Aðrar útgáfur af skjalinu: PDF - Word Perfect. Ferill 99. máls.

Þingskjal 99  —  99. mál.Tillaga til þingsályktunar

um staðfestingu ákvörðunar sameiginlegu EES-nefndarinnar nr. 149/2012 um breytingu á XVIII. viðauka (Öryggi og hollustuhættir á vinnustöðum, vinnuréttur og jafnrétti kynjanna) við EES-samninginn.

(Lögð fyrir Alþingi á 141. löggjafarþingi 2012–2013.)
    Alþingi ályktar að heimila ríkisstjórninni að staðfesta fyrir Íslands hönd ákvörðun sameiginlegu EES-nefndarinnar nr. 149/2012, frá 15. júní 2012, um breytingu á XVIII. viðauka (Öryggi og hollustuhættir á vinnustöðum, vinnuréttur og jafnrétti kynjanna) við EES-samninginn frá 2. maí 1992, og fella inn í samninginn tilskipun Evrópuþingsins og ráðsins 2008/ 104/EB frá 19. nóvember 2008 um vinnu á vegum starfsmannaleigu.
    

Athugasemdir við þingsályktunartillögu þessa.


1. Inngangur.
    Með þingsályktunartillögu þessari er leitað heimildar Alþingis til staðfestingar á ákvörðun sameiginlegu EES-nefndarinnar nr. 149/2012, frá 15. júní 2012, um breytingu á XVIII. viðauka (Öryggi og hollustuhættir á vinnustöðum, vinnuréttur og jafnrétti kynjanna) við EES- samninginn frá 2. maí 1992, og fella inn í samninginn tilskipun Evrópuþingsins og ráðsins 2008/104/EB frá 19. nóvember 2008 um vinnu á vegum starfsmannaleigu.
    Tilskipun 2008/104/EB er ætlað að setja ramma um kjör og réttindi starfsmanna starfsmannaleigna um leið og tekið er tillit til þess að fyrirtæki þurfi ákveðinn sveigjanleika við ráðningu starfsfólks.
    Í tillögu þessari er gerð grein fyrir efni gerðarinnar sem hér um ræðir, en hún felur ekki í sér breytingar á þeim meginreglum sem í EES-samningnum felast. Ákvörðun sameiginlegu EES-nefndarinnar sem hér um ræðir er prentuð sem fylgiskjal með tillögu þessari ásamt gerðinni sjálfri.

2. Um stjórnskipulegan fyrirvara.
    Samkvæmt EES-samningnum skuldbinda ákvarðanir sameiginlegu EES-nefndarinnar aðildarríkin að þjóðarétti um leið og þær hafa verið teknar, nema eitthvert þeirra beiti heimild skv. 103. gr. EES-samningsins til að setja fyrirvara um að ákvörðun geti ekki orðið bindandi strax vegna stjórnskipulegra skilyrða heima fyrir. Viðkomandi aðildarríki hefur þá sex mánaða frest frá töku ákvörðunar í sameiginlegu nefndinni til að aflétta fyrirvaranum.
    Að því er Ísland varðar hefur stjórnskipulegur fyrirvari almennt einungis verið settur þegar innleiðing ákvörðunar kallar á lagabreytingar hér landi, en í því tilviki leiðir af 21. gr. stjórnarskrárinnar að afla ber samþykkis Alþingis áður en ákvörðun er staðfest. Slíkt samþykki getur Alþingi alltaf veitt samhliða viðeigandi lagabreytingu, en einnig hefur tíðkast að heimila stjórnvöldum að skuldbinda sig að þjóðarétti með þingsályktun áður en landsréttinum er með lögum breytt til samræmis við viðkomandi ákvörðun.
    Áðurnefnd 21. gr. stjórnarskrárinnar tekur til gerðar þjóðréttarsamninga en hún á augljóslega einnig við um þau tilvik þegar breytingar eru gerðar á slíkum samningum. Samkvæmt ákvæðinu er samþykki Alþingis áskilið ef samningur felur í sér afsal eða kvaðir á landi eða landhelgi eða ef hann horfir til breytinga á stjórnarhögum ríkisins. Síðarnefnda atriðið hefur verið túlkað svo að samþykki Alþingis sé áskilið ef gerð þjóðréttarsamnings kallar á lagabreytingar hér á landi.
    Umrædd ákvörðun sameiginlegu EES-nefndarinnar felur í sér breytingu á EES-samningnum en þar sem hún kallar á lagabreytingar hér á landi var hún tekin með stjórnskipulegum fyrirvara. Í samræmi við það sem að framan segir er óskað eftir samþykki Alþingis fyrir þeirri breytingu á EES-samningnum sem í ákvörðuninni felst.

3. Tilskipun Evrópuþingsins og ráðsins 2008/104/EB frá 19. nóvember 2008 um vinnu á vegum starfsmannaleigu.
    Tilskipuninni er ætlað að setja ramma um kjör og réttindi starfsmanna starfsmannaleigna um leið og tekið er tillit til þess að fyrirtæki þurfi ákveðinn sveigjanleika við ráðningu starfsfólks. Áhersla er lögð á að ráðningarkjör starfsmanna starfsmannaleigna skuli ekki vera lakari en þeirra starfsmanna sem ráðnir hafa verið beint til hlutaðeigandi notendafyrirtækja.
Tilskipunin kveður meðal annars á um að starfsmenn starfsmannaleigna skuli upplýstir tímanlega um störf sem losna innan fyrirtækisins á þeim tíma sem starfsmennirnir starfa fyrir fyrirtækið til að auka tækifæri þeirra til að öðlast ótímabundna ráðningu. Starfsmannaleigu er óheimilt að krefja starfsmenn um greiðslu fyrir að útvega þeim atvinnu hjá notandafyrirtækinu eða fyrir að gera ráðningarsamning eða stofna til ráðningarsambands við notandafyrirtækið eftir að starfsmannaleigan hefur tekið að sér verkefni í því fyrirtæki. Þá gerir tilskipunin um starfsmannaleigur ráð fyrir því að á þeim tíma er starfsmaður starfsmannaleigu sinnir störfum fyrir notendafyrirtæki skuli veita honum sama aðgang að hvers konar aðbúnaði og sameiginlegri aðstöðu sem starfsmenn viðkomandi notendafyrirtækis njóta, svo sem mötuneyti og samgöngum, nema gild rök leiði til annarrar meðferðar vegna hlutlægra þátta. Enn fremur skulu aðildarríkin sjá til þess að gerð verði ógild, eða hægt verði að gera ógild, öll ákvæði sem banna eða hindra að ráðningarsamband komist á milli notandafyrirtækisins og starfsmanns á vegum starfsmannaleigu eftir að verkefni hans hjá notendafyrirtækinu á vegum starfsmannaleigunnar lýkur.
    Tilskipunin kveður á um að bann eða takmarkanir á notkun vinnu á vegum starfsmannaleigu megi aðeins réttlæta með því að um almannahagsmuni sé að ræða, einkum til verndar hagsmunum starfsmanna á vegum starfsmannaleigu, eða kröfur um heilbrigði og öryggi á vinnustað sem og með skírskotun til þess að nauðsynlegt sé að tryggja að vinnumarkaðurinn starfi eðlilega. Aðildarríkin skulu endurskoða gildandi takmarkanir eða bönn við vinnu á vegum starfsmannaleigna, að höfðu samráði við aðila vinnumarkaðarins, í samræmi við innlenda löggjöf, kjarasamninga og venjur, til þess að ganga úr skugga um að þau hafi verið réttlætanleg.
    Samkvæmt tilskipuninni skulu aðildarríkin kveða á um viðeigandi ráðstafanir ef starfsmannaleigur eða notandafyrirtæki fara ekki að ákvæðum hennar. Einkum skulu þau tryggja að til staðar sé viðeigandi málsmeðferð svo að unnt sé að framfylgja þeim skyldum sem af tilskipuninni leiða. Þá skulu þau mæla fyrir um viðurlög við brotum gegn ákvæðum landslaga er lúta að framkvæmd tilskipunarinnar og gera allar nauðsynlegar ráðstafanir til að tryggja að þeim viðurlögum verði beitt.
    Í tilskipuninni er tekið fram að aðildarríkin hafi rétt til að setja lög eða stjórnsýslufyrirmæli sem eru launamönnum hagstæðari en kveðið er á um í tilskipuninni eða til að auðvelda eða heimila gerð kjarasamninga milli aðila vinnumarkaðarins sem eru launamönnum hagstæðari. Jafnframt að framkvæmd tilskipunarinnar skuli ekki fela í sér nægilegar ástæður til að réttlæta skerðingu almennrar vinnuverndar launamanna á þeim sviðum sem tilskipunin tekur til.

4. Lagabreytingar og hugsanleg áhrif hér á landi.
    Innleiðing tilskipunar 2008/104/EB hér á landi kallar á breytingar á lögum nr. 139/2005, um starfsmannaleigur. Fyrirhugað er að velferðarráðherra leggi fram lagafrumvarp á yfirstandandi löggjafarþingi til innleiðingar á ákvæðum tilskipunarinnar. Ekki er gert ráð fyrir að lagabreytingarnar muni hafa umtalsverðan kostnað í för með sér né stjórnsýslulegar afleiðingar hér á landi.
Fylgiskjal I.


ÁKVÖRÐUN SAMEIGINLEGU EES-NEFNDARINNAR nr. 149/2012

frá 13. júlí 2012

um breytingu á XVIII. viðauka (Öryggi og hollustuhættir á vinnustöðum, vinnuréttur og jafnrétti kynjanna) við EES-samninginn


SAMEIGINLEGA EES-NEFNDIN HEFUR TEKIÐ NEÐANGREINDA ÁKVÖRÐUN

með vísan til samningsins um Evrópska efnahagssvæðið, með áorðnum breytingum samkvæmt bókun um breytingu á samningnum um Evrópska efnahagssvæðið, er nefnist „samningurinn“ í því sem hér fer á eftir, einkum ákvæða 98. gr.,

og að teknu tilliti til eftirfarandi:

1)    XVIII. viðauka við samninginn var breytt með ákvörðun sameiginlegu EES-nefndarinnar nr. 84/2011 frá 1. júlí 2011 ( 1 ).

2)    Fella ber inn í samninginn tilskipun Evrópuþingsins og ráðsins 2008/104/EB frá 19. nóvember 2008 um vinnu á vegum starfsmannaleiga ( 2 ).

ÁKVÖRÐUNIN ER SVOHLJÓÐANDI:

1. gr.Eftirfarandi viðauki við samninginn breytist sem hér segir:

1.            Eftirfarandi liður bætist við á eftir lið 32j (tilskipun ráðsins 2009/13/EB) í XVIII. viðauka samningsins:

„32k     32008 L 0104 Tilskipun Evrópuþingsins og ráðsins 2008/104/EB frá 19. nóvember 2008 um vinnu á vegum starfsmannaleiga (Stjtíð. ESB L 327, 5.12.2008, bls. 9).“

2. gr.Íslenskur og norskur texti tilskipunar 2009/31, sem verður birtur í EES-viðbæti við Stjórnartíðindi Evrópusambandsins, telst fullgiltur.

3. gr.


Ákvörðun þessi öðlast gildi 1. janúar 2013, að því tilskildu að allar tilkynningar samkvæmt 1. mgr. 103. gr. samningsins hafi borist sameiginlegu EES-nefndinni. ( * ).

4. gr.


Ákvörðun þessi skal birt í EES-deild Stjórnartíðinda Evrópusambandsins og EES-viðbæti við þau.

Gjört í Brussel 13. júlí 2012.

Fyrir hönd sameiginlegu EES-nefndarinnar

Gianluca Grippa

starfandi formaður.Fylgiskjal II.


TILSKIPUN EVRÓPUÞINGSINS OG RÁÐSINS 2008/104/EB
frá 19. nóvember 2008
um vinnu á vegum starfsmannaleigu
(Texti sem varðar EES)


EVRÓPUÞINGIÐ OG RÁÐ EVRÓPUSAMBANDSINS HAFA,
með hliðsjón af stofnsáttmála Evrópubandalagsins, einkum 2. mgr. 137. gr.,
með hliðsjón af tillögu framkvæmdastjórnarinnar,
með hliðsjón af áliti efnahags- og félagsmálanefndar Evrópubandalaganna ( 1 ),
að höfðu samráði við svæðanefndina,
í samræmi við málsmeðferðina sem mælt er fyrir um í 251. gr. sáttmálans ( 2 ),
og að teknu tilliti til eftirfarandi:
1)        Í þessari tilskipun eru grundvallarréttindi virt og þeim meginreglum fylgt sem eru viðurkenndar í sáttmála Evrópusambandsins um grundvallarréttindi ( 3 ). Einkum er henni ætlað að tryggja að farið sé að öllu leyti að þeim reglum, sem eru settar fram í 31. gr. sáttmálans, þar sem kveðið er á um að sérhver launamaður eigi rétt til heilsusamlegra, öruggra og sómasamlegra vinnuskilyrða, og takmörkunar á hámarksvinnutíma, til daglegs og vikulegs hvíldartíma og til að taka sér árlega launað orlof.
2)         Í 7. lið stofnskrár Bandalagsins um félagsleg grundvallarréttindi launþega er m.a. kveðið á um að tilkoma innri markaðarins verði að leiða til bættra lífskjara og vinnuskilyrða launafólks í Evrópubandalaginu; þetta næst með því að samhæfa þessi skilyrði, eftir því sem þeim miðar áfram, einkum með tilliti til mismunandi vinnu, s.s. í formi tímabundinna ráðninga, hlutastarfa, vinnu á vegum starfsmannaleigu og árstíðabundinna starfa.
3)        Hinn 27. september 1995 hafði framkvæmdastjórnin samráð við aðila vinnumarkaðarins á vettvangi Bandalagsins, í samræmi við 2. mgr. 138. gr. sáttmálans, um hugsanlegar aðgerðir sem samþykktar verða á vettvangi Bandalagsins að því er varðar sveigjanlegan vinnutíma og starfsöryggi launafólks.
4)        Að þessu samráði loknu áleit framkvæmdastjórnin rétt að Bandalagið gripi til aðgerða og hafði 9. apríl 1996 aftur samráð við aðila vinnumarkaðarins, í samræmi við 3. mgr. 138. gr. sáttmálans, um efni fyrirhugaðrar tillögu.
5)        Í innganginum að rammasamningnum um tímabundna ráðningu, sem var gerður 18. mars 1999, greindu undirritunaraðilarnir frá þeirri fyrirætlan sinni að meta hvort þörf væri fyrir áþekkan samning um vinnu á vegum starfsmannaleigu og ákváðu að fella ekki starfsmenn á vegum starfsmannaleigu inn í tilskipunina um tímabundna ráðningu.
6)        Almenn heildarsamtök atvinnugreinanna, þ.e.a.s. Samtök evrópskra iðn- og atvinnurekenda (UNICE) ( 4 ), Evrópusamtök fyrirtækja með opinberri eignaraðild (CEEP) og Evrópusamband verkalýðsfélaga (ETUC), greindu framkvæmdastjórninni frá því í sameiginlegu bréfi frá 29. maí 2000 að þau óskuðu þess að hefja ferlið sem kveðið er á um í 139. gr. sáttmálans. Í öðru sameiginlegu bréfi frá 28. febrúar 2001 fóru þau þess á leit við framkvæmdastjórnina að hún framlengdi tímabilið, sem um getur í 4. mgr. 138. gr., um einn mánuð. Framkvæmdastjórnin samþykkti þessa ósk og framlengdi tímabilið fyrir samningaviðræðurnar til 15. mars 2001.
7)        Hinn 21. maí 2001 viðurkenndu aðilar vinnumarkaðarins að samningaviðræður þeirra um vinnu á vegum starfsmannaleigu hefðu ekki leitt til samkomulags.
8)        Í mars 2005 taldi leiðtogaráðið brýnt að hleypa nýju lífi í Lissabon-áætlunina og láta vöxt og atvinnumál aftur hafa forgang. Ráðið samþykkti samþættu viðmiðunarreglurnar um vöxt og atvinnumál 2005–2008, þar sem m.a. er lögð áhersla á að auka sveigjanleika með atvinnuöryggi og að draga úr lagskiptingu vinnumarkaðarins, auk þess að taka fullt tillit til hlutverks aðila vinnumarkaðarins.
9)        Í samræmi við orðsendingu framkvæmdastjórnarinnar um framkvæmdaáætlun um félagsmál fyrir tímabilið fram til 2010, sem leiðtogaráðið fagnaði í mars 2005 sem framlagi til þess að ná markmiðum Lissabon-áætlunarinnar, með því að styrkja hið evrópska félagslega kerfi, taldi leiðtogaráðið að nýjar aðferðir við vinnuskipulag og meiri breidd í samningsbundnu fyrirkomulagi fyrir starfsmenn og fyrirtæki, með auknum sveigjanleika með öryggi, myndi stuðla að aðlögunarhæfni. Í desember 2007 staðfesti leiðtogaráðið auk þess sameiginlegu grundvallarreglurnar um sveigjanleika með öryggi (e. flexicurity) sem samþykktar höfðu verið til að koma á jafnvægi milli sveigjanleika og öryggis á vinnumarkaðinum og gera starfsmönnum jafnt sem vinnuveitendum kleift að grípa þau tækifæri sem hnattvæðingin skapar.
10)        Innan Evrópusambandsins er töluverður munur á því að nota vinnu á vegum starfsmannaleigu og því lagaumhverfi, stöðu og starfsumhverfi sem starfsmenn á vegum starfsmannaleiga búa við.
11)        Vinna á vegum starfsmannaleigu mætir ekki aðeins þörfum fyrirtækis fyrir sveigjanleika heldur einnig þörfum starfsmanna til þess að samræma atvinnu sína og einkalíf. Þannig leiðir hún til atvinnusköpunar og þess að menn taka þátt í og aðlagast vinnumarkaðinum.
12)        Tilskipun þessi skapar ramma til verndar starfsmönnum á vegum starfsmannaleigu sem er án mismununar, gagnsær og hóflegur, jafnframt sem hann tekur tillit til fjölbreytileika vinnumarkaðarins og samskipta aðila vinnumarkaðarins.
13)        Í tilskipun ráðsins 91/383/EBE frá 25. júní 1991 til viðbótar ráðstöfunum til að bæta öryggi og hollustuhætti starfsmanna í afleysingarstarfi eða tímabundnu starfi ( 1 ) er kveðið á um þau öryggis- og heilbrigðisákvæði sem gilda um starfsmenn á vegum starfsmannaleigu.
14)        Þau grundvallar vinnu- og ráðningarskilyrði sem gilda um starfsmenn á vegum starfsmannaleigu skulu vera a.m.k. jöfn þeim sem myndu gilda um þessa starfsmenn ef notandafyrirtækið réði þá til sömu starfa.
15)        Ótímabundnir ráðningarsamningar er hið almenna form á ráðningarsambandi. Ef um er að ræða starfsmenn sem eru með ótímabundinn ráðningarsamning við starfsmannaleigu sína, og að teknu tilliti þeirrar sérstöku verndar sem slíkur samningur veitir, skal gera ráð fyrir því að heimila undanþágur frá þeim reglum sem gilda um notandafyrirtækið.
16)        Til þess að geta tekist á við fjölbreytileika vinnumarkaðarins og samskipti aðila vinnumarkaðarins á sveigjanlegan hátt, geta aðildarríkin heimilað aðilum vinnumarkaðarins að skilgreina vinnu- og ráðningarskilyrði, en þó því aðeins að tekið sé tillit til almennrar vinnuverndar starfsmanna á vegum starfsmannaleiga.
17)        Við tilteknar, takmarkaðar aðstæður skulu aðildarríkin auk þess geta, á grundvelli samkomulags sem aðilar vinnumarkaðarins gera sín á milli á landsvísu, heimilað undanþágur innan þeirra marka sem meginreglan um jafna meðferð leyfir, svo framarlega sem fullnægjandi vernd er veitt.
18)        Endurbótum á lágmarksvernd starfsmanna á vegum starfsmannaleigu skal fylgja eftir með endurskoðun á hvers konar takmörkunum og bönnum sem kunna að hafa verið sett um vinnu starfsmannaleigu. Þau má eingöngu réttlæta með skírskotun til almannahagsmuna, einkum til verndar launafólki, til krafna um öryggi og heilbrigði á vinnustað og til þeirrar nauðsynjar að vinnumarkaðurinn starfi eðlilega og að komið sé í veg fyrir misnotkun.
19)        Þessi tilskipun hefur ekki áhrif á sjálfstæði aðila vinnumarkaðarins né skal hún hafa áhrif á samskipti þeirra, þ.m.t. samningsréttur þeirra og réttur til að gera kjarasamninga á grundvelli landslaga og venja en virða jafnframt gildandi lög Bandalagsins.
20)        Ákvæði þessarar tilskipunar um takmarkanir eða bönn við vinnu á vegum starfsmannaleigu eru með fyrirvara um innlenda löggjöf og venjur sem banna að starfsmenn á vegum starfsmannaleigu séu fengnir í stað starfsmanna sem eru í verkfalli.
21)        Aðildarríkin skulu kveða á um málsmeðferðarreglur stjórnsýslu og dómstóla til að standa vörð um réttindi starfsmanna á vegum starfsmannaleigu og skulu kveða á um viðurlög við brotum gegn skuldbindingum sem mælt er fyrir um í þessari tilskipun, sem eru skilvirk, í réttu hlutfalli við brotið og letjandi.
22)        Þessari tilskipun skal hrinda í framkvæmd í samræmi við ákvæði sáttmálans um frelsi til að veita þjónustu og staðfesturétt og án þess að hafa áhrif á tilskipun Evrópuþingsins og ráðsins 96/71/EB frá 16. desember 1996 um störf útsendra starfsmanna í tengslum við veitingu þjónustu ( 1 ).
23)        Þar eð aðildarríkin geta ekki fyllilega náð markmiði þessarar tilskipunar, sem er að koma á samræmdum ramma á vettvangi Bandalagsins til verndar starfsfólki á vegum starfsmannaleigu og því verður þess vegna betur náð á vettvangi Bandalagsins, vegna þess hve aðgerðirnar eru umfangsmiklar eða hafa víðtæk áhrif, með því að innleiða lágmarkskröfur sem gilda skulu alls staðar í Bandalaginu, er Bandalaginu heimilt að samþykkja ráðstafanir í samræmi við dreifræðisregluna eins og kveðið er á um í 5. gr. sáttmálans. Í samræmi við meðalhófsregluna, eins og hún er sett fram í þeirri grein, er ekki gengið lengra en nauðsyn krefur í þessari tilskipun til að ná þessu markmiði.
SAMÞYKKT TILSKIPUN ÞESSA:

I. KAFLI
ALMENN ÁKVÆÐI
1. gr.
Gildissvið

1.     Þessi tilskipun gildir um starfsmenn sem eru með ráðningarsamning eða hafa stofnað til ráðningarsambands við starfsmannaleigu og hafa verið sendir til notandafyrirtækis, til tímabundinna starfa þar undir eftirliti þess og stjórn.
2.     Þessi tilskipun gildir um opinber fyrirtæki og einkafyrirtæki sem stunda starfsmannaleigu eða notandafyrirtæki sem stunda atvinnustarfsemi hvort sem það er í hagnaðarskyni eða ekki.
3.     Aðildarríkin geta, að höfðu samráði við aðila vinnumarkaðarins, ákveðið að þessi tilskipun gildi ekki um ráðningarsamninga eða ráðningarsamband sem stofnað er til samkvæmt sérstakri áætlun á vegum hins opinbera, eða sem nýtur stuðnings hins opinbera, um starfsþjálfun, aðlögun eða endurmenntun.

2. gr.

Markmið

Markmið þessarar tilskipunar er að tryggja verndun starfsmanna á vegum starfsmannaleigu og að auka gæði vinnu á vegum starfsmannaleigu með því sjá til þess að meginreglunni um jafna meðferð, eins og henni er lýst í 5. gr., sé beitt gagnvart starfsmönnum á vegum starfsmannaleigu og með því að viðurkenna starfsmannaleigur sem vinnuveitendur, en taka jafnframt tillit til þess að nauðsynlegt er að setja ramma sem hentar notkun á vinnu á vegum starfsmannaleigu í því augnamiði að stuðla á skilvirkan hátt að atvinnusköpun og að þróa sveigjanlega vinnumöguleika.

3. gr.

Skilgreiningar

1.     Í þessari tilskipun er merking eftirfarandi hugtaka sem hér segir:
a)    „starfsmaður“: hver sá einstaklingur sem nýtur verndar sem launamaður í hlutaðeigandi aðildarríki samkvæmt innlendri vinnulöggjöf,
b)    „starfsmannaleiga“: hver sá einstaklingur eða lögaðili sem, í samræmi við landslög, gerir ráðningarsamning eða stofnar til ráðningarsambands við starfsmenn á vegum starfsmannaleigu í því augnamiði að senda þá til tímabundinna starfa hjá notandafyrirtækjum undir eftirliti þeirra og stjórn,
c)    „starfsmaður á vegum starfsmannaleigu“: starfsmaður með ráðningarsamning eða sem hefur stofnað til ráðningarsambands við starfsmannaleigu sem ætlar að senda hann til notandafyrirtækis til tímabundinna starfa þar undir eftirliti þess og stjórn,
d)    „notandafyrirtæki“: hver sá einstaklingur eða lögaðili sem starfsmaður á vegum starfsmannaleigu er sendur til tímabundið til að starfa þar undir eftirliti þess og stjórn,
e)    „verkefni“: tímabilið sem starfsmaður á vegum starfsmannaleigu vinnur tímabundið starf fyrir notandafyrirtæki undir eftirliti þess og stjórn,
f)    „almenn vinnu- og ráðningarskilyrði“: þau vinnu- og ráðningarskilyrði sem mælt er fyrir um í lögum og stjórnsýslufyrirmælum, kjarasamningum og/eða öðrum almennum bindandi ákvæðum sem gilda um notandafyrirtækið og varða:
    i.    lengd vinnutíma, yfirvinnu, vinnuhlé, hvíldartíma, næturvinnu, orlofsdaga og lögboðna frídaga,
    ii.     laun.
2.     Tilskipun þessi gildir með fyrirvara um innlend lög að því er varðar skilgreiningu á launum, ráðningarsamningi eða ráðningarsambandi eða launamanni.
Aðildarríkin skulu ekki útiloka frá gildissviði þessa samnings starfsmenn, ráðningarsamninga eða ráðningarsambönd með þeim rökum einum að um sé að ræða starfsmenn í hlutastarfi, starfsmenn með tímabundna ráðningu eða einstaklinga með ráðningarsamning eða ráðningarsamband við starfsmannaleigu.

4. gr.

Endurskoðun á takmörkunum eða bönnum

1.     Bann eða takmarkanir á notkun vinnu á vegum starfsmannaleigu má aðeins réttlæta með því að um almannahagsmuni sé að ræða, einkum til að vernda hagsmuni starfsmanna á vegum starfsmannaleigu, kröfur um heilbrigði og öryggi á vinnustað eða með skírskotun til þess að nauðsynlegt sé að tryggja að vinnumarkaðurinn starfi eðlilega og að komið sé í veg fyrir misnotkun.
2.     Eigi síðar en 5. desember 2011 skulu aðildarríkin, að höfðu samráði við aðila vinnumarkaðarins í samræmi við innlenda löggjöf, kjarasamninga og venjur, endurskoða allar takmarkanir eða bönn við á notkun vinnu á vegum starfsmannaleigu til þess að ganga úr skugga um að þau hafi verið réttlætanleg af þeim ástæðum sem um getur í 1. mgr.
3.     Hafi verið mælt fyrir um slíkar takmarkanir eða bönn í kjarasamningum getur endurskoðunin, sem um getur í 2. mgr., verið framkvæmd af þeim aðilum vinnumarkaðarins sem gerðu umrætt samkomulag.
4.     Ákvæði 1., 2. og 3. mgr. skulu ekki hafa áhrif á innlend skilyrði að því er varðar skráningu, leyfisveitingu, útgáfu atvinnuskírteinis, fjárhagslega tryggingu eða eftirlit með starfsmannaleigum.
5.     Aðildarríkin skulu kynna framkvæmdastjórninni niðurstöður endurskoðunarinnar, sem um getur í 2. og 3. mgr., fyrir 5. desember 2011.

II. KAFLI
RÁÐNINGAR- OG VINNUSKILYRÐI
5. gr.
Meginreglan um jafna meðferð

1.     Almenn vinnu- og ráðningarskilyrði starfsmanna á vegum starfsmannaleigu þann tíma sem þeir vinna verkefni fyrir notandafyrirtæki, skulu a.m.k vera sambærileg þeim sem hefðu boðist ef það fyrirtæki hefði ráðið þá milliliðalaust til sömu starfa.
Að því er varðar beitingu fyrstu undirgreinar, þá verða þær reglur í notandafyrirtækinu um:
a)    vernd þungaðra kvenna og mæður með börn á brjósti og vernd barna og ungmenna og
b)    jafna meðferð karla og kvenna og allar aðgerðir er miða að því að berjast gegn mismunun á grundvelli kyns, kynþáttar eða þjóðernis, trúar, skoðana, fötlunar, aldurs eða kynhneigðar,
að vera virtar eins og kveðið er á um í lögum og stjórnsýslufyrirmæli, kjarasamningum og/eða öðrum almennum ákvæðum.
2.     Hvað launakjör varðar er aðildarríkjunum heimilt, að höfðu samráði við aðila vinnumarkaðarins, að veita undanþágu frá meginreglunni, sem sett er fram í 1. mgr., ef starfsmenn á vegum starfsmannaleigu sem eru með fastan ráðningarsamning við starfsmannaleigu, fá áfram greidd laun á milli verkefna.
3.     Aðildarríkjunum er heimilt, að höfðu samráði við aðila vinnumarkaðarins, að gefa þeim, á viðeigandi stigi og með fyrirvara um þau skilyrði, sem aðildarríkin mæla fyrir um, kost á þeim möguleika að halda áfram kjarasamningum eða gera kjarasamninga sem, jafnframt því að virða hina almennu vernd starfsmanna á vegum starfsmannaleigu, geta komið á tilhögun varðandi vinnu- og ráðningarskilyrði fyrir starfsmenn á vegum starfsmannaleigu sem kunna að vera önnur en þau sem um getur í 1. mgr.
4.     Að því tilskildu að starfsmönnum á vegum starfsmannaleigu sé veitt fullnægjandi vernd þá er aðildarríkjum, þar sem annaðhvort ekkert lagaumhverfi er fyrir hendi til þess að lýsa því yfir að kjarasamningar gildi alls staðar eða ekkert lagaumhverfi eða venja til þess að útvíkka ákvæði þeirra til allra áþekkra fyrirtækja í tiltekinni atvinnugrein eða afmörkuðu landsvæði, heimilt, að höfðu samráði við aðila vinnumarkaðarins á landsvísu og á grundvelli samninga sem þeir hafa gert, að koma á tilhögun varðandi vinnu- og ráðningarskilyrði þar sem vikið er frá meginreglunni sem um getur í 1. mgr. Slík tilhögun getur tekið til þess frests sem veittur er til þess að ná fram jafnri meðferð.
Sú tilhögun sem um getur í þessari málsgrein skal vera í samræmi við löggjöf Bandalagsins og vera nægilega nákvæm og aðgengileg til þess að viðkomandi atvinnugreinar og fyrirtæki geti greint og kynnt sér hana og uppfyllt skyldur sínar. Einkum skulu aðildarríkin tilgreina, við beitingu 2. mgr. 3. gr., hvort almannatryggingakerfi einstakra starfsgreina, þ.m.t. lífeyrir, laun í veikindum eða kerfi um fjárhagslega þátttöku séu hluti af hinum almennu vinnu- og ráðningarskilyrðum sem tilgreind eru í 1. mgr. Slík tilhögun skal heldur ekki hafa áhrif á samninga á landsvísu, svæðisbundna, staðbundna eða atvinnugreinabundna samninga enda séu þeir ekki síður hagstæðir launafólki.
5.     Aðildarríkin skulu gera viðeigandi ráðstafanir í samræmi við innlend lög og/eða venju, í því augnamiði að koma í veg fyrir misbeitingu á beitingu þessarar greinar, einkum til að koma í veg fyrir að verkefnum sé raðað hvert á eftir öðru til þess að fara á svig við ákvæði þessarar tilskipunar. Þau skulu tilkynna framkvæmdastjórninni um allar slíkar ráðstafanir.

6. gr.

Aðgangur að störfum, sameiginlegri aðstöðu og starfsþjálfun

1.     Starfsmenn á vegum starfsmannaleigu skal upplýsa um laus störf hjá notandafyrirtækinu þannig að þeim gefist sama tækifæri og öðrum starfsmönnum þess fyrirtækis til þess að verða fastráðið. Slíkum upplýsingum má koma á framfæri með almennri auglýsingu á hentugum stað í fyrirtækinu sem starfsmenn á vegum starfsmannaleigu eru ráðnir til starfa fyrir og sem þeim er stjórnað af.
2.     Aðildarríkin skulu grípa til allra nauðsynlegra aðgerða til þess að tryggja að öll ákvæði sem banna eða hafa þau áhrif að hindra að ráðningarsamningur eða ráðningarsamband komist á milli notandafyrirtækisins og starfsmanns á vegum starfsmannaleigu eftir að verkefni hans lýkur séu gerð ógild eða að hægt sé að lýsa þau ógild.
Þessi málsgrein hefur ekki áhrif á ákvæði um að starfsmannaleiga skuli fá hæfilega þóknun fyrir þá þjónustu sem það veitti notandafyrirtækinu að því er varðar verkefni, ráðningu og þjálfun starfsmanna á vegum starfsmannaleigu.
3.     Starfsmannaleigur skulu ekki krefja starfsmenn um neina greiðslu fyrir að útvega þeim atvinnu hjá notandafyrirtækinu, eða fyrir að gera ráðningarsamning eða stofna til ráðningarsambands við notandafyrirtækið eftir að hafa tekið að sér verkefni í því fyrirtæki.
4.     Með fyrirvara um 1. mgr. 5. gr. skal starfsmönnum á vegum starfsmannaleigu veittur aðgangur að hvers konar búnaði eða sameiginlegri aðstöðu í notandafyrirtækinu, einkum að mötuneytum, dagvistun barna og flutningaþjónustu, með sömu skilmálum og þeir starfsmenn sem fyrirtækið hefur ráðið milliliðalaust, nema ef hægt er réttlæta ólíka meðferð á hlutlægan hátt.
5.     Aðildarríkin skulu grípa til allra viðeigandi ráðstafana eða stuðla að skoðanaskiptum milli aðila vinnumarkaðarins, í samræmi við innlendar hefðir sínar og venjur, til þess að:
a)    bæta aðgang starfsmanna á vegum starfsmannaleigu að starfsþjálfun og dagvistun barna í starfsmannaleigunum, jafnvel á meðan þeir eru staddir milli verkefna, til þess að styrkja starfsframa þeirra og ráðningarhæfi,
b)    bæta aðgang starfsmanna á vegum starfsmannaleigu að starfsþjálfun fyrir starfsmenn notandafyrirtækisins.

7. gr.

Fyrirsvar fyrir starfsmenn starfsmannaleigu

1.     Starfsmenn á vegum starfsmannaleigu skulu, samkvæmt þeim skilyrðum sem aðildarríkin hafa sett, taldir með við útreikning á þeim fjölda starfsmanna sem er til viðmiðunar fyrir myndun hagsmunasamtaka starfsmanna í starfsmannaleigunni samkvæmt lögum Bandalagsins og landslögum sem og kjarasamningum.
2.     Aðildarríkjunum er heimilt að kveða á um, samkvæmt þeim skilyrðum sem þau setja, að starfsmenn á vegum starfsmannaleigu séu taldir með við útreikning á þeim fjölda starfsmanna sem er til viðmiðunar fyrir myndun hagsmunasamtaka starfsmanna í notandafyrirtækinu samkvæmt lögum Bandalagsins og landslögum sem og kjarasamningum á sama hátt og notandafyrirtækið hefði ráðið þá milliliðalaust fyrir sama tímabil.
3.     Þau aðildarríki sem nýta þann möguleika sem boðið er upp á í 2. mgr. skulu vera undanþegin þeirri kvöð að framkvæma ákvæði 1. mgr.

8. gr.

Upplýsingar um fulltrúa starfsmanna

Án þess að það hafi áhrif á innlend ákvæði eða ákvæði Bandalagsins um upplýsingar og samráð sem eru strangari og/eða nákvæmari, einkum, tilskipun Evrópuþingsins og ráðsins 2002/14/EB frá 11. mars 2002 um almennan ramma um upplýsingamiðlun til launamanna og samráð við þá innan Evrópubandalagsins ( 1 ) skal notandafyrirtækið láta í té viðeigandi upplýsingar um notkun þess á starfsmönnum á vegum starfsmannaleigu þegar það lætur hagsmunasamtökum starfsmanna, sem stofnuð hafa verið í samræmi við innlend lög og löggjöf Bandalagsins, í té upplýsingar um atvinnustöðuna í því fyrirtæki.

III. KAFLI
LOKAÁKVÆÐI
9. gr.
Lágmarkskröfur

1.     Tilskipun þessi hefur ekki áhrif á rétt aðildarríkjanna til að beita eða innleiða lög eða stjórnsýslufyrirmæli sem eru launamönnum hagstæðari eða til að auðvelda eða heimila gerð kjarasamninga milli aðila vinnumarkaðarins sem eru launamönnum hagstæðari.
2.     Framkvæmd þessarar tilskipunar skal ekki við neinar aðstæður fela í sér nægilegar ástæður til að réttlæta skerðingu almennrar vinnuverndar launamanna á þeim sviðum sem þessi tilskipun tekur til. Þetta skal þó ekki hafa áhrif á rétt aðildarríkjanna og/eða aðila vinnumarkaðarins til að setja, með tilliti til breyttra aðstæðna, önnur laga-, eftirlits- eða samningsákvæði en þau sem gilda við samþykkt þessarar tilskipunar, að því tilskildu að þeim lágmarkskröfum, sem mælt er fyrir um í þessari tilskipun sé ætíð fullnægt.

10. gr.

Viðurlög

1.     Aðildarríkin skulu kveða á um viðeigandi ráðstafanir ef starfsmannaleigur eða notandafyrirtæki fara ekki að þessari tilskipun. Einkum skulu þau tryggja að til sé viðeigandi stjórnarfarsleg eða réttarfarsleg málsmeðferð svo að unnt sé að framfylgja þeim skyldum sem leiða af þessari tilskipun.
2.     Aðildarríkin skulu mæla fyrir um reglur um viðurlög við brotum gegn ákvæðum landslaga er lúta að framkvæmd þessarar tilskipunar og gera allar nauðsynlegar ráðstafanir til að tryggja að þeim sé beitt. Viðurlögin skulu vera skilvirk, í réttu hlutfalli við brotið og hafa letjandi áhrif. Aðildarríkin skulu tilkynna framkvæmdastjórninni um þessi ákvæði fyrir 5. desember 2011. Aðildarríkin skulu tilkynna framkvæmdastjórn Evrópusambandsins tímanlega um allar síðari breytingar á þessum ákvæðum. Einkum skulu þau sjá til þess að launamenn og/eða fulltrúar þeirra hafi nauðsynleg úrræði til þess að framfylgja þeim skuldbindingum sem þessi tilskipun hefur í för með sér.

11. gr.

Framkvæmd

1.     Aðildarríkin skulu samþykkja og birta nauðsynleg lög og stjórnsýslufyrirmæli til að fara að þessari tilskipun fyrir 5. desember 2011, eða sjá til þess að aðilar vinnumarkaðarins innleiði nauðsynleg ákvæði með samkomulagi þar sem aðildarríkin verða að gera allar nauðsynlegar ráðstafanir svo þau geti ætíð ábyrgst að markmiðum þessarar tilskipunar verði náð. Þau skulu tilkynna það framkvæmdastjórninni þegar í stað.
2.     Þegar aðildarríkin samþykkja þessar ráðstafanir, þá skal vera í þeim tilvísun í þessa tilskipun eða að þeim fylgja slík tilvísun þegar þær eru birtar opinberlega. Aðildarríkin skulu setja nánari reglur um slíka tilvísun.

12. gr.

Endurskoðun framkvæmdastjórnarinnar

Eigi síðar en 5. desember 2013 skal framkvæmdastjórnin, í samráði við aðildarríkin og aðila vinnumarkaðarins í Bandalaginu, endurskoða beitingu þessarar tilskipunar, með það að í huga að leggja til, eftir því sem við á, nauðsynlegar breytingar.

13. gr.

Gildistaka

Tilskipun þessi öðlast gildi á þeim degi sem hún birtist í Stjórnartíðindum Evrópusambandsins.

14. gr.

Viðtakendur

Tilskipun þessari er beint til aðildarríkjanna.


Gjört í Strassborg 19. nóvember 2008.
Fyrir hönd Evrópuþingsins, Fyrir hönd ráðsins,
H.-G. PÖTTERING J.-P. JOUYET
forseti. forseti.

___________________

Neðanmálsgrein: 1
(1)    Stjtíð. ESB L 262, 6.10.2011, bls. 56 og EES-viðbætir við Stjtíð. ESB nr. 54, 6.10.2011, bls. 70.
Neðanmálsgrein: 2
(2)    Stjtíð. ESB L 327, 5.12.2008, bls. 9.
Neðanmálsgrein: 3
(*)     Stjórnskipuleg skilyrði gefin til kynna.
Neðanmálsgrein: 4
(1)    Stjtíð. ESB C 61, 14.3.2003, bls. 124.
Neðanmálsgrein: 5
(2)    Álit Evrópuþingsins frá 21. nóvember 2002 (Stjtíð. ESB C 25 E, 29.1.2004, bls. 368), sameiginleg afstaða ráðsins frá 15. september 2008 og afstaða Evrópuþingsins frá 22. október 2008 (hefur enn ekki verið birt í Stjórnartíðindum ESB).
Neðanmálsgrein: 6
(3)    Stjtíð. ESB C 303, 14.12.2007, bls. 1.
Neðanmálsgrein: 7
(4)    UNICE breyttu nafni sínu í BUSINESSEUROPE í janúar 2007.
Neðanmálsgrein: 8
(1)    Stjtíð. EB L 206, 29.7.1991, bls. 19.
Neðanmálsgrein: 9
(1)    Stjtíð. EB L 18, 21.1.1997, bls. 1.
Neðanmálsgrein: 10
(1)    Stjtíð. EB L 80, 23.3.2002, bls. 29.