmd EES-samningsins, það er Eftirlitsstofnun EFTA (ESA) og EFTA-dómstóllinn. Í báðum þessum stofnunum eru Íslendingar í forystu og hefur að mati nefndarinnar tekist vel að skipa þessum stofnunum þann sess, sem þeim ber samkvæmt EES-samningnum.

4. Aukin upplýsingagjöf.
1.    Stofnaður verði gagnabanki á grundvelli upplýsinga frá ráðuneytum og EFTA um þátttöku Íslands í nefndum og sérfræðingahópum ESB.
2.    Birtur verði opinberlega rafrænn listi yfir nefndir og sérfræðingahópa ESB með aðild Íslands sem og aðrar nefndir og sérfræðingahópa ESB sem Ísland / EES/EFTA-ríkin hafa aðgang að.
3.    Árlega sé birt tölfræði um þátttöku Íslands í samstarfsáætlunum ESB með upplýsingum um þátttökugjald og styrki.
4.    Árlega sé birtur listi yfir lög og stjórnvaldsreglur, sem samþykkt eru eða settar á grundvelli aðildarinnar að EES- og Schengen-samningunum.
5.    Árlega sé birtur listi yfir fjölda gerða sem teknar hafa verið upp í EES-samninginn viðkomandi ár, tegundir þeirra (tilskipanir, reglugerðir o.s.frv.) og uppruna (þ.e. hvort þær komi frá framkvæmdastjórn, ráðherraráði eða ráðherraráði og Evrópuþingi).

5. Samstarf hagsmunaaðila.
    Víðtækt samstarf hefur þróast milli ýmissa hagsmunasamtaka á Evrópuvettvangi. Nefndin telur, að samvinna af þessu tagi sé til þess fallin að treysta tengslin við Evrópusambandið og stuðla að víðtækari umræðum en ella væri um þau málefni, sem snerta Ísland sérstaklega á hinum evrópska vettvangi.

6. Upplýsingagjöf til almennings.
    Nefndin telur mikilvægt að almenningur hafi tækifæri til að kynna sér þátttöku Íslands í Evrópusamstarfi og skýrt verði hver hafi ábyrgð á því innan Stjórnarráðsins að tryggja aðgengi almennings að slíkum upplýsingum.

7. Kennsla á sviði Evrópufræða.
    Eftir viðræður við fulltrúa íslenskra háskóla er nefndinni ljóst að á þeim vettvangi er mikill og vaxandi áhugi á Evrópufræðum. Fjöldi námskeiða í Evrópufræðum eru í boði innan háskólanna og sífellt fleiri námsmenn afla sér þekkingar á þessu sviði. Nefndin fagnar þessari þróun og telur hana nauðsynlega til að efla þekkingu á þátttöku Íslands í Evrópusamstarfi.
    Nefndin telur skynsamlegt fyrir ráðuneyti að gefa námsmönnum tækifæri til þess að kynnast Evrópusamstarfi á þeirra vegum, til dæmis með starfsnámi eða þátttöku í fundum í Brussel og við greiningu á einstökum viðfangsefnum á vettvangi Evrópusamstarfsins.

8. Schengen-samstarfið.
    Nefndin lítur á það sem mjög mikilvægan þátt í starfi sínu, að hafa kynnt sér rækilega þróun Schengen-samstarfsins og stofnanir, sem komið hafa til sögunnar vegna þess. Hvetur nefndin til virkrar þátttöku Íslands í þessu samstarfi, sem snýst í æ ríkara mæli um gæslu öryggis og samvinnu í því skyni að sporna við alþjóðlegri glæpastarfsemi.

Sjá nánar: www.forsaetisraduneyti.is/frettir/nr/2557



Fylgiskjal II.


Úr skýrslu utanríkismálanefndar um fyrirkomulag
á þinglegri meðferð EES-mála.


1. Inngangur.
    Með bréfi, dags. 13. febrúar 2008, óskaði forseti Alþingis eftir því við utanríkismálanefnd að hún mótaði tillögur um fyrirkomulag þinglegrar meðferðar EES-mála. Bréfið var sent í framhaldi af fundi formanns utanríkismálanefndar og formanns Íslandsdeildar þingmannanefndar EFTA með forsætisnefnd 16. nóvember 2007. Utanríkismálanefnd telur að brýnt sé að endurskoða skipulag og þinglega meðferð EES-mála á Alþingi. Of lítið samráð hefur verið haft við Alþingi um meðferð EES-mála hér á landi og því hefur þingið ekki komið með nægilega öflugum hætti að ákvarðanatökuferli innan EES. Í hnotskurn hafa eftirfarandi vankantar einkennt aðkomu Alþingis að EES-málum undanfarin ár:
    Gildandi reglum um þinglega meðferð EES-mála hefur ekki verið fylgt hin síðari ár.
    Nánast engin upplýsingagjöf hefur átt sér stað um mál á tillögu- og mótunarstigi um árabil.
    Fjölmargar ESB-gerðir, tilskipanir og reglugerðir, hafa verið teknar inn í EES-samninginn án þess að tryggt hafi verið að Alþingi væri fyrirfram upplýst um tilvist þeirra hjá framkvæmdastjórn Evrópusambandsins eða að til stæði að innleiða þær í EES-samninginn.
    Hlutverk Alþingis í framkvæmd EES-samningsins hefur minnkað með árunum og í ákveðnum tilvikum hefur afgreiðsla EES-mála á Alþingi nánast orðið að formsatriði.
    Í þessari skýrslu er farið yfir raunhæfar leiðir til úrbóta. Skýrslan hefur að geyma þrjá meginkafla: Fyrst er rakin þróun og umræða um þinglega meðferð EES-mála hérlendis, þá er tæpt á fyrirkomulagi þessara mála í Noregi og því næst koma athugasemdir og tillögur utanríkismálanefndar. Í lokaorðum er að finna samantekt tillagna nefndarinnar. Eftir vandlega skoðun telur utanríkismálanefnd nauðsynlegt að gera breytingar á reglum um þinglega meðferð EES-mála auk þess sem grípa þarf til aðgerða til að auka getu þingsins til að fjalla um Evrópumál. Tillögur nefndarinnar birtast í heild sinni á blaðsíðum 23–24 í þessari skýrslu en helstu áherslur eru þessar:
    Upplýsingagjöf til Alþingis og samráð stjórnvalda við utanríkismálanefnd um EES-mál á tillögu- og mótunarstigi verði aukið og formfest.
    Upplýsingagjöf til Alþingis og reglulegt samráð stjórnvalda við utanríkismálanefnd fyrir fundi sameiginlegu EES-nefndarinnar, þar sem ákvarðanir eru teknar um hvaða ESB-gerðir skulu teknar upp í EES-samninginn, verði gert að skilyrði.
    Utanríkisráðherra, eða aðrir fagráðherrar eftir atvikum, komi á fundi utanríkismálanefndar þegar til umfjöllunar eru EES-mál á tillögu- og mótunarstigi.
    Utanríkisráðherra, eða aðrir fagráðherrar eftir atvikum, komi á fundi utanríkismálanefndar fyrir fundi sameiginlegu EES-nefndarinnar og þar sem utanríkismálanefnd veiti ráðherra leiðbeinandi tilmæli um afgreiðslu mála í sameiginlegu EES-nefndinni.
    Aukin áhersla verði lögð á að meta fyrr hver áhrif EES-gerðar kunni að verða á íslensk lög og hagsmuni.
    Settar verði skýrar og samræmdar reglur um hvernig EES-mál eru lögð formlega fyrir Alþingi, m.a. um að stjórnskipulegum fyrirvara á ákvörðunum sameiginlegu EES-nefndarinnar verði einungis aflétt með þingsályktun.
    Sérstakri upplýsingasíðu um Evrópumál verði komið upp hjá Alþingi eða utanríkisráðuneytinu sem veitir yfirsýn yfir mál sem koma til umfjöllunar í sameiginlegu EES-nefndinni.
    Þessar áherslur enduróma að hluta tillögur í skýrslu Evrópunefndar frá mars 2007. Utanríkismálanefnd er meðvituð um þá auknu skuldbindingu í starfi sem tillögur hennar hafa í för með sér. Fjölga þarf fundum nefndarinnar þar sem við munu bætast fundir sem sérstaklega eru helgaðir EES-málum. Þá er ljóst að starfsskilyrði nefndarinnar og stuðning við hana innan skrifstofu Alþingis þarf að bæta. Nefndinni og einstökum nefndarmönnum þarf jafnframt að tryggja svigrúm til að fylgja eftir þeim málum sem pólitískur áhugi er á með milliliðalausum samskiptum við Evrópuþingið.